Posted on

Aldingarður æskunnar í Fjallabyggð

Aldingarður Æskunnar í Fjallabyggð var nýlega hleypt af stokkunum með gróðursetningu aldintrjáa við Trjálund norðan við bílaplanið Menntaskólans á Tröllaskaga.

Ómar Valdimarsson formaður Garðyrkjufélags Íslands, Kristinn H. Þorsteinsson, fræðslu- og verkefnisstjóri og Anna María Guðlaugsdóttir formaður Garyrkjufélags Tröllaskaga Norðurs voru viðstödd ásamt Gunnari Birgissyni bæjarstjóra Fjallabyggðar og aðstoðuðu starfsfólk leikskólans, nemendum, foreldrum og velunnurum verkefnisins við að gróðursetja ávaxtatré og áhugaverð berjayrki.

Hugmyndin með verkefninu felst í því að koma upp sérstökum trjáreitum með ávaxtatrjám og berjarunnum í náinni samvinnu við leikskólanemendur, foreldra, sveitarfélög og aðra velunnara. Eitt af hlutverkum Garðyrkjufélagsins er að leiða saman ólíkar kynslóðir og skapa skilyrði fyrir vaxandi ræktunarmenningu ungs fólks. Aldingarður Æskunnar er kjörinn vettvangur til þess.
Áhugi almennings á hvers kyns ræktun hefur aukist. Hvað ræktunarskilyrði varðar hafa frumkvöðlar í ræktun, með bjartsýni og þolinmæði, sýnt að trén geta borið ávexti utanhúss hér á landi. Sæmundur Guðmundsson og Eyrún Óskarsdóttir á Hellu eru þau fyrstu sem hófu markvissa ræktun ávaxtatrjáa. Þau fluttu sín fyrstu tré inn árið 1994 og voru það eplatré og yrkin Transparent Blanche, Haugmann og Sävstaholm og fengu þessi yrki sinn sess í Fjallabyggð. 

Árangur af ávaxtarækt getur tekið nokkur ár, en ef rétt er að staðið geta trén borið ávexti hér á landi utandyra. Með þeirri þekkingu sem Garðyrkjufélagið býr að verður spennandi að fylgjast með Aldingarði Æskunnar dafna en Jón Guðmundsson á Akranesi hefur verið félaginu mikilvægur ráðgjafi í verkefninu Aldingarður Æskunnar.