Posted on

Valentínusar Vitleysan

Víkur frá vörum vængjaður koss*,

það er ástin sjálf sem heimsækir oss.

Hrífur jafnt, í myrkri sem björtu*,

okkar viðkvæmu litlu, hrifnæmu hjörtu.

Líkt og norðurljós á himnum eða tungsljós í hafi,

yfirnáttúrulegt afl, það er enginn vafi.


*við mælum að sjálfsögðu ekki með þessu, af hreinlætis og sóttvarnar ástæðum, en ætli sér einhver að leika þetta eftir, ráðleggjum við eindregið að fá samþykki hjá verslunarstjóra áður en farið er að kyssa vörur í hillum verslana.

*reyndar er varað við því að nota hrífur jafnt í myrkri sem björtu, þar sem notkun þeirra er talin ívið varasamari í myrkri.

Hjörtun finnast í náttúrunni víða. Þótt útlitið frábrugðið líffærinu sé, látum það oss ekki valda kvíða.
Mynd/ir: Kristján Friðbertsson
Dicentra/Lamprocapnos spectabilis ber á íslensku nöfnin tvö: skrauthjarta og hjartablóm. Sumir sletta enn skandínavíska stríðsljóma nafninu “lautinantshjarta”, en flottari þykir mér þýskan “flammendes Herz”. Í lauslegri þýðingu “logandi bílaleigubíll” en í réttri þýðingu “logandi hjarta”. Á enskri tungu finnast svo vísanir í blæðandi hjarta (bleeding heart), hjartablóm (heart flower) og einna skemmtilegast: dama í baði (lady-in-a-bath). Það olli mér nokkru hugarangri þessi tenging við konu í baði, þartil ég áttaði mig á því að hún var auðvitað nýkomin frá þýskalandi, þar sem hjarta hennar hafði verið logandi og þurfti því kalt bað til að slökkva eldinn og kæla sig niður. Tungan sú enska á einnig til heitið eggjaleiðarabrum (fallopian buds) sem vekur furðu að náð hafi nokkurri dreifingu. Fyrir þá sem ekki vita hvað eggjaleiðari er, þá er það pistill ritaður af ritstjóra tímarits sem fjallar um egg.
Mynd: Kristján Friðbertsson
Þessi mynd sýnir nokkuð vel hvaðan nafnið “dama í baði” hefur komið.
Mynd: Holger Casselmann, CC BY-SA 3.0 https://creativecommons.org/licenses/by-sa/3.0, via Wikimedia Commons
Ungur maður lítur hér upp og dáist að hinu hávaxna hjartablómi.
Mynd: Kristján Friðbertsson
Nei, nú er nóg komið. Við ætlum ekki að breyta garðinum í einhvers konar “Bleikt&Blátt” hér.
Mynd: Kristján Friðbertsson

Ræktum við ástina í garðinum? Hví ekki það. Ástin á garðyrkjunni ræktast hvergi betur og samstíga pör í garðyrkju rækta tvímælalaust eigin ástarsamband í garðinum. Við ræktum plöntur með hjartalaga lauf eða blóm og önnur sem hjartalyf voru unnin úr.

Hjartahlýjan sem ástin gefur, er óháð því hvern, hverja, hvert eða hvað við elskum. „Ástin er eins og sinueldur“ og í blómapotti logar ástareldur, oft undir nafninu kóraltoppur (Kalanchoe blossfeldiana) eða hinu stórkostlega enska heiti „flaming Katy“ (logandi Kata, frekar en sofandi skata). Augljós mismunun á sér stað hér, því mótvægi vantar við kóraltoppinn, en enginn er þekktur kóralbotninn. Hún kóral-lóa (Aloe arborescens) kemur þó ekki tómhent heim á valentínusardaginn, heldur færir sínum kóralbónda rós (Paeonia mascula).

Stofublómið hjartaband (Ceropegia woodii) fyllir heimili með heilli hjörð af hjörtum sem fikra sig eftir bandinu, en í garðinum eru það hjartablóm (Dicentra), sem bleikum blómstrandi hjörtum sig skreyta. Flest tengjum við hjörtu við ástina, enda leiða hjartalaga form hugann að ást sama hvar þau finnast. Opin kúskel, hálft smárablað, hjartalaga steinn eða hjartadeildin á Landspítalanum. Kannski einna síst þetta síðastnefnda.

