Posted on

Ræktar þú eik á Íslandi?

Dalaeik (Q. lobata) í Kaliforníu. Mynd: Ger Erickson
Dalaeik (Quercus lobata) í Kaliforníu.
Mynd: Ger Erickson
Akörn af rauðeik (Q. rubra) í vatnsbaði. Takið eftir að þau sem líklega eru ónýt, fljóta.
Mynd: Kristján Friðbertsson
Akörn af rauðeik (Q. rubra) í vatnsbaði. Takið eftir að þau sem líklega eru ónýt, fljóta.
Mynd: Kristján Friðbertsson
Nærmynd af akarni rauðeikar (Q. rubra) sem hefur verið opnað til að sýna innihaldið.
Mynd: Kristján  Friðbertsson
Nærmynd af akarni rauðeikar (Q. rubra) sem hefur verið opnað til að sýna innihaldið.
Mynd: Kristján Friðbertsson
Nærmynd af innihaldi akarns sem flaut. Bersýnt er að það hefur uppþornað og er einskis að vænta úr slíku. Til samanburðar er einnig á myndinni hálfopið akarn úr sama hópi, sem sökk. Heilbrigt fóstur og allt sem fylgir, fyllir þarna nánast alveg út í skelina. Rauðeik (Q. rubra). 
Mynd: Kristján Friðbertsson
Nærmynd af innihaldi akarns sem flaut. Bersýnt er að það hefur uppþornað og er einskis að vænta úr slíku. Til samanburðar er einnig á myndinni hálfopið akarn úr sama hópi, sem sökk. Heilbrigt fóstur og allt sem fylgir, fyllir þarna nánast alveg út í skelina. Rauðeik (Q. rubra).
Mynd: Kristján Friðbertsson
Þó þeir verji akarnið, geta þeir haft áhrif á það hvort akörnin fljóta eða sökkva og geta falið annars sýnileg vandamál. Algengt er að sjá töluvert betri spírun úr akörnum þar sem hattarnir hafa verið fjarlægðir. Það er því talið skynsamlegt að fjarlægja þá.
Mynd: Kristján Friðbertsson
Akörn af fjaðureik (Q. macrocarpa) sýna vel hversu mikið “hattarnir” geta hulið akörnin. Þó þeir verji akarnið, geta þeir haft áhrif á það hvort akörnin fljóta eða sökkva og geta falið annars sýnileg vandamál. Algengt er að sjá töluvert betri spírun úr akörnum þar sem hattarnir hafa verið fjarlægðir. Það er því talið skynsamlegt að fjarlægja þá.
Mynd: Kristján Friðbertsson
Ungar plöntur af fjaðureik (Q. macrocarpa) sýna oft fallega haustliti. Margar eikartegundir eru þó að mestu lausar við haustliti, nema fyrstu árin. Í þeim tilfellum er það oft talið tengjast því að ung tré framleiða sykrur mun lengur frameftir hausti, en vaxa með árunum útúr þeirri hegðun og minnkar þá haustlitadýrðin samhliða því.
Mynd: Kadin Bieberich
Ungar plöntur af fjaðureik (Q. macrocarpa) sýna oft fallega haustliti. Margar eikartegundir eru þó að mestu lausar við haustliti, nema fyrstu árin. Í þeim tilfellum er það oft talið tengjast því að ung tré framleiða sykrur mun lengur frameftir hausti, en vaxa með árunum útúr þeirri hegðun og minnkar þá haustlitadýrðin samhliða því.
Mynd: Kadin Bieberich
