Posted on

Blóm vikunnar með Gurrý: Blómgunartími túlípana

Guðríður Helgadóttir

Haustið er tími haustlaukanna og þótt úti sé kuldakast með tilheyrandi snjókomu, skafrenningi og frosti er rétt að fara að huga að undirbúningi vorsins, ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Með svolítilli skipulagningu og útsjónarsemi getur maður tryggt sér blómstrandi haustlauka í garðinum sínum frá því snemma í mars langt fram á sumar. Þær tegundir sem fyrstar skjóta upp kollinum eru gjarnan vetrargosi og krókusar en þegar líður á vorið skjóta hávaxnari og skrautlegri laukategundir upp kollinum og auka á sumartilfinninguna.

     Túlípanar byrja almennt ekki að blómstra hérlendis fyrr en í apríl, margar tegundir blómstra í maí og sumar standa vel fram í júní. Tíðarfarið að vorinu hefur þó alltaf nokkur áhrif á blómgunina þannig að í mildu og hlýju vori fara plöntur almennt fyrr af stað og eru túlípanar þar engin undantekning á. Gróðursetning túlípana, eins og annarra lauka, fer fram að hausti til og er allt í lagi þótt það dragist aðeins fram eftir hausti, laukarnir þola mjög illa bleytu og gott að bíða með gróðursetninguna aðeins fram yfir verstu haustrigningarnar. Ef laukarnir lenda í mikilli bleytu geta þeir morknað eða orðið sveppasjúkdómum að bráð.

     Blómlitir túlípana eru ákaflega skrautlegir og er hægt að finna flesta liti nema bláan, þó eru til ákaflega fallegir fjólubláir túlípanar. Lengi hafa menn reynt að kynbæta svartan túlípana og eru til nokkur yrki sem eru hérum bil alveg svört. Galdurinn við valið á túlípönum í garða er svo auðvitað sá að velja saman tegundir og yrki þannig að plönturnar skiptist á að vera í blóma og blómgunartíminn nái þannig frá því snemma í apríl langt fram á sumar. Það ætti að vera hægur vandi því garðatúlípönum er skipt í flokka sem meðal annars taka mið af blómgunartíma, þótt aðalflokkunaratriðið séu blómin. Blómgunartíminn flokkast þannig að snemmblómstrandi túlípanar byrja að blómstra í apríl og standa eitthvað fram í maí, miðblómstrandi túlípanar byrja að blómstra tiltölulega snemma í maí og standa út maí og síðblómstrandi byrja að blómstra seint í maí og standa fram í júní.

Flokkar túlípana eru sem hér segir:

 • Einfaldir snemmblómstrandi túlípanar: Einföld skálarlaga blóm í ýmsum litum, blómin stundum skellótt. Hæð þessara túlípana er 15-45 cm.
 • Ofkrýndir snemmblómstrandi túlípanar: Ofkrýnd blóm, blómin stundum skellótt. Hæðin 30-40 cm. Þessir túlípanar eru miðblómstrandi þótt nafnið gefið annað til kynna.
 • Tromp túlípanar: Einföld skálarlaga blóm, ýmist einföld eða skellótt. Hæðin 35-60 cm. Mið- til síðblómstrandi.
 • Darwinstúlípanar: Einföld, egglaga blóm, mjög fjölbreyttir blómlitir, einlitir eða ýmsar útgáfur af marglitum blómum. Hæðin 50-70 cm. Mið- til síðblómstrandi.
 • Einfaldir síðblómstrandi túlípanar: Einföld, skálarlaga til stauplaga blóm (stauplaga blóm eru þannig að krónublöðin sveigjast út til hliðanna efst uppi), margir litir. Hæðin 45-75 cm. Síðblómstrandi.
 • Liljutúlípanar: Einföld, áberandi stauplaga blóm, margir litir, oft tvílitir. Hæðin 45-65 cm. Síðblómstrandi.
 • Kögurtúlípanar: Einföld skállaga blóm með áberandi kögruð krónublöð í ýmsum litum. Hæðin 35-65 cm. Síðblómstrandi.
 • Grænblómstrandi túlípanar: Einföld skálarlaga blóm sem eru aðallega græn á litinn en blómin sprengd með öðrum litum, oft mjög skrautlegir. Hæðin 10-40 cm. Síðblómstrandi.
 • Rembrandt túlípanar: Einföld skálarlaga blóm í hvítum, gulum eða rauðum litum sem eru sprengdir með ýmsum öðrum litum, sjaldnast grænum. Þessi litadýrð er tilkomin vegna vírusasýkingar. Hæðin 45-65 cm. Síðblómstrandi.
 • Páfagaukatúlípanar: Einföld skálarlaga blóm, mjög stór í ýmsum litum, oft sprengdir. Krónublöðin mjög flipótt eða kögruð. Hæðin 35-65 cm. Síðblómstrandi.
 • Ofkrýndir síðblómstrandi túlípanar: Ofkrýnd skállaga blóm í mörgum litum. Hæðin 10-40 cm. Síðblómstrandi.
 • Kaupmannatúlípanar: Afbrigði og yrki af kaupmannatúlípana, Tulipa kaufmanniana. Einföld skállaga blóm, oft marglit. Hæðin 15-30 cm. Snemm- til miðblómstrandi.
 • Eldtúlípanar: Afbrigði af eldtúlípana, Tulipa fosteriana. Einföld skállaga blóm, yfirleitt einlit en stundum skellótt. Hæðin 20-65 cm. Miðblómstrandi.
 • Dílatúlípanar. Afbrigði af dílatúlípana, Tulipa greigii. Einföld skállaga blóm, mjög stór, yfirleitt einlit en stundum skellótt. Áberandi skellótt laufblöð. Hæðin 15-30 cm. Snemm- til miðblómstrandi.
 • Aðrir túlípanar: Í þennan flokk falla túlípanar sem ekki komast í hina flokkana, til dæmis margblóma túlípanar sem bera fleiri en eitt blóm á hverjum stöngli.

