Posted on

Reklar – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Vorið er heldur betur komið á kreik á Íslandi, að minnsta kosti þegar maður lítur á plönturnar og laufskrúð þeirra. Eitthvað hefur láðst að láta vita af þessu hjá þeim sem stýra veðurfarinu því snjókoma, kuldi og almenn leiðindi hafa einkennt veðurfarið núna í þessum seinni hluta maímánaðar. Hið klassíska orðatiltæki að það hafi haustað óvenju snemma þetta vorið hefur verið á vörum margra og virðist nokkur alvara hafa fylgt því gamni. Enn er þó ekki kominn tími til að örvænta, stundum hafa mánuðirnir júní, júlí og ágúst verið hreint með ágætum og hitastig nokkuð yfir frostmarki þannig að full ástæða er til bjartsýni.

     Ýmsar plöntutegundir láta svona vorhret ekkert á sig fá og blómstra sínum blómum hvað sem tautar og raular. Margar þeirra eru yfirmáta skrautlegar og grípa augað með litadýrð sinni meðan blómgun annarra lætur minna yfir sér. Þær hófstilltari eru samt sem áður fullt eins fallegar, þótt fegurðin sé ekki eins æpandi við fyrstu sýn. Hér á ég við þær tegundir sem blómstra með blómskipunum sem kallaðar eru reklar. Innan þessa flokks má finna ættkvíslir bjarka, elris, víðis og aspa. Þetta eru upp til hópa harðgerðar tegundir sem kalla ekki allt ömmu sína. Þær blómstra á vorin um það leyti sem þær laufgast og eru reklar þeirra oft á tíðum mjög skrautlegir. Sérstaklega eru karlreklarnir áberandi og geta fræflarnir verið með frjóhnappa í mörgum litum. Sem dæmi má nefna karlrekla seljunnar, þeir eru skærgulir hnoðrar sem minna helst á páskaunga sem kúra á greinum seljunnar.

     Karlreklar alaskaaspar aftur á móti eru rauðir á litinn, fremur langir, hanga niður og minna mann á rauðan chilipipar við fyrstu sýn. Blómgun í vor hefur verið með ágætu móti og sumar karlaspir hreinlega verið þaktar þessum rauðu reklum. Þegar reklarnir hafa lokið hlutverki sínu, þ.e. að koma frjókornunum frá sér og leggja þannig sitt af mörkum til fjölgunar asparinnar, falla karlreklarnir af plöntunni. Kvenreklarnir aftur á móti taka við frjókornunum frá karlreklunum og er það ýmist vindurinn sem feykir frjókornunum á milli eða að plönturnar njóta aðstoðar iðinna býflugna. Eftir að frjóvgun á sér stað fitna kvenreklarnir og bólgna allir upp. Þegar fræið er þroskað opnast aldinin í kvenreklunum og fræið sleppur út. Aspar- og víðifræ er þakið örfínum snjóhvítum hárum þannig að fræið getur svifið langar leiðir. Stundum er talað um að það snjói á sumrin þegar þetta fræ svífur um loftin blá, fellur til jarðar og myndar mjúka hvíta breiðu á jörðinni.

     Birkitegundir og elri blómstra líka fallegum reklum á vorin. Karlreklar elris eru yfirleitt fagurgulir á litinn og geta orðið 10-15 cm langir. Þeir hanga niður af greinunum, tveir til þrír saman í hnapp og lífga mikið upp á umhverfið á vorin. Blómgunin er frekar áberandi vegna þess að hún á sér stað fyrir laufgunina. Þannig tryggir náttúran að frjókornin berist á sem auðveldastan hátt frá karlreklunum að kvenreklunum með vindinum, án þess að laufblöð séu mikið að hindra ferðalagið. Birkireklar eru ekki eins áberandi og elrireklarnir. Þeir eru brúnleitir og frekar smáir og til að dást að þeim þarf maður að ganga alveg upp að plöntunni og skoða þá í návígi.

     Návíginu fylgja ýmsir kostir, eins og til dæmis sá að fáar plöntur ilma jafn vel á vorin og birki, þegar nýútsprungin blöðin gefa frá sér þennan óviðjafnanlega ilm sem mann langar helst að geta tappað á flöskur og hnusað af á öðrum árstímum. Nú er bara að vona að veðrinu sloti og hægt sé að fara út að dást að plöntum.

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007)

Posted on

Garðyrkjuritið 2020 komið út

Garðyrkjuritið 2020 er komið út og hefur verið dreift til félagsmanna í Garðyrkjufélagi Íslands.

Ritið í ár er hið hundraðasta í röðinni en það hefur komið út með fáeinum hléum allt frá stofnun félagsins fyrir 135 árum. Ritið í ár er, eins og áður, stútfullt af forvitnilegu og fræðandi efni sem höfðar til bæði áhugafólks um gróður og garða sem og sérfræðinganna. Ritstjóri er Björk Þorleifsdóttir.

