Posted on

Ný stjórn kosin á aðalfundi

Aðalfundur Garðyrkjufélags Íslands var haldinn 10. nóvember 2022. Á fundinum var auk hefðbundinna aðalfundarstarfa kosinn nýr formaður og ný stjórn félagsins.

Þóra Þórðardóttir var kjörin formaður og ný í stjórn hlutu kosningu þau Hjördís Rögn Baldursdóttir, Vilhjálmur I. Sigurjónsson og Sigurbjörn Einarsson sem áður sat í varastjórn. Áfram situr í stjórn félagsins Konráð Lúðvíksson. Ekki þótti ástæða til að sleppa Guðríði Helgadóttur og Eggert Aðalsteinssyni alveg frá stjórnarstörfum og þau voru kjörin sem varamenn. Kristján Friðbertsson er áfram varamaður í stjórn. Ómar Valdimarsson hefur tekið að sér að ritstýra ársriti félagsins og tekur við því hlutverki af Björk Þorleifsdóttur og eru henni færðar þakkir fyrir ritstjórn síðustu ára. Skrifstofa félagsins er lokuð en minnum á símatíma á miðvikudögum milli kl. 13 – 15.

Aðalfundur GÍ 10.11.2022

Skýrsla formanns

Posted on

Sáning og uppeldi birkifræs í glugganum heima

Söfnun birkifræja
Myndin er fengin úr kennslumyndinni „Sáning birkifræja“ eftir Stein Kárason https://vimeo.com/28150471

Að ala upp plöntur í eldhús- eða stofuglugga getur ekki talist besti kostur sem völ er á og hefur reynst mörgum erfitt. Ræktun í gróðurhúsi eða gróðurskála er mun auðveldari en krefst engu að síður natni. Margir ræktendur hafa ekki kost á að ala upp í gróðurskála eða gróðurhúsi en vilja engu síður spreyta sig við uppeldi trjáplantna og því ekki að reyna eldhúsgluggann?

Birkifræið

Birkifræið er að jafnaði þroskað um mánaðarmótin september – október og hangir fræið á plöntunum fram yfir miðjan október, jafnvel lengur ef tíð er góð.
Safnið birkifræi af heilbrigðum trjám. Takið væna, heila rekla, ekki þá sem eru litlir eða afmyndaðir. Tínið frá blöð og stilka, sem slæðast kunna með, og þurrkið fræið við stofuhita í 3 – 4 daga t.d. í þunnum flekki á dagblaði. Þegar heilir reklar hrynja í sundur við átöku er fræið þurrt. Það má síðan geyma í bréfpoka, helst á köldum og þurrum stað. Birkifræið er örsmá hneta með allbreiðum væng og er allt að ein- og hálf milljón fræja í kílói. Algeng spírun er 50%, jafnvel minna. Fræið tapar spírunarhæfni í geymslu og því er vissara að nota ekki eldra fræ en 2.-3 ára.

Ef of miklu fræi er safnað, er tilvalið að deila með öðrum félögum, eða t.d. senda inn til fræbanka félagsins. Sjá nánar hér: https://gardurinn.is/sofnum-ollu-fraei/

Moldin

Sáðmold þarf að vera myldin og með hæfilegt magn næringarefna. Hægt er að kaupa tilbúna sáðmold í verslunum. Ekki er nauðsynlegt að sá í sérstaka sáðbakka, heldur má notast við nær hvaða ílát sem er, t.d. undan ís eða skyri, svo framarlega sem stungin eru göt í botninn og framræsla vatns tryggð. Bakkinn er fylltur upp með sáðmold þannig að nokkrir millimetrar eru upp að brún. Þjappað er létt á moldina. Ef það er gert of fast fer súrefni úr moldinni og spírun gengur verr, en ef moldin er óþjöppuð, eða ekki nægilega þjöppuð er hætta á að fræ liggi laus ofan á moldinni og nái síður tengslum við jarðveginn.