Nú er bara um að gera að fara að púsla saman túlípanayrkjum til að framkalla stórkostlegt litaspil í vor.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2005)

Posted on

Blóm vikunnar með Gurrý: Gróðursetning plantna á haustin

Guðríður Helgadóttir

Það er alltaf jafn ótrúlegt hvað sumarið líður hratt. Í gær var vor en í dag er komið haust með öllu tilheyrandi. Regndroparnir hætta að falla lóðrétt til jarðar og með dálítilli hjálp frá Kára (ekki Stefánssyni) virðast þeir hreinlega komast á sporbaug umhverfis jörðu. Trén sem í gær stóðu í fullum blóma, fagurgræn og gljáandi í sólskininu, berjast í dag til og frá í vindinum. Laufblöðin taka óðum á sig hlýlega haustliti enda veitir okkur ekki af hlýju veganesti fyrir veturinn. Það er því ekki að undra að útiverustundum fækkar, mannfólkið leitar skjóls innandyra og hugsunin um plöntur, gróðursetningu og annað er viðkemur ræktun færist æ aftar í forgangsröðina.

Ef vel er að gáð má þó sjá, hér og þar um bæi landsins, nokkra sérvitringa í óða önn við það að gróðursetja ýmiss konar plöntur. Þarna eru yfirleitt á ferð garðyrkjufræðingar því þeir vita sem er, að haustið er einn besti tími ársins til útplöntunar.

     Vaxtarferill plantna er í stuttu máli þannig: Um leið og frost fer úr jörðu á vorin hefst rótavöxtur af fullum krafti í plöntunum. Í kjölfar þessa rótavaxtartímabils laufgast plönturnar og lengdarvöxtur greina og stöngla nær hámarki. Á meðan á lengdarvexti stöngla og greina stendur er rótavöxtur í lágmarki enda hafa ræturnar nóg að gera við það að afla yfirbyggingu vatns og steinefna úr jarðveginum. Lengdarvexti yfirbyggingarinnar lýkur venjulega í ágúst og fer þá í hönd annað tímabil rótavaxtar. Ræturnar halda áfram að vaxa fram á haustið. Sýnt hefur verið fram á það í rannsóknum að rætur halda áfram að vaxa þar til hitastigið í jarðveginum fer niður í um 5°C. Eftir það hægir verulega á vextinum og plantan leggst endanlega í dvala. Rótavöxturinn getur þannig haldið áfram löngu eftir að allt lauf er fallið af plöntunni. Ekki er vitað með vissu hversu lengi rætur vaxa fram eftir hausti á Íslandi en í meðalári ættu þær að ná að vaxa fram í október-nóvember. Plöntur sem gróðursettar eru á haustin ná því að festa sig dálítið í sessi fyrir veturinn.

     Kostir þess að gróðursetja plöntur á haustin eru margvíslegir. Plönturnar ná að nýta vaxtartímabilið árið eftir gróðursetningu til fulls. Plöntur vakna til lífsins snemma á vorin, oft í lok apríl-byrjun maí en garðeigendur fara sjaldnast að huga að útplöntun fyrr en upp úr miðjum maí. Þannig græðir plantan að minnsta kosti tvær vikur auk þess sem hún hefur forskot á rótavöxtinn frá því um haustið. Haustin eru yfirleitt fremur votviðrasöm þannig að ekki þarf að hafa áhyggjur af vökvun nýgróðursettra plantna. Veðráttan á suðvesturhorninu í sumar færði okkur heim sanninn um það að við getum átt von á þurrkatíð enda fundu margir fyrir því að þeir þurftu að vökva mikið meira en venjulega.

     Plöntur í pottum er hægt að gróðursetja hvenær sem er, svo framarlega sem hægt er að koma þeim niður í jörðina fyrir frosti. Berróta plöntur og hnausplöntur er best að eiga við á vorin áður en þær laufgast og aftur á haustin við lauffall. Gott er að miða við það að þegar plöntur fara að fá haustlit er tímabært að gróðursetja þær á haustin. Berróta plöntur sem gróðursettar eru á miðju sumri eru fulllaufgaðar og því algengt að þær slappist töluvert fyrst eftir gróðursetningu, rótakerfið annar ekki vatnseftirspurninni. Þá þarf að vökva og vökva en þetta vandamál er ekki til staðar ef plönturnar eru gróðursettar á haustin.

     Áburðargjöf við haustplöntun ætti að takmarka við lífrænan áburð og kalk, tilbúinn áburður gerir lítið gagn yfir veturinn og skolast bara í burtu. Lífræni áburðurinn og kalkið nýtast hins vegar plöntunum smám saman eftir því sem þau brotna niður auk þess sem þau hafa jákvæð áhrif á byggingu jarðvegsins.

     Að endingu er rétt að benda á það að í flestum gróðrarstöðvum er að finna ágætis úrval af trjám og runnum á haustin og má fullyrða það að viðskiptavinir eru kærkomin tilbreyting í stöðvunum á þessum árstíma.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 1998)

Posted on

Blóm vikunnar með Gurrý: Illgresi

Guðríður Helgadóttir

Sumum kann nú að finnast það heldur seint í rassinn gripið að fjalla um illgresi svona rétt undir haustið, eftir allt puðið og púlið sem hefur farið í þennan ófögnuð í görðum í sumar. Fyrir þessu er þó góð og gild ástæða. Illgresi er ekki eitthvað sem hreinlega hættir að hrella garðeigendur þegar fyrstu haustlægðirnar ganga í garð, aldeilis ekki. Garðvinna er endalaus barátta við illgresi, með öllum tiltækum ráðum.

