Posted on

Meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Þetta ákall um meiri snjó hljómar nú úr munnum garðyrkjumanna um land allt. Blessaður snjórinn hlífir viðkvæmum plöntum fyrir kuldanum, hann er eins og þykk ábreiða sem heldur hita á plöntunum okkar, þar til hlýnar og vorið stekkur fram á sjónarsviðið. Veturinn hefur verið sannkallaður vetur hingað til og er það ástand sem við erum orðin talsvert óvön. Undanfarnir vetur hafa verið mun umhleypingasamari og þar af leiðandi á margan hátt erfiðari plöntum en þessi vetur. Umhleypingar fara einmitt sérlega illa með plöntur. Það gilda í raun sömu reglur og í barnauppeldi, því meiri stöðugleiki því betra. Háttatíminn ætti að vera á sama tíma öll kvöld, máltíðir reglulegar og foreldrar samkvæmir sjálfum sér. Plöntur þurfa að fá að liggja í dvala yfir veturinn án þess að ótímabær hlýindi rugli þær í ríminu en jafnframt þarf að búa þannig að þeim að þær geti tekist á við það veðurfar sem veturinn býður upp á. Þess vegna viljum við meiri snjó.

     Garðyrkjumenn sýna snjónum á vissan hátt þakklæti sitt með nafngiftum á plöntum. Vissulega eru menn kannski ekki með það beint í huga þegar plöntur eru nefndar að verið sé að færa Vetri konungi sérstakar þakkir en það má alveg líta þannig á málin, svona þegar það hentar. Fjöldinn allur af plöntum hefur fengið nöfn sem við fyrstu sýn virðast ákaflega kuldaleg. Ýmist er þar verið að vísa til blómgunartíma viðkomandi plantna, sumar þeirra blómstra upp úr snjósköflunum snemma á vorin eða blómlitur plantnanna gefur tilefni til þess að nefna þær í höfuðið á snjó. Þannig er fannastjarna ákaflega fallegur vorblómstrandi laukur sem blómstrar fallegum ljósbláum og hvítum blómum snemma í maí. Við sjáum þó sjaldnast snjó á þessum árstíma en það kemur þó fyrir.

     Vetrargosi er aftur á móti mun fyrr á ferð, blómstrar stundum í febrúar-mars þegar vetur er sannanlega á ferð. Blóm vetrargosa eru hvít, lútandi og fremur smá en tegundin er mjög blómsæl og harðgerð, að minnsta kosti um sunnanvert landið. Vetrarblóm er innlend tegund sem einnig fer af stað upp úr hjarninu í apríl, þetta er lágvaxinn steinbrjótur sem blómstrar ákaflega fallegum bleikum blómum. Vetrarblómið myndar þéttar breiður og verður alveg þakið blómum á blómgunartíma sínum sem gerir það áberandi í annars litlausu umhverfinu.

     Margar tegundir eru kenndar við snæ, má þar nefna snæbreiðu sem er lágvaxin fínleg tegund sem myndar fallegar breiður. Hún sáir sér talsvert en er þó ekki til vandræða. Blómgunartími snæbreiðu er langur og þekja lítil blómin plöntuna þegar hún blómstrar. Snædrífa er tiltölulega nýlegt sumarblóm í ræktun á Íslandi. Tegundin er í raun fjölær en þolir ekki íslenskan vetur. Það má því kannski líta á nafngiftina sem kaldhæðni? Snædrífa er hengiplanta og hefur á skömmum tíma náð miklum vinsældum í ker, potta og hengikörfur. Blómin eru drifhvít og fara ákaflega vel við dökkgrænt lauf plöntunnar.

Trjátegundir hafa ekki farið varhluta af þessari stefnu í nafngiftum. Snækóróna er ákaflega vinsæll og blómviljugur runni sem blómstrar frekar stórum, ilmandi snæhvítum blómum um mitt sumar. Mjallarhyrnir er runni sem blómstrar hvítum blómum fyrri hluta sumars en er einkum skrautlegur á veturna þegar hárauðar greinar hans standa upp úr snjónum. Þar skapast skemmtilegar andstæður og er þessi runni einkum ræktaður vegna rauðs barkarlitar síns.

     Svo er hægt að spyrja hvort kuldaleg nöfn geri plönturnar harðari af sér?

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007)