Posted on

Ilmreynir, Sorbus aucuparia – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Ilmreynirinn, eða reyniviður eins og hann er gjarnan kallaður í daglegu tali, á ættir sínar að rekja til Íslands. Greinar ættartrés hans teygja sig um temptaða beltið, um Evrópu og austur í Asíu, allt norður og austur í Síberíu. Reynirinn sýnir mikinn sveigjanleika í vali á vaxtarstað og getur fundist allt frá hlýjum, þurrum suðurhlíðum yfir í rakar mýrar. Hérlendis finnst reynir einkum í birkiskógum og þá helst innan um birkikjarr þar sem reynirinn nær að standa vel upp úr kjarrinu. Hann myndar ekki samfelldar breiður eða skóga heldur finnst helst stakstæður. Í öðrum löndum á hann þó til að mynda þyrpingar af trjám.

     Ilmreynir er beinvaxið, upprétt tré sem verður um 8-12 m hátt. Krónan er ávöl, jafnvel egglaga og getur orðið ansi þétt. Blöð reynis eru stakfjöðruð og talsvert stór. Blómgun á sér stað snemma sumars, í júní og eru blómin stór, kremhvít og ilma mikið og vel, eins og nafn plöntunnar gefur til kynna. Blómin eru í stórum hálfsveipum á endum greina og eru því mjög áberandi. Fræflarnir í blómunum eru nokkuð langir og gefa því blómsveipunum loðið yfirbragð. Þegar líður að hausti birtast svo aldinin, reyniberin. Þau eru yfirleitt hárauð á lit en til eru afbrigði af ilmreyni með appelsínugul og jafnvel gul ber. Reyniber eru eftirsótt af fuglum og endurspeglast það í latneska tegundarheitinu ,,aucuparia” sem þýðir ,, sá sem laðar að sér fugla”. Haustlitir reynisins eru sérlega glæsilegir en þó eru til einstaka tré sem fá engan haustlit heldur frjósa græn.

     Þótt reynirinn sé þolgóður og geri almennt ekki miklar kröfur til jarðvegs á vaxtarstað sínum er það staðreynd, að tré sem fá djúpan, frjóan og vel rakaheldinn jarðveg sýna best þrif. Rótakerfi reynisins er nokkuð umfangsmikið og það getur gengið alldjúpt niður í jörðina. Sumar reyniplöntur eiga það til að mynda heilmikinn flota af rótarskotum, litlum plöntum sem vaxa þétt upp við stofn móðurplöntunnar. Almennt er talið að þetta sé merki um vanþrif á plöntunni en einnig eru einstaklingarnir misjafnir hvað þetta varðar. Reynirinn er ákaflega ljóselskur og það þýðir lítið að gróðursetja hann á skuggsæla staði, hann plumar sig mjög illa við slíkar aðstæður. Hann sómir sér vel hvort heldur sem er stakstæður eða í stærri hópum svo framarlega sem hvert tré fær notið þeirrar birtu sem það þarf á að halda.

     Ilmreyni er fjölgað upp af fræi eða með ágræðslu. Berin eru tínd á haustin og kjötið hreinsað af þeim áður en fræjunum er sáð. Fræin geta ekki spírað fyrr en eftir kuldatímabil þannig að það er mjög gott að sá í bakka og geyma bakkana utandyra yfir veturinn. Við það brotna niður spírunarhindrandi hormón í fræjunum en hormón þessi tryggja að fræið spíri ekki á óhagstæðum tíma. Talið er hér um bil ómögulegt að fjölga ilmreyni með græðlingum þannig að það er lítið reynt. Til skamms tíma var reyninum fjölgað með vefjaræktun og voru þá valdir sérlega beinvaxin og fagurlimuð tré til undaneldis. Val á móðurplöntu er vissulega mikið atriði, hvort sem notuð eru af henni fræ eða sprotar. Hún þarf að vera vel vaxin, blómviljug, fá fallega haustliti og hafa í sér mótstöðu gegn sjúkdómum sem herja á reyninn. Einna algengastur er reyniátan sem getur leikið mörg reynitré grátt, sérstaklega í röku loftslagi og þar sem trén eru svekkt á annan hátt. Reyniviður af íslenskum uppruna er líka betur til ræktunar hérlendis fallinn en þar skapast vandamál því að á fyrstu áratugum síðustu aldar var mikið magn reyniplantna flutt inn til landsins frá Danmörku og Noregi og í dag er erfitt að finna út hvaða tré eru innlend og hver innflutt. Ilmreynir þrífst vel um allt land og er það gleðiefni að eftir nokkurra áratuga lægð í útplöntun á reyni er hann að komast í tísku aftur.

     Reynirinn skipar sérstakan sess í þjóðtrú margra landa. Hann var talinn búa yfir sérstökum verndarmætti og álitu menn að ef þeir bæru á sér dálítinn sprota af ilmreyni væru þeir verndaðir gegn hvers kyns galdrafári. Það þótti gott að planta reynitrjám í grennd við hýbýli manna til að bægja frá illum öndum. Samkvæmt íslenskri hjátrú var álitið að reyninum fylgdu níu náttúrur góðar og níu náttúrur vondar.

     Reyniberin eru, sem fyrr segir, eftirsótt af fuglum. Þau eru ekki bragðgóð til átu en það er alveg tilvalið að sulta úr reyniberjum. Best er að berin hafi frosið aðeins áður en þau eru tínd en einnig má skella þeim í ísskáp eða frystikistu í svolitla stund áður en þau eru notuð. Reyniberjahlaup er búið til á sama hátt og rifsberjahlaup, berin soðin í svolitlu vatni og svo síuð frá safanum. Sykri er svo bætt í safann í hlutföllunum 1:1. Slíkt hlaup er mjög gott með svínakjöti og villibráð. Ef hlaupið þykir of bragðsterkt má milda það með því að hafa epli í því og er þá magn berjanna minnkað í réttu hlutfalli við magn eplanna. Rétt er að geta þess að það þarf að hafa hraðar hendur við berjatínsluna áður en fuglarnir hafa klárað berin.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2001)