Posted on

Óvenjulegar nytjaplöntur á Íslandi – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Plöntur eru mannfólkinu lífsnauðsynlegar því án þeirra værum við ekki neitt, ekki andað, ekki matast, ekki klætt okkur, ekki dregið bíla, ekki drukkið vín; við værum sennilega ekki til í núverandi formi. Á Íslandi byggir landbúnaður á plöntum sem ýmist eru innlendar eða innfluttar og eru ræktaðar hérlendis sem fóður fyrir búfénað eða matvæli fyrir mannskepnuna. Hugtakið nytjaplöntur eru mjög breytt, í raun eru það allar plöntur sem maðurinn hefur einhver not af.

     Ræktun nytjaplantna á Íslandi hefur auðvitað verið stunduð frá því land byggðist en tegundavalið hefur hins vegar breyst í gegnum tíðina. Landnámsmenn komu með ýmsar ræktunarhefðir með sér frá Evrópu, ræktuðu kryddjurtir, matjurtir og korn en slík ræktun lagðist mikið til af á miðöldum. Þegar rofaði til í miðaldamyrkrinu tóku menn til við ræktun á ýmsum tegundum plantna og einkum náði rófna- og kartöflurækt til manneldis miklum vinsældum enda mjög auðræktaðar tegundir við íslenskar aðstæður. Það var svo nokkrum frumkvöðlum í íslenskri garðrækt að þakka að þekking á ræktun kálplantna og margra annarra matjurta breiddist út og varð almenn í landinu.

     Á síðustu árum hefur orðið sprenging í kornrækt á Íslandi. Kynbótamenn hafa unnið mikið starf við að finna yrki sem henta vel fyrir íslenskt loftslag og hefur sú vinna skilað sér margfalt, nú má sjá stóra kornakra víða um sveitir og er fátt fegurra er einmitt það að sjá kornið sveiflast mjúklega með vindinum. Kornið sem ræktað er hér er fyrst og fremst notað sem fóður fyrir búfénað og sjá bændur fram á að geta sparað sér háar fjárhæðir með því að rækta eigið korn. Kornræktin á eftir að breiðast hratt út á næstu árum, ef svo heldur sem horfir og þar að kemur að kornakrar verða ekki óvenjuleg sjón í íslenskum sveitum.

     Lengi vel var því haldið fram að Ísland væri eitt stærsta bananaframleiðsluland Evrópu. Hugsanlega hefur þetta verið rétt því hér voru ræktaðir bananar í gróðurhúsum víða um land, þótt magnið hafi eflaust ekki verið í tonnum talið. Enn eru ræktaðir bananar á Íslandi í gróðurhúsum og sennilega er mesta framleiðslan á Reykjum í Ölfusi þar sem áður hét Garðyrkjuskóli ríkisins en er nú starfsstöð garðyrkjubrauta Landbúnaðarháskóla Íslands. Þar geta gestir og gangandi farið inn í bananahúsið og skoðað plönturnar sem bananarnir vaxa á. Bananar vaxa á plöntum sem eru með ógurlega stór laufblöð og ber hver planta aldin einu sinni, þá er hún höggvin niður og rótarskot frá móðurplöntunni tekur við. Rétt er þó að vara fólk við því að smakka á banönum sem hafa alla tíð þroskast á móðurplöntunni, þeir eru svo sætir og góðir á bragðið að manni finnast búðakeyptir bananar bragðlausir og óspennandi í samanburðinum.

     Þegar minnst er á grasker dettur manni helst í hug amerísk útgáfa af hrekkjavöku þar sem graskerin eru holuð að innan, skorin í þau andlit og kerti sett inn í graskerið. Þetta eru hins vegar mjög góðar nytjajurtir og tilvaldar í alls kyns grænmetisrétti. Grasker er auðveldlega hægt að rækta í gróðurhúsum á Íslandi og þurfa þau ekki mikinn hita til að ná að þroskast vel og verða stór og falleg. Það er um að gera fyrir þá sem eiga eða hafa aðgang að gróðurhúsi að prófa að rækta þessa skemmtilegu plöntu og það er aldrei að vita nema við getum í framtíðinni tengt grasker við rammíslenska hauststemningu, til dæmis mætti bragðbæta kjötsúpuna á réttadaginn með graskeri eða drýgja lifrarpylsuna með steiktum graskersbitum, möguleikarnir eru óþrjótandi.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2005)