Meðal efnis má nefna grein um mælingu á kolefnisbindingu heimagarða á höfuðborgarsvæðinu sem færir okkur heim sanninn um að ræktun heima við hús skiptir umtalsverðu máli við bindingu kolefnis í jörðu. Sagt er frá áhrifamætti heilandi garða og heilsubót sem garðyrkjan hefur í för með sér og athyglisverða grein er einnig að finna um ilmjurtir í heimagörðum. Fjallað er um moltugerð, yglurnar í garðinum, aldingarða æskunnar og rósir af ýmsum toga og margvíslegum uppruna. Glæsilegar myndir eru af rósum ársins á Íslandi og hinum Norðurlöndunum og hægt er að læra að fjölga rósum með sumarstiklingum í fróðlegri grein Vilhjálms Lúðvíkssonar, formanns Rósaklúbbs GÍ.

Tómas Ponzi skrifar forvitnilega grein um ræktun harðgerra tómatayrkja, Guðríður Helgadóttir skrifar um kristilegar nafngiftir blóma, Hafsteinn Hafliðason er með grein um ræktun Kálfafellsrófunnar og fjölskylduna á Kálfafelli og mætti svo lengi telja.

Garðyrkjuritið er borið heim til félagsmanna GÍ á hverju vori – sem er enn eitt dæmið um kosti þess að vera félagi í Garðyrkjufélagi Íslands.

Posted on

Vorverk – Blóm vikunnar með Gurrý

Kantskurður Gurrý
Guðríður Helgadóttir

Sumardagurinn fyrsti er í næstu viku. Þessi siður að fagna sumri löngu áður en það lætur á sér kræla er örugglega til marks um óbilandi bjartsýni Íslendinga. Þetta reddast, sumarið er rétt handan við hornið. Tökum forskot á sæluna og höldum upp á það, svona löngu áður en snjóa leysir og lóan mætir á svæðið. Það er líka dæmigert fyrir þjóðarsálina sem vill framkvæma allt strax að sleppa millikaflanum, vorinu og vaða beint í sumarið. Ekkert hangs, drífa í hlutunum, hækka hitann í hvelli og fara að rækta eitthvað almennilegt, pota niður kartöflunum, planta kálinu og sumarblómunum og gróðursetja berjarunna fyrir hádegi.

Raunveruleikinn er hins vegar ekki alltaf svona. Við höfum upplifað vor sem hafa virst endalaus og svo skyndilega breyst í haust, án nokkurrar viðkomu í sumri. Við höfum líka upplifað sólrík og hlý sumur sem hafa vakið með okkur vonir um sólbrúnku og grósku í umhverfinu. Ísland er land fjölbreytileikans.

     Nú er sem sagt sumardagurinn fyrsti í næstu viku. Við fögnum sumrinu samkvæmt venju og tökum okkur hlé frá vinnunni. Það er þó mikilvægt að falla ekki í þá freistni að ætla sér að gera vorhreingerninguna í garðinum á sumardaginn fyrsta. Slíkt er einfaldlega ekki tímabært. Reynsla okkar hefur sýnt okkur fram á að fram eftir maí er alltaf hætta á að frjósi á nóttunni. Laufblöð, stönglar og fleira sem fellur til á haustin liggur yfir lágvöxnum plöntum allan veturinn og hlífir þeim fyrir kulda og umhleypingum, þetta er nokkurs konar lífræn ábreiða sem brotnar svo niður þegar hlýnar og nýtist plöntunum sem næring fram á sumar. Því miður er það samt svo að garðeigendur vilja gjarnan að garðarnir líti snyrtilega út, á vorin jafnt sem á sumrin og svona lífrænar ábreiður uppfylla yfirleitt ekki kröfur um fegurð og snyrtileika. Þær hverfa því oft of snemma á vorin og plönturnar eiga það á hættu að lenda í skakkaföllum af völdum seinna vorfrosta. Fyrir byrjendur í bransanum getur verið snúið að finna út úr því hvenær er raunverulega óhætt að fara af stað með vorhreingerninguna.

     Hvenær er ekki lengur hætta á því að frysti og plönturnar kali illa? Fátt er um svör við svona spurningum, nema menn hafi skyggnigáfu sem nýtist sérstaklega í veðurspám. Veðurfræðingar og veðurklúbbar um land allt hafa löngum reynt að finna út úr þessu vandamáli en stundum þarf maður bara að treysta á eigið hyggjuvit og þekkingu á plöntum. Viðkvæmar plöntur ættu að fá að vera í friði fram í miðjan maí, jafnvel aðeins lengur og þegar búið er að hreinsa ofan af þeim ættu ábreiður að vera til taks ef ske kynni að frysti, þrátt fyrir áreiðanlegar spár. Þeim má skutla yfir viðkvæmu plönturnar ef þörf krefur og taka þessar tilbúnu ábreiður þá að sér hlutverk lífrænu ábreiðanna að vissu leyti. Með því að breiða yfir plöntur þegar frystir á nóttunni á vorin er hægt að halda um 3 stiga hærri hita undir ábreiðunni en ella. Það er því mikið í húfi, eigi maður sérstaklega flottar og dýrmætar plöntur sem ekki mega lenda í frosti á vorin.

