Posted on

Sumarferð GÍ farin 8. ágúst

Árleg sumarferð Garðyrkjufélagsins verður farin 8. laugardaginn ágúst næstkomandi og liggur leiðin að þessu sinni um Borgarfjörð þar sem margt gróðurkyns er að sjá. 

Lagt verður af stað frá Síðumúla 1 kl. 9,00 og ekið sem leið liggur í Borgarnes. Þar verður Skallagrímsgarður skoðaður og einn garður í einkaeign.  Komið verður við í gróðrarstöðinni Gleym-mér-ei rétt ofan við Borgarnes þar sem Sædís Guðlaugsdóttir á móti hópnum og bíður upp á kaffisopa.  Hún er með mikið úrval fjölærra plantna. Myndin hér að neðan er úr Gleym-mér-ei, fengin að láni frá héraðsblaðinu Skessuhorni. 

Næsti viðkomustaður er Reykholt.  Þar snæðum við hádegisverð á Fosshóteli.  Eftir hádegismat mun séra Geir Waage leiða okkur í allan sannleika um sögu Reykholts.

Frá Reykholti liggur leiðin til  Hvanneyrar.  Þar göngum við um staðinn undir leiðsögn Árna Snæbjörnssonar sem verður fararstjóri í ferðini ásamt Sigríði Héðinsdóttur en bæði þekkja svæðið eins og handarbökin á sér.  Þeir sem vilja geta svo kíkt á Landbúnaðarsafnið og í Ullarselið.

Síðasti viðkomustaður er Ferjukot við Hvítá.  Gaman er að fara yfir gömlu Hvítárbrúna.  Í Ferjukoti tekur Heba  Magnúsdóttir á móti okkur og sýnir sinn fallega heimilisgarð.

Heimkoma um kl. 19,00.

Posted on

Ath: breytt dagsetning: Viltu rækta garðinn þinn – en veist ekki hvar á að byrja?

Garðyrkjufélagið getur hjálpað þér af stað.

Vertu velkomin/n á fræðslufund/námskeið Garðyrkjufélags Íslands í húsi félagsins að Síðumúla 1, Ármúlamegin, á miðvikudagskvöldið 24. júní kl. 20.

Fjallað verður um matjurtarækt í heimagörðum og þann þátt sem hver og einn getur tekið í að skapa betra loftslag og betra gróðurfar á Íslandi – og borða heimaræktað grænmeti.

Einstakt tækifæri til að læra rétt handtök við heimaræktun frá fagmanni.

Þeir sem vilja rækta – en eru hikandi – sérstaklega hvattir til að koma.

Farið verður yfir helstu atriði í matjurtarækt

 • Val á fræi
 • Sáning og uppeldi
 • Undirbúningur beðs
 • Sáning – útplöntun
 • Áburðargjöf
 • Skýling
 • Vökvun
 • Illgresishreinsun
 • Meindýr
 • Helstu tegundir plantna
 • Ræktun í litlu rými

Matjurtaverkefnið er fyrsti hluti námskeiða- og fræðsluátaks sem Garðyrkjufélagið gengst fyrir í samvinnu við Umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Námskeiðið verður haldið á Akranesi á þriðjudagskvöldið 23. júní.

Allir velkomnir, aðgangur ókeypis.

Posted on

Stórverkefni um ræktun í heimagörðum hrundið af stað

Áhugasamir Suðurnesjamenn á námskeiðinu um aukna garðrækt, umhverfisvernd og endurvinnslu í heimagörðum.
Áhugasamir Suðurnesjamenn á námskeiðinu um aukna garðrækt, umhverfisvernd og endurvinnslu í heimagörðum.

Stórverkefni Garðyrkjufélagsins um ræktun í heimagörðum var ýtt úr vör í Keflavík í gær þar sem vaskur hópur áhugasamra heimamanna sat fyrsta námskeiðið um aukna garðrækt, umhverfisvernd og endurvinnslu.

    Námskeiðið í Keflavík í gærkvöld tókst afar vel og fóru áhugasamir ræktendur heim fullir visku og tilhlökkunar. Ætlunin er að halda annað námskeið í Keflavík í haust og fjalla þá um moltugerð og haustverkin í garðinum.

    Þessi námskeið eru fyrsti hluti þriggja ára verkefnis, sem nýtur stuðnings Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, snýr að matjurtarækt í heimagörðum. Farið er yfir öll helstu atriði sem snúa að undirbúningi garða, sáningu, ræktun og uppskeru.

    Með þessu verkefni vill Garðyrkjufélagið stuðla að aukinni þátttöku í garðrækt, umhverfisvernd og endurvinnslu með því að ráðast í víðtæka fræðslu og vitundarvakningu á landsvísu um kosti garðræktar sem samfélagslega aðgengilegrar og jákvæðrar aðgerðar í loftslagsmálum fyrir alla landsmenn. Áhersla er lögð á að tengja garðrækt við hringrásarhagkerfið og sjálfbæra þróun.

