Pistlar

Fróðleikur
  • Valentínusar VitleysanPistlarValentínusar VitleysanVíkur frá vörum vængjaður koss*, það er ástin sjálf sem heimsækir oss. Hrífur jafnt, í myrkri sem björtu*, okkar viðkvæmu litlu, hrifnæmu hjörtu. Líkt og norðurljós á himnum eða tungsljós í hafi, yfirnáttúrulegt afl, það er enginn vafi. *við mælum að sjálfsögðu ekki með þessu, af hreinlætis og sóttvarnar ástæðum, en ætli sér einhver að leika þetta eftir, ráðleggjum við eindregið að fá samþykki hjá verslunarstjóra áður en farið er að kyssa vörur í hillum verslana.*reyndar er varað við því að nota hrífur jafnt í myrkri sem björtu, þar sem notkun þeirra er talin ívið varasamari í myrkri. Hjörtun finnast í náttúrunni víða. Þótt útlitið frábrugðið líffærinu sé, látum það oss ekki valda kvíða.Mynd/ir: Kristján Friðbertsson Dicentra/Lamprocapnos spectabilis ber á íslensku nöfnin tvö: skrauthjarta og hjartablóm. Sumir sletta enn skandínavíska stríðsljóma nafninu „lautinantshjarta“, en flottari þykir mér þýskan „flammendes Herz“. Í lauslegri þýðingu „logandi bílaleigubíll“ en í réttri þýðingu „logandi hjarta“. Á enskri tungu finnast svo vísanir í blæðandi hjarta (bleeding heart), hjartablóm (heart flower) og einna skemmtilegast: dama í baði (lady-in-a-bath). Það olli mér nokkru hugarangri þessi tenging við konu í baði, þartil ég áttaði mig á því að hún var auðvitað nýkomin frá þýskalandi, þar sem hjarta hennar hafði verið logandi og þurfti því kalt bað til að slökkva eldinn og kæla sig niður. Tungan sú enska á einnig til heitið eggjaleiðarabrum (fallopian buds) sem vekur furðu að náð hafi nokkurri dreifingu. Fyrir þá sem ekki vita hvað eggjaleiðari er, þá er það pistill ritaður af ritstjóra tímarits sem fjallar um egg.Mynd: Kristján Friðbertsson Þessi mynd sýnir nokkuð vel hvaðan nafnið „dama í baði“ hefur komið. Mynd: Holger Casselmann, CC BY-SA 3.0 https://creativecommons.org/licenses/by-sa/3.0, via Wikimedia Commons Ungur maður lítur hér upp og dáist að hinu hávaxna hjartablómi.Mynd: Kristján Friðbertsson Nei, nú er nóg komið. Við ætlum ekki að breyta garðinum í einhvers konar „Bleikt&Blátt“ hér.Mynd: Kristján Friðbertsson Ræktum við ástina í garðinum? Hví ekki það. Ástin á garðyrkjunni ræktast hvergi betur og samstíga pör í garðyrkju rækta tvímælalaust eigin ástarsamband í garðinum. Við ræktum plöntur með hjartalaga lauf eða blóm og önnur sem hjartalyf voru unnin úr. Hjartahlýjan sem ástin gefur, er óháð því hvern, hverja, hvert eða hvað við elskum. „Ástin er eins og sinueldur“ og í blómapotti logar ástareldur, oft undir nafninu kóraltoppur (Kalanchoe blossfeldiana) eða hinu stórkostlega enska heiti „flaming Katy“ (logandi Kata, frekar en sofandi skata). Augljós mismunun á sér stað hér, því mótvægi vantar við kóraltoppinn, en enginn er þekktur kóralbotninn. Hún kóral-lóa (Aloe arborescens) kemur þó ekki tómhent heim á valentínusardaginn, heldur færir sínum kóralbónda rós (Paeonia mascula). Stofublómið hjartaband (Ceropegia woodii) fyllir heimili með heilli hjörð af hjörtum sem fikra sig eftir bandinu, en í garðinum eru það hjartablóm (Dicentra), sem bleikum blómstrandi hjörtum sig skreyta. Flest tengjum við hjörtu við ástina, enda leiða hjartalaga form hugann að ást sama hvar þau finnast. Opin kúskel, hálft smárablað, hjartalaga steinn eða hjartadeildin á Landspítalanum. Kannski einna síst þetta síðastnefnda. Kryddjurtin basil (Ocimum basilicum) er ástartákn á Ítalíu en vilji moldavísk stúlka að ungur herra falli alvarlega fyrir henni*, er ekkert ráð betra en að gefa honum smá basil. Ekki fylgir sögunni hvernig basil virkar þar fyrir önnur kyn, eða samkynja pör, en ég legg til að prófa sig áfram með pestó og sjá hvað setur. Betra en að lenda með ferskt basil í basli í vetur. *ekki er vitað hversu alvarlega viðkomandi gæti fallið og því líklega skynsamlegast að gefa ungum herra bara alls ekki basil nema hann sé umkringdur mjúku grasi, til að milda fallið. Frjálsar ástir tákna mismunandi hluti fyrir mismunandi fólk, en á síðustu öld var það algengt hugtak yfir ástarsambönd án afskipta ríkis og kirkju og raunar þjóðfélagsins alls. Hjónaband var enda oft leið til að tryggja afkomendum sínum farsæla framtíð og halda ættarnafninu gangandi, ekki síður en að tryggja eða auka völd og fjármuni stórfjölskyldunnar. Víða í heiminum má auðvitað enn finna slíkt viðhorf, en á 19. öldinni tók það viðhorf amk á Vesturlöndum að víkja. Til hjónabands skildi stofnað á forsendum ástarinnar. Frjálsar ástir taka það raunar skrefinu lengra. Ekki bara hjónabandið á eigin forsendum, heldur að fólk hafi allt sitt einkalíf fyrir sig. Frelsi meðal blóma er t.d. hægt að tákna með hinni fallega gulblómstrandi rós „Freedom“. Fræðimennirnir taka það reyndar skrefinu lengra og tala um alveg Rosa „Freedom“. Enn berjast margir foreldrar hatrammlega gegn því að börn þeirra pari sig saman við fólk af öðrum kynþáttum, trúarbrögðum, þjóðerni, þjóðfélagsstöðu nú eða t.d. gegn hinsegin samböndum. Ástin er ekki einföld. Hvað gerist þegar ástin tekst á í margar áttir? Fjölástasambönd eru ein lausn, en duga skammt ef ástin sem um ræðir er annars vegar gagnvart maka og hins vegar gagnvart foreldrum og fjölskyldu. Hvað þá ef ástin deilist á margar plöntuættkvíslir sem allar keppast um besta staðinn í garðinum! Hvert tilfelli þarf sína eigin lausn, ef hún er þá til. Lífið er jú ekki dans á rósum, enda væri það svakalega illa farið með góðar rósir. Talandi um rósir, krónublöð rauðra rósa eru oft tengd sjóðheitum kvöldstundum í rúminu, en þyrnar sömu rósa oftar tengdir litlum stungusárum og leiðinda rispum. Það borgar sig því að fara varlega. Ástarmeðul má víst brugga úr fjólum, handa fínustu dömum í flottustu kjólum. Burnirót eykur svo úthald og þol, hjá spjátrungum sem mæta í gallabuxum og bol. Greinilegt er að getur ýmislegt komið sér vel úr garðinum, til viðbótar við að minna okkur sífellt á sjálfa ástina. En það er jú einmitt hún, sjálf ástin, sem er aðalmálið. Hana sýnum við einna best með faðmlögum (nema þú elskir rósir, það er bara ekki skynsamlegt að faðma rósarunna), nærveru, virðingu og einfaldlega að gefa okkur tíma fyrir sjálfa ástina. Það er eitthvað sem ég legg mikla áherslu á í mínu lífi. Alltaf þegar makinn leggur til að við förum saman í bíó eða út að borða, gríp ég einfaldlega til orðanna: „ekki núna elskan mín, ég er upptekinn við að rækta ástina“.  Ef við erum dugleg að leggja rækt við hana, ekki síður en hænur (alltaf skulu kjúklingabúin koma best útúr þessu…) dettum við kannski í lukkupottinn og „ástin dugir að eilífu“ eins og sungið var um árið. (Grein þessi var sett hér inn í tilefni þess að árlegur erlendur siður sem hyllir Rudolph Valentino á sér stað um þessar mundir. Ekki er mælt með að taka orðin sem hér hafa verið rituð of alvarlega, nema að læknisráði.) Fallið hjarta.Mynd: Kristján Friðbertsson [...]
    12. febrúar, 2022
  • Ræktar þú eik á Íslandi?PistlarRæktar þú eik á Íslandi?Dalaeik (Quercus lobata) í Kaliforníu. Mynd: Ger Erickson Akörn af rauðeik (Q. rubra) í vatnsbaði. Takið eftir að þau sem líklega eru ónýt, fljóta.Mynd: Kristján Friðbertsson Nærmynd af akarni rauðeikar (Q. rubra) sem hefur verið opnað til að sýna innihaldið.Mynd: Kristján Friðbertsson Nærmynd af innihaldi akarns sem flaut. Bersýnt er að það hefur uppþornað og er einskis að vænta úr slíku. Til samanburðar er einnig á myndinni hálfopið akarn úr sama hópi, sem sökk. Heilbrigt fóstur og allt sem fylgir, fyllir þarna nánast alveg út í skelina. Rauðeik (Q. rubra). Mynd: Kristján Friðbertsson Akörn af fjaðureik (Q. macrocarpa) sýna vel hversu mikið „hattarnir“ geta hulið akörnin. Þó þeir verji akarnið, geta þeir haft áhrif á það hvort akörnin fljóta eða sökkva og geta falið annars sýnileg vandamál. Algengt er að sjá töluvert betri spírun úr akörnum þar sem hattarnir hafa verið fjarlægðir. Það er því talið skynsamlegt að fjarlægja þá.Mynd: Kristján Friðbertsson Ungar plöntur af fjaðureik (Q. macrocarpa) sýna oft fallega haustliti. Margar eikartegundir eru þó að mestu lausar við haustliti, nema fyrstu árin. Í þeim tilfellum er það oft talið tengjast því að ung tré framleiða sykrur mun lengur frameftir hausti, en vaxa með árunum útúr þeirri hegðun og minnkar þá haustlitadýrðin samhliða því.Mynd: Kadin Bieberich Hér sjáum við akarn af skarlatseik (Q. coccinea) sem flaut. Í þessu tilfelli var það ekki ofþornað, heldur hafði greinilega rotnað.Mynd: Kristján Friðbertsson Skarlatseik (Q. coccinea) er ein þeirra eikartegunda sem sýna hvað fegurstu haustlitina. Mynd: Gilbert Buscaglia Þessi sumareik (Q. robur) dvelur í garði í Reykjavík. Sáð var fyrir henni þar úr ensku akarni, árið 1986 og var hún um 4m há 2021. Mynd: Sigrún Ása Sturludóttir Í Borgarfirði má finna sumareik (Q. robur) sem keypt var árið 1994, þá 50cm há. Sú var reglulega nöguð niður af sauðfé, en náði sér á strik. Sumarið 2021 myndaði hún sín eigin akörn, eins og sjá má á þessari mynd sem tekin var þann 25.ágúst. Ekki er þó reiknað með að akörnin hafi náð að þroskast.Mynd: Sigrún Ása Sturludóttir Á söndum Rangárvalla má finna nokkrar sumareikur (Q. robur) sem sáð var fyrir ca 2015 undir plasti, með akörnum frá Stokkhólmi. Plantað út í ca 30cm hæð. Mynd: Benedikt Benediktsson Sumareik á sínu fyrsta sumri í rýrum lyngmóa, í innsveitum Skagafjarðar. Tekur sig vel út innan um fjalldrapa, kornsúrur og berjalyng, en ef allt gengur vel, vex hún með tímanum þeim vel yfir höfuð.Mynd: Höskuldur Þórhallsson Hér fer ekkert á milli mála (að hausti til) hverjar þessara eru rauðeik (Q. rubra).Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson Nokkrir punktar um ræktun á eik við íslenskar aðstæður Rétt er að taka fram að m.a. Aðalsteinn Sigurgeirsson hjá Skógræktinni, meðlimir Trjáræktarklúbbsins, ásamt ýmsum ársritum G.Í. eiga heiðurinn, beint og óbeint, af sumu því sem hér kemur fram. Eins er öllum þeim sem aðstoðuðu við upplýsingaleit, sem og þeim sem leyfðu myndbirtingar kærlega þakkað fyrir. Upphafið Áskotnist þér akarn, sem líf innan hnotu geymir, þarf strax að hafa nokkra hluti í huga. Lífið sem um ræðir, er í formi fósturs, sem allajafna deyr við of mikinn þurrk. Sama getur gerst við of mikið frost, sem og alltof háan hita, auk þess að geta myglað standi þau of lengi í blautum vatnspolli. Þetta er semsagt óvenju viðkvæmt fræ, af trjáfræi að vera. Það er skammlíft og geymist illa. Svipað á við um beyki (enda náskylt) og ýmsar aðrar hnotur og stór fræ. Fræin virðast kannski sumum sérlega sterk að sjá, en það sem inni býr er afar viðkvæmt. Innlent fræ af þessum tegundum er ekki til. Erlent fræ tekur tíma að komast til landsins og getur lent í mjög óhagstæðum aðstæðum á leiðinni, sem geta t.d. þurrkað það upp eða látið það spíra og skemmast. Lykilatriði er því alltaf að koma því sem fyrst í mold, eða sambærilegar aðstæður. Sé ennþá eitthvað áfast, svosem greinarbútur, lauf eða „hatturinn“ sem hélt akarninu hangandi, er best að fjarlægja það. Keypt fræ er oftast laust við viðbótar rusl, en þó tíðkast stundum að selja þau ódýrar enn með hattinn á. Hatturinn getur þó hindrað spírun ef hann er fastur á og orsakað mjög lágt spírunarhlutfall. Mygla getur komið utan á akarnið og hana er best að þrífa af strax. Hafi það spírað og spíran byrjuð að þorna eða rotna er ekki endilega öll nótt úti, því í sumum tilfellum getur fóstrið náð að senda út nýja spíru. Hafi maður einungis örfá akörn, er um að gera að prófa að setja þessi niður einnig upp á von og óvon. Hafi maður mikið magn, er hins vegar einfaldast að henda þessum strax. Akarnið þarf helst að skola vel, svo það sé síður líklegt að bera með sér eitthvað óvænt t.d. í jarðvegsryki sem kann að vera utan á því. Gott er að setja það svo í skál með vatni á stofuhita í ca sólarhring. Þetta er raunar algengt með öll stærri trjáfræ. Vatnsbaðið hjálpar til við að ná upp rakatapi. Þegar komið er að því að taka það úr vatnsbaðinu, er almennt hægt að reikna með að þau sem hafa sokkið séu í heilu lagi og góð og gild, en þau sem fljóti enn séu líklega ónýt. Í sumum tilfellum geta fljótandi akörn samt spírað, t.d. er það nokkuð algengt með fjaðureik (Q. macrocarpa). Að öllu jöfnu eru þau þó fjarlægð. Þessi stóru fræ er gott að hafa ekki lengur í vatnsbaði en sólarhringinn, til að auka ekki að óþörfu mygluhættu. Þessi fljótandi gætu jafnvel hafa orðið einhverju kvikindi að bráð, sem við viljum ekki fá í ræktunina okkar, svo það er ekki verra að opna skelina varlega og farga slíku, eða setja ónýtu akörnin í sjóðandi vatn eða heitan ofn til að ganga af mögulegu lífi dauðu. Líkurnar á því að akörn séu skemmd, beri með sér pöddur eða sýkingar aukast mjög hratt með hverjum deginum sem akarnið liggur á jörðu. Því skal forðast að safna akörnum sem legið hafa lengi og forðast öll akörn sem hafa á sér göt. Samasem merki er oft á milli þess að gat sé á akarni og að það sé ónýtt. Lítið kringlótt gat, er líklegast til að vera eftir litlar bjöllulirfur. Engan langar að bæta í skaðvaldaflóruna hér á landi. Ef þið eruð á annað borð að taka með ykkur akörn að utan skal að lágmarki passa að skoða þau vel og vandlega, taka bara þau sem best líta út og hreinsa þau vel og vandlega strax, áður en heim er komið. Eins er alltaf mælt með að kynna sér gildandi reglur og löggjöf hverju sinni, varðandi söfnun og innflutning á fræi og að sjálfsögðu að fara eftir þeim jafnt í hinu erlenda landi, sem og við heimkomu, okkur öllum til heilla. Hvað svo? Sumir setja akörnin þvínæst í ísskápinn, í plastpoka með smávegis af blautum eldhúspappír og fylgjast með þeim þar. Þá er hægt að taka jafnóðum þau akörn sem byrja að spíra og setja þau í pott. Þannig er hægt að vera viss um að einungis spírandi akörn fari í pottana. Ekki þurfa þó öll akörn kuldameðhöndlun til að spíra og sum geta spírað við mjög lágan hita. Því er kuldameðhöndlun í ísskáp oftast óþörf með þessi fræ, nema þá helst ef ekki er hægt að koma þeim strax í mold. Eins má þá ekki tefjast að taka akörnin þegar þau byrja að spíra, því annars er hætt við að rótin fari að rotna og fylgjast þarf með myglu og þrífa hana burt ef hún fer að myndast. Eikur senda fyrst út rótina og koma henni fyrir, áður en þau senda út stilkinn sem vex ofanjarðar. Þessi rót vill fara nokkuð djúpt. Algengt er að akörn sendi niður stólparót sem er á milli 20-30cm að lengd. Sé rótin lengri en sem nemur dýpt ræktunaríláts, fer hún að vaxa í boga eða hring. Þegar um ræðir stólparót, er það slæmt. Slíkt getur valdið vandræðum síðarmeir og jafnvel drepið tréð óvænt mörgum árum, jafnvel fáeinum áratugum, síðar. Við viljum því fyrir alla muni forðast slíkt. Því er mælt með að nota ekki sáðbakka, eða grunna potta, þegar eikur eru ræktaðar. Sé hins vegar enginn annar kostur í boði en að sá í grunna potta eða sáðbakka, þarf að koma þeim strax á fyrsta sumri mjög varlega hvert í sinn (dýpri) pott. Dýptin ætti ekki að vera undir 20cm. Stundum er hægt að fá 1L og 2L rósapotta í heppilegri dýpt, en einnig geta t.d. 1L mjólkurfernur dugað til. Snúningsrót getur einnig komið upp ef plantan er of lengi í sama pottinum og því er oft ráðlegt að skipta upp um pottastærð árlega. Nota skal þann jarðveg sem í boði er, en ágætt ef hann er ekki of þéttur. Almennt séð er loftrík mold nauðsynleg fyrir spírun fræja. Hér er rétt að staldra aðeins við og taka smá hliðarspor.Sé ætlunin að nýta plöntuna t.d. í tengslum við bonsai ræktun, er klippt strax á stólparótina. Raunar eru sumir þeirrar skoðunar að sé ekki ætlunin að setja eikina mjög fljótlega niður í jörð, sé hreinlega betra að klippa á stólparótina. Stytta hana, sumsé. Notast svo frekar við ekki eins djúpa potta og passa frekar að þeir séu breiðir. Hugsunin er sú að stólparótin hjálpi ungri plöntu fyrstu 2 árin, ef hún fer beint í jörð. Verði plantan þennan sama tíma, jafnvel lengur, í umönnun sé hvort eð er passað nægilega upp á vökvun og næringu. Eftir þessi 2 ár sé stólparótin ekki lengur eins mikilvæg aðstoð fyrir plöntuna og getur hreinlega orðið til vandræða, sbr ef hún fer að vaxa í hring o.