     Hvað er illgresi? Illgresi eru í raun og veru allar plöntur sem vaxa á stöðum þar sem þær eiga ekki að vera. Þessar plöntur geta verið af mörgum tegundum en allar eiga þær það sammerkt að taka til sín næringu, vatn og birtu frá þeim plöntum sem ætlunin er að rækta á viðkomandi stað. Þessi skilgreining segir okkur að í hópi illgresistegunda eru ekki bara þær tegundir sem koma fyrst upp í hugann, eins og túnfífill, skriðsóley, haugarfi eða skurfa heldur líka ýmsar trjátegundir sem geta verið fullduglegar við að dreifa sér, eins og margar víðitegundir og rifstegundir. Í grónum og fallegum garði einum í miðborg Reykjavíkur var garðahlynur til dæmis orðinn að hálfgerðri plágu því hann sáði sér óhóflega út um allan garð. Þetta skýtur dálítið skökku við því flestir garðeigendur væru nú til í að hafa fallegan hlyn í garðinum hjá sér en kannski eru nokkur hundruð hlynir í einum litlum garði fullmikið af hinu góða.

     Í gegnum tíðina hafa menn reynt að finna alls konar endanlegar lausnir á illgresisvandamálinu. Elsta aðferðin við illgresishreinsun er sú að nota hreinlega guðsgafflana við arfatínsluna og verður nú að segjast eins og er, að fáar aðferðir eru eins gagnlegar, þótt þessi aðferð sé frekar tímafrek, fari illa með hnén og bakið og geti gert garðeigandann úrillan og pirraðan. Næsta skref er að nota lítil garðáhöld til að auðvelda sér vinnuna. Lítil handskófla, klóra og fíflajárn eru sérlega notadrjúg áhöld því oft getur verið erfitt að losa um rætur illgresisplantnanna en mikilvægt er að ná þessum plöntum upp með rótum til að koma í veg fyrir að þær geti vaxið aftur upp þegar garðeigandinn snýr við þeim bakinu. Þessi litlu áhöld koma hins vegar ekki í veg fyrir bakverki og stirð hné.

     Arfasköfur eru bráðsniðug áhöld að mörgu leyti. Þær gera garðeigandanum kleift að vera uppréttur við illgresishreinsunina og verður það að teljast mikill kostur. Arfaskafan er notuð til þess að skafa illgresið af yfirborði jarðvegsins, plöntuleifarnar eru svo látnar liggja ofan á jarðveginum þar til þær skrælna og eru þá fjarlægðar. Helsti gallinn við arfasköfur er að erfitt getur verið að ná illgresinu með rótum auk þess sem það getur náð að fella fræ, ef plönturnar eru komnar nægilega langt í þroska.

     Aðferðirnar sem hér hafa verið nefndar eru allar þess eðlis að þær skaða engan nema plönturnar sem verið er að glíma við og jú kannski garðeigandann sjálfan á baki og hnjám. Fleiri aðferðir í þessum dúr eru til dæmis þær að hella sjóðheitu vatni yfir illgresisplönturnar og drepa þær þannig, plönturnar verða gular og visna og auðvelt að fjarlægja þær. Í þessum dúr er einnig sú aðferð að nota gasloga til að brenna illgresið í burtu en það er aðferð sem er kannski ekki eins einföld í framkvæmd, það eru ekki allir sem eiga gasbrennara í eldhússkápnum heima hjá sér.

     Síðastar og sístar eru þær aðferðir sem byggja á notkun eiturefna gegn illgresinu. Þegar garðeigendur kjósa að nota slíkar aðferðir er algert lykilatriði að hafa samband við garðyrkjufræðing og fá greinargóðar upplýsingar um það hvernig efnin skuli notuð. Rétt er að viðhafa fyllstu öryggisráðstafanir við slíkar aðgerðir.

     Illgresisplöntur eru margar hverjar ákaflega duglegar við að mynda fræ. Þess vegna er mjög mikilvægt að reyna að ná að fjarlægja þær áður en þær ná að mynda fræið. Plönturnar geta spírar mjög snemma á vorin og þess vegna er mikilvægt að reyna að fjarlægja eins mikið af illgresisplöntum fyrir veturinn og hægt er, það minnkar vinnuna næsta vor.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2005)

Posted on

Blóm vikunnar með Gurrý: Laukur vikunnar

Guðríður Helgadóttir

Blóm vikunnar er laukur. Í ættkvísl lauka eru margar merkar krydd- og lækningajurtir sem hafa verið nýttar sem slíkar frá örófi alda. Í gegnum tíðina hafa menn litið svo á að því sterkari sem laukurinn er, því virkari er hann gegn sjúkdómum og meinsemdum. Laukur af hvers konar tagi er notaður í matargerð um allan heim og vegna þess hversu ódýr hann er yfirleitt hafa flestir efni á að nýta sér hann, reyndar var matlaukur soðinn í saltseyði aðalfæða fátækasta fólksins í Mið-Asíu vestur um til Miðjarðarhafsins í gamla daga. Sami matur var á borðum egypsku verkamannanna sem byggðu pýramídana forðum, auk þess sem þeir fengu vænan skammt af hvítlauk daglega. Maður getur nú rétt gert sér í hugarlund ilminn sem hefur fylgt þessum mönnum eftir daglangt strit í hitanum.

     Matlaukur, Allium cepa, hefur verið ræktaður um þúsundir ára. Fyrstu heimildir um ræktun hans eru frá því um 4000 fyrir Krist. Ekki er vitað um uppruna matlauksins því hann finnst hvergi villtur í dag. Þó er talið líklegt að upprunaleg heimkynni hans hafi verið í Asíu. Sennilega hefur ræktun lauksins dreifst frá Asíu vestur um til Indlands, Mesópótamíu og Egyptalands og álíta menn að Rómverjar hafi kynnt laukinn fyrir öðrum Evrópubúum. Enska heiti lauksins, onion er dregið af latneska orðinu unio sem þýðir ein stór perla og vísar þar til verðmætis lauksins, hvort sem er sem matjurt eða lækningajurt.

     Í dag er matlaukur ein af algengustu matjurtum heims og mörg yrki af honum í ræktun. Hann getur verið ljós að lit, brúnleitur eða rauðleitur og í mismunandi stærðum. Sem lækningajurt er laukurinn notaður ferskur. Hann inniheldur meðal annars lífræn brennisteinssambönd sem eru sótthreinsandi og virka vel gegn bakteríum. Enn fremur má finna mikilvægar olíur, sykrur, vítamín og steinefni í lauknum. Hann er gjarnan notaður við sýkingu í öndunarvegi og meltingarvegi. Því sterkari sem laukurinn er því betur virkar hann sem lækningajurt en jafnframt er erfiðara að vinna með hann því hann gefur frá sér efni sem græta jafnvel gallhörðustu húsmæður.