     Áburðargjöf ættu menn ekki að stunda fyrr en brum plantna fara að springa aðeins út, þá fyrst fara plöntur að taka upp nitur (köfnunarefni) að einhverju marki. Fram að þeim tíma er hætta á að nitursamböndin í áburðinum skolist út í jarðveginum og nýtist því ekki plöntum en nitur er yfirleitt sá þáttur í umhverfinu sem er mest takmarkandi fyrir vöxt plantna. Fyrsta áburðargjöf er því yfirleitt ekki fyrr en eftir miðjan maí. Það er því alveg hægt að slappa aðeins af og safna kröftum fyrir sumarið, þetta reddast allt saman og engin ástæða til að æða út í garð alveg strax, nema kannski til að klippa runnana…

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2008)

Posted on

Umhverfisáhrif garðyrkju – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Orðið umhverfisáhrif vekur upp nettan hroll í huga mér og sennilega fleiri unnenda íslenskrar náttúru. Þetta orð er líka einatt notað í umræðu um álver, virkjanir eða aðrar stórkostlegar framkvæmdir sem breyta umhverfinu verulega, framkvæmdir sem oft á tíðum eru umdeildar og sýnist sitt hverjum um nauðsyn þeirra og mikilvægi. Orðið sjálft er hins vegar í eðli sínu hlutlaust og þegar maður nær úr sér hrollinum kemur í ljós að umhverfisáhrif eru af fjölbreyttum toga, jafnvel jákvæðum.

     Umhverfi er sömuleiðis af mismunandi gerðum. Við getum talað um nærumhverfi sem er þá það umhverfi sem við lifum og hrærumst í á degi hverjum. Þarna getum við litið til vinnustaðar, heimilis eða garðs. Fjærumhverfi er þá umhverfi í stærra samhengi, það getur verið hverfið eða sveitarfélagið sem við búum í, sýslan eða landið allt. Það umhverfi sem hefur einna mest áhrif á daglegt líf okkar er auðvitað nærumhverfið. Áhersla okkar á nærumhverfi utandyra hefur vaxið jafnt og þétt síðustu áratugina. Sá einstaki þáttur sem hefur haft mest áhrif á líðan okkar utandyra er gróður. Með gróðrinum kemur skjólið og í skjólinu dafnar mannlífið. Þarna erum við að ræða um bein áhrif gróðurs á umhverfið, því hærri og þéttari sem gróðurinn er því líklegri er hann til að draga úr vindálagi. Ísland er talið fremur vindasamt og nú er svo komið að almennt er viðurkennt að skjólbelti úr plöntum séu af hinu góða. Stofnuð hafa verið félög um ræktun skjólbelta á stórum svæðum þannig að til verður skjólbeltanet sem dregur úr heildarvindáhrifum á viðkomandi svæði.

     Áhrif gróðurs á umhverfi eru af fleiri gerðum. Sjónræn áhrif eru kannski þau augljósustu, það gleður augað að hafa fjölbreyttan gróður í umhverfi sínu og kappkosta menn við það að raða saman plöntum með mismunandi hæð, vaxtarlag, blómlit og blómgunartíma. Það er almennt viðurkennt að vel gróið land sé augnayndi. Gróður hefur hins vegar líka veruleg huglæg áhrif. Fólki líður einfaldlega betur innan um gróður en þar sem gróður er ekki til staðar. Niðurstöður ýmissa rannsókna benda til þess að gróður hafi jákvæð áhrif á andlega líðan sjúklinga og þar með einnig á líkamlega líðan því þar, eins og annars staðar, ber hugurinn mann hálfa leið, í þessu tilfelli í átt að bata.

     Árið 1885, þegar Garðyrkjufélag Íslands var stofnað, hafa bjartsýnustu menn örugglega ekki þorað að vona að vinsældir ræktunar yrðu slíkar sem raun ber vitni. Ræktunartilraunir félaga Garðyrkjufélagsins hafa skilað ómældri þekkingu út í samfélagið, þekkingu sem hefur verið notuð til að breyta nærumhverfi einstaklinganna og um leið hafa sameiginleg áhrif alls þessa einstaklingsframtaks verið þau að heilu bæjarhverfin búa nú við skjól af gróðri. Garðyrkjufélag Ísland er því í raun umhverfissamtök því það vinnur að því að hafa áhrif á umhverfið og það hvernig við upplifum það. Skógrækt á Íslandi hefur óumdeilanlega haft veruleg áhrif á umhverfið. Nú er svo komið að sé farið út í skógrækt á landspildu sem er meira en 200 hektarar þarf að fara í mat á umhverfisáhrifum. Það er því óumdeilt að gróður hefur áhrif á umhverfið, í mínum huga eru þetta yfirleitt jákvæð áhrif og við félagar í Garðyrkjufélaginu megum vera stolt af okkar framlagi til umhverfismála á Íslandi.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2006)