þ.h. auk þess sem að hún gerir trjáplöntuna viðkvæmari fyrir raski. Með því að stytta hana snemma, verður hún síður til vandræða og plantan setur aukinn kraft í að mynda hliðarrætur í staðinn. Vilji fólk taka þetta alla leið, er plantan alin upp ýmist í svokölluðum „air pruning“ pottum, eða þartilgerðum beðum. Akörn eru vanalega sett liggjandi rétt undir moldaryfirborðið í ræktunarpotti. Hægt er að setja þau 1-2cm dýpra til að verja þau örlítið betur frosti og vindum, eða hafa þau ofan á moldinni ef potturinn er þegar á vel vörðum og músaheldnum stað. Kosturinn við að hafa þau ofan á moldinni, þar sem hægt er, er m.a. að þá er hægt að sjá glytta í rótarspíruna til staðfestingar þess að spírun sé hafin, auk þess að þá getur rótin notað alla dýpt pottsins. Best er að setja akörnin beint í mold strax að hausti. Geyma pottana á svölum en frostlausum (og músaheldnum!) stað. Leyfa þeim svo að spíra á eðlilegum tíma þegar nær dregur vori. Sé það ekki í boði, er hægt að leyfa pottinum að standa inni við stofuhita, en þá þarf að passa að plantan fái nægt sólarljós þegar hún byrjar að gægjast uppúr jarðveginum. Í báðum tilfellum þarf að passa að halda moldinni rakri allan tímann. Passið ykkur sérstaklega á því að rök mold er alls ekki það sama og blaut mold. Þó fræin þurfi raka, geta þau myglað liggi þau of lengi í bleytu. Umhleypingasamur íslenskur vetur getur valdið vandræðum hér, ekki bara að akörnin liggi þá lengi í vetrarblautum jarðvegi, heldur geta akörn byrjað að spíra í hlýindaskeiði að vetri. Í sumum tilfellum getur hart frost í framhaldinu farið illa með þau og jafnvel drepið plöntuna. Akörn í mold þola flest eitthvað vægt frost til skamms tíma, en áskjósanlegast er að þau séu á frostlausum stað í upphafi. Rétt er að setja smá fyrirvara hér, því akörn mismunandi eikartegunda geta haft aðeins breytilegar kröfur. Sumar vilja helst spíra strax að hausti ef þær geta, á meðan aðrar vilja ekki spíra fyrr en næsta vor, eftir kuldatímabil. Eins er ágætt að setja 2-3 akörn sömu tegundar saman í pott, því alls óvíst er að þau muni öll spíra. Ef fleiri en eitt spíra í sama potti, er fínt að leyfa þeim að koma sér fyrir fyrsta árið þannig, en skipta þeim í sitt hvorn pottinn vorið eftir. Fyrstu árin „Fyrsta sumarið þarf að gæta vel að vökvun (að ungu plönturnar þorni ekki) og öðru hvoru að sjá þeim fyrir næringarefnum með því að vökva með áburðarblöndu. Eikur eru, líkt og flestar trjátegundir, háðar sambýli við svepprótartegundir sem efla þrótt og bæta lífslíkur þeirra á foldu. Þær svepprætur eru gjarnan sérhæfðar að eik og eru þær tegundir sveppróta óalgengar í íslenskri náttúru (enda eikur hér sjaldséðar). Á Mógilsá vaxa nú víða eikur sem sáð var til haustið 2013 og gróðursettar á árunum 2016-17. Þær plöntur voru allar smitaðar með svepprót á gróðrarstöðvarstigi. Vilji fólk tryggja svepprotarsmit eikanna sinna, er velkomið að sækja sér smit í jarðveginum næst þessum plöntum. Reynslan sýnir hérlendis, að eikum er mjög hætt við rótarkali að vetri ef plöntur eru látnar standa úti í pottum, berskjaldaðar fyrir frosti. Til að draga úr líkunum á slíku rótarkali, eru eikurnar best geymdar yfir veturinn í köldu og frostfríu gróðurhúsi. Ef sá kostur er ekki fyrir hendi, er betra að taka eikurnar úr pottunum tímabundið og gróðursetja í skjólgóðum garði. Enn betri aðferð við yfirvetrun er að grafa grunna gröf (0,5 m djúpa), leggja plönturnar láréttar í „gröfina“, þekja þær með dagblöðum og síðan jarðvegi. Að vori, þegar frosthættan er liðin í maímánuði og frost farið úr jörðu, þarf að taka upp plönturnar og færa aftur í pottana.“  (Aðalsteinn Sigurgeirsson) Staðarval „Þegar eikarplantna er orðin 2-3 ára frá sáningu, er óhætt að gróðursetja hana á varanlegan ræktunarstað. Eikur eru nægjusamar og þurfa ekki vildarland, frjósaman jarðveg né mikið skjól. Sjálfur hefi ég gróðursett eik á örfoka sand og á gróðursnauða mela á Suður- og Suðvesturlandi og eru flestar þær eikur enn við sæmilega heilsu, fimm árum síðar, þó vöxturinn sé enn hægur. Vöxturinn verður engu að síður betri ef fyrir hendi er eitthvert skjól, t.d. af mannhæðarháu birki eða víðiskjólbeltum. Eikur eru fremur ljóskrefjandi og þola illa að vaxa í skugga annarra trjátegunda. Í öllum löndum þar sem eik er ræktuð er reynslan sú, að eikarskógrækt er þolinmæðisverk. Eikur fara sér hægt fyrstu áratugina, en verða gömul og stórvaxin.“ (Aðalsteinn Sigurgeirsson) Eikur á Íslandi Eikartré finnast víða um heim, enda á milli 400-600 tegundir (eftir því hvaða skilgreiningar eru notaðar) sem aðlagaðar eru að hinum ýmsu aðstæðum. Nefna má rauðeik (Q. rubra) og skarlatseik (Q. coccinea) sem 2 dæmi um eikur með sérlega fallega haustliti. Margar eikartegundir eru þó að mestu lausar við haustliti, nema mögulega fyrstu árin, en sumar hanga á laufunum langt frameftir vetri og aðrar eru jafnvel sígrænar. Mesta tegundafjölbreytni af eik er að finna í Norður-Ameríku og innan hennar sérstaklega í Mexíkó. Þrátt fyrir allan þennan fjölda og þann mikla fjölbreytileika sem þar finnst, eru ekki margar tegundir sem sýnt hafa fram á að þær geti vaxið hér. Kannski ekki að furða, þar sem eikur kjósa oftast hlý sumur, en hér á Íslandi erum við nokkuð sér á báti með okkar stuttu og köldu sumur. Talandi um aðlögun, það er ekki bara tegundin sem skiptir máli, heldur hver uppruninn er lengra aftur í tímann.  Til einföldunar má segja að akörn af eikum sem vaxið hafa kynslóð eftir kynslóð á köldum svæðum, séu líklegri til að standa sig betur hér á landi en þau sem safnað var á hitabeltisslóðum. Akörn upprunnin frá Kanada eða nyrðstu hlutum Bandaríkjanna, Finnlandi og Noregi hafa gefið ágæta raun, en ekki skal þó útiloka akörn upprunnin sunnar. Meðal tegunda sem hefur eitthvað að ráði verið reynt við að rækta úr akörnum undanfarin ár má nefna Q. robur (sumareik/stilkeik), Q. petraea (vetrareik), Q. rubra (rauðeik) og Q. macrocarpa (fjaðureik). Hefur árangur verið ansi misjafn og algengara er að illa gangi en vel, en helsti samnefnarinn þó að allt gengur þetta afar hægt. Mesta reynslan er komin á sumareikina, en af einhverjum ástæðum gengur vetrareikin mun verr. Fjaðureikin er nýlega byrjuð að rata í prófanir svo vitað sé, en lofar góðu hingað til. Rauðeikin er svo þessara tegunda viðkvæmust og þarf því öllu betra skjól og hlýju en hinar. Það er því rétt að minna fólk á að hér er um að ræða langtíma verkefni og rétt að búast við afföllum, en vonandi upplifa barnabörnin dag einn stórar og fallegar eikur á Íslandi. Enda er nú verið að gróðursetja eikur í meira magni en áður, um land allt, jafnt í görðum sem skógum, söndum sem lyngmóum. Í Reykjavík finnst amk ein eik sem heldur upp á hálfrar aldar afmæli þetta árið (2022). Akarnið kom frá Svíþjóð og mældist eikin 8,6m árið 2020, hafandi þá hækkað um 2,3m síðan 2009. Þegar þetta er skrifað telst hún hæsta eik Íslands. Ekki mikið yngri er eik að Hafnarstræti, Akureyri, sem var komin á sjöunda meter í kringum fertugsafmælið. Spennandi verður að fylgjast með þessum eikum áfram næstu árhundruð. Rétt er að nefna skrif Sigurðar Þórðarsonar í Skógræktarritið. Hann hefur verið að skrá hæð hinna ýmsu eikartrjáa á landinu og vill eflaust heyra frá ykkur, ef þið eruð með eik sem farin er að ná einhverri hæð. Mælingin á hæstu eik landsins er einmitt frá honum kominn. Sjálfur er hann með 26 ára gamla danska sumareik sem dafnar vel í garði hans á höfuðborgarsvæðinu, en pólskar eikur nokkrum árum yngri áttu skv honum mun erfiðara uppdráttar þar til nýlega. Muninn á því hvaðan akörnin eru ættuð hef ég einnig séð í sumareikum sem ég ræktaði og ættaðar eru frá Ungverjalandi. Þeim líður ágætlega og kal er ekki mikið, en þær haldast afar smávaxnar enn, þrátt fyrir að vera um 10 ára að aldri. Að því sögðu, þá óx eikin fimmtuga lítið sem ekkert fyrstu 10 árin, en sumarin 1972-1982 voru nú líklega heldur kaldari en 2011-2021. Beinsáning og innfluttar plöntur Undanfarin ár hefur eitthvað verið um það að innfluttar eikur hafi sést í gróðrarstöðvum og plöntusölum. Hefur þar helst verið um að ræða svokallaða sumareik (Quercus robur), oft frá danmörku. Við réttar aðstæður virðist hún ganga ágætlega og reikna má með að jarðvegurinn sem þeim fylgir sé þegar smitaður af hjálplegri svepprót, sem gagnast getur einnig öðrum eikum. Gróðrarstöðvar hafa þó einnig verið að rækta sjálfar upp af akörnum og hefur t.d. Nátthagi verið duglegur að rækta úr akörnum frá Noregi. Tvær eikur þaðan voru gróðursettar á Skógarströnd árið 2005, þá 75cm háar og hafa dafnað vel síðan, komnar um og yfir 3,5m. Þær eru síður en svo einsdæmi. Í rýran lyngmóa í innsveitum Skagafjarðar sáði Höskuldur Þórhallsson nokkrum akörnum frá Uppsölum í Svíþjóð haustið 2020. Færðust afkvæmin því um 6 breiddargráður frá móðurtrénu, úr 59 gráðum í 65 gráður Norður. Upplifa líklega ekki svo ósvipaðan vetur á báðum stöðum, þótt mikill munur sé hvað sumarhita varðar. Sumarið 2021 var svo 4 plöntur af sumareik að finna, sem sprottið höfðu úr akörnum þessum (sjá mynd). Sem betur fer hefur það landsvæði verið friðað fyrir beit síðan 2007 og gætu þessar ungplöntur því átt ágætis möguleika á að koma sér fyrir. Dæmi m.a. einmitt af Norðurlandi og Vesturlandi hafa sýnt að erfitt er að rækta upp eik þar sem sauðfé er annars vegar. Það nagar ungplönturnar niður í rót og þær einfaldlega drepast. Raunar geta kanínur einnig verið skaðvaldar í eikarræktun og rétt að hafa dýralífið í huga þegar gróðursett er, jafnt við staðarval, sem og mögulegar varnir. Annað sem þarf að hafa í huga, er að setja akörnin ekki á svo þurran stað að þau þorni auðveldlega yfir veturinn, eða svo kaldan stað að frostið gangi af þeim dauðum. Auðvitað geta vorfrost líka valdið vandræðum. Hreinn Óskarsson hefur reynt sáningu á eik beint í gamla foksanda á Rangárvöllum. Skemmst er frá því að segja að það gekk einfaldlega ekki upp. Bæði árin sem þetta var reynt, voru sérlega köld vor á svæðinu, sem hefur þá mögulega haft áhrif, en eins getur einfaldlega verið að akörnin (eða spírurnar úr þeim) hafi hreinlega þornað eða lent í of miklu frosti yfir veturinn. 5 stiga frost er oft nefnt sem viðmið fyrir frostþol ýmissa akarna, en því til viðbótar kemur svo einangrunargildi jarðvegs. Sandurinn telst þó ekki einangrandi og kólnar því mun meira og hraðar grunnt undir sandinum, en grunnt undir garðmold. Garðmoldin hefur því virkað betur fyrir hann og haldið betur bæði hita og raka, því í garði á Selfossi tókst honum að fá nokkrar eikur úr beinsáningu haustið 2018, sem lifa enn. Hreinn varpaði því fram að mögulega myndi ganga betur á söndunum, með því að setja sæmilega þykkt heymoð yfir akörnin og væri áhugavert ef slíkt verður síðar reynt. Eins benti hann á varðandi músagang, að skv sænsku doktorsverkefni er minkaskítur áhrifaríkasta músafælan þegar kemur að akörnum. Komist einhver yfir slíkt, er því vel þess virði að dreifa slíku þegar akörnum er sáð. Íslensk akörn Ekki er komið að því enn að við getum ræktað eikartré úr akörnum sem við söfnum hér á landi, en kannski er þess ekki svo langt að bíða. Sumareik í Borgarfirði myndaði aldinvísa haustið 2021, þó svo þeir hafi líklega ekki náð að þroskast. Reyndar er því ekki sé einu sinni vitað hvort um raunverulega frjóvgun hafi verið að ræða, eða geld aldin sem hefði því ekkert orðið úr. Sama saga á sér stað víðar á landinu og eftir því sem meira er plantað, aukast líkurnar á því að eftir eitt gott og langt sumar í náinni framtíð, getum við gengið um og týnt akörn af íslenskum eikum. Með því að vera dugleg að prófa sífellt, en skynsamlega, nýjar tegundir á nýjum stöðum eða með annan uppruna, aukast líkurnar á að vel gangi á endanum. Það á auðvitað við um eikur eins og aðrar plöntur. Sé upplýsingum um þessar prófanir okkar haldið til haga, lærum við af þeim og finnum líka vonandi heppilegasta fræupprunann með tímanum. Sérstaklega nytsamlegt er að halda utan um helstu atriði, svosem uppruna akarna/plantna og þau atriði sem gætu hafa verið frábrugðin, varðandi meðhöndlun eða ræktun plöntunnar. Með því að vera dugleg að deila upplýsingum með hvort öðru, t.d. með skrifum í garðyrkju og skógræktarrit, eða jafnvel bara á facebook síðu Trjáræktarklúbbsins og álíka, skráist líka þekking sem hægt er að leita til síðar. Frekari Fróðleikur https://www.bbl.is/frettir/fraedsluhornid/nu-eiga-eikur-leikinn http://www.euforgen.org/species/quercus-robur https://www.kjarnaskogur.is/post/eikurnar-a-akureyri https://www.skogur.is/is/nyskograekt/trjategundir-og-trjaheilsa/lauftre/eikartegundir https://www.woodlandtrust.org.uk/trees-woods-and-wildlife/british-trees/oak-tree-wildlife/ Nokkrar frægar eikur: https://en.wikipedia.org/wiki/Emancipation_Oak https://en.wikipedia.org/wiki/Bowthorpe_Oak https://en.wikipedia.org/wiki/Seven_Sisters_Oak [...]