     Hvítlaukur, Allium sativum hefur að sama skapi verið ræktaður óralengi og er líklega upprunninn á Indlandi eða í Mið-Asíu. Hann hefur verið notaður sem matjurt, kryddjurt og lækningajurt og hafa menn haft mikla trú á styrk hvítlauksins. Grikkir og Rómverjar trúðu því að hvítlaukur væri heilög planta og gáfu hermönnum sínum daglega skammt af hvítlauk. Hann var talinn hafa hressandi og endurnærandi eiginleika og hermennirnir því sérlega sprækir á meðan á hernaði stóð. Hvítlaukurinn var talinn hafa ýmiss konar yfirnáttúrulega hæfileika, meðal annars stóðu menn í þeirri trú að hvítlaukur verndaði gegn svartagaldri og vampírum. Hvítlaukur er mjög vinsæll í dag og notaður í hvers konar matargerð. Hann er einnig notaður til lækninga, til dæmis við sýkingu í meltingarfærum, kransæðastíflu og hjálpar við meltingu. Þekkt er að þeir sem borða hvítlauk mjög reglulega fái síður kvef en einnig vill loða við þá sem borða hvítlauk mjög reglulega að þeir ilma öðruvísi. Það er spurning hvað maður vill leggja á sig mikla einangrun frá mannlegum samskiptum til þess eins að kvefast ekki…

     Hvítlaukur er mjög auðveldur í ræktun hérlendis og er best að setja niður útsæðislauka á haustin. Þeir bæta við sig nýjum laukum og eru tilbúnir næsta haust. Áhugasamir félagar í matjurtaklúbb Garðyrkjufélags Íslands geta haft samband við félagið og fengið hvítlauksútsæði þar til prufu. Ef menn hafa ekki áhuga á hvítlauk er um að gera að skoða laukalistann hjá félaginu og finna sér annars konar lauka við hæfi.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2006)

Posted on

Blóm vikunnar með Gurrý: Ber allt árið

Guðríður Helgadóttir

Þeir sem hafa einhvern tíma komið að matargerð á Íslandi þekkja eflaust matreiðslubók Helgu Sigurðardóttur. Helga var ákaflega dugleg við að kynna matargerðarlistina fyrir landanum og eitt af því sem hún lagði mikla áherslu á var að kynna notkun grænmetis og ávaxta fyrir almenningi. Íslendingar voru almennt ekki mikið fyrir aðra fæðu en kjöt og fisk, kartöflur og rófur áttu reyndar upp á pallborðið hjá okkur og voru í mörgum tilfellum aðaluppistaðan í fæðinu en aðrar plöntuafurðir slógu ekki í gegn fyrr en seint á síðustu öld. Helga átti ugglaust sinn þátt í því að kynna fæðutegundir eins og tómata og gúrkur fyrir landanum og hún skrifaði bók sem náði talsverðri útbreiðslu, bókin nefndist Grænmeti og ber allt árið en var í daglegu tali gárunga nefnd Ber allt árið. Það er einmitt viðfangsefni þessa greinarkorns, notkun á berjum.

     Ýmsar tegundir berja hafa verið ákaflega vinsælar í gegnum tíðina hérlendis. Þar má nefna innlendu tegundirnar bláber, krækiber, hrútaber og jarðarber og af innfluttum tegundum hafa sólber og rifsber notið mestra vinsælda og stikilsber hafa verið nokkuð notuð af þeim sem setja illvíga gaddana ekki fyrir sig. Eins og lýðum er ljóst eru mikið fleiri tegundir trjáa og runna sem framleiða aragrúa berja síðla sumars. Í þeim flokki eru margar tegundir sem mætti nýta miklu meira en gert er, til dæmis til sultugerðar eða í líkjöra. Rétt er að taka fram að ekki er hægt að nota allar tegundir berja í sultu, til er tegundir sem eru ákaflega eitraðar og því betra að sneiða hjá þeim (nema fólk sulti í einhverjum annarlegum tilgangi). Ber töfratrjáa, Daphne mezereum, eru til dæmis mjög eitruð og talað um að þurfi einungis 10-15 ber til að drepa fullorðinn karlmann. Þau eru hins vegar svo skelfilega vond á bragðið að enginn heilvita maður leggur sér þau til munns nema einu sinni.

     Innan rósaættarinnar má finna ákaflega margar góðar tegundir sem menn hafa nýtt í gegnum tíðina. Þar má nefna ýmsar ávaxtategundir eins og epli, perur, ferskjur, apríkósur og fleira í þeim dúr. Einnig eru þar tveir ágætir hópar plantna sem þrífast með miklum ágætum á Íslandi og mætti nýta mikið meira en gert er en það eru rósir og reyniviður.

Aldin rósa nefnast nýpur og eru þær ákaflega C-vítamínríkar. Raunar hefur því verið haldið fram að upphaflega hafi rósir fyrst og fremst verið ræktaðar vegna aldinanna. Margar rósategundir framleiða mikið magn af nýpum hérlendis og alveg tilvalið að nota þær í sultur. Bragðið af hráum nýpum minnir mikið á appelsínur. Þegar nýpur eru notaðar í sultur þarf að hreinsa fræin úr nýpunum, þau eru frekar stór og hörð og leiðinlegt að hafa þau með í sultuna. Rósasulta er hins vegar ákaflega góð og margar uppskriftir til af henni.

     Reyniber eru til í mörgum litum og hafa menn lengi vel notað hin rauðu ber ilmreynis í sultur sem passa vel með villibráð og svínakjöti. Koparreynir og kasmírreynir eru hins vegar tegundir sem koma með hvít ber og eru þau ber alls ekki síðri í sultugerð en ilmreyniberin. Það skemmtilega við þessi hvítu ber er að sultan verður bleik eða rauð, sem kemur svolítið á óvart.