Hér sjáum við akarn af skarlatseik (Q. coccinea) sem flaut. Í þessu tilfelli var það ekki ofþornað, heldur hafði greinilega rotnað.
Mynd: Kristján Friðbertsson
Hér sjáum við akarn af skarlatseik (Q. coccinea) sem flaut. Í þessu tilfelli var það ekki ofþornað, heldur hafði greinilega rotnað.
Mynd: Kristján Friðbertsson
Skarlatseik (Q. coccinea) er ein þeirra eikartegunda sem sýna hvað fegurstu haustlitina. 
Mynd: Gilbert Buscaglia
Skarlatseik (Q. coccinea) er ein þeirra eikartegunda sem sýna hvað fegurstu haustlitina.
Mynd: Gilbert Buscaglia
Þessi sumareik (Q. robur) dvelur í garði í Reykjavík. Sáð var fyrir henni þar úr ensku akarni, árið 1986. 
Mynd: Sigrún Ása Sturludóttir
Þessi sumareik (Q. robur) dvelur í garði í Reykjavík. Sáð var fyrir henni þar úr ensku akarni, árið 1986 og var hún um 4m há 2021.
Mynd: Sigrún Ása Sturludóttir
Í Borgarfirði má finna sumareik (Q. robur) sem keypt var árið 1994, þá 50cm há. Sú var reglulega nöguð niður af sauðfé, en náði sér á strik. Sumarið 2021 myndaði hún sín eigin akörn, eins og sjá má á þessari mynd sem tekin var þann 25.ágúst. Ekki er þó reiknað með að akörnin hafi náð að þroskast.
Mynd: Sigrún Ása Sturludóttir
Í Borgarfirði má finna sumareik (Q. robur) sem keypt var árið 1994, þá 50cm há. Sú var reglulega nöguð niður af sauðfé, en náði sér á strik. Sumarið 2021 myndaði hún sín eigin akörn, eins og sjá má á þessari mynd sem tekin var þann 25.ágúst. Ekki er þó reiknað með að akörnin hafi náð að þroskast.
Mynd: Sigrún Ása Sturludóttir
Á söndum Rangárvalla má finna nokkrar sumareikur (Q. robur) sem sáð var fyrir ca 2015 undir plasti, með akörnum frá Stokkhólmi. Plantað út í ca 30cm hæð. 
Mynd: Benedikt Benediktsson
Á söndum Rangárvalla má finna nokkrar sumareikur (Q. robur) sem sáð var fyrir ca 2015 undir plasti, með akörnum frá Stokkhólmi. Plantað út í ca 30cm hæð.
Mynd: Benedikt Benediktsson
Sumareik á sínu fyrsta sumri í rýrum lyngmóa, í innsveitum Skagafjarðar. Tekur sig vel út innan um fjalldrapa, kornsúrur og berjalyng, en ef allt gengur vel, vex hún með tímanum þeim vel yfir höfuð.
Mynd: Höskuldur Þórhallsson
Sumareik á sínu fyrsta sumri í rýrum lyngmóa, í innsveitum Skagafjarðar. Tekur sig vel út innan um fjalldrapa, kornsúrur og berjalyng, en ef allt gengur vel, vex hún með tímanum þeim vel yfir höfuð.
Mynd: Höskuldur Þórhallsson
Hér fer ekkert á milli mála (að hausti til) hverjar þessara eru rauðeik (Q. rubra).
Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson
Hér fer ekkert á milli mála (að hausti til) hverjar þessara eru rauðeik (Q. rubra).
Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Nokkrir punktar um ræktun á eik við íslenskar aðstæður

