Posted on

Hefur þú séð apann í Japan? (Hluti 3 af 4)

Kúrileyjakirsið (Prunus kurilensis ‘Ruby’) blómstrar hér fyrir okkur í garði höfundar, en hægra megin er stórkostleg blanda af rauðum japanshlyn og stórbrotnu broddgreni yrki (Picea pungens ‘Glauca Pendula’) í garði Jim Singer í Washington. With great thanks to Jim Singer for providing us with this photo.

 

Í hluta 2 vorum við byrjuð að skoða plöntur í japanska garðinn. Höldum því áfram hér, en breytum aðeins til.

Hvað ef ég vil meiri trénun?

 Áðurnefndar Kúrileyjar eru upprunastaður kúrileyjakirsis (Prunus kurilensis). Af hinu ýmsa skraut- eða rósakirsi er það án nokkurs vafa kúrileyjakirsið „Ruby“ sem hefur staðið sig langbest hér á landi, þakið sínum fallega bleiku blómum á vorin. Japan er jú þekkt fyrir blómstrandi kirsi og því afar viðeigandi að hafa eitt eða fleiri í garðinum. Stærstu samplöntun þeirra hér á landi er eflaust að finna í Hljómskálagarðinum, Reykjavík. Þar var 50 trjám plantað fyrir áratug, gjöf frá Japansk-íslenska/Íslensk -japanska félaginu.

Innan sömu ættar finnum við blóðhegg, virginíuhegg og næfurhegg, sem hver um sig gefur ýmist fagra blómgun, litbrigði í laufi eða myndarlegan stofn. Í hindarætt finnum við ilmkórónu, stjörnuhrjúf og ættingja þeirra. Litirnir sem þessar plöntur sýna við blómgun eru vanalega á skalanum hvítt til bleikt. Tónar sem eiga vel við í svona görðum.

Hjartatré og brauðtré (Cercidiphyllum japonicum og C. magnificum) eru fremur stórgerð og afar falleg tré sem tengja má við þema sem þetta. Sæmilega stórvaxið hjartatré og undir því vaxandi dverghjarta eða hjartablóm gæti verið hugmynd.

Japanshlynir eru auðvitað staðalbúnaður. Hin ýmsu yrki þeirra eru helst sameinuð af einkennandi blaðfegurð og oft úr nægu að velja þar, þó ekki sé alltaf mikið flutt inn landsins. Ísland er auðvitað ekki endilega heppilegasta loftslagið fyrir þá, en í miklu skjóli hafa þeir stundum náð að dafna ansi vel. Stór kostur er hvað þeir haldast flestir smávaxnir, en auðvitað hægt að hafa þar líka áhrif með vaxtamótun. Fleiri blaðfallega valkosti með fagra haustliti er auðvitað hægt að finna í reyniættinni (Sorbus). Nokkru Sunnan við Kúrileyjar finnum við svokallaðan ‚Dodong reyni‘ (Sorbus ‚Dodong‘), sem ásamt fjallareyni (Sorbus commixta) er gríðarlega fallegt tré með dáleiðandi haustliti. Rúbínreynir er farinn að sjást víðar, koparreynir er alltaf klassískur og gulu berin á Sorbus ‚Joseph Rock‘ eru sérlega fagurt skraut. Dvergreynir, með sín fallegu bleiku ber, er heppilegur með hinu smávaxna. Endilega kynnið ykkur fjölbreytnina í ættkvíslinni.

Samsetta myndin inniheldur súrkirsiberið ‚Montmorency‘ í garði höfundar, blóðhegg í Hlíðagarði, blómstrandi skrautepli í garði í Fossvogi og næfurhegg að vetri til í Meltungu, Kópavogi. Allt úr Prunus ættkvísl nema eplið.

 

Hrekkur þú við víða af kvíða?

Ekki á maður endilega von að rekast á umfjöllun um kvíða, þegar trjátegundir eru skoðaðar. Enda var það víst prentvilla og átti ekki að standa hrökk-kvíði, heldur hrökkvíði. Ágætis planta, en passar víðir í japansgarð?

Eitthvað sérlega smávaxið eins og finnavíðir (Salix x finnmarkia), fjallavíðir (Salix arctica) og grasvíðir (Salix herbacea) gæti komið vel út í eins konar landslagi hins smáa. Með steinum, mosa, vatni og jafnvel bonsai plöntum yfir sumarið.

Loðvíðir gæti mögulega skreytt garðinn á látlausan hátt, sé honum vel viðhaldið með klippingum. Héluvíðir (S. helvetica) ásamt kirjálavíði (S. rosmarinifolia) eru áhugaverðir, en hafa lítið verið í sölu undanfarið.

