Posted on

Sumarferðin 2025

Sumarferð Garðyrkjufélags Íslands, ferðin sem allir hafa beðið eftir, verður farin á Akranes (lengri leiðina) mánudaginn 14. júlí næstkomandi.
Lagt verður af stað kl. 9 frá bílastæðinu við Árbæjarsafn og áætluð heimkoma um kl. 17. Fararstjóri verður Guðríður Helgadóttir, formaður GÍ.

Dagskráin er í grófum dráttum þannig:
9:00 – Brottför frá Reykjavík
10:00 – Heimsókn í ræktun Sólveigar Jónsdóttur og Ólafs Jónssonar í Hvalfjarðarsveit
12:30 – Hádegisverður í Golfskálanum á Akranesi – ljúffeng og matarmikil kjúklingasúpa með tilbehör
13:30 – Garðaskoðun á Akranesi (Brekkubraut, Esjubraut og Melteigur)
15:30 – Heimsókn í Ræktunarstöðina Miðvogi

Ferðin kostar kl. 9.000 á manninn og er hádegisverður innifalinn.
Ferðin er komin í sölu í vefverslun félagsins á heimasíðu okkar, sjá
hlekk hér. [Sumarferð]

Posted on

Njarðvíkurskógur

Þann 24. júní síðastliðinn leiddi Berglind Ásgeirsdóttir, garðyrkjustjóri Reykjanesbæjar, heilsubótar- og fræðslugöngu um Njarðvíkurskóg. Njarðvíkurskógur er fjölbreytt og áhugavert útivistarsvæði í útjaðri Njarðvíkur (Reykjanesbæjar). Góðmennt var í göngunni enda blíðskaparveður. Garðyrkjufélagið þakkar göngustjóra fyrir leiðsögnina og gestum fyrir komuna.

Posted on

Norræna rósahelgin 8. – 10. ágúst 2025

Þema:  „Rósir, loftslag og samfélag“

Kæru félagar í Rósaklúbbi Garðyrkjufélags Íslands. Norræna rósahelgin verður haldin á Íslandi dagana 8. – 10. ágúst í sumar. Þetta er einstakur viðburður fyrir íslenska rósaræktendur og gefst ykkur nú kostur á að taka þátt í þessum viðburði með því að skrá ykkur.

Fjölmörg áhugaverð erindi um rósarækt verða á dagskrá, heimsóttir verða einkagarðar og opinberir rósagarðar á stór-Höfuðborgarsvæðinu (þ.e. í Reykjavík, Mosfellsbæ, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði). Farið verður í dagsferð um Suðurland þar sem skoðaðir verða einkagarðar og garðyrkjustöðvar og landið skoðað í leiðinni. Kvölddagskrá verður föstudagskvöld í Grasagarðinum og á laugardagskvöld verður hátíðarkvöldverður á Grand Hótel.

Að ráðstefnunni lokinni verður boðið upp á ráðstefnuferð um Vestur- og Norðurland dagana 11.-13. ágúst. Farið verður með rútu norður og einkagarðar skoðaðir á Vesturlandi og síðan gist á miðri leið norður. Daginn eftir verður ekið til Akureyrar og farið í Lystigarðinn sem er alveg einstakur heim að sækja. Gist verður á Akureyri aðra nótt og ekið yfir Kjöl til baka til Reykjavíkur.

Kynnið ykkur dagskrá ráðstefnunnar og nánari lýsingu viðburða. Við hvetjum ykkur til að láta þennan viðburð ekki framhjá ykkur fara. Norræna rósahelgin á Íslandi var síðast haldin sumarið 2012 í einstaklega góðu og hlýju veðri þar sem rósirnar skörtuðu sínu fegursta.

Slóðin á skráningarformið er:  Norræna rósahelgin – Garðyrkjufélag Íslands.  (Athugið: Þegar atriði hafa verið valin í körfuna þá þarf að skoða körfuna og staðfesta skráninguna með greiðslu).

Ávinningur með þátttöku: Þið fræðist um rósarækt, skoðið hvernig aðrir haga sinni ræktun, fáið tækifæri til að deila ykkar þekkingu og reynslu meðal ráðstefnugesta og getið myndað ævilöng vinasambönd þvert á landamæri.

Norræna rósahelgin er viðburður sem haldinn er annað hvert ár af Norræna rósafélaginu og aðildarfélögum þess á Norðurlöndum. Viðburðurinn færist á milli Norðurlandanna fimm: Svíþjóðar, Íslands, Finnlands, Noregs og Danmerkur.

