Einhvern veginn kemur það manni alltaf jafn mikið á óvart að jólin séu rétt handan við hornið, þau sem eru nýliðin. Manni finnst eins og síðustu jól hafi verið í gær, jafnvel þótt skynsemin segi manni að frá síðustu jólum hafi verið haldið upp á páskana, landsmenn komist óvenjumikið á skíði síðasta vetur, sumarið verið óvenju sólríkt og hlýtt og haustið eitt samfellt bálviðri. Samt voru jólin eiginlega í gær.
Það eru ákveðnir kostir fylgjandi þessum árstíma sem við garðafólk erum sérlega ánægð með. Daginn tekur að lengja um jólaleytið og það er vísbending um að vorið sé á næsta leyti. Það er reyndar með vorið eins og jólin að eftir því sem árin líða virðist alltaf styttra á milli vora. Kannski eru þetta gróðurhúsaáhrifin sem valda því að vorið lengist og við fáum því vor örlítið fyrr á hverju ári? Aðrir kostir fylgjandi jólaárstíðinni eru jólaljósin. Það er ekki til svo rytjulegur runni í görðum landsmanna að hann verðskuldi ekki eins og eina til tvær jólaseríur til skrauts á þessum árstíma. Það verður kannski með runnana eins og börnin að runnarnir fari í jólaköttinn fái þeir ekki seríu? Jafnvel skriðmisplar, sem eðli sínu samkvæmt standa ekki mikið upp úr jörðinni, hafa verið svo lánsamir að fá að skarta jólaljósunum.
Nú er svo komið að efnaðir Íslendingar (sem fer víst fjölgandi ár frá ári) eyða fleiri hundruð þúsundum, jafnvel milljónum í jólaskraut í görðum sínum. Garðyrkjufyrirtæki hafa sérhæft sig í að hanna og setja upp glæsilegar jólaljósasýningar fyrir fyrirtæki og einstaklinga og rafmagnsnotkun Íslendinga nær áður óþekktum hæðum og var nú ekki lítil fyrir. Dagurinn er stuttur og jafnvel dimmur og drungalegur á aðventunni þegar síðbúnar haustlægðir skemmta með tilheyrandi blæstri en við blásum á myrkrið og lýsum það upp með jólaljósunum.
Vonandi eru sem flestir búnir að útvega sér jólatré þegar þessi pistill birtist. Því miður hefur brugðið svo við á undanförnum árum að skortur hefur verið á jólatrjám í landinu, þrátt fyrir að skógræktarfélög víða um land hafi opnað skógarreiti sína og heimilað fólki að fara og höggva sitt eigið tré til jólanna. Mér finnst þessi siður, að öll fjölskyldan skundi saman út í skóg með sög og sagi niður sitt eigið tré, mjög skemmtilegur og heyri af æ fleirum sem líta á þetta sem nauðsynlegan hluta af jólaundirbúningnum.
Fjölskyldumeðlimir ná sterkari tilfinningatengslum við jólatréð þegar þeir hafa sjálfir séð um að höggva það. Ég er ekki viss um að almenningur hefði álitið þetta möguleika fyrir 50 árum, þótt skógræktarfólk hafi kannski alltaf haft þá hjartans sannfæringu að skógur yrði bara nokkuð algengur á Íslandi í framtíðinni. Ég er sjálf ein þeirra sem fer út í skóg með fjölskylduna mína og sög í hendi og leiðbeini eiginmanninum nákvæmlega um það hvaða tré hann á að saga niður. Hann tekur leiðbeiningum um val á tré á mjög jákvæðan hátt en þegar ég fer að segja honum til við sögunina sjálfa er hann ekki eins jákvæður, telur að hann hafi í ljósi menntunar sinnar sem trésmiður meiri þekkingu á aðferðafræði sögunar… Við ætlum að sæta lagi milli haustlægðanna og ná okkur í stafafuru til jólanna, þær bera með sér ilminn af jólunum.
Gleðileg jól!
Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007)