Posted on

Laukur vikunnar – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Blóm vikunnar er laukur. Í ættkvísl lauka eru margar merkar krydd- og lækningajurtir sem hafa verið nýttar sem slíkar frá örófi alda. Í gegnum tíðina hafa menn litið svo á að því sterkari sem laukurinn er, því virkari er hann gegn sjúkdómum og meinsemdum. Laukur af hvers konar tagi er notaður í matargerð um allan heim og vegna þess hversu ódýr hann er yfirleitt hafa flestir efni á að nýta sér hann, reyndar var matlaukur soðinn í saltseyði aðalfæða fátækasta fólksins í Mið-Asíu vestur um til Miðjarðarhafsins í gamla daga. Sami matur var á borðum egypsku verkamannanna sem byggðu pýramídana forðum, auk þess sem þeir fengu vænan skammt af hvítlauk daglega. Maður getur nú rétt gert sér í hugarlund ilminn sem hefur fylgt þessum mönnum eftir daglangt strit í hitanum.

     Matlaukur, Allium cepa, hefur verið ræktaður um þúsundir ára. Fyrstu heimildir um ræktun hans eru frá því um 4000 fyrir Krist. Ekki er vitað um uppruna matlauksins því hann finnst hvergi villtur í dag. Þó er talið líklegt að upprunaleg heimkynni hans hafi verið í Asíu. Sennilega hefur ræktun lauksins dreifst frá Asíu vestur um til Indlands, Mesópótamíu og Egyptalands og álíta menn að Rómverjar hafi kynnt laukinn fyrir öðrum Evrópubúum. Enska heiti lauksins, onion er dregið af latneska orðinu unio sem þýðir ein stór perla og vísar þar til verðmætis lauksins, hvort sem er sem matjurt eða lækningajurt.

     Í dag er matlaukur ein af algengustu matjurtum heims og mörg yrki af honum í ræktun. Hann getur verið ljós að lit, brúnleitur eða rauðleitur og í mismunandi stærðum. Sem lækningajurt er laukurinn notaður ferskur. Hann inniheldur meðal annars lífræn brennisteinssambönd sem eru sótthreinsandi og virka vel gegn bakteríum. Enn fremur má finna mikilvægar olíur, sykrur, vítamín og steinefni í lauknum. Hann er gjarnan notaður við sýkingu í öndunarvegi og meltingarvegi. Því sterkari sem laukurinn er því betur virkar hann sem lækningajurt en jafnframt er erfiðara að vinna með hann því hann gefur frá sér efni sem græta jafnvel gallhörðustu húsmæður.

     Hvítlaukur, Allium sativum hefur að sama skapi verið ræktaður óralengi og er líklega upprunninn á Indlandi eða í Mið-Asíu. Hann hefur verið notaður sem matjurt, kryddjurt og lækningajurt og hafa menn haft mikla trú á styrk hvítlauksins. Grikkir og Rómverjar trúðu því að hvítlaukur væri heilög planta og gáfu hermönnum sínum daglega skammt af hvítlauk. Hann var talinn hafa hressandi og endurnærandi eiginleika og hermennirnir því sérlega sprækir á meðan á hernaði stóð. Hvítlaukurinn var talinn hafa ýmiss konar yfirnáttúrulega hæfileika, meðal annars stóðu menn í þeirri trú að hvítlaukur verndaði gegn svartagaldri og vampírum. Hvítlaukur er mjög vinsæll í dag og notaður í hvers konar matargerð. Hann er einnig notaður til lækninga, til dæmis við sýkingu í meltingarfærum, kransæðastíflu og hjálpar við meltingu. Þekkt er að þeir sem borða hvítlauk mjög reglulega fái síður kvef en einnig vill loða við þá sem borða hvítlauk mjög reglulega að þeir ilma öðruvísi. Það er spurning hvað maður vill leggja á sig mikla einangrun frá mannlegum samskiptum til þess eins að kvefast ekki…

     Hvítlaukur er mjög auðveldur í ræktun hérlendis og er best að setja niður útsæðislauka á haustin. Þeir bæta við sig nýjum laukum og eru tilbúnir næsta haust. Áhugasamir félagar í matjurtaklúbb Garðyrkjufélags Íslands geta haft samband við félagið og fengið hvítlauksútsæði þar til prufu. Ef menn hafa ekki áhuga á hvítlauk er um að gera að skoða laukalistann hjá félaginu og finna sér annars konar lauka við hæfi.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2006)