     Reyniberjasulta á það til að vera svolítið römm ef maður notar einungis reyniber í sultuna og til að mýkja bragðið og gera það mildara er gott að nota epli til allt að helminga á móti berjunum, þegar þau eru soðin niður. Uppskrift að svona sultu gæti verið 500 g reyniber, 500 g epli og 500-750 g sykur, allt eftir því hvað sultan á að vera sæt. Ber og epli soðin saman í svolitla stund í potti með ca botnfylli af vatni, gumsið svo síað í gegnum klút til að losna við hratið. Safinn er svo settur aftur í pott með sykri og soðinn þar til sykurinn hefur leyst upp. Stundum þarf að bæta hleypiefni saman við en ef maður sýður berjaklasana heila með eplunum fæst oft svolítið hleypiefni úr þeim. Hlaupið er svo sett á krukkur og þeim lokað strax. Nú er bara um að gera að prófa sig áfram með sultun á hvítum berjum.

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007)

Posted on

Blóm vikunnar með Gurrý: Skipting fjölærra plantna

Guðríður Helgadóttir

Það er mikill misskilningur að fyrstu haustlitirnir boði endalok garðvinnunnar það árið. Haustið hefur í för með sér ákveðin verk í garðinum, eins og reyndar allar aðrar árstíðir. Á þessum tíma þarf að setja niður haustlaukana og er mikilvægt að gefa sér góðan tíma í að velja saman blómlit, blómgunartíma og mismunandi tegundir til að vorið verði nú sem allra blómlegast. Garðyrkjumenn keppast við að gróðursetja plöntur á haustin enda er þetta mjög heppilegur tími í slík störf. Ekki þarf að hafa áhyggjur af því að plönturnar ofþorni, haustlægðirnar sjá alfarið um vökvunina og þar sem plönturnar eru komnar í dvala er lítil hætta á skakkaföllum. Eina vandamálið getur verið frostlyfting því plönturnar ná ekki alveg að festa rætur fyrir veturinn en þá er nú lítið mál að bregða undir sig betri fætinum í apríl og rétta greyin við.

     Eitt þeirra haustverka sem hafa mætti meira í hávegum er skipting fjölærra plantna. Fjölærar plöntur eru þeirrar náttúru að þegar vetur gengur í garð fella þær blöð og stöngla og liggja í dvala yfir veturinn. Þær geyma forða í rótum sínum yfir veturinn og ná þannig að vaxa upp að nýju að vori. Eftir því sem plönturnar stækka þá breiða þær úr sér, oftast út frá miðjunni. Með aldrinum deyr síðan elsti hluti plöntunnar og þá myndast eins konar hreiður í plöntunni og þykir það ekki sérlega lekkert. Þegar komið er á það stig þarf að taka plöntuna upp, skipta henni niður í nokkra hluta og gróðursetja einn þeirra aftur á sama stað, eða öðrum, allt eftir hentugleika og óskum viðkomandi garðeiganda. Þetta er alveg tilvalið að framkvæma að hausti til, svona rétt áður en plantan hefur endanlega fellt stönglana og blöðin og enn er hægt að greina hvaða tegund er um að ræða. Plantan hefur þannig náð að gleðja augað allt sumarið og gengur nú í endurnýjun lífdaga fyrir næsta sumar.

     Skipting fjölærra plantna er ekki flókið verkefni og tiltölulega óvanir garðeigendur geta framkvæmt þetta sjálfir, án vandræða. Til verksins þarf vel handklippur, beitta stunguskóflu, svartan plastpoka (liturinn er ekki skilyrði, aðallega stærðin), gott er að hafa tvo stungugaffla en ekki nauðsynlegt og síðast en ekki síst beittan hníf. Framkvæmdin er á þá leið að fyrst eru langir blómstönglar klipptir niður með handklippunum. Svarti plastpokinn er breiddur á stétt eða gras til að hlífa fletinum við moldinni. Því næst er stungið í kringum plöntuna með stunguskóflunni og hnausinn tekinn upp og settur á plastpokann. Þá er tvennt í stöðunni. Annars vegar er hægt að skipta hnausnum upp með því að stinga hann í sundur með stunguskóflunni. Með þessu er verið að skera á margar rætur og því kjósa sumir að nota heldur stungugafflana við þetta verk. Þá er göfflunum stungið niður þétt hvor við annan í miðjan hnausinn þannig að þeir snúa bökum saman og eru báðir uppréttir. Þeir eru síðan glenntir í sundur og hnausnum skipt þannig upp. Í sumum tilfellum geta ræturnar verið erfiðar viðureignar og þá er gott að grípa til hnífsins og skera á svoleiðis vandræðagripi. Eftir að skiptingin hefur farið fram velur garðeigandinn þann hluta sem hann vill gróðursetja aftur í beðið og hinum hlutunum er fargar eða komið í fóstur hjá öðrum garðeigendum.

     Gróðursetningin fer þannig fram að grafin er góð hola, lífrænn áburður settur í botninn á holunni og honum blandað vel saman við moldina. Þunnt lag af mold fer ofan á áburðarblönduna og þá má koma plöntunni fyrir. Síðan er mold mokað að plöntunni og þess gætt að hún standi álíka djúpt og hún gerði áður. Moldin er svo þjöppuð varlega og að lokum er vökvað vel yfir. Þessa aðferð má nota á flestar fjölærar plöntur. Nú er bara að skerpa stunguskófluna, hnífinn og handklippurnar og stökkva út í garð milli rigningarskúranna. Einnig má líta á þetta verkefni sem ágætis leið til að halda sér í formi og kostar það töluvert minna en líkamsræktarkortið…

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2005)

Posted on

Blóm vikunnar með Gurrý: ,,Frönsk ilmfjóla”

Guðríður Helgadóttir

Saga garðyrkju á Íslandi er ekki löng. Hún hefur, öðru fremur, einkennst af atorkusemi einstakra manna sem þrjóskuðust við það að rækta plöntur þrátt fyrir óblíð veðurskilyrði. Enn fremur máttu þessir menn glíma við ótrú almennings á því að gróður gæti yfirhöfuð þrifist á Fróni. Hlutur áhugafólks í garðyrkjusögunni er ómetanlegur. Ótölulegur aragrúi plöntutegunda hefur verið prófaður í görðum um land allt og sá fróðleikur sem þar hefur aflast hefur svo sannarlega skilað sér áfram til þeirra sem vinna við garðyrkju. Garðyrkjusaga Íslands er samtvinnuð sögu þessara áhugamanna en ekki síður er hún saga einstakra tegunda. Margar plöntutegundir í ræktun í dag eiga sér merkilega sögu. Ein þessara tegunda er nefnd því glæsilega nafni ,,frönsk ilmfjóla”.