Rétt er að taka fram að m.a. Aðalsteinn Sigurgeirsson hjá Skógræktinni, meðlimir Trjáræktarklúbbsins, ásamt ýmsum ársritum G.Í. eiga heiðurinn, beint og óbeint, af sumu því sem hér kemur fram. Eins er öllum þeim sem aðstoðuðu við upplýsingaleit, sem og þeim sem leyfðu myndbirtingar kærlega þakkað fyrir.

Upphafið

Áskotnist þér akarn, sem líf innan hnotu geymir, þarf strax að hafa nokkra hluti í huga. Lífið sem um ræðir, er í formi fósturs, sem allajafna deyr við of mikinn þurrk. Sama getur gerst við of mikið frost, sem og alltof háan hita, auk þess að geta myglað standi þau of lengi í blautum vatnspolli. Þetta er semsagt óvenju viðkvæmt fræ, af trjáfræi að vera. Það er skammlíft og geymist illa. Svipað á við um beyki (enda náskylt) og ýmsar aðrar hnotur og stór fræ. Fræin virðast kannski sumum sérlega sterk að sjá, en það sem inni býr er afar viðkvæmt. Innlent fræ af þessum tegundum er ekki til. Erlent fræ tekur tíma að komast til landsins og getur lent í mjög óhagstæðum aðstæðum á leiðinni, sem geta t.d. þurrkað það upp eða látið það spíra og skemmast. Lykilatriði er því alltaf að koma því sem fyrst í mold, eða sambærilegar aðstæður.

Sé ennþá eitthvað áfast, svosem greinarbútur, lauf eða „hatturinn“ sem hélt akarninu hangandi, er best að fjarlægja það. Keypt fræ er oftast laust við viðbótar rusl, en þó tíðkast stundum að selja þau ódýrar enn með hattinn á. Hatturinn getur þó hindrað spírun ef hann er fastur á og orsakað mjög lágt spírunarhlutfall. Mygla getur komið utan á akarnið og hana er best að þrífa af strax. Hafi það spírað og spíran byrjuð að þorna eða rotna er ekki endilega öll nótt úti, því í sumum tilfellum getur fóstrið náð að senda út nýja spíru. Hafi maður einungis örfá akörn, er um að gera að prófa að setja þessi niður einnig upp á von og óvon. Hafi maður mikið magn, er hins vegar einfaldast að henda þessum strax.

Akarnið þarf helst að skola vel, svo það sé síður líklegt að bera með sér eitthvað óvænt t.d. í jarðvegsryki sem kann að vera utan á því. Gott er að setja það svo í skál með vatni á stofuhita í ca sólarhring. Þetta er raunar algengt með öll stærri trjáfræ. Vatnsbaðið hjálpar til við að ná upp rakatapi. Þegar komið er að því að taka það úr vatnsbaðinu, er almennt hægt að reikna með að þau sem hafa sokkið séu í heilu lagi og góð og gild, en þau sem fljóti enn séu líklega ónýt. Í sumum tilfellum geta fljótandi akörn samt spírað, t.d. er það nokkuð algengt með fjaðureik (Q. macrocarpa). Að öllu jöfnu eru þau þó fjarlægð. Þessi stóru fræ er gott að hafa ekki lengur í vatnsbaði en sólarhringinn, til að auka ekki að óþörfu mygluhættu.

Þessi fljótandi gætu jafnvel hafa orðið einhverju kvikindi að bráð, sem við viljum ekki fá í ræktunina okkar, svo það er ekki verra að opna skelina varlega og farga slíku, eða setja ónýtu akörnin í sjóðandi vatn eða heitan ofn til að ganga af mögulegu lífi dauðu. Líkurnar á því að akörn séu skemmd, beri með sér pöddur eða sýkingar aukast mjög hratt með hverjum deginum sem akarnið liggur á jörðu. Því skal forðast að safna akörnum sem legið hafa lengi og forðast öll akörn sem hafa á sér göt. Samasem merki er oft á milli þess að gat sé á akarni og að það sé ónýtt. Lítið kringlótt gat, er líklegast til að vera eftir litlar bjöllulirfur. Engan langar að bæta í skaðvaldaflóruna hér á landi. Ef þið eruð á annað borð að taka með ykkur akörn að utan skal að lágmarki passa að skoða þau vel og vandlega, taka bara þau sem best líta út og hreinsa þau vel og vandlega strax, áður en heim er komið. Eins er alltaf mælt með að kynna sér gildandi reglur og löggjöf hverju sinni, varðandi söfnun og innflutning á fræi og að sjálfsögðu að fara eftir þeim jafnt í hinu erlenda landi, sem og við heimkomu, okkur öllum til heilla.

