Posted on

Önnur garðaskoðun sumarsins

Svala ætlar að opna fyrir okkur garðinn sinn að Kirkjuvegi 19, Selfossi (rétt við Miðbæinn) sunnudaginn 16.júlí frá kl. 15:00-18:00. 
Um er að ræða garð þar sem aldar eru býflugur (Apis mellifera) og ræktun tekur að einhverju leyti mið af því hvað hentar býflugum. 🌼🐝
Helst fer ekkert úr garðinum, allt er endurnýtt. Molta og afrakstur Bokashi er notað í ræktun. Nokkur haugbeð eru í garðinum. A.m.k. 4 tegundir af sírenum, fleder (svartyllir), toppar og japanskir hlynir. Lággróður svo sem jarðaber, hnoðrar og dvergavör nýtast í beðum ásamt kurli til að verjast arfa.

Verið velkomin.

Posted on

Þakkir fyrir garðaheimsókn

Við viljum þakka hjónunum Ásu og Agli sem og Gunnhildi og Árna fyrir frábærar móttökur þann 4. júlí á fyrstu garðaopnun sumarsins.

Við garðáhugafólk bættum helling í fróðleiksbankann en garðarnir voru báðir til fyrirmyndar og reynslusögur fylgdu því sem fyrir augu bar.

Hvílíkir garðasnillingar og listamenn👌🏻🍀🌼

Vonandi eru fleiri fús til að opna garða sína með hækkandi sól, það er svo gaman að deila.  

Hafið samband við GÍ eða Hjördísi Rögn á FB🌸

Posted on

Garðaskoðun og sumarferð

GARÐAHEIMSÓKNIR OG SUMARFERÐ🌼😁☀️

Fyrstu garðaheimsóknir sumarsins verða í næstu viku, þriðjudaginn 4.júlí
Kl. 15 – 17: Ása og Egill opna garðinn sinn fyrir félögum GÍ að Þrastanesi 8, Garðabæ🙏🏻
Kl. 17 – 19: Gunnhildur og Árni taka á móti okkur að Kambsvegi 10, Reykjavík🙏🏻
Við þökkum þeim gestrisnina og vonum að fleiri opni garða sína í kjölfarið(hafið endilega samband við GÍ eða beint við @Hjördís Rögn á FB)

Takið svo 24.júlí frá fyrir sumarferðina okkar sem verður nánar auglýst fljótlega.

Posted on

Frábær plöntuskiptadagur

Takk fyrir komuna og samveruna🌼🐝🌻 Vel heppnaður plöntuskiptadagur að baki við Bókasafn Kópavogs. Dyggir félagar mættu tímanlega, sumir til að skipta en aðrir til að gefa plöntur úr garðinum. Bæði inni og útiplöntur voru í boði og plöntuáhugafólk skemmti sér við að greina sjálfsánar plöntur og “óþekk” sáningareintök😁

Posted on

Fréttir úr fræbanka

Gentiana chinensis - Kínavöndur

Kæru félagar

Fræbankinn verður lokaður frá 1.júní til 31. ágúst.

Við í frænefndinni treystum á ykkur, góðir félagar, að vera dugleg að safna fræi síðsumars og í haust.  Það er ekki hægt að taka út úr fræbankanum nema einhver leggi inn!!  Hafir þú ekki safnað fræi fyrr getum við fullvissað þig um að það er eitthvað sem allir eiga auðvelt með.  Það er skemmtilegt að hugsa til þess að fræ frá þér sé að blómstra í öðrum görðum.   
Það hafa margar tegundir klárast í fræbankanum og viljum við því ítreka hvatningu til ykkar félagsmanna að bregðast vel við og vera dugleg að senda okkur fræ í haust.

Posted on

Grenndargarðar eru lausir til umsóknar 

Garðyrkjufélagið býður matjurtagarða til útleigu í Gorvík í Grafarvogi og Smálöndum við Stekkjarbakka.
Upplagt tækifæri til að rækta sitt eigið grænmeti í matinn
Garðarnir í Gorvík eru plægðir árlega ef leigutakar vilja áður en þeim er úthlutað og þeir sem höfðu garð síðasta sumar hafa forgang.
Garðar við Stekkjarbakka eru ekki plægðir og býður upp á möguleika á að rækta fjölærar matjurtir.
Nokkrir garðar eru lausir til úthlutunar í garðlöndunum og verð fyrir 25m2 skika er 7.500,-

Almennar fyrirspurnir skal senda á gardurinn@gardurinn.is eða á tengilið fyrir hvort garðaland fyrir sig. 

Tengiliðir:
Gorvík Erna Rós, tölvupóstur: gorvik.grafarvogi@gmail.com , sími: 847-0543 
Smálönd Helga , tölvupóstur: helgahusfru@gmail.com, sími: 867 7820 

Posted on

Plöntuskiptadagur, vor 2023

Laugardaginn 3.júní kl. 12-15 ætlum við hjá Garðyrkjufélagi Íslands að halda okkar árlega plöntuskiptadag við Bókasafn Kópavogs. Bókasafnið er opið, næg bílastæði og kaffihús í grenndinni. Flestar plöntur hafa gott af því að vera skipt reglulega, stingum saman nefjum og deilum  okkar uppáhalds.

Bestu blómakveðjur frá GÍ

Posted on

Grænasta grasið (með Zoom-hlekk)

Viðburður í sal GÍ þriðjudaginn 16. maí kl. 20:00.
Bjarni Þór Hannesson grasagúrú og íþróttavallayfirborðstæknifræðingur mun fræða okkur í eitt skipti fyrir öll, hvernig við eigum að snúa okkur í því að ná grasflötinni fallegri og heilbrigðri. Þetta er spurning sem skýtur alltaf upp kollinum á hverju vori. Hvernig losnar maður við mosann? Á ég að kalka? Hver er besti áburðurinn?
Kaffi og kruðerí í boði, garðyrkjuspjall og bókasafnið opið.

Viðburðinum verður streymt fyrir þá sem ekki eiga heimangengt
Vefslóð:

https://us06web.zoom.us/j/85990282550?pwd=K3Q5N0ROTTVjL3A0alNBWHdVaERSUT09
Meeting ID: 859 9028 2550
Passcode: 606283

Posted on

Afhending kartöfluútsæðis

Við fáum útsæðið með vöruflutningafyrirtækinu föstudaginn 28. apríl, stefnt er á pökkun og merkingar á laugardeginum og svo verður afhendingardagur 1. maí í sal GÍ að Síðumúla 1. Þar verður opið frá 10:00 til 14:00 og er mælst til þess að fólk sæki útsæðið á þeim tíma, eða sendi einhvern fyrir sig.

Það virðist sem örfáir aukaskammtar berist af yrkjunum Helgu og Kónga bláum. Þeir sem misstu af frestinum eða langar í nokkrar aukakartöflur geta komið við í Síðumúlanum á mánudag. Verðið á aukaskömmtunum er sem fyrr: Helga á 500 og Kónga bláar á 600.