Posted on

Garðyrkjuritið 2020 komið út

Garðyrkjuritið 2020 er komið út og hefur verið dreift til félagsmanna í Garðyrkjufélagi Íslands.

Ritið í ár er hið hundraðasta í röðinni en það hefur komið út með fáeinum hléum allt frá stofnun félagsins fyrir 135 árum. Ritið í ár er, eins og áður, stútfullt af forvitnilegu og fræðandi efni sem höfðar til bæði áhugafólks um gróður og garða sem og sérfræðinganna. Ritstjóri er Björk Þorleifsdóttir.

Meðal efnis má nefna grein um mælingu á kolefnisbindingu heimagarða á höfuðborgarsvæðinu sem færir okkur heim sanninn um að ræktun heima við hús skiptir umtalsverðu máli við bindingu kolefnis í jörðu. Sagt er frá áhrifamætti heilandi garða og heilsubót sem garðyrkjan hefur í för með sér og athyglisverða grein er einnig að finna um ilmjurtir í heimagörðum. Fjallað er um moltugerð, yglurnar í garðinum, aldingarða æskunnar og rósir af ýmsum toga og margvíslegum uppruna. Glæsilegar myndir eru af rósum ársins á Íslandi og hinum Norðurlöndunum og hægt er að læra að fjölga rósum með sumarstiklingum í fróðlegri grein Vilhjálms Lúðvíkssonar, formanns Rósaklúbbs GÍ.

Tómas Ponzi skrifar forvitnilega grein um ræktun harðgerra tómatayrkja, Guðríður Helgadóttir skrifar um kristilegar nafngiftir blóma, Hafsteinn Hafliðason er með grein um ræktun Kálfafellsrófunnar og fjölskylduna á Kálfafelli og mætti svo lengi telja.

Garðyrkjuritið er borið heim til félagsmanna GÍ á hverju vori – sem er enn eitt dæmið um kosti þess að vera félagi í Garðyrkjufélagi Íslands.