Posted on

Valkvíði – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Valkvíði er hugarástand sem garðyrkjufólk um allan heim þekkir af eigin raun. Sumir eiga við þetta hugarástand að stríða allt árið um kring en aðrir fyllast valkvíða á ákveðnum árstímum. Janúar er einmitt dæmigerður valkvíðamánuður hjá þeim garðræktendum sem leggja stund á ræktun sumarblóma. Þetta kann að hljóma svolítið undarlega, sérstaklega þegar maður lítur út um gluggana heima hjá sér og sér snjóþekjuna yfir öllu, vindurinn gnauðar og skafrenningurinn læðir sér yfir landið. Þá þarf að hafa í huga að einbeittustu sumarblómaræktendur sjá ekki snjóinn og skafrenninginn í raun og veru, þeir hafa litskrúðug sumarblómabeð fyrir sínum hugskotssjónum, eru kannski langt komnir með að skipuleggja útlit beðanna, litasamsetningin er alveg að smella saman en tegundavalið er eftir. Þar komum við að valkvíðanum.

     Síðustu ár og áratugi hefur úrval af sumarblómategundum farið vaxandi. Notkun á sumarblómum hefur líka breyst mikið, áður fyrr lögðu menn meira upp úr hefðbundnum sumarblómabeðum en í dag er aukin áhersla á ræktun á þessum tegundum í ýmiss konar ílátum. Þetta hefur kallað á örlítið breyttar áherslur í sumarblómauppeldi, dæmigerðar beðplöntur eins og stjúpur, fjólur og morgunfrúr hafa dalað í vinsældum en pottaplöntur af ýmsum gerðum, svo sem hengitóbakshorn, snædrífa og brúðarstjarna aukið vinsældir sínar.

     Fjöldi litaafbrigða og yrkja með mismunandi vaxtarlag eru atriði sem eru kynbætendum sumarblóma augljóslega hugleikin. Ár hvert sjáum við nýjar gerðir af gömlu blómunum á markaði. Eitt árið kom fram nýr ljónsmunni sem var sérstaklega ætlaður í hengipotta enda var hann vaxinn eins og hengiplanta. Almennt eru ljónsmunnar annars teinréttir og geta orðið ansi hávaxnir. Fjólur eru annað dæmi um slíkar nýjungar í vaxtarlagi en hengifjólur voru ætlaðar í hvers manns pott fyrir örfáum árum. Þannig hafa kynbætendurnir komið fram með nýtt vaxtarlag á gömlum og þekktum tegundum til að svara aukinni eftirspurn eftir plöntum í ker og potta. Varðandi litina þá er allt undir í þeim efnum. Svartar stjúpur og fjólur voru ákaflega vinsælar eitt árið, KR-ingar keyptu þessar tegundir í miklu magni og gróðursettu með hvítum plöntum sömu tegunda, röðuðu þeim niður í huggulegar samsíða raðir og dáðust að merki íþróttafélagsins síns allt sumarið. Stundum hafa blóm í pastellitum verið ákaflega vinsæl og þá skiptir máli fyrir seljendur sumarblómafræja að hafa slík fræ á boðstólum, sumarblómaræktendur eru þrælar tískustrauma rétt eins og fatakaupendur á hverjum tíma.

     Þegar öllu er á botninn hvolft þá getur verið ansi erfitt að gera upp hug sinn gagnvart sumarblómunum. Hvar á maður að fá upplýsingar um það hvaða litir verði inni í sumar? Ekki vill maður eiga púkalegasta blómabeðið í bænum með liti sem voru kannski í tísku fyrir þremur árum og enginn meðvitaður sumarblómatískufrömuður lætur sjá í garðinum sínum. Svo er ekki eins og hægt sé að skipta um skoðun á miðri leið, það verður að sá til blómanna á réttum tíma svo þau blómstri nú einhvern tíma í sumar. Ætli miðilsfundir hjálpi?

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2008)

Posted on

Vetrargarðurinn – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Veturinn á Íslandi gengur í mínum huga í garð eftir jólin. Þegar búið er að taka jólaljósin niður og eftir standa naktar trjágreinar, ljóslausar og umkomulausar í vetrarmyrkrinu, þá er veturinn mættur á svæðið. Sumar trjágreinar bera sig þó betur en aðrar og komast vel frá viðureign sinni við veturinn. Þær halda sínu, hvernig sem viðrar. Þetta eru sígrænu greinarnar sem tilheyra þeim örfáu tegundum trjám og runna sem halda blöðunum allan veturinn. Grænn litur þessara greina gerir veturinn hlýlegri til muna og heldur í okkur voninni um vorið.

     Umhleypingar vetrarins gera sígrænum tegundum erfitt fyrir, sérstaklega hérna á suðvesturhorni landsins. Annars staðar á landinu, þar sem veturinn er stöðugri, eiga þessar tegundir auðveldar uppdráttar enda líkjast veðurskilyrði þar meira því sem þær eiga að venjast úr heimkynnum sínum. Sólfar á útmánuðum getur reynst sígrænum plöntum skeinuhætt, þá er oft á tíðum frost í jörðu og erfitt að ná í vatn. Þegar sólin skín á blöð plantnanna hitna blöðin og gufa út vatni til að kæla sig en þar sem jarðvegurinn er frosinn ná plönturnar ekki að bæta sér upp vatnstapið. Afleiðingarnar verða sviðin og skrælnuð blöð eða nálar. Til að forðast þetta er rétt að skýla ungum plöntum fyrir sólinni, fyrstu tvo til þrjá veturna. Nokkur sviðin blöð stöðva hins vegar engan í því að koma sér upp fallegum vetrargarði sem býður mann velkominn í grænan faðminn allt árið um kring.

