Posted on

Jólablómið – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Einhvern veginn kemur það manni alltaf jafn mikið á óvart að jólin séu rétt handan við hornið, þau sem eru nýliðin. Manni finnst eins og síðustu jól hafi verið í gær, jafnvel þótt skynsemin segi manni að frá síðustu jólum hafi verið haldið upp á páskana, landsmenn komist óvenjumikið á skíði síðasta vetur, sumarið verið óvenju sólríkt og hlýtt og haustið eitt samfellt bálviðri. Samt voru jólin eiginlega í gær.

     Það eru ákveðnir kostir fylgjandi þessum árstíma sem við garðafólk erum sérlega ánægð með. Daginn tekur að lengja um jólaleytið og það er vísbending um að vorið sé á næsta leyti. Það er reyndar með vorið eins og jólin að eftir því sem árin líða virðist alltaf styttra á milli vora. Kannski eru þetta gróðurhúsaáhrifin sem valda því að vorið lengist og við fáum því vor örlítið fyrr á hverju ári? Aðrir kostir fylgjandi jólaárstíðinni eru jólaljósin. Það er ekki til svo rytjulegur runni í görðum landsmanna að hann verðskuldi ekki eins og eina til tvær jólaseríur til skrauts á þessum árstíma. Það verður kannski með runnana eins og börnin að runnarnir fari í jólaköttinn fái þeir ekki seríu? Jafnvel skriðmisplar, sem eðli sínu samkvæmt standa ekki mikið upp úr jörðinni, hafa verið svo lánsamir að fá að skarta jólaljósunum.

     Nú er svo komið að efnaðir Íslendingar (sem fer víst fjölgandi ár frá ári) eyða fleiri hundruð þúsundum, jafnvel milljónum í jólaskraut í görðum sínum. Garðyrkjufyrirtæki hafa sérhæft sig í að hanna og setja upp glæsilegar jólaljósasýningar fyrir fyrirtæki og einstaklinga og rafmagnsnotkun Íslendinga nær áður óþekktum hæðum og var nú ekki lítil fyrir. Dagurinn er stuttur og jafnvel dimmur og drungalegur á aðventunni þegar síðbúnar haustlægðir skemmta með tilheyrandi blæstri en við blásum á myrkrið og lýsum það upp með jólaljósunum.

     Vonandi eru sem flestir búnir að útvega sér jólatré þegar þessi pistill birtist. Því miður hefur brugðið svo við á undanförnum árum að skortur hefur verið á jólatrjám í landinu, þrátt fyrir að skógræktarfélög víða um land hafi opnað skógarreiti sína og heimilað fólki að fara og höggva sitt eigið tré til jólanna. Mér finnst þessi siður, að öll fjölskyldan skundi saman út í skóg með sög og sagi niður sitt eigið tré, mjög skemmtilegur og heyri af æ fleirum sem líta á þetta sem nauðsynlegan hluta af jólaundirbúningnum.

     Fjölskyldumeðlimir ná sterkari tilfinningatengslum við jólatréð þegar þeir hafa sjálfir séð um að höggva það. Ég er ekki viss um að almenningur hefði álitið þetta möguleika fyrir 50 árum, þótt skógræktarfólk hafi kannski alltaf haft þá hjartans sannfæringu að skógur yrði bara nokkuð algengur á Íslandi í framtíðinni. Ég er sjálf ein þeirra sem fer út í skóg með fjölskylduna mína og sög í hendi og leiðbeini eiginmanninum nákvæmlega um það hvaða tré hann á að saga niður. Hann tekur leiðbeiningum um val á tré á mjög jákvæðan hátt en þegar ég fer að segja honum til við sögunina sjálfa er hann ekki eins jákvæður, telur að hann hafi í ljósi menntunar sinnar sem trésmiður meiri þekkingu á aðferðafræði sögunar… Við ætlum að sæta lagi milli haustlægðanna og ná okkur í stafafuru til jólanna, þær bera með sér ilminn af jólunum.

     Gleðileg jól!

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007)

Posted on

Grjón og greni – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Nú þegar Vetur konungur heilsar með úrhellisrigningu og dagurinn styttist verulega í annan endann er ósköp lítið hægt að dunda sér úti í garði. Garðar landsmanna minna grunsamlega mikið á hrísgrjónaekrur þessa dagana og kannski væri það bara ágætis afþreying svona á síðbúnum haustdögum að gera tilraunir með ræktun hrísgrjóna í þessum drullupollum sem garðarnir okkar eru núna. Vissulega gæti lágt lofthitastig haft neikvæð áhrif á vöxt hrísgrjónaplantnanna en maður á ekki að láta svartsýnisraddir draga úr sér kjarkinn. Fyrir hina sem alls ekki hafa neinn áhuga á hrísgrjónaræktun er mun skynsamlegra að fara að velta því fyrir sér hvernig jólatréð á að líta út í ár.

