Posted on

Saltskemmdir á plöntum – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Allir skynsamir garðeigendur hafa nú pakkað saman trampólínunum úr garðinum hjá sér og komið þeim í skjól inni í bílskúr eða öðru hentugu geymsluplássi. Reynsla undanfarinna ára þegar trampólín voru orðin eins og eðlilegur hluti af illviðrum haustsins hefur kennt okkur að hægt er að draga verulega úr óþægindum með því að lágmarka trampólínfok á haustin. Veðurfarið þessa dagana er ekki líklegt til að drífa menn áfram í garðyrkjustórræðum en þó er haustið tvímælalaust einn besti tími ársins til útplöntunar á alls kyns plöntum, ekki þarf að hafa áhyggjur af vökvuninni um þessar mundir og svo geta plönturnar hafið vöxt á nýjum vaxtarstað mun fyrr næsta vor en þær annars myndu geta. Vaxtartímabilið verður því mun lengra en ella.

     Haustið gekk í garð með tilþrifum, nú eins og í fyrra og var fyrsti almennilegi stormur haustsins verulega tilþrifamikill. Afleiðingar hans voru líka skrautlegar. Laufblöð plantna, sem flestar voru enn fulllaufgaðar, urðu kolsvört og undin og rifin og tætt eftir veðrið. Þessi einkenni voru ekki eingöngu niðri við ströndina heldur náðu þau langt inn í land. Minnugir reynslunnar frá því í fyrra þegar í ljós kom að plöntur langt inn í landi urðu fyrir saltskemmdum ákváðu nú sérfræðingar í trjáræktarmálum að kanna hvort sams konar hrellingar væru í gangi í ár. Sást til að minnsta kosti tveggja sérfræðinga á kreiki á Suðurlandi strax eftir þennan fyrsta storm og þótti atferli þeirra með eindæmum undarlegt. Þeir gengu að grenitrjám og öðrum trjám, tóku sér barr og laufblöð í hönd og í samræmi við vísindalegar aðferðir voru laufblöðin tekin bæði áveðurs og hlémegin á plöntunum. Því næst sleiktu mennirnir blöðin og það var þá sem vitni að tilburðunum sannfærðust um að andleg heilsa þessara manna væri kannski ekki með besta móti. Sérfræðingarnir létu það ekki á sig fá og sleiktu sig fram og til baka um trjálundi Suðurlands. Rétt er að geta þess að þessir tungutilburðir voru nokkurs konar forkönnun sérfræðinganna á því sem þeir raunverulega ætluðu að rannsaka. Besta leiðin til að komast að því hvort blöð hafi orðið fyrir saltskemmdum er auðvitað að athuga hvort salt sé á yfirborði blaðanna og hvaða aðferð er betri en sú að smakka? Sérfræðingarnir okkar komust að því að langt inni í landi var mikið saltbragð af blöðum plantnanna og eftir að þeir höfðu komist að því að salt var til staðar tóku þeir sýni og eru nú að rannsaka hversu mikið saltmagn var raunverulega á blöðunum.

     Salt hefur mjög skaðleg áhrif á plöntur og sérstaklega þegar þær eru fulllaufgaðar. Salt á yfirborði plöntunnar dregur vökva út úr henni og hún verður því fyrir þurrkskemmdum sem eru ekkert ósvipaðar og kalskemmdir. Þannig geta svona saltstormar gert það að verkum að verulega muni sjá á plöntum næsta vor, sérstaklega sígrænum plöntum. Þannig voru furuplöntur illa brenndar eftir síðasta haust og komu þær skemmdir ekki almennilega fram fyrr en þegar leið á vorið. Garðeigendur sem hafa búið við svona saltaustur um árabil, það er þeir sem búa við sjávarsíðuna, hafa löngum notað gamalt og gott húsráð gegn saltinu. Þeir fara út með garðslöngu eftir saltstormana og skola af plöntum sínum. Þetta ráð getur kannski reynst erfitt í framkvæmd þegar um heilu skógarreitina er að ræða en í smærri görðum ættu menn ekki að hika við að prófa það, sérstaklega þar sem um uppáhaldsplönturnar er að ræða…

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2008)

Posted on

Hvað borða blómin? – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Hvað borða plöntur? Þessi spurning hefur brunnið á vörum margra barna í gegnum tíðina enda ekki nema von, ekki eru nein næringarupptökulíffæri sjáanleg í fljótu bragði á blómum og trjám en samt lifa þau og vaxa og dafna. Þegar fram líða stundir læra menn að plöntur þurfa vatn og áburð og sólarljós til að þrífast en nánari útfærsla á næringarnámi plantnanna er oft á huldu. Það er þó ekki úr vegi að rifja aðeins upp hvaða atriði þarf að hafa í huga varðandi þessi mál, nú þegar plöntur eru í örum vexti og við viljum að sjálfsögðu sjá þær þrífast almennilega í görðum okkar og umhverfi.

     Plöntur eru frumbjarga, þannig að þær framleiða sjálfar þær sykrur sem þær þurfa til vaxtar og viðhalds með ljóstillífun. Hráefnið í ljóstillífunina er vatn og koltvísýringur og þessum efnum umbreyta plöntur í sykrur með hjálp sólarljóssins. Sykrurnar nýtast svo á ýmsa vegu, svo sem til uppbyggingar á vefjum plantnanna, rótum, stönglum og laufblöðum, sykrurnar geta geymst sem forði til mögru tímanna og eins eru þær notaðar til daglegrar brennslu.