Hvað svo?

Sumir setja akörnin þvínæst í ísskápinn, í plastpoka með smávegis af blautum eldhúspappír og fylgjast með þeim þar. Þá er hægt að taka jafnóðum þau akörn sem byrja að spíra og setja þau í pott. Þannig er hægt að vera viss um að einungis spírandi akörn fari í pottana. Ekki þurfa þó öll akörn kuldameðhöndlun til að spíra og sum geta spírað við mjög lágan hita. Því er kuldameðhöndlun í ísskáp oftast óþörf með þessi fræ, nema þá helst ef ekki er hægt að koma þeim strax í mold. Eins má þá ekki tefjast að taka akörnin þegar þau byrja að spíra, því annars er hætt við að rótin fari að rotna og fylgjast þarf með myglu og þrífa hana burt ef hún fer að myndast.

Eikur senda fyrst út rótina og koma henni fyrir, áður en þau senda út stilkinn sem vex ofanjarðar. Þessi rót vill fara nokkuð djúpt. Algengt er að akörn sendi niður stólparót sem er á milli 20-30cm að lengd. Sé rótin lengri en sem nemur dýpt ræktunaríláts, fer hún að vaxa í boga eða hring. Þegar um ræðir stólparót, er það slæmt. Slíkt getur valdið vandræðum síðarmeir og jafnvel drepið tréð óvænt mörgum árum, jafnvel fáeinum áratugum, síðar. Við viljum því fyrir alla muni forðast slíkt.

Því er mælt með að nota ekki sáðbakka, eða grunna potta, þegar eikur eru ræktaðar. Sé hins vegar enginn annar kostur í boði en að sá í grunna potta eða sáðbakka, þarf að koma þeim strax á fyrsta sumri mjög varlega hvert í sinn (dýpri) pott. Dýptin ætti ekki að vera undir 20cm. Stundum er hægt að fá 1L og 2L rósapotta í heppilegri dýpt, en einnig geta t.d. 1L mjólkurfernur dugað til. Snúningsrót getur einnig komið upp ef plantan er of lengi í sama pottinum og því er oft ráðlegt að skipta upp um pottastærð árlega. Nota skal þann jarðveg sem í boði er, en ágætt ef hann er ekki of þéttur. Almennt séð er loftrík mold nauðsynleg fyrir spírun fræja.

Hér er rétt að staldra aðeins við og taka smá hliðarspor.
Sé ætlunin að nýta plöntuna t.d. í tengslum við bonsai ræktun, er klippt strax á stólparótina. Raunar eru sumir þeirrar skoðunar að sé ekki ætlunin að setja eikina mjög fljótlega niður í jörð, sé hreinlega betra að klippa á stólparótina. Stytta hana, sumsé. Notast svo frekar við ekki eins djúpa potta og passa frekar að þeir séu breiðir. Hugsunin er sú að stólparótin hjálpi ungri plöntu fyrstu 2 árin, ef hún fer beint í jörð. Verði plantan þennan sama tíma, jafnvel lengur, í umönnun sé hvort eð er passað nægilega upp á vökvun og næringu. Eftir þessi 2 ár sé stólparótin ekki lengur eins mikilvæg aðstoð fyrir plöntuna og getur hreinlega orðið til vandræða, sbr ef hún fer að vaxa í hring o.þ.h. auk þess sem að hún gerir trjáplöntuna viðkvæmari fyrir raski. Með því að stytta hana snemma, verður hún síður til vandræða og plantan setur aukinn kraft í að mynda hliðarrætur í staðinn. Vilji fólk taka þetta alla leið, er plantan alin upp ýmist í svokölluðum “air pruning” pottum, eða þartilgerðum beðum.