     Ef við göngum út frá því að lesendur þessarar greinar muni velja sér lifandi tré þá er ekki úr vegi að skoða aðeins þær grenitegundir sem mögulegt er að hafa sem jólatré. Rauðgreni, Picea abies, var í eina tíð mjög vinsælt jólatré hjá landanum og er enn víða í nágrannalöndum okkar. Rauðgrenið er þéttvaxið, með fremur stuttar, fagurgrænar nálar sem stinga lítið sem ekkert og fínlegar greinar. Það er ákaflega formfagurt tré og þar sem það vex fremur hægt við íslenskar aðstæður verður það enn þéttara fyrir vikið. Sem jólatré er þetta því mjög hentug tegund því það er nóg af greinum til að hengja jólaskrautið á. Því miður hefur rauðgreni fengið það orð á sig sem jólatré að það sé langt frá því að vera barrheldið, nálarnar byrji að hrynja af trénu þegar það heyrir í farartæki skógarhöggsmannanna á leið í skógarhöggið. Þetta er nokkuð orðum aukið því sé vel hugsað um tréð á meðan það stendur uppi í stofunni heldur það barrinu alveg ágætlega. Með góðri umhirðu er hér átt við að neðri endanum á jólatrénu sé stungið niður í heitt vatn í nokkrar mínútur áður en trénu er komið fyrir í jólatrésfætinum. Jafnframt þarf að gæta þess að vökva tréð reglulega yfir jólahátíðina.

     Sitkagreni, Picea sitchensis, er allt mun grófara í vaxtarlagi en rauðgrenið. Nálar sitkagrenis eru tvílitar, dökkgrænar á efra borði og ljósblágrænar á neðra borði. Þær eru mjög stingandi og því gæti þurft að kalla á fakír til að aðstoða við jólaskreytingarnar. Sitkagreni vex mun hraðar en rauðgreni og er með heldur grófari og þykkari árssprota. Þetta skilar sér í grófara vaxtarlagi og gisnari jólatrjám þar sem aðalgallinn er fólginn í frekar fáum greinum fyrir jólakúlurnar og jólaljósin. Sitkagrenið getur verið ágætlega barrheldið sé hugsað vel um það, eins og rauðgrenið hér að ofan. Skemmst er frá því að segja að sitkagreni er ekki mjög vinsælt sem jólatré, eins og sakir standa.

     Blágreni, Picea engelmannii, hefur verið að sækja í sig veðrið sem jólatré síðustu ár. Það er hægvaxta við íslenskar aðstæður og hefur því frekar þétt vaxtarlag sem skilar sér í mörgum jólakúlubærum greinum. Nálar blágrenis eru blágrænar að lit og ákaflega mjúkar. Ysti endi greinanna er líka fremur lútandi sem gerir plöntuna þokkafulla í vaxtarlagi. Blágreni er barrheldið en vissulega þarf að hugsa vel um það, eins og önnur afskorin tré.

     Sumum kann að virðast það fullsnemmt að fara að velta jólatrjánum fyrir sér en ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Nauðsynlegt er að taka vel ígrundaða ákvörðun um það hvaða jólatré verði fyrir valinu í ár, það dugir alls ekki að kasta til höndunum í þessu skyni. Hvort tréð er greni, fura, þinur eða eitthvað allt annað skiptir svo sannarlega máli. Jólatré eru punkturinn yfir i-ið á jólunum og allir fjölskyldumeðlimir ættu að hafa skýra og mótaða skoðun á trénu. Næsta skref er að hafa samband við starfsmenn nærliggjandi skógar og kanna hvort ekki sé mögulegt að maður geti fengið að höggva tréð sjálfur. Þá er tímabært að fara að brýna kutana…

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007)

Posted on

Askur, Fraxinus excelsior – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Askur, Fraxinus excelsior, er merkilegt tré. Askurinn er af smjörviðarætt, Oleaceae og á heimkynni suður um Evrópu frá Noregi og allt austur í Asíu. Hann er hávaxinn og myndarlegur, verður allt að 40 m á hæð í heimkynnum sínum og hefur breiða krónu. Börkurinn er ljós yfirlitum og gerir það að verkum að dökk, hér um bil kolsvört brumin verða mjög áberandi að vetri til, sérstaklega endabrumin því þau geta verið afar stór. Blöðin eru stakfjöðruð og minna í fljótu bragði á blöð reyniviðar. Askurinn laufgast seint. Blómgunartíminn er á vorin fyrir laufgun en hann hefur enn sem komið er ekki blómstrað hérlendis. Aldinið er hneta með 3-4 cm löngum væng og eru hneturnar nokkrar saman í knippi. Knippin hanga á trénu fram á vetur og minna á ótal lyklakippur. Aski er aðallega fjölgað með sáningu en ræktunarafbrigðum er fjölgað með ágræðslu. Hann getur orðið allt að 400 ára gamall. Haustliturinn er gulur.