     Við skipulagningu á vetrargarðinum þarf að hafa í huga stærð viðkomandi garðs. Á stóru svæði koma margar tegundir til greina sem eiga það sameiginlegt að verða hávaxnar og tignarlegar, þær þurfa líka gott pláss til að dafna vel. Í þessum hópi eru til dæmis sitkagreni (Picea sitchensis), hvítgreni (Picea glauca), stafafura (Pinus contorta) og bergfura (Pinus uncinata). Það er líka um að gera að reyna að sjá fyrir sér hversu þokkafullar plönturnar eru þegar þær eru hlaðnar nýföllnum snjó eða hvernig þær taka sig út alklæddar jólaseríum.

     Lágvaxnar sígrænar tegundir eru aftur á móti hentugri í litla garða eða í beð með öðrum lágvöxnum gróðri. Steinabeð eru ákaflega fallegur bakgrunnur fyrir slíkar tegundir auk þess sem grjótið veitir plöntunum hlýju því það hitnar á daginn og gefur frá sér varma á nóttunni þegar það kólnar smám saman. Nú hefur færst í vöxt að garðeigendur leggja áherslu á að við inngang húsa sinna sé fremur lágvaxinn gróður sem ekki skyggir á húsið sjálft og býður fólk velkomið. Sígræni gróðurinn skipar þarna stóran sess því hann gleður augað allan veturinn og græni liturinn færir okkur birtu og yl í svartasta skammdeginu.

     Í hópi lágvaxinna sígrænna tegunda eru til dæmis fjallafura (Pinus mugo var. mughus) og dvergfura (Pinus mugo var. pumilio) sem eru runnkenndar og fremur breiðvaxnar. Einitegundir eins og til dæmis íslenski einirinn (Juniperus communis), með sitt dökkgræna barr og himalajaeinirinn (Juniperus squamata), sá gráblái, auka fjölbreytnina í gróðurbeðunum til muna. Einnig mætti benda á dverghvítgreni (Picea glauca ‘Konica’) sem er ekki nema 1-2 m á hæð og áberandi keilulaga í vaxtarlagi og japansýr (Taxus cuspidata ‘Nana’) sem er dökkgrænn runni, um 1 m á hæð og breidd og skuggþolinn.

     Nú er um að gera að setjast niður og skipuleggja vetrargarðinn sinn þannig að hægt sé að planta í hann í sumar og gleðjast yfir honum næsta vetur.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2005)

Posted on

Snjóskemmdir – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Mér líður eins og ég búi í jólakorti þessa dagana. Jólasnjórinn fer reyndar greinilega ekki eftir sama dagatali og við hin, er svona um það bil mánuði á eftir áætlun en ekki verður annað sagt en jólalegt hafi verið um að litast á landinu bláa undanfarið. Eins og venjulega kemur snjórinn okkur Frónbúum algerlega í opna skjöldu. Það er eins og við séum öll nýflutt hingað frá Kanaríeyjum, ef miðað er við það hvernig bílar okkar eru útbúnir til aksturs í snjó, getu okkar til að keyra í hálku og fjölda umferðaróhappa á klukkustund á stórhöfuðborgarsvæðinu síðustu vikuna. Margir hafa líka greinilega ákveðið að nota einhvers konar skyggnigáfu við aksturinn, að minnsta kosti er það ótrúlega algengt að sjá snjóskafla á hjólum í umferðinni og undir hælinn lagt hvort það er einhvers konar útsýnisglufa á framrúðunni. Þetta kemur þó varla á óvart þegar haft er í huga að um helmingur landsmanna trúir á yfirskilvitleg fyrirbæri. Kannski umferðin sé slíkt fyrirbæri?

     Það er fátt fegurra en trjágróður hlaðinn púðursnjó. Ljósmyndarar af öllum gæðaflokkum skella sér í snjógallann og drífa sig út í mjöllina í þeim tilgangi að ná ódauðlegum ljósmyndum af fegurðinni. Sérstaklega eru sígrænar plöntur glæsilegar fyrirsætur við þessar kringumstæður. Snjórinn situr á greinum þeirra eins og hvít glassúr og greinarnar svigna fagurlega undan þunganum. Þetta kemur mjög huggulega út hjá tegundum eins og blágreni sem eru þaulvanar snjóálaginu, greinar þess standa nokkurn veginn lárétt út frá stofninum og heilmikill snjór getur þannig setið á greinunum án þess að trén beri nokkurn skaða af. Lauftré og runnar geta líka litið ákaflega fallega út þaktar snjó en yfirleitt dettur snjórinn fljótt af því flöturinn sem snjókornin geta náð fótfestu á er ákaflega lítill og vind þarf ekki að hreyfa mikið til að feykja snjókornunum út í buskann.

     Það eru þó ekki alltaf jólin og mjög fljótlega eftir að trjágróðurinn okkar skrýðist hinu hvíta dúnmjúka teppi dregur yfirleitt til tíðinda. Þau tíðindi geta verið af margvíslegum toga enda veðurfar með eindæmum dyntótt á Íslandi. Fyrst má nefna vindinn sem nær yfirleitt að hreinsa púðursnjóinn mjög fljótlega af trjágreinunum. Oft á tíðum rignir eða hlánar hressilega ofan í snjókomuna. Við það blotnar snjórinn og þyngist mikið og svigna greinar trjánna þá enn meira og bogna. Ef hlákan er almennileg ná trén að hreinsa sig af snjó og bíða engan skaða af en ef blautur snjórinn frýs bindast plönturnar klakaböndum sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir þær.