Sáning

Sáið um eða eftir miðjan maí. Fræinu er dreift sem jafnast yfir moldina og til þess að auðvelda jafna dreifingu má blanda hveitiklíði saman við, 2-3 sinnum magn birkifræsins. Hæfilegt er að gera ráð fyrir um 50 spíruðum fræjum í bakka sem er 20×30 sentimetrar að flatarmáli, en sú stærð hentar vel í venjulega gluggakistu. Sé spírunarhlutfall 50%, sem oft er hjá birki, má hæglega sá 100 fræjum í bakka af þeirri stærð en í einu grammi af birkifræi eru um 900 – 1400 fræ. Sé spírunarhlutfall hærra en 50 % er rétt að fækka sáðum fræjum sem því nemur.

Um 1-2 millimetra þykku lagi af vikri eða sandi er sáldrað yfir fræin, þannig að rétt sjáist í þau.
Með þessu móti helst raki í moldinni og að fræinu, en raki er eitt af lykilatriðum til að spírun takist.

Merkja skal sáningu með upplýsingum um t.d. tegund, uppruna fræs og dagsetninu sáningar

 Vökvað

Að svo búnu er moldin vökvuð og er best að vökva neðan frá í gegnum göt á sáðbakkanum. Ef vatni er hellt yfir bakkann, þéttist moldin og súrefni í henni minnkar, auk þess sem fræin geta skolast til ef ekki er farið varlega. Best er að leggja bakkann í vask eða bala með volgu vatni og láta hann standa þar í nokkrar mínútur, eða þar til sáldrið hefur dökknað.

Þá er sáðbakkanum komið fyrir í gluggakistu, helst í vesturglugga, og hvítt plast lagt yfir, en við það helst rakinn betur í moldinni. Gott að lofta um moldina einu sinni á dag og er þá plastið tekið af í nokkrar mínútur. Moldin má hvorki verða of þurr né blaut en vökvun krefst mikillar umhyggju og er eitthvert vandasamasta verkið í uppeldinu.

Fræið má aldrei þorna meðan á spírun stendur.

Árangur sést eftir nokkra daga

Birkifræ spírar eftir 10-15 daga við um 20 stiga hita. Þegar megnið af fræjunum hefur spírað er plastið tekið af bakkanum og þá fer birta að skipta plönturnar mestu máli. Þær teygja sig í átt að ljósi og því er mikilvægt að láta þær standa þar sem þær njóta góðrar birtu. Markmiðið er ekki að fá langar spírur, heldur þétta og laufgaða plöntu. Nýspíruð fræ mega ekki standa í sterku sólarljósi og er því nauðsynlegt að skyggja örlítið á viðkvæmar plöntur ef sáðbakki er staðsettur í suðurglugga. Það má gera t.d. með því að festa dagblað á glerið á glugganum og draga þannig úr mestu birtunni. Best er að plönturnar séu í vesturglugga ef kostur er.

Fljótlega eftir spírun myndast tvö lítil laufblöð, sem nefnd eru kímblöð. Í kjölfarið stækka smáplönturnar og laufblöðum fjölgar. Þá þarf að dreifplanta, til að auka vaxtarrými hverrar plöntu.

Vaxtarými aukið

Á þessu stigi má notast við venjulega, næringarríka gróðurmold. Notið stærri sáðbakka og fyllið hann næstum. Hafið þó borð á svo að vatn flæði ekki út við vökvun. Grafið litla holu í moldina, t. d. með teskeið. Síðan eru plönturnar teknar varlega upp úr sáðbakkanum og þeim komið fyrir, með gætni, í nýja pottinum. Gætið þess að rótarkerfið bögglist ekki við gróðursetningu. Það getur haft slæm áhrif fyrir vöxt og viðgang plöntunnar síðar meir. Bil á milli plantna í sáðbökkum er hæfilegt 5-6 sm. Einnig má nota litla blómapotta 4-6 sentímetra og er þá ein planta sett í hvern pott. Þörf fyrir birtu minnkar ekki en plönturnar hafa nú gott af ögn lægri hita ef mögulegt er. Annars geta þær orðið linar og þróttlitlar. Á þeim árstíma, þegar hætta á næturfrosti er liðin hjá, má fara að venja smáplönturnar við þær aðstæður sem þær munu búa við næstu árin. Ekki má gera það of hastarlega og er því gott að byrja á því að láta plöntunar út á daginn á skjólgóðan stað, nokkra tíma í senn. Tíminn er svo lengdur smám saman þar til plöntunar eru settar alveg út, en það getur tekið 1-2 vikur. Fyrstu nætunar úti getur verið æskilegt að hylja plönturnar með trefjadúk (akríldúk) eða plasti á skjólgóðum stað í garðinum. Plöntunar eru aldar upp, t.d. í vermireit, til næsta vors og jafnvel lengur, allt eftir stærð ræktunaríláts.

Samantekt:
Auður Jónsdóttir. Kristinn H. Þorsteinsson

Posted on

Rósaklúbburinn

Rósaklúbbur Garðyrkjufélags Íslands var stofnaður 22. apríl 2002. Allir félagar Garðyrkjufélags Íslands geta gengið í Rósaklúbbinn. Hjón og sambýlisfólk geta haft sameiginlega aðild að klúbbnum. Félagsgjald er innifalið í félagsgjaldi Garðyrkjufélagsins. Í apríl 2024 voru 365 félagar skráðir í klúbbinn.

Heimasíða Rósaklúbbsins er í vinnslu og verður opnun síðunnar kynnt á vef GÍ.

Posted on

Ljósmyndakeppni Rósaklúbbsins 2019

Efla alla þá menningu sem vegsamar rósir „
Nú stendur yfir ljósmyndakeppni Rósaklúbbsins 2019.
Skilafrestur á myndum til 31. október.

 

Aðeins skráðir félagar í Rósaklúbbnum geta tekið þátt en allir félagar í Garðyrkjufélagi íslands geta orðið félagar í Rósaklúbbnum.
Það er hægt að nálgast upplýsingar og skrá sig í Rósaklúbbinn í gegnum netfangið: gardyrkjufelag@gardurinn.is

Posted on

Grasrótin og Garðyrkjuritið

Það vill gleymast þegar fjallað er um kolefnasporið að sennilega eru heimagarðar landsmanna sá þáttur sem skilar hvað mestum ávinningi, ekki síður en skógrækt og landrækt. Grasrót garðyrkjunnar er í heimagörðum Íslendinga í öllum landshlutum enda nánast ekkert hús í landinu þar sem ekki er stunduð ræktun af einhverju tagi. Nægir í því sambandi að minna á að stærsti skógur landsins er í Reykjavík og þar á áhugafólk um garðyrkju stærstan þátt.

Það er því frá mörgu að segja af þessum vettvangi. Nær daglegar fréttir og frásagnir samskiptamiðla sýna svo ekki verður um villst að margar nýjar og áhugaverðar hugmyndir eru í vinnslu í heimagörðum; frá þeim væri gaman að segja í Garðyrkjuritinu. Ekki síst væri gaman að heyra frá fólki sem ekki hefur skrifað í ritið áður – og hafið engar áhyggjur þótt þið teljið ykkur ekki skrifa “nógu vel” – við getum auðveldlega hjálpað til við að gera texta læsilegri.

Við hvetjum alla félaga (og eins þá sem eiga eftir að gerast félagar!) að senda okkur áhugavert efni í Garðyrkjuritið, eina íslenska tímaritið sem helgað er garðyrkju, eigi síðar en 1. nóvember næstkomandi. Það voru ágætar heimtur á efni í rit yfirstandandi árs og við vonumst til að svo verði áfram.

Vinsamlega sendið efni ykkar – eða hugmyndir um efni – til Kristins fræðslustjóra Garðyrkjufélagsins á netfangið gardyrkjufelag@gardurinn.is 

 

 

 

 

Posted on

Aldingarður æskunnar í Fjallabyggð

Aldingarður Æskunnar í Fjallabyggð var nýlega hleypt af stokkunum með gróðursetningu aldintrjáa við Trjálund norðan við bílaplanið Menntaskólans á Tröllaskaga.

Ómar Valdimarsson formaður Garðyrkjufélags Íslands, Kristinn H. Þorsteinsson, fræðslu- og verkefnisstjóri og Anna María Guðlaugsdóttir formaður Garyrkjufélags Tröllaskaga Norðurs voru viðstödd ásamt Gunnari Birgissyni bæjarstjóra Fjallabyggðar og aðstoðuðu starfsfólk leikskólans, nemendum, foreldrum og velunnurum verkefnisins við að gróðursetja ávaxtatré og áhugaverð berjayrki.

Hugmyndin með verkefninu felst í því að koma upp sérstökum trjáreitum með ávaxtatrjám og berjarunnum í náinni samvinnu við leikskólanemendur, foreldra, sveitarfélög og aðra velunnara. Eitt af hlutverkum Garðyrkjufélagsins er að leiða saman ólíkar kynslóðir og skapa skilyrði fyrir vaxandi ræktunarmenningu ungs fólks. Aldingarður Æskunnar er kjörinn vettvangur til þess.
Áhugi almennings á hvers kyns ræktun hefur aukist. Hvað ræktunarskilyrði varðar hafa frumkvöðlar í ræktun, með bjartsýni og þolinmæði, sýnt að trén geta borið ávexti utanhúss hér á landi. Sæmundur Guðmundsson og Eyrún Óskarsdóttir á Hellu eru þau fyrstu sem hófu markvissa ræktun ávaxtatrjáa. Þau fluttu sín fyrstu tré inn árið 1994 og voru það eplatré og yrkin Transparent Blanche, Haugmann og Sävstaholm og fengu þessi yrki sinn sess í Fjallabyggð. 

Árangur af ávaxtarækt getur tekið nokkur ár, en ef rétt er að staðið geta trén borið ávexti hér á landi utandyra. Með þeirri þekkingu sem Garðyrkjufélagið býr að verður spennandi að fylgjast með Aldingarði Æskunnar dafna en Jón Guðmundsson á Akranesi hefur verið félaginu mikilvægur ráðgjafi í verkefninu Aldingarður Æskunnar.

 

 

 

Posted on

Garðyrkjufélag Íslands heiðrar fjóra félaga á aðalfundi 15. maí 2019

Á AÐALFUNDI Garðyrkjufélags Íslands, sem haldinn var 15. maí 2019, voru fimm félagar sæmdir heiðursmerkjum fyrir mikið og gott starf að ræktunarmálum.

Guðrún Agnarsdóttir
Guðrún Agnarsdóttir læknir og fyrrverandi alþingismaður hefur verið ritstjóri Garðyrkjuritsins frá árinu 2012 og hefur sinnt því starfi af mikilli alúð og natni. Garðyrkjuritið er, eins og félagsmenn vita, ómissandi á vorin, það færir okkur fjölbreyttan fróðleik og skemmtun um garðyrkjutengd málefni og félagið hefur alla tíð haft metnað til að þar sé vandað mjög til verka. Guðrún hefur svo sannarlega staðið vaktina með mikilli prýði og Garðyrkjuritið fyllilega staðið undir væntingum undir hennar stjórn.  Nú síðast tók hún ásamt ritstjórn þá djörfu ákvörðun að breyta aðeins broti ritsins til að myndir fái betur notið sín og af viðbrögðum félagsmanna að dæma hefur sú ákvörðun verið til góðs.  Guðrún hefur nú ákveðið að gefa ekki kost á sér áfram sem ritstjóri en stjórn GÍ þakkar henni kærlega fyrir vel unnin störf og óskar henni velfarnaðar í framtíðinni. 

Þuríður Backman
Þuríður Backman fyrrverandi alþingismaður var formaður GÍ frá árinu 2013 til ársins 2017.  Í hennar stjórnartíð urðu þær breytingar á aðstöðu félagsins að það flutti úr húsnæði sínu að Frakkastíg í Síðumúla 1.  Þuríður lagði á sig mikið og óeigingjarnt starf í þágu félagsins á þessum árum og stendur félagið í mikilli þakkarskuld við hana.  Þuríður lagði mikla áherslu á að efla félagsanda meðal félagsmanna og þeirra sem störfuðu að verkefnum fyrir félagið og tókst vel til með það.  Sem dæmi má nefna vel heppnaða jólaskemmtun sem hefur verið fastur liður í starfseminni í Síðumúla.  Þuríður nýtti einnig góðar tengingar sínar við atvinnulífið félaginu til framdráttar og kann félagið henni bestu þakkir fyrir. 

Sigþóra Oddsdóttir
Sigþóra Oddsdóttir garðyrkjufræðingur hefur lengi verið virkur félagi í Garðyrkjufélagi Ísland og síðustu árin hefur hún unnið mikið og óeigingjarnt starf í frænefnd félagsins. Vinna frænefndar er töluverð, einkum og sér í lagi frá hausti og fram yfir áramót og hefur Sigþóra unnið ötullega að því, ásamt öðrum meðlimum frænefndar að koma innsendum frætegundum til þeirra aðila sem óska eftir fræi frá félaginu.  Félagið þakkar Sigþóru fyrir hennar störf og hlakkar til áframhaldandi samstarf við hana.

Vilhjálmur Lúðvíksson
Vilhjálmur Lúðvíksson efnaverkfræðingur er félagsmönnum að góðu kunnur eftir áralöng störf sín í trúnaðarstörfum fyrir félagið.  Vilhjálmur var formaður félagsins frá árinu 2007 til 2013, hann var ritstjóri Garðyrkjuritsins um hríð og hefur undanfarin ár verið formaður rósaklúbbsins.  Vilhjálmur hefur skrifað fjölda greina um garðyrkju og tengd málefni, skipulagt heimsóknir erlendra gesta á vegum GÍ til landsins og skipulag garðyrkju- og ræktunartengdar heimsóknir Íslendinga til fjölmargra landa.  Hann er sannkallaður eldhugi og hefur verið óþreytandi í að vinna að því að hagur Garðyrkjufélagsins vaxi og dafni sem best.  Félagið þakkar Vilhjálmi heilshugar fyrir framlag hans til garðyrkju og vonast til að fá að njóta krafta hans enn um hríð.    

 

 

 

Talið vinstri Guðríður Helgadóttir varaformaður GÍ, þá koma heiðurfélagrnir fjórir Vilhjálmur, Guðrún, Þuríður og Sigþóra. Lengst til hægri er Pétur J. Jónasson fráfarandi formaður GÍ
Posted on

Stjórn Garðyrkjufélags íslands, skoðunamenn reikninga og fulltrúar í nefndir fyrir árið 2019-2020

  • Aðalfundur Garðyrkjufélags Íslands var haldinn miðvikudaginn 15. maí. Á fundinum fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf. Pétur J. Jónasson fyrrum formaður félagsins og Karl óskar Þráinsson gjaldkeri gáfu ekki kost á sér til endurkjörs og eru þeim þakkað kærlega fyrir vel unnin störf í þágu félagsins. Nýir inn í stjórn félagsins voru kjörnir Ómar Valdimarsson formaður og Eggert Aðalsteinsson.

    Stjórn Garðyrkjufélags íslands, skoðunamenn reikninga og fulltrúa í nefndir fyrir árið 2019-2020:
    Stjórn Garðyrkjufélags Íslands
  • Brynhildur Bergþórsdóttir
  • Eggert Aðalsteinsson
  • Guðríður Helgadóttir
  • Ómar Valdimarsson
  • Sveinn Þorgrímsson
    Varastjórn:
  • Freyja Hilmisdóttir
  • Konráð Lúðvíksson
  • Sigríður Héðinsdóttir
    Ritnefnd:
  • Björk Þorleifsdóttir
  • Erna Rós Aðalsteinsdóttir
  • Guðríður Helgadóttir
  • Hafsteinn Hafliðason
  • Ómar Valdimarsson
  • Vilhjálmur Lúðvíksson
    Frænefnd:
  • Barbara Stanzeit
  • Eiríkur Jónsson
  • Guðrún Þuríður Halldórsdóttir
  • Ragnar Jónasson
  • Sigþóra Oddsdóttir
    Kjör aðal og varamanna skoðunarmanna reikninga:
    Aðalmenn
  • Magdalena Lára Gestsdóttir
  • Ragnar Jónasson
    Varamenn
  • Hugrún Jóhannesdóttir
  • Sigríður Friðriksdóttir