     Askurinn er þurftafrekur og þarf djúpan, rakaheldinn, frjóan og kalkríkan jarðveg auk þess sem hann þarf gott vaxtarrými. Þetta er verðmætt viðartré og er viður asksins þekktur fyrir sveigjanleika, styrk og seiglu. Til marks um það má nefna að viðurinn var notaður í hestvagna og hús fyrstu yfirbyggðu bílanna. Talið er að fyrstu skíðin hafi jafnframt verið úr askviði. Í dag er viðurinn einkum notaður í húsgögn, verkfæri og ýmiss konar íþróttavarning.

     Askur hefur verið ræktaður á Íslandi í rúmlega 100 ár en sú ræktun hefur aldrei orðið umfangsmikil. Hann hefur átt erfitt uppdráttar hérlendis því hann þarf talsvert meiri hita og skjól en almennt hefur verið í boði á Íslandi. Þó má finna einstaka plöntur í grónum og skjólgóðum görðum sunnanlands, hann þrífst tæpast annars staðar á landinu. Í Múlakotsgarðinum í Fljótshlíð er stór og glæsilegur askur, hugsanlega sá stærsti á landinu enda eru skilyrði þar óvenju góð á íslenskan mælikvarða. Askurinn laufgast yfirleitt ekki fyrr en undir miðjan júní en nær yfirleitt að fella laufið tímanlega á haustin. Þó getur hann orðið fyrir haustkali.

     Eins og áður sagði er askurinn tré með fortíð. Í norrænni goðafræði lék askur Yggdrasils lykilhlutverk því hann sá um það að halda himinhvelfingunni uppi og greinar hans breiddu sig út yfir alla heimsbyggðina. Hann naut því sérstakrar virðingar meðal norrænna manna. Ræktunarsaga asksins í Evrópu er löng því hann var gjarnan ræktaður við mannabústaði vegna þokkafulls vaxtarlags og þeirra viðarnytja sem hafa mátti af honum.

     Viðurinn er ekki það eina sem menn hafa nýtt af askinum. Askurinn var nýttur í lækningaskyni til að vinna bug á ýmsum kvillum. Te af blöðunum var drukkið sem hægðalyf, notað til meðhöndlunar á sýkingu í nýrum og þvagfærum og til að hrekja út sníkjudýr í meltingarveginum. Útvortis voru blöðin notuð í bakstra eða böð til að meðhöndla sár sem vætlaði úr. Börkurinn var svo notaður í stað kíníns til að lækka sótthita.

     Ýmiss konar hjátrú hefur verið tengd askinum. Þeir sem eru illa hrjáðir af vörtum geta til dæmis reynt eftirfarandi aðferð: Takið dálitla sneið af beikoni, komið henni fyrir undir berkinum á aski og mun þá myndast nokkurs konar hrúður á berkinum. Þegar sárið grær hverfa vörturnar. Askurinn getur líka hjálpað þeim sem þjást af almennri taugaveiklun. Það eina sem þarf að gera er að klippa lítinn bút af nögl hvers fingurs og hverrar táar auk svolítils lokks af hári. Næsta sunnudagsmorgunn á að fara á fætur fyrir sólarupprás og bora litla holu í stofn fyrsta asktrés sem viðkomandi finnur. Neglurnar og hárið eru sett í holuna og holunni lokað og taugaveiklunin heyrir sögunni til. Aðrir kvillar sem askurinn var talinn vinna á voru til dæmis eyrnaverkur, gyllinæð og getuleysi.

     Þessi goðsagnaplanta hefur lítið verið gróðursett á Íslandi undanfarna áratugi. Auk gömlu trjánna sem áður var minnst á, má finna eina og eina unga plöntu í görðum mjög áhugasamra garðræktenda. Hugsanlega væri hægt að rækta meira af aski á Íslandi ef rétt kvæmi kæmu til sögunnar. Í því sambandi hafa menn einkum einblínt til Noregs því þar þrífst askurinn vel allt norður í Þrændalög, alveg að 63°40’ n.br. og því kannski mögulegt að finna kvæmi sem henta við íslenskar aðstæður. Auk þess að vera skemmtileg viðbót við þær trjátegundir sem nú þegar eru ræktaðar á Íslandi gæti askkvæmið gert sitt til að minnka almenna taugaveiklun í íslensku samfélagi…

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2001)

Posted on

Álmur – Ulmus glabra – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Álmurinn, Ulmus glabra, er af álmsættinni, Ulmaceae, og er eina tegundin af þeirri ætt sem eitthvað hefur verið ræktuð að ráði á Íslandi. Heimkynni álmsins eru á Bretlandseyjum og í Mið-Evrópu allt austur til Litlu-Asíu. Álmurinn teygir sig líka norður eftir Evrópu til Noregs en þar má finna stæðileg álmtré allt norður á 67° norðlægrar breiddar (við Beiarn í Norður-Noregi). Hann vex gjarnan í blönduðum laufskógum innan um eikur og aska og hefur ekki þétta útbreiðslu, minnir þannig dálítið á íslenska ilmreyninn sem má finna stakan innan um birkitrén. Álmurinn heldur sig gjarnan í fjallshlíðum og á hæðum í heimkynnum sínum en síður á láglendi.