    1. febrúar, 2022
  • Hefur þú séð apann í Japan? (Hluti 4 af 4)PistlarHefur þú séð apann í Japan? (Hluti 4 af 4)Stiklur úr japanskri menningu   Í fyrri hlutum höfum við fjallað m.a. um mismunandi tegundir japanskra garða, ásamt plöntum o.fl. sem þar leynast. Ýmislegt má finna í menningu japanskrar þjóðar, sem hefur ratað yfir í garðmenninguna. Sumt sem finnst í görðum í dag er einfalt skraut á meðan annað hefur dýpri merkingu eða sögu bakvið sig. Nefnum því örfá atriði hér til glöggvunar fyrir áhugasama. Tsukubai – handlaugin.Handlaug úr steini er nauðsyn við helga staði líkt og búddahof, en ekki síður í hefðbundnum te görðum. (Þar eru bæði garðurinn og teið hefðbundið). Tilgangurinn er hreinsunar ritúal. Nútíma útgáfan er líklega sprittbrúsi úr plasti við innganginn, en þar hefur ekki alveg sama sjarmann. Tome Ishi / Sekimori ishi – hinn bundni steinn.Sjáir þú bundin stein liggjandi á stiklu eða gangvegi, er það merki um að hér skuli ekki fara. Í tegarði getur þetta þýtt að prívat te athöfn sé í gangi sem ekki megi trufla. Í garði með hvíldar og hugleiðslurými þýðir þetta á svipaðan hátt að rýmið sé upptekið. Í öðrum tilfellum getur þetta þýtt hinar ýmsu útgáfur af „ekki koma hingað“, „lokað“, „óviðkomandi aðgangur bannaður“, og öðrum álíka skilaboðum. Fyrir vikið er einnig hægt að nota þá til að vísa gestum veginn, einfaldlega með því að setja slíka steina á hvern þann nýja stíg sem hægt væri að fara, sem ekki á að fylgja. Japanese stone lantern (toro) – ljóskerið.Ljóskerin fundu sér leið úr búddískum hofum í heimilisgarða fyrir meira en þúsund árum og geta verið úr málmi, steini eða tré. Í kringum 16. öldina fóru þau að vera nokkuð algeng í sérstökum viðhafnar görðum fyrir te drykkju, en voru þá komin í eins konar skraut hlutverk. Slíku hlutverki sinna þau enn í dag og sjást oft nærri stígum, vatni eða byggingum.   Shimenawa – hið helga reipi. Slíkt getur táknað helgan stað, eða verið sett upp til að halda illum öndum burt. Engum sögum fer þó af því hvort sérstök reipi eru notuð fyrir álftir og gæsir einnig, eða bara fyrir illar endur. Bundið utan um tré eða jafnvel stein, er það merki um að hinn bundni hlutur innihaldi anda og er ýmist þar til að halda þeim bundnum inni, eða sem viðvörun til annarra að fara varlega. Að fella slíkt tré er talið færa viðkomandi afar mikla ógæfu. Shishiodoshi – dýrafælan.Ein tegund dýrafælu Í japönskum görðum nefnist Sozu og er vatnsknúin. Bambusrör hleypir hægt rennandi vatni í gegnum sig. Vatnið lendir á öðru bambusröri og fyllir það nægilega til að færa þyngdarpunktinn, svo rörið skelli niður á stein, tæmist af vatninu og myndi hljóð. Hljóðið rýfur þögnina í friðsælum garði, en er til þess gert að fæla burt hin ýmsu jórturdýr sem gætu viljað naga gróðurinn. Sozu fylgir oft japönsku þema í görðum, óháð því hvort það er í notkun eða ekki. Jizo – verndarinn.Jizo er guðleg vera, oftast í formi munks, í búddískum kenningum Austur-Asíu og raunar einnig Daóisma. Íbúar hins neðra eru á hans ábyrgðarsviði og þó hann eigi það til að draga fólk á hárinu upp úr pottum helvítis, ef það átti ekkert erindi þangað, er hann almennt séð álitinn frekar ógnvekjandi. Í Japan tíðkaðist sem dæmi að leggja konur ávallt til hinstu hvílu með sítt hár, svo Jizo gæti nú dregið þær upp á hárinu, ef þær skyldu óvart lenda í áðurnefndum pottum. Japönum leist nú ekki nógu vel á svona ógnvekjandi veru og því breyttist Jizo aðeins í japanskri menningu. Þar launar hann alltaf greiðann, þeim sem koma vel fram við hann og varð sérstakur verndari barna og ferðalanga. Ófædd börn á ferðalagi til lífs, sem og sálir barna sem andast á undan foreldrum sínum, eru einnig á hans sviði. Fyrir vikið má oft sjá styttur af Jizo í barnaklæðum, eða með slík klæði og leikföng, jafnvel sælgæti sér við hlið. Af því hann launar alltaf greiðann, er fólk duglegt að færa honum litlar fórnir, börnum til verndar. Einnig sést hann oft með rauð klæði, en rauður litur ver gegn illum öflum, í Japanskri menningu.  Mynd: Harald Schaller Mynd: Harald SchallerJapanskur Jizo er því friðsæll, góður, hugulsamur, hjálpsamur og vinsæll. Hann getur verið táknaður á ýmsan máta, en á nýlegri japönskum myndum og styttum er hann oftast frekar lítill og krúttlegur. Sem gerir hann auðvitað bara að enn betri viðbót í japanska garðinn. Dr. Gunnellu Þorgeirsdóttur eru færðar þakkir fyrir aðstoðina. Harald Schaller (www.instagram.com/jadzia79) eru færðar þakkir fyrir að leyfa afnot af myndum sínum, en af myndunum að ofan eru einungis ljóskersmyndirnar höfundar. Fyrri tekin í garði Derek Mundell í Kópavogi, síðari í Kyoto Garden, London. Vonandi hafið þið notið þessarar litlu fræðslu um nokkra þætti japanskra garða. Hér í lokin smellum við svo nokkrum myndum sem við vorum að spara… 😉  Mæli með að smella á hverja og eina til að sjá þær í fullri stærð – gildir reyndar um flestar myndir í þessum greinaflokki.  Kyoto, fyrrum höfuðborg Japan, hýsir marga fallega hefðbundna garða. Þessi mynd var tekin í garði sem var gjöf frá Kyoto til London og fagnar vináttu landanna. Sá finnst í Holland Park, London og er hannaður sem „rölt garður“. Myndlíkingarnar finnast líka víða í hönnuninni og má nefna sem dæmi að þriggja þrepa fossinn er líking fyrir brött fjöll og djúp gil, en tjörnin vísar til hafsins. Mynd: Kristján Friðbertsson Japansgarðurinn í Portland, Oregon býður m.a. upp á þessa fögru sýn af mótuðum japönskum svartfurum (P. thunbergii), steinum, rökuðum sandi og fleira góðgæti. Þarna sjáum við einnig ljósker úr steini. Nánar um garðinn: https://www.japanesegarden.org With great thanks to Jim Singer for providing us with this photo. Blaðfegurð á japanshlyn heillar alltaf, en þegar haustlitirnir bætast við er það algerlega ómótstæðileg blanda. With great thanks to Claudia Lyashenko for providing us with this photo from Portland, Oregon. Steinar gefa gríðar góða jarðtengingu og finna sér oft stað í japönskum görðum, í hinum ýmsu formum og garðurinn í Holland Park er engin undantekning. Mynd: Kristján Friðbertsson Japanskt þema þarf ekki að yfirtaka stærri hluta garðsins en maður kýs. Í Chanticleer Garden nærri Philadelphia er japönskum stíl blandað við marga aðra í garðinum á stórkostlegan hátt. Á þessari mynd vottar t.d. fyrir blöndu af japönskum og eyðimerkur stíl. https://www.chanticleergarden.org/ Mynd: Kristján Friðbertsson Lerki er fagurt og áhugavert tré. Að vetri opinberar það greinabygginguna og oftar en ekki gamla köngla, fléttur og mosavöxt og annað slíkt. Hér gefur að líta „kokedama bolta“ sem náttúran bjó sjálf til handa okkur. Nánar tiltekið er hér gamall lerkiköngull enn á trénu, skreyttur mosavexti. Mynd: Kristján Friðbertsson [...]
    3. apríl, 2021
  • Hefur þú séð apann í Japan? (Hluti 3 af 4)PistlarHefur þú séð apann í Japan? (Hluti 3 af 4)  Í hluta 2 vorum við byrjuð að skoða plöntur í japanska garðinn. Höldum því áfram hér, en breytum aðeins til. Hvað ef ég vil meiri trénun?  Áðurnefndar Kúrileyjar eru upprunastaður kúrileyjakirsis (Prunus kurilensis). Af hinu ýmsa skraut- eða rósakirsi er það án nokkurs vafa kúrileyjakirsið „Ruby“ sem hefur staðið sig langbest hér á landi, þakið sínum fallega bleiku blómum á vorin. Japan er jú þekkt fyrir blómstrandi kirsi og því afar viðeigandi að hafa eitt eða fleiri í garðinum. Stærstu samplöntun þeirra hér á landi er eflaust að finna í Hljómskálagarðinum, Reykjavík. Þar var 50 trjám plantað fyrir áratug, gjöf frá Japansk-íslenska/Íslensk -japanska félaginu. Innan sömu ættar finnum við blóðhegg, virginíuhegg og næfurhegg, sem hver um sig gefur ýmist fagra blómgun, litbrigði í laufi eða myndarlegan stofn. Í hindarætt finnum við ilmkórónu, stjörnuhrjúf og ættingja þeirra. Litirnir sem þessar plöntur sýna við blómgun eru vanalega á skalanum hvítt til bleikt. Tónar sem eiga vel við í svona görðum. Hjartatré og brauðtré (Cercidiphyllum japonicum og C. magnificum) eru fremur stórgerð og afar falleg tré sem tengja má við þema sem þetta. Sæmilega stórvaxið hjartatré og undir því vaxandi dverghjarta eða hjartablóm gæti verið hugmynd. Japanshlynir eru auðvitað staðalbúnaður. Hin ýmsu yrki þeirra eru helst sameinuð af einkennandi blaðfegurð og oft úr nægu að velja þar, þó ekki sé alltaf mikið flutt inn landsins. Ísland er auðvitað ekki endilega heppilegasta loftslagið fyrir þá, en í miklu skjóli hafa þeir stundum náð að dafna ansi vel. Stór kostur er hvað þeir haldast flestir smávaxnir, en auðvitað hægt að hafa þar líka áhrif með vaxtamótun. Fleiri blaðfallega valkosti með fagra haustliti er auðvitað hægt að finna í reyniættinni (Sorbus). Nokkru Sunnan við Kúrileyjar finnum við svokallaðan ‚Dodong reyni‘ (Sorbus ‚Dodong‘), sem ásamt fjallareyni (Sorbus commixta) er gríðarlega fallegt tré með dáleiðandi haustliti. Rúbínreynir er farinn að sjást víðar, koparreynir er alltaf klassískur og gulu berin á Sorbus ‚Joseph Rock‘ eru sérlega fagurt skraut. Dvergreynir, með sín fallegu bleiku ber, er heppilegur með hinu smávaxna. Endilega kynnið ykkur fjölbreytnina í ættkvíslinni.   Hrekkur þú við víða af kvíða? Ekki á maður endilega von að rekast á umfjöllun um kvíða, þegar trjátegundir eru skoðaðar. Enda var það víst prentvilla og átti ekki að standa hrökk-kvíði, heldur hrökkvíði. Ágætis planta, en passar víðir í japansgarð? Eitthvað sérlega smávaxið eins og finnavíðir (Salix x finnmarkia), fjallavíðir (Salix arctica) og grasvíðir (Salix herbacea) gæti komið vel út í eins konar landslagi hins smáa. Með steinum, mosa, vatni og jafnvel bonsai plöntum yfir sumarið. Loðvíðir gæti mögulega skreytt garðinn á látlausan hátt, sé honum vel viðhaldið með klippingum. Héluvíðir (S. helvetica) ásamt kirjálavíði (S. rosmarinifolia) eru áhugaverðir, en hafa lítið verið í sölu undanfarið. Af stærri plöntunum hafa lensuvíðir og jafnvel lækjar- og körfuvíðir sumpart austurlenskt yfirbragð. Það væri því hægt að hafa þá í huga, ekki síst í kringum tjarnir o.þ.h. Þeir virðast sem betur fer sleppa ágætlega frá helstu vandamálum víðitegunda undanfarið. Sé hugsað til lensulaga laufa, mætti raunar minnast á hafþyrni. Hann hefur fagurt útlit sem gæti virkað framandi í réttu umhverfi. Kallar þó á helst til mikið rótarskota viðhald í snyrtilegum heimilisgarði. Ekki skal þó útiloka birki. Að eilífu grænt, amen. Sígræn tré eru sívinsæl, ekki síst í görðum sem þessum.  Lerki hefur oft mjög áhugaverðan karakter og sýnir grófan börkinn líkt og fölsuð skilríki, til að virðast eldri. Marþöll hefur einnig gríðarlega fallegan stofn þegar hún hefur náð ákveðnum aldri og ekki er greinavöxturinn og barrið síðra. Mikið er notað af furuættkvíslinni, en ekki er sjálfgefið að finna mikið tegundaúrval hér á landi. Aðgengi að nefndum yrkjum af furu, greni, þin og lerki takmarkast svo af því að ekki má flytja slík tré til landsins. Við þurfum því að hafa í huga þegar við sjáum fallegar myndir að utan, hvernig við endursköpum fegurðina með öðrum tegundum eða mótunaraðferðum. Nú eða með því að verða okkur úti um fræ, ef plantan er annars lífvænleg hér.   Dvergfura hentar oft í litla garða, en ýmsar stórgerðari tegundir finnast fyrir stærra pláss, eða til mótunar fyrir hið smáa. Lágvaxin og skriðul yrki af eini og ývið geta gefið fyllingu og þekju og fyrir hægvaxta tré má skoða balsamþin „nana“ og dverghvítgreni yrkin „Conica“ (grænt) og „Sander‘s Blue“ (blátt) Raunar er orðið ágætis úrval af tegundum og yrkjum einis undanfarið, svo það er um að gera að skoða fjölbreytileikann þar. Gamall, stakur einir í garði getur auðveldlega verið fullkominn miðpunktur fyrir nýtt svæði með japansku ívafi. Ég hvet áhugasama endilega til að kynna sér efnið nánar og heimsækja fagra japansgarða þegar tækifæri gefst. Í Bretlandi má finna marga japansgarða, m.a. Kyoto Garden í London, auk japansgarða í Kew Gardens. Frakkland býður t.d. upp á japansgarð í Grasagarði Efri-Bretaníu og aldargamli Clingendael garðurinn í Hollandi nýtur mikillar hylli. Í Bandaríkjunum má nefna grasagarðana í Chicago og Brooklyn, te garðinn í Golden Gate Park (San Francisco) og yndisfögru japansgarðana í  Portland og Seattle. Endilega kynnið ykkur þá nánar. Derek Mundell og Sigríður Ósk sem tóku á móti mér í yndislegum görðum sínum fá sérstakar þakkir, sem og Dr. Gunnella Þorgeirsdóttir fyrir aðstoðina varðandi japanska menningu. Sama gildir um þá sem lánuðu myndir, svo greinin mætti verða skýrari og fallegri og aðra sem veittu hjálparhönd.  Í næsta (og síðasta) hluta tökum við smá hliðarskref og skoðum örfáa af þeim japönsku hlutum sem algengir eru í görðum með þessu þema. Einnig setjum við þar nokkrar fallegar myndir sem við geymdum fram í enda. Sem fyrr eru allar myndir höfundar, nema þar sem annað er tekið fram. Örfá viðbótar meðmæli í lokin, en annars er um að gera að spyrja Google frænda: Myndasafni Damien Douxchamps frá Japan er heldur betur hægt að mæla með: https://damien.douxchamps.net/photo/japan/ Grasagarður Efri-Bretaníu í Frakklandi inniheldur 25 garða, þ.á.m. japanskan garð. Gaman er að fylgja Instagram síðu þeirra: https://www.instagram.com/parc_botanique_haute_bretagne/ Handbók um japansgarða má finna hér:https://japanesegardening.org/handbook/ Monty Don‘s Japanese Gardens er svo tveggja sjónvarpsþátta umfjöllun sem er algert skylduáhorf, ef þið komist í þá og einnig var gefin út bók samhliða.    Þessi mynd úr garði Jim Singer sýnir ekki bara fallegar plöntur í japönsku þema, heldur einnig hvernig fyrrum grasflötin hefur breyst í græna á sem hlykkjast um garðinn. Grasið er þar allt í senn: stígur, afmörkun beða og fagurt skreytingarform. With great thanks to Jim Singer for providing us with this photo. Í fögrum japansgarði Derek Mundell í Kópavogi vex þetta fallega mótaða síberíulerki. Nánar um það í annarri grein. Hér sjáum við einnig litla tjörn, því vatn og endurspeglun eru jú mikilvæg. [...]