     Trjátegundir sem eru aðlagaðar miklum snjóþyngslum eru gjarnan með láréttar eða svolítið slútandi greinar, svona eins og blágrenið sem áður var nefnt. Þessi greinasetning plantnanna gerir það að verkum að snjórinn nær að renna fram af greinunum tiltölulega greiðlega og plantan skaðast ekki. Tegundir með hvasst greinahorn og mikið uppréttar greinar hins vegar eru ekki eins lukkulegar með snjóþyngslin. Þær hafa ekki aðlagast slíkum hremmingum að vetrarlagi og því er töluverð hætta á að greinar þessara tegunda hreinlega rifni af þegar snjórinn sligar greinarnar. Greinarnar hafa einfaldlega ekki þá sveigju að snjór geti auðveldlega runnið fram af þeim þegar fargið eykst.

     Það má því með sanni segja að fegurðinni komi ekki kvalalaust, þessi jólakortamynd sem við dáumst svo að er engan veginn hagstæð fyrir trén. Kannski ættum við bara að ganga í lið með vindinum og hrista trén duglega til að losa þau við þetta snjófarg?

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2008)

Posted on

Meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Þetta ákall um meiri snjó hljómar nú úr munnum garðyrkjumanna um land allt. Blessaður snjórinn hlífir viðkvæmum plöntum fyrir kuldanum, hann er eins og þykk ábreiða sem heldur hita á plöntunum okkar, þar til hlýnar og vorið stekkur fram á sjónarsviðið. Veturinn hefur verið sannkallaður vetur hingað til og er það ástand sem við erum orðin talsvert óvön. Undanfarnir vetur hafa verið mun umhleypingasamari og þar af leiðandi á margan hátt erfiðari plöntum en þessi vetur. Umhleypingar fara einmitt sérlega illa með plöntur. Það gilda í raun sömu reglur og í barnauppeldi, því meiri stöðugleiki því betra. Háttatíminn ætti að vera á sama tíma öll kvöld, máltíðir reglulegar og foreldrar samkvæmir sjálfum sér. Plöntur þurfa að fá að liggja í dvala yfir veturinn án þess að ótímabær hlýindi rugli þær í ríminu en jafnframt þarf að búa þannig að þeim að þær geti tekist á við það veðurfar sem veturinn býður upp á. Þess vegna viljum við meiri snjó.

     Garðyrkjumenn sýna snjónum á vissan hátt þakklæti sitt með nafngiftum á plöntum. Vissulega eru menn kannski ekki með það beint í huga þegar plöntur eru nefndar að verið sé að færa Vetri konungi sérstakar þakkir en það má alveg líta þannig á málin, svona þegar það hentar. Fjöldinn allur af plöntum hefur fengið nöfn sem við fyrstu sýn virðast ákaflega kuldaleg. Ýmist er þar verið að vísa til blómgunartíma viðkomandi plantna, sumar þeirra blómstra upp úr snjósköflunum snemma á vorin eða blómlitur plantnanna gefur tilefni til þess að nefna þær í höfuðið á snjó. Þannig er fannastjarna ákaflega fallegur vorblómstrandi laukur sem blómstrar fallegum ljósbláum og hvítum blómum snemma í maí. Við sjáum þó sjaldnast snjó á þessum árstíma en það kemur þó fyrir.

     Vetrargosi er aftur á móti mun fyrr á ferð, blómstrar stundum í febrúar-mars þegar vetur er sannanlega á ferð. Blóm vetrargosa eru hvít, lútandi og fremur smá en tegundin er mjög blómsæl og harðgerð, að minnsta kosti um sunnanvert landið. Vetrarblóm er innlend tegund sem einnig fer af stað upp úr hjarninu í apríl, þetta er lágvaxinn steinbrjótur sem blómstrar ákaflega fallegum bleikum blómum. Vetrarblómið myndar þéttar breiður og verður alveg þakið blómum á blómgunartíma sínum sem gerir það áberandi í annars litlausu umhverfinu.

     Margar tegundir eru kenndar við snæ, má þar nefna snæbreiðu sem er lágvaxin fínleg tegund sem myndar fallegar breiður. Hún sáir sér talsvert en er þó ekki til vandræða. Blómgunartími snæbreiðu er langur og þekja lítil blómin plöntuna þegar hún blómstrar. Snædrífa er tiltölulega nýlegt sumarblóm í ræktun á Íslandi. Tegundin er í raun fjölær en þolir ekki íslenskan vetur. Það má því kannski líta á nafngiftina sem kaldhæðni? Snædrífa er hengiplanta og hefur á skömmum tíma náð miklum vinsældum í ker, potta og hengikörfur. Blómin eru drifhvít og fara ákaflega vel við dökkgrænt lauf plöntunnar.

Trjátegundir hafa ekki farið varhluta af þessari stefnu í nafngiftum. Snækóróna er ákaflega vinsæll og blómviljugur runni sem blómstrar frekar stórum, ilmandi snæhvítum blómum um mitt sumar. Mjallarhyrnir er runni sem blómstrar hvítum blómum fyrri hluta sumars en er einkum skrautlegur á veturna þegar hárauðar greinar hans standa upp úr snjónum. Þar skapast skemmtilegar andstæður og er þessi runni einkum ræktaður vegna rauðs barkarlitar síns.

     Svo er hægt að spyrja hvort kuldaleg nöfn geri plönturnar harðari af sér?