     Álmur getur orðið allt að 200 ára gamall og um 40 m hár í heimkynnum sínum en hérlendis hefur hann náð 12-13 m hæð sums staðar í Reykjavík. Þetta er ýmist einstofna eða margstofna tré með gildan stofn og mjög stóra og hvelfda krónu sem virðist fremur dökk yfirlitum. Börkurinn er sléttur í fyrstu en með aldrinum verður hann áberandi langsprunginn og dökkur á lit. Blómgunartími álmsins er að vorinu, rétt fyrir laufgun. Blómin eru gulgræn í þéttum klösum. Aldinið er lítil hneta með væng sem nær allan hringinn í kringum hnetuna og þroskast aldinin tiltölulega snemma á trénu. Fræið situr nokkurn veginn í miðju vængsins. Haustlitur álmsins er fagurgulur.

     Stærð álmsins gerir það að verkum að hann þarf rúmgóðan vaxtarstað. Jarðvegur þarf að vera djúpur og frjór og sæmilega rakur til að tréð dafni sem best. Erlendis er það talinn einn af kostum álms að rótakerfi hans er djúpstætt og því lítil hætta á því að hann fjúki um koll í hvassviðri. Þetta er vafalaust líka kostur fyrir álm á Íslandi. Álmurinn getur vaxið hratt á unga aldri og er honum þá dálítið hætt við haustkali hérlendis. Fullorðin tré sem vaxa hægar kelur síður. Í uppvextinum þolir álmur talsverðan skugga en vill að öllu jöfnu sæmilega bjartan vaxtarstað.

     Fjölgun á álmi er aðallega fræfjölgun og fer hann að mynda fræ þegar hann er um 30-40 ára gamall. Fræið spírar strax og hefur lítið geymsluþol. Til eru ýmis ræktunarafbrigði erlendis sem fjölgað er með ágræðslu. Hérlendis er honum einungis fjölgað með fræi. Bannað er að flytja lifandi álm inn til Íslands vegna sjúkdóms sem hefur herjað á álmtegundir í gervallri Evrópu og hefur lagt að velli allt að 98% álmtrjáa í sumum löndum. Sjúkdómur þessi nefnist álmsýki (Dutch Elm Disease) og hefur slíkur faraldur geisað um Evrópu síðustu áratugi. Sjúkdómurinn er af völdum svepps, Ceratocystis ulmi, sem dreifist á milli plantna, að hluta til milli samgróinna róta álmplantna en aðallega með barkarbjöllu af ættkvíslinni Scolytus spp. Sveppurinn leggst á leiðsluvefi plantnanna og kemur þannig í veg fyrir eðlilega næringaröflun með þeim afleiðingum að plönturnar veslast smám saman upp. Ekki hefur fundist nein lækning við þessum sjúkdómi og eina ráðið sem menn hafa í baráttunni í dag er að reyna að velja til ræktunar plöntur sem hafa mótstöðu gegn sjúkdómnum. Álmsýki hefur ekki orðið vart á Íslandi og er vonandi að okkur takist að komast hjá því að fá þennan óboðna gest til landsins. Einungis má flytja inn álmfræ til Íslands frá ósýktum svæðum.

     Álmlús er óværa sem leggst á álminn og hefur fundist hérlendis. Lúsin yfirvetrast í berki álmsins. Að vori klekjast út kvendýr sem halda sig á neðra borði blaðanna, sjúga þar næringu úr blöðunum og gera það að verkum að blöðin verpast og krumpast. Afkvæmi þessara kvendýra fara yfir á sólber og rauðrifs og fá næringu úr rótum runnanna. Þeirra afkvæmi fljúga svo aftur yfir á álminn þegar líður á sumarið, fjölga sér enn frekar og síðustu kvendýr sumarsins verpa eggjum sínum í börk álmsins að mökun lokinni. Álmlúsin er aðgangshörð og fer stundum verulega illa með þau tré sem hún leggst á.

     Viður álmsins er litríkur og talinn mjög fallegur. Kjarni trjábolsins er rauðbrúnn og ytri hluti hans er gulhvítur. Viðurinn er sveigjanlegur og hentar vel í ýmiss konar húsgögn og verkfæri og jafnvel í parket. Af þeim sökum er þetta eftirsóttur viður en framboðið er þó ekki mjög mikið.

