Posted on

Jólarósir, Helleborus – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Það kann að virðast svolítið furðulegt að skrifa um jólarósir svona þegar sumarið er nýgengið í garð. Íslenskt sumar lætur þó ekki að sér hæða og mætir til leiks með fannfergi og tilheyrandi hálku á fjallvegum. Svartsýnir menn gætu orðað þetta svo að það haustaði óvenju snemma þetta vorið en við garðyrkjufólkið höfum marga fjöruna sopið í þessum efnum og vitum að handan við hornið er logn og blíða, sumarsól. Snjóalögin í byrjun sumars eru samt sem áður tilefni þessarar greinar því það hrærir gjarnan hjartans hörpustrengi að sjá blómstrandi plöntur gægjast upp úr snjósköflunum. Jólarósin er einmitt þeirrar náttúru að hún blómstrar á verulega óvenjulegum tíma eða um hávetur. Sagt er að jólarósin blómstri á jólanótt, kannski er þetta hennar leið til að fagna fæðingu frelsarans.

     Jólarósir eða Helleborus ættkvíslin, eru plöntur af sóleyjaættinni. Þær vaxa helst í skóglendi eða í grýttum hlíðum í heimkynnum sínum við Miðjarðarhafið og víðar í Evrópu, austur til Asíu. Nafnið Helleborus er komið úr grísku og er dregið af orðunum helein = að skaða, slasa og bora = matur og vísar það til þess að plönturnar eru ákaflega eitraðar. Jólarósir eru fremur lágvaxnar plöntur, um 30-60 cm háar með upprétta stöngla. Plönturnar mynda þykkan jarðstöngul og eru með voldugt rótakerfi. Upp af jarðstönglinum koma handskipt til fjaðurskipt blöð með lensulaga og sagtenntum blaðhlutum. Blöðin eru sígræn, þykk og leðurkennd. Blómstönglarnir eru uppréttir og á þeim eru fremur mjó stöngulblöð. Blómin eru sérkennileg því það eru í raun bikarblöðin sem eru aðalskrautið, krónublöðin sjálf eru ekki greinileg. Blómin eru ýmist lútandi eða vísa út til hliðar. Þau eru í hvítum, bleikum, fjólubláum eða grænum litum, stundum eru blómin með grænum blettum. Blómgunartími jólarósa er frá því síðvetrar fram á mitt vorið.

     Eiturefnin sem plönturnar innihalda eru glýkósíð sem hafa skaðleg áhrif á hjarta og miðtaugakerfi. Eitrunareinkenni geta verið mikil munnvatnsframleiðsla, óreglulegur hjartsláttur og meltingartruflanir. Á miðöldum var seyði af jólarósarótum notað sem banvænt eitur og einnig var það notað til að lækna geðveiki, sem verður að teljast fremur vafasöm lækningaaðferð, miðað við eituráhrif plöntunnar. Plöntusafinn getur valdið kláða og blöðrum á húð þannig að rétt er að vera í hönskum þegar plöntunni er skipt eða hún meðhöndluð á annan hátt.

     Jólarósin sjálf, Helleborus niger, er ákaflega falleg planta með tvö til þrjú stór, skállaga, nærri upprétt, hreinhvít blóm á hverjum stöngli. Jarðstöngull jólarósar er svartur og er það einkennandi fyrir tegundina enda vísar tegundarheitið, niger til þess. Jólarós verður um 30 cm há. Henni er hægt að skipta í tvo hópa eftir blómgunartíma, annars vegar blómstra plönturnar í desember-janúar og hins vegar í febrúar-apríl. Jólarós hefur verið ræktuð hérlendis í grónum og skjólgóðum görðum með ágætis árangri.

     Fösturós, Helleborus orientalis, er önnur tegund sem hefur verið ræktuð hérlendis með ágætis árangri. Hún er ívið hærri en jólarósin, eða um 45 cm á hæð. Blómin eru yfirleitt fremur lútandi eða vísa út á við og eru þau ýmist kremhvít eða grænleit á aðaltegundinni. Til er afbrigði með rauðleit blóm og er meðfylgjandi mynd af því afbrigði. Það nefnist Helleborus orientalis ssp. abchasicus og blómstrar þessi tegund snemma á vorin eða í apríl-maí.

     Þessar snemmblómstrandi tegundir eru skemmtileg viðbót við allar hinar plönturnar sem gleðja okkur snemma á vorin, þ.e. laukana, lyklana, geitabjöllurnar o.fl. Yfirleitt eru jólarósirnar mjög formfagrar garðplöntur og þarf lítið fyrir þeim að hafa. Þeir sem eiga skjólgóða garða og hafa áhuga á fallegum tegundum ættu að prófa þessar. Þá er bara að bretta upp ermarnar, grípa garðyrkjubækurnar og láta sig dreyma um raunverulegt sumar, svona rétt á meðan mestu skaflarnir bráðna.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2006)