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007)

Posted on

Fræ í frosti sefur – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Það kann að skjóta svolítið skökku við að tala um sumarblóm um miðjan janúar í miðjum hríðarbyl en höfundur þessa pistils treystir á ákaflega fjörugt ímyndunarafl þeirra sem lesa pistilinn, auk óbilandi trúar á það að öll él stytti upp um síðir. Janúar er nefnilega einmitt rétti tíminn til að fara að skipuleggja sumarblómaræktun ársins. Um þetta leyti streyma frælistar inn um bréfalúgur fyrirhyggjusamra garðeigenda sem vita að sumarið hefst í raun og veru í janúar, þetta er fólk með sól í hjarta, sól í sinni.

     Sumar tegundir sumarblóma þurfa frekar langan ræktunartíma áður en hægt er að gróðursetja þær úti við að vorinu. Þessar plöntur þarf því að forrækta og best er auðvitað að gera það í gróðurhúsum, þótt bjartir og svalir bílskúrar geti þjónað svipuðu hlutverki með prýðisárangri. Góðar gluggakistur geta líka dugað, svo framarlega sem hitinn er ekki allt of mikill. Þegar plássið er takmarkað er því nauðsynlegt að skipuleggja sig vel svo það nýtist best í ræktuninni og sumarblómadýrðin verði sem fjölbreyttust og glæsilegust.

     Það fyrsta sem maður gerir er auðvitað að fletta frælistanum sem nýlega datt inn um lúguna. Ef maður er svo ólánsamur að hafa ekki dottið í frælistalukkupottinn er tilvalið að bjóða sér í kaffi til einhvers sem býr svo vel að eiga frælista eða hreinlega að brokka í næstu fræverslun og missa sig í fræhillunum. Á hverju ári keppast fræframleiðendur við að koma upp með girnilegar nýjungar og að sjálfsögðu á maður að freistast til þess að prófa eins og eina eða tvær nýjar tegundir eða yrki á hverju ári, til þess eru freistingarnar að falla fyrir þeim…

     Mikilvægt er að velja tegundir til ræktunar þannig að ekki þurfi að sá til þeirra allra í einu. Tegundum sem þurfa langan ræktunartíma þarf að sá í janúar-febrúar og svo koma aðrar tegundir inn koll af kolli, síðustu sumarblómategundum er hægt að sá í byrjun maí. Þegar fyrstu tegundirnar hafa spírað vel upp er þeim dreifplantað í litla potta til að þær fái sæmilegt pláss til að þroskast og dafna. Fyrstu vikurnar standa plönturnar inni í gróðurhúsi eða gluggakistunni / bílskúrnum góða sem áður var rætt um og gæta þarf að því að þær fái næga birtu, ella spíra þær upp úr öllu valdi og verða langar, mjóar og veiklulegar. Upp úr byrjun apríl er hægt að fara að setja harðgerðar tegundir sumarblóma út í sólreit til herðingar. Nauðsynlegt er að hægt sé að breiða yfir plönturnar ef frystir, annars skemmast þær. Þegar fyrstu plönturnar fara út í herðingu skapast aukið pláss fyrir þær tegundir sem á eftir koma. Þannig nýtir maður plássið best í ræktunarrýminu með því að láta hverja tegundina taka við af annarri.

     Þeir sem virkilega láta greipar sópa um fræhillurnar komast kannski ekki yfir að sá öllu fræinu á einu ræktunartímabili. Ekki þarf að örvænta því margt fræ geymist auðveldlega milli ræktunartímabili. Það þarf bara að setja bréfpokana, sem fræið er geymt í, í loftþétta plastpoka, til dæmis rennilásapoka og geyma svo herlegheitin í ísskáp fram á næsta vor. Fræ allra algengustu sumarblóma geymist auðveldlega í nokkur ár, sé þess gætt að fræið sé þurrt, það sé í loftþéttum umbúðum og geymt við lágt hitastig.

     Farið nú að upplifa vorið og sumarið, góða skemmtun.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2006)

Posted on

Vetrarskýling sígrænna plantna – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Það hefur sennilega ekki farið fram hjá neinum að vetur er genginn í garð. Hupplegu húsfeðurnir standa úti við fjölskyldubifreiðarnar og skafa af bílrúðunum í morgunmyrkrinu á meðan hinir bíða innandyra meðan eiginkonan reddar málunum. Deilan um nagladekk hefur farið fram með hefðbundnum hætti en eitthvað hafa umræður um efnahagsmál þjóðarinnar skyggt á nagladekkjadeiluna, að minnsta kosti er hún ekki eins áberandi og í fyrra. Alvarlegt ástand í þjóðfélaginu virðist þó ekki ætla að draga úr skreytingagleði landans því jólaseríur spretta fram á ólíklegustu plöntum, manni virðist í sumum tilfellum hvert einasta uppistandandi strá í sumum görðum ljósum skrýtt. Það er auðvitað af hinu góða því ekki veitir okkur af því í svartasta skammdeginu að lýsa upp okkar nánasta umhverfi.

     Einbeittustu garðeigendur eru síður en svo komnir í jóladvalann. Þeir standa nú í stórræðum og undirbúa vetrarskýlingu á viðkvæmari plöntum. Ýmsar sígrænar tegundir þarf að skýla með striga á vormánuðum og gegnir striginn í raun og veru tvöföldu hlutverki. Annars vegar veitir hann plöntunum skjól gegn veðri og vindum og kemur í veg fyrir að nálar og börkur plantnanna skemmist af völdum ísnála sem berast hratt yfir með skafrenningi. Hins vegar skyggir striginn á blöð plantnanna og kemur þannig í veg fyrir að sólin nái að hita þau upp. Ungar sígrænar plöntur eiga einmitt oft í erfiðleikum á vorin þegar veður er kalt og bjart. Slíkt veður er ákaflega erfitt þessum plöntum því sólin skín á blöðin og hitar plöntuna upp. Til að kæla sig niður þarf plantan að gufa út vatni um blöðin en þar sem jarðvegur er frosinn ná plönturnar ekki að taka upp vatn úr jarðvegi í stað þess sem gufar út.