     Álmur hentar vel bæði sem stakstætt tré í stórar lóðir eða í klippt limgerði. Hann tekur klippingu vel og má jafnvel klippa hann alveg niður til endurnýjunar ef limgerðið verður gisið. Álmlimgerði finnast á nokkrum stöðum í Reykjavík og þrífast með ágætum. Álmur þolir seltu sæmilega vel og er ágætlega vindþolinn. Þetta er tegund sem mætti nota til að auka fjölbreytni í íslenskum görðum og er álmurinn oftast fáanlegur í gróðrarstöðvum.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2001)

Posted on

Jólarósir, Helleborus – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Það kann að virðast svolítið furðulegt að skrifa um jólarósir svona þegar sumarið er nýgengið í garð. Íslenskt sumar lætur þó ekki að sér hæða og mætir til leiks með fannfergi og tilheyrandi hálku á fjallvegum. Svartsýnir menn gætu orðað þetta svo að það haustaði óvenju snemma þetta vorið en við garðyrkjufólkið höfum marga fjöruna sopið í þessum efnum og vitum að handan við hornið er logn og blíða, sumarsól. Snjóalögin í byrjun sumars eru samt sem áður tilefni þessarar greinar því það hrærir gjarnan hjartans hörpustrengi að sjá blómstrandi plöntur gægjast upp úr snjósköflunum. Jólarósin er einmitt þeirrar náttúru að hún blómstrar á verulega óvenjulegum tíma eða um hávetur. Sagt er að jólarósin blómstri á jólanótt, kannski er þetta hennar leið til að fagna fæðingu frelsarans.

     Jólarósir eða Helleborus ættkvíslin, eru plöntur af sóleyjaættinni. Þær vaxa helst í skóglendi eða í grýttum hlíðum í heimkynnum sínum við Miðjarðarhafið og víðar í Evrópu, austur til Asíu. Nafnið Helleborus er komið úr grísku og er dregið af orðunum helein = að skaða, slasa og bora = matur og vísar það til þess að plönturnar eru ákaflega eitraðar. Jólarósir eru fremur lágvaxnar plöntur, um 30-60 cm háar með upprétta stöngla. Plönturnar mynda þykkan jarðstöngul og eru með voldugt rótakerfi. Upp af jarðstönglinum koma handskipt til fjaðurskipt blöð með lensulaga og sagtenntum blaðhlutum. Blöðin eru sígræn, þykk og leðurkennd. Blómstönglarnir eru uppréttir og á þeim eru fremur mjó stöngulblöð. Blómin eru sérkennileg því það eru í raun bikarblöðin sem eru aðalskrautið, krónublöðin sjálf eru ekki greinileg. Blómin eru ýmist lútandi eða vísa út til hliðar. Þau eru í hvítum, bleikum, fjólubláum eða grænum litum, stundum eru blómin með grænum blettum. Blómgunartími jólarósa er frá því síðvetrar fram á mitt vorið.

     Eiturefnin sem plönturnar innihalda eru glýkósíð sem hafa skaðleg áhrif á hjarta og miðtaugakerfi. Eitrunareinkenni geta verið mikil munnvatnsframleiðsla, óreglulegur hjartsláttur og meltingartruflanir. Á miðöldum var seyði af jólarósarótum notað sem banvænt eitur og einnig var það notað til að lækna geðveiki, sem verður að teljast fremur vafasöm lækningaaðferð, miðað við eituráhrif plöntunnar. Plöntusafinn getur valdið kláða og blöðrum á húð þannig að rétt er að vera í hönskum þegar plöntunni er skipt eða hún meðhöndluð á annan hátt.

     Jólarósin sjálf, Helleborus niger, er ákaflega falleg planta með tvö til þrjú stór, skállaga, nærri upprétt, hreinhvít blóm á hverjum stöngli. Jarðstöngull jólarósar er svartur og er það einkennandi fyrir tegundina enda vísar tegundarheitið, niger til þess. Jólarós verður um 30 cm há. Henni er hægt að skipta í tvo hópa eftir blómgunartíma, annars vegar blómstra plönturnar í desember-janúar og hins vegar í febrúar-apríl. Jólarós hefur verið ræktuð hérlendis í grónum og skjólgóðum görðum með ágætis árangri.

     Fösturós, Helleborus orientalis, er önnur tegund sem hefur verið ræktuð hérlendis með ágætis árangri. Hún er ívið hærri en jólarósin, eða um 45 cm á hæð. Blómin eru yfirleitt fremur lútandi eða vísa út á við og eru þau ýmist kremhvít eða grænleit á aðaltegundinni. Til er afbrigði með rauðleit blóm og er meðfylgjandi mynd af því afbrigði. Það nefnist Helleborus orientalis ssp. abchasicus og blómstrar þessi tegund snemma á vorin eða í apríl-maí.