Akörn eru vanalega sett liggjandi rétt undir moldaryfirborðið í ræktunarpotti. Hægt er að setja þau 1-2cm dýpra til að verja þau örlítið betur frosti og vindum, eða hafa þau ofan á moldinni ef potturinn er þegar á vel vörðum og músaheldnum stað. Kosturinn við að hafa þau ofan á moldinni, þar sem hægt er, er m.a. að þá er hægt að sjá glytta í rótarspíruna til staðfestingar þess að spírun sé hafin, auk þess að þá getur rótin notað alla dýpt pottsins.

Best er að setja akörnin beint í mold strax að hausti. Geyma pottana á svölum en frostlausum (og músaheldnum!) stað. Leyfa þeim svo að spíra á eðlilegum tíma þegar nær dregur vori. Sé það ekki í boði, er hægt að leyfa pottinum að standa inni við stofuhita, en þá þarf að passa að plantan fái nægt sólarljós þegar hún byrjar að gægjast uppúr jarðveginum. Í báðum tilfellum þarf að passa að halda moldinni rakri allan tímann. Passið ykkur sérstaklega á því að rök mold er alls ekki það sama og blaut mold. Þó fræin þurfi raka, geta þau myglað liggi þau of lengi í bleytu. Umhleypingasamur íslenskur vetur getur valdið vandræðum hér, ekki bara að akörnin liggi þá lengi í vetrarblautum jarðvegi, heldur geta akörn byrjað að spíra í hlýindaskeiði að vetri. Í sumum tilfellum getur hart frost í framhaldinu farið illa með þau og jafnvel drepið plöntuna. Akörn í mold þola flest eitthvað vægt frost til skamms tíma, en áskjósanlegast er að þau séu á frostlausum stað í upphafi.

Rétt er að setja smá fyrirvara hér, því akörn mismunandi eikartegunda geta haft aðeins breytilegar kröfur. Sumar vilja helst spíra strax að hausti ef þær geta, á meðan aðrar vilja ekki spíra fyrr en næsta vor, eftir kuldatímabil. Eins er ágætt að setja 2-3 akörn sömu tegundar saman í pott, því alls óvíst er að þau muni öll spíra. Ef fleiri en eitt spíra í sama potti, er fínt að leyfa þeim að koma sér fyrir fyrsta árið þannig, en skipta þeim í sitt hvorn pottinn vorið eftir.

Fyrstu árin

„Fyrsta sumarið þarf að gæta vel að vökvun (að ungu plönturnar þorni ekki) og öðru hvoru að sjá þeim fyrir næringarefnum með því að vökva með áburðarblöndu. Eikur eru, líkt og flestar trjátegundir, háðar sambýli við svepprótartegundir sem efla þrótt og bæta lífslíkur þeirra á foldu. Þær svepprætur eru gjarnan sérhæfðar að eik og eru þær tegundir sveppróta óalgengar í íslenskri náttúru (enda eikur hér sjaldséðar). Á Mógilsá vaxa nú víða eikur sem sáð var til haustið 2013 og gróðursettar á árunum 2016-17. Þær plöntur voru allar smitaðar með svepprót á gróðrarstöðvarstigi. Vilji fólk tryggja svepprotarsmit eikanna sinna, er velkomið að sækja sér smit í jarðveginum næst þessum plöntum.

Reynslan sýnir hérlendis, að eikum er mjög hætt við rótarkali að vetri ef plöntur eru látnar standa úti í pottum, berskjaldaðar fyrir frosti. Til að draga úr líkunum á slíku rótarkali, eru eikurnar best geymdar yfir veturinn í köldu og frostfríu gróðurhúsi. Ef sá kostur er ekki fyrir hendi, er betra að taka eikurnar úr pottunum tímabundið og gróðursetja í skjólgóðum garði. Enn betri aðferð við yfirvetrun er að grafa grunna gröf (0,5 m djúpa), leggja plönturnar láréttar í „gröfina“, þekja þær með dagblöðum og síðan jarðvegi. Að vori, þegar frosthættan er liðin í maímánuði og frost farið úr jörðu, þarf að taka upp plönturnar og færa aftur í pottana.“  (Aðalsteinn Sigurgeirsson)

