Posted on

Fræbankinn í frí til 1. febrúar

Fræbanki Garðyrkjufélagsins sendir viðskiptavinum sínum og félagsmönnum öllum bestu nýárskveðjur og þakkar fyrir viðskiptin á liðna árinu.

Nýr frælisti – fyrir árið 2021 – verður gefinn út 1. febrúar næstkomandi. Þar mun vitanlega gæta margra grasa (og fræja), bæði eldri tegunda og nýrra afbrigða sem ekki hafa sést áður á listanum.

Eins og stuðningsmenn Fræbankans vita hafa verið gerðar umtalsverðar breytingar á framsetningu listans. Þær endurbætur standa enn yfir og því hefur verið ákveðið að loka Fræbankanum í fjórar vikur, frá 1. – 31. janúar 2021. Með því móti gefst Frænefnd GÍ tækifæri til að gera rækilega talningu á fræjum sem til eru og taka til i fræsafninu, auk þess að gera nýja listann sem best úr garði án þess að þurfa jafnframt að afgreiða snemmærar pantanir.

Sem sagt: Frælistinn 2021 verður birtur 1. febrúar næstkomandi og um leið verður Fræbankinn opnaður á ný hér á vef Garðyrkjufélagsins.

Posted on

Laukurinn kominn

Kæri félagi í Garðyrkjufélagi Íslands,

Hér eru góðar fréttir: hvítlaukurinn og schalott-laukurinn sem þú hefur pantað hjá Garðyrkjufélaginu er kominn til landsins og verður tilbúinn til afhendingar frá og með kl. 14 á morgun, föstudag. 

Laukurinn lítur fallega út og lofar góðu.

Opið verður hjá Garðyrkjufélaginu í Síðumúla 1 kl. 14-20 á föstudag og kl. 11-14 á laugardaginn.

Vinsamlegast reynið að koma á þessum tíma – og verið með grímu!

Bestu kveðjur,

Garðyrkjufélag Íslands

Posted on

Ræktaðu þinn eigin lauk

Eins og undanfarin ár gengst matjurtaklúbbur Garðyrkjufélagsins fyrir innflutningi á lauk á þessu hausti – hvítlauk og schalottlauk.

Frá og með deginum í dag geta félagsmenn í Garðyrkjufélaginu gert sínar pantanir á lauk í vefverslun félagsins (https://gardurinn.is/product-category/matlaukar/).

Eins og í fyrra er um að ræða þrjár gerðir hvítlauks – allar upprunnar í Frakklandi en keyptar hingað frá ræktanda í Svíþjóð. Þessar tegundir hafa reynst vel hér og uppskera verið góð. Um er að ræða afbrigðin Thermidore, Sabagold og Germidour. Shallott laukurinn er af afbrigðinu Longor.

Gera þarf pöntun í síðasta lagi á miðvikudaginn í næstu viku, 26. ágúst. Þegar vitað er hversu mikið magn hefur verið pantað verður framleiðandanum í Svíþjóð gert viðvar og má reikna með að laukurinn verði tilbúinn til afgreiðslu hjá Garðyrkjufélaginu í Síðumúla 1, Reykjavík, í fyrstu viku september – einmitt þegar best er að planta lauknum út í beð. Við afhendingu verður að sjálfsögðu gætt ítrustu sóttvarnaráðstafana.

Hver laukur (með allt að 20 rif) kostar 650 krónur en schalottlaukurinn 120 krónur. Þetta er hagstæðara verð en stendur til boða annars staðar.

Posted on

Frænefnd GÍ kallar eftir framlögum í Fræbankann

Fræbanki Garðyrkjufélagsins gefur út frælista á hverju ári og hefu hann notið mikilla vinsælda meðal félagsmanna undanfarin ár og áratugi. Í góðu árferði má finna á frælistanum fræ af mörg hundruð tegundum og yrkjum.

