Posted on

Hefur þú séð apann í Japan? (Hluti 2 af 4)

Gott dæmi um notkun vatns, steina og gróðurs í garði við hof í Japan. Takið eftir eyjunni. Myndina tók Harald Schaller og eru honum færðar þakkir fyrir að leyfa afnot hennar.
www.instagram.com/jadzia79

 

Í fyrsta hluta kynntumst við nokkrum tegundum japanskra garða: https://gardurinn.is/hefur-thu-sed-apann-i-japan-hluti-1-af-3/      Nú byrjum við að skoða nokkra lykilþætti sem garður með japanskt þema gæti innihaldið.

Hvernig kenni ég Garðari japönsku?

Garðari? Vorum við ekki búin með þennan brandara? Duolingo appið er heppilegt til að kynna sér nokkur japönsk orð, en viljirðu draga japönsk áhrif inn í garðinn kemur ýmislegt til greina.

Steinar:

  • Stórir steinar í garðinum gætu orðið miðpunktur og táknað fjöll eða eyjur. Steinastiklur gætu jafnvel verið eins konar eyjur í garðinum.
  • Smáir, rúnnaðir steinar eru heppilegir í uppþornaðan árfarveg.
  • Niðurbrotnir steinar, í möl eða sand, geta verið myndlíking fyrir vatn.

Vatn:

  • Er lækur, tjörn, gosbrunnur eða jafnvel fuglabað nú þegar til staðar til að vinna með?
  • Rennandi lækur og litlir fossar eru oft betri en stórgerðir gosbrunnar.
  • Tjörn með gróðri og fiskum eða smágerð kyrrstöðulaug til endurspeglunar, jafnt á umhverfinu sem og eigin tilvist. Lítill steinn sem situr á diski, fullum af vatni, getur náð fram sömu hughrifum og stórt bjarg í miðri tjörn.

Eyjar gegna stóru hlutverki. Hvort sem er raunverulegar eyjar í stóru stöðuvatni, stórir steinar í lítilli tjörn eða á sandflæmi og jafnvel litlir runnar í eyjalíki. Ekki skrýtið að eyríkið Japan tengi sterkt við eyjar í sinni hönnun og nærumhverfi. Lítill Steinn (eða) Steinarr, á diski með vatni getur verið jafn áhrifaríkt og eyjar í tjörn. Hér sækjumst við oftar eftir því smávaxna sem líkir eftir því stóra.

Virðing japana fyrir því aldna er vel þekkt, enda tengir langur aldur betur við hið eilífa flæði tímans og tilverunnar. Gömul og stór tré geta því verið góður upphafspunktur eða ákveðin miðja í japönsku þema. Gróin tré í áhugaverðu formi, með mosa og fléttuvexti eða stórt lerkitré, svo dæmi séu tekin. Gott er að skoða það sem fyrir er og ákveða útfrá hvaða miðpunkti þú vilt vinna.

Í japan er hegri tákn hreinleika og tignarlegs útlits. Hann passaði svo vel inn í Kyoto garðinn að ég var viss um að hann hefði verið hannaður þangað inn frá fyrsta degi. Lifandi var hann þó og frjáls, þar sem hann skyndilega leit í kringum sig og flögraði aðeins um. Mæli með því að hafa gamlan trjástofn í garðinum til öryggis, ef hegri skyldi mæta á svæðið. Þeir flækjast jú til landsins í einhverju magni árlega.

 

Þarf ég að panta fullt af plöntum frá Japan?

Hvað viltu í raun og veru? Hefðbundið japanskt eða bara „austurlenskt yfirbragð“? Mun algengara og einfaldara er að vilja ákveðinn framandi anda Asíu í garðinn. Horfa svo til þess hvað skapar það útlit og þau hughrif sem við sækjumst eftir. Slík nálgun er líka skynsamlegri í langflestum tilfellum, enda afar misjafnt hvað er raunhæft við okkar aðstæður. Munum bara að taka tillit til þess hve mikil vinna fylgir hverri plöntu. Helst ætti „látlaust og róandi“ að óma reglulega í huganum þegar japanskur garður er skipulagður.

Burknar finna sér oft góðan stað og gott úrval til af þeim hér undanfarið, jafnvel „japansburknar“. Japanslyng (Pieris japonica) fæst líka stundum hér á landi. Árangur hefur verið misjafn, en sé þeim gefið gott skjól geta þau staðið sig ágætlega. Ýmsar brúskur/hostur passa mjög vel.

Sérlega viðeigandi gæti verið að hafa fallega bambusplöntu vaxandi í garðinum, en nánar um það í ítarlegum greinarflokki í Garðyrkjuritinu 2021.

 

Þekjuplöntur

  • Mosi passar oft vel, en vex hann vel við þínar aðstæður og færir þér gleði?
  • Nálapúði (Azorella trifurcata) getur þakið stóra steina á sólarsvæði mjög fallega.
  • Smávaxnir steinbrjótar (t.d. roðasteinbrjótur) og smávaxnir hnoðrar (t.d. helluhnoðri).
  • Hvað með blóðberg til að blanda íslenskum og japönskum áhrifum saman?

Rósir

  • Þetta er japansgarður, ekki rósagarður…

Virkilega, engar rósir?

  • Rósir eiga seint við í hefðbundnum japansgarði, þó hægt sé að finna þær í Japan.
  • Fallegar, klassískar bóndarósir geta þá frekar passað.

Lyngrósir

  • Já, svona rósir eiga klárlega heima þarna.
  • Velja saman góða blöndu af lyngrósum og gefa þeim pláss til að verða stórar og gamlar.
  • Minni garður (eða smávaxnara þema) horfir þá frekar á dverglyngrósir. Rhododendron impeditum, urðarlyngrós, o.þ.h.
Lyngrósin Ninotschka blómstrar fallega hjá lyngrósarsnillingunum Sólveigu og Óla.

 

Fyrir mitt leyti get ég – að öllum öðrum ólöstuðum – mælt með bæði faglegri ráðgjöf og góðu úrvali af lyngrósum stórum sem smáum í Nátthaga, Ölfusi, sem dæmi. En það er eins með allar þessar plöntur: hafið í huga hvað raunverulega passar við ykkar aðstæður í garðinum. Gott er að skoða víða og leita sér ráðgjafar. Sérstaklega að sumri til er hægt að finna ágætis úrval af plöntum ef fólk leggur á sig að leita. Þó auðvitað sé það misauðvelt eftir búsetu.

Í næsta hluta skoðum við svo enn feiri plöntur, sérstaklega tré.

(Allar myndir eru höfundar, nema þar sem annað er tekið fram.)