    1. apríl, 2021
  • Hefur þú séð apann í Japan? (Hluti 2 af 4)PistlarHefur þú séð apann í Japan? (Hluti 2 af 4)  Í fyrsta hluta kynntumst við nokkrum tegundum japanskra garða: https://gardurinn.is/hefur-thu-sed-apann-i-japan-hluti-1-af-3/      Nú byrjum við að skoða nokkra lykilþætti sem garður með japanskt þema gæti innihaldið. Hvernig kenni ég Garðari japönsku? Garðari? Vorum við ekki búin með þennan brandara? Duolingo appið er heppilegt til að kynna sér nokkur japönsk orð, en viljirðu draga japönsk áhrif inn í garðinn kemur ýmislegt til greina. Steinar: Stórir steinar í garðinum gætu orðið miðpunktur og táknað fjöll eða eyjur. Steinastiklur gætu jafnvel verið eins konar eyjur í garðinum. Smáir, rúnnaðir steinar eru heppilegir í uppþornaðan árfarveg. Niðurbrotnir steinar, í möl eða sand, geta verið myndlíking fyrir vatn. Vatn: Er lækur, tjörn, gosbrunnur eða jafnvel fuglabað nú þegar til staðar til að vinna með? Rennandi lækur og litlir fossar eru oft betri en stórgerðir gosbrunnar. Tjörn með gróðri og fiskum eða smágerð kyrrstöðulaug til endurspeglunar, jafnt á umhverfinu sem og eigin tilvist. Lítill steinn sem situr á diski, fullum af vatni, getur náð fram sömu hughrifum og stórt bjarg í miðri tjörn. Eyjar gegna stóru hlutverki. Hvort sem er raunverulegar eyjar í stóru stöðuvatni, stórir steinar í lítilli tjörn eða á sandflæmi og jafnvel litlir runnar í eyjalíki. Ekki skrýtið að eyríkið Japan tengi sterkt við eyjar í sinni hönnun og nærumhverfi. Lítill Steinn (eða) Steinarr, á diski með vatni getur verið jafn áhrifaríkt og eyjar í tjörn. Hér sækjumst við oftar eftir því smávaxna sem líkir eftir því stóra. Virðing japana fyrir því aldna er vel þekkt, enda tengir langur aldur betur við hið eilífa flæði tímans og tilverunnar. Gömul og stór tré geta því verið góður upphafspunktur eða ákveðin miðja í japönsku þema. Gróin tré í áhugaverðu formi, með mosa og fléttuvexti eða stórt lerkitré, svo dæmi séu tekin. Gott er að skoða það sem fyrir er og ákveða útfrá hvaða miðpunkti þú vilt vinna.   Þarf ég að panta fullt af plöntum frá Japan? Hvað viltu í raun og veru? Hefðbundið japanskt eða bara „austurlenskt yfirbragð“? Mun algengara og einfaldara er að vilja ákveðinn framandi anda Asíu í garðinn. Horfa svo til þess hvað skapar það útlit og þau hughrif sem við sækjumst eftir. Slík nálgun er líka skynsamlegri í langflestum tilfellum, enda afar misjafnt hvað er raunhæft við okkar aðstæður. Munum bara að taka tillit til þess hve mikil vinna fylgir hverri plöntu. Helst ætti „látlaust og róandi“ að óma reglulega í huganum þegar japanskur garður er skipulagður. Burknar finna sér oft góðan stað og gott úrval til af þeim hér undanfarið, jafnvel „japansburknar“. Japanslyng (Pieris japonica) fæst líka stundum hér á landi. Árangur hefur verið misjafn, en sé þeim gefið gott skjól geta þau staðið sig ágætlega. Ýmsar brúskur/hostur passa mjög vel. Sérlega viðeigandi gæti verið að hafa fallega bambusplöntu vaxandi í garðinum, en nánar um það í ítarlegum greinarflokki í Garðyrkjuritinu 2021.   Þekjuplöntur Mosi passar oft vel, en vex hann vel við þínar aðstæður og færir þér gleði? Nálapúði (Azorella trifurcata) getur þakið stóra steina á sólarsvæði mjög fallega. Smávaxnir steinbrjótar (t.d. roðasteinbrjótur) og smávaxnir hnoðrar (t.d. helluhnoðri). Hvað með blóðberg til að blanda íslenskum og japönskum áhrifum saman? Rósir Þetta er japansgarður, ekki rósagarður… Virkilega, engar rósir? Rósir eiga seint við í hefðbundnum japansgarði, þó hægt sé að finna þær í Japan. Fallegar, klassískar bóndarósir geta þá frekar passað. Lyngrósir Já, svona rósir eiga klárlega heima þarna. Velja saman góða blöndu af lyngrósum og gefa þeim pláss til að verða stórar og gamlar. Minni garður (eða smávaxnara þema) horfir þá frekar á dverglyngrósir. Rhododendron impeditum, urðarlyngrós, o.þ.h.   Fyrir mitt leyti get ég – að öllum öðrum ólöstuðum – mælt með bæði faglegri ráðgjöf og góðu úrvali af lyngrósum stórum sem smáum í Nátthaga, Ölfusi, sem dæmi. En það er eins með allar þessar plöntur: hafið í huga hvað raunverulega passar við ykkar aðstæður í garðinum. Gott er að skoða víða og leita sér ráðgjafar. Sérstaklega að sumri til er hægt að finna ágætis úrval af plöntum ef fólk leggur á sig að leita. Þó auðvitað sé það misauðvelt eftir búsetu. Í næsta hluta skoðum við svo enn feiri plöntur, sérstaklega tré. (Allar myndir eru höfundar, nema þar sem annað er tekið fram.)     [...]
    30. mars, 2021
  • Hefur þú séð apann í Japan?  (Hluti 1 af 4)PistlarHefur þú séð apann í Japan? (Hluti 1 af 4)Prímatarnir með hvað nyrsta búsetu í heiminum eru snjóaparnir í Japan. Við undanskiljum mannskepnuna auðvitað. Þeir kuldasæknustu finnast við 41. Norðlæga breiddargráðu. Lítið eitt Suð-Vestan við Kúrileyjar, Austan við Vladivostok og nyrsta hluta N-Kóreu. Kunnuglegar slóðir fyrir áhugafólk um trjáfræ. Samt bara svipaðar slóðir og Barcelona, ef horft er til Evrópu. Ég minni lesendur á að Ísafjörður og Akureyri eru við 66 og 65 gráður Norður. Svo ég vorkenni þeim ekkert of mikið. Risapöndur finnast hins vegar í Kína og fara ekki mikið norðar en 38 gráður, ef einhver er að velta því fyrir sér.   Við deilum ýmsu sem snýr að náttúrunni og japönsk garðlist sækir oft hugmyndir þangað. Plöntur veðurbarnar og mótaðar við erfiðar aðstæður af náttúrunnar hendi er þar vinsælt dæmi. Svo sækjum við í hugmyndabanka þessarar garðlistar, sem og japanska flóru.     Hversu lengi hefur Garðar búið í Japan? Japanshlynir, bonsai tré, hvítur sandur og möl. Allt er þetta hluti hefðbundinna japanskra garða. Hönnun horfir oft til slökunar og hugleiðslu og endurspegla garðarnir oft mismunandi tímabil í sögu landsins. Goðsagnir, hefðir, trúarbrögð og náttúruöflin fá öll sína hyllingu. Fegurð hins smáa er sett í samhengi við eilífðina, svo ekki sé minnst á hið alræmda jafnvægi í ójafnvæginu. Líkt og með gömul, falleg málverk sjáum við fyrst stóru myndina. Lítið virðist breytast, en í hverri nýrri heimsókn tökum við eftir nýjum smáatriðum og hægfara breytingum. Þetta er afar frjór jarðvegur hugmynda að sækja í og okkar að ákveða hvað heillar okkur mest. Einhverjar afmarkaðar hugmyndir, eða heill garður eftir tilteknu þema. Kynnumst hér rétt aðeins hugmyndunum um svokallaða mosagarða, Zen garða og „röltgarða“.   „Röltgarður“ (e. Stroll/Tour Garden) Við erum á óvissuferðalagi og uppgötvum reglulega nýja fegurð. Hér snýst allt um óreglulega og hlykkjótta stíga sem ýta undir hugarfarið að njóta ferðalagsins, ekki áfangastaðarins. Hér á garðhönnun að finna mismunandi sjónarhorn, fela þau á ákveðnum stöðum, en annars staðar draga þau í fókus og hlúa að þeim. Tengja þau svo öll saman á óvæntan og óreglulegan hátt. Garðurinn snýst ekki endilega um sig sjálfan og eigin fegurð, heldur visst þjónustuhlutverk við fegurðina. Fegurðin getur verið landslagið umlykjandi, ýmsir hlutar garðsins, eða jafnvel miðpunktur sem stígurinn færir okkur breytilega sýn og upplifun á. Falleg tjörn með þéttum gróðri allt um kring og hlykkjóttur stígur beinir okkur til skiptis til og frá tjörninni. Á ferðalaginu römbum við ýmist á bakka tjarnarinnar, eða sérstakt sjónarhorn á hana opinberast okkur gegnum gróðurinn. Sem dæmi um slíkan röltgarð má nefna hinn undurfagra Gyokusen-en, í Kanazawa. Hönnun hans má rekja til baka til kóresk-ættaða samúræjans Wakita Naokata á fyrstu árum 17. aldar og erfingja hans í framhaldinu. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd þarf útpæld hönnun ekki að þýða að allt eigi að vera glansandi og laust við náttúru:   Zen garður: Steinar, stórir og smáir eru hér vanalega ríkjandi. Rakstur á möl, eða sandi, til að jafna út, hreinsa eða skapa ákveðin mynstur, gerist hér á sérstakan hátt sem hugleiðsla. Steinar og sandur taka reyndar oft að sér myndlíkingar hlutverk fjalla, eyja eða vatns í japönskum görðum. Garðurinn er afar einfaldur, með lágmarks truflunum. Sniðinn að andlegri íhugun, næði, slökun og hugleiðslu. Plöntum oft haldið í lágmarki og helst ýtt út á jaðarinn. Á praktísku nótunum nýti ég tækifærið og minni á að gróðurdúkur undir möl reynist oftar en ekki böl. Lausum, fínkorna sandi er afar þægilegt að fjarlægja amagróður úr, en hann fýkur óþarflega auðveldlega. Gróf möl hentar betur, en mikilvægt að hún sé ekki grófari en svo að auðvelt sé að raka gegnum hana. Ekki bara upp á hugleiðsluna, heldur til að fjarlægja lauf og annað sem fýkur eða festir rætur. Að þessu sögðu, í zen garði eiga öll garðverk að vera hugleiðsla og tengja okkur við eilífðina. Í slíkum garði eru engin garðverk lengur framundan, bara hugleiðsla og því hægt að eyða hverjum degi áhyggjulaus þar. Á vindasömum stað væri það eflaust ágætis æfing í þolinmæði að nota fínan pússningasand og gera (og viðhalda) flóknum formum í sandinum.   Mosa garður: Íslendingar eru hvað vanastir því að þekjuplantan í garðinum sé einhver tegund af grasi. Annað er oft fjarlægt, ekki síst mosi. Í mosagarði snýst þetta við. Þekjuplantan hér er mosi og eitt af því sem við viljum alls ekki að birtist innan um mosann, er gras. Rakur jarðvegur og/eða hár loftraki er oftast lykilatriði í mosavexti, auk skugga. Stór tré geta því verið í stoðhlutverki hér (er ekki alaskaöspin frábær?) á meðan smærri tré, burknar og annað slíkt fær þá aukinn fókus sem skraut í garðinum. Steinar eru líka notaðir, en þá helst sem stiklur til að stíga á eða stórir steinar til þess gerðir að þekjast af mosa og tákna þá oft eyjur. Í íslenskri útfærslu mætti sjá fyrir sér klettaveggi við íslenska fossa, þakta mosum og burknum, sem eins konar fyrirmynd og ýmsir gróðurveggir gætu því passað vel í slíkum garði. Til að koma í gang mosagarði er heppilegt að dreifa sundurklipptum mosa á viðeigandi staði. Oft er stungið uppá „súrmjólkurtrikkinu“, þar sem mosi er tættur og blandað við súrmjólk. Það gerir þægilegra að dreifa úr honum, heldur honum frá því að fjúka og gefur honum strax nokkurn raka. Súrmjólkinni er svo hægt að smyrja, sletta eða dreifa með þeim hætti sem best hentar hverju sinni. Það tekur tíma að mynda góða mosaþekju og mikil nákvæmnisvinna að viðhalda henni. í Japan er þetta oft merki um þolinmæði, en í stórum görðum þótti það frekar merki um völd og peninga, því viðkomandi var þá með hópa af fólki sem sáu um verkið. Algengt er að leyfa mosa og fléttum að vaxa á trjám og steinum, ekki síður en sem þekja á stóru svæði, eða jafnvel þaki. Í „kokedama“ listinni á hann sér svo mikilvægt hlutverk við að binda saman kúluna og halda henni rakri. Í næsta hluta skoðum við svo betur hvað við þurfum að setja í japanska garðinn okkar. (Allar myndir eru höfundar, nema annað sé tekið fram. Athugið að flestar myndir í þessum greinarflokk er hægt að stækka með því að smella á þær.) [...]
    28. mars, 2021
  • Valkvíði – Blóm vikunnar með GurrýPistlarValkvíði – Blóm vikunnar með GurrýValkvíði er hugarástand sem garðyrkjufólk um allan heim þekkir af eigin raun. Sumir eiga við þetta hugarástand að stríða allt árið um kring en aðrir fyllast valkvíða á ákveðnum árstímum. Janúar er einmitt dæmigerður valkvíðamánuður hjá þeim garðræktendum sem leggja stund á ræktun sumarblóma. Þetta kann að hljóma svolítið undarlega, sérstaklega þegar maður lítur út um gluggana heima hjá sér og sér snjóþekjuna yfir öllu, vindurinn gnauðar og skafrenningurinn læðir sér yfir landið. Þá þarf að hafa í huga að einbeittustu sumarblómaræktendur sjá ekki snjóinn og skafrenninginn í raun og veru, þeir hafa litskrúðug sumarblómabeð fyrir sínum hugskotssjónum, eru kannski langt komnir með að skipuleggja útlit beðanna, litasamsetningin er alveg að smella saman en tegundavalið er eftir. Þar komum við að valkvíðanum.      Síðustu ár og áratugi hefur úrval af sumarblómategundum farið vaxandi. Notkun á sumarblómum hefur líka breyst mikið, áður fyrr lögðu menn meira upp úr hefðbundnum sumarblómabeðum en í dag er aukin áhersla á ræktun á þessum tegundum í ýmiss konar ílátum. Þetta hefur kallað á örlítið breyttar áherslur í sumarblómauppeldi, dæmigerðar beðplöntur eins og stjúpur, fjólur og morgunfrúr hafa dalað í vinsældum en pottaplöntur af ýmsum gerðum, svo sem hengitóbakshorn, snædrífa og brúðarstjarna aukið vinsældir sínar.      Fjöldi litaafbrigða og yrkja með mismunandi vaxtarlag eru atriði sem eru kynbætendum sumarblóma augljóslega hugleikin. Ár hvert sjáum við nýjar gerðir af gömlu blómunum á markaði. Eitt árið kom fram nýr ljónsmunni sem var sérstaklega ætlaður í hengipotta enda var hann vaxinn eins og hengiplanta. Almennt eru ljónsmunnar annars teinréttir og geta orðið ansi hávaxnir. Fjólur eru annað dæmi um slíkar nýjungar í vaxtarlagi en hengifjólur voru ætlaðar í hvers manns pott fyrir örfáum árum. Þannig hafa kynbætendurnir komið fram með nýtt vaxtarlag á gömlum og þekktum tegundum til að svara aukinni eftirspurn eftir plöntum í ker og potta. Varðandi litina þá er allt undir í þeim efnum. Svartar stjúpur og fjólur voru ákaflega vinsælar eitt árið, KR-ingar keyptu þessar tegundir í miklu magni og gróðursettu með hvítum plöntum sömu tegunda, röðuðu þeim niður í huggulegar samsíða raðir og dáðust að merki íþróttafélagsins síns allt sumarið. Stundum hafa blóm í pastellitum verið ákaflega vinsæl og þá skiptir máli fyrir seljendur sumarblómafræja að hafa slík fræ á boðstólum, sumarblómaræktendur eru þrælar tískustrauma rétt eins og fatakaupendur á hverjum tíma.      Þegar öllu er á botninn hvolft þá getur verið ansi erfitt að gera upp hug sinn gagnvart sumarblómunum. Hvar á maður að fá upplýsingar um það hvaða litir verði inni í sumar? Ekki vill maður eiga púkalegasta blómabeðið í bænum með liti sem voru kannski í tísku fyrir þremur árum og enginn meðvitaður sumarblómatískufrömuður lætur sjá í garðinum sínum. Svo er ekki eins og hægt sé að skipta um skoðun á miðri leið, það verður að sá til blómanna á réttum tíma svo þau blómstri nú einhvern tíma í sumar. Ætli miðilsfundir hjálpi? Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ (Áður birt í Morgunblaðinu árið 2008) [...]