Uppistaðan í Fræbankanum eru fræ sem berast frá félagsmönnum GÍ og öðrum velunnurum. Allar frægjafir til félagsins mjög vel þegnar enda þarf félagið töluvert af fræjum til að anna eftirspurn.

Allir geta orðið fræsafnarar og frægjafar en hafa þarf í huga að fræsafnarar þurfa vita deili á þeirri tegund sem safnað er.

– Nauðsynlegt er að fræin séu hreinsuð og þurr og hverri tegund sé haldið út af fyrir sig.

– Gæta skal þess hver tegund fyrir sig sé vel merkt og að nafn gefanda og símanúmer komi ætíð fram.

Fræjunum má síðan skila á skrifstofu Garðyrkjufélagsins í Síðumúla 1, 108 Reykjavík, í t.d. bréfpoka eða umslagi. Á austurhlið hússins er bréfalúga sem setja má fræin inn um ef skrifstofan er lokuð. Einnig er hægt að póstleggja fræin.

Frænefndin vinnur úr fræsendingum, flokkar og pakkar og með hækkandi sól ár hvert er gefin út frælisti þar sem félagsmenn pantað sér fræ af hinum ýmsum tegundum.

Frænefndin hvetur félagsmenn GÍ og aðra velunnara að safna fræjum og leggja afraksturinn inn í Fræbankann.

Frælisti GÍ 2020 er aðgengilegur á heimasíðu félagsins – https://gardurinn.is/fraelistinn/

Posted on

SUMARFERÐINNI AFLÝST

Garðyrkjufélagið aflýsir hér með sumarferðinni 2020 sem átti að fara um næstu helgi. Ástæðan er einföld: veirufaraldurinn.

Ekki er útlit fyrir að hægt verði að blása til ferðarinnar síðar á þessu sumri, því miður. Við vonumst auðvitað til að geta farið á næsta sumri…

Þeir sem þegar hafa greitt fyrir ferðina geta haft samband við skrifstofu félagsins og fengið endurgreitt.

Með kveðju

Ómar Valdimarsson formaður

Posted on

Starfsemi GÍ

Garðyrkjufélagið býður upp á garðlönd og fræðslu á höfuðborgarsvæðinu undir nafninu Grenndargarðar. 

Gildi félagsins eru sköpunargleði, umhyggja, þrautseigja og forvitni. Áherslur í starfi félagsins eru í stöðugri endurskoðun og taka breytingum í takt við nýja tíma.

 

Helstu þættir í starfi félagsins eru:

 

Heimasíða

Öflug og virk heimasíða félagsins miðlar fréttum og fróðleik um ræktun gróðurs og efni því tengdu. (http://gardurinn.is)  Félagið er einnig virkur þátttakandi á Facebook.

 

Útgáfumál

 • Garðyrkjuritið,árbók félagsins er innfalið í félagsgjaldinu og kemur út ár hvert, að mestu óslitið frá árinu 1895. Í því er mikill fróðleikur og áhugaverðar greinar um allt er viðkemur gróðri og görðum og öðrum umhverfismálum því tengdu.
 • Garðurinn, frétta og fræðslublað félagsins kom út um langt árabil en ný tækni hefur opnað nýja leið til að koma fréttum og tilkynningum til landsmanna.
 • Í gegnum tíðina hefur GÍ staðið að útgáfu bóka um valið efni svo sem Hvannir, Rósir, Matjurtabókina, Skrúðgarðabókina, Sveppakverið og Garðinn – hugmyndir að skipulagi og efnisvali

Bókasala

Garðyrkjufélagið hefur á boðstólum um 200 titla af bókum sem tengjast garðyrkju og öðrum umhverfismálum.

 

Fræðslufundir, námskeið,  garðaskoðun og fleira

Fræðslufundir eru snar þáttur í starfsemi Garðyrkjufélagsins. 