     Auk hráefna til ljóstillífunar þurfa plöntur á ýmsum efnum að halda sem þær taka upp úr jarðvegi með rótum sínum. Þessum efnum má skipta í aðalefni, það eru efni sem plönturnar þurfa í talsvert miklu magni og snefilefni sem eru efni sem eru nauðsynleg en bara í örlitlu magni. Aðalefnin nitur (N, köfnunarefni), fosfór (P) og kalí (K) eru þau efni sem plöntur þurfa í mestu magni. Til er nokkurs konar þumalfingursregla sem segir að nitur sé fyrir blöðin þannig að það gerir blöðin græn, fosfór fyrir ræturnar þannig að þær vaxa og dafna betur ef nægilegur fosfór er til staðar í jarðveginum og kalí fyrir blómin þannig að blómgun verður mun betri ef nægilegt er til staðar. Reyndar er líka sagt að kalí sé mikilvægt undir haustið því hærra hlutfall kalí í plöntusafa gerir hann þolnari gagnvart frosti. Þetta er auðvitað mikil einföldun á raunveruleikanum því öll þessi efni nýtast plöntum á margvíslegan hátt en þumalfingursreglur eru oft góðar og gildar og gott að hafa á hraðbergi. Þegar þetta er haft í huga er ljóst að áburður sem inniheldur mikið magn af nitri er heppilegur til gjafar snemma sumars en þegar líður á sumarið er betra að gefa áburð sem inniheldur minna nitur en meira af hinum efnunum.

     Við kaup á tilbúnum áburði eru hlutföll áburðarefna gefin upp á umbúðunum og er það mjög heppilegt. Þannig getur maður fundið út hvaða áburður hentar best á hverjum tíma sumarsins og brugðist við öllum óskum plantnanna um uppáhaldsnæringu. Tilbúinn áburður er hins vegar ekki endilega hið eina rétta fyrir plönturnar og umhverfi þeirra. Húsdýraáburður hefur verið notaður í ræktun með mjög góðum árangri frá örófi alda og skiptir ekki öllu máli hvaða húsdýr framleiddi viðkomandi áburð, allur slíkur áburður hefur notagildi. Aðalkostur lífrænna áburðargjafa er hins vegar sá að þeir hafa mjög góð áhrif á jarðveginn og næra ekki einungis plönturnar sjálfar heldur örveru- og smádýralífið sem er plöntunum svo nauðsynlegt í jarðveginum. Tilbúinn áburður hefur ekki sömu jarðvegsbætandi áhrif en gagnast plöntunum vissulega vel til vaxtar og viðhalds.

     Verkefni dagsins eru þá þau að gefa plöntunum næringu og ekki síst að gæta þess að vökva þær hressilega af og til, betra er að vökva vel og sjaldnar en að gefa einungis litla skvettu í hvert sinn, slíkt bað nýtist þeim ekki eins vel til framtíðar.

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2008)

Posted on

Vetrarskýling garðplantna – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Veturinn er genginn í garð með tilheyrandi veðrabrigðum sem hér sunnanlands að minnsta kosti fela í sér rok og rigningu fram að morgunkaffi, frost og sól fram undir hádegi, snjókomu og ófærð fram að kaffi og skafrenning fram að kvöldmat. Þetta fjölbreytta veðurfar hefur í för með sér að ákaflega erfitt er að finna viðeigandi klæðnað, ætli maður sér að stunda útivist allan daginn. Hinn dæmigerði Íslendingur hefur því komist að þeirri niðurstöðu að best sé að láta eins og ekkert sé og klæða sig eins og veðrið komi honum ekki við. Óvíða í heiminum má finna jafn fáa íbúa lands sem klæðast til dæmis stígvélum í rigningu, þetta þykir einfaldlega púkalegur klæðnaður og óþarfi hérlendis því eins og allir vita verður veðrið með öðru sniði eftir 20 mínútur.

     Þótt Íslendingar af tegundinni Homo sapiens geti leyft sér að haga sér á þennan hátt gagnvart veðri er þetta alls ekki affarasælt fyrir garðplönturnar okkar. Margar tegundir garðplantna eru upprunnar í löndum þar sem vetrinum fylgir vetrarveður, þ.e. frost og snjór í marga mánuði en ekki sífelldir umhleypingar með tilheyrandi vindgnauði. Skynsamir garðeigendur fara því út að haustlagi og undirbúa vetrarskýlingu fyrir viðkvæmari og verðmætari garðplöntur sínar.

     Sígrænar tegundir eru fremstar í flokki þeirra tegunda sem þarf að skýla fyrir vetrarveðrum. Sérstaklega á þetta við ungar nýgróðursettar plöntur. Þessar plöntur halda laufinu allan veturinn og því er starfsemi í plöntunum allt árið, þótt þessi starfsemi sé vissulega í lágmarki yfir veturinn. Það sem helst fer illa með plönturnar er í fyrsta lagi vindurinn. Vindur eykur útgufun frá laufblöðum plantnanna og þegar jarðvegur er frosinn ná plönturnar ekki að draga upp vatn í stað þess sem gufar út. Niðurstaðan verða því skrælnuð laufblöð. Sólfar á vormánuðum hefur sams konar áhrif. Þegar sólin skín hitna laufblöðin verulega og gufa þau út vatni til að kæla sig niður. Plönturnar lenda þá í sama vandamáli við að ná upp vatni í stað þess sem gufar út. Til að draga úr skemmdum af þessum völdum er rétt að skýla plöntunum fyrir vindálagi og sól. Hér er hægt að fara ýmsar leiðir til að hlífa plöntunum og er rétt að hafa vaxtarlag plantnanna til hliðsjónar við val á vetrarskýlingu. Mikilvægt er að vetrarskýlingin sé þannig úr garði gerð að loft komist vel að plöntunum til að koma í veg fyrir sjúkdóma og eins að hún skyggi vel á laufblöð plantnanna.

     Jarðlægum plöntum eins og t.d. ýmsum einitegundum er hægt að skýla með grenigreinum. Grenigreinarnar er hægt að kaupa í knippum á haustin og eru þær einfaldlega lagðar ofan á plöntuna sem á að skýla og þess gætt að grenið hylji plöntuna að mestu. Gott er að binda grenigreinarnar fastar við plöntuna þannig að þær fjúki ekki í burtu í næsta bálviðri.