     Þessar snemmblómstrandi tegundir eru skemmtileg viðbót við allar hinar plönturnar sem gleðja okkur snemma á vorin, þ.e. laukana, lyklana, geitabjöllurnar o.fl. Yfirleitt eru jólarósirnar mjög formfagrar garðplöntur og þarf lítið fyrir þeim að hafa. Þeir sem eiga skjólgóða garða og hafa áhuga á fallegum tegundum ættu að prófa þessar. Þá er bara að bretta upp ermarnar, grípa garðyrkjubækurnar og láta sig dreyma um raunverulegt sumar, svona rétt á meðan mestu skaflarnir bráðna.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2006)

Posted on

Börkur – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Veturinn er genginn í garð með tilheyrandi tilþrifum, hálku á Hellisheiði, eldgosi í Grímsvötnum, ófærð á Vestfjörðum, verkfalli grunnskólakennara og auðvitað skammdeginu. Garðar landsmanna eru ekki lengur grænir og blómlegir heldur hafa flestar plöntur fellt laufið, eftir standa sígrænu drottningarnar sem ekkert virðist hrína á. Kuldaboli breiðir ískalda sæng sína yfir allt og eftir standa naktar plöntur, visin grös og garðeigendur með gæsahúð. Það er þó ekki eintómt svartnætti í görðunum, öðru nær því margar plöntur eru einmitt í sínum fegursta búningi að vetrarlagi. Þegar laufin falla og berar greinar og stofnar blasa við kemur ýmislegt í ljós.

     Í gegnum tíðina höfum við Íslendingar einblínt á blómgun og blaðfegurð plantna enda hefur veturinn yfirleitt verið svo harður og erfiður að enginn maður með fullu viti hefur hætt sér út í garð að vetrarlagi. Nú hefur hins vegar hlýnað verulega í veðri, þökk sé gróðurhúsaáhrifunum og veturinn orðinn eins og langt haust, bara svolítið meira myrkur. Því færist það í vöxt að fólk rölti með kaffibollann út á sólpallinn á fögrum haustdögum og virði fyrir sér gróðurinn í garðinum.

     Skemmtilegt vaxtarlag plantna er algert lykilatriði, eigi plönturnar að grípa augað yfir veturinn. Plöntur með bogsveigðar greinar eins og til dæmis sunnukvistur og loðkvistur eru mjög tignarlegar að vetrarlagi. Ýmsar ágræddar plöntur eru einnig mjög skemmtilegar, sérstaklega þegar greinar skriðulla plantna eru ágræddar á háan stofn, áhrifin minna mann óneitanlega á hárkollu á kústskafti eða skúringamoppu, bara mun fallegra og þokkafyllra.

     Það sem heillar þó mest yfir vetrartímann, þegar grái liturinn er ríkjandi í umhverfinu, eru plöntur með fallegan börk. Ýmsar tegundir trjáplantna eru með ákaflega fallega litan börk, oft gljáandi og eru þannig sérstaklega aðlaðandi að vetrarlagi.

  • Íslenska birkið hefur löngum þótt fallegt á veturna. Barkarlitur birkisins er mjög fjölbreyttur, allt frá mjög dökkum berki sem er nærri því svartur, yfir í gljáandi rauðbrúnan börk yfir í mjallahvítan börk sem hreinlega lýsir upp umhverfi sitt. Hinn hvíti börkur birkisins er einmitt sá eftirsóttasti og tré með hvítan börk rjúka eins og heitar lummur í gróðrarstöðvum.
  • Næfurheggur, Prunus maackii, er önnur tegund sem vert er að rækta vegna barkarins. Börkur næfurheggs er kanilbrúnn og gljáandi og næfrar af í löngum ræmum eftir því sem tréð gildnar. Þessi heggtegund hefur verið ræktuð á Íslandi í þó nokkurn tíma og hefur sýnt góð þrif við venjulegar garðaaðstæður. Hann verður um það bil 4-6 m hár og er með fremur opna greinabyggingu. Þetta er því tré sem hentar sérstaklega vel í litla garða.
  • Snælenja, Nothofagus antarctica, er fremur viðkvæm trjátegund sem þrífst einkum í skjólbetri görðum. Snælenjan er með mjög dökkan börk sem er alsettur hvítum þverrákum, svokölluðum barkaropum eða korkopum og eru þessar rákir mjög áberandi í berkinum. Þetta er tré sem getur líklega orðið um 5 m hátt við íslenskar aðstæður, hugsanlega eitthvað hærra á betri stöðum.
  • Mjallarhyrnir, Cornus alba ‘Sibirica’ er lágvaxinn runni sem er eiginlega nær eingöngu ræktaður vegna barkarlitar. Litur barkarins á nýjum greinum er hárauður og sérstaklega áberandi að vetrarlagi. Mjallarhyrnir kelur svolítið í görðum en hann nær að koma fram með nýjar greinar yfir sumarið, þessar nýju greinar eru einmitt fallegastar því þær eru auðvitað rauðar, svo ósköp rauðar.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2004)