Af stærri plöntunum hafa lensuvíðir og jafnvel lækjar- og körfuvíðir sumpart austurlenskt yfirbragð. Það væri því hægt að hafa þá í huga, ekki síst í kringum tjarnir o.þ.h. Þeir virðast sem betur fer sleppa ágætlega frá helstu vandamálum víðitegunda undanfarið. Sé hugsað til lensulaga laufa, mætti raunar minnast á hafþyrni. Hann hefur fagurt útlit sem gæti virkað framandi í réttu umhverfi. Kallar þó á helst til mikið rótarskota viðhald í snyrtilegum heimilisgarði. Ekki skal þó útiloka birki.

Að eilífu grænt, amen.

Sígræn tré eru sívinsæl, ekki síst í görðum sem þessum.  Lerki hefur oft mjög áhugaverðan karakter og sýnir grófan börkinn líkt og fölsuð skilríki, til að virðast eldri. Marþöll hefur einnig gríðarlega fallegan stofn þegar hún hefur náð ákveðnum aldri og ekki er greinavöxturinn og barrið síðra. Mikið er notað af furuættkvíslinni, en ekki er sjálfgefið að finna mikið tegundaúrval hér á landi. Aðgengi að nefndum yrkjum af furu, greni, þin og lerki takmarkast svo af því að ekki má flytja slík tré til landsins.

Við þurfum því að hafa í huga þegar við sjáum fallegar myndir að utan, hvernig við endursköpum fegurðina með öðrum tegundum eða mótunaraðferðum. Nú eða með því að verða okkur úti um fræ, ef plantan er annars lífvænleg hér.

Í æðislegum garði Sigríðar Óskar á Suðurlandinu má finna ansi margt úr hinu japanska þema. Stiklurnar á þessum stíg eru tréskífur og passa afar vel við þemað, ekki síður en stórir steinarnir. Hinn blómstrandi runni er Viburnum plicatum ‚Kilimanjaro‘.
Myndirnar eru Sigríðar og henni þakkað sérstaklega fyrir að leyfa afnot þeirra.

 

Dvergfura hentar oft í litla garða, en ýmsar stórgerðari tegundir finnast fyrir stærra pláss, eða til mótunar fyrir hið smáa. Lágvaxin og skriðul yrki af eini og ývið geta gefið fyllingu og þekju og fyrir hægvaxta tré má skoða balsamþin „nana“ og dverghvítgreni yrkin „Conica“ (grænt) og „Sander‘s Blue“ (blátt)

Raunar er orðið ágætis úrval af tegundum og yrkjum einis undanfarið, svo það er um að gera að skoða fjölbreytileikann þar. Gamall, stakur einir í garði getur auðveldlega verið fullkominn miðpunktur fyrir nýtt svæði með japansku ívafi.

Ég hvet áhugasama endilega til að kynna sér efnið nánar og heimsækja fagra japansgarða þegar tækifæri gefst. Í Bretlandi má finna marga japansgarða, m.a. Kyoto Garden í London, auk japansgarða í Kew Gardens. Frakkland býður t.d. upp á japansgarð í Grasagarði Efri-Bretaníu og aldargamli Clingendael garðurinn í Hollandi nýtur mikillar hylli. Í Bandaríkjunum má nefna grasagarðana í Chicago og Brooklyn, te garðinn í Golden Gate Park (San Francisco) og yndisfögru japansgarðana í  Portland og Seattle. Endilega kynnið ykkur þá nánar.

Derek Mundell og Sigríður Ósk sem tóku á móti mér í yndislegum görðum sínum fá sérstakar þakkir, sem og Dr. Gunnella Þorgeirsdóttir fyrir aðstoðina varðandi japanska menningu. Sama gildir um þá sem lánuðu myndir, svo greinin mætti verða skýrari og fallegri og aðra sem veittu hjálparhönd.  Í næsta (og síðasta) hluta tökum við smá hliðarskref og skoðum örfáa af þeim japönsku hlutum sem algengir eru í görðum með þessu þema. Einnig setjum við þar nokkrar fallegar myndir sem við geymdum fram í enda. Sem fyrr eru allar myndir höfundar, nema þar sem annað er tekið fram.

Örfá viðbótar meðmæli í lokin, en annars er um að gera að spyrja Google frænda:

 

 

Þessi mynd úr garði Jim Singer sýnir ekki bara fallegar plöntur í japönsku þema, heldur einnig hvernig fyrrum grasflötin hefur breyst í græna á sem hlykkjast um garðinn. Grasið er þar allt í senn: stígur, afmörkun beða og fagurt skreytingarform. With great thanks to Jim Singer for providing us with this photo.
Í fögrum japansgarði Derek Mundell í Kópavogi vex þetta fallega mótaða síberíulerki. Nánar um það í annarri grein. Hér sjáum við einnig litla tjörn, því vatn og endurspeglun eru jú mikilvæg.