 • Garðyrkjufélagið býður uppá öflug námskeið ætluð bæði félagsmönnum og áhugafólki utan félags.
 • Félagið hefur í áratugi haft umsjón eða komið að garðyrkjuþáttum á öldum ljósvakans, sjónvarpi og dagblöðum. 
 • Félagið tekur þátt í garðyrkjusýningum hér á landi og heimsækir sýningar erlendis.
 • Garðaskoðun  og Garðagöngur er árlegur viðburður hjá Garðyrkjufélaginu.
 • Árlegur plöntuskiptidagur er haldin víða um land. Þetta er dagur félagsmanna til skiptast á plöntum og miðla upplýsingum.  

 

Samstarf og verkefni.

 • Garðyrkjufélagið býður upp á garðlönd og fræðslu á höfuðborgarsvæðinu undir nafninu Grenndargarðar. 
 • Verkefninu Aldingarður æskunnar var formlega hleypt af stokkunum í Steinahlíð við Suðurlandsbraut 2014. Markmið verkefnisins er vekja upp áhuga og löngun yngstu kynslóðarinnar til að rækta og nota nytjaplöntur. Stefnt er að þátttöku sem flestra  sveitarfélaga. Aldingarður Æskunnar var opnaður á Sólheimum 2015 og í Reykjanebæ og á Ólafsfirði 2019.
 • Fulltrúi Garðyrkjufélags Íslands á sæti í stjórn framkvæmdarsjóðs Skrúðs í Dýrafirði. Skrúður, grasa- og trjágarðurinn við Núp í Dýrafirði sem stofnaður sem lifandi kennslustofa af séra Sigtryggi Guðlaugssyni skólastjóra Unglingaskólans að Núpi 1909
 • Garðyrkjufélag Íslands á frumkvæði að stofnun Urtagarðsins í Nesi á Seltjarnanesi og situr fulltrúi félagsins í stjórn hans. Urtagarðurinn er lifandi safn urta sem gegnt hafa hlutverki í lækningum og lyfjagerð og sem nytjajurtir til matar, næringar og heilsubóta að fornu og nýju.
 • Garðyrkjufélagið er í samstarfi við Kópavogsbæ um lifandi plöntusafn í Meltungu í Kópavogi. Hlutverk safnsins er að miðla upplýsingum um tegundir og yrki plantna.
 • Félagið er í samstarfi við Kópavogsbæ og Skógræktarfélags Kópavogs um umhirðu og rekstur Hermannsgarðs sem stofnaður var í minningu Hermanns Lundholm garðyrkjuráðunauts og heiðursfélaga GÍ.
 • Rósagarður Rósaklúbbs Garðyrkjufélags Íslands er í samstarfi við Reykjavíkurborg og Yndisgróðurs um rekstur Rósagarðs í Laugardal í Reykjavík. Garðurinn var stofnaður til heiðurs Jóhanns Pálssonar, grasafræðings og fyrrverandi garðyrkjustjóra Reykjavíkurborgar. Í rósagarðinum vaxa hundruð tegunda og yrkja sem merktar eru fólki til fróðleiks.
 • Samstafsverkefni er um rekstur Rósagarðs í Höfðaskógi í Hafnafirði milli Rósaklúbbs Garðyrkjufélags Íslands, Hafnarfjarðarbæjar og Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Nokkur hundruð merktar tegundir og yrki rósa vaxa þar villtar í skóglendi.
 • Ávaxtaklúbbur Garðyrkjufélagsins er í samvinnu við Kópavogsbæ og Landbúnaðarháskóla Íslands í tilraunaverkefni við ræktun ávaxtatrjáa í Meltungu í Kópavogi.
 • Aldintrjáa safn opnað á Sólheimum 2015 Samstarfsverkefni GÍ og Sólheima.
 • Samstarfssamningur er á milli Garðyrkjufélagsins og Dalabyggðar um eflingu ræktunarmenningar og útbreiðslu þekkingar í gegnum skólastarf svo og stuðning við ræktun í einkagörðum og í almenningsrými á vegum sveitarfélagsins.
 • Garðyrkjufélagið er aðili að birki kynbóta- og fræverkefninu Emblu í samstafi við Skógræktarfélag Íslands og Skógrækt ríkisins. Með kynbótastarfinu er markmiðið að skapa úrvalsyrki sem henta við ýmsar aðstæður bæði í þéttbýli og í skógrækt.
 • Garðyrkjufélag Íslands er í góðu samstarfi við önnur áhugamannafélög og stofnanir um einstök verkefni svo sem ráðstefnuhald og öflun erlendra fyrirlesara.
 • GÍ vinnur að ýmsum verkefnum á sviði umhverfismála með sveitarfélögum, Sambandi umhverfis- og garðyrkjustjóra, Landgræðsla ríkisins og Grasagarði Reykjavíkur.
 • Með sérstökum stuðningi Umhverfis- og auðlindaráðuneytið vinnur GÍ að þróun garðyrkjumenningar víða um land.
 • Umhverfisráðuneyti