Staðarval

„Þegar eikarplantna er orðin 2-3 ára frá sáningu, er óhætt að gróðursetja hana á varanlegan ræktunarstað. Eikur eru nægjusamar og þurfa ekki vildarland, frjósaman jarðveg né mikið skjól. Sjálfur hefi ég gróðursett eik á örfoka sand og á gróðursnauða mela á Suður- og Suðvesturlandi og eru flestar þær eikur enn við sæmilega heilsu, fimm árum síðar, þó vöxturinn sé enn hægur. Vöxturinn verður engu að síður betri ef fyrir hendi er eitthvert skjól, t.d. af mannhæðarháu birki eða víðiskjólbeltum. Eikur eru fremur ljóskrefjandi og þola illa að vaxa í skugga annarra trjátegunda. Í öllum löndum þar sem eik er ræktuð er reynslan sú, að eikarskógrækt er þolinmæðisverk. Eikur fara sér hægt fyrstu áratugina, en verða gömul og stórvaxin.“ (Aðalsteinn Sigurgeirsson)

Eikur á Íslandi

Eikartré finnast víða um heim, enda á milli 400-600 tegundir (eftir því hvaða skilgreiningar eru notaðar) sem aðlagaðar eru að hinum ýmsu aðstæðum. Nefna má rauðeik (Q. rubra) og skarlatseik (Q. coccinea) sem 2 dæmi um eikur með sérlega fallega haustliti. Margar eikartegundir eru þó að mestu lausar við haustliti, nema mögulega fyrstu árin, en sumar hanga á laufunum langt frameftir vetri og aðrar eru jafnvel sígrænar.

Mesta tegundafjölbreytni af eik er að finna í Norður-Ameríku og innan hennar sérstaklega í Mexíkó. Þrátt fyrir allan þennan fjölda og þann mikla fjölbreytileika sem þar finnst, eru ekki margar tegundir sem sýnt hafa fram á að þær geti vaxið hér. Kannski ekki að furða, þar sem eikur kjósa oftast hlý sumur, en hér á Íslandi erum við nokkuð sér á báti með okkar stuttu og köldu sumur.

Talandi um aðlögun, það er ekki bara tegundin sem skiptir máli, heldur hver uppruninn er lengra aftur í tímann.  Til einföldunar má segja að akörn af eikum sem vaxið hafa kynslóð eftir kynslóð á köldum svæðum, séu líklegri til að standa sig betur hér á landi en þau sem safnað var á hitabeltisslóðum. Akörn upprunnin frá Kanada eða nyrðstu hlutum Bandaríkjanna, Finnlandi og Noregi hafa gefið ágæta raun, en ekki skal þó útiloka akörn upprunnin sunnar.

Meðal tegunda sem hefur eitthvað að ráði verið reynt við að rækta úr akörnum undanfarin ár má nefna Q. robur (sumareik/stilkeik), Q. petraea (vetrareik), Q. rubra (rauðeik) og Q. macrocarpa (fjaðureik). Hefur árangur verið ansi misjafn og algengara er að illa gangi en vel, en helsti samnefnarinn þó að allt gengur þetta afar hægt. Mesta reynslan er komin á sumareikina, en af einhverjum ástæðum gengur vetrareikin mun verr. Fjaðureikin er nýlega byrjuð að rata í prófanir svo vitað sé, en lofar góðu hingað til. Rauðeikin er svo þessara tegunda viðkvæmust og þarf því öllu betra skjól og hlýju en hinar. Það er því rétt að minna fólk á að hér er um að ræða langtíma verkefni og rétt að búast við afföllum, en vonandi upplifa barnabörnin dag einn stórar og fallegar eikur á Íslandi. Enda er nú verið að gróðursetja eikur í meira magni en áður, um land allt, jafnt í görðum sem skógum, söndum sem lyngmóum.