Posted on

Ilmreynir, Sorbus aucuparia – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Ilmreynirinn, eða reyniviður eins og hann er gjarnan kallaður í daglegu tali, á ættir sínar að rekja til Íslands. Greinar ættartrés hans teygja sig um temptaða beltið, um Evrópu og austur í Asíu, allt norður og austur í Síberíu. Reynirinn sýnir mikinn sveigjanleika í vali á vaxtarstað og getur fundist allt frá hlýjum, þurrum suðurhlíðum yfir í rakar mýrar. Hérlendis finnst reynir einkum í birkiskógum og þá helst innan um birkikjarr þar sem reynirinn nær að standa vel upp úr kjarrinu. Hann myndar ekki samfelldar breiður eða skóga heldur finnst helst stakstæður. Í öðrum löndum á hann þó til að mynda þyrpingar af trjám.

     Ilmreynir er beinvaxið, upprétt tré sem verður um 8-12 m hátt. Krónan er ávöl, jafnvel egglaga og getur orðið ansi þétt. Blöð reynis eru stakfjöðruð og talsvert stór. Blómgun á sér stað snemma sumars, í júní og eru blómin stór, kremhvít og ilma mikið og vel, eins og nafn plöntunnar gefur til kynna. Blómin eru í stórum hálfsveipum á endum greina og eru því mjög áberandi. Fræflarnir í blómunum eru nokkuð langir og gefa því blómsveipunum loðið yfirbragð. Þegar líður að hausti birtast svo aldinin, reyniberin. Þau eru yfirleitt hárauð á lit en til eru afbrigði af ilmreyni með appelsínugul og jafnvel gul ber. Reyniber eru eftirsótt af fuglum og endurspeglast það í latneska tegundarheitinu ,,aucuparia” sem þýðir ,, sá sem laðar að sér fugla”. Haustlitir reynisins eru sérlega glæsilegir en þó eru til einstaka tré sem fá engan haustlit heldur frjósa græn.

     Þótt reynirinn sé þolgóður og geri almennt ekki miklar kröfur til jarðvegs á vaxtarstað sínum er það staðreynd, að tré sem fá djúpan, frjóan og vel rakaheldinn jarðveg sýna best þrif. Rótakerfi reynisins er nokkuð umfangsmikið og það getur gengið alldjúpt niður í jörðina. Sumar reyniplöntur eiga það til að mynda heilmikinn flota af rótarskotum, litlum plöntum sem vaxa þétt upp við stofn móðurplöntunnar. Almennt er talið að þetta sé merki um vanþrif á plöntunni en einnig eru einstaklingarnir misjafnir hvað þetta varðar. Reynirinn er ákaflega ljóselskur og það þýðir lítið að gróðursetja hann á skuggsæla staði, hann plumar sig mjög illa við slíkar aðstæður. Hann sómir sér vel hvort heldur sem er stakstæður eða í stærri hópum svo framarlega sem hvert tré fær notið þeirrar birtu sem það þarf á að halda.

     Ilmreyni er fjölgað upp af fræi eða með ágræðslu. Berin eru tínd á haustin og kjötið hreinsað af þeim áður en fræjunum er sáð. Fræin geta ekki spírað fyrr en eftir kuldatímabil þannig að það er mjög gott að sá í bakka og geyma bakkana utandyra yfir veturinn. Við það brotna niður spírunarhindrandi hormón í fræjunum en hormón þessi tryggja að fræið spíri ekki á óhagstæðum tíma. Talið er hér um bil ómögulegt að fjölga ilmreyni með græðlingum þannig að það er lítið reynt. Til skamms tíma var reyninum fjölgað með vefjaræktun og voru þá valdir sérlega beinvaxin og fagurlimuð tré til undaneldis. Val á móðurplöntu er vissulega mikið atriði, hvort sem notuð eru af henni fræ eða sprotar. Hún þarf að vera vel vaxin, blómviljug, fá fallega haustliti og hafa í sér mótstöðu gegn sjúkdómum sem herja á reyninn. Einna algengastur er reyniátan sem getur leikið mörg reynitré grátt, sérstaklega í röku loftslagi og þar sem trén eru svekkt á annan hátt. Reyniviður af íslenskum uppruna er líka betur til ræktunar hérlendis fallinn en þar skapast vandamál því að á fyrstu áratugum síðustu aldar var mikið magn reyniplantna flutt inn til landsins frá Danmörku og Noregi og í dag er erfitt að finna út hvaða tré eru innlend og hver innflutt. Ilmreynir þrífst vel um allt land og er það gleðiefni að eftir nokkurra áratuga lægð í útplöntun á reyni er hann að komast í tísku aftur.