Hávaxnari plöntum er yfirleitt skýlt með striga. Slíkt vetrarskýli krefst nokkurs undirbúnings. Fyrst þarf að koma staurum í jörðina umhverfis plönturnar áður en jarðvegurinn frýs og er ágætt að huga að þessu í október-nóvember. Striginn sjálfur þarf ekki að fara strax á staurana en það er ágætt að miða við það að klára það fyrir jól. Striginn er svo festur á staurana, ýmist með því að hefta hann fastan eða negla hann með stuttum nöglum. Gæta þarf að því að striginn snerti ekki plönturnar sem hann á að skýla, þær geta þá skemmst og eins þarf strigaskýlið að ná talsvert upp fyrir plönturnar svo það nái að skyggja almennilega á þær þegar sólin fer á kreik að vorinu. Yfirleitt er ekki nauðsynlegt að loka svona skýli að ofan.

Þeir sem eru að dunda við plöntuuppeldi í sumarbústaðalóðum sínum geta skýlt litlu plöntunum sínum með hvítu plasti eins og gert er í gróðrarstöðvum. Plönturnar ætti að geya í vermireitum yfir veturinn, ofan á reitina eru settir sérstakir bogar og er plastið sett ofan á bogana og fest á vermireitinn með lista.

     Að vori þarf svo að huga að því að fjarlægja vetrarskýlingu um það leyti sem frost fer úr jörðu. Svona viðeigandi vetrarklæðnaður fyrir plöntur skilar sér margfalt í sprækari plöntum, gætum við íslenska mannfólkið lært eitthvað af þessu?

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2005)

Posted on

Lyngplöntur haustsins – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Vetur gengur í garð um þessar mundir og flestir garðeigendur farnir að huga að öðrum áhugamálum, svo sem frímerkjasöfnun, kórstarfi, fluguhnýtingum, prjónaskap og bóklestri, innandyra. Þó eru nokkrir sem láta ekki deigan síga og reyna að halda lífi og litum í görðum sínum sem allra lengst. Því miður eru lífdagar flestra sumarblóma taldir, yfirleitt þola þau ekki vel frost og leiðindaveður þannig að finna þarf aðrar tegundir plantna sem geta komið í þeirra stað.

     Sígrænar plöntur eru augljóst val og hafa margir farið út í það að setja sýprusa, lífviði, eini eða aðrar sambærilegar tegundir í kerin sín fyrir veturinn, sérstaklega á þetta við ker við innganga húsa og á sólpöllum þar sem enn er hægt að setjast út á góðviðrisdögum. Græni liturinn yljar vissulega um hjartaræturnar en til að verða verulega glaður í bragði þarf að sjálfsögðu fleiri liti (þetta er ekki skot á framsóknarmenn). Þar koma lyngplönturnar til sögunnar.

     Lyngplöntur, eða Erica, eins og ættkvíslin nefnist á latínu, eru, eins og nafn hópsins gefur til kynna, af lyngætt, Ericaceae. Innan ættkvíslarinnar eru um það bil 700 sígrænar tegundir sem blómstra litlum krukkulaga eða klukkulaga blómum af ýmsum stærðum. Blómin eru í bleikum eða hvítum litum og þau standa í klösum á endum greinanna. Blöðin geta verið allt frá því að vera dökkgræn, yfir í silfurgrá eða jafnvel heiðgul. Þau eru pínulítil og upprúlluð og minna í fljótu bragði á nálar barrplantna. Þessi lögun blaðanna hefur þau áhrif að þau þola kulda vel án þess að skemmast. Blómgunartími lyngplantna er venjulega á haustin, að vetrinum eða á vorin, mismunandi milli tegunda. Vaxtarlag lyngplantna er fjölbreytt, allt frá lágvöxnum runnum yfir í runna sem geta náð allt að 6 m hæð.

     Notagildi lyngplantna er fjölbreytt. Erlendis eru vetrarblómstrandi lyngplöntur gjarnan notaðar sem þekjuplöntur í svonefndum vetrargörðum. Þar er raðað saman mismunandi tegundum lyngplantna og er bæði horft á blómlit, blaðlit og blómgunartíma við niðurröðunina því mikilvægt er að slíkir garðar séu fallegir allt árið. Ýmist eru lyngplönturnar notaðar einar sér, með öðrum tegundum af lyngættinni eða sígrænum tegundum af ýmsu tagi. Hérlendis eru lyngplöntur aðallega notaðar í ker og potta, enn sem komið er en full ástæða er til að prófa sig áfram með það að nota þær í beð.

     Lyngplöntur þrífast yfirleitt best í frekar súrum og vel framræstum jarðvegi en vetrarblómstrandi lyngplöntur er hægt að rækta í venjulegri mold, það þarf ekki að eltast sérstaklega við súru moldina. Lyngplönturnar þurfa bjartan vaxtarstað og þola vel vind en mikilvægt er að gæta þess að þær þorni ekki upp, það vill oft gleymast yfir veturinn að plöntur þurfi vökvun. Strax eftir útplöntun þarf að vökva plönturnar vel og svo er rétt að hafa vökvunina í huga þegar frostlaust er yfir veturinn. Yfir blómgunartímann er einnig gott að vövka plönturnar með daufri áburðarblöndu á um það bil fjögurra vikna fresti, það tryggir að þær þrífast vel og þola betur vetrarveðrið.

     Á Íslandi hafa einkum verið notaðar þrjár tegundir lyngplantna; roðalyng, Erica cinerea, vorlyng, Erica carnea og klukkulyng, Erica x darleyensis, allt lágvaxnar tegundir. Plönturnar eru yfirleitt fluttar inn blómstrandi síðla sumars og seldar í gróðrarstöðvum og blómaverslunum á haustin. Mörg mismunandi yrki eru til af viðkomandi tegundum og smám saman er að koma reynsla á það hvaða yrki koma best út. Ein af vinsælli lyngplöntunum er vorlyng ‘Winter Beauty’ sem er lágvaxið lyng með dökkgrænt lauf og skærbleik klukkulaga blóm og blómstrar það að vori til, yfirleitt í mars-maí.