Hefjum rósina til vegs og virðingar – Mætum öll 🙂 

Posted on

Heilsubótar- og fræðslugöngur Garðyrkjufélags Íslands í tilefni 140 ára afmælis félagsins – 25. júní

Heiðmörk Auður Elva Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags
Reykjavíkur  og Aðalsteinn Sigurgeirsson skógfræðingur leiða göngu um
Heiðmörk. Gangan er í samstarfi við Skógræktarfélag Reykjavíkur og er
einnig hluti af afmælisdagskrá Heiðmerkur sem fagnar 70 ára afmæli í ár.
Mæting er við stóra bílastæðið við Vífilsstaði kl. 18.

Posted on

Fjölmenni í Grasagarðinum

Fjölmenni var í kvöldgöngu í Grasagarði Reykjavíkur þann 24.júní en gangan var í samstarfi Grasagarðsins og Garðyrkjufélagsins og  ein af heilsubótar- og fræðslugöngum sem gengnar eru í sumar í tilefni af 140 ára afmæli félagsins. Göngustjóri var Guðríður Helgadóttir, formaður GÍ og henni til halds og trausts voru starfsmenn garðsins, þau Hjörtur Þorbjörnsson, forstöðumaður, Björk Þorleifsdóttir, fræðslu- og kynningarstjóri og Hjördís Rögn Baldursdóttir garðyrkjufræðingur. Ríflega 300 gestir mættu í gönguna í hellirigningu og nutu leiðsagnar um elsta hluta garðsins. Garðyrkjufélagið þakkar Grasagarðinum kærlega fyrir gestrisnina og gestum fyrir komuna.

Posted on

Vel heppnuð ganga um Hlíðargarð

Heilsubótar- og fræðsluganga GÍ í Kópavogi þann 24. júní var vel sótt en um 70 gestir mættu til leiks. Því miður forfallaðist göngustjórinn Friðrik Baldursson garðyrkjustjóri Kópavogs en þau Kristján Friðbertsson og Guðríður Helgadóttir hlupu í skarðið og leiddu göngu í Hlíðargarð. Nokkrir göngugestir deildu skemmtilegum minningum úr garðinum, þar á meðal Marteinn Sigurgeirsson kennari, sem hefur skráð ýmsa þætti úr sögu bæjarins, meðal annars með kvikmyndum sínum. Garðyrkjufélagið þakkar gestum kærlega fyrir komuna og sögurnar og göngustjórum fyrir leiðsögnina.

Posted on

Heilsubótar- og fræðsluganga í Hólavallagarði

Fyrsta heilsubótar- og fræðslugangan í tilefni 140 ára afmæli GÍ var gengin í Hólavallagarði þann 10. júní. Göngustjóri var Heimir Björn Janusarson, skrúðgarðyrkjumaður og umsjónarmaður garðsins. Tæplega 50 gestir gengu um garðinn í blíðskaparveðri og nutu fróðlegrar og bráðskemmtilegrar leiðsagnar Heimis. GÍ þakkar Heimi kærlega fyrir skemmtunina og fróðleikinn og gestum fyrir komuna.

Posted on

Fræsáningar 28. febrúar

Þriðjudaginn 28. febrúar munu þær stöllur Anna Rún Þorsteinsdóttir og Sigríður Embla Heiðmarsdóttir garðyrkjufræðingar fara yfir grunnatriði sáninga í sal Garðyrkjufélagsins.
Þrátt fyrir ungan aldur hafa þær báðar töluverða reynslu af sáningu og ræktun fjölæringa sem og sumarblóma.
Við erum viss um að allir geti lært sitthvað og uppskorið í kjölfarið blómlegt sumar.
Verið öll hjartanlega velkomin kl. 20:00, það verður heitt kaffi á könnunni og kexkökur með.
Fyrirlestrinum verður streymt fyrir þá sem eiga ekki heimangengt.

Posted on

Ný stjórn kosin á aðalfundi

Aðalfundur Garðyrkjufélags Íslands var haldinn 10. nóvember 2022. Á fundinum var auk hefðbundinna aðalfundarstarfa kosinn nýr formaður og ný stjórn félagsins.

Þóra Þórðardóttir var kjörin formaður og ný í stjórn hlutu kosningu þau Hjördís Rögn Baldursdóttir, Vilhjálmur I. Sigurjónsson og Sigurbjörn Einarsson sem áður sat í varastjórn. Áfram situr í stjórn félagsins Konráð Lúðvíksson. Ekki þótti ástæða til að sleppa Guðríði Helgadóttur og Eggert Aðalsteinssyni alveg frá stjórnarstörfum og þau voru kjörin sem varamenn. Kristján Friðbertsson er áfram varamaður í stjórn. Ómar Valdimarsson hefur tekið að sér að ritstýra ársriti félagsins og tekur við því hlutverki af Björk Þorleifsdóttur og eru henni færðar þakkir fyrir ritstjórn síðustu ára. Skrifstofa félagsins er lokuð en minnum á símatíma á miðvikudögum milli kl. 13 – 15.

Aðalfundur GÍ 10.11.2022

Skýrsla formanns