 

Fræbanki

Árlega er gefinn út frælisti / pöntunarlisti með allt að 1.000 tegundum og yrkjum.  Fjölmargir félagar Garðyrkjufélagsins safna fræjum í eigin garði, hreinsa og senda félaginu sem annast dreifingu á fræjunum til félagsmanna.

 

Klúbbar

Innan GÍ eru starfræktir klúbbar þar sem félagsmönnum gefst tækifæri að sinna að sérstökum áhugamálum á sviði garðyrkju.

 • Rósaklúbbur hefur það að markmiði að efla  þekkingu á rósum og ræktun þeirra. Klúbburinn tekur virkan þátt í norrænu og öðru alþjóðlegu starfi með systurklúbbum.
 • Ávaxtaklúbbur. Markmið klúbbsins er að efla ræktun og þekkingu á ávaxtatrjám og berjarunnum. Klúbburinn leggur áherslu á prófun og ræktun nýrra berja- og ávaxtategunda við íslenskar aðstæður.  
 • Matjurtaklúbbur.Markmið hans er að stuðla að aukinni þekkingu í ræktun og notkun fjölbreyttra krydd- og matjurta
 • Sumarhúsaklúbburhefur það að markmiði að efla þekkingu og auka fjölbreytta ræktun, umhirðu og fegrun sumarhúsalanda.
 • Klúbbur lyngrósa- og sígrænna plantna. Markmið klúbbsins er að efla ræktun og auka þekkingu á sígrænum plöntum  trjám og   runnum og fjölæringum. 
 • Blómaskreytingaklúbbur hefur það að markmiði að auka þekkingu og áhuga á blómaskreytingum.

 

Rósaklúbburinn og Ávaxtaklúbburinn  hafa annast  innflutning til félagsmanna á sérvöldum runna- og trjátegundum.  Félagsmenn eru því oft frumkvöðlar í ræktun nýrra tegunda.

 

Deildir

Félagið starfar í svæðisbundnum deildum. Deildinar annast og hafa frumkvæði að verkefnum GÍ í heimabyggð.

 • Akranesdeild
 • Árnesingadeild
 • Borgarfjarðardeild
 • Dalabyggðadeild
 • Eyjafjarðardeild
 • Fljótsdalshéraðsdeild
 • Hornafjarðardeild
 • Húnaþingsdeild
 • Skagafjarðardeild
 • Snæfellsnesdeild
 • Suðurnesjadeild
 • Tröllaskagadeild norður
 • Vestfjarðardeild norður
 • Vestmannaeyjadeild
 • Þingeyingadeild

 

Stjórn Garðyrkjufélagsins:

 • Ómar Valdimarsson, formaður
 • Guðríður Helgadóttir, varaformaður
 • Sveinn Þorgrímsson, meðstjórnandi
 • Eggert Aðalsteinsson, ritari
 • Brynhildur Bergþórsdóttir, gjaldkeri

 

Varastjórn:

 • Bryndís Björk Reynisdóttir
 • Konráð Lúðvíksson
 • Kristján Friðbertsson

  

Ritnefnd Garðyrkjuritsins:

