Posted on

Hefur þú séð apann í Japan? (Hluti 4 af 4)

Stiklur úr japanskri menningu

Mynd: Harald Schaller

 

Í fyrri hlutum höfum við fjallað m.a. um mismunandi tegundir japanskra garða, ásamt plöntum o.fl. sem þar leynast. Ýmislegt má finna í menningu japanskrar þjóðar, sem hefur ratað yfir í garðmenninguna. Sumt sem finnst í görðum í dag er einfalt skraut á meðan annað hefur dýpri merkingu eða sögu bakvið sig. Nefnum því örfá atriði hér til glöggvunar fyrir áhugasama.

Tsukubai – handlaugin.
Handlaug úr steini er nauðsyn við helga staði líkt og búddahof, en ekki síður í hefðbundnum te görðum. (Þar eru bæði garðurinn og teið hefðbundið). Tilgangurinn er hreinsunar ritúal. Nútíma útgáfan er líklega sprittbrúsi úr plasti við innganginn, en þar hefur ekki alveg sama sjarmann.

Tome Ishi / Sekimori ishi – hinn bundni steinn.
Sjáir þú bundin stein liggjandi á stiklu eða gangvegi, er það merki um að hér skuli ekki fara. Í tegarði getur þetta þýtt að prívat te athöfn sé í gangi sem ekki megi trufla. Í garði með hvíldar og hugleiðslurými þýðir þetta á svipaðan hátt að rýmið sé upptekið. Í öðrum tilfellum getur þetta þýtt hinar ýmsu útgáfur af „ekki koma hingað“, „lokað“, „óviðkomandi aðgangur bannaður“, og öðrum álíka skilaboðum. Fyrir vikið er einnig hægt að nota þá til að vísa gestum veginn, einfaldlega með því að setja slíka steina á hvern þann nýja stíg sem hægt væri að fara, sem ekki á að fylgja.

Japanese stone lantern (toro) – ljóskerið.
Ljóskerin fundu sér leið úr búddískum hofum í heimilisgarða fyrir meira en þúsund árum og geta verið úr málmi, steini eða tré. Í kringum 16. öldina fóru þau að vera nokkuð algeng í sérstökum viðhafnar görðum fyrir te drykkju, en voru þá komin í eins konar skraut hlutverk. Slíku hlutverki sinna þau enn í dag og sjást oft nærri stígum, vatni eða byggingum.

Ljósker í garði Derek Mundell í Kópavogi og Kyoto Garden í London. Mynd: Kristján Friðbertsson

 

Shimenawa – hið helga reipi.
Slíkt getur táknað helgan stað, eða verið sett upp til að halda illum öndum burt. Engum sögum fer þó af því hvort sérstök reipi eru notuð fyrir álftir og gæsir einnig, eða bara fyrir illar endur. Bundið utan um tré eða jafnvel stein, er það merki um að hinn bundni hlutur innihaldi anda og er ýmist þar til að halda þeim bundnum inni, eða sem viðvörun til annarra að fara varlega. Að fella slíkt tré er talið færa viðkomandi afar mikla ógæfu.

Shishiodoshi – dýrafælan.
Ein tegund dýrafælu Í japönskum görðum nefnist Sozu og er vatnsknúin. Bambusrör hleypir hægt rennandi vatni í gegnum sig. Vatnið lendir á öðru bambusröri og fyllir það nægilega til að færa þyngdarpunktinn, svo rörið skelli niður á stein, tæmist af vatninu og myndi hljóð. Hljóðið rýfur þögnina í friðsælum garði, en er til þess gert að fæla burt hin ýmsu jórturdýr sem gætu viljað naga gróðurinn. Sozu fylgir oft japönsku þema í görðum, óháð því hvort það er í notkun eða ekki.

Jizo – verndarinn.
Jizo er guðleg vera, oftast í formi munks, í búddískum kenningum Austur-Asíu og raunar einnig Daóisma. Íbúar hins neðra eru á hans ábyrgðarsviði og þó hann eigi það til að draga fólk á hárinu upp úr pottum helvítis, ef það átti ekkert erindi þangað, er hann almennt séð álitinn frekar ógnvekjandi. Í Japan tíðkaðist sem dæmi að leggja konur ávallt til hinstu hvílu með sítt hár, svo Jizo gæti nú dregið þær upp á hárinu, ef þær skyldu óvart lenda í áðurnefndum pottum.

Japönum leist nú ekki nógu vel á svona ógnvekjandi veru og því breyttist Jizo aðeins í japanskri menningu. Þar launar hann alltaf greiðann, þeim sem koma vel fram við hann og varð sérstakur verndari barna og ferðalanga. Ófædd börn á ferðalagi til lífs, sem og sálir barna sem andast á undan foreldrum sínum, eru einnig á hans sviði. Fyrir vikið má oft sjá styttur af Jizo í barnaklæðum, eða með slík klæði og leikföng, jafnvel sælgæti sér við hlið. Af því hann launar alltaf greiðann, er fólk duglegt að færa honum litlar fórnir, börnum til verndar. Einnig sést hann oft með rauð klæði, en rauður litur ver gegn illum öflum, í Japanskri menningu.

 

Mynd: Harald Schaller
Mynd: Harald Schaller

Japanskur Jizo er því friðsæll, góður, hugulsamur, hjálpsamur og vinsæll. Hann getur verið táknaður á ýmsan máta, en á nýlegri japönskum myndum og styttum er hann oftast frekar lítill og krúttlegur. Sem gerir hann auðvitað bara að enn betri viðbót í japanska garðinn.

Dr. Gunnellu Þorgeirsdóttur eru færðar þakkir fyrir aðstoðina. Harald Schaller (www.instagram.com/jadzia79) eru færðar þakkir fyrir að leyfa afnot af myndum sínum, en af myndunum að ofan eru einungis ljóskersmyndirnar höfundar. Fyrri tekin í garði Derek Mundell í Kópavogi, síðari í Kyoto Garden, London.

Vonandi hafið þið notið þessarar litlu fræðslu um nokkra þætti japanskra garða. Hér í lokin smellum við svo nokkrum myndum sem við vorum að spara… 😉  Mæli með að smella á hverja og eina til að sjá þær í fullri stærð – gildir reyndar um flestar myndir í þessum greinaflokki.