     Íslenska beitilyngið, Calluna vulgaris, er náskyldur ættingi lyngplantnanna og fást einnig mörg yrki af innfluttu beitilyngi. Eins og íslenski ættinginn blómstra innfluttu beitilyngsyrkin frá því á miðju sumri og langt fram á haust, jafnvel fram yfir jól þegar haustið er milt.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2005)

Posted on

Blómgunartími túlípana – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Haustið er tími haustlaukanna og þótt úti sé kuldakast með tilheyrandi snjókomu, skafrenningi og frosti er rétt að fara að huga að undirbúningi vorsins, ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Með svolítilli skipulagningu og útsjónarsemi getur maður tryggt sér blómstrandi haustlauka í garðinum sínum frá því snemma í mars langt fram á sumar. Þær tegundir sem fyrstar skjóta upp kollinum eru gjarnan vetrargosi og krókusar en þegar líður á vorið skjóta hávaxnari og skrautlegri laukategundir upp kollinum og auka á sumartilfinninguna.

     Túlípanar byrja almennt ekki að blómstra hérlendis fyrr en í apríl, margar tegundir blómstra í maí og sumar standa vel fram í júní. Tíðarfarið að vorinu hefur þó alltaf nokkur áhrif á blómgunina þannig að í mildu og hlýju vori fara plöntur almennt fyrr af stað og eru túlípanar þar engin undantekning á. Gróðursetning túlípana, eins og annarra lauka, fer fram að hausti til og er allt í lagi þótt það dragist aðeins fram eftir hausti, laukarnir þola mjög illa bleytu og gott að bíða með gróðursetninguna aðeins fram yfir verstu haustrigningarnar. Ef laukarnir lenda í mikilli bleytu geta þeir morknað eða orðið sveppasjúkdómum að bráð.

     Blómlitir túlípana eru ákaflega skrautlegir og er hægt að finna flesta liti nema bláan, þó eru til ákaflega fallegir fjólubláir túlípanar. Lengi hafa menn reynt að kynbæta svartan túlípana og eru til nokkur yrki sem eru hérum bil alveg svört. Galdurinn við valið á túlípönum í garða er svo auðvitað sá að velja saman tegundir og yrki þannig að plönturnar skiptist á að vera í blóma og blómgunartíminn nái þannig frá því snemma í apríl langt fram á sumar. Það ætti að vera hægur vandi því garðatúlípönum er skipt í flokka sem meðal annars taka mið af blómgunartíma, þótt aðalflokkunaratriðið séu blómin. Blómgunartíminn flokkast þannig að snemmblómstrandi túlípanar byrja að blómstra í apríl og standa eitthvað fram í maí, miðblómstrandi túlípanar byrja að blómstra tiltölulega snemma í maí og standa út maí og síðblómstrandi byrja að blómstra seint í maí og standa fram í júní.

Flokkar túlípana eru sem hér segir:

 • Einfaldir snemmblómstrandi túlípanar: Einföld skálarlaga blóm í ýmsum litum, blómin stundum skellótt. Hæð þessara túlípana er 15-45 cm.
 • Ofkrýndir snemmblómstrandi túlípanar: Ofkrýnd blóm, blómin stundum skellótt. Hæðin 30-40 cm. Þessir túlípanar eru miðblómstrandi þótt nafnið gefið annað til kynna.
 • Tromp túlípanar: Einföld skálarlaga blóm, ýmist einföld eða skellótt. Hæðin 35-60 cm. Mið- til síðblómstrandi.
 • Darwinstúlípanar: Einföld, egglaga blóm, mjög fjölbreyttir blómlitir, einlitir eða ýmsar útgáfur af marglitum blómum. Hæðin 50-70 cm. Mið- til síðblómstrandi.
 • Einfaldir síðblómstrandi túlípanar: Einföld, skálarlaga til stauplaga blóm (stauplaga blóm eru þannig að krónublöðin sveigjast út til hliðanna efst uppi), margir litir. Hæðin 45-75 cm. Síðblómstrandi.
 • Liljutúlípanar: Einföld, áberandi stauplaga blóm, margir litir, oft tvílitir. Hæðin 45-65 cm. Síðblómstrandi.
 • Kögurtúlípanar: Einföld skállaga blóm með áberandi kögruð krónublöð í ýmsum litum. Hæðin 35-65 cm. Síðblómstrandi.
 • Grænblómstrandi túlípanar: Einföld skálarlaga blóm sem eru aðallega græn á litinn en blómin sprengd með öðrum litum, oft mjög skrautlegir. Hæðin 10-40 cm. Síðblómstrandi.
 • Rembrandt túlípanar: Einföld skálarlaga blóm í hvítum, gulum eða rauðum litum sem eru sprengdir með ýmsum öðrum litum, sjaldnast grænum. Þessi litadýrð er tilkomin vegna vírusasýkingar. Hæðin 45-65 cm. Síðblómstrandi.
 • Páfagaukatúlípanar: Einföld skálarlaga blóm, mjög stór í ýmsum litum, oft sprengdir. Krónublöðin mjög flipótt eða kögruð. Hæðin 35-65 cm. Síðblómstrandi.
 • Ofkrýndir síðblómstrandi túlípanar: Ofkrýnd skállaga blóm í mörgum litum. Hæðin 10-40 cm. Síðblómstrandi.
 • Kaupmannatúlípanar: Afbrigði og yrki af kaupmannatúlípana, Tulipa kaufmanniana. Einföld skállaga blóm, oft marglit. Hæðin 15-30 cm. Snemm- til miðblómstrandi.
 • Eldtúlípanar: Afbrigði af eldtúlípana, Tulipa fosteriana. Einföld skállaga blóm, yfirleitt einlit en stundum skellótt. Hæðin 20-65 cm. Miðblómstrandi.
 • Dílatúlípanar. Afbrigði af dílatúlípana, Tulipa greigii. Einföld skállaga blóm, mjög stór, yfirleitt einlit en stundum skellótt. Áberandi skellótt laufblöð. Hæðin 15-30 cm. Snemm- til miðblómstrandi.
 • Aðrir túlípanar: Í þennan flokk falla túlípanar sem ekki komast í hina flokkana, til dæmis margblóma túlípanar sem bera fleiri en eitt blóm á hverjum stöngli.