     Við Suðurgötuna í Hafnarfirði býr Gunnar Ásmundsson bakari. Gunnar fékk ungur mikinn áhuga á garðyrkju. Á fjórða áratugnum starfaði hann í nokkur sumur í garðinum við Hellisgerði í Hafnarfirði. Segja má að þá hafi hann endanlega smitast af garðyrkjubakteríunni og eins og aðrir garðyrkjuáhugamenn vita, er þessi veiki ólæknandi. Hann hefur alla tíð ræktað garðinn sinn og verið ötull við það að breiða garðyrkjuboðskapinn út til gesta og gangandi.

     Árið 1953 áskotnaðist honum plantan sem hér verður fjallað um. Ingvar Gunnarsson kennari, sem þá starfaði í Hellisgerðisgarðinum, færði honum hnaus af því sem hann kallaði ,,franska ilmfjólu”. Fjóla þessi stendur í blóma allt sumarið og blóm hennar eru mjög stór af fjólu að vera eða 3-4 cm í þvermál. Fjólan nær um 20 cm hæð og verður feit og pattaraleg með aldrinum. Hún virðist ekki mynda þroskað fræ því hún sáir sér ekki eins og margar frænkur hennar. Fjólunni má fjölga á öruggan hátt með skiptingu eða sumargræðlingum. Gunnar hefur fjölgað henni með skiptingu og haldið tegundinni þannig við allt frá því hann eignaðist hana fyrir rúmum 40 árum. Á þeim tíma hefur hann einnig verið duglegur við það að gefa vinum og kunningjum af fjólunni og þannig hefur hún fengið dágóða útbreiðslu um höfuðborgarsvæðið. Nauðsynlegt er að skýla henni með léttu vetrarskýli á veturna því hún er dálítið viðkvæm. Aðalsmerki ,,frönsku ilmfjólunnar” er þó ilmurinn en hann er sætur og sterkur og berst langar leiðir. Hún á því þetta glæsilega nafn svo sannarlega skilið.

     Hitt er annað mál að í gegnum tíðina hefur mikið verið deilt um faðerni viðkomandi fjólu. Fjólan á greinilega fátt sameiginlegt með hinni eiginlegu ilmfjólu, Viola odorata. Fyrir það fyrsta eru blómin alls ekkert lík að lit og lögun og svo hefur ,,franska ilmfjólan” það fram yfir ilmfjóluna að blómin ilma. Blóm þeirrar frönsku eru einnig mun stærri en blóm hinnar. Líklegast er að ,,franska ilmfjólan” sé blendingur af fjallafjólu en í hópi slíkra blendinga má finna plöntur með blóm af svipaðri stærð og lögun og sú franska.

     Burtséð frá ættfræði fjólunnar er þetta einstaklega áhugaverð garðplanta. Langur blómgunartími og skrautleg blóm skipa henni í flokk með úrvalsplöntum. Það þykir ekki góð latína að láta syndir feðranna bitna á börnunum og því tel ég réttast að fjólan fái að halda ilmfjólunafninu, jafnvel þótt sýnt sé að hún hafi verið rangfeðruð.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 1998)

Posted on

Blóm vikunnar með Gurrý: Að njóta ávaxtanna

Guðríður Helgadóttir

Hvenær er kominn tími til að setjast niður og njóta ávaxta erfiðis síns? Er það þegar siggið á hnjánum eftir illgresishreinsunina er orðið nokkurra sentimetra þykkt? Er það þegar búið er að úða allan garðinn með dauðhreinsandi og strádrepandi efni þannig að ekkert kvikt trufli hvíldina? Er það þegar aspirnar í garði nágrannans skyggja ekki lengur á útsýnið því þær voru sagaðar niður í skjóli nætur? Er það þegar heita vatnið í heita pottinum hefur mýkt bakvöðvana, sem eru helaumir eftir kartöfluupptökuna, nægilega til að maður getur teygt sig hjálparlaust eftir hvítvínsglasinu á pottbarminum? Þetta eru auðvitað álitamál sem allir garðeigendur þurfa að spyrja sig að yfir sumarið því til hvers að eiga garð ef maður ætlar ekki að njóta hans líka?

     Garður er mjög fjölbreytt fyrirbæri. Hann er síbreytilegur eftir árstíðum, mánuðum, vikum og jafnvel dögum. Veður getur gerbreytt sólríkum og björtum garði í rennblautan fúlapytt á örfáum mínútum. Þessu hafa Danir og Englendingar komist að svo um munar að undanförnu. Garður fullur af litríkum blómstrandi blómum getur orðið einlitur grænn í nokkrum hressilegum vindhviðum. Það er því nauðsynlegt að njóta augnabliksins í garðinum því þau geta horfið í einni svipan og eiga ekki afturkvæmt.

     Ýmsir hafa komist að þeirri niðurstöðu að verkin í garðinum séu í raun hvíld í sjálfu sér, það að reyta illgresi eða slá blettinn rói hugann og komi skipulagi á hugsanirnar, auk þess sem líkamleg útrás fæst hugsanlega að einhverju leyti við þessa iðju, fer það þó mikið eftir því hvaða hjálpartæki menn velja sér við framkvæmdina. Aðrir kjósa að drífa leiðinlegu verkin af svo hægt sé að slaka á í græna unaðsreitnum og nú verður hver og einn að skilgreina leiðinleg verk fyrir sig sjálfan. Það að reyta arfa hefur löngum verið talið hundleiðinlegt starf og ákaflega niðrandi fyrir fullfrískt fólk að þurfa að standa í svoleiðis brasi. Þó er til fólk sem heldur því blákalt fram að því finnist hreinlega skemmtilegt að reyta arfa, hluti af ánægjunni sé að sjá árangur erfiðis síns að verkinu loknu.