    28. janúar, 2021
  • Vetrargarðurinn – Blóm vikunnar með GurrýPistlarVetrargarðurinn – Blóm vikunnar með GurrýVeturinn á Íslandi gengur í mínum huga í garð eftir jólin. Þegar búið er að taka jólaljósin niður og eftir standa naktar trjágreinar, ljóslausar og umkomulausar í vetrarmyrkrinu, þá er veturinn mættur á svæðið. Sumar trjágreinar bera sig þó betur en aðrar og komast vel frá viðureign sinni við veturinn. Þær halda sínu, hvernig sem viðrar. Þetta eru sígrænu greinarnar sem tilheyra þeim örfáu tegundum trjám og runna sem halda blöðunum allan veturinn. Grænn litur þessara greina gerir veturinn hlýlegri til muna og heldur í okkur voninni um vorið.      Umhleypingar vetrarins gera sígrænum tegundum erfitt fyrir, sérstaklega hérna á suðvesturhorni landsins. Annars staðar á landinu, þar sem veturinn er stöðugri, eiga þessar tegundir auðveldar uppdráttar enda líkjast veðurskilyrði þar meira því sem þær eiga að venjast úr heimkynnum sínum. Sólfar á útmánuðum getur reynst sígrænum plöntum skeinuhætt, þá er oft á tíðum frost í jörðu og erfitt að ná í vatn. Þegar sólin skín á blöð plantnanna hitna blöðin og gufa út vatni til að kæla sig en þar sem jarðvegurinn er frosinn ná plönturnar ekki að bæta sér upp vatnstapið. Afleiðingarnar verða sviðin og skrælnuð blöð eða nálar. Til að forðast þetta er rétt að skýla ungum plöntum fyrir sólinni, fyrstu tvo til þrjá veturna. Nokkur sviðin blöð stöðva hins vegar engan í því að koma sér upp fallegum vetrargarði sem býður mann velkominn í grænan faðminn allt árið um kring.      Við skipulagningu á vetrargarðinum þarf að hafa í huga stærð viðkomandi garðs. Á stóru svæði koma margar tegundir til greina sem eiga það sameiginlegt að verða hávaxnar og tignarlegar, þær þurfa líka gott pláss til að dafna vel. Í þessum hópi eru til dæmis sitkagreni (Picea sitchensis), hvítgreni (Picea glauca), stafafura (Pinus contorta) og bergfura (Pinus uncinata). Það er líka um að gera að reyna að sjá fyrir sér hversu þokkafullar plönturnar eru þegar þær eru hlaðnar nýföllnum snjó eða hvernig þær taka sig út alklæddar jólaseríum.      Lágvaxnar sígrænar tegundir eru aftur á móti hentugri í litla garða eða í beð með öðrum lágvöxnum gróðri. Steinabeð eru ákaflega fallegur bakgrunnur fyrir slíkar tegundir auk þess sem grjótið veitir plöntunum hlýju því það hitnar á daginn og gefur frá sér varma á nóttunni þegar það kólnar smám saman. Nú hefur færst í vöxt að garðeigendur leggja áherslu á að við inngang húsa sinna sé fremur lágvaxinn gróður sem ekki skyggir á húsið sjálft og býður fólk velkomið. Sígræni gróðurinn skipar þarna stóran sess því hann gleður augað allan veturinn og græni liturinn færir okkur birtu og yl í svartasta skammdeginu.      Í hópi lágvaxinna sígrænna tegunda eru til dæmis fjallafura (Pinus mugo var. mughus) og dvergfura (Pinus mugo var. pumilio) sem eru runnkenndar og fremur breiðvaxnar. Einitegundir eins og til dæmis íslenski einirinn (Juniperus communis), með sitt dökkgræna barr og himalajaeinirinn (Juniperus squamata), sá gráblái, auka fjölbreytnina í gróðurbeðunum til muna. Einnig mætti benda á dverghvítgreni (Picea glauca ‘Konica’) sem er ekki nema 1-2 m á hæð og áberandi keilulaga í vaxtarlagi og japansýr (Taxus cuspidata ‘Nana’) sem er dökkgrænn runni, um 1 m á hæð og breidd og skuggþolinn.      Nú er um að gera að setjast niður og skipuleggja vetrargarðinn sinn þannig að hægt sé að planta í hann í sumar og gleðjast yfir honum næsta vetur. Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur (Áður birt í Morgunblaðinu árið 2005) [...]
    21. janúar, 2021
  • Snjóskemmdir – Blóm vikunnar með GurrýPistlarSnjóskemmdir – Blóm vikunnar með GurrýMér líður eins og ég búi í jólakorti þessa dagana. Jólasnjórinn fer reyndar greinilega ekki eftir sama dagatali og við hin, er svona um það bil mánuði á eftir áætlun en ekki verður annað sagt en jólalegt hafi verið um að litast á landinu bláa undanfarið. Eins og venjulega kemur snjórinn okkur Frónbúum algerlega í opna skjöldu. Það er eins og við séum öll nýflutt hingað frá Kanaríeyjum, ef miðað er við það hvernig bílar okkar eru útbúnir til aksturs í snjó, getu okkar til að keyra í hálku og fjölda umferðaróhappa á klukkustund á stórhöfuðborgarsvæðinu síðustu vikuna. Margir hafa líka greinilega ákveðið að nota einhvers konar skyggnigáfu við aksturinn, að minnsta kosti er það ótrúlega algengt að sjá snjóskafla á hjólum í umferðinni og undir hælinn lagt hvort það er einhvers konar útsýnisglufa á framrúðunni. Þetta kemur þó varla á óvart þegar haft er í huga að um helmingur landsmanna trúir á yfirskilvitleg fyrirbæri. Kannski umferðin sé slíkt fyrirbæri?      Það er fátt fegurra en trjágróður hlaðinn púðursnjó. Ljósmyndarar af öllum gæðaflokkum skella sér í snjógallann og drífa sig út í mjöllina í þeim tilgangi að ná ódauðlegum ljósmyndum af fegurðinni. Sérstaklega eru sígrænar plöntur glæsilegar fyrirsætur við þessar kringumstæður. Snjórinn situr á greinum þeirra eins og hvít glassúr og greinarnar svigna fagurlega undan þunganum. Þetta kemur mjög huggulega út hjá tegundum eins og blágreni sem eru þaulvanar snjóálaginu, greinar þess standa nokkurn veginn lárétt út frá stofninum og heilmikill snjór getur þannig setið á greinunum án þess að trén beri nokkurn skaða af. Lauftré og runnar geta líka litið ákaflega fallega út þaktar snjó en yfirleitt dettur snjórinn fljótt af því flöturinn sem snjókornin geta náð fótfestu á er ákaflega lítill og vind þarf ekki að hreyfa mikið til að feykja snjókornunum út í buskann.      Það eru þó ekki alltaf jólin og mjög fljótlega eftir að trjágróðurinn okkar skrýðist hinu hvíta dúnmjúka teppi dregur yfirleitt til tíðinda. Þau tíðindi geta verið af margvíslegum toga enda veðurfar með eindæmum dyntótt á Íslandi. Fyrst má nefna vindinn sem nær yfirleitt að hreinsa púðursnjóinn mjög fljótlega af trjágreinunum. Oft á tíðum rignir eða hlánar hressilega ofan í snjókomuna. Við það blotnar snjórinn og þyngist mikið og svigna greinar trjánna þá enn meira og bogna. Ef hlákan er almennileg ná trén að hreinsa sig af snjó og bíða engan skaða af en ef blautur snjórinn frýs bindast plönturnar klakaböndum sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir þær.      Trjátegundir sem eru aðlagaðar miklum snjóþyngslum eru gjarnan með láréttar eða svolítið slútandi greinar, svona eins og blágrenið sem áður var nefnt. Þessi greinasetning plantnanna gerir það að verkum að snjórinn nær að renna fram af greinunum tiltölulega greiðlega og plantan skaðast ekki. Tegundir með hvasst greinahorn og mikið uppréttar greinar hins vegar eru ekki eins lukkulegar með snjóþyngslin. Þær hafa ekki aðlagast slíkum hremmingum að vetrarlagi og því er töluverð hætta á að greinar þessara tegunda hreinlega rifni af þegar snjórinn sligar greinarnar. Greinarnar hafa einfaldlega ekki þá sveigju að snjór geti auðveldlega runnið fram af þeim þegar fargið eykst.      Það má því með sanni segja að fegurðinni komi ekki kvalalaust, þessi jólakortamynd sem við dáumst svo að er engan veginn hagstæð fyrir trén. Kannski ættum við bara að ganga í lið með vindinum og hrista trén duglega til að losa þau við þetta snjófarg? Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ (Áður birt í Morgunblaðinu árið 2008) [...]
    14. janúar, 2021
  • Meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó – Blóm vikunnar með GurrýPistlarMeiri snjó, meiri snjó, meiri snjó – Blóm vikunnar með GurrýÞetta ákall um meiri snjó hljómar nú úr munnum garðyrkjumanna um land allt. Blessaður snjórinn hlífir viðkvæmum plöntum fyrir kuldanum, hann er eins og þykk ábreiða sem heldur hita á plöntunum okkar, þar til hlýnar og vorið stekkur fram á sjónarsviðið. Veturinn hefur verið sannkallaður vetur hingað til og er það ástand sem við erum orðin talsvert óvön. Undanfarnir vetur hafa verið mun umhleypingasamari og þar af leiðandi á margan hátt erfiðari plöntum en þessi vetur. Umhleypingar fara einmitt sérlega illa með plöntur. Það gilda í raun sömu reglur og í barnauppeldi, því meiri stöðugleiki því betra. Háttatíminn ætti að vera á sama tíma öll kvöld, máltíðir reglulegar og foreldrar samkvæmir sjálfum sér. Plöntur þurfa að fá að liggja í dvala yfir veturinn án þess að ótímabær hlýindi rugli þær í ríminu en jafnframt þarf að búa þannig að þeim að þær geti tekist á við það veðurfar sem veturinn býður upp á. Þess vegna viljum við meiri snjó.      Garðyrkjumenn sýna snjónum á vissan hátt þakklæti sitt með nafngiftum á plöntum. Vissulega eru menn kannski ekki með það beint í huga þegar plöntur eru nefndar að verið sé að færa Vetri konungi sérstakar þakkir en það má alveg líta þannig á málin, svona þegar það hentar. Fjöldinn allur af plöntum hefur fengið nöfn sem við fyrstu sýn virðast ákaflega kuldaleg. Ýmist er þar verið að vísa til blómgunartíma viðkomandi plantna, sumar þeirra blómstra upp úr snjósköflunum snemma á vorin eða blómlitur plantnanna gefur tilefni til þess að nefna þær í höfuðið á snjó. Þannig er fannastjarna ákaflega fallegur vorblómstrandi laukur sem blómstrar fallegum ljósbláum og hvítum blómum snemma í maí. Við sjáum þó sjaldnast snjó á þessum árstíma en það kemur þó fyrir.      Vetrargosi er aftur á móti mun fyrr á ferð, blómstrar stundum í febrúar-mars þegar vetur er sannanlega á ferð. Blóm vetrargosa eru hvít, lútandi og fremur smá en tegundin er mjög blómsæl og harðgerð, að minnsta kosti um sunnanvert landið. Vetrarblóm er innlend tegund sem einnig fer af stað upp úr hjarninu í apríl, þetta er lágvaxinn steinbrjótur sem blómstrar ákaflega fallegum bleikum blómum. Vetrarblómið myndar þéttar breiður og verður alveg þakið blómum á blómgunartíma sínum sem gerir það áberandi í annars litlausu umhverfinu.      Margar tegundir eru kenndar við snæ, má þar nefna snæbreiðu sem er lágvaxin fínleg tegund sem myndar fallegar breiður. Hún sáir sér talsvert en er þó ekki til vandræða. Blómgunartími snæbreiðu er langur og þekja lítil blómin plöntuna þegar hún blómstrar. Snædrífa er tiltölulega nýlegt sumarblóm í ræktun á Íslandi. Tegundin er í raun fjölær en þolir ekki íslenskan vetur. Það má því kannski líta á nafngiftina sem kaldhæðni? Snædrífa er hengiplanta og hefur á skömmum tíma náð miklum vinsældum í ker, potta og hengikörfur. Blómin eru drifhvít og fara ákaflega vel við dökkgrænt lauf plöntunnar. Trjátegundir hafa ekki farið varhluta af þessari stefnu í nafngiftum. Snækóróna er ákaflega vinsæll og blómviljugur runni sem blómstrar frekar stórum, ilmandi snæhvítum blómum um mitt sumar. Mjallarhyrnir er runni sem blómstrar hvítum blómum fyrri hluta sumars en er einkum skrautlegur á veturna þegar hárauðar greinar hans standa upp úr snjónum. Þar skapast skemmtilegar andstæður og er þessi runni einkum ræktaður vegna rauðs barkarlitar síns.      Svo er hægt að spyrja hvort kuldaleg nöfn geri plönturnar harðari af sér? Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ. (Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007) [...]
    7. janúar, 2021
  • Fræ í frosti sefur – Blóm vikunnar með GurrýPistlarFræ í frosti sefur – Blóm vikunnar með GurrýÞað kann að skjóta svolítið skökku við að tala um sumarblóm um miðjan janúar í miðjum hríðarbyl en höfundur þessa pistils treystir á ákaflega fjörugt ímyndunarafl þeirra sem lesa pistilinn, auk óbilandi trúar á það að öll él stytti upp um síðir. Janúar er nefnilega einmitt rétti tíminn til að fara að skipuleggja sumarblómaræktun ársins. Um þetta leyti streyma frælistar inn um bréfalúgur fyrirhyggjusamra garðeigenda sem vita að sumarið hefst í raun og veru í janúar, þetta er fólk með sól í hjarta, sól í sinni.      Sumar tegundir sumarblóma þurfa frekar langan ræktunartíma áður en hægt er að gróðursetja þær úti við að vorinu. Þessar plöntur þarf því að forrækta og best er auðvitað að gera það í gróðurhúsum, þótt bjartir og svalir bílskúrar geti þjónað svipuðu hlutverki með prýðisárangri. Góðar gluggakistur geta líka dugað, svo framarlega sem hitinn er ekki allt of mikill. Þegar plássið er takmarkað er því nauðsynlegt að skipuleggja sig vel svo það nýtist best í ræktuninni og sumarblómadýrðin verði sem fjölbreyttust og glæsilegust.      Það fyrsta sem maður gerir er auðvitað að fletta frælistanum sem nýlega datt inn um lúguna. Ef maður er svo ólánsamur að hafa ekki dottið í frælistalukkupottinn er tilvalið að bjóða sér í kaffi til einhvers sem býr svo vel að eiga frælista eða hreinlega að brokka í næstu fræverslun og missa sig í fræhillunum. Á hverju ári keppast fræframleiðendur við að koma upp með girnilegar nýjungar og að sjálfsögðu á maður að freistast til þess að prófa eins og eina eða tvær nýjar tegundir eða yrki á hverju ári, til þess eru freistingarnar að falla fyrir þeim…      Mikilvægt er að velja tegundir til ræktunar þannig að ekki þurfi að sá til þeirra allra í einu. Tegundum sem þurfa langan ræktunartíma þarf að sá í janúar-febrúar og svo koma aðrar tegundir inn koll af kolli, síðustu sumarblómategundum er hægt að sá í byrjun maí. Þegar fyrstu tegundirnar hafa spírað vel upp er þeim dreifplantað í litla potta til að þær fái sæmilegt pláss til að þroskast og dafna. Fyrstu vikurnar standa plönturnar inni í gróðurhúsi eða gluggakistunni / bílskúrnum góða sem áður var rætt um og gæta þarf að því að þær fái næga birtu, ella spíra þær upp úr öllu valdi og verða langar, mjóar og veiklulegar. Upp úr byrjun apríl er hægt að fara að setja harðgerðar tegundir sumarblóma út í sólreit til herðingar. Nauðsynlegt er að hægt sé að breiða yfir plönturnar ef frystir, annars skemmast þær. Þegar fyrstu plönturnar fara út í herðingu skapast aukið pláss fyrir þær tegundir sem á eftir koma. Þannig nýtir maður plássið best í ræktunarrýminu með því að láta hverja tegundina taka við af annarri.      Þeir sem virkilega láta greipar sópa um fræhillurnar komast kannski ekki yfir að sá öllu fræinu á einu ræktunartímabili. Ekki þarf að örvænta því margt fræ geymist auðveldlega milli ræktunartímabili. Það þarf bara að setja bréfpokana, sem fræið er geymt í, í loftþétta plastpoka, til dæmis rennilásapoka og geyma svo herlegheitin í ísskáp fram á næsta vor. Fræ allra algengustu sumarblóma geymist auðveldlega í nokkur ár, sé þess gætt að fræið sé þurrt, það sé í loftþéttum umbúðum og geymt við lágt hitastig.      Farið nú að upplifa vorið og sumarið, góða skemmtun. Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur. (Áður birt í Morgunblaðinu árið 2006) [...]
