Posted on

Rauðeikar akörn uppseld!

Viðtökur félagsmanna voru vægast sagt frábærar og seldust öll Rauðeikar akörnin upp á rétt rúmri klukkustund. Að þessu sinni voru aðeins tæp 60 akörn fáanleg og því ljóst að aðeins lítill hluti áhugasamra félaga hafði heppnina með sér að þessu sinni. Skrifstofunni hefur borist fjölmargir póstar frá félögum sem ekki tókst að hneppa hnossið að þessu sinni, en við því er ekkert hægt að gera.

Vefverslun G.Í. verður lokuð þar til frælisti 2022 verður birtur í byrjun febrúar.

Quercus rubra-Rauðeik
Posted on

Laukarnir eru komnir

Þá eru laukapantanir búnar að skila sér í hús og ekkert því til fyrirstöðu að hefja afhendingu. Viðtökur voru frábærar og framar öllum vonum, við þökkum öllum þeim sem pöntuðu fyrir sýnda biðlund.

Nú er ekki eftir neinu að bíða, hægt er að nálgast pantanir á skrifstofu G.Í.

Afhentingartími er:
miðvikudagurinn 13.10 frá 15:30 – 19:30
Fimmtudagur       14.10 frá 14:00 – 18:30
Föstudagur            15.10 frá 09:00 – 13:00

Annars er skrifstofan opin á mánudögum og miðvikudögum frá 10:00 – 14:00

Posted on

Ræktaðu þinn eigin hvítlauk

Hvítlaukur frá í fyrrahaust tilbúinn til uppskeru þessa dagana

Eins og undanfarin ár gengst matjurtaklúbbur Garðyrkjufélagsins fyrir innflutningi á lauk á þessu hausti – hvítlauk og schalottlauk.

Frá og með deginum í dag geta félagsmenn í Garðyrkjufélaginu gert sínar pantanir á lauk í vefverslun félagsins (https://gardurinn.is/vefverslun/).

Eins og í fyrra er um að ræða þrjár gerðir hvítlauks – allar upprunnar í Frakklandi en keyptar hingað frá ræktanda í Svíþjóð. Þessar tegundir hafa reynst vel hér og uppskera verið góð. Um er að ræða afbrigðin Thermidore, Vigor og Germidour. Shallott laukurinn er af afbrigðinu Longor.

Gera þarf pöntun í síðasta lagi á miðvikudaginn 15. september. Þegar vitað er hversu mikið magn hefur verið pantað verður framleiðandanum í Svíþjóð gert viðvart og má reikna með að laukurinn verði tilbúinn til afgreiðslu hjá Garðyrkjufélaginu í Síðumúla 1, Reykjavík, í byrjun október og þá er þegar best að planta lauknum út í beð. Við afhendingu verður að sjálfsögðu gætt ítrustu sóttvarnaráðstafana.

Hver laukur (með allt að 20 rif) kostar 700 krónur en schalottlaukurinn 130 krónur. Þetta er hagstæðara verð en stendur til boða annars staðar.

Nánar um laukana

GERMIDOUR: Snemmsprottinn og öflugur laukur, fjólublár, 8-20 rif. Auðvelt að flétta blöðin saman til að þurrka. Svíar taka upp sinn lauk upp úr miðjum júlí – sennilega betra að bíða hérlendis um einn mánuð til.

THERMIDROME: Snemmsprottinn, stór laukur, 14-21 rif. Öflugt afbrigði. Auðvelt að flétta til þurrkunar og geymslu. Uppskera upp úr miðjum ágúst.

VIGOR: snemmsprottinn og stór laukur, svolítið fjólublár, 14-21 rif. Auðvelt að flétta til þurrkunar og geymslu. Uppskera um eða uppúr miðjum ágúst.

LONGOR schallott laukur: Settur niður að hausti, má taka upp í byrjun ágúst árið á eftir. Vex í stjörnu – hver laukur getur allt að sexfaldast. Geymist lengi.

Posted on

Frælisti 2021 (index seminum)

Árlega er gefur Garðyrkjufélag Íslands út frælista með hundruðum tegunda og yrkja plantna. Á lista Fræbankans 2021 eru yfir 700 tegundir og yrki.

Helsta uppistaða fræbankans eru fræ sem félaginu berast árlega frá félagsmönnum og öðrum velunnurum GÍ. Garðyrkjufélagið ábyrgist ekki um spírun fræja né heldur að öll séu nákvæmlega af þeirri tegund sem tilgreind er. Þar verður reynsla hvers og eins að skera úr um nákvæmni greiningar.

Hér að neðan gefur að líta frælista félagsins (Index seminum) fyrir árið 2021. Ýmsar tegundir eru til í takmörkuðu magni og því gildir hér gamla góða reglan um að „fyrstur kemur, fyrstur fær.“ 

 Athugið að listinn er í stöðugri þróun sem hægt er að fylgjast með á þessari síðu eða í vefversluninni.

[product_table category=”frae” columns=”sku,image,name,short-description,price,buy” ]

Posted on

Fræbankinn í frí til 1. febrúar

Fræbanki Garðyrkjufélagsins sendir viðskiptavinum sínum og félagsmönnum öllum bestu nýárskveðjur og þakkar fyrir viðskiptin á liðna árinu.