     Sumar eins og við höfum fengið hér sunnanlands í ár gefur garðeigendum ótal tækifæri til að gleðjast yfir sælureitum sínum. Sólbrúnir landar standa við grillin sín í kvöldsólinni kvöld eftir kvöld og snara fram rétti úr garðávöxtum sem hafa sprottið upp eins og gorkúlur í hlýindunum. Mannlífið er sérstaklega gróskumikið og blómlegt þegar veðurguðirnir leika svona við okkur. Gróður landsins er þó misánægður með ástandið. Margar tegundir plantna blómstra nú sem aldrei fyrr og má þar nefna sýrenur og rósir hvers konar. Nýgróðursettar plöntur eiga hins vegar erfitt uppdráttar enda garðslöngur og vökvunartæki ýmiss konar löngu uppseld víðast hvar um bæinn og má til dæmis sjá skrælnaðar túnþökur víða um bæinn þar sem ekki hefur verið hægt að vökva þær sem skyldi.

     Það er ljóst eftir þau orð sem hér hafa farið að framan að verkefni þeirra vikna sem eftir lifa af sumri eru að njóta útiverunnar. Við eigum að tylla okkur niður í veðurblíðunni innan um gróðurinn (sem vonandi fær yfir sig nokkrar hressilegar gróðrarskúrir að næturlagi nokkrum sinnum á næstu vikum) og anda að okkur ilminum af sumrinu. Þannig njótum við best ávaxtanna af erfiði okkar í garðinum og hlöðum rafhlöðurnar fyrir veturinn sem enn er þó vonandi langt undan.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007)

Posted on

Blóm vikunnar með Gurrý: Sumargræðlingar

Guðríður Helgadóttir

Það eru tveir gallar við það að eiga risastóran garð. Fyrri gallinn er sá að maður er alltaf að reita arfa, sem er svo sem allt í lagi ef sólin skín og maður getur verið léttklæddur við þá iðju og unnið að brúnkusöfnun í leiðinni en því miður er nú sumarið oft á tíðum vætusamt og nauðsynlegt að brynjast pollagöllum og stígvélum gegn veðrinu. Einhvern veginn er það líka þannig að þegar rignir sprettur arfinn mikið betur en ella. Seinni gallinn er sá að plöntur eru alls ekki gefins, það mætti ætla að þeir sem framleiða plöntur vilji hreinlega fá eitthvað fyrir sinn snúð.. Það þarf líka nokkuð margar plöntur í stóran garð ef vel á að vera, helst þurfa þær líka að vera af aðskiljanlegustu tegundum því það er svo leiðinlegt að horfa upp á einhæfan garð, maður vill fá blóm og fínerí allt sumarið og engar refjar. Hér á eftir fylgir uppskrift að sparnaði í plöntukaupum og er ég viss um að hagsýnar húsmæður landsins eiga eftir að spreyta sig á uppskriftinni, það er að segja ef þær eru ekki uppteknar í nýjum lágvöruverðsmatvöruverslunum.

     Sumargræðlingar eru græðlingar sem eru teknir af plöntum í fullum vexti. Græðlingarnir eru því laufgaðir þegar þeir eru klipptir. Það skiptir talsverðu máli hvenær sumarsins græðlingar eru teknir, viðurinn í árssprotanum (nývextinum) þarf að vera orðinn sæmilega þroskaður en þó má hann ekki vera orðinn of trénaður, það tefur fyrir rótuninni. Þetta má kanna með því að grípa utan um árssprotann og beygja hann svolítið, ef það er dálítið fyrirstaða en samt sveigjanleiki þá er sprotinn á réttu stigi. Græðlingarnir eru klipptir þannig að lengd þeirra sé ekki meiri en u.þ.b. 15 cm en það fer eftir tegundum og því hversu langt er milli bruma. Oft er toppur græðlingsins ónothæfur vegna þess að hann er of linur og þá er hann bara klipptur frá. Neðstu blöð græðlingsins eru fjarlægð áður en honum er stungið í rótunarefnið og er það gert til að koma í veg fyrir að þau mygli í rótunarefninu og eyðileggi þannig græðlinginn.

     Rótunarefnið sem notað er þarf að vera nokkuð áburðarsnautt. Best er, í svona heimaræktun, að nota torfmosa (spaghnum) blandaðan með galdraefninu Hekluvikri. Einnig má nota sand í staðinn fyrir vikurinn. Aðaltilgangurinn með því að blanda sandi eða vikri saman við torfmosann er að tryggja það að það lofti nægilega um ræturnar á meðan þær eru að myndast og eftir að þær eru farnar að starfa. Hlutfall sands eða vikurs í blöndunni má vera á bilinu 30-70% og fer það svolítið eftir því hvað viðkomandi er duglegur að vökva yfir græðlingana, því meiri vikur, því meira þarf að vökva. Rótunarefninu er svo komið fyrir í bökkum, til dæmis er mjög sniðugt að nota bakka undan skógarplöntum. Áður en græðlingunum er stungið er gott að vökva yfir rótunarefnið.

     Græðlingunum er stungið niður í rótunarefnið, þannig að laufgaði endinn snúi upp… Hægt er að fá sérstakt duft, svokallað rótunarhormón, sem neðri enda græðlinganna er dýft í áður en þeim er stungið í bakkana. Þetta hormón hraðar rótarmynduninni en er ekki lífsnauðsynlegt til þess að árangur náist. Þegar bakkinn er fullur er vökvað létt yfir hann og honum komið fyrir undir hvítu, þunnu plasti. Bakkarnir þurfa að standa í góðu skjóli, t.d. í vermireit eða jafnvel inni í gróðurhúsi, þar til rótamyndun hefur átt sér stað og mikilvægt er að tryggja það að þeir þorni aldrei á meðan. Hvíta plastið heldur rakastiginu á græðlingunum háu, best er að það sé sem næst 100%. Í sólríku veðri þarf að taka plastið reglulega af og vökva yfir græðlingana, bæði til að halda rakanum og eins til að kæla þá niður.