    31. desember, 2020
  • Vetrarskýling sígrænna plantna – Blóm vikunnar með GurrýPistlarVetrarskýling sígrænna plantna – Blóm vikunnar með GurrýÞað hefur sennilega ekki farið fram hjá neinum að vetur er genginn í garð. Hupplegu húsfeðurnir standa úti við fjölskyldubifreiðarnar og skafa af bílrúðunum í morgunmyrkrinu á meðan hinir bíða innandyra meðan eiginkonan reddar málunum. Deilan um nagladekk hefur farið fram með hefðbundnum hætti en eitthvað hafa umræður um efnahagsmál þjóðarinnar skyggt á nagladekkjadeiluna, að minnsta kosti er hún ekki eins áberandi og í fyrra. Alvarlegt ástand í þjóðfélaginu virðist þó ekki ætla að draga úr skreytingagleði landans því jólaseríur spretta fram á ólíklegustu plöntum, manni virðist í sumum tilfellum hvert einasta uppistandandi strá í sumum görðum ljósum skrýtt. Það er auðvitað af hinu góða því ekki veitir okkur af því í svartasta skammdeginu að lýsa upp okkar nánasta umhverfi.      Einbeittustu garðeigendur eru síður en svo komnir í jóladvalann. Þeir standa nú í stórræðum og undirbúa vetrarskýlingu á viðkvæmari plöntum. Ýmsar sígrænar tegundir þarf að skýla með striga á vormánuðum og gegnir striginn í raun og veru tvöföldu hlutverki. Annars vegar veitir hann plöntunum skjól gegn veðri og vindum og kemur í veg fyrir að nálar og börkur plantnanna skemmist af völdum ísnála sem berast hratt yfir með skafrenningi. Hins vegar skyggir striginn á blöð plantnanna og kemur þannig í veg fyrir að sólin nái að hita þau upp. Ungar sígrænar plöntur eiga einmitt oft í erfiðleikum á vorin þegar veður er kalt og bjart. Slíkt veður er ákaflega erfitt þessum plöntum því sólin skín á blöðin og hitar plöntuna upp. Til að kæla sig niður þarf plantan að gufa út vatni um blöðin en þar sem jarðvegur er frosinn ná plönturnar ekki að taka upp vatn úr jarðvegi í stað þess sem gufar út.      Afleiðingarnar fyrir plönturnar verða þær að blöðin sviðna og kuldinn virkar þannig alveg eins og alvarlegur þurrkur. Þetta á sérstaklega við ungar sígrænar plöntur sem ekki eru komnar með djúpstætt og þroskað rótakerfi. Með aldrinum eiga plönturnar auðveldara með að glíma við þetta vandamál því rætur þeirra ná niður fyrir frostlagið í jarðveginum og þær geta því dregið upp vatn í stað þess sem gufar út. Striginn er því ákaflega heppilegt vetrarskýlingartæki. Settir eru niður staurar í kringum plöntuna sem á að skýla með striga og þeir látnir vera nokkuð hærri en plantan. Þetta er best að gera áður en jarðvegurinn frýs og um að gera að ráðast í þennan hluta verksins sem allra fyrst. Striginn þarf ekki að fara á staurana strax. Þeir sem vilja hafa jólaljósin ríkjandi fram yfir áramót bíða bara með að setja strigann á staurana þar til eftir þrettándann. Sólin sést hvort eð er ekkert að gagni fyrr en seinna í janúar eða í febrúar og gerir lítinn usla á plöntum á þessum tíma. Mestu skemmdirnar verða yfirleitt seinna í febrúar fram í mars þegar birtir en frost er ekki farið úr jörðu.      Striginn er þó ekki eini möguleikinn sem við höfum á vetrarskýlingu plantna þótt hann sé kannski heppilegur kostur fyrir uppréttar plöntur. Ef um jarðlægar eða lágvaxnar sígrænar plöntur er að ræða er alveg tilvalið að taka grenigreinar og leggja þær ofan á plönturnar. Gott er að festa skýlingargreinarnar niður með járnlykkju sem nær 30-40 cm niður í jarðveginn. Það kemur í veg fyrir að greinarnar fjúki af plöntunum þegar síst skyldi. Þetta er ágætt að gera þegar grenibúntin hafa lokið hlutverki sínu sem jólaskraut og þannig má sýna hagsýni á krepputímum. Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ (Áður birt í Morgunblaðinu árið 2008) [...]
    24. desember, 2020
  • Jólablómið – Blóm vikunnar með GurrýPistlarJólablómið – Blóm vikunnar með GurrýEinhvern veginn kemur það manni alltaf jafn mikið á óvart að jólin séu rétt handan við hornið, þau sem eru nýliðin. Manni finnst eins og síðustu jól hafi verið í gær, jafnvel þótt skynsemin segi manni að frá síðustu jólum hafi verið haldið upp á páskana, landsmenn komist óvenjumikið á skíði síðasta vetur, sumarið verið óvenju sólríkt og hlýtt og haustið eitt samfellt bálviðri. Samt voru jólin eiginlega í gær.      Það eru ákveðnir kostir fylgjandi þessum árstíma sem við garðafólk erum sérlega ánægð með. Daginn tekur að lengja um jólaleytið og það er vísbending um að vorið sé á næsta leyti. Það er reyndar með vorið eins og jólin að eftir því sem árin líða virðist alltaf styttra á milli vora. Kannski eru þetta gróðurhúsaáhrifin sem valda því að vorið lengist og við fáum því vor örlítið fyrr á hverju ári? Aðrir kostir fylgjandi jólaárstíðinni eru jólaljósin. Það er ekki til svo rytjulegur runni í görðum landsmanna að hann verðskuldi ekki eins og eina til tvær jólaseríur til skrauts á þessum árstíma. Það verður kannski með runnana eins og börnin að runnarnir fari í jólaköttinn fái þeir ekki seríu? Jafnvel skriðmisplar, sem eðli sínu samkvæmt standa ekki mikið upp úr jörðinni, hafa verið svo lánsamir að fá að skarta jólaljósunum.      Nú er svo komið að efnaðir Íslendingar (sem fer víst fjölgandi ár frá ári) eyða fleiri hundruð þúsundum, jafnvel milljónum í jólaskraut í görðum sínum. Garðyrkjufyrirtæki hafa sérhæft sig í að hanna og setja upp glæsilegar jólaljósasýningar fyrir fyrirtæki og einstaklinga og rafmagnsnotkun Íslendinga nær áður óþekktum hæðum og var nú ekki lítil fyrir. Dagurinn er stuttur og jafnvel dimmur og drungalegur á aðventunni þegar síðbúnar haustlægðir skemmta með tilheyrandi blæstri en við blásum á myrkrið og lýsum það upp með jólaljósunum.      Vonandi eru sem flestir búnir að útvega sér jólatré þegar þessi pistill birtist. Því miður hefur brugðið svo við á undanförnum árum að skortur hefur verið á jólatrjám í landinu, þrátt fyrir að skógræktarfélög víða um land hafi opnað skógarreiti sína og heimilað fólki að fara og höggva sitt eigið tré til jólanna. Mér finnst þessi siður, að öll fjölskyldan skundi saman út í skóg með sög og sagi niður sitt eigið tré, mjög skemmtilegur og heyri af æ fleirum sem líta á þetta sem nauðsynlegan hluta af jólaundirbúningnum.      Fjölskyldumeðlimir ná sterkari tilfinningatengslum við jólatréð þegar þeir hafa sjálfir séð um að höggva það. Ég er ekki viss um að almenningur hefði álitið þetta möguleika fyrir 50 árum, þótt skógræktarfólk hafi kannski alltaf haft þá hjartans sannfæringu að skógur yrði bara nokkuð algengur á Íslandi í framtíðinni. Ég er sjálf ein þeirra sem fer út í skóg með fjölskylduna mína og sög í hendi og leiðbeini eiginmanninum nákvæmlega um það hvaða tré hann á að saga niður. Hann tekur leiðbeiningum um val á tré á mjög jákvæðan hátt en þegar ég fer að segja honum til við sögunina sjálfa er hann ekki eins jákvæður, telur að hann hafi í ljósi menntunar sinnar sem trésmiður meiri þekkingu á aðferðafræði sögunar… Við ætlum að sæta lagi milli haustlægðanna og ná okkur í stafafuru til jólanna, þær bera með sér ilminn af jólunum.      Gleðileg jól! Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ (Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007) [...]
    17. desember, 2020
  • Grjón og greni – Blóm vikunnar með GurrýPistlarGrjón og greni – Blóm vikunnar með GurrýNú þegar Vetur konungur heilsar með úrhellisrigningu og dagurinn styttist verulega í annan endann er ósköp lítið hægt að dunda sér úti í garði. Garðar landsmanna minna grunsamlega mikið á hrísgrjónaekrur þessa dagana og kannski væri það bara ágætis afþreying svona á síðbúnum haustdögum að gera tilraunir með ræktun hrísgrjóna í þessum drullupollum sem garðarnir okkar eru núna. Vissulega gæti lágt lofthitastig haft neikvæð áhrif á vöxt hrísgrjónaplantnanna en maður á ekki að láta svartsýnisraddir draga úr sér kjarkinn. Fyrir hina sem alls ekki hafa neinn áhuga á hrísgrjónaræktun er mun skynsamlegra að fara að velta því fyrir sér hvernig jólatréð á að líta út í ár.      Ef við göngum út frá því að lesendur þessarar greinar muni velja sér lifandi tré þá er ekki úr vegi að skoða aðeins þær grenitegundir sem mögulegt er að hafa sem jólatré. Rauðgreni, Picea abies, var í eina tíð mjög vinsælt jólatré hjá landanum og er enn víða í nágrannalöndum okkar. Rauðgrenið er þéttvaxið, með fremur stuttar, fagurgrænar nálar sem stinga lítið sem ekkert og fínlegar greinar. Það er ákaflega formfagurt tré og þar sem það vex fremur hægt við íslenskar aðstæður verður það enn þéttara fyrir vikið. Sem jólatré er þetta því mjög hentug tegund því það er nóg af greinum til að hengja jólaskrautið á. Því miður hefur rauðgreni fengið það orð á sig sem jólatré að það sé langt frá því að vera barrheldið, nálarnar byrji að hrynja af trénu þegar það heyrir í farartæki skógarhöggsmannanna á leið í skógarhöggið. Þetta er nokkuð orðum aukið því sé vel hugsað um tréð á meðan það stendur uppi í stofunni heldur það barrinu alveg ágætlega. Með góðri umhirðu er hér átt við að neðri endanum á jólatrénu sé stungið niður í heitt vatn í nokkrar mínútur áður en trénu er komið fyrir í jólatrésfætinum. Jafnframt þarf að gæta þess að vökva tréð reglulega yfir jólahátíðina.      Sitkagreni, Picea sitchensis, er allt mun grófara í vaxtarlagi en rauðgrenið. Nálar sitkagrenis eru tvílitar, dökkgrænar á efra borði og ljósblágrænar á neðra borði. Þær eru mjög stingandi og því gæti þurft að kalla á fakír til að aðstoða við jólaskreytingarnar. Sitkagreni vex mun hraðar en rauðgreni og er með heldur grófari og þykkari árssprota. Þetta skilar sér í grófara vaxtarlagi og gisnari jólatrjám þar sem aðalgallinn er fólginn í frekar fáum greinum fyrir jólakúlurnar og jólaljósin. Sitkagrenið getur verið ágætlega barrheldið sé hugsað vel um það, eins og rauðgrenið hér að ofan. Skemmst er frá því að segja að sitkagreni er ekki mjög vinsælt sem jólatré, eins og sakir standa.      Blágreni, Picea engelmannii, hefur verið að sækja í sig veðrið sem jólatré síðustu ár. Það er hægvaxta við íslenskar aðstæður og hefur því frekar þétt vaxtarlag sem skilar sér í mörgum jólakúlubærum greinum. Nálar blágrenis eru blágrænar að lit og ákaflega mjúkar. Ysti endi greinanna er líka fremur lútandi sem gerir plöntuna þokkafulla í vaxtarlagi. Blágreni er barrheldið en vissulega þarf að hugsa vel um það, eins og önnur afskorin tré.      Sumum kann að virðast það fullsnemmt að fara að velta jólatrjánum fyrir sér en ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Nauðsynlegt er að taka vel ígrundaða ákvörðun um það hvaða jólatré verði fyrir valinu í ár, það dugir alls ekki að kasta til höndunum í þessu skyni. Hvort tréð er greni, fura, þinur eða eitthvað allt annað skiptir svo sannarlega máli. Jólatré eru punkturinn yfir i-ið á jólunum og allir fjölskyldumeðlimir ættu að hafa skýra og mótaða skoðun á trénu. Næsta skref er að hafa samband við starfsmenn nærliggjandi skógar og kanna hvort ekki sé mögulegt að maður geti fengið að höggva tréð sjálfur. Þá er tímabært að fara að brýna kutana… Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ (Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007) [...]
    10. desember, 2020
  • Askur, Fraxinus excelsior – Blóm vikunnar með GurrýPistlarAskur, Fraxinus excelsior – Blóm vikunnar með GurrýAskur, Fraxinus excelsior, er merkilegt tré. Askurinn er af smjörviðarætt, Oleaceae og á heimkynni suður um Evrópu frá Noregi og allt austur í Asíu. Hann er hávaxinn og myndarlegur, verður allt að 40 m á hæð í heimkynnum sínum og hefur breiða krónu. Börkurinn er ljós yfirlitum og gerir það að verkum að dökk, hér um bil kolsvört brumin verða mjög áberandi að vetri til, sérstaklega endabrumin því þau geta verið afar stór. Blöðin eru stakfjöðruð og minna í fljótu bragði á blöð reyniviðar. Askurinn laufgast seint. Blómgunartíminn er á vorin fyrir laufgun en hann hefur enn sem komið er ekki blómstrað hérlendis. Aldinið er hneta með 3-4 cm löngum væng og eru hneturnar nokkrar saman í knippi. Knippin hanga á trénu fram á vetur og minna á ótal lyklakippur. Aski er aðallega fjölgað með sáningu en ræktunarafbrigðum er fjölgað með ágræðslu. Hann getur orðið allt að 400 ára gamall. Haustliturinn er gulur.      Askurinn er þurftafrekur og þarf djúpan, rakaheldinn, frjóan og kalkríkan jarðveg auk þess sem hann þarf gott vaxtarrými. Þetta er verðmætt viðartré og er viður asksins þekktur fyrir sveigjanleika, styrk og seiglu. Til marks um það má nefna að viðurinn var notaður í hestvagna og hús fyrstu yfirbyggðu bílanna. Talið er að fyrstu skíðin hafi jafnframt verið úr askviði. Í dag er viðurinn einkum notaður í húsgögn, verkfæri og ýmiss konar íþróttavarning.      Askur hefur verið ræktaður á Íslandi í rúmlega 100 ár en sú ræktun hefur aldrei orðið umfangsmikil. Hann hefur átt erfitt uppdráttar hérlendis því hann þarf talsvert meiri hita og skjól en almennt hefur verið í boði á Íslandi. Þó má finna einstaka plöntur í grónum og skjólgóðum görðum sunnanlands, hann þrífst tæpast annars staðar á landinu. Í Múlakotsgarðinum í Fljótshlíð er stór og glæsilegur askur, hugsanlega sá stærsti á landinu enda eru skilyrði þar óvenju góð á íslenskan mælikvarða. Askurinn laufgast yfirleitt ekki fyrr en undir miðjan júní en nær yfirleitt að fella laufið tímanlega á haustin. Þó getur hann orðið fyrir haustkali.      Eins og áður sagði er askurinn tré með fortíð. Í norrænni goðafræði lék askur Yggdrasils lykilhlutverk því hann sá um það að halda himinhvelfingunni uppi og greinar hans breiddu sig út yfir alla heimsbyggðina. Hann naut því sérstakrar virðingar meðal norrænna manna. Ræktunarsaga asksins í Evrópu er löng því hann var gjarnan ræktaður við mannabústaði vegna þokkafulls vaxtarlags og þeirra viðarnytja sem hafa mátti af honum.      Viðurinn er ekki það eina sem menn hafa nýtt af askinum. Askurinn var nýttur í lækningaskyni til að vinna bug á ýmsum kvillum. Te af blöðunum var drukkið sem hægðalyf, notað til meðhöndlunar á sýkingu í nýrum og þvagfærum og til að hrekja út sníkjudýr í meltingarveginum. Útvortis voru blöðin notuð í bakstra eða böð til að meðhöndla sár sem vætlaði úr. Börkurinn var svo notaður í stað kíníns til að lækka sótthita.      Ýmiss konar hjátrú hefur verið tengd askinum. Þeir sem eru illa hrjáðir af vörtum geta til dæmis reynt eftirfarandi aðferð: Takið dálitla sneið af beikoni, komið henni fyrir undir berkinum á aski og mun þá myndast nokkurs konar hrúður á berkinum. Þegar sárið grær hverfa vörturnar. Askurinn getur líka hjálpað þeim sem þjást af almennri taugaveiklun. Það eina sem þarf að gera er að klippa lítinn bút af nögl hvers fingurs og hverrar táar auk svolítils lokks af hári. Næsta sunnudagsmorgunn á að fara á fætur fyrir sólarupprás og bora litla holu í stofn fyrsta asktrés sem viðkomandi finnur. Neglurnar og hárið eru sett í holuna og holunni lokað og taugaveiklunin heyrir sögunni til. Aðrir kvillar sem askurinn var talinn vinna á voru til dæmis eyrnaverkur, gyllinæð og getuleysi.      Þessi goðsagnaplanta hefur lítið verið gróðursett á Íslandi undanfarna áratugi. Auk gömlu trjánna sem áður var minnst á, má finna eina og eina unga plöntu í görðum mjög áhugasamra garðræktenda. Hugsanlega væri hægt að rækta meira af aski á Íslandi ef rétt kvæmi kæmu til sögunnar. Í því sambandi hafa menn einkum einblínt til Noregs því þar þrífst askurinn vel allt norður í Þrændalög, alveg að 63°40’ n.br. og því kannski mögulegt að finna kvæmi sem henta við íslenskar aðstæður. Auk þess að vera skemmtileg viðbót við þær trjátegundir sem nú þegar eru ræktaðar á Íslandi gæti askkvæmið gert sitt til að minnka almenna taugaveiklun í íslensku samfélagi… Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur. (Áður birt í Morgunblaðinu árið 2001) [...]