     Afleiðingarnar fyrir plönturnar verða þær að blöðin sviðna og kuldinn virkar þannig alveg eins og alvarlegur þurrkur. Þetta á sérstaklega við ungar sígrænar plöntur sem ekki eru komnar með djúpstætt og þroskað rótakerfi. Með aldrinum eiga plönturnar auðveldara með að glíma við þetta vandamál því rætur þeirra ná niður fyrir frostlagið í jarðveginum og þær geta því dregið upp vatn í stað þess sem gufar út. Striginn er því ákaflega heppilegt vetrarskýlingartæki. Settir eru niður staurar í kringum plöntuna sem á að skýla með striga og þeir látnir vera nokkuð hærri en plantan. Þetta er best að gera áður en jarðvegurinn frýs og um að gera að ráðast í þennan hluta verksins sem allra fyrst. Striginn þarf ekki að fara á staurana strax. Þeir sem vilja hafa jólaljósin ríkjandi fram yfir áramót bíða bara með að setja strigann á staurana þar til eftir þrettándann. Sólin sést hvort eð er ekkert að gagni fyrr en seinna í janúar eða í febrúar og gerir lítinn usla á plöntum á þessum tíma. Mestu skemmdirnar verða yfirleitt seinna í febrúar fram í mars þegar birtir en frost er ekki farið úr jörðu.

     Striginn er þó ekki eini möguleikinn sem við höfum á vetrarskýlingu plantna þótt hann sé kannski heppilegur kostur fyrir uppréttar plöntur. Ef um jarðlægar eða lágvaxnar sígrænar plöntur er að ræða er alveg tilvalið að taka grenigreinar og leggja þær ofan á plönturnar. Gott er að festa skýlingargreinarnar niður með járnlykkju sem nær 30-40 cm niður í jarðveginn. Það kemur í veg fyrir að greinarnar fjúki af plöntunum þegar síst skyldi. Þetta er ágætt að gera þegar grenibúntin hafa lokið hlutverki sínu sem jólaskraut og þannig má sýna hagsýni á krepputímum.

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2008)

Posted on

Jólablómið – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Einhvern veginn kemur það manni alltaf jafn mikið á óvart að jólin séu rétt handan við hornið, þau sem eru nýliðin. Manni finnst eins og síðustu jól hafi verið í gær, jafnvel þótt skynsemin segi manni að frá síðustu jólum hafi verið haldið upp á páskana, landsmenn komist óvenjumikið á skíði síðasta vetur, sumarið verið óvenju sólríkt og hlýtt og haustið eitt samfellt bálviðri. Samt voru jólin eiginlega í gær.

     Það eru ákveðnir kostir fylgjandi þessum árstíma sem við garðafólk erum sérlega ánægð með. Daginn tekur að lengja um jólaleytið og það er vísbending um að vorið sé á næsta leyti. Það er reyndar með vorið eins og jólin að eftir því sem árin líða virðist alltaf styttra á milli vora. Kannski eru þetta gróðurhúsaáhrifin sem valda því að vorið lengist og við fáum því vor örlítið fyrr á hverju ári? Aðrir kostir fylgjandi jólaárstíðinni eru jólaljósin. Það er ekki til svo rytjulegur runni í görðum landsmanna að hann verðskuldi ekki eins og eina til tvær jólaseríur til skrauts á þessum árstíma. Það verður kannski með runnana eins og börnin að runnarnir fari í jólaköttinn fái þeir ekki seríu? Jafnvel skriðmisplar, sem eðli sínu samkvæmt standa ekki mikið upp úr jörðinni, hafa verið svo lánsamir að fá að skarta jólaljósunum.

     Nú er svo komið að efnaðir Íslendingar (sem fer víst fjölgandi ár frá ári) eyða fleiri hundruð þúsundum, jafnvel milljónum í jólaskraut í görðum sínum. Garðyrkjufyrirtæki hafa sérhæft sig í að hanna og setja upp glæsilegar jólaljósasýningar fyrir fyrirtæki og einstaklinga og rafmagnsnotkun Íslendinga nær áður óþekktum hæðum og var nú ekki lítil fyrir. Dagurinn er stuttur og jafnvel dimmur og drungalegur á aðventunni þegar síðbúnar haustlægðir skemmta með tilheyrandi blæstri en við blásum á myrkrið og lýsum það upp með jólaljósunum.

     Vonandi eru sem flestir búnir að útvega sér jólatré þegar þessi pistill birtist. Því miður hefur brugðið svo við á undanförnum árum að skortur hefur verið á jólatrjám í landinu, þrátt fyrir að skógræktarfélög víða um land hafi opnað skógarreiti sína og heimilað fólki að fara og höggva sitt eigið tré til jólanna. Mér finnst þessi siður, að öll fjölskyldan skundi saman út í skóg með sög og sagi niður sitt eigið tré, mjög skemmtilegur og heyri af æ fleirum sem líta á þetta sem nauðsynlegan hluta af jólaundirbúningnum.

