Nú þegar Vetur konungur heilsar með úrhellisrigningu og dagurinn styttist verulega í annan endann er ósköp lítið hægt að dunda sér úti í garði. Garðar landsmanna minna grunsamlega mikið á hrísgrjónaekrur þessa dagana og kannski væri það bara ágætis afþreying svona á síðbúnum haustdögum að gera tilraunir með ræktun hrísgrjóna í þessum drullupollum sem garðarnir okkar eru núna. Vissulega gæti lágt lofthitastig haft neikvæð áhrif á vöxt hrísgrjónaplantnanna en maður á ekki að láta svartsýnisraddir draga úr sér kjarkinn. Fyrir hina sem alls ekki hafa neinn áhuga á hrísgrjónaræktun er mun skynsamlegra að fara að velta því fyrir sér hvernig jólatréð á að líta út í ár.
Ef við göngum út frá því að lesendur þessarar greinar muni velja sér lifandi tré þá er ekki úr vegi að skoða aðeins þær grenitegundir sem mögulegt er að hafa sem jólatré. Rauðgreni, Picea abies, var í eina tíð mjög vinsælt jólatré hjá landanum og er enn víða í nágrannalöndum okkar. Rauðgrenið er þéttvaxið, með fremur stuttar, fagurgrænar nálar sem stinga lítið sem ekkert og fínlegar greinar. Það er ákaflega formfagurt tré og þar sem það vex fremur hægt við íslenskar aðstæður verður það enn þéttara fyrir vikið. Sem jólatré er þetta því mjög hentug tegund því það er nóg af greinum til að hengja jólaskrautið á. Því miður hefur rauðgreni fengið það orð á sig sem jólatré að það sé langt frá því að vera barrheldið, nálarnar byrji að hrynja af trénu þegar það heyrir í farartæki skógarhöggsmannanna á leið í skógarhöggið. Þetta er nokkuð orðum aukið því sé vel hugsað um tréð á meðan það stendur uppi í stofunni heldur það barrinu alveg ágætlega. Með góðri umhirðu er hér átt við að neðri endanum á jólatrénu sé stungið niður í heitt vatn í nokkrar mínútur áður en trénu er komið fyrir í jólatrésfætinum. Jafnframt þarf að gæta þess að vökva tréð reglulega yfir jólahátíðina.
Sitkagreni, Picea sitchensis, er allt mun grófara í vaxtarlagi en rauðgrenið. Nálar sitkagrenis eru tvílitar, dökkgrænar á efra borði og ljósblágrænar á neðra borði. Þær eru mjög stingandi og því gæti þurft að kalla á fakír til að aðstoða við jólaskreytingarnar. Sitkagreni vex mun hraðar en rauðgreni og er með heldur grófari og þykkari árssprota. Þetta skilar sér í grófara vaxtarlagi og gisnari jólatrjám þar sem aðalgallinn er fólginn í frekar fáum greinum fyrir jólakúlurnar og jólaljósin. Sitkagrenið getur verið ágætlega barrheldið sé hugsað vel um það, eins og rauðgrenið hér að ofan. Skemmst er frá því að segja að sitkagreni er ekki mjög vinsælt sem jólatré, eins og sakir standa.
Blágreni, Picea engelmannii, hefur verið að sækja í sig veðrið sem jólatré síðustu ár. Það er hægvaxta við íslenskar aðstæður og hefur því frekar þétt vaxtarlag sem skilar sér í mörgum jólakúlubærum greinum. Nálar blágrenis eru blágrænar að lit og ákaflega mjúkar. Ysti endi greinanna er líka fremur lútandi sem gerir plöntuna þokkafulla í vaxtarlagi. Blágreni er barrheldið en vissulega þarf að hugsa vel um það, eins og önnur afskorin tré.
Sumum kann að virðast það fullsnemmt að fara að velta jólatrjánum fyrir sér en ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Nauðsynlegt er að taka vel ígrundaða ákvörðun um það hvaða jólatré verði fyrir valinu í ár, það dugir alls ekki að kasta til höndunum í þessu skyni. Hvort tréð er greni, fura, þinur eða eitthvað allt annað skiptir svo sannarlega máli. Jólatré eru punkturinn yfir i-ið á jólunum og allir fjölskyldumeðlimir ættu að hafa skýra og mótaða skoðun á trénu. Næsta skref er að hafa samband við starfsmenn nærliggjandi skógar og kanna hvort ekki sé mögulegt að maður geti fengið að höggva tréð sjálfur. Þá er tímabært að fara að brýna kutana…
Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007)