Í Reykjavík finnst amk ein eik sem heldur upp á hálfrar aldar afmæli þetta árið (2022). Akarnið kom frá Svíþjóð og mældist eikin 8,6m árið 2020, hafandi þá hækkað um 2,3m síðan 2009. Þegar þetta er skrifað telst hún hæsta eik Íslands. Ekki mikið yngri er eik að Hafnarstræti, Akureyri, sem var komin á sjöunda meter í kringum fertugsafmælið. Spennandi verður að fylgjast með þessum eikum áfram næstu árhundruð.

Rétt er að nefna skrif Sigurðar Þórðarsonar í Skógræktarritið. Hann hefur verið að skrá hæð hinna ýmsu eikartrjáa á landinu og vill eflaust heyra frá ykkur, ef þið eruð með eik sem farin er að ná einhverri hæð. Mælingin á hæstu eik landsins er einmitt frá honum kominn. Sjálfur er hann með 26 ára gamla danska sumareik sem dafnar vel í garði hans á höfuðborgarsvæðinu, en pólskar eikur nokkrum árum yngri áttu skv honum mun erfiðara uppdráttar þar til nýlega.

Muninn á því hvaðan akörnin eru ættuð hef ég einnig séð í sumareikum sem ég ræktaði og ættaðar eru frá Ungverjalandi. Þeim líður ágætlega og kal er ekki mikið, en þær haldast afar smávaxnar enn, þrátt fyrir að vera um 10 ára að aldri. Að því sögðu, þá óx eikin fimmtuga lítið sem ekkert fyrstu 10 árin, en sumarin 1972-1982 voru nú líklega heldur kaldari en 2011-2021.

Beinsáning og innfluttar plöntur

Undanfarin ár hefur eitthvað verið um það að innfluttar eikur hafi sést í gróðrarstöðvum og plöntusölum. Hefur þar helst verið um að ræða svokallaða sumareik (Quercus robur), oft frá danmörku. Við réttar aðstæður virðist hún ganga ágætlega og reikna má með að jarðvegurinn sem þeim fylgir sé þegar smitaður af hjálplegri svepprót, sem gagnast getur einnig öðrum eikum. Gróðrarstöðvar hafa þó einnig verið að rækta sjálfar upp af akörnum og hefur t.d. Nátthagi verið duglegur að rækta úr akörnum frá Noregi. Tvær eikur þaðan voru gróðursettar á Skógarströnd árið 2005, þá 75cm háar og hafa dafnað vel síðan, komnar um og yfir 3,5m. Þær eru síður en svo einsdæmi.

Í rýran lyngmóa í innsveitum Skagafjarðar sáði Höskuldur Þórhallsson nokkrum akörnum frá Uppsölum í Svíþjóð haustið 2020. Færðust afkvæmin því um 6 breiddargráður frá móðurtrénu, úr 59 gráðum í 65 gráður Norður. Upplifa líklega ekki svo ósvipaðan vetur á báðum stöðum, þótt mikill munur sé hvað sumarhita varðar.

Sumarið 2021 var svo 4 plöntur af sumareik að finna, sem sprottið höfðu úr akörnum þessum (sjá mynd). Sem betur fer hefur það landsvæði verið friðað fyrir beit síðan 2007 og gætu þessar ungplöntur því átt ágætis möguleika á að koma sér fyrir. Dæmi m.a. einmitt af Norðurlandi og Vesturlandi hafa sýnt að erfitt er að rækta upp eik þar sem sauðfé er annars vegar. Það nagar ungplönturnar niður í rót og þær einfaldlega drepast. Raunar geta kanínur einnig verið skaðvaldar í eikarræktun og rétt að hafa dýralífið í huga þegar gróðursett er, jafnt við staðarval, sem og mögulegar varnir.

