Posted on

Álmur – Ulmus glabra – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Álmurinn, Ulmus glabra, er af álmsættinni, Ulmaceae, og er eina tegundin af þeirri ætt sem eitthvað hefur verið ræktuð að ráði á Íslandi. Heimkynni álmsins eru á Bretlandseyjum og í Mið-Evrópu allt austur til Litlu-Asíu. Álmurinn teygir sig líka norður eftir Evrópu til Noregs en þar má finna stæðileg álmtré allt norður á 67° norðlægrar breiddar (við Beiarn í Norður-Noregi). Hann vex gjarnan í blönduðum laufskógum innan um eikur og aska og hefur ekki þétta útbreiðslu, minnir þannig dálítið á íslenska ilmreyninn sem má finna stakan innan um birkitrén. Álmurinn heldur sig gjarnan í fjallshlíðum og á hæðum í heimkynnum sínum en síður á láglendi.

     Álmur getur orðið allt að 200 ára gamall og um 40 m hár í heimkynnum sínum en hérlendis hefur hann náð 12-13 m hæð sums staðar í Reykjavík. Þetta er ýmist einstofna eða margstofna tré með gildan stofn og mjög stóra og hvelfda krónu sem virðist fremur dökk yfirlitum. Börkurinn er sléttur í fyrstu en með aldrinum verður hann áberandi langsprunginn og dökkur á lit. Blómgunartími álmsins er að vorinu, rétt fyrir laufgun. Blómin eru gulgræn í þéttum klösum. Aldinið er lítil hneta með væng sem nær allan hringinn í kringum hnetuna og þroskast aldinin tiltölulega snemma á trénu. Fræið situr nokkurn veginn í miðju vængsins. Haustlitur álmsins er fagurgulur.

     Stærð álmsins gerir það að verkum að hann þarf rúmgóðan vaxtarstað. Jarðvegur þarf að vera djúpur og frjór og sæmilega rakur til að tréð dafni sem best. Erlendis er það talinn einn af kostum álms að rótakerfi hans er djúpstætt og því lítil hætta á því að hann fjúki um koll í hvassviðri. Þetta er vafalaust líka kostur fyrir álm á Íslandi. Álmurinn getur vaxið hratt á unga aldri og er honum þá dálítið hætt við haustkali hérlendis. Fullorðin tré sem vaxa hægar kelur síður. Í uppvextinum þolir álmur talsverðan skugga en vill að öllu jöfnu sæmilega bjartan vaxtarstað.

     Fjölgun á álmi er aðallega fræfjölgun og fer hann að mynda fræ þegar hann er um 30-40 ára gamall. Fræið spírar strax og hefur lítið geymsluþol. Til eru ýmis ræktunarafbrigði erlendis sem fjölgað er með ágræðslu. Hérlendis er honum einungis fjölgað með fræi. Bannað er að flytja lifandi álm inn til Íslands vegna sjúkdóms sem hefur herjað á álmtegundir í gervallri Evrópu og hefur lagt að velli allt að 98% álmtrjáa í sumum löndum. Sjúkdómur þessi nefnist álmsýki (Dutch Elm Disease) og hefur slíkur faraldur geisað um Evrópu síðustu áratugi. Sjúkdómurinn er af völdum svepps, Ceratocystis ulmi, sem dreifist á milli plantna, að hluta til milli samgróinna róta álmplantna en aðallega með barkarbjöllu af ættkvíslinni Scolytus spp. Sveppurinn leggst á leiðsluvefi plantnanna og kemur þannig í veg fyrir eðlilega næringaröflun með þeim afleiðingum að plönturnar veslast smám saman upp. Ekki hefur fundist nein lækning við þessum sjúkdómi og eina ráðið sem menn hafa í baráttunni í dag er að reyna að velja til ræktunar plöntur sem hafa mótstöðu gegn sjúkdómnum. Álmsýki hefur ekki orðið vart á Íslandi og er vonandi að okkur takist að komast hjá því að fá þennan óboðna gest til landsins. Einungis má flytja inn álmfræ til Íslands frá ósýktum svæðum.

     Álmlús er óværa sem leggst á álminn og hefur fundist hérlendis. Lúsin yfirvetrast í berki álmsins. Að vori klekjast út kvendýr sem halda sig á neðra borði blaðanna, sjúga þar næringu úr blöðunum og gera það að verkum að blöðin verpast og krumpast. Afkvæmi þessara kvendýra fara yfir á sólber og rauðrifs og fá næringu úr rótum runnanna. Þeirra afkvæmi fljúga svo aftur yfir á álminn þegar líður á sumarið, fjölga sér enn frekar og síðustu kvendýr sumarsins verpa eggjum sínum í börk álmsins að mökun lokinni. Álmlúsin er aðgangshörð og fer stundum verulega illa með þau tré sem hún leggst á.

     Viður álmsins er litríkur og talinn mjög fallegur. Kjarni trjábolsins er rauðbrúnn og ytri hluti hans er gulhvítur. Viðurinn er sveigjanlegur og hentar vel í ýmiss konar húsgögn og verkfæri og jafnvel í parket. Af þeim sökum er þetta eftirsóttur viður en framboðið er þó ekki mjög mikið.

     Álmur hentar vel bæði sem stakstætt tré í stórar lóðir eða í klippt limgerði. Hann tekur klippingu vel og má jafnvel klippa hann alveg niður til endurnýjunar ef limgerðið verður gisið. Álmlimgerði finnast á nokkrum stöðum í Reykjavík og þrífast með ágætum. Álmur þolir seltu sæmilega vel og er ágætlega vindþolinn. Þetta er tegund sem mætti nota til að auka fjölbreytni í íslenskum görðum og er álmurinn oftast fáanlegur í gróðrarstöðvum.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2001)