Nú er bara um að gera að fara að púsla saman túlípanayrkjum til að framkalla stórkostlegt litaspil í vor.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2005)

Posted on

Gróðursetning plantna á haustin – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Það er alltaf jafn ótrúlegt hvað sumarið líður hratt. Í gær var vor en í dag er komið haust með öllu tilheyrandi. Regndroparnir hætta að falla lóðrétt til jarðar og með dálítilli hjálp frá Kára (ekki Stefánssyni) virðast þeir hreinlega komast á sporbaug umhverfis jörðu. Trén sem í gær stóðu í fullum blóma, fagurgræn og gljáandi í sólskininu, berjast í dag til og frá í vindinum. Laufblöðin taka óðum á sig hlýlega haustliti enda veitir okkur ekki af hlýju veganesti fyrir veturinn. Það er því ekki að undra að útiverustundum fækkar, mannfólkið leitar skjóls innandyra og hugsunin um plöntur, gróðursetningu og annað er viðkemur ræktun færist æ aftar í forgangsröðina.

Ef vel er að gáð má þó sjá, hér og þar um bæi landsins, nokkra sérvitringa í óða önn við það að gróðursetja ýmiss konar plöntur. Þarna eru yfirleitt á ferð garðyrkjufræðingar því þeir vita sem er, að haustið er einn besti tími ársins til útplöntunar.

     Vaxtarferill plantna er í stuttu máli þannig: Um leið og frost fer úr jörðu á vorin hefst rótavöxtur af fullum krafti í plöntunum. Í kjölfar þessa rótavaxtartímabils laufgast plönturnar og lengdarvöxtur greina og stöngla nær hámarki. Á meðan á lengdarvexti stöngla og greina stendur er rótavöxtur í lágmarki enda hafa ræturnar nóg að gera við það að afla yfirbyggingu vatns og steinefna úr jarðveginum. Lengdarvexti yfirbyggingarinnar lýkur venjulega í ágúst og fer þá í hönd annað tímabil rótavaxtar. Ræturnar halda áfram að vaxa fram á haustið. Sýnt hefur verið fram á það í rannsóknum að rætur halda áfram að vaxa þar til hitastigið í jarðveginum fer niður í um 5°C. Eftir það hægir verulega á vextinum og plantan leggst endanlega í dvala. Rótavöxturinn getur þannig haldið áfram löngu eftir að allt lauf er fallið af plöntunni. Ekki er vitað með vissu hversu lengi rætur vaxa fram eftir hausti á Íslandi en í meðalári ættu þær að ná að vaxa fram í október-nóvember. Plöntur sem gróðursettar eru á haustin ná því að festa sig dálítið í sessi fyrir veturinn.

     Kostir þess að gróðursetja plöntur á haustin eru margvíslegir. Plönturnar ná að nýta vaxtartímabilið árið eftir gróðursetningu til fulls. Plöntur vakna til lífsins snemma á vorin, oft í lok apríl-byrjun maí en garðeigendur fara sjaldnast að huga að útplöntun fyrr en upp úr miðjum maí. Þannig græðir plantan að minnsta kosti tvær vikur auk þess sem hún hefur forskot á rótavöxtinn frá því um haustið. Haustin eru yfirleitt fremur votviðrasöm þannig að ekki þarf að hafa áhyggjur af vökvun nýgróðursettra plantna. Veðráttan á suðvesturhorninu í sumar færði okkur heim sanninn um það að við getum átt von á þurrkatíð enda fundu margir fyrir því að þeir þurftu að vökva mikið meira en venjulega.

     Plöntur í pottum er hægt að gróðursetja hvenær sem er, svo framarlega sem hægt er að koma þeim niður í jörðina fyrir frosti. Berróta plöntur og hnausplöntur er best að eiga við á vorin áður en þær laufgast og aftur á haustin við lauffall. Gott er að miða við það að þegar plöntur fara að fá haustlit er tímabært að gróðursetja þær á haustin. Berróta plöntur sem gróðursettar eru á miðju sumri eru fulllaufgaðar og því algengt að þær slappist töluvert fyrst eftir gróðursetningu, rótakerfið annar ekki vatnseftirspurninni. Þá þarf að vökva og vökva en þetta vandamál er ekki til staðar ef plönturnar eru gróðursettar á haustin.

     Áburðargjöf við haustplöntun ætti að takmarka við lífrænan áburð og kalk, tilbúinn áburður gerir lítið gagn yfir veturinn og skolast bara í burtu. Lífræni áburðurinn og kalkið nýtast hins vegar plöntunum smám saman eftir því sem þau brotna niður auk þess sem þau hafa jákvæð áhrif á byggingu jarðvegsins.

     Að endingu er rétt að benda á það að í flestum gróðrarstöðvum er að finna ágætis úrval af trjám og runnum á haustin og má fullyrða það að viðskiptavinir eru kærkomin tilbreyting í stöðvunum á þessum árstíma.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 1998)

Posted on

Illgresi – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Sumum kann nú að finnast það heldur seint í rassinn gripið að fjalla um illgresi svona rétt undir haustið, eftir allt puðið og púlið sem hefur farið í þennan ófögnuð í görðum í sumar. Fyrir þessu er þó góð og gild ástæða. Illgresi er ekki eitthvað sem hreinlega hættir að hrella garðeigendur þegar fyrstu haustlægðirnar ganga í garð, aldeilis ekki. Garðvinna er endalaus barátta við illgresi, með öllum tiltækum ráðum.