 • Björk Þorleifsdóttir, ritstjóri
 • Guðríður Helgadóttir
 • Ómar Valdimarsson
 • Hafsteinn Hafliðason 
 • Vilhjálmur Lúðvíksson
 • Erna Rós Aðalsteinsdóttir

Frænefnd

 • Guðrún Þuríður Hallgrímsdóttir, formaður
 • Eiríkur Jónsson
 • Ragnar Jónasson
 • Ásdís Kristmundsdóttir
 • Guðbjörg Hrafnsdóttir (skipuð af stjórn GÍ)

Skoðunarmenn reikninga

 • Magdalena Lára Gestsdóttir
 • Hilmar Ingólfsson

Varaskoðunarmenn reikninga

 • Ragnar Jónasson
 • Freyja Hilmisdóttir

Vefumsjón:

 • Kristján Friðbertsson
 • Þorvar Hafsteinsson


Starfsemi félagsins byggir fyrst og fremst á sjálfboðaliðastarfi.

Félagar í Garðyrkjufélaginu eru um 2200

 

Skrifstofa

Skrifstofa félagsins er að Síðumúla 1  í Reykjavík og er opin þriðjudaga og fimmtudaga frá kl: 10:00 – 14:00.

Ingibjörg Ásta Gunnarsdóttir

Kristinn H. Þorsteinsson er starfandi fræðslu- og verkefnastjóri félagsins.

 

Posted on

Sumarhúsaklúbburinn

FJÁRHUSTUNGA 8 @GLÁMA-KÍM (https://www.glamakim.is/)

Lög sumarhúsaklúbbsins: 

1. gr.   

Nafn klúbbsins er Bjarkir – Sumarhúsaklúbbur Garðyrkjufélags Íslands. Heimilisfang hans er að Frakkastíg 9, 101 Reykjavík.

Klúbburinn er hluti af starfsemi GÍ.

2. gr.   

Markmið klúbbsins er að stuðla að fjölbreytilegri ræktun gróðurs í sumarhúsalöndum.

Til að ná því markmiði ætla klúbbfélagar að:

–     Safna saman þekkingu og reynslu víðsvegar af landinu.

–     Miðla þekkingu með fundum, fyrirlestrum og skrifum m.a. í Garðyrkjuritinu og á vefsíðu GÍ.

–     Standa fyrir skoðunarferðum.

3. gr.  

Innganga í klúbbinn er eingöngu heimil félögum í Garðyrkjufélagi Íslands sem heldur skrá um klúbbfélaga. Hjón og sambýlisfólk hafa  sameiginlega aðild að klúbbnum.

4. gr.   

Aðalfund Bjarka skal halda í febrúar ár hvert. Boða skal fundinn skriflega með minnst 14 daga fyrirvara.

5. gr.   

Stjórnina skipa formaður, varaformaður og einn meðstjórnandi. Skulu þeir kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn samkvæmt uppástungu frá  a.m.k. tveim fundarmönnum.

Formaður er kosinn í fyrsta sinn til tveggja ára en varaformaður og meðstjórnandi sitja aðeins eitt ár fyrsta árið og síðan eru þeir kosnir til tveggja ára eftir það. Hætti formaður störfum á kjörtímabilinu tekur varaformaður við en kjósa skal formann á næsta aðalfundi. Hætti aðrir stjórnarmenn jafnframt störfum tekur formaður Garðyrkjufélagsins við stjórn klúbbsins og skal hann boða til aðalfundar eigi síðar en mánuði frá því stjórn hætti störfum.

6. gr.  

Klúbbfélagar skulu greiða félagsgjald G.Í. og auk þess sérstakt árgjald til klúbbsins sem nemur u.þ.b. 15% af félagsgjaldi GÍ. Skrifstofa G.Í. sér um fjármál klúbbsins.

7. gr.

Lagabreytingar öðlast þá fyrst gildi þegar stjórn Garðyrkjufélags Íslands hefur samþykkt þær.

Samþykkt á aðalfundi 15. mars 2005.