Posted on

Garðyrkjufélag Íslands heiðrar fjóra félaga á aðalfundi 15. maí 2019

Á AÐALFUNDI Garðyrkjufélags Íslands, sem haldinn var 15. maí 2019, voru fimm félagar sæmdir heiðursmerkjum fyrir mikið og gott starf að ræktunarmálum.

Guðrún Agnarsdóttir
Guðrún Agnarsdóttir læknir og fyrrverandi alþingismaður hefur verið ritstjóri Garðyrkjuritsins frá árinu 2012 og hefur sinnt því starfi af mikilli alúð og natni. Garðyrkjuritið er, eins og félagsmenn vita, ómissandi á vorin, það færir okkur fjölbreyttan fróðleik og skemmtun um garðyrkjutengd málefni og félagið hefur alla tíð haft metnað til að þar sé vandað mjög til verka. Guðrún hefur svo sannarlega staðið vaktina með mikilli prýði og Garðyrkjuritið fyllilega staðið undir væntingum undir hennar stjórn.  Nú síðast tók hún ásamt ritstjórn þá djörfu ákvörðun að breyta aðeins broti ritsins til að myndir fái betur notið sín og af viðbrögðum félagsmanna að dæma hefur sú ákvörðun verið til góðs.  Guðrún hefur nú ákveðið að gefa ekki kost á sér áfram sem ritstjóri en stjórn GÍ þakkar henni kærlega fyrir vel unnin störf og óskar henni velfarnaðar í framtíðinni. 

Þuríður Backman
Þuríður Backman fyrrverandi alþingismaður var formaður GÍ frá árinu 2013 til ársins 2017.  Í hennar stjórnartíð urðu þær breytingar á aðstöðu félagsins að það flutti úr húsnæði sínu að Frakkastíg í Síðumúla 1.  Þuríður lagði á sig mikið og óeigingjarnt starf í þágu félagsins á þessum árum og stendur félagið í mikilli þakkarskuld við hana.  Þuríður lagði mikla áherslu á að efla félagsanda meðal félagsmanna og þeirra sem störfuðu að verkefnum fyrir félagið og tókst vel til með það.  Sem dæmi má nefna vel heppnaða jólaskemmtun sem hefur verið fastur liður í starfseminni í Síðumúla.  Þuríður nýtti einnig góðar tengingar sínar við atvinnulífið félaginu til framdráttar og kann félagið henni bestu þakkir fyrir. 

Sigþóra Oddsdóttir
Sigþóra Oddsdóttir garðyrkjufræðingur hefur lengi verið virkur félagi í Garðyrkjufélagi Ísland og síðustu árin hefur hún unnið mikið og óeigingjarnt starf í frænefnd félagsins. Vinna frænefndar er töluverð, einkum og sér í lagi frá hausti og fram yfir áramót og hefur Sigþóra unnið ötullega að því, ásamt öðrum meðlimum frænefndar að koma innsendum frætegundum til þeirra aðila sem óska eftir fræi frá félaginu.  Félagið þakkar Sigþóru fyrir hennar störf og hlakkar til áframhaldandi samstarf við hana.

Vilhjálmur Lúðvíksson
Vilhjálmur Lúðvíksson efnaverkfræðingur er félagsmönnum að góðu kunnur eftir áralöng störf sín í trúnaðarstörfum fyrir félagið.  Vilhjálmur var formaður félagsins frá árinu 2007 til 2013, hann var ritstjóri Garðyrkjuritsins um hríð og hefur undanfarin ár verið formaður rósaklúbbsins.  Vilhjálmur hefur skrifað fjölda greina um garðyrkju og tengd málefni, skipulagt heimsóknir erlendra gesta á vegum GÍ til landsins og skipulag garðyrkju- og ræktunartengdar heimsóknir Íslendinga til fjölmargra landa.  Hann er sannkallaður eldhugi og hefur verið óþreytandi í að vinna að því að hagur Garðyrkjufélagsins vaxi og dafni sem best.  Félagið þakkar Vilhjálmi heilshugar fyrir framlag hans til garðyrkju og vonast til að fá að njóta krafta hans enn um hríð.    

 

 

 

Talið vinstri Guðríður Helgadóttir varaformaður GÍ, þá koma heiðurfélagrnir fjórir Vilhjálmur, Guðrún, Þuríður og Sigþóra. Lengst til hægri er Pétur J. Jónasson fráfarandi formaður GÍ