Kryddjurtin basil (Ocimum basilicum) er ástartákn á Ítalíu en vilji moldavísk stúlka að ungur herra falli alvarlega fyrir henni*, er ekkert ráð betra en að gefa honum smá basil. Ekki fylgir sögunni hvernig basil virkar þar fyrir önnur kyn, eða samkynja pör, en ég legg til að prófa sig áfram með pestó og sjá hvað setur. Betra en að lenda með ferskt basil í basli í vetur.

*ekki er vitað hversu alvarlega viðkomandi gæti fallið og því líklega skynsamlegast að gefa ungum herra bara alls ekki basil nema hann sé umkringdur mjúku grasi, til að milda fallið.

Frjálsar ástir tákna mismunandi hluti fyrir mismunandi fólk, en á síðustu öld var það algengt hugtak yfir ástarsambönd án afskipta ríkis og kirkju og raunar þjóðfélagsins alls. Hjónaband var enda oft leið til að tryggja afkomendum sínum farsæla framtíð og halda ættarnafninu gangandi, ekki síður en að tryggja eða auka völd og fjármuni stórfjölskyldunnar. Víða í heiminum má auðvitað enn finna slíkt viðhorf, en á 19. öldinni tók það viðhorf amk á Vesturlöndum að víkja. Til hjónabands skildi stofnað á forsendum ástarinnar. Frjálsar ástir taka það raunar skrefinu lengra. Ekki bara hjónabandið á eigin forsendum, heldur að fólk hafi allt sitt einkalíf fyrir sig. Frelsi meðal blóma er t.d. hægt að tákna með hinni fallega gulblómstrandi rós „Freedom“. Fræðimennirnir taka það reyndar skrefinu lengra og tala um alveg Rosa „Freedom“.

Enn berjast margir foreldrar hatrammlega gegn því að börn þeirra pari sig saman við fólk af öðrum kynþáttum, trúarbrögðum, þjóðerni, þjóðfélagsstöðu nú eða t.d. gegn hinsegin samböndum. Ástin er ekki einföld. Hvað gerist þegar ástin tekst á í margar áttir? Fjölástasambönd eru ein lausn, en duga skammt ef ástin sem um ræðir er annars vegar gagnvart maka og hins vegar gagnvart foreldrum og fjölskyldu. Hvað þá ef ástin deilist á margar plöntuættkvíslir sem allar keppast um besta staðinn í garðinum! Hvert tilfelli þarf sína eigin lausn, ef hún er þá til. Lífið er jú ekki dans á rósum, enda væri það svakalega illa farið með góðar rósir.

Talandi um rósir, krónublöð rauðra rósa eru oft tengd sjóðheitum kvöldstundum í rúminu, en þyrnar sömu rósa oftar tengdir litlum stungusárum og leiðinda rispum. Það borgar sig því að fara varlega. Ástarmeðul má víst brugga úr fjólum, handa fínustu dömum í flottustu kjólum. Burnirót eykur svo úthald og þol, hjá spjátrungum sem mæta í gallabuxum og bol.

Greinilegt er að getur ýmislegt komið sér vel úr garðinum, til viðbótar við að minna okkur sífellt á sjálfa ástina. En það er jú einmitt hún, sjálf ástin, sem er aðalmálið. Hana sýnum við einna best með faðmlögum (nema þú elskir rósir, það er bara ekki skynsamlegt að faðma rósarunna), nærveru, virðingu og einfaldlega að gefa okkur tíma fyrir sjálfa ástina. Það er eitthvað sem ég legg mikla áherslu á í mínu lífi. Alltaf þegar makinn leggur til að við förum saman í bíó eða út að borða, gríp ég einfaldlega til orðanna: „ekki núna elskan mín, ég er upptekinn við að rækta ástina“.  Ef við erum dugleg að leggja rækt við hana, ekki síður en hænur (alltaf skulu kjúklingabúin koma best útúr þessu…) dettum við kannski í lukkupottinn og „ástin dugir að eilífu“ eins og sungið var um árið.

(Grein þessi var sett hér inn í tilefni þess að árlegur erlendur siður sem hyllir Rudolph Valentino á sér stað um þessar mundir. Ekki er mælt með að taka orðin sem hér hafa verið rituð of alvarlega, nema að læknisráði.)
Fallið hjarta.
Mynd: Kristján Friðbertsson