Askur, Fraxinus excelsior, er merkilegt tré. Askurinn er af smjörviðarætt, Oleaceae og á heimkynni suður um Evrópu frá Noregi og allt austur í Asíu. Hann er hávaxinn og myndarlegur, verður allt að 40 m á hæð í heimkynnum sínum og hefur breiða krónu. Börkurinn er ljós yfirlitum og gerir það að verkum að dökk, hér um bil kolsvört brumin verða mjög áberandi að vetri til, sérstaklega endabrumin því þau geta verið afar stór. Blöðin eru stakfjöðruð og minna í fljótu bragði á blöð reyniviðar. Askurinn laufgast seint. Blómgunartíminn er á vorin fyrir laufgun en hann hefur enn sem komið er ekki blómstrað hérlendis. Aldinið er hneta með 3-4 cm löngum væng og eru hneturnar nokkrar saman í knippi. Knippin hanga á trénu fram á vetur og minna á ótal lyklakippur. Aski er aðallega fjölgað með sáningu en ræktunarafbrigðum er fjölgað með ágræðslu. Hann getur orðið allt að 400 ára gamall. Haustliturinn er gulur.
Askurinn er þurftafrekur og þarf djúpan, rakaheldinn, frjóan og kalkríkan jarðveg auk þess sem hann þarf gott vaxtarrými. Þetta er verðmætt viðartré og er viður asksins þekktur fyrir sveigjanleika, styrk og seiglu. Til marks um það má nefna að viðurinn var notaður í hestvagna og hús fyrstu yfirbyggðu bílanna. Talið er að fyrstu skíðin hafi jafnframt verið úr askviði. Í dag er viðurinn einkum notaður í húsgögn, verkfæri og ýmiss konar íþróttavarning.
Askur hefur verið ræktaður á Íslandi í rúmlega 100 ár en sú ræktun hefur aldrei orðið umfangsmikil. Hann hefur átt erfitt uppdráttar hérlendis því hann þarf talsvert meiri hita og skjól en almennt hefur verið í boði á Íslandi. Þó má finna einstaka plöntur í grónum og skjólgóðum görðum sunnanlands, hann þrífst tæpast annars staðar á landinu. Í Múlakotsgarðinum í Fljótshlíð er stór og glæsilegur askur, hugsanlega sá stærsti á landinu enda eru skilyrði þar óvenju góð á íslenskan mælikvarða. Askurinn laufgast yfirleitt ekki fyrr en undir miðjan júní en nær yfirleitt að fella laufið tímanlega á haustin. Þó getur hann orðið fyrir haustkali.
Eins og áður sagði er askurinn tré með fortíð. Í norrænni goðafræði lék askur Yggdrasils lykilhlutverk því hann sá um það að halda himinhvelfingunni uppi og greinar hans breiddu sig út yfir alla heimsbyggðina. Hann naut því sérstakrar virðingar meðal norrænna manna. Ræktunarsaga asksins í Evrópu er löng því hann var gjarnan ræktaður við mannabústaði vegna þokkafulls vaxtarlags og þeirra viðarnytja sem hafa mátti af honum.
Viðurinn er ekki það eina sem menn hafa nýtt af askinum. Askurinn var nýttur í lækningaskyni til að vinna bug á ýmsum kvillum. Te af blöðunum var drukkið sem hægðalyf, notað til meðhöndlunar á sýkingu í nýrum og þvagfærum og til að hrekja út sníkjudýr í meltingarveginum. Útvortis voru blöðin notuð í bakstra eða böð til að meðhöndla sár sem vætlaði úr. Börkurinn var svo notaður í stað kíníns til að lækka sótthita.
Ýmiss konar hjátrú hefur verið tengd askinum. Þeir sem eru illa hrjáðir af vörtum geta til dæmis reynt eftirfarandi aðferð: Takið dálitla sneið af beikoni, komið henni fyrir undir berkinum á aski og mun þá myndast nokkurs konar hrúður á berkinum. Þegar sárið grær hverfa vörturnar. Askurinn getur líka hjálpað þeim sem þjást af almennri taugaveiklun. Það eina sem þarf að gera er að klippa lítinn bút af nögl hvers fingurs og hverrar táar auk svolítils lokks af hári. Næsta sunnudagsmorgunn á að fara á fætur fyrir sólarupprás og bora litla holu í stofn fyrsta asktrés sem viðkomandi finnur. Neglurnar og hárið eru sett í holuna og holunni lokað og taugaveiklunin heyrir sögunni til. Aðrir kvillar sem askurinn var talinn vinna á voru til dæmis eyrnaverkur, gyllinæð og getuleysi.
Þessi goðsagnaplanta hefur lítið verið gróðursett á Íslandi undanfarna áratugi. Auk gömlu trjánna sem áður var minnst á, má finna eina og eina unga plöntu í görðum mjög áhugasamra garðræktenda. Hugsanlega væri hægt að rækta meira af aski á Íslandi ef rétt kvæmi kæmu til sögunnar. Í því sambandi hafa menn einkum einblínt til Noregs því þar þrífst askurinn vel allt norður í Þrændalög, alveg að 63°40’ n.br. og því kannski mögulegt að finna kvæmi sem henta við íslenskar aðstæður. Auk þess að vera skemmtileg viðbót við þær trjátegundir sem nú þegar eru ræktaðar á Íslandi gæti askkvæmið gert sitt til að minnka almenna taugaveiklun í íslensku samfélagi…
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2001)