Það eru tveir gallar við það að eiga risastóran garð. Fyrri gallinn er sá að maður er alltaf að reita arfa, sem er svo sem allt í lagi ef sólin skín og maður getur verið léttklæddur við þá iðju og unnið að brúnkusöfnun í leiðinni en því miður er nú sumarið oft á tíðum vætusamt og nauðsynlegt að brynjast pollagöllum og stígvélum gegn veðrinu. Einhvern veginn er það líka þannig að þegar rignir sprettur arfinn mikið betur en ella. Seinni gallinn er sá að plöntur eru alls ekki gefins, það mætti ætla að þeir sem framleiða plöntur vilji hreinlega fá eitthvað fyrir sinn snúð.. Það þarf líka nokkuð margar plöntur í stóran garð ef vel á að vera, helst þurfa þær líka að vera af aðskiljanlegustu tegundum því það er svo leiðinlegt að horfa upp á einhæfan garð, maður vill fá blóm og fínerí allt sumarið og engar refjar. Hér á eftir fylgir uppskrift að sparnaði í plöntukaupum og er ég viss um að hagsýnar húsmæður landsins eiga eftir að spreyta sig á uppskriftinni, það er að segja ef þær eru ekki uppteknar í nýjum lágvöruverðsmatvöruverslunum.
Sumargræðlingar eru græðlingar sem eru teknir af plöntum í fullum vexti. Græðlingarnir eru því laufgaðir þegar þeir eru klipptir. Það skiptir talsverðu máli hvenær sumarsins græðlingar eru teknir, viðurinn í árssprotanum (nývextinum) þarf að vera orðinn sæmilega þroskaður en þó má hann ekki vera orðinn of trénaður, það tefur fyrir rótuninni. Þetta má kanna með því að grípa utan um árssprotann og beygja hann svolítið, ef það er dálítið fyrirstaða en samt sveigjanleiki þá er sprotinn á réttu stigi. Græðlingarnir eru klipptir þannig að lengd þeirra sé ekki meiri en u.þ.b. 15 cm en það fer eftir tegundum og því hversu langt er milli bruma. Oft er toppur græðlingsins ónothæfur vegna þess að hann er of linur og þá er hann bara klipptur frá. Neðstu blöð græðlingsins eru fjarlægð áður en honum er stungið í rótunarefnið og er það gert til að koma í veg fyrir að þau mygli í rótunarefninu og eyðileggi þannig græðlinginn.
Rótunarefnið sem notað er þarf að vera nokkuð áburðarsnautt. Best er, í svona heimaræktun, að nota torfmosa (spaghnum) blandaðan með galdraefninu Hekluvikri. Einnig má nota sand í staðinn fyrir vikurinn. Aðaltilgangurinn með því að blanda sandi eða vikri saman við torfmosann er að tryggja það að það lofti nægilega um ræturnar á meðan þær eru að myndast og eftir að þær eru farnar að starfa. Hlutfall sands eða vikurs í blöndunni má vera á bilinu 30-70% og fer það svolítið eftir því hvað viðkomandi er duglegur að vökva yfir græðlingana, því meiri vikur, því meira þarf að vökva. Rótunarefninu er svo komið fyrir í bökkum, til dæmis er mjög sniðugt að nota bakka undan skógarplöntum. Áður en græðlingunum er stungið er gott að vökva yfir rótunarefnið.
Græðlingunum er stungið niður í rótunarefnið, þannig að laufgaði endinn snúi upp… Hægt er að fá sérstakt duft, svokallað rótunarhormón, sem neðri enda græðlinganna er dýft í áður en þeim er stungið í bakkana. Þetta hormón hraðar rótarmynduninni en er ekki lífsnauðsynlegt til þess að árangur náist. Þegar bakkinn er fullur er vökvað létt yfir hann og honum komið fyrir undir hvítu, þunnu plasti. Bakkarnir þurfa að standa í góðu skjóli, t.d. í vermireit eða jafnvel inni í gróðurhúsi, þar til rótamyndun hefur átt sér stað og mikilvægt er að tryggja það að þeir þorni aldrei á meðan. Hvíta plastið heldur rakastiginu á græðlingunum háu, best er að það sé sem næst 100%. Í sólríku veðri þarf að taka plastið reglulega af og vökva yfir græðlingana, bæði til að halda rakanum og eins til að kæla þá niður.
Hreinlæti er mjög mikilvægt við græðlingatökuna því græðlingarnir eru afar viðkvæmir fyrir sveppasýkingum á meðan á rótun stendur. Því þarf að þvo alla bakka og öll tól og tæki vel og vandlega áður en hafist er handa.
Þær tegundir sem er auðvelt að eiga við og gaman að prófa heima hjá sér eru til dæmis blátoppur, margar tegundir kvista eins og birkikvistur, japanskvistir og perlukvistur, rifstegundir en þær þarf að taka snemma að sumrinu, í lok júní-byrjun júlí, runnamura en hana er hægt að taka lengi fram eftir sumri, margar víðitegundir og svo er auðvitað um að gera að gefa ræktunargleðinni lausan tauminn.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2002)