    3. desember, 2020
  • Álmur – Ulmus glabra – Blóm vikunnar með GurrýPistlarÁlmur – Ulmus glabra – Blóm vikunnar með GurrýÁlmurinn, Ulmus glabra, er af álmsættinni, Ulmaceae, og er eina tegundin af þeirri ætt sem eitthvað hefur verið ræktuð að ráði á Íslandi. Heimkynni álmsins eru á Bretlandseyjum og í Mið-Evrópu allt austur til Litlu-Asíu. Álmurinn teygir sig líka norður eftir Evrópu til Noregs en þar má finna stæðileg álmtré allt norður á 67° norðlægrar breiddar (við Beiarn í Norður-Noregi). Hann vex gjarnan í blönduðum laufskógum innan um eikur og aska og hefur ekki þétta útbreiðslu, minnir þannig dálítið á íslenska ilmreyninn sem má finna stakan innan um birkitrén. Álmurinn heldur sig gjarnan í fjallshlíðum og á hæðum í heimkynnum sínum en síður á láglendi.      Álmur getur orðið allt að 200 ára gamall og um 40 m hár í heimkynnum sínum en hérlendis hefur hann náð 12-13 m hæð sums staðar í Reykjavík. Þetta er ýmist einstofna eða margstofna tré með gildan stofn og mjög stóra og hvelfda krónu sem virðist fremur dökk yfirlitum. Börkurinn er sléttur í fyrstu en með aldrinum verður hann áberandi langsprunginn og dökkur á lit. Blómgunartími álmsins er að vorinu, rétt fyrir laufgun. Blómin eru gulgræn í þéttum klösum. Aldinið er lítil hneta með væng sem nær allan hringinn í kringum hnetuna og þroskast aldinin tiltölulega snemma á trénu. Fræið situr nokkurn veginn í miðju vængsins. Haustlitur álmsins er fagurgulur.      Stærð álmsins gerir það að verkum að hann þarf rúmgóðan vaxtarstað. Jarðvegur þarf að vera djúpur og frjór og sæmilega rakur til að tréð dafni sem best. Erlendis er það talinn einn af kostum álms að rótakerfi hans er djúpstætt og því lítil hætta á því að hann fjúki um koll í hvassviðri. Þetta er vafalaust líka kostur fyrir álm á Íslandi. Álmurinn getur vaxið hratt á unga aldri og er honum þá dálítið hætt við haustkali hérlendis. Fullorðin tré sem vaxa hægar kelur síður. Í uppvextinum þolir álmur talsverðan skugga en vill að öllu jöfnu sæmilega bjartan vaxtarstað.      Fjölgun á álmi er aðallega fræfjölgun og fer hann að mynda fræ þegar hann er um 30-40 ára gamall. Fræið spírar strax og hefur lítið geymsluþol. Til eru ýmis ræktunarafbrigði erlendis sem fjölgað er með ágræðslu. Hérlendis er honum einungis fjölgað með fræi. Bannað er að flytja lifandi álm inn til Íslands vegna sjúkdóms sem hefur herjað á álmtegundir í gervallri Evrópu og hefur lagt að velli allt að 98% álmtrjáa í sumum löndum. Sjúkdómur þessi nefnist álmsýki (Dutch Elm Disease) og hefur slíkur faraldur geisað um Evrópu síðustu áratugi. Sjúkdómurinn er af völdum svepps, Ceratocystis ulmi, sem dreifist á milli plantna, að hluta til milli samgróinna róta álmplantna en aðallega með barkarbjöllu af ættkvíslinni Scolytus spp. Sveppurinn leggst á leiðsluvefi plantnanna og kemur þannig í veg fyrir eðlilega næringaröflun með þeim afleiðingum að plönturnar veslast smám saman upp. Ekki hefur fundist nein lækning við þessum sjúkdómi og eina ráðið sem menn hafa í baráttunni í dag er að reyna að velja til ræktunar plöntur sem hafa mótstöðu gegn sjúkdómnum. Álmsýki hefur ekki orðið vart á Íslandi og er vonandi að okkur takist að komast hjá því að fá þennan óboðna gest til landsins. Einungis má flytja inn álmfræ til Íslands frá ósýktum svæðum.      Álmlús er óværa sem leggst á álminn og hefur fundist hérlendis. Lúsin yfirvetrast í berki álmsins. Að vori klekjast út kvendýr sem halda sig á neðra borði blaðanna, sjúga þar næringu úr blöðunum og gera það að verkum að blöðin verpast og krumpast. Afkvæmi þessara kvendýra fara yfir á sólber og rauðrifs og fá næringu úr rótum runnanna. Þeirra afkvæmi fljúga svo aftur yfir á álminn þegar líður á sumarið, fjölga sér enn frekar og síðustu kvendýr sumarsins verpa eggjum sínum í börk álmsins að mökun lokinni. Álmlúsin er aðgangshörð og fer stundum verulega illa með þau tré sem hún leggst á.      Viður álmsins er litríkur og talinn mjög fallegur. Kjarni trjábolsins er rauðbrúnn og ytri hluti hans er gulhvítur. Viðurinn er sveigjanlegur og hentar vel í ýmiss konar húsgögn og verkfæri og jafnvel í parket. Af þeim sökum er þetta eftirsóttur viður en framboðið er þó ekki mjög mikið.      Álmur hentar vel bæði sem stakstætt tré í stórar lóðir eða í klippt limgerði. Hann tekur klippingu vel og má jafnvel klippa hann alveg niður til endurnýjunar ef limgerðið verður gisið. Álmlimgerði finnast á nokkrum stöðum í Reykjavík og þrífast með ágætum. Álmur þolir seltu sæmilega vel og er ágætlega vindþolinn. Þetta er tegund sem mætti nota til að auka fjölbreytni í íslenskum görðum og er álmurinn oftast fáanlegur í gróðrarstöðvum. Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur. (Áður birt í Morgunblaðinu árið 2001) [...]
    26. nóvember, 2020
  • Jólarósir, Helleborus – Blóm vikunnar með GurrýPistlarJólarósir, Helleborus – Blóm vikunnar með GurrýÞað kann að virðast svolítið furðulegt að skrifa um jólarósir svona þegar sumarið er nýgengið í garð. Íslenskt sumar lætur þó ekki að sér hæða og mætir til leiks með fannfergi og tilheyrandi hálku á fjallvegum. Svartsýnir menn gætu orðað þetta svo að það haustaði óvenju snemma þetta vorið en við garðyrkjufólkið höfum marga fjöruna sopið í þessum efnum og vitum að handan við hornið er logn og blíða, sumarsól. Snjóalögin í byrjun sumars eru samt sem áður tilefni þessarar greinar því það hrærir gjarnan hjartans hörpustrengi að sjá blómstrandi plöntur gægjast upp úr snjósköflunum. Jólarósin er einmitt þeirrar náttúru að hún blómstrar á verulega óvenjulegum tíma eða um hávetur. Sagt er að jólarósin blómstri á jólanótt, kannski er þetta hennar leið til að fagna fæðingu frelsarans.      Jólarósir eða Helleborus ættkvíslin, eru plöntur af sóleyjaættinni. Þær vaxa helst í skóglendi eða í grýttum hlíðum í heimkynnum sínum við Miðjarðarhafið og víðar í Evrópu, austur til Asíu. Nafnið Helleborus er komið úr grísku og er dregið af orðunum helein = að skaða, slasa og bora = matur og vísar það til þess að plönturnar eru ákaflega eitraðar. Jólarósir eru fremur lágvaxnar plöntur, um 30-60 cm háar með upprétta stöngla. Plönturnar mynda þykkan jarðstöngul og eru með voldugt rótakerfi. Upp af jarðstönglinum koma handskipt til fjaðurskipt blöð með lensulaga og sagtenntum blaðhlutum. Blöðin eru sígræn, þykk og leðurkennd. Blómstönglarnir eru uppréttir og á þeim eru fremur mjó stöngulblöð. Blómin eru sérkennileg því það eru í raun bikarblöðin sem eru aðalskrautið, krónublöðin sjálf eru ekki greinileg. Blómin eru ýmist lútandi eða vísa út til hliðar. Þau eru í hvítum, bleikum, fjólubláum eða grænum litum, stundum eru blómin með grænum blettum. Blómgunartími jólarósa er frá því síðvetrar fram á mitt vorið.      Eiturefnin sem plönturnar innihalda eru glýkósíð sem hafa skaðleg áhrif á hjarta og miðtaugakerfi. Eitrunareinkenni geta verið mikil munnvatnsframleiðsla, óreglulegur hjartsláttur og meltingartruflanir. Á miðöldum var seyði af jólarósarótum notað sem banvænt eitur og einnig var það notað til að lækna geðveiki, sem verður að teljast fremur vafasöm lækningaaðferð, miðað við eituráhrif plöntunnar. Plöntusafinn getur valdið kláða og blöðrum á húð þannig að rétt er að vera í hönskum þegar plöntunni er skipt eða hún meðhöndluð á annan hátt.      Jólarósin sjálf, Helleborus niger, er ákaflega falleg planta með tvö til þrjú stór, skállaga, nærri upprétt, hreinhvít blóm á hverjum stöngli. Jarðstöngull jólarósar er svartur og er það einkennandi fyrir tegundina enda vísar tegundarheitið, niger til þess. Jólarós verður um 30 cm há. Henni er hægt að skipta í tvo hópa eftir blómgunartíma, annars vegar blómstra plönturnar í desember-janúar og hins vegar í febrúar-apríl. Jólarós hefur verið ræktuð hérlendis í grónum og skjólgóðum görðum með ágætis árangri.      Fösturós, Helleborus orientalis, er önnur tegund sem hefur verið ræktuð hérlendis með ágætis árangri. Hún er ívið hærri en jólarósin, eða um 45 cm á hæð. Blómin eru yfirleitt fremur lútandi eða vísa út á við og eru þau ýmist kremhvít eða grænleit á aðaltegundinni. Til er afbrigði með rauðleit blóm og er meðfylgjandi mynd af því afbrigði. Það nefnist Helleborus orientalis ssp. abchasicus og blómstrar þessi tegund snemma á vorin eða í apríl-maí.      Þessar snemmblómstrandi tegundir eru skemmtileg viðbót við allar hinar plönturnar sem gleðja okkur snemma á vorin, þ.e. laukana, lyklana, geitabjöllurnar o.fl. Yfirleitt eru jólarósirnar mjög formfagrar garðplöntur og þarf lítið fyrir þeim að hafa. Þeir sem eiga skjólgóða garða og hafa áhuga á fallegum tegundum ættu að prófa þessar. Þá er bara að bretta upp ermarnar, grípa garðyrkjubækurnar og láta sig dreyma um raunverulegt sumar, svona rétt á meðan mestu skaflarnir bráðna. Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur (Áður birt í Morgunblaðinu árið 2006) [...]
    19. nóvember, 2020
  • Börkur – Blóm vikunnar með GurrýPistlarBörkur – Blóm vikunnar með GurrýVeturinn er genginn í garð með tilheyrandi tilþrifum, hálku á Hellisheiði, eldgosi í Grímsvötnum, ófærð á Vestfjörðum, verkfalli grunnskólakennara og auðvitað skammdeginu. Garðar landsmanna eru ekki lengur grænir og blómlegir heldur hafa flestar plöntur fellt laufið, eftir standa sígrænu drottningarnar sem ekkert virðist hrína á. Kuldaboli breiðir ískalda sæng sína yfir allt og eftir standa naktar plöntur, visin grös og garðeigendur með gæsahúð. Það er þó ekki eintómt svartnætti í görðunum, öðru nær því margar plöntur eru einmitt í sínum fegursta búningi að vetrarlagi. Þegar laufin falla og berar greinar og stofnar blasa við kemur ýmislegt í ljós.      Í gegnum tíðina höfum við Íslendingar einblínt á blómgun og blaðfegurð plantna enda hefur veturinn yfirleitt verið svo harður og erfiður að enginn maður með fullu viti hefur hætt sér út í garð að vetrarlagi. Nú hefur hins vegar hlýnað verulega í veðri, þökk sé gróðurhúsaáhrifunum og veturinn orðinn eins og langt haust, bara svolítið meira myrkur. Því færist það í vöxt að fólk rölti með kaffibollann út á sólpallinn á fögrum haustdögum og virði fyrir sér gróðurinn í garðinum.      Skemmtilegt vaxtarlag plantna er algert lykilatriði, eigi plönturnar að grípa augað yfir veturinn. Plöntur með bogsveigðar greinar eins og til dæmis sunnukvistur og loðkvistur eru mjög tignarlegar að vetrarlagi. Ýmsar ágræddar plöntur eru einnig mjög skemmtilegar, sérstaklega þegar greinar skriðulla plantna eru ágræddar á háan stofn, áhrifin minna mann óneitanlega á hárkollu á kústskafti eða skúringamoppu, bara mun fallegra og þokkafyllra.      Það sem heillar þó mest yfir vetrartímann, þegar grái liturinn er ríkjandi í umhverfinu, eru plöntur með fallegan börk. Ýmsar tegundir trjáplantna eru með ákaflega fallega litan börk, oft gljáandi og eru þannig sérstaklega aðlaðandi að vetrarlagi. Íslenska birkið hefur löngum þótt fallegt á veturna. Barkarlitur birkisins er mjög fjölbreyttur, allt frá mjög dökkum berki sem er nærri því svartur, yfir í gljáandi rauðbrúnan börk yfir í mjallahvítan börk sem hreinlega lýsir upp umhverfi sitt. Hinn hvíti börkur birkisins er einmitt sá eftirsóttasti og tré með hvítan börk rjúka eins og heitar lummur í gróðrarstöðvum.Næfurheggur, Prunus maackii, er önnur tegund sem vert er að rækta vegna barkarins. Börkur næfurheggs er kanilbrúnn og gljáandi og næfrar af í löngum ræmum eftir því sem tréð gildnar. Þessi heggtegund hefur verið ræktuð á Íslandi í þó nokkurn tíma og hefur sýnt góð þrif við venjulegar garðaaðstæður. Hann verður um það bil 4-6 m hár og er með fremur opna greinabyggingu. Þetta er því tré sem hentar sérstaklega vel í litla garða.Snælenja, Nothofagus antarctica, er fremur viðkvæm trjátegund sem þrífst einkum í skjólbetri görðum. Snælenjan er með mjög dökkan börk sem er alsettur hvítum þverrákum, svokölluðum barkaropum eða korkopum og eru þessar rákir mjög áberandi í berkinum. Þetta er tré sem getur líklega orðið um 5 m hátt við íslenskar aðstæður, hugsanlega eitthvað hærra á betri stöðum.Mjallarhyrnir, Cornus alba ‘Sibirica’ er lágvaxinn runni sem er eiginlega nær eingöngu ræktaður vegna barkarlitar. Litur barkarins á nýjum greinum er hárauður og sérstaklega áberandi að vetrarlagi. Mjallarhyrnir kelur svolítið í görðum en hann nær að koma fram með nýjar greinar yfir sumarið, þessar nýju greinar eru einmitt fallegastar því þær eru auðvitað rauðar, svo ósköp rauðar. Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur (Áður birt í Morgunblaðinu árið 2004) [...]