Annað sem þarf að hafa í huga, er að setja akörnin ekki á svo þurran stað að þau þorni auðveldlega yfir veturinn, eða svo kaldan stað að frostið gangi af þeim dauðum. Auðvitað geta vorfrost líka valdið vandræðum. Hreinn Óskarsson hefur reynt sáningu á eik beint í gamla foksanda á Rangárvöllum. Skemmst er frá því að segja að það gekk einfaldlega ekki upp. Bæði árin sem þetta var reynt, voru sérlega köld vor á svæðinu, sem hefur þá mögulega haft áhrif, en eins getur einfaldlega verið að akörnin (eða spírurnar úr þeim) hafi hreinlega þornað eða lent í of miklu frosti yfir veturinn. 5 stiga frost er oft nefnt sem viðmið fyrir frostþol ýmissa akarna, en því til viðbótar kemur svo einangrunargildi jarðvegs. Sandurinn telst þó ekki einangrandi og kólnar því mun meira og hraðar grunnt undir sandinum, en grunnt undir garðmold. Garðmoldin hefur því virkað betur fyrir hann og haldið betur bæði hita og raka, því í garði á Selfossi tókst honum að fá nokkrar eikur úr beinsáningu haustið 2018, sem lifa enn.

Hreinn varpaði því fram að mögulega myndi ganga betur á söndunum, með því að setja sæmilega þykkt heymoð yfir akörnin og væri áhugavert ef slíkt verður síðar reynt. Eins benti hann á varðandi músagang, að skv sænsku doktorsverkefni er minkaskítur áhrifaríkasta músafælan þegar kemur að akörnum. Komist einhver yfir slíkt, er því vel þess virði að dreifa slíku þegar akörnum er sáð.

Íslensk akörn

Ekki er komið að því enn að við getum ræktað eikartré úr akörnum sem við söfnum hér á landi, en kannski er þess ekki svo langt að bíða. Sumareik í Borgarfirði myndaði aldinvísa haustið 2021, þó svo þeir hafi líklega ekki náð að þroskast. Reyndar er því ekki sé einu sinni vitað hvort um raunverulega frjóvgun hafi verið að ræða, eða geld aldin sem hefði því ekkert orðið úr. Sama saga á sér stað víðar á landinu og eftir því sem meira er plantað, aukast líkurnar á því að eftir eitt gott og langt sumar í náinni framtíð, getum við gengið um og týnt akörn af íslenskum eikum.

Með því að vera dugleg að prófa sífellt, en skynsamlega, nýjar tegundir á nýjum stöðum eða með annan uppruna, aukast líkurnar á að vel gangi á endanum. Það á auðvitað við um eikur eins og aðrar plöntur. Sé upplýsingum um þessar prófanir okkar haldið til haga, lærum við af þeim og finnum líka vonandi heppilegasta fræupprunann með tímanum. Sérstaklega nytsamlegt er að halda utan um helstu atriði, svosem uppruna akarna/plantna og þau atriði sem gætu hafa verið frábrugðin, varðandi meðhöndlun eða ræktun plöntunnar. Með því að vera dugleg að deila upplýsingum með hvort öðru, t.d. með skrifum í garðyrkju og skógræktarrit, eða jafnvel bara á facebook síðu Trjáræktarklúbbsins og álíka, skráist líka þekking sem hægt er að leita til síðar.

Frekari Fróðleikur

https://www.bbl.is/frettir/fraedsluhornid/nu-eiga-eikur-leikinn

http://www.euforgen.org/species/quercus-robur

https://www.kjarnaskogur.is/post/eikurnar-a-akureyri

https://www.skogur.is/is/nyskograekt/trjategundir-og-trjaheilsa/lauftre/eikartegundir

https://www.woodlandtrust.org.uk/trees-woods-and-wildlife/british-trees/oak-tree-wildlife/

Nokkrar frægar eikur:

https://en.wikipedia.org/wiki/Emancipation_Oak

https://en.wikipedia.org/wiki/Bowthorpe_Oak

https://en.wikipedia.org/wiki/Seven_Sisters_Oak