Um Félagið

Starfsemi Garðyrkjufélags Íslands

Heimilisfang
Síðumúli 1 (inngangur frá Ármúla)
108 Reykjavík

Kennitala: 570169-6539
Bankareikningur: 0526-26-5765
VSK númer: 28583


Fræðslufundir og námskeið

Félagið stendur fyrir fjölda fyrirlestra og námskeiða á hverju ári. Sýnikennsla, myndasýningar og uppákomur af ýmsu tagi, ætluð bæði félagsmönnum og áhugafólki utan félags.

Félagið hefur í áratugi haft umsjón með, eða komið að, fræðslu og garðyrkjuþáttum í útvarpi, sjónvarpi, dagblöðum og tímaritum og á netinu. Félagið er virkur þáttakandi á Facebook gegnum eigin síðu, sem og í ráðgjöf innan garðyrkjuhópa, auk þess að hafa haldið fjarfundi og fjarnámskeið yfir netið. Klúbbar félagsins eru einnig almennt með sína eigin facebook hópa.

https://gardurinn.is              https://www.facebook.com/gardurinn 

Útgáfa fræðsluefnis

Garðyrkjuritið kemur út árlega. Ritið inniheldur fræðslugreinar og reynslusögur sem leikir og lærðir hafa samið um gróður og ræktun. Garðyrkjuritið hefur komið út svo til óslitið frá árinu 1895, en fagnaði 100. árganginum árið 2020.  

Félagið hefur gefið út bækur um valið efni. Þar má nefna Garðurinn – hugmyndir að skipulagi og efnisvali, Rósir, Matjurtabókin, Skrúðgarðabókin og Sveppakverið. Einnig hafa verið gefin út smárit um sérhæfð efni tengd ræktun

Bókasala og bókasafn

Bókasafn félagsins geymir fjölda bóka, sem margar hverjar eru ófáanlegar annars staðar. Garðyrkjufélagið hefur auk þess til sölu um 200 titla af innlendum og erlendum bókum sem tengjast öllum sviðum ræktunar.

Bóksölu félagsins má nálgast á skrifstofu þess, en einnig er flesta titla að finna í vefverslun félagsins hér: https://gardurinn.is/product-category/baekur/

Garðaskoðun og þátttaka í sýningum

Félagið tekur þátt í garðyrkjusýningum hér á landi og heimsækir sýningar erlendis.

Garðaskoðun víðs vegar um landið, svo og garðagöngur í skrúðgörðum eru stór þáttur í starfsemi félagsins.

Fræbanki

Fjölmargir félagar Garðyrkjufélagsins safna fræjum í eigin garði, hreinsa þau og senda félaginu. Innsend fræ félagsmanna eru uppistaðan í fræbanka félagsins. Auk þess hefur fræbankinn yfir árin notið mikillar góðvildar ýmissa velunnara félagsins og fær aðsend sérvalin fræ, t.d. frá söfnurum, lystigörðum og ræktendum víða um heim. Félagsmenn geta síðan pantað fræ af listanum gegn vægu gjaldi.

Nýr frælisti er gefinn út á hverju ári og birtur á heimasíðunni í febrúar – mars. Listinn inniheldur að jafnaði 500-1000 tegundir og yrki. Fjöldi fræsorta hverju sinni fer ekki síst eftir árferði.

Plöntuskiptidagur

Plöntuskiptadagur er haldinn 1sinni – 2svar á ári bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Félagsmenn mæta með plöntur úr eigin ræktun, skipta við félaga, miðla upplýsingum og ræktunarreynslu.

Klúbbar

Markmið klúbba Garðyrkjufélagsins er meðal annars að koma á framfæri sérhæfðri þekkingu á hverju sviði fyrir sig og gefa félagsmönnum tækifæri til að sinna sérstökum áhugamálum á sviði garðyrkju.

Helsta starfsemi klúbba er að skapa grundvöll fyrir tegnsl milli félagsmanna sem hafa svipað áhugasvið. Klúbbarnir flytja heim aukna þekkingu til félagsmanna, með samstarfi við erlenda aðila og með ferðum á sýningar erlendis. Auka fjölbreytileika í ræktun hér á landi með innflutningi fræja og ungplantna, oft plantna sem ekki hafa hér áður fengist. Þátttakendur í klúbbum eru því frumkvöðlar í ræktun nýrra tegunda, taka þátt í að prófa nýjar tegundir hér á landi og luma oft fyrir vikið á sjaldgæfum plöntum sem erfitt getur verið fyrir aðra að nálgast.

Þeir klúbbar sem eru starfandi innan félagsins eru:

Ávaxtaklúbbur  – Bjarkir sumarhúsaklúbbur – Sígræni klúbburinn – Hvannir matjurtaklúbbur – Rósaklúbbur – BlómaskreytingaklúbburAlþjóðaklúbbur

Klúbbar, eins og öll starfsemi félagsins, eru algerlega háðir áhugasömum sjálfboðaliðum og því getur verið breytilegt milli ára hversu virkir ákveðnir klúbbar eru. Nánar um klúbbana hér: https://gardurinn.is/klubbar/

Deildir

Félagið starfar í svæðisbundnum deildum. Deildinar annast og hafa frumkvæði að verkefnum GÍ í heimabyggð og líkt og klúbbar félagsins er virkni þeirra háð duglegum sjálfboðaliðum sem vinna fórnfúst starf í þágu félagsins og áhugasamra nærsveitunga.

 • Akranesdeild
 • Árnesingadeild
 • Borgarfjarðardeild
 • Dalabyggðadeild
 • Eyjafjarðardeild
 • Fljótsdalshéraðsdeild
 • Hornafjarðardeild
 • Húnaþingsdeild
 • Skagafjarðardeild
 • Snæfellsnesdeild
 • Suðurnesjadeild
 • Tröllaskagadeild norður
 • Vestfjarðardeild norður
 • Vestmannaeyjadeild
 • Þingeyingadeild

Starfsemi félagsins alls byggir fyrst og fremst á sjálfboðaliðastarfi og því allir áhugasamir félagsmenn hvattir til að leggja hönd á plóg, hvar sem áhugi þeirra dregur þá helst.

Félagar í Garðyrkjufélaginu eru á þriðja þúsund þegar þetta er ritað.