Posted on

Skipting fjölærra plantna – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Það er mikill misskilningur að fyrstu haustlitirnir boði endalok garðvinnunnar það árið. Haustið hefur í för með sér ákveðin verk í garðinum, eins og reyndar allar aðrar árstíðir. Á þessum tíma þarf að setja niður haustlaukana og er mikilvægt að gefa sér góðan tíma í að velja saman blómlit, blómgunartíma og mismunandi tegundir til að vorið verði nú sem allra blómlegast. Garðyrkjumenn keppast við að gróðursetja plöntur á haustin enda er þetta mjög heppilegur tími í slík störf. Ekki þarf að hafa áhyggjur af því að plönturnar ofþorni, haustlægðirnar sjá alfarið um vökvunina og þar sem plönturnar eru komnar í dvala er lítil hætta á skakkaföllum. Eina vandamálið getur verið frostlyfting því plönturnar ná ekki alveg að festa rætur fyrir veturinn en þá er nú lítið mál að bregða undir sig betri fætinum í apríl og rétta greyin við.

     Eitt þeirra haustverka sem hafa mætti meira í hávegum er skipting fjölærra plantna. Fjölærar plöntur eru þeirrar náttúru að þegar vetur gengur í garð fella þær blöð og stöngla og liggja í dvala yfir veturinn. Þær geyma forða í rótum sínum yfir veturinn og ná þannig að vaxa upp að nýju að vori. Eftir því sem plönturnar stækka þá breiða þær úr sér, oftast út frá miðjunni. Með aldrinum deyr síðan elsti hluti plöntunnar og þá myndast eins konar hreiður í plöntunni og þykir það ekki sérlega lekkert. Þegar komið er á það stig þarf að taka plöntuna upp, skipta henni niður í nokkra hluta og gróðursetja einn þeirra aftur á sama stað, eða öðrum, allt eftir hentugleika og óskum viðkomandi garðeiganda. Þetta er alveg tilvalið að framkvæma að hausti til, svona rétt áður en plantan hefur endanlega fellt stönglana og blöðin og enn er hægt að greina hvaða tegund er um að ræða. Plantan hefur þannig náð að gleðja augað allt sumarið og gengur nú í endurnýjun lífdaga fyrir næsta sumar.

     Skipting fjölærra plantna er ekki flókið verkefni og tiltölulega óvanir garðeigendur geta framkvæmt þetta sjálfir, án vandræða. Til verksins þarf vel handklippur, beitta stunguskóflu, svartan plastpoka (liturinn er ekki skilyrði, aðallega stærðin), gott er að hafa tvo stungugaffla en ekki nauðsynlegt og síðast en ekki síst beittan hníf. Framkvæmdin er á þá leið að fyrst eru langir blómstönglar klipptir niður með handklippunum. Svarti plastpokinn er breiddur á stétt eða gras til að hlífa fletinum við moldinni. Því næst er stungið í kringum plöntuna með stunguskóflunni og hnausinn tekinn upp og settur á plastpokann. Þá er tvennt í stöðunni. Annars vegar er hægt að skipta hnausnum upp með því að stinga hann í sundur með stunguskóflunni. Með þessu er verið að skera á margar rætur og því kjósa sumir að nota heldur stungugafflana við þetta verk. Þá er göfflunum stungið niður þétt hvor við annan í miðjan hnausinn þannig að þeir snúa bökum saman og eru báðir uppréttir. Þeir eru síðan glenntir í sundur og hnausnum skipt þannig upp. Í sumum tilfellum geta ræturnar verið erfiðar viðureignar og þá er gott að grípa til hnífsins og skera á svoleiðis vandræðagripi. Eftir að skiptingin hefur farið fram velur garðeigandinn þann hluta sem hann vill gróðursetja aftur í beðið og hinum hlutunum er fargar eða komið í fóstur hjá öðrum garðeigendum.

     Gróðursetningin fer þannig fram að grafin er góð hola, lífrænn áburður settur í botninn á holunni og honum blandað vel saman við moldina. Þunnt lag af mold fer ofan á áburðarblönduna og þá má koma plöntunni fyrir. Síðan er mold mokað að plöntunni og þess gætt að hún standi álíka djúpt og hún gerði áður. Moldin er svo þjöppuð varlega og að lokum er vökvað vel yfir. Þessa aðferð má nota á flestar fjölærar plöntur. Nú er bara að skerpa stunguskófluna, hnífinn og handklippurnar og stökkva út í garð milli rigningarskúranna. Einnig má líta á þetta verkefni sem ágætis leið til að halda sér í formi og kostar það töluvert minna en líkamsræktarkortið…

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2005)