     Fjölskyldumeðlimir ná sterkari tilfinningatengslum við jólatréð þegar þeir hafa sjálfir séð um að höggva það. Ég er ekki viss um að almenningur hefði álitið þetta möguleika fyrir 50 árum, þótt skógræktarfólk hafi kannski alltaf haft þá hjartans sannfæringu að skógur yrði bara nokkuð algengur á Íslandi í framtíðinni. Ég er sjálf ein þeirra sem fer út í skóg með fjölskylduna mína og sög í hendi og leiðbeini eiginmanninum nákvæmlega um það hvaða tré hann á að saga niður. Hann tekur leiðbeiningum um val á tré á mjög jákvæðan hátt en þegar ég fer að segja honum til við sögunina sjálfa er hann ekki eins jákvæður, telur að hann hafi í ljósi menntunar sinnar sem trésmiður meiri þekkingu á aðferðafræði sögunar… Við ætlum að sæta lagi milli haustlægðanna og ná okkur í stafafuru til jólanna, þær bera með sér ilminn af jólunum.

     Gleðileg jól!

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007)

Posted on

Grjón og greni – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Nú þegar Vetur konungur heilsar með úrhellisrigningu og dagurinn styttist verulega í annan endann er ósköp lítið hægt að dunda sér úti í garði. Garðar landsmanna minna grunsamlega mikið á hrísgrjónaekrur þessa dagana og kannski væri það bara ágætis afþreying svona á síðbúnum haustdögum að gera tilraunir með ræktun hrísgrjóna í þessum drullupollum sem garðarnir okkar eru núna. Vissulega gæti lágt lofthitastig haft neikvæð áhrif á vöxt hrísgrjónaplantnanna en maður á ekki að láta svartsýnisraddir draga úr sér kjarkinn. Fyrir hina sem alls ekki hafa neinn áhuga á hrísgrjónaræktun er mun skynsamlegra að fara að velta því fyrir sér hvernig jólatréð á að líta út í ár.

     Ef við göngum út frá því að lesendur þessarar greinar muni velja sér lifandi tré þá er ekki úr vegi að skoða aðeins þær grenitegundir sem mögulegt er að hafa sem jólatré. Rauðgreni, Picea abies, var í eina tíð mjög vinsælt jólatré hjá landanum og er enn víða í nágrannalöndum okkar. Rauðgrenið er þéttvaxið, með fremur stuttar, fagurgrænar nálar sem stinga lítið sem ekkert og fínlegar greinar. Það er ákaflega formfagurt tré og þar sem það vex fremur hægt við íslenskar aðstæður verður það enn þéttara fyrir vikið. Sem jólatré er þetta því mjög hentug tegund því það er nóg af greinum til að hengja jólaskrautið á. Því miður hefur rauðgreni fengið það orð á sig sem jólatré að það sé langt frá því að vera barrheldið, nálarnar byrji að hrynja af trénu þegar það heyrir í farartæki skógarhöggsmannanna á leið í skógarhöggið. Þetta er nokkuð orðum aukið því sé vel hugsað um tréð á meðan það stendur uppi í stofunni heldur það barrinu alveg ágætlega. Með góðri umhirðu er hér átt við að neðri endanum á jólatrénu sé stungið niður í heitt vatn í nokkrar mínútur áður en trénu er komið fyrir í jólatrésfætinum. Jafnframt þarf að gæta þess að vökva tréð reglulega yfir jólahátíðina.

     Sitkagreni, Picea sitchensis, er allt mun grófara í vaxtarlagi en rauðgrenið. Nálar sitkagrenis eru tvílitar, dökkgrænar á efra borði og ljósblágrænar á neðra borði. Þær eru mjög stingandi og því gæti þurft að kalla á fakír til að aðstoða við jólaskreytingarnar. Sitkagreni vex mun hraðar en rauðgreni og er með heldur grófari og þykkari árssprota. Þetta skilar sér í grófara vaxtarlagi og gisnari jólatrjám þar sem aðalgallinn er fólginn í frekar fáum greinum fyrir jólakúlurnar og jólaljósin. Sitkagrenið getur verið ágætlega barrheldið sé hugsað vel um það, eins og rauðgrenið hér að ofan. Skemmst er frá því að segja að sitkagreni er ekki mjög vinsælt sem jólatré, eins og sakir standa.

     Blágreni, Picea engelmannii, hefur verið að sækja í sig veðrið sem jólatré síðustu ár. Það er hægvaxta við íslenskar aðstæður og hefur því frekar þétt vaxtarlag sem skilar sér í mörgum jólakúlubærum greinum. Nálar blágrenis eru blágrænar að lit og ákaflega mjúkar. Ysti endi greinanna er líka fremur lútandi sem gerir plöntuna þokkafulla í vaxtarlagi. Blágreni er barrheldið en vissulega þarf að hugsa vel um það, eins og önnur afskorin tré.

     Sumum kann að virðast það fullsnemmt að fara að velta jólatrjánum fyrir sér en ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Nauðsynlegt er að taka vel ígrundaða ákvörðun um það hvaða jólatré verði fyrir valinu í ár, það dugir alls ekki að kasta til höndunum í þessu skyni. Hvort tréð er greni, fura, þinur eða eitthvað allt annað skiptir svo sannarlega máli. Jólatré eru punkturinn yfir i-ið á jólunum og allir fjölskyldumeðlimir ættu að hafa skýra og mótaða skoðun á trénu. Næsta skref er að hafa samband við starfsmenn nærliggjandi skógar og kanna hvort ekki sé mögulegt að maður geti fengið að höggva tréð sjálfur. Þá er tímabært að fara að brýna kutana…

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007)

