Posted on

Heilsubótar- og fræðsluganga 15. júlí

Næsta heilsubótar- og fræðsluganga Garðyrkjufélagsins í tilefni af 140 ára afmæli félagsins verður gengin þann 15. júlí.

HveragerðiÁrný Guðfinnsdóttir, garðyrkjustjóri Hveragerðisbæjar, leiðir göngu um Lystigarðinn og nágrenni hans í Hveragerði. Mæting er við innganginn í Lystigarðinn og hefst gangan kl. 17.

Gangan tekur um klukkustund og er öllum opin.

Bestu kveðjur frá Garðyrkjufélaginu.  

Posted on

Norræna rósahelgin 8. – 10. ágúst 2025

Þema:  „Rósir, loftslag og samfélag“

Kæru félagar í Rósaklúbbi Garðyrkjufélags Íslands. Norræna rósahelgin verður haldin á Íslandi dagana 8. – 10. ágúst í sumar. Þetta er einstakur viðburður fyrir íslenska rósaræktendur og gefst ykkur nú kostur á að taka þátt í þessum viðburði með því að skrá ykkur.

Fjölmörg áhugaverð erindi um rósarækt verða á dagskrá, heimsóttir verða einkagarðar og opinberir rósagarðar á stór-Höfuðborgarsvæðinu (þ.e. í Reykjavík, Mosfellsbæ, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði). Farið verður í dagsferð um Suðurland þar sem skoðaðir verða einkagarðar og garðyrkjustöðvar og landið skoðað í leiðinni. Kvölddagskrá verður föstudagskvöld í Grasagarðinum og á laugardagskvöld verður hátíðarkvöldverður á Grand Hótel.

Að ráðstefnunni lokinni verður boðið upp á ráðstefnuferð um Vestur- og Norðurland dagana 11.-13. ágúst. Farið verður með rútu norður og einkagarðar skoðaðir á Vesturlandi og síðan gist á miðri leið norður. Daginn eftir verður ekið til Akureyrar og farið í Lystigarðinn sem er alveg einstakur heim að sækja. Gist verður á Akureyri aðra nótt og ekið yfir Kjöl til baka til Reykjavíkur.

Kynnið ykkur dagskrá ráðstefnunnar og nánari lýsingu viðburða. Við hvetjum ykkur til að láta þennan viðburð ekki framhjá ykkur fara. Norræna rósahelgin á Íslandi var síðast haldin sumarið 2012 í einstaklega góðu og hlýju veðri þar sem rósirnar skörtuðu sínu fegursta.

Slóðin á skráningarformið er:  Norræna rósahelgin – Garðyrkjufélag Íslands.  (Athugið: Þegar atriði hafa verið valin í körfuna þá þarf að skoða körfuna og staðfesta skráninguna með greiðslu).

Ávinningur með þátttöku: Þið fræðist um rósarækt, skoðið hvernig aðrir haga sinni ræktun, fáið tækifæri til að deila ykkar þekkingu og reynslu meðal ráðstefnugesta og getið myndað ævilöng vinasambönd þvert á landamæri.

Norræna rósahelgin er viðburður sem haldinn er annað hvert ár af Norræna rósafélaginu og aðildarfélögum þess á Norðurlöndum. Viðburðurinn færist á milli Norðurlandanna fimm: Svíþjóðar, Íslands, Finnlands, Noregs og Danmerkur.

Hefjum rósina til vegs og virðingar – Mætum öll 🙂 

Posted on

Njarðvíkurskógur

Þann 24. júní síðastliðinn leiddi Berglind Ásgeirsdóttir, garðyrkjustjóri Reykjanesbæjar, heilsubótar- og fræðslugöngu um Njarðvíkurskóg. Njarðvíkurskógur er fjölbreytt og áhugavert útivistarsvæði í útjaðri Njarðvíkur (Reykjanesbæjar). Góðmennt var í göngunni enda blíðskaparveður. Garðyrkjufélagið þakkar göngustjóra fyrir leiðsögnina og gestum fyrir komuna.

Posted on

Fjölmenni í Grasagarðinum

Fjölmenni var í kvöldgöngu í Grasagarði Reykjavíkur þann 24.júní en gangan var í samstarfi Grasagarðsins og Garðyrkjufélagsins og  ein af heilsubótar- og fræðslugöngum sem gengnar eru í sumar í tilefni af 140 ára afmæli félagsins. Göngustjóri var Guðríður Helgadóttir, formaður GÍ og henni til halds og trausts voru starfsmenn garðsins, þau Hjörtur Þorbjörnsson, forstöðumaður, Björk Þorleifsdóttir, fræðslu- og kynningarstjóri og Hjördís Rögn Baldursdóttir garðyrkjufræðingur. Ríflega 300 gestir mættu í gönguna í hellirigningu og nutu leiðsagnar um elsta hluta garðsins. Garðyrkjufélagið þakkar Grasagarðinum kærlega fyrir gestrisnina og gestum fyrir komuna.

