Það kann að skjóta svolítið skökku við að tala um sumarblóm um miðjan janúar í miðjum hríðarbyl en höfundur þessa pistils treystir á ákaflega fjörugt ímyndunarafl þeirra sem lesa pistilinn, auk óbilandi trúar á það að öll él stytti upp um síðir. Janúar er nefnilega einmitt rétti tíminn til að fara að skipuleggja sumarblómaræktun ársins. Um þetta leyti streyma frælistar inn um bréfalúgur fyrirhyggjusamra garðeigenda sem vita að sumarið hefst í raun og veru í janúar, þetta er fólk með sól í hjarta, sól í sinni.
Sumar tegundir sumarblóma þurfa frekar langan ræktunartíma áður en hægt er að gróðursetja þær úti við að vorinu. Þessar plöntur þarf því að forrækta og best er auðvitað að gera það í gróðurhúsum, þótt bjartir og svalir bílskúrar geti þjónað svipuðu hlutverki með prýðisárangri. Góðar gluggakistur geta líka dugað, svo framarlega sem hitinn er ekki allt of mikill. Þegar plássið er takmarkað er því nauðsynlegt að skipuleggja sig vel svo það nýtist best í ræktuninni og sumarblómadýrðin verði sem fjölbreyttust og glæsilegust.
Það fyrsta sem maður gerir er auðvitað að fletta frælistanum sem nýlega datt inn um lúguna. Ef maður er svo ólánsamur að hafa ekki dottið í frælistalukkupottinn er tilvalið að bjóða sér í kaffi til einhvers sem býr svo vel að eiga frælista eða hreinlega að brokka í næstu fræverslun og missa sig í fræhillunum. Á hverju ári keppast fræframleiðendur við að koma upp með girnilegar nýjungar og að sjálfsögðu á maður að freistast til þess að prófa eins og eina eða tvær nýjar tegundir eða yrki á hverju ári, til þess eru freistingarnar að falla fyrir þeim…
Mikilvægt er að velja tegundir til ræktunar þannig að ekki þurfi að sá til þeirra allra í einu. Tegundum sem þurfa langan ræktunartíma þarf að sá í janúar-febrúar og svo koma aðrar tegundir inn koll af kolli, síðustu sumarblómategundum er hægt að sá í byrjun maí. Þegar fyrstu tegundirnar hafa spírað vel upp er þeim dreifplantað í litla potta til að þær fái sæmilegt pláss til að þroskast og dafna. Fyrstu vikurnar standa plönturnar inni í gróðurhúsi eða gluggakistunni / bílskúrnum góða sem áður var rætt um og gæta þarf að því að þær fái næga birtu, ella spíra þær upp úr öllu valdi og verða langar, mjóar og veiklulegar. Upp úr byrjun apríl er hægt að fara að setja harðgerðar tegundir sumarblóma út í sólreit til herðingar. Nauðsynlegt er að hægt sé að breiða yfir plönturnar ef frystir, annars skemmast þær. Þegar fyrstu plönturnar fara út í herðingu skapast aukið pláss fyrir þær tegundir sem á eftir koma. Þannig nýtir maður plássið best í ræktunarrýminu með því að láta hverja tegundina taka við af annarri.
Þeir sem virkilega láta greipar sópa um fræhillurnar komast kannski ekki yfir að sá öllu fræinu á einu ræktunartímabili. Ekki þarf að örvænta því margt fræ geymist auðveldlega milli ræktunartímabili. Það þarf bara að setja bréfpokana, sem fræið er geymt í, í loftþétta plastpoka, til dæmis rennilásapoka og geyma svo herlegheitin í ísskáp fram á næsta vor. Fræ allra algengustu sumarblóma geymist auðveldlega í nokkur ár, sé þess gætt að fræið sé þurrt, það sé í loftþéttum umbúðum og geymt við lágt hitastig.
Farið nú að upplifa vorið og sumarið, góða skemmtun.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2006)