Posted on

Askur, Fraxinus excelsior – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Askur, Fraxinus excelsior, er merkilegt tré. Askurinn er af smjörviðarætt, Oleaceae og á heimkynni suður um Evrópu frá Noregi og allt austur í Asíu. Hann er hávaxinn og myndarlegur, verður allt að 40 m á hæð í heimkynnum sínum og hefur breiða krónu. Börkurinn er ljós yfirlitum og gerir það að verkum að dökk, hér um bil kolsvört brumin verða mjög áberandi að vetri til, sérstaklega endabrumin því þau geta verið afar stór. Blöðin eru stakfjöðruð og minna í fljótu bragði á blöð reyniviðar. Askurinn laufgast seint. Blómgunartíminn er á vorin fyrir laufgun en hann hefur enn sem komið er ekki blómstrað hérlendis. Aldinið er hneta með 3-4 cm löngum væng og eru hneturnar nokkrar saman í knippi. Knippin hanga á trénu fram á vetur og minna á ótal lyklakippur. Aski er aðallega fjölgað með sáningu en ræktunarafbrigðum er fjölgað með ágræðslu. Hann getur orðið allt að 400 ára gamall. Haustliturinn er gulur.

     Askurinn er þurftafrekur og þarf djúpan, rakaheldinn, frjóan og kalkríkan jarðveg auk þess sem hann þarf gott vaxtarrými. Þetta er verðmætt viðartré og er viður asksins þekktur fyrir sveigjanleika, styrk og seiglu. Til marks um það má nefna að viðurinn var notaður í hestvagna og hús fyrstu yfirbyggðu bílanna. Talið er að fyrstu skíðin hafi jafnframt verið úr askviði. Í dag er viðurinn einkum notaður í húsgögn, verkfæri og ýmiss konar íþróttavarning.

     Askur hefur verið ræktaður á Íslandi í rúmlega 100 ár en sú ræktun hefur aldrei orðið umfangsmikil. Hann hefur átt erfitt uppdráttar hérlendis því hann þarf talsvert meiri hita og skjól en almennt hefur verið í boði á Íslandi. Þó má finna einstaka plöntur í grónum og skjólgóðum görðum sunnanlands, hann þrífst tæpast annars staðar á landinu. Í Múlakotsgarðinum í Fljótshlíð er stór og glæsilegur askur, hugsanlega sá stærsti á landinu enda eru skilyrði þar óvenju góð á íslenskan mælikvarða. Askurinn laufgast yfirleitt ekki fyrr en undir miðjan júní en nær yfirleitt að fella laufið tímanlega á haustin. Þó getur hann orðið fyrir haustkali.

     Eins og áður sagði er askurinn tré með fortíð. Í norrænni goðafræði lék askur Yggdrasils lykilhlutverk því hann sá um það að halda himinhvelfingunni uppi og greinar hans breiddu sig út yfir alla heimsbyggðina. Hann naut því sérstakrar virðingar meðal norrænna manna. Ræktunarsaga asksins í Evrópu er löng því hann var gjarnan ræktaður við mannabústaði vegna þokkafulls vaxtarlags og þeirra viðarnytja sem hafa mátti af honum.

     Viðurinn er ekki það eina sem menn hafa nýtt af askinum. Askurinn var nýttur í lækningaskyni til að vinna bug á ýmsum kvillum. Te af blöðunum var drukkið sem hægðalyf, notað til meðhöndlunar á sýkingu í nýrum og þvagfærum og til að hrekja út sníkjudýr í meltingarveginum. Útvortis voru blöðin notuð í bakstra eða böð til að meðhöndla sár sem vætlaði úr. Börkurinn var svo notaður í stað kíníns til að lækka sótthita.

     Ýmiss konar hjátrú hefur verið tengd askinum. Þeir sem eru illa hrjáðir af vörtum geta til dæmis reynt eftirfarandi aðferð: Takið dálitla sneið af beikoni, komið henni fyrir undir berkinum á aski og mun þá myndast nokkurs konar hrúður á berkinum. Þegar sárið grær hverfa vörturnar. Askurinn getur líka hjálpað þeim sem þjást af almennri taugaveiklun. Það eina sem þarf að gera er að klippa lítinn bút af nögl hvers fingurs og hverrar táar auk svolítils lokks af hári. Næsta sunnudagsmorgunn á að fara á fætur fyrir sólarupprás og bora litla holu í stofn fyrsta asktrés sem viðkomandi finnur. Neglurnar og hárið eru sett í holuna og holunni lokað og taugaveiklunin heyrir sögunni til. Aðrir kvillar sem askurinn var talinn vinna á voru til dæmis eyrnaverkur, gyllinæð og getuleysi.

     Þessi goðsagnaplanta hefur lítið verið gróðursett á Íslandi undanfarna áratugi. Auk gömlu trjánna sem áður var minnst á, má finna eina og eina unga plöntu í görðum mjög áhugasamra garðræktenda. Hugsanlega væri hægt að rækta meira af aski á Íslandi ef rétt kvæmi kæmu til sögunnar. Í því sambandi hafa menn einkum einblínt til Noregs því þar þrífst askurinn vel allt norður í Þrændalög, alveg að 63°40’ n.br. og því kannski mögulegt að finna kvæmi sem henta við íslenskar aðstæður. Auk þess að vera skemmtileg viðbót við þær trjátegundir sem nú þegar eru ræktaðar á Íslandi gæti askkvæmið gert sitt til að minnka almenna taugaveiklun í íslensku samfélagi…

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2001)

Posted on

Álmur – Ulmus glabra – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Álmurinn, Ulmus glabra, er af álmsættinni, Ulmaceae, og er eina tegundin af þeirri ætt sem eitthvað hefur verið ræktuð að ráði á Íslandi. Heimkynni álmsins eru á Bretlandseyjum og í Mið-Evrópu allt austur til Litlu-Asíu. Álmurinn teygir sig líka norður eftir Evrópu til Noregs en þar má finna stæðileg álmtré allt norður á 67° norðlægrar breiddar (við Beiarn í Norður-Noregi). Hann vex gjarnan í blönduðum laufskógum innan um eikur og aska og hefur ekki þétta útbreiðslu, minnir þannig dálítið á íslenska ilmreyninn sem má finna stakan innan um birkitrén. Álmurinn heldur sig gjarnan í fjallshlíðum og á hæðum í heimkynnum sínum en síður á láglendi.