     Hvað er illgresi? Illgresi eru í raun og veru allar plöntur sem vaxa á stöðum þar sem þær eiga ekki að vera. Þessar plöntur geta verið af mörgum tegundum en allar eiga þær það sammerkt að taka til sín næringu, vatn og birtu frá þeim plöntum sem ætlunin er að rækta á viðkomandi stað. Þessi skilgreining segir okkur að í hópi illgresistegunda eru ekki bara þær tegundir sem koma fyrst upp í hugann, eins og túnfífill, skriðsóley, haugarfi eða skurfa heldur líka ýmsar trjátegundir sem geta verið fullduglegar við að dreifa sér, eins og margar víðitegundir og rifstegundir. Í grónum og fallegum garði einum í miðborg Reykjavíkur var garðahlynur til dæmis orðinn að hálfgerðri plágu því hann sáði sér óhóflega út um allan garð. Þetta skýtur dálítið skökku við því flestir garðeigendur væru nú til í að hafa fallegan hlyn í garðinum hjá sér en kannski eru nokkur hundruð hlynir í einum litlum garði fullmikið af hinu góða.

     Í gegnum tíðina hafa menn reynt að finna alls konar endanlegar lausnir á illgresisvandamálinu. Elsta aðferðin við illgresishreinsun er sú að nota hreinlega guðsgafflana við arfatínsluna og verður nú að segjast eins og er, að fáar aðferðir eru eins gagnlegar, þótt þessi aðferð sé frekar tímafrek, fari illa með hnén og bakið og geti gert garðeigandann úrillan og pirraðan. Næsta skref er að nota lítil garðáhöld til að auðvelda sér vinnuna. Lítil handskófla, klóra og fíflajárn eru sérlega notadrjúg áhöld því oft getur verið erfitt að losa um rætur illgresisplantnanna en mikilvægt er að ná þessum plöntum upp með rótum til að koma í veg fyrir að þær geti vaxið aftur upp þegar garðeigandinn snýr við þeim bakinu. Þessi litlu áhöld koma hins vegar ekki í veg fyrir bakverki og stirð hné.

     Arfasköfur eru bráðsniðug áhöld að mörgu leyti. Þær gera garðeigandanum kleift að vera uppréttur við illgresishreinsunina og verður það að teljast mikill kostur. Arfaskafan er notuð til þess að skafa illgresið af yfirborði jarðvegsins, plöntuleifarnar eru svo látnar liggja ofan á jarðveginum þar til þær skrælna og eru þá fjarlægðar. Helsti gallinn við arfasköfur er að erfitt getur verið að ná illgresinu með rótum auk þess sem það getur náð að fella fræ, ef plönturnar eru komnar nægilega langt í þroska.

     Aðferðirnar sem hér hafa verið nefndar eru allar þess eðlis að þær skaða engan nema plönturnar sem verið er að glíma við og jú kannski garðeigandann sjálfan á baki og hnjám. Fleiri aðferðir í þessum dúr eru til dæmis þær að hella sjóðheitu vatni yfir illgresisplönturnar og drepa þær þannig, plönturnar verða gular og visna og auðvelt að fjarlægja þær. Í þessum dúr er einnig sú aðferð að nota gasloga til að brenna illgresið í burtu en það er aðferð sem er kannski ekki eins einföld í framkvæmd, það eru ekki allir sem eiga gasbrennara í eldhússkápnum heima hjá sér.

     Síðastar og sístar eru þær aðferðir sem byggja á notkun eiturefna gegn illgresinu. Þegar garðeigendur kjósa að nota slíkar aðferðir er algert lykilatriði að hafa samband við garðyrkjufræðing og fá greinargóðar upplýsingar um það hvernig efnin skuli notuð. Rétt er að viðhafa fyllstu öryggisráðstafanir við slíkar aðgerðir.

     Illgresisplöntur eru margar hverjar ákaflega duglegar við að mynda fræ. Þess vegna er mjög mikilvægt að reyna að ná að fjarlægja þær áður en þær ná að mynda fræið. Plönturnar geta spírar mjög snemma á vorin og þess vegna er mikilvægt að reyna að fjarlægja eins mikið af illgresisplöntum fyrir veturinn og hægt er, það minnkar vinnuna næsta vor.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2005)

Posted on

Laukur vikunnar – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Blóm vikunnar er laukur. Í ættkvísl lauka eru margar merkar krydd- og lækningajurtir sem hafa verið nýttar sem slíkar frá örófi alda. Í gegnum tíðina hafa menn litið svo á að því sterkari sem laukurinn er, því virkari er hann gegn sjúkdómum og meinsemdum. Laukur af hvers konar tagi er notaður í matargerð um allan heim og vegna þess hversu ódýr hann er yfirleitt hafa flestir efni á að nýta sér hann, reyndar var matlaukur soðinn í saltseyði aðalfæða fátækasta fólksins í Mið-Asíu vestur um til Miðjarðarhafsins í gamla daga. Sami matur var á borðum egypsku verkamannanna sem byggðu pýramídana forðum, auk þess sem þeir fengu vænan skammt af hvítlauk daglega. Maður getur nú rétt gert sér í hugarlund ilminn sem hefur fylgt þessum mönnum eftir daglangt strit í hitanum.

     Matlaukur, Allium cepa, hefur verið ræktaður um þúsundir ára. Fyrstu heimildir um ræktun hans eru frá því um 4000 fyrir Krist. Ekki er vitað um uppruna matlauksins því hann finnst hvergi villtur í dag. Þó er talið líklegt að upprunaleg heimkynni hans hafi verið í Asíu. Sennilega hefur ræktun lauksins dreifst frá Asíu vestur um til Indlands, Mesópótamíu og Egyptalands og álíta menn að Rómverjar hafi kynnt laukinn fyrir öðrum Evrópubúum. Enska heiti lauksins, onion er dregið af latneska orðinu unio sem þýðir ein stór perla og vísar þar til verðmætis lauksins, hvort sem er sem matjurt eða lækningajurt.