Nýr frælisti – fyrir árið 2021 – verður gefinn út 1. febrúar næstkomandi. Þar mun vitanlega gæta margra grasa (og fræja), bæði eldri tegunda og nýrra afbrigða sem ekki hafa sést áður á listanum.

Eins og stuðningsmenn Fræbankans vita hafa verið gerðar umtalsverðar breytingar á framsetningu listans. Þær endurbætur standa enn yfir og því hefur verið ákveðið að loka Fræbankanum í fjórar vikur, frá 1. – 31. janúar 2021. Með því móti gefst Frænefnd GÍ tækifæri til að gera rækilega talningu á fræjum sem til eru og taka til i fræsafninu, auk þess að gera nýja listann sem best úr garði án þess að þurfa jafnframt að afgreiða snemmærar pantanir.

Sem sagt: Frælistinn 2021 verður birtur 1. febrúar næstkomandi og um leið verður Fræbankinn opnaður á ný hér á vef Garðyrkjufélagsins.

Posted on

Laukurinn kominn

Kæri félagi í Garðyrkjufélagi Íslands,

Hér eru góðar fréttir: hvítlaukurinn og schalott-laukurinn sem þú hefur pantað hjá Garðyrkjufélaginu er kominn til landsins og verður tilbúinn til afhendingar frá og með kl. 14 á morgun, föstudag. 

Laukurinn lítur fallega út og lofar góðu.

Opið verður hjá Garðyrkjufélaginu í Síðumúla 1 kl. 14-20 á föstudag og kl. 11-14 á laugardaginn.

Vinsamlegast reynið að koma á þessum tíma – og verið með grímu!

Bestu kveðjur,

Garðyrkjufélag Íslands

Posted on

Ræktaðu þinn eigin lauk

Eins og undanfarin ár gengst matjurtaklúbbur Garðyrkjufélagsins fyrir innflutningi á lauk á þessu hausti – hvítlauk og schalottlauk.

Frá og með deginum í dag geta félagsmenn í Garðyrkjufélaginu gert sínar pantanir á lauk í vefverslun félagsins (https://gardurinn.is/product-category/matlaukar/).

Eins og í fyrra er um að ræða þrjár gerðir hvítlauks – allar upprunnar í Frakklandi en keyptar hingað frá ræktanda í Svíþjóð. Þessar tegundir hafa reynst vel hér og uppskera verið góð. Um er að ræða afbrigðin Thermidore, Sabagold og Germidour. Shallott laukurinn er af afbrigðinu Longor.

Gera þarf pöntun í síðasta lagi á miðvikudaginn í næstu viku, 26. ágúst. Þegar vitað er hversu mikið magn hefur verið pantað verður framleiðandanum í Svíþjóð gert viðvar og má reikna með að laukurinn verði tilbúinn til afgreiðslu hjá Garðyrkjufélaginu í Síðumúla 1, Reykjavík, í fyrstu viku september – einmitt þegar best er að planta lauknum út í beð. Við afhendingu verður að sjálfsögðu gætt ítrustu sóttvarnaráðstafana.

Hver laukur (með allt að 20 rif) kostar 650 krónur en schalottlaukurinn 120 krónur. Þetta er hagstæðara verð en stendur til boða annars staðar.

Posted on

Frænefnd GÍ kallar eftir framlögum í Fræbankann

Fræbanki Garðyrkjufélagsins gefur út frælista á hverju ári og hefu hann notið mikilla vinsælda meðal félagsmanna undanfarin ár og áratugi. Í góðu árferði má finna á frælistanum fræ af mörg hundruð tegundum og yrkjum.

Uppistaðan í Fræbankanum eru fræ sem berast frá félagsmönnum GÍ og öðrum velunnurum. Allar frægjafir til félagsins mjög vel þegnar enda þarf félagið töluvert af fræjum til að anna eftirspurn.

Allir geta orðið fræsafnarar og frægjafar en hafa þarf í huga að fræsafnarar þurfa vita deili á þeirri tegund sem safnað er.

– Nauðsynlegt er að fræin séu hreinsuð og þurr og hverri tegund sé haldið út af fyrir sig.

– Gæta skal þess hver tegund fyrir sig sé vel merkt og að nafn gefanda og símanúmer komi ætíð fram.

Fræjunum má síðan skila á skrifstofu Garðyrkjufélagsins í Síðumúla 1, 108 Reykjavík, í t.d. bréfpoka eða umslagi. Á austurhlið hússins er bréfalúga sem setja má fræin inn um ef skrifstofan er lokuð. Einnig er hægt að póstleggja fræin.

Frænefndin vinnur úr fræsendingum, flokkar og pakkar og með hækkandi sól ár hvert er gefin út frælisti þar sem félagsmenn pantað sér fræ af hinum ýmsum tegundum.

Frænefndin hvetur félagsmenn GÍ og aðra velunnara að safna fræjum og leggja afraksturinn inn í Fræbankann.

Frælisti GÍ 2020 er aðgengilegur á heimasíðu félagsins – https://gardurinn.is/fraelistinn/