Posted on

Saltskemmdir á plöntum – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Allir skynsamir garðeigendur hafa nú pakkað saman trampólínunum úr garðinum hjá sér og komið þeim í skjól inni í bílskúr eða öðru hentugu geymsluplássi. Reynsla undanfarinna ára þegar trampólín voru orðin eins og eðlilegur hluti af illviðrum haustsins hefur kennt okkur að hægt er að draga verulega úr óþægindum með því að lágmarka trampólínfok á haustin. Veðurfarið þessa dagana er ekki líklegt til að drífa menn áfram í garðyrkjustórræðum en þó er haustið tvímælalaust einn besti tími ársins til útplöntunar á alls kyns plöntum, ekki þarf að hafa áhyggjur af vökvuninni um þessar mundir og svo geta plönturnar hafið vöxt á nýjum vaxtarstað mun fyrr næsta vor en þær annars myndu geta. Vaxtartímabilið verður því mun lengra en ella.

     Haustið gekk í garð með tilþrifum, nú eins og í fyrra og var fyrsti almennilegi stormur haustsins verulega tilþrifamikill. Afleiðingar hans voru líka skrautlegar. Laufblöð plantna, sem flestar voru enn fulllaufgaðar, urðu kolsvört og undin og rifin og tætt eftir veðrið. Þessi einkenni voru ekki eingöngu niðri við ströndina heldur náðu þau langt inn í land. Minnugir reynslunnar frá því í fyrra þegar í ljós kom að plöntur langt inn í landi urðu fyrir saltskemmdum ákváðu nú sérfræðingar í trjáræktarmálum að kanna hvort sams konar hrellingar væru í gangi í ár. Sást til að minnsta kosti tveggja sérfræðinga á kreiki á Suðurlandi strax eftir þennan fyrsta storm og þótti atferli þeirra með eindæmum undarlegt. Þeir gengu að grenitrjám og öðrum trjám, tóku sér barr og laufblöð í hönd og í samræmi við vísindalegar aðferðir voru laufblöðin tekin bæði áveðurs og hlémegin á plöntunum. Því næst sleiktu mennirnir blöðin og það var þá sem vitni að tilburðunum sannfærðust um að andleg heilsa þessara manna væri kannski ekki með besta móti. Sérfræðingarnir létu það ekki á sig fá og sleiktu sig fram og til baka um trjálundi Suðurlands. Rétt er að geta þess að þessir tungutilburðir voru nokkurs konar forkönnun sérfræðinganna á því sem þeir raunverulega ætluðu að rannsaka. Besta leiðin til að komast að því hvort blöð hafi orðið fyrir saltskemmdum er auðvitað að athuga hvort salt sé á yfirborði blaðanna og hvaða aðferð er betri en sú að smakka? Sérfræðingarnir okkar komust að því að langt inni í landi var mikið saltbragð af blöðum plantnanna og eftir að þeir höfðu komist að því að salt var til staðar tóku þeir sýni og eru nú að rannsaka hversu mikið saltmagn var raunverulega á blöðunum.

     Salt hefur mjög skaðleg áhrif á plöntur og sérstaklega þegar þær eru fulllaufgaðar. Salt á yfirborði plöntunnar dregur vökva út úr henni og hún verður því fyrir þurrkskemmdum sem eru ekkert ósvipaðar og kalskemmdir. Þannig geta svona saltstormar gert það að verkum að verulega muni sjá á plöntum næsta vor, sérstaklega sígrænum plöntum. Þannig voru furuplöntur illa brenndar eftir síðasta haust og komu þær skemmdir ekki almennilega fram fyrr en þegar leið á vorið. Garðeigendur sem hafa búið við svona saltaustur um árabil, það er þeir sem búa við sjávarsíðuna, hafa löngum notað gamalt og gott húsráð gegn saltinu. Þeir fara út með garðslöngu eftir saltstormana og skola af plöntum sínum. Þetta ráð getur kannski reynst erfitt í framkvæmd þegar um heilu skógarreitina er að ræða en í smærri görðum ættu menn ekki að hika við að prófa það, sérstaklega þar sem um uppáhaldsplönturnar er að ræða…

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2008)