     Reynirinn skipar sérstakan sess í þjóðtrú margra landa. Hann var talinn búa yfir sérstökum verndarmætti og álitu menn að ef þeir bæru á sér dálítinn sprota af ilmreyni væru þeir verndaðir gegn hvers kyns galdrafári. Það þótti gott að planta reynitrjám í grennd við hýbýli manna til að bægja frá illum öndum. Samkvæmt íslenskri hjátrú var álitið að reyninum fylgdu níu náttúrur góðar og níu náttúrur vondar.

     Reyniberin eru, sem fyrr segir, eftirsótt af fuglum. Þau eru ekki bragðgóð til átu en það er alveg tilvalið að sulta úr reyniberjum. Best er að berin hafi frosið aðeins áður en þau eru tínd en einnig má skella þeim í ísskáp eða frystikistu í svolitla stund áður en þau eru notuð. Reyniberjahlaup er búið til á sama hátt og rifsberjahlaup, berin soðin í svolitlu vatni og svo síuð frá safanum. Sykri er svo bætt í safann í hlutföllunum 1:1. Slíkt hlaup er mjög gott með svínakjöti og villibráð. Ef hlaupið þykir of bragðsterkt má milda það með því að hafa epli í því og er þá magn berjanna minnkað í réttu hlutfalli við magn eplanna. Rétt er að geta þess að það þarf að hafa hraðar hendur við berjatínsluna áður en fuglarnir hafa klárað berin.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2001)

Posted on

Garðahlynur, Acer pseudoplatanus – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Draumatré okkar Íslendinga er í laginu eins og tré í litabókum.  Það hefur beinan, kröftugan stofn og breiða og gróskumikla krónu.  Greinar krónunnar eru það voldugar að auðvelt er að hengja í þær rólu auk þess sem þær bjóða upp á fjölbreyttar æfingar í klifri.  Trjákrónan sjálf er svo umfangsmikil að íslensk stórfjölskylda getur setið undir trénu í forsælunni og forðað sér undan heitri sólinni um miðjan daginn.  Draumatré okkar Íslendinga er garðahlynur.

     Garðahlynur, Acer pseudoplatanus, er ættaður frá Evrópu og vestur í vestasta hluta Asíu.  Hann vex einkum í fjalllendi í heimkynnum sínum og getur þar náð allt að 40 m hæð.  Á Íslandi eru hæstu hlynir rétt um 15 m háir.  Krónan verður stór og hvelfd og þarf hlynurinn mikið og gott rými til að hann njóti sín til fulls.  Blöðin eru stór og handsepótt og minna á aðra trjátegund, Platanus en þaðan kemur einmitt merking

tegundarheitis garðahlynsins, pseudoplatanus sem þýðir ,,eins og Platanus”.   Garðahlynur er af hlynsættinni, Aceraceae en innan hennar eru tvær ættkvíslir, Acer og Dipteronia sem samtals innihalda um 100 tegundir plantna sem aðallega er að finna á tempruðum svæðum norðurhvels jarðar.  Eitt af sameiginlegum einkennum hlyntegunda er lögun blaðanna en þau eru handsepótt til handflipótt.  Stærð blaðanna er mjög mismunandi milli tegunda og einnig er fjöldi flipa eða sepa mismikill.  

     Garðahlynurinn fær oft sérlega fallega gula haustliti, í haustsólinni er jafnvel eins og hann standi í ljósum logum.  Fræin eru einkennandi fyrir ættkvíslina.  Þau eru föst saman tvö og tvö og á hverju fræi er vængur.  Vængir fræjanna mynda hvasst horn eða allt að því rétt horn (60-90°) hver við annan og er þetta atriði oft notað til að greina sundur mismunandi hlyntegundir.  Þegar fræið fellur til jarðar gerir vængurinn það að verkum að það eins og skrúfast niður og getur þannig lent í dálítilli fjarlægð frá móðurplöntunni.  Í heimkynnum sínum getur garðahlynurinn orðið eldgamall eða 400-500 ára þannig að íslensku plönturnar eru flestar hverjar rétt á táningsaldri. 

     Garðahlyni er yfirleitt fjölgað með fræi.  Margir þroskaðir garðahlynir ná að mynda gott fræ hérlendis og jafnvel eru dæmi um það að þeir sái sér í görðum sem hreinasta illgresi.  Sáningin þarf að fara fram að hausti til sama ár og fræið þroskast því það  geymist mjög illa og inniheldur einnig svolítið af spírunarhindrandi hormónum sem brotna smám saman niður yfir veturinn.  Að vori spírar fræið og geta sáðplönturnar vaxið um nokkra tugi sentimetra yfir sumarið.  Í nágrannalöndum okkar eru til margