Posted on

Garðyrkjuritið 2020 komið út

Garðyrkjuritið 2020 er komið út og hefur verið dreift til félagsmanna í Garðyrkjufélagi Íslands.

Ritið í ár er hið hundraðasta í röðinni en það hefur komið út með fáeinum hléum allt frá stofnun félagsins fyrir 135 árum. Ritið í ár er, eins og áður, stútfullt af forvitnilegu og fræðandi efni sem höfðar til bæði áhugafólks um gróður og garða sem og sérfræðinganna. Ritstjóri er Björk Þorleifsdóttir.

Meðal efnis má nefna grein um mælingu á kolefnisbindingu heimagarða á höfuðborgarsvæðinu sem færir okkur heim sanninn um að ræktun heima við hús skiptir umtalsverðu máli við bindingu kolefnis í jörðu. Sagt er frá áhrifamætti heilandi garða og heilsubót sem garðyrkjan hefur í för með sér og athyglisverða grein er einnig að finna um ilmjurtir í heimagörðum. Fjallað er um moltugerð, yglurnar í garðinum, aldingarða æskunnar og rósir af ýmsum toga og margvíslegum uppruna. Glæsilegar myndir eru af rósum ársins á Íslandi og hinum Norðurlöndunum og hægt er að læra að fjölga rósum með sumarstiklingum í fróðlegri grein Vilhjálms Lúðvíkssonar, formanns Rósaklúbbs GÍ.

Tómas Ponzi skrifar forvitnilega grein um ræktun harðgerra tómatayrkja, Guðríður Helgadóttir skrifar um kristilegar nafngiftir blóma, Hafsteinn Hafliðason er með grein um ræktun Kálfafellsrófunnar og fjölskylduna á Kálfafelli og mætti svo lengi telja.

Garðyrkjuritið er borið heim til félagsmanna GÍ á hverju vori – sem er enn eitt dæmið um kosti þess að vera félagi í Garðyrkjufélagi Íslands.

Posted on

Öllum námskeiðum og fræðslufundum frestað

Í ljósi þeirra aðstæðna sem hafa skapast í samfélaginu af völdum COVID-19 veirunnar hefur stjórn Garðyrkjufélags Íslands ákveðið að fresta aðalfundi félagsins sem vera átti 20. apríl 2020 um óákveðinn tíma.

    Sömuleiðis er öllum öðrum viðburðum á vegum félagsins, s.s. námskeiðum og fræðslufundum, frestað þar til betur horfir í samfélaginu.

    Við minnum þó á að vorið er skammt undan og því fer að styttast í að tímabært sé að ráðast í vorverkin í garðinum. Þeir sem forrækta blóm og aðrar plöntur eru væntanlega vel á veg komnir. Hinir, sem loks hafa tíma til að huga að ræktun, ættu að líta á nýjan frælista félagsins eða ná sér í fræ í garðyrkjuverslunum.

    Góða skemmtun – og góða uppskeru!

Posted on

Grasrótin og Garðyrkjuritið

Það vill gleymast þegar fjallað er um kolefnasporið að sennilega eru heimagarðar landsmanna sá þáttur sem skilar hvað mestum ávinningi, ekki síður en skógrækt og landrækt. Grasrót garðyrkjunnar er í heimagörðum Íslendinga í öllum landshlutum enda nánast ekkert hús í landinu þar sem ekki er stunduð ræktun af einhverju tagi. Nægir í því sambandi að minna á að stærsti skógur landsins er í Reykjavík og þar á áhugafólk um garðyrkju stærstan þátt.

Það er því frá mörgu að segja af þessum vettvangi. Nær daglegar fréttir og frásagnir samskiptamiðla sýna svo ekki verður um villst að margar nýjar og áhugaverðar hugmyndir eru í vinnslu í heimagörðum; frá þeim væri gaman að segja í Garðyrkjuritinu. Ekki síst væri gaman að heyra frá fólki sem ekki hefur skrifað í ritið áður – og hafið engar áhyggjur þótt þið teljið ykkur ekki skrifa “nógu vel” – við getum auðveldlega hjálpað til við að gera texta læsilegri.

Við hvetjum alla félaga (og eins þá sem eiga eftir að gerast félagar!) að senda okkur áhugavert efni í Garðyrkjuritið, eina íslenska tímaritið sem helgað er garðyrkju, eigi síðar en 1. nóvember næstkomandi. Það voru ágætar heimtur á efni í rit yfirstandandi árs og við vonumst til að svo verði áfram.

Vinsamlega sendið efni ykkar – eða hugmyndir um efni – til Kristins fræðslustjóra Garðyrkjufélagsins á netfangið gardyrkjufelag@gardurinn.is 

 

 

 

 

Posted on

Aldingarður æskunnar í Fjallabyggð

Aldingarður Æskunnar í Fjallabyggð var nýlega hleypt af stokkunum með gróðursetningu aldintrjáa við Trjálund norðan við bílaplanið Menntaskólans á Tröllaskaga.

Ómar Valdimarsson formaður Garðyrkjufélags Íslands, Kristinn H. Þorsteinsson, fræðslu- og verkefnisstjóri og Anna María Guðlaugsdóttir formaður Garyrkjufélags Tröllaskaga Norðurs voru viðstödd ásamt Gunnari Birgissyni bæjarstjóra Fjallabyggðar og aðstoðuðu starfsfólk leikskólans, nemendum, foreldrum og velunnurum verkefnisins við að gróðursetja ávaxtatré og áhugaverð berjayrki.

Hugmyndin með verkefninu felst í því að koma upp sérstökum trjáreitum með ávaxtatrjám og berjarunnum í náinni samvinnu við leikskólanemendur, foreldra, sveitarfélög og aðra velunnara. Eitt af hlutverkum Garðyrkjufélagsins er að leiða saman ólíkar kynslóðir og skapa skilyrði fyrir vaxandi ræktunarmenningu ungs fólks. Aldingarður Æskunnar er kjörinn vettvangur til þess.
Áhugi almennings á hvers kyns ræktun hefur aukist. Hvað ræktunarskilyrði varðar hafa frumkvöðlar í ræktun, með bjartsýni og þolinmæði, sýnt að trén geta borið ávexti utanhúss hér á landi. Sæmundur Guðmundsson og Eyrún Óskarsdóttir á Hellu eru þau fyrstu sem hófu markvissa ræktun ávaxtatrjáa. Þau fluttu sín fyrstu tré inn árið 1994 og voru það eplatré og yrkin Transparent Blanche, Haugmann og Sävstaholm og fengu þessi yrki sinn sess í Fjallabyggð. 

Árangur af ávaxtarækt getur tekið nokkur ár, en ef rétt er að staðið geta trén borið ávexti hér á landi utandyra. Með þeirri þekkingu sem Garðyrkjufélagið býr að verður spennandi að fylgjast með Aldingarði Æskunnar dafna en Jón Guðmundsson á Akranesi hefur verið félaginu mikilvægur ráðgjafi í verkefninu Aldingarður Æskunnar.

 

 

 

Posted on

Garðyrkjufélag Íslands heiðrar fjóra félaga á aðalfundi 15. maí 2019

Á AÐALFUNDI Garðyrkjufélags Íslands, sem haldinn var 15. maí 2019, voru fimm félagar sæmdir heiðursmerkjum fyrir mikið og gott starf að ræktunarmálum.

Guðrún Agnarsdóttir
Guðrún Agnarsdóttir læknir og fyrrverandi alþingismaður hefur verið ritstjóri Garðyrkjuritsins frá árinu 2012 og hefur sinnt því starfi af mikilli alúð og natni. Garðyrkjuritið er, eins og félagsmenn vita, ómissandi á vorin, það færir okkur fjölbreyttan fróðleik og skemmtun um garðyrkjutengd málefni og félagið hefur alla tíð haft metnað til að þar sé vandað mjög til verka. Guðrún hefur svo sannarlega staðið vaktina með mikilli prýði og Garðyrkjuritið fyllilega staðið undir væntingum undir hennar stjórn.  Nú síðast tók hún ásamt ritstjórn þá djörfu ákvörðun að breyta aðeins broti ritsins til að myndir fái betur notið sín og af viðbrögðum félagsmanna að dæma hefur sú ákvörðun verið til góðs.  Guðrún hefur nú ákveðið að gefa ekki kost á sér áfram sem ritstjóri en stjórn GÍ þakkar henni kærlega fyrir vel unnin störf og óskar henni velfarnaðar í framtíðinni. 

Þuríður Backman
Þuríður Backman fyrrverandi alþingismaður var formaður GÍ frá árinu 2013 til ársins 2017.  Í hennar stjórnartíð urðu þær breytingar á aðstöðu félagsins að það flutti úr húsnæði sínu að Frakkastíg í Síðumúla 1.  Þuríður lagði á sig mikið og óeigingjarnt starf í þágu félagsins á þessum árum og stendur félagið í mikilli þakkarskuld við hana.  Þuríður lagði mikla áherslu á að efla félagsanda meðal félagsmanna og þeirra sem störfuðu að verkefnum fyrir félagið og tókst vel til með það.  Sem dæmi má nefna vel heppnaða jólaskemmtun sem hefur verið fastur liður í starfseminni í Síðumúla.  Þuríður nýtti einnig góðar tengingar sínar við atvinnulífið félaginu til framdráttar og kann félagið henni bestu þakkir fyrir. 

Sigþóra Oddsdóttir
Sigþóra Oddsdóttir garðyrkjufræðingur hefur lengi verið virkur félagi í Garðyrkjufélagi Ísland og síðustu árin hefur hún unnið mikið og óeigingjarnt starf í frænefnd félagsins. Vinna frænefndar er töluverð, einkum og sér í lagi frá hausti og fram yfir áramót og hefur Sigþóra unnið ötullega að því, ásamt öðrum meðlimum frænefndar að koma innsendum frætegundum til þeirra aðila sem óska eftir fræi frá félaginu.  Félagið þakkar Sigþóru fyrir hennar störf og hlakkar til áframhaldandi samstarf við hana.

Vilhjálmur Lúðvíksson
Vilhjálmur Lúðvíksson efnaverkfræðingur er félagsmönnum að góðu kunnur eftir áralöng störf sín í trúnaðarstörfum fyrir félagið.  Vilhjálmur var formaður félagsins frá árinu 2007 til 2013, hann var ritstjóri Garðyrkjuritsins um hríð og hefur undanfarin ár verið formaður rósaklúbbsins.  Vilhjálmur hefur skrifað fjölda greina um garðyrkju og tengd málefni, skipulagt heimsóknir erlendra gesta á vegum GÍ til landsins og skipulag garðyrkju- og ræktunartengdar heimsóknir Íslendinga til fjölmargra landa.  Hann er sannkallaður eldhugi og hefur verið óþreytandi í að vinna að því að hagur Garðyrkjufélagsins vaxi og dafni sem best.  Félagið þakkar Vilhjálmi heilshugar fyrir framlag hans til garðyrkju og vonast til að fá að njóta krafta hans enn um hríð.    

 

 

 

Talið vinstri Guðríður Helgadóttir varaformaður GÍ, þá koma heiðurfélagrnir fjórir Vilhjálmur, Guðrún, Þuríður og Sigþóra. Lengst til hægri er Pétur J. Jónasson fráfarandi formaður GÍ
Posted on

Stjórn Garðyrkjufélags íslands, skoðunamenn reikninga og fulltrúar í nefndir fyrir árið 2019-2020

  • Aðalfundur Garðyrkjufélags Íslands var haldinn miðvikudaginn 15. maí. Á fundinum fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf. Pétur J. Jónasson fyrrum formaður félagsins og Karl óskar Þráinsson gjaldkeri gáfu ekki kost á sér til endurkjörs og eru þeim þakkað kærlega fyrir vel unnin störf í þágu félagsins. Nýir inn í stjórn félagsins voru kjörnir Ómar Valdimarsson formaður og Eggert Aðalsteinsson.

    Stjórn Garðyrkjufélags íslands, skoðunamenn reikninga og fulltrúa í nefndir fyrir árið 2019-2020:
    Stjórn Garðyrkjufélags Íslands
  • Brynhildur Bergþórsdóttir
  • Eggert Aðalsteinsson
  • Guðríður Helgadóttir
  • Ómar Valdimarsson
  • Sveinn Þorgrímsson
    Varastjórn:
  • Freyja Hilmisdóttir
  • Konráð Lúðvíksson
  • Sigríður Héðinsdóttir
    Ritnefnd:
  • Björk Þorleifsdóttir
  • Erna Rós Aðalsteinsdóttir
  • Guðríður Helgadóttir
  • Hafsteinn Hafliðason
  • Ómar Valdimarsson
  • Vilhjálmur Lúðvíksson
    Frænefnd:
  • Barbara Stanzeit
  • Eiríkur Jónsson
  • Guðrún Þuríður Halldórsdóttir
  • Ragnar Jónasson
  • Sigþóra Oddsdóttir
    Kjör aðal og varamanna skoðunarmanna reikninga:
    Aðalmenn
  • Magdalena Lára Gestsdóttir
  • Ragnar Jónasson
    Varamenn
  • Hugrún Jóhannesdóttir
  • Sigríður Friðriksdóttir

 

 

 

Posted on

Kallað eftir tilnefningum til stjórnar GÍ og annarra embættisverka fyrir aðalfund

Aðalfundur Garðyrkjufélags Íslands 2019 verður haldinn miðvikudaginn 15. maí kl. 19:30 í Síðumúla 1. Reykjavík
Félagsleg virkni er forsenda öflugs félags og góð þátttaka í aðalfundum eflir lýðræðislega stjórnun og stefnumótunVið kosningu í aðalstjórn 2019 skal kjósa formann  og tvo meðstjórnendur til tveggja ára,  í varastjórn þrjá til eins árs.
Úr stjórn eiga að ganga  Pétur J. Jónasson, formaður, Karl Óskar Þráinsson gjaldkeri og Sveinn Þorgrímsson meðstjórnandi. Pétur og Karl Óskar gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu en Sveinn gefur kost á sér í stjórn félagsins.
Í varastjórn eru Freyja Héðinsdóttir, Konráð Lúðvíksson og Sigríður Héðinsdóttir. Þau gefa öll kost á sér til áframhaldandi starfa við stjórnarstörf fyrir félagið.
Félagar eru hvattir til að koma ábendinum til uppstillinganefndar eða gefa kost á sér í stjórn GÍ eða önnur embætti sem kosið er í skv. lögum félagsins.
Vinsamlegast sendið ábendingar á netfangið: gardyrkjufelag@gardurinn.is

====================================================================

Lög Garðyrkjufélags Íslands (GÍ). Samþykkt á aðalfundi félagsins 26. apríl 2016

1.gr. Skilgreining á félaginu
Félagið heitir Garðyrkjufélag Íslands og er félag áhugafólks um garðyrkju. Félagssvæði þess er landið allt og er  starfsemin rekin á kennitölu Garðyrkjufélags Íslands. Heimili og varnarþing félagsins er í Reykjavík.

2. gr. Hlutverk og markmið félagsins.
Hlutverk Garðyrkjufélags Íslands er að:
– efla, varðveita og miðla þekkingu á garðrækt, fegrun umhverfis og ræktunarmenningu um land allt.
Markmið félagsins eru:
– Að vera vettvangur félagsmanna til skoðanaskipta, skapandi samveru og miðlunar þekkingar meðal félagsmanna, ennfremur að bæta aðstöðu þeirra til að stunda áhugamál sitt.
Að miðla til almennings þekkingu og reynslu í ræktun og fegrun umhverfis og stuðla með því að uppbyggingu fjölbreytts og fagurs gróðurríkis í byggðum landsins og nánasta umhverfi þeirra.
– að stuðla að verndun og uppbyggingu skrúðgarða og áhugaverðra gróðurreita. Hvetja til stofnunar nýrra skrúðgarða í sem flestum sveitarfélögum.
– að sameina krafta aðila við garðyrkju og ræktun til fegrunar í þéttbýli og nærumhverfi byggðar, og til aukinnar fræðslu og eflingar rannsókna sem tengjast hlutverki félagsins.
– að leiða saman kynslóðir og vekja áhuga fólks á öllum aldri á ræktun og fegrun umhverfis.
– að félagið sé sýnilegt og leiðandi afl í fræðslu um garðrækt, ræktunarmenningu og umhverfismál í þágu allra landsmanna.
– Stjórn félagsins gerir starfsáætlanir um framkvæmd þessara markmiða fyrir komandi almanaksár og kynnir félagsmönnum á aðalfundi félagsins.

3. gr. Gildi félagsins
Gildi félagsins eru:
– Sköpunargleðisem fæst við mótun fjölbreyttra garðlanda og yndi af því að fylgjast með gróðri dafna.
– Umhyggja fyrir gróðrinum, umhverfinu og félagslegri samveru.
– Þrautseigja við að breiða út þekkingu á ræktun og stuðla að heilbrigðum lífsháttum.
– Forvitni fyrir nýjum tegundum, yrkjum og kvæmi plantna og  þróun aðferða við ræktun þeirra við íslenskar aðstæður.

4. gr. Félagsmenn
4.1 Félagsmenn geta allir orðið sem vilja vinna að markmiðum félagsins, þ.m.t. einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir. 
4.2. Árgjald er ákveðið á aðalfundi og gildir hvert almanaksár. Greiðsla þess er skilyrði aðildar. Hafi félagi ekki greitt félagsgjald þriggja undangenginna starfsára við árlega álagningu, skoðast það sem úrsögn úr félaginu. Garðyrkjuritið er sent til allra skuldlausra félaga.
4.3 Aðalfundur kýs heiðursfélaga að fengnum tillögum stjórnar. Heiðursfélagar halda félagslegum réttindum en eru undanþegnir félagsgjöldum.

5. gr. Deildir
5.1Félagsmenn geta stofnað með sér deildir innan sveitarfélaga eða á ákveðnum landsvæðum.
5.2Félagsmenn hverrar deildar setja starfsreglur hennar og kjósa stjórn á aðalfundi deildarinnar.
5.3  Til að stofna deild í GÍ þarf stjórn GÍ að hafa samþykkt stofnun og starfsreglur hennar. 
5.4  Tíundi hluti félagsgjalda þeirra er tilheyra starfandi deild er lagður inn á sérstakan bókhaldsreikning hjá GÍ sem er merktur viðkomandi deild og er ætlað að styðja við félags- og fræðslustarf hennar.  Við ákvörðun fjárhæðar tíundar skal stjórn GÍ miða við fjölda félaga viðkomandi deildar næstliðin áramót eða nota annað viðmið ef eðlilegra þykir miðað við aðstæður.   
5.5  Deildum er heimilt að standa fyrir eigin fjáröflun, þó svo fremi að hún skarist ekki á við almenna fjáröflun GÍ.  Stjórn GÍ hefur ákvörðunarvald um slík atriði ef skera þarf úr.
5.6  Deild getur ekki skuldbundið GÍ með nokkrum hætti en stjórn GÍ er skylt að fylgjast með störfum deilda og aðstoða þær eftir því sem tilefni gefast til.
5.7  Fyrir lok nóvember skal stjórn hverrar deildar senda stjórn GÍ skýrslu um starfsemi deildarinnar og starfs- og rekstraráætlun fyrir komandi almanaksár.
5.8  Stjórn GÍ getur, að eigin frumkvæði, boðað til aðalfundar einstakra deilda hafi slíkur fundur ekki verið haldinn síðustu tvö ár eða ef upplýsingar um starfsemi hafa ekki borist.
5.9  Stjórn GÍ er heimilt að boða formenn allra deilda til samráðsfunda. 

6. gr Klúbbar
6.1 Innan GÍ geta starfað klúbbar um einstök áhugamál eða svið innan garðyrkjunnar.
6.2 Félagsmenn er áhuga hafa á að starfa í slíkum klúbbum, innan GÍ, skulu leggja fyrir stjórn GÍ upplýsingar um viðfangsefni eða starfssvið klúbbs, ásamt tillögu að skipulagsformi hans og reglum.  Stofnun klúbbs, sem og starfsreglur, skulu ætíð hafa hlotið samþykki stjórnar GÍ.  Allir félagsmenn í GÍ skulu eiga jafnan rétt á því að vera skráðir í viðkomandi klúbb og þátttöku í starfi hans.
6.3 Klúbbar geta ákveðið að leggja á klúbbsfélaga sérstakt félagsgjald vegna starfsemi sinnar sem innheimt er með almennu félagsgjaldi í GÍ.
6.4. Hafi klúbbur ákveðið að leggja sérstakt félagsgjald á meðlimi sína, skal stjórn hans ráðstafa gjaldinu til starfs á hans vegum í samræmi við skilgreind verkefni eða viðfangsefni klúbbsins samkvæmt þeim reglum, sem hann hefur sett sér og stjórn GÍ samþykkt.
6.5. Klúbbi er heimilt að standa fyrir eigin fjáröflun, þó svo fremi að hún skarist ekki á við almenna fjáröflun GÍ. Stjórn GÍ hefur ákvörðunarvald um slík atriði ef skera þarf úr.
6.6. Fyrirlok nóvember skal stjórn hvers klúbbs senda stjórn GÍ skýrslu um starfsemi klúbbsins og starfs– og  rekstraráætlun fyrir komandi almanaksár.
6.7. Klúbbur getur ekki skuldbundið GÍ með nokkrum hætti. Ef klúbbur óskar eftir að standa fyrir eða að GÍ standi fyrir innflutningi á plöntum eða plöntuafurðum, gilda sérákvæði þessara laga þar um, ásamt því sem stjórn GÍ ákveður, m.a. í sérstökum reglum, sem stjórn GÍ er heimilt að setja.  
6.8. Stjórn GÍ getur, að eigin frumkvæði, boðað til aðalfundar einstakra klúbba hafi slíkur fundur ekki verið haldinn síðustu tvö ár eða ef upplýsingar um starfsemi hafa ekki borist.

7. gr. Nefndir
7.1. Fastanefndir GÍ eru frænefnd og ritnefnd Garðyrkjuritsins.
7.2.Frænefnd er skipuð þremur félagsmönnum, sem kosnir eru árlega á aðalfundi GÍ Frænefndin skiptir sjálf með sér verkum.
7.3.Frænefnd ber ábyrgð á tegundavali fræja til dreifingar, hún tekur við frægjöfum og annast úthlutun til  félagsmanna í GÍ. 
7.4.Ritnefnd Garðyrkjuritsins skal skipuð fimm félagsmönnum, sem kosnir eru árlega á aðalfundi GÍ og skal ritstjóri kosinn sérstaklega úr þeim hópi. Að öðru leyti skiptir ritnefnd sjálf með sér verkum.
7.5. Í Garðyrkjuritinu skal birta starfsskýrslu stjórnar GÍ fyrir næstliðið almanaksár ásamt ágripi af starfsskýrslum deilda, klúbba og starfsnefnda GÍ.  Að öðru leyti annast ritnefnd Garðyrkjuritsins um árlega útgáfu þess og ákveður efnisval og uppsetningu, sem og annast önnur verkefni þess vegna, m.a. prentun ritsins.  Ritnefnd skal leitast við að hafa efni ritsins fjölbreytt með það í huga að það höfði til sem flestra félagsmanna í GÍ, jafnframt því að reynt sé að sinna almennri fræðslu um garðyrkju.
7.6.  Starfsmaður GÍ, skipaður af stjórn, starfar með ritnefnd og veitir henni aðstoð eftir föngum.

8. gr. Innflutningur – áhættusjóður.  
8.1. Stjórn GÍ skal setja sérstakar reglur um innflutning plantna og plöntuafurða. Þær skulu m.a. fjalla nánar umverkferla við ákvarðanir um innflutning, pantanir og greiðslur til seljenda, flutningsaðila o.s.frv. sem og hvaða kröfurséu gerðar um öryggi, m.a. á sviði heilbrigðis plantna, áhættu og önnur atriði er stjórn þykir að þurfi að liggja fyrirgagnvart öllum félagsmönnum GÍ. Einnig skal í þeim sérstöku reglum stjórnar ákveðið hvert áhættugjald skuli vera.
8.2.Við innflutning á plöntum eða plöntuafurðum skal lagt sérstakt gjald á hverja einingu, sem nefnist áhættugjald.Áhættugjaldið skal renna í sérstakan áhættusjóð GÍ og er því ætlað að standa undir afföllum og/eða öðru er upp kann að koma og tengist innflutningi á vegum GÍ eða í umboði þess.

9.  gr. Aðalfundur
Aðalfund skal halda ár hvert fyrir  lok apríl. Rekstrarár félagsins er almanaksárið. Fundurinn er lögmætur sé hann tilkynntur á heimasíðu GÍ með minnst eins mánaðar fyrirvara. Fundarboð, dagskrá og tillögur stjórnar um breytingar á lögum skulu berast félögum með tryggum hætti og vera aðgengilegar á heimasíðu GÍ eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund. Leggja má tillögur um ályktanir fyrir aðalfund á fundinum sjálfum. Á fundum félagsins ræður afl atkvæða,nema lagabreytingar þurfa 2/3 hluta greiddra atkvæða.
Dagskrá aðalfundar:
1. Fundarsetning
2. Kosning fundarstjóra og ritara
3. Skýrsla stjórnar og starfsnefnda GÍ
4. Reikningar lagðir fram og skýrði
5. Umræður og atkvæðagreiðsla um skýrslu stjórnar og reikninga
6. Ákvörðun félagsgjalds
7. Lagðar fram tillögur um lagabreytinga
8. Lagðar fram tillögur til ályktunar aðalfundar
9. Umræður og atkvæðagreiðsla um lagabreytingar og ályktunartillögur
10.Kosning stjórnar, skoðunarmanna reikninga og starfsnefnda
11.Önnur mál

Stjórn félagsins er heimilt að boða til aukaaðalfundar telji hún þess þörf. Starfsskýrslu stjórnar skal birta ár hvert í Garðyrkjuritinu ásamt ágripi af starfsskýrslum deilda, klúbba og starfsnefnda GÍ.

10.  gr. Skipun stjórnar og stjórnarkjör 
10.1 Aðalfundur kýs stjórn félagsins sem og skoðunarmenn ársreikninga.
10.2 Stjórn skal skipuð fimm einstaklingum úr röðum félagsmanna, þ.e. formanni, varaformanni og þremur meðstjórnendum. Að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund, þar með talið stöðu ritara.  Stjórnarmenn eru kjörnir til tveggja ára. Annað árið skal kjósa um formann og tvo meðstjórnendur, hitt árið skal kjósa um varaformann og einn meðstjórnanda.   Vilji aðalmaður í stjórn hætta eða hann forfallast til lengri tíma skal kjósa aðalmann í hans stað á næsta aðalfundi fyrir þann tíma sem eftir er af kjörtímabili viðkomandi stjórnarmanns. 
10.3. Þriggja manna varastjórn er kosin til eins árs í senn ásamt tveimur skoðunarmönnum ársreikninga og tveimur til vara.  
10.4 Félagsmenn sem hafa áhuga á að bjóða sig fram í stjórn félagsins skulu senda formanni félagsins upplýsingar um framboð sitt að minnsta kosti 16 dögum fyrir aðalfund. Framboð til stjórnar skulu kynnt í fundarboði aðalfundar. 
10.5 Starfsmaður félagsins gegnir stöðu gjaldkera.

11.  gr. Hlutverk stjórnar
Stjórnin fer með öll mál félagsins milli aðalfunda, eftir þeim reglum og innan þeirra marka sem lög og aðalfundur setja.  Stjórn félagsins ræður starfsmenn þess og setur þeim erindisbréf. Hún gætir eigna félagsins og sjóða sem kunna að vera í vörslu þess. Kaup og sala á fasteignum félagsins er bundin samþykkt aðalfundar.

12.  gr. Slit á félaginu
Komi fram tillaga þess efnis að slíta félaginu þarf að leggja hana fram á aðalfundi og skal þess fundarboði. Til að vísa tillögunni til allsherjaratkvæðagreiðslu meðal félagsmanna þarf samþykki 2/3 hluta fundarmanna á aðalfundi. Jafnframt komi fram tillaga á aðalfundi um hvernig eigum félagsins skuli ráðstafað. Skal tillagan borin upp í allsherjaratkvæðagreiðslu um slit þess. Félaginu verður ekki slitið nema með samþykkt 2/3 hluta greiddra atkvæða í allsherjaratkvæðagreiðslu.

=====================================================================================

Stjórn Garðyrkjufélags íslands, skoðunamenn reikninga og fulltrúa í nefndir fyrir árið 2018-2019

Stjórnarmenn aðalstjórnar
Pétur J. Jónasson
Guðríður Helgadóttir
Karl Óskar Þráinsson
Brynhildur Borgþórsdóttir
Sveinn Þorgrímsson
Varastjórnmenn
Sigríður Héðinsdóttir
Freyja Hilmisdóttir
Konráð Lúðvíksson

Félagslegir skoðunarmenn reikninga, aðalmenn
Magdalena Lára Gestsdóttir
Þyri Emma Þorsteinsdóttir
Varamenn
Sigríður Friðriksdóttir
Hugrún Jóhannesdóttir
Ritnefnd
Guðrún Agnarsdóttir
Björk Þorleifsdóttir
Guðríður Helgadóttir
Hafsteinn Hafliðason 
Vilhjálmur Lúðvíksson

Frænefnd
Barbara Stanzeit
Eiríkur Jónsson
Eva Örnólfsdóttir
Guðrún Þuríður Hallgrímsdóttir
Sigþóra Oddsdóttir

Posted on

Garðyrkjuritið 2019 er komið út

Garðyrkjuritið 2019 er komið út. Útgáfa Garðyrkjuritsins í ár markar tímamót, þar sem ritið er í stærra broti en verið hefur. Ritið hefur þótt fallegt í broti og eigulegt, gert er ráð fyrir að svo verði áfram. Stækkunin er fyrst og fremst hugsuð til að ljósmyndir og annað myndrænt efni njóti sín betur.
Ritið á að hafa borist öllum skuldlausum félagsmönnum um allt land fyrir páska.

Posted on

Frælisti 2019 – Index seminum

Árlega er gefur fræbanki Garðyrkjufélagsins út frælista með hundruðum tegunda og yrkja plantna. Á frælista fræbankans 2019 eru um 800 tegundir og yrki, sem er töluvert meiri fjöldi en á síðasta ári.
Helsta uppistaða fræbankans eru fræ sem bankanum berast árlega frá félagsmönnum Garðyrkjufélagsins og öðrum velunnurum.
Ýmsar tegunir eru til í takmörkuðu magni, því gildir bara gamla góða reglan „fyrstur kemur, fyrstur fær“.
Frælistinn er aðgengilegur HÉR

Munið að skrifa kennitölu, fullt nafn, heimilisfang og póstnúmer með pöntun ykkar

Greiðslu fyrir fræin, 1.800 kr. má millifæra á reikning félagsins.
Mikilvægt að merkja bankafærsluna með “Fræ” í skýringu.
Kt. 570169-6539
Reikn. 0526-26-005765
Pantanir verða afgreiddar til skuldlausra félaga eins fljótt og unnt er.






Posted on

Seed: The untold story – Which future will you grow?

Mánudaginn 4. febrúar kl 19:30 verður verðlaunamyndin “Seed: The untold story – Which future will you grow?”, sem fjallar um verndun þúsunda ára gamalla frætegunda og þeirri hættu sem steðjar að fjölbreytileika tegunda á jarðkringlunni.

Áhrifamikil mynd sem lætur engan ósnortinn.

Skoðið eftirfarandi slóð þar sem finna og sjá myndir og hlusta á viðtal við Vandana Shiva: www.seedthemovie.com

Myndasýningin er sýnd að frumkvæði og í umsjón Matjurtaklúbbs Garðyrkjufélagsins.

Inngangseyrir er krónur 750

Allir velkomnir