    12. nóvember, 2020
  • Ilmreynir, Sorbus aucuparia – Blóm vikunnar með GurrýPistlarIlmreynir, Sorbus aucuparia – Blóm vikunnar með GurrýIlmreynirinn, eða reyniviður eins og hann er gjarnan kallaður í daglegu tali, á ættir sínar að rekja til Íslands. Greinar ættartrés hans teygja sig um temptaða beltið, um Evrópu og austur í Asíu, allt norður og austur í Síberíu. Reynirinn sýnir mikinn sveigjanleika í vali á vaxtarstað og getur fundist allt frá hlýjum, þurrum suðurhlíðum yfir í rakar mýrar. Hérlendis finnst reynir einkum í birkiskógum og þá helst innan um birkikjarr þar sem reynirinn nær að standa vel upp úr kjarrinu. Hann myndar ekki samfelldar breiður eða skóga heldur finnst helst stakstæður. Í öðrum löndum á hann þó til að mynda þyrpingar af trjám.      Ilmreynir er beinvaxið, upprétt tré sem verður um 8-12 m hátt. Krónan er ávöl, jafnvel egglaga og getur orðið ansi þétt. Blöð reynis eru stakfjöðruð og talsvert stór. Blómgun á sér stað snemma sumars, í júní og eru blómin stór, kremhvít og ilma mikið og vel, eins og nafn plöntunnar gefur til kynna. Blómin eru í stórum hálfsveipum á endum greina og eru því mjög áberandi. Fræflarnir í blómunum eru nokkuð langir og gefa því blómsveipunum loðið yfirbragð. Þegar líður að hausti birtast svo aldinin, reyniberin. Þau eru yfirleitt hárauð á lit en til eru afbrigði af ilmreyni með appelsínugul og jafnvel gul ber. Reyniber eru eftirsótt af fuglum og endurspeglast það í latneska tegundarheitinu ,,aucuparia” sem þýðir ,, sá sem laðar að sér fugla”. Haustlitir reynisins eru sérlega glæsilegir en þó eru til einstaka tré sem fá engan haustlit heldur frjósa græn.      Þótt reynirinn sé þolgóður og geri almennt ekki miklar kröfur til jarðvegs á vaxtarstað sínum er það staðreynd, að tré sem fá djúpan, frjóan og vel rakaheldinn jarðveg sýna best þrif. Rótakerfi reynisins er nokkuð umfangsmikið og það getur gengið alldjúpt niður í jörðina. Sumar reyniplöntur eiga það til að mynda heilmikinn flota af rótarskotum, litlum plöntum sem vaxa þétt upp við stofn móðurplöntunnar. Almennt er talið að þetta sé merki um vanþrif á plöntunni en einnig eru einstaklingarnir misjafnir hvað þetta varðar. Reynirinn er ákaflega ljóselskur og það þýðir lítið að gróðursetja hann á skuggsæla staði, hann plumar sig mjög illa við slíkar aðstæður. Hann sómir sér vel hvort heldur sem er stakstæður eða í stærri hópum svo framarlega sem hvert tré fær notið þeirrar birtu sem það þarf á að halda.      Ilmreyni er fjölgað upp af fræi eða með ágræðslu. Berin eru tínd á haustin og kjötið hreinsað af þeim áður en fræjunum er sáð. Fræin geta ekki spírað fyrr en eftir kuldatímabil þannig að það er mjög gott að sá í bakka og geyma bakkana utandyra yfir veturinn. Við það brotna niður spírunarhindrandi hormón í fræjunum en hormón þessi tryggja að fræið spíri ekki á óhagstæðum tíma. Talið er hér um bil ómögulegt að fjölga ilmreyni með græðlingum þannig að það er lítið reynt. Til skamms tíma var reyninum fjölgað með vefjaræktun og voru þá valdir sérlega beinvaxin og fagurlimuð tré til undaneldis. Val á móðurplöntu er vissulega mikið atriði, hvort sem notuð eru af henni fræ eða sprotar. Hún þarf að vera vel vaxin, blómviljug, fá fallega haustliti og hafa í sér mótstöðu gegn sjúkdómum sem herja á reyninn. Einna algengastur er reyniátan sem getur leikið mörg reynitré grátt, sérstaklega í röku loftslagi og þar sem trén eru svekkt á annan hátt. Reyniviður af íslenskum uppruna er líka betur til ræktunar hérlendis fallinn en þar skapast vandamál því að á fyrstu áratugum síðustu aldar var mikið magn reyniplantna flutt inn til landsins frá Danmörku og Noregi og í dag er erfitt að finna út hvaða tré eru innlend og hver innflutt. Ilmreynir þrífst vel um allt land og er það gleðiefni að eftir nokkurra áratuga lægð í útplöntun á reyni er hann að komast í tísku aftur.      Reynirinn skipar sérstakan sess í þjóðtrú margra landa. Hann var talinn búa yfir sérstökum verndarmætti og álitu menn að ef þeir bæru á sér dálítinn sprota af ilmreyni væru þeir verndaðir gegn hvers kyns galdrafári. Það þótti gott að planta reynitrjám í grennd við hýbýli manna til að bægja frá illum öndum. Samkvæmt íslenskri hjátrú var álitið að reyninum fylgdu níu náttúrur góðar og níu náttúrur vondar.      Reyniberin eru, sem fyrr segir, eftirsótt af fuglum. Þau eru ekki bragðgóð til átu en það er alveg tilvalið að sulta úr reyniberjum. Best er að berin hafi frosið aðeins áður en þau eru tínd en einnig má skella þeim í ísskáp eða frystikistu í svolitla stund áður en þau eru notuð. Reyniberjahlaup er búið til á sama hátt og rifsberjahlaup, berin soðin í svolitlu vatni og svo síuð frá safanum. Sykri er svo bætt í safann í hlutföllunum 1:1. Slíkt hlaup er mjög gott með svínakjöti og villibráð. Ef hlaupið þykir of bragðsterkt má milda það með því að hafa epli í því og er þá magn berjanna minnkað í réttu hlutfalli við magn eplanna. Rétt er að geta þess að það þarf að hafa hraðar hendur við berjatínsluna áður en fuglarnir hafa klárað berin. Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur. (Áður birt í Morgunblaðinu árið 2001) [...]
    5. nóvember, 2020
  • Garðahlynur, Acer pseudoplatanus – Blóm vikunnar með GurrýPistlarGarðahlynur, Acer pseudoplatanus – Blóm vikunnar með GurrýDraumatré okkar Íslendinga er í laginu eins og tré í litabókum.  Það hefur beinan, kröftugan stofn og breiða og gróskumikla krónu.  Greinar krónunnar eru það voldugar að auðvelt er að hengja í þær rólu auk þess sem þær bjóða upp á fjölbreyttar æfingar í klifri.  Trjákrónan sjálf er svo umfangsmikil að íslensk stórfjölskylda getur setið undir trénu í forsælunni og forðað sér undan heitri sólinni um miðjan daginn.  Draumatré okkar Íslendinga er garðahlynur.      Garðahlynur, Acer pseudoplatanus, er ættaður frá Evrópu og vestur í vestasta hluta Asíu.  Hann vex einkum í fjalllendi í heimkynnum sínum og getur þar náð allt að 40 m hæð.  Á Íslandi eru hæstu hlynir rétt um 15 m háir.  Krónan verður stór og hvelfd og þarf hlynurinn mikið og gott rými til að hann njóti sín til fulls.  Blöðin eru stór og handsepótt og minna á aðra trjátegund, Platanus en þaðan kemur einmitt merking tegundarheitis garðahlynsins, pseudoplatanus sem þýðir ,,eins og Platanus”.   Garðahlynur er af hlynsættinni, Aceraceae en innan hennar eru tvær ættkvíslir, Acer og Dipteronia sem samtals innihalda um 100 tegundir plantna sem aðallega er að finna á tempruðum svæðum norðurhvels jarðar.  Eitt af sameiginlegum einkennum hlyntegunda er lögun blaðanna en þau eru handsepótt til handflipótt.  Stærð blaðanna er mjög mismunandi milli tegunda og einnig er fjöldi flipa eða sepa mismikill.        Garðahlynurinn fær oft sérlega fallega gula haustliti, í haustsólinni er jafnvel eins og hann standi í ljósum logum.  Fræin eru einkennandi fyrir ættkvíslina.  Þau eru föst saman tvö og tvö og á hverju fræi er vængur.  Vængir fræjanna mynda hvasst horn eða allt að því rétt horn (60-90°) hver við annan og er þetta atriði oft notað til að greina sundur mismunandi hlyntegundir.  Þegar fræið fellur til jarðar gerir vængurinn það að verkum að það eins og skrúfast niður og getur þannig lent í dálítilli fjarlægð frá móðurplöntunni.  Í heimkynnum sínum getur garðahlynurinn orðið eldgamall eða 400-500 ára þannig að íslensku plönturnar eru flestar hverjar rétt á táningsaldri.       Garðahlyni er yfirleitt fjölgað með fræi.  Margir þroskaðir garðahlynir ná að mynda gott fræ hérlendis og jafnvel eru dæmi um það að þeir sái sér í görðum sem hreinasta illgresi.  Sáningin þarf að fara fram að hausti til sama ár og fræið þroskast því það  geymist mjög illa og inniheldur einnig svolítið af spírunarhindrandi hormónum sem brotna smám saman niður yfir veturinn.  Að vori spírar fræið og geta sáðplönturnar vaxið um nokkra tugi sentimetra yfir sumarið.  Í nágrannalöndum okkar eru til margir fallegir klónar af garðahlyn og er þeim fjölgað með ágræðslu því mjög erfitt er að fjölga hlyn upp af græðlingum, sumir ganga jafnvel svo langt að telja það allsendis ómögulegt.      Sem fyrr segir verður garðahlynurinn stórt og mikið tré og á það einnig við um rótakerfið, það gengur mjög djúpt niður í jarðveginn.  Þess vegna þarf jarðvegurinn að vera vel djúpur og frjósamur því garðahlynurinn er frekur til matar síns.  Því er mikilvægt að undirbúa jarðveginn mjög vel áður en garðahlynur er gróðursettur og búa hann undir lífið með ríkulegt nesti af lífrænum áburði og kalki.      Tískusveiflur í plöntuvali hafa haft áhrif á ræktun garðahlyns á Íslandi.  Hlynurinn vex hægt og getur kalið illa á haustin ef frystir snemma.  Fyrstu árin eftir að tréð er gróðursett í garði geta því verið dálítið erfið, bæði fyrir tréð og fyrir óþolinmóða eigendur þess.  Nú á síðari árum í kjölfar aspafársins mikla hafa hægvaxta tré fengið uppreisn æru og fara vinsældir garðahlyns vaxandi ár frá ári.  Í flestum tilfellum er garðahlynur fluttur inn til Íslands frá Evrópu, oftast Danmörku.  Þessar innfluttu plöntur eru misduglegar við það að aðlaga sig að íslensku loftslagi og geta kalið illa fyrstu árin.  Plöntur sem ræktaðar eru upp af íslensku fræi eru ekki endilega betri en þær innfluttu því fræmæðurnar eru jú af sama uppruna.  Garðeigendur ættu þó ekki að hræðast það að fá sér garðahlyn í garðinn sinn, hann sýnir það strax í upphafi hvort hann fellir sig við íslenskt veðurfar eða ekki.      Margar aðrar hlyntegundir eru vinsælar garðplöntur og eru þær ýmist ræktaðar vegna blaðanna eða barkarins.  Sumar hlyntegundir hafa börk með ákaflega fallegu mynstri og hafa því verið nefndir slönguskinnshlynir (snake bark maples).  Kanadamenn láta sér þó ekki nægja að dást að hlyntrjánum úr fjarlægð.  Sykurhlynur (Acer saccharum) hefur ákaflega sætan plöntusafa sem notaður er til að búa til hlynsýróp en eins og sigldir Íslendingar vita er það algerlega nauðsynlegt út á amerískar pönnukökur.  Hér í lokin fylgir því sérlega einföld og ljúffeng uppskrift að slíku hnossgæti: 3 bollar hveiti, 1 bolli sykur, 1 egg, 1 tsk matarsódi, mjólk eftir þörfum, slatti af bláberjum ef árstíminn leyfir.  Allt hrært saman og deigið haft fremur þykkt.  Pönnukökurnar eru steiktar á pönnu og bornar fram með smjöri, osti og hinu ómissandi hlynsýrópi.  Verði ykkur að góðu! Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur. (Áður birt í Morgunblaðinu árið 2001) [...]
    29. október, 2020
  • Saltskemmdir á plöntum – Blóm vikunnar með GurrýPistlarSaltskemmdir á plöntum – Blóm vikunnar með GurrýAllir skynsamir garðeigendur hafa nú pakkað saman trampólínunum úr garðinum hjá sér og komið þeim í skjól inni í bílskúr eða öðru hentugu geymsluplássi. Reynsla undanfarinna ára þegar trampólín voru orðin eins og eðlilegur hluti af illviðrum haustsins hefur kennt okkur að hægt er að draga verulega úr óþægindum með því að lágmarka trampólínfok á haustin. Veðurfarið þessa dagana er ekki líklegt til að drífa menn áfram í garðyrkjustórræðum en þó er haustið tvímælalaust einn besti tími ársins til útplöntunar á alls kyns plöntum, ekki þarf að hafa áhyggjur af vökvuninni um þessar mundir og svo geta plönturnar hafið vöxt á nýjum vaxtarstað mun fyrr næsta vor en þær annars myndu geta. Vaxtartímabilið verður því mun lengra en ella.      Haustið gekk í garð með tilþrifum, nú eins og í fyrra og var fyrsti almennilegi stormur haustsins verulega tilþrifamikill. Afleiðingar hans voru líka skrautlegar. Laufblöð plantna, sem flestar voru enn fulllaufgaðar, urðu kolsvört og undin og rifin og tætt eftir veðrið. Þessi einkenni voru ekki eingöngu niðri við ströndina heldur náðu þau langt inn í land. Minnugir reynslunnar frá því í fyrra þegar í ljós kom að plöntur langt inn í landi urðu fyrir saltskemmdum ákváðu nú sérfræðingar í trjáræktarmálum að kanna hvort sams konar hrellingar væru í gangi í ár. Sást til að minnsta kosti tveggja sérfræðinga á kreiki á Suðurlandi strax eftir þennan fyrsta storm og þótti atferli þeirra með eindæmum undarlegt. Þeir gengu að grenitrjám og öðrum trjám, tóku sér barr og laufblöð í hönd og í samræmi við vísindalegar aðferðir voru laufblöðin tekin bæði áveðurs og hlémegin á plöntunum. Því næst sleiktu mennirnir blöðin og það var þá sem vitni að tilburðunum sannfærðust um að andleg heilsa þessara manna væri kannski ekki með besta móti. Sérfræðingarnir létu það ekki á sig fá og sleiktu sig fram og til baka um trjálundi Suðurlands. Rétt er að geta þess að þessir tungutilburðir voru nokkurs konar forkönnun sérfræðinganna á því sem þeir raunverulega ætluðu að rannsaka. Besta leiðin til að komast að því hvort blöð hafi orðið fyrir saltskemmdum er auðvitað að athuga hvort salt sé á yfirborði blaðanna og hvaða aðferð er betri en sú að smakka? Sérfræðingarnir okkar komust að því að langt inni í landi var mikið saltbragð af blöðum plantnanna og eftir að þeir höfðu komist að því að salt var til staðar tóku þeir sýni og eru nú að rannsaka hversu mikið saltmagn var raunverulega á blöðunum.      Salt hefur mjög skaðleg áhrif á plöntur og sérstaklega þegar þær eru fulllaufgaðar. Salt á yfirborði plöntunnar dregur vökva út úr henni og hún verður því fyrir þurrkskemmdum sem eru ekkert ósvipaðar og kalskemmdir. Þannig geta svona saltstormar gert það að verkum að verulega muni sjá á plöntum næsta vor, sérstaklega sígrænum plöntum. Þannig voru furuplöntur illa brenndar eftir síðasta haust og komu þær skemmdir ekki almennilega fram fyrr en þegar leið á vorið. Garðeigendur sem hafa búið við svona saltaustur um árabil, það er þeir sem búa við sjávarsíðuna, hafa löngum notað gamalt og gott húsráð gegn saltinu. Þeir fara út með garðslöngu eftir saltstormana og skola af plöntum sínum. Þetta ráð getur kannski reynst erfitt í framkvæmd þegar um heilu skógarreitina er að ræða en í smærri görðum ættu menn ekki að hika við að prófa það, sérstaklega þar sem um uppáhaldsplönturnar er að ræða… Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ (Áður birt í Morgunblaðinu árið 2008) [...]
    22. október, 2020