Posted on

Vel heppnuð ganga um Hlíðargarð

Heilsubótar- og fræðsluganga GÍ í Kópavogi þann 24. júní var vel sótt en um 70 gestir mættu til leiks. Því miður forfallaðist göngustjórinn Friðrik Baldursson garðyrkjustjóri Kópavogs en þau Kristján Friðbertsson og Guðríður Helgadóttir hlupu í skarðið og leiddu göngu í Hlíðargarð. Nokkrir göngugestir deildu skemmtilegum minningum úr garðinum, þar á meðal Marteinn Sigurgeirsson kennari, sem hefur skráð ýmsa þætti úr sögu bæjarins, meðal annars með kvikmyndum sínum. Garðyrkjufélagið þakkar gestum kærlega fyrir komuna og sögurnar og göngustjórum fyrir leiðsögnina.

Posted on

Heilsubótar- og fræðsluganga í Hólavallagarði

Fyrsta heilsubótar- og fræðslugangan í tilefni 140 ára afmæli GÍ var gengin í Hólavallagarði þann 10. júní. Göngustjóri var Heimir Björn Janusarson, skrúðgarðyrkjumaður og umsjónarmaður garðsins. Tæplega 50 gestir gengu um garðinn í blíðskaparveðri og nutu fróðlegrar og bráðskemmtilegrar leiðsagnar Heimis. GÍ þakkar Heimi kærlega fyrir skemmtunina og fróðleikinn og gestum fyrir komuna.

Posted on

Plöntuskiptadagur að vori 2025

Laugardaginn 31.maí í portinu bak við Bókasafn Kópavogs frá kl.12-14

Að venju stendur Garðyrkjufélagið fyrir plöntuskiptadegi að vori þar sem félagar geta komið með plöntur til að láta og fá aðrar í staðinn. Eins og undanfarin ár verður viðburðurinn við Bókasafn Kópavogs þar sem aðstaða er prýðisgóð.

Takið litlu sjálfsánu plönturnar ykkar til hliðar og gefið þeim nýtt heimili með plöntuskiptum🌼 

Garð- og stofuplöntur, tré, fræ og græðlingar🌱🌸🌲 Skemmtilegast er svo garðyrkjuspjallið☺️

Posted on

Aðalfundur GÍ 2025

Aðalfundur Garðyrkjufélags Íslands verður haldinn miðvikudaginn 9. apríl nk. kl. 19:30 í sal GÍ að Síðumúla 1 (gengið inn frá Ármúla).

Dagskrá aðalfundar:

  1. Fundarsetning
  2. Kosning fundarstjóra og ritara
  3. Skýrsla stjórnar GÍ
  4. Reikningar lagðir fram og skýrðir
  5. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
  6. Reikningar bornir upp til samþykktar
  7. Ákvörðun félagsgjalds
  8. Tillögur um lagabreytingar, umræður og atkvæðagreiðsla
  9. Kosning stjórnar, skoðunarmanna reikninga og starfsnefnda
  10. Tillögur til ályktunar aðalfundar, umræður og atkvæðagreiðsla
  11. Önnur mál

Framboð til stjórnarkjörs: Til varaformanns Hjördís Rögn Baldursdóttir, meðstjórnendur Björn Ingi Stefánsson og Íris Stefánsdóttir.
Engar lagabreytingatillögur liggja fyrir né heldur ályktanir aðalfundar frá stjórn.

Að loknum aðalfundarstörfum verður fræðsluerindi; Sigríður Soffía Níelsdóttir: «Ræktaðu flugelda í garðinum».
Sigga Soffía verður með kynningu á starfi sínu, verkinu Eldblóm sem er staðsett í Hallargarðinum við Fríkirkjuveg. Þar plantar hún árlega 850 mismunandi blómum, m.a gríðarstórum dalium og liljum. Einnig mun hún gefa okkur að smakka á vöru sinni, drykk sem unninn er úr Eldblómunum sjálfum.

Stjórn GÍ

Posted on

Spírur og heilsubót

Fræðsluerindi verður í sal Garðyrkjufélagsins, Síðumúla 1 (gengið inn frá Ármúla), mánudaginn 24. mars kl. 19:30.

Katrín Halldóra Árnadóttir, stofnandi Ecospíra, ætlar að fræða okkur um spírur og gífurlegan heilsufarsávinning þess að neyta þeirra. Hvaða fræ eru best til spírurnar í heimaræktun, hvaða áhöld og búnað er gott að nota og hverju ber að huga að við spíruræktun, uppskeru og geymslu. 

Vissir þú að spírur losa bólgur úr líkamanum? https://www.ruv.is/oflokka-eldra-efni/viss-um-ad-haegt-se-ad-utryma-lifstilssjukdomum

Viðburðinum verður streymt og er slóðin

https://us06web.zoom.us/j/86721913293?pwd=8sLR1x8M8F7MoyqD4XLptAg6gUn5SZ.1

Meeting ID: 867 2191 3293
Passcode: 344002

Posted on

Vetrarsáning matjurta

Sýnikennsla: Hvað er vetrarsáning og hvernig stöndum við að henni?
Fimmtudaginn 27. febrúar kl. 19:30 í sal Garðyrkjufélagsins að Síðumúla 1 (gengið inn frá Ármúla).
Fanney Margrét Jósepsdóttir, formaður Suðurnesjadeildar Garðyrkjufélagsins sýnir hvernig best er að standa að vetrasáningu matjurta. Farið verður yfir helstu kosti vetrarsáningar en einnig hvenær og fyrir hverju á að sá.
Þá ætlar hún að sýna einfaldar aðferðir sem allir geta prufað og framkvæmt heima.
Öll hjartanlega velkomin og erindið er ókeypis.