     Álmur getur orðið allt að 200 ára gamall og um 40 m hár í heimkynnum sínum en hérlendis hefur hann náð 12-13 m hæð sums staðar í Reykjavík. Þetta er ýmist einstofna eða margstofna tré með gildan stofn og mjög stóra og hvelfda krónu sem virðist fremur dökk yfirlitum. Börkurinn er sléttur í fyrstu en með aldrinum verður hann áberandi langsprunginn og dökkur á lit. Blómgunartími álmsins er að vorinu, rétt fyrir laufgun. Blómin eru gulgræn í þéttum klösum. Aldinið er lítil hneta með væng sem nær allan hringinn í kringum hnetuna og þroskast aldinin tiltölulega snemma á trénu. Fræið situr nokkurn veginn í miðju vængsins. Haustlitur álmsins er fagurgulur.

     Stærð álmsins gerir það að verkum að hann þarf rúmgóðan vaxtarstað. Jarðvegur þarf að vera djúpur og frjór og sæmilega rakur til að tréð dafni sem best. Erlendis er það talinn einn af kostum álms að rótakerfi hans er djúpstætt og því lítil hætta á því að hann fjúki um koll í hvassviðri. Þetta er vafalaust líka kostur fyrir álm á Íslandi. Álmurinn getur vaxið hratt á unga aldri og er honum þá dálítið hætt við haustkali hérlendis. Fullorðin tré sem vaxa hægar kelur síður. Í uppvextinum þolir álmur talsverðan skugga en vill að öllu jöfnu sæmilega bjartan vaxtarstað.

     Fjölgun á álmi er aðallega fræfjölgun og fer hann að mynda fræ þegar hann er um 30-40 ára gamall. Fræið spírar strax og hefur lítið geymsluþol. Til eru ýmis ræktunarafbrigði erlendis sem fjölgað er með ágræðslu. Hérlendis er honum einungis fjölgað með fræi. Bannað er að flytja lifandi álm inn til Íslands vegna sjúkdóms sem hefur herjað á álmtegundir í gervallri Evrópu og hefur lagt að velli allt að 98% álmtrjáa í sumum löndum. Sjúkdómur þessi nefnist álmsýki (Dutch Elm Disease) og hefur slíkur faraldur geisað um Evrópu síðustu áratugi. Sjúkdómurinn er af völdum svepps, Ceratocystis ulmi, sem dreifist á milli plantna, að hluta til milli samgróinna róta álmplantna en aðallega með barkarbjöllu af ættkvíslinni Scolytus spp. Sveppurinn leggst á leiðsluvefi plantnanna og kemur þannig í veg fyrir eðlilega næringaröflun með þeim afleiðingum að plönturnar veslast smám saman upp. Ekki hefur fundist nein lækning við þessum sjúkdómi og eina ráðið sem menn hafa í baráttunni í dag er að reyna að velja til ræktunar plöntur sem hafa mótstöðu gegn sjúkdómnum. Álmsýki hefur ekki orðið vart á Íslandi og er vonandi að okkur takist að komast hjá því að fá þennan óboðna gest til landsins. Einungis má flytja inn álmfræ til Íslands frá ósýktum svæðum.

     Álmlús er óværa sem leggst á álminn og hefur fundist hérlendis. Lúsin yfirvetrast í berki álmsins. Að vori klekjast út kvendýr sem halda sig á neðra borði blaðanna, sjúga þar næringu úr blöðunum og gera það að verkum að blöðin verpast og krumpast. Afkvæmi þessara kvendýra fara yfir á sólber og rauðrifs og fá næringu úr rótum runnanna. Þeirra afkvæmi fljúga svo aftur yfir á álminn þegar líður á sumarið, fjölga sér enn frekar og síðustu kvendýr sumarsins verpa eggjum sínum í börk álmsins að mökun lokinni. Álmlúsin er aðgangshörð og fer stundum verulega illa með þau tré sem hún leggst á.

     Viður álmsins er litríkur og talinn mjög fallegur. Kjarni trjábolsins er rauðbrúnn og ytri hluti hans er gulhvítur. Viðurinn er sveigjanlegur og hentar vel í ýmiss konar húsgögn og verkfæri og jafnvel í parket. Af þeim sökum er þetta eftirsóttur viður en framboðið er þó ekki mjög mikið.

     Álmur hentar vel bæði sem stakstætt tré í stórar lóðir eða í klippt limgerði. Hann tekur klippingu vel og má jafnvel klippa hann alveg niður til endurnýjunar ef limgerðið verður gisið. Álmlimgerði finnast á nokkrum stöðum í Reykjavík og þrífast með ágætum. Álmur þolir seltu sæmilega vel og er ágætlega vindþolinn. Þetta er tegund sem mætti nota til að auka fjölbreytni í íslenskum görðum og er álmurinn oftast fáanlegur í gróðrarstöðvum.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2001)