Veturinn er genginn í garð með tilheyrandi veðrabrigðum sem hér sunnanlands að minnsta kosti fela í sér rok og rigningu fram að morgunkaffi, frost og sól fram undir hádegi, snjókomu og ófærð fram að kaffi og skafrenning fram að kvöldmat. Þetta fjölbreytta veðurfar hefur í för með sér að ákaflega erfitt er að finna viðeigandi klæðnað, ætli maður sér að stunda útivist allan daginn. Hinn dæmigerði Íslendingur hefur því komist að þeirri niðurstöðu að best sé að láta eins og ekkert sé og klæða sig eins og veðrið komi honum ekki við. Óvíða í heiminum má finna jafn fáa íbúa lands sem klæðast til dæmis stígvélum í rigningu, þetta þykir einfaldlega púkalegur klæðnaður og óþarfi hérlendis því eins og allir vita verður veðrið með öðru sniði eftir 20 mínútur.
Þótt Íslendingar af tegundinni Homo sapiens geti leyft sér að haga sér á þennan hátt gagnvart veðri er þetta alls ekki affarasælt fyrir garðplönturnar okkar. Margar tegundir garðplantna eru upprunnar í löndum þar sem vetrinum fylgir vetrarveður, þ.e. frost og snjór í marga mánuði en ekki sífelldir umhleypingar með tilheyrandi vindgnauði. Skynsamir garðeigendur fara því út að haustlagi og undirbúa vetrarskýlingu fyrir viðkvæmari og verðmætari garðplöntur sínar.
Sígrænar tegundir eru fremstar í flokki þeirra tegunda sem þarf að skýla fyrir vetrarveðrum. Sérstaklega á þetta við ungar nýgróðursettar plöntur. Þessar plöntur halda laufinu allan veturinn og því er starfsemi í plöntunum allt árið, þótt þessi starfsemi sé vissulega í lágmarki yfir veturinn. Það sem helst fer illa með plönturnar er í fyrsta lagi vindurinn. Vindur eykur útgufun frá laufblöðum plantnanna og þegar jarðvegur er frosinn ná plönturnar ekki að draga upp vatn í stað þess sem gufar út. Niðurstaðan verða því skrælnuð laufblöð. Sólfar á vormánuðum hefur sams konar áhrif. Þegar sólin skín hitna laufblöðin verulega og gufa þau út vatni til að kæla sig niður. Plönturnar lenda þá í sama vandamáli við að ná upp vatni í stað þess sem gufar út. Til að draga úr skemmdum af þessum völdum er rétt að skýla plöntunum fyrir vindálagi og sól. Hér er hægt að fara ýmsar leiðir til að hlífa plöntunum og er rétt að hafa vaxtarlag plantnanna til hliðsjónar við val á vetrarskýlingu. Mikilvægt er að vetrarskýlingin sé þannig úr garði gerð að loft komist vel að plöntunum til að koma í veg fyrir sjúkdóma og eins að hún skyggi vel á laufblöð plantnanna.
Jarðlægum plöntum eins og t.d. ýmsum einitegundum er hægt að skýla með grenigreinum. Grenigreinarnar er hægt að kaupa í knippum á haustin og eru þær einfaldlega lagðar ofan á plöntuna sem á að skýla og þess gætt að grenið hylji plöntuna að mestu. Gott er að binda grenigreinarnar fastar við plöntuna þannig að þær fjúki ekki í burtu í næsta bálviðri.
Hávaxnari plöntum er yfirleitt skýlt með striga. Slíkt vetrarskýli krefst nokkurs undirbúnings. Fyrst þarf að koma staurum í jörðina umhverfis plönturnar áður en jarðvegurinn frýs og er ágætt að huga að þessu í október-nóvember. Striginn sjálfur þarf ekki að fara strax á staurana en það er ágætt að miða við það að klára það fyrir jól. Striginn er svo festur á staurana, ýmist með því að hefta hann fastan eða negla hann með stuttum nöglum. Gæta þarf að því að striginn snerti ekki plönturnar sem hann á að skýla, þær geta þá skemmst og eins þarf strigaskýlið að ná talsvert upp fyrir plönturnar svo það nái að skyggja almennilega á þær þegar sólin fer á kreik að vorinu. Yfirleitt er ekki nauðsynlegt að loka svona skýli að ofan.
Þeir sem eru að dunda við plöntuuppeldi í sumarbústaðalóðum sínum geta skýlt litlu plöntunum sínum með hvítu plasti eins og gert er í gróðrarstöðvum. Plönturnar ætti að geya í vermireitum yfir veturinn, ofan á reitina eru settir sérstakir bogar og er plastið sett ofan á bogana og fest á vermireitinn með lista.
Að vori þarf svo að huga að því að fjarlægja vetrarskýlingu um það leyti sem frost fer úr jörðu. Svona viðeigandi vetrarklæðnaður fyrir plöntur skilar sér margfalt í sprækari plöntum, gætum við íslenska mannfólkið lært eitthvað af þessu?
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2005)