     Í dag er matlaukur ein af algengustu matjurtum heims og mörg yrki af honum í ræktun. Hann getur verið ljós að lit, brúnleitur eða rauðleitur og í mismunandi stærðum. Sem lækningajurt er laukurinn notaður ferskur. Hann inniheldur meðal annars lífræn brennisteinssambönd sem eru sótthreinsandi og virka vel gegn bakteríum. Enn fremur má finna mikilvægar olíur, sykrur, vítamín og steinefni í lauknum. Hann er gjarnan notaður við sýkingu í öndunarvegi og meltingarvegi. Því sterkari sem laukurinn er því betur virkar hann sem lækningajurt en jafnframt er erfiðara að vinna með hann því hann gefur frá sér efni sem græta jafnvel gallhörðustu húsmæður.

     Hvítlaukur, Allium sativum hefur að sama skapi verið ræktaður óralengi og er líklega upprunninn á Indlandi eða í Mið-Asíu. Hann hefur verið notaður sem matjurt, kryddjurt og lækningajurt og hafa menn haft mikla trú á styrk hvítlauksins. Grikkir og Rómverjar trúðu því að hvítlaukur væri heilög planta og gáfu hermönnum sínum daglega skammt af hvítlauk. Hann var talinn hafa hressandi og endurnærandi eiginleika og hermennirnir því sérlega sprækir á meðan á hernaði stóð. Hvítlaukurinn var talinn hafa ýmiss konar yfirnáttúrulega hæfileika, meðal annars stóðu menn í þeirri trú að hvítlaukur verndaði gegn svartagaldri og vampírum. Hvítlaukur er mjög vinsæll í dag og notaður í hvers konar matargerð. Hann er einnig notaður til lækninga, til dæmis við sýkingu í meltingarfærum, kransæðastíflu og hjálpar við meltingu. Þekkt er að þeir sem borða hvítlauk mjög reglulega fái síður kvef en einnig vill loða við þá sem borða hvítlauk mjög reglulega að þeir ilma öðruvísi. Það er spurning hvað maður vill leggja á sig mikla einangrun frá mannlegum samskiptum til þess eins að kvefast ekki…

     Hvítlaukur er mjög auðveldur í ræktun hérlendis og er best að setja niður útsæðislauka á haustin. Þeir bæta við sig nýjum laukum og eru tilbúnir næsta haust. Áhugasamir félagar í matjurtaklúbb Garðyrkjufélags Íslands geta haft samband við félagið og fengið hvítlauksútsæði þar til prufu. Ef menn hafa ekki áhuga á hvítlauk er um að gera að skoða laukalistann hjá félaginu og finna sér annars konar lauka við hæfi.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2006)

Posted on

Ber allt árið – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Þeir sem hafa einhvern tíma komið að matargerð á Íslandi þekkja eflaust matreiðslubók Helgu Sigurðardóttur. Helga var ákaflega dugleg við að kynna matargerðarlistina fyrir landanum og eitt af því sem hún lagði mikla áherslu á var að kynna notkun grænmetis og ávaxta fyrir almenningi. Íslendingar voru almennt ekki mikið fyrir aðra fæðu en kjöt og fisk, kartöflur og rófur áttu reyndar upp á pallborðið hjá okkur og voru í mörgum tilfellum aðaluppistaðan í fæðinu en aðrar plöntuafurðir slógu ekki í gegn fyrr en seint á síðustu öld. Helga átti ugglaust sinn þátt í því að kynna fæðutegundir eins og tómata og gúrkur fyrir landanum og hún skrifaði bók sem náði talsverðri útbreiðslu, bókin nefndist Grænmeti og ber allt árið en var í daglegu tali gárunga nefnd Ber allt árið. Það er einmitt viðfangsefni þessa greinarkorns, notkun á berjum.

     Ýmsar tegundir berja hafa verið ákaflega vinsælar í gegnum tíðina hérlendis. Þar má nefna innlendu tegundirnar bláber, krækiber, hrútaber og jarðarber og af innfluttum tegundum hafa sólber og rifsber notið mestra vinsælda og stikilsber hafa verið nokkuð notuð af þeim sem setja illvíga gaddana ekki fyrir sig. Eins og lýðum er ljóst eru mikið fleiri tegundir trjáa og runna sem framleiða aragrúa berja síðla sumars. Í þeim flokki eru margar tegundir sem mætti nýta miklu meira en gert er, til dæmis til sultugerðar eða í líkjöra. Rétt er að taka fram að ekki er hægt að nota allar tegundir berja í sultu, til er tegundir sem eru ákaflega eitraðar og því betra að sneiða hjá þeim (nema fólk sulti í einhverjum annarlegum tilgangi). Ber töfratrjáa, Daphne mezereum, eru til dæmis mjög eitruð og talað um að þurfi einungis 10-15 ber til að drepa fullorðinn karlmann. Þau eru hins vegar svo skelfilega vond á bragðið að enginn heilvita maður leggur sér þau til munns nema einu sinni.

     Innan rósaættarinnar má finna ákaflega margar góðar tegundir sem menn hafa nýtt í gegnum tíðina. Þar má nefna ýmsar ávaxtategundir eins og epli, perur, ferskjur, apríkósur og fleira í þeim dúr. Einnig eru þar tveir ágætir hópar plantna sem þrífast með miklum ágætum á Íslandi og mætti nýta mikið meira en gert er en það eru rósir og reyniviður.

Aldin rósa nefnast nýpur og eru þær ákaflega C-vítamínríkar. Raunar hefur því verið haldið fram að upphaflega hafi rósir fyrst og fremst verið ræktaðar vegna aldinanna. Margar rósategundir framleiða mikið magn af nýpum hérlendis og alveg tilvalið að nota þær í sultur. Bragðið af hráum nýpum minnir mikið á appelsínur. Þegar nýpur eru notaðar í sultur þarf að hreinsa fræin úr nýpunum, þau eru frekar stór og hörð og leiðinlegt að hafa þau með í sultuna. Rósasulta er hins vegar ákaflega góð og margar uppskriftir til af henni.