     Hreinlæti er mjög mikilvægt við græðlingatökuna því græðlingarnir eru afar viðkvæmir fyrir sveppasýkingum á meðan á rótun stendur. Því þarf að þvo alla bakka og öll tól og tæki vel og vandlega áður en hafist er handa.

     Þær tegundir sem er auðvelt að eiga við og gaman að prófa heima hjá sér eru til dæmis blátoppur, margar tegundir kvista eins og birkikvistur, japanskvistir og perlukvistur, rifstegundir en þær þarf að taka snemma að sumrinu, í lok júní-byrjun júlí, runnamura en hana er hægt að taka lengi fram eftir sumri, margar víðitegundir og svo er auðvitað um að gera að gefa ræktunargleðinni lausan tauminn.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2002)

Posted on

Blóm vikunnar með Gurrý: Blómaskortur í Paradís

Guðríður Helgadóttir

Ungu hjónin sem keyptu gamalt raðhús á dögunum og fengu í kaupbæti yfirgróinn garð eru í óða önn við að koma sér inn í leyndardóma garðyrkjunnar. Þetta er talsvert meiri vinna en þau áttu von á í upphafi, þau eru komin með sigg í lófana, verki í hnén, þursabit í bakið og hælsæri eftir stígvélin en samt eru þau yfir sig ánægð með árangurinn. Auðvitað hafa hlutirnir ekki allir farið eins og til var ætlast, til dæmis hefur arfi látið á sér kræla í nýreyttum beðum, fíflar hafa stungið upp kollinum í grasflötinni og blómstönglarnir á fjölæru plöntunum hafa ekki þolað fótboltaleik barnanna en það alvarlegasta er að margar af skrautjurtunum hafa ekki blómstrað. Ungu hjónin hafa mikið velt vöngum yfir blómaskortinum í paradísinni sinni og hér á eftir fylgja nokkur góð ráð til hjónakornanna um helstu orsakir blómaskorts. Rétt er að geta þess að ekki er um tæmandi lista að ræða..

Hvers vegna blómstra plöntur ekki?

Allar blómplöntur hafa hæfileika til að blómstra, misskrautlega að sjálfsögðu en hverjum þykir sinn fugl fagur og ef hann gegnir sínu hlutverki þá er ekki yfir neinu að kvarta. Helstu ástæður fyrir því að plöntur blómstra ekki eru:

 • Of mikill skuggi – Allar blómplöntur þurfa beina sól að minnsta kosti hluta úr degi til að geta blómstrað. Plöntur eru missólelskar, sumar þurfa að standa í sól allan sólarhringinn en aðrar láta sér duga örfáa sólargeisla yfir daginn og þær eru ánægðar. Plöntur sem standa á of skuggsælum stöðum miðað við þær kröfur sem þær gera almennt til birtu blómstra miklu minna en efni standa til. Í svona tilfellum þarf að flytja plönturnar til og velja svo skuggþolnari plöntur á dimmu staðina.
 • Þurr jarðvegur – Þurrkur getur frestað blómgun plantna um þó nokkurn tíma. Of þurr jarðvegur í langan tíma gerir það að verkum að blómbrum og knúppar ná ekki að þroskast eðlilega, visna því og detta af. Að sama skapi veldur langvarandi þurrkur því að ber og önnur aldin ná ekki að þroskast. Þurrkur að sumarlagi getur líka valdið því að blómgun verður léleg árið eftir.
 • Röng klipping – Mikil klipping á röngum tíma árs veldur því að sumir runnar blómstra hreinlega ekki það árið að minnsta kosti. Vorblómstrandi runna á að grisja að vori og snyrta svo lítillega eftir blómgun en haustblómstrandi runna má klippa hressilega niður að vori.
 • Frostskemmdir á knúppum – Vorfrost geta leikið snemmblómstrandi plöntur grátt, knúpparnir frjósa í hel og ekkert verður af blómgun það árið.
 • Sjúkdómar – ýmsir sjúkdómar geta herjað á blómknúppa, t.d. sveppasjúkdómar og valdið því að blómin springa ekki út. Við þessu er ósköp lítið hægt að gera nema velja til ræktunar plöntur sem ekki eru viðkvæmar fyrir sjúkdómum.
 • Visnaðir knúppar – Knúppar sumra rósategunda ná aldrei að opnast almennilega í votviðratíð. Þetta er sérstaklega áberandi þar sem plönturnar standa í skjóli og svolitlum skugga þannig að vindur og sól ná ekki að þurrka knúppana milli skúra.
 • Fuglar – fuglar éta brum af plöntum á veturna. Blómbrum margra runna eru sérstaklega feit og pattaraleg og því ákaflega girnileg til átu. Slíkar átveislur koma hins vegar í veg fyrir það að runnarnir nái að blómstra sama ár.
 • Óþolinmæði – trjá- og runnategundir blómstra þegar þær hafa aldur til. Í sumum tilfellum þurfa tré að vera orðin 15-20 ára gömul áður en þau blómstra, eins og er tilfellið með fjallagullregn. Garðeigendur verða því að hafa þolinmæði til að bíða eftir blómskrúðinu sem lætur fyrst á sér kræla þegar plönturnar verða kynþroska.
 • Næringarástand – Sjaldan launar kálfurinn ofeldið. Plöntur sem hafa það allt of gott leggja gjarnan allan kraft sinn í vöxt og ekkert í blómgunina. Til þess að þær blómstri þarf að svelta þær svolítið eða jafnvel að stinga aðeins á rótakerfið, við það hrökkva þær í blómgírinn.

Vonandi geta ungu hjónin nú látið blómin tala í garðinum sínum.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2006)