    Fjórar landshlutadeildir félagsins taka þátt í verkefninu – deildirnar í Keflavík, á Akranesi, Ólafsfirði og í Skagafirði. Að auki verður haldið námskeið fyrir áhugasama íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

    Veirufaraldurinn tafði svolítið að farið væri í gang en í ljósi þess að margir kaupa tilbúnar plöntur til að setja í garðinn í stað þess að sá fræjum, var ákveðið að fara af stað núna.

    Næstu tvö námskeið verða haldin á Ólafsfirði og í Skagafirði um komandi helgi, laugardag og sunnudag.

    Haldið verður námskeið í húsi Garðyrkjufélagsins í Reykjavík mánudaginn 22. júní og hið síðasta að þessu sinni á Akranesi þriðjudag 23. júní. Þessum námskeiðum verður fylgt eftir með haustnámskeiði, eins og í Keflavík.

    Námskeiðin eru öllum opin og er aðgangur ókeypis.

 

Guðríður Helgadóttir, varaformaður Garðyrkjufélagsins, er meðal helstu fyrirlesara á námskeiðum félagsins um tengsl garðræktar við hringrásarhagkerfið og sjálfbæra þróun.
Guðríður Helgadóttir, varaformaður Garðyrkjufélagsins, er meðal helstu fyrirlesara á námskeiðum félagsins um tengsl garðræktar við hringrásarhagkerfið og sjálfbæra þróun.
Posted on

Aðalfundur GÍ á miðvikudagskvöldið 27.maí

Fræðsluerindi um þátttöku almennings í garðrækt, umhverfisvernd og endurvinnslu

Minnt er á aðalfund Garðyrkjufélags Íslands á miðvikudagskvöldið 27. maí, kl. 19:30 í húsi félagsins í Síðumúla 1.

Aðalfundardagskráin sjálf verður hefðbundin (venjuleg aðalfundarstörf, kjör stjórnar og annarra trúnaðarmanna) en í lokin verður fjallað um stórt verkefni sem félagið er að vinna að í félagi við nokkrar deildir sínar út um land. Málshefjandi verður Sveinn Þorgrímsson verkfræðingur, stjórnarmaður í GÍ.

Þetta verkefni snýr að aukinni þátttöku almennings í garðrækt, umhverfisvernd og endurvinnslu. Áhersla er lögð á að tengja garðrækt við hringrásarhagkerfið og sjálfbæra þróun. Verkefnið nýtur stuðnings Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Byggt er á sérstöðu félagsins sem er grasrótarhreyfing um ræktun, með vísan til þess grunnstarfs sem fer fram um land allt með ræktun garð- og matjurta, almennri garðrækt, trjá- og skógrækt og hvers konar yndisræktun sem almenningur hefur fundið innri þörf til að sinna af alúð og kostgæfni. Tilgangurinn er að styrkja grasrót almennings sem fyrst og fremst styður við umhverfis- og loftslagsmál af lítillæti.

Fjórar deildir Garðyrkjufélagsins taka þátt í verkefninu – þ.e. deildirnar á Fljótsdalshéraði, í Reykjanesbæ, Fjallabyggð (Ólafsfirði) og Skagafirði og hafa verið skipulagðir fundir/námskeið á þessum stöðum í byrjun júní.

Minnt er á að frá og með mánudegi 25. maí mega allt að 200 manns koma saman. 

Posted on

Aðalfundur GÍ 27. maí

Aðalfundur Garðyrkjufélags Íslands 2020 verður haldinn kl. 20 miðvikudaginn 27. maí næstkomandi í sal félagsins að Síðumúla 1 í Reykjavík.

    Samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráherra mega allt að 200 manns koma saman í einu eftir 25. maí og skal gæta að ’tveggja metra reglunni’ eftir því sem við verður komið.

    Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna á fundinn og taka þátt í kraftmiklu starfi félagsins.

 

Dagskrá aðalfundar samkvæmt lögum félagsins:

 1. Fundarsetning
 2. Kosning fundarstjóra og ritara
 3. Skýrsla stjórnar og starfsnefnda GÍ 
 4. Reikningar lagðir fram og skýrðir
 5. Umræður og atkvæðagreiðsla um skýrslu stjórnar og reikninga
 6. Ákvörðun félagsgjalds
 7. Lagðar fram tillögur um lagabreytingar
 8. Lagðar fram tillögur til ályktunar aðalfundar
 9. Umræður og atkvæðagreiðsla um lagabreytingar og ályktunartillögur
 10. Kosning stjórnar, skoðunarmanna reikninga og starfsnefnda
 11. Önnur mál

 

Stjórnin. 

Posted on

Leiðrétting

Afleita villu var að finna í grein um kolefnisbindingu heimilisgarðsins í Garðyrkjuritinu 2020 sem var að koma út.

Þar segir að íslenskir skógar bindi 326 tCO2. Þetta á vitaskuld að vera 326 þúsund tCO2

Hið rétta er að heimilisgarðarnir á höfuðborgarsvæðinu kolefnisbinda tæplega eitt prósent á við íslenska skóga en ekki um þriðjung eins og stendur í greininni. 2.850/326.000 = 0,0087.

Garðyrkjuritið biðst velvirðingar á villunni.

Posted on

Garðyrkjuritið 2020 komið út

Garðyrkjuritið 2020 er komið út og hefur verið dreift til félagsmanna í Garðyrkjufélagi Íslands.

Ritið í ár er hið hundraðasta í röðinni en það hefur komið út með fáeinum hléum allt frá stofnun félagsins fyrir 135 árum. Ritið í ár er, eins og áður, stútfullt af forvitnilegu og fræðandi efni sem höfðar til bæði áhugafólks um gróður og garða sem og sérfræðinganna. Ritstjóri er Björk Þorleifsdóttir.

Meðal efnis má nefna grein um mælingu á kolefnisbindingu heimagarða á höfuðborgarsvæðinu sem færir okkur heim sanninn um að ræktun heima við hús skiptir umtalsverðu máli við bindingu kolefnis í jörðu. Sagt er frá áhrifamætti heilandi garða og heilsubót sem garðyrkjan hefur í för með sér og athyglisverða grein er einnig að finna um ilmjurtir í heimagörðum. Fjallað er um moltugerð, yglurnar í garðinum, aldingarða æskunnar og rósir af ýmsum toga og margvíslegum uppruna. Glæsilegar myndir eru af rósum ársins á Íslandi og hinum Norðurlöndunum og hægt er að læra að fjölga rósum með sumarstiklingum í fróðlegri grein Vilhjálms Lúðvíkssonar, formanns Rósaklúbbs GÍ.

Tómas Ponzi skrifar forvitnilega grein um ræktun harðgerra tómatayrkja, Guðríður Helgadóttir skrifar um kristilegar nafngiftir blóma, Hafsteinn Hafliðason er með grein um ræktun Kálfafellsrófunnar og fjölskylduna á Kálfafelli og mætti svo lengi telja.

Garðyrkjuritið er borið heim til félagsmanna GÍ á hverju vori – sem er enn eitt dæmið um kosti þess að vera félagi í Garðyrkjufélagi Íslands.

Posted on

Öllum námskeiðum og fræðslufundum frestað

Í ljósi þeirra aðstæðna sem hafa skapast í samfélaginu af völdum COVID-19 veirunnar hefur stjórn Garðyrkjufélags Íslands ákveðið að fresta aðalfundi félagsins sem vera átti 20. apríl 2020 um óákveðinn tíma.

    Sömuleiðis er öllum öðrum viðburðum á vegum félagsins, s.s. námskeiðum og fræðslufundum, frestað þar til betur horfir í samfélaginu.

    Við minnum þó á að vorið er skammt undan og því fer að styttast í að tímabært sé að ráðast í vorverkin í garðinum. Þeir sem forrækta blóm og aðrar plöntur eru væntanlega vel á veg komnir. Hinir, sem loks hafa tíma til að huga að ræktun, ættu að líta á nýjan frælista félagsins eða ná sér í fræ í garðyrkjuverslunum.

    Góða skemmtun – og góða uppskeru!

Posted on

Grasrótin og Garðyrkjuritið

Það vill gleymast þegar fjallað er um kolefnasporið að sennilega eru heimagarðar landsmanna sá þáttur sem skilar hvað mestum ávinningi, ekki síður en skógrækt og landrækt. Grasrót garðyrkjunnar er í heimagörðum Íslendinga í öllum landshlutum enda nánast ekkert hús í landinu þar sem ekki er stunduð ræktun af einhverju tagi. Nægir í því sambandi að minna á að stærsti skógur landsins er í Reykjavík og þar á áhugafólk um garðyrkju stærstan þátt.

Það er því frá mörgu að segja af þessum vettvangi. Nær daglegar fréttir og frásagnir samskiptamiðla sýna svo ekki verður um villst að margar nýjar og áhugaverðar hugmyndir eru í vinnslu í heimagörðum; frá þeim væri gaman að segja í Garðyrkjuritinu. Ekki síst væri gaman að heyra frá fólki sem ekki hefur skrifað í ritið áður – og hafið engar áhyggjur þótt þið teljið ykkur ekki skrifa “nógu vel” – við getum auðveldlega hjálpað til við að gera texta læsilegri.

Við hvetjum alla félaga (og eins þá sem eiga eftir að gerast félagar!) að senda okkur áhugavert efni í Garðyrkjuritið, eina íslenska tímaritið sem helgað er garðyrkju, eigi síðar en 1. nóvember næstkomandi. Það voru ágætar heimtur á efni í rit yfirstandandi árs og við vonumst til að svo verði áfram.

Vinsamlega sendið efni ykkar – eða hugmyndir um efni – til Kristins fræðslustjóra Garðyrkjufélagsins á netfangið gardyrkjufelag@gardurinn.is