     Reyniber eru til í mörgum litum og hafa menn lengi vel notað hin rauðu ber ilmreynis í sultur sem passa vel með villibráð og svínakjöti. Koparreynir og kasmírreynir eru hins vegar tegundir sem koma með hvít ber og eru þau ber alls ekki síðri í sultugerð en ilmreyniberin. Það skemmtilega við þessi hvítu ber er að sultan verður bleik eða rauð, sem kemur svolítið á óvart.

     Reyniberjasulta á það til að vera svolítið römm ef maður notar einungis reyniber í sultuna og til að mýkja bragðið og gera það mildara er gott að nota epli til allt að helminga á móti berjunum, þegar þau eru soðin niður. Uppskrift að svona sultu gæti verið 500 g reyniber, 500 g epli og 500-750 g sykur, allt eftir því hvað sultan á að vera sæt. Ber og epli soðin saman í svolitla stund í potti með ca botnfylli af vatni, gumsið svo síað í gegnum klút til að losna við hratið. Safinn er svo settur aftur í pott með sykri og soðinn þar til sykurinn hefur leyst upp. Stundum þarf að bæta hleypiefni saman við en ef maður sýður berjaklasana heila með eplunum fæst oft svolítið hleypiefni úr þeim. Hlaupið er svo sett á krukkur og þeim lokað strax. Nú er bara um að gera að prófa sig áfram með sultun á hvítum berjum.

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007)

Posted on

Skipting fjölærra plantna – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Það er mikill misskilningur að fyrstu haustlitirnir boði endalok garðvinnunnar það árið. Haustið hefur í för með sér ákveðin verk í garðinum, eins og reyndar allar aðrar árstíðir. Á þessum tíma þarf að setja niður haustlaukana og er mikilvægt að gefa sér góðan tíma í að velja saman blómlit, blómgunartíma og mismunandi tegundir til að vorið verði nú sem allra blómlegast. Garðyrkjumenn keppast við að gróðursetja plöntur á haustin enda er þetta mjög heppilegur tími í slík störf. Ekki þarf að hafa áhyggjur af því að plönturnar ofþorni, haustlægðirnar sjá alfarið um vökvunina og þar sem plönturnar eru komnar í dvala er lítil hætta á skakkaföllum. Eina vandamálið getur verið frostlyfting því plönturnar ná ekki alveg að festa rætur fyrir veturinn en þá er nú lítið mál að bregða undir sig betri fætinum í apríl og rétta greyin við.

     Eitt þeirra haustverka sem hafa mætti meira í hávegum er skipting fjölærra plantna. Fjölærar plöntur eru þeirrar náttúru að þegar vetur gengur í garð fella þær blöð og stöngla og liggja í dvala yfir veturinn. Þær geyma forða í rótum sínum yfir veturinn og ná þannig að vaxa upp að nýju að vori. Eftir því sem plönturnar stækka þá breiða þær úr sér, oftast út frá miðjunni. Með aldrinum deyr síðan elsti hluti plöntunnar og þá myndast eins konar hreiður í plöntunni og þykir það ekki sérlega lekkert. Þegar komið er á það stig þarf að taka plöntuna upp, skipta henni niður í nokkra hluta og gróðursetja einn þeirra aftur á sama stað, eða öðrum, allt eftir hentugleika og óskum viðkomandi garðeiganda. Þetta er alveg tilvalið að framkvæma að hausti til, svona rétt áður en plantan hefur endanlega fellt stönglana og blöðin og enn er hægt að greina hvaða tegund er um að ræða. Plantan hefur þannig náð að gleðja augað allt sumarið og gengur nú í endurnýjun lífdaga fyrir næsta sumar.

     Skipting fjölærra plantna er ekki flókið verkefni og tiltölulega óvanir garðeigendur geta framkvæmt þetta sjálfir, án vandræða. Til verksins þarf vel handklippur, beitta stunguskóflu, svartan plastpoka (liturinn er ekki skilyrði, aðallega stærðin), gott er að hafa tvo stungugaffla en ekki nauðsynlegt og síðast en ekki síst beittan hníf. Framkvæmdin er á þá leið að fyrst eru langir blómstönglar klipptir niður með handklippunum. Svarti plastpokinn er breiddur á stétt eða gras til að hlífa fletinum við moldinni. Því næst er stungið í kringum plöntuna með stunguskóflunni og hnausinn tekinn upp og settur á plastpokann. Þá er tvennt í stöðunni. Annars vegar er hægt að skipta hnausnum upp með því að stinga hann í sundur með stunguskóflunni. Með þessu er verið að skera á margar rætur og því kjósa sumir að nota heldur stungugafflana við þetta verk. Þá er göfflunum stungið niður þétt hvor við annan í miðjan hnausinn þannig að þeir snúa bökum saman og eru báðir uppréttir. Þeir eru síðan glenntir í sundur og hnausnum skipt þannig upp. Í sumum tilfellum geta ræturnar verið erfiðar viðureignar og þá er gott að grípa til hnífsins og skera á svoleiðis vandræðagripi. Eftir að skiptingin hefur farið fram velur garðeigandinn þann hluta sem hann vill gróðursetja aftur í beðið og hinum hlutunum er fargar eða komið í fóstur hjá öðrum garðeigendum.

     Gróðursetningin fer þannig fram að grafin er góð hola, lífrænn áburður settur í botninn á holunni og honum blandað vel saman við moldina. Þunnt lag af mold fer ofan á áburðarblönduna og þá má koma plöntunni fyrir. Síðan er mold mokað að plöntunni og þess gætt að hún standi álíka djúpt og hún gerði áður. Moldin er svo þjöppuð varlega og að lokum er vökvað vel yfir. Þessa aðferð má nota á flestar fjölærar plöntur. Nú er bara að skerpa stunguskófluna, hnífinn og handklippurnar og stökkva út í garð milli rigningarskúranna. Einnig má líta á þetta verkefni sem ágætis leið til að halda sér í formi og kostar það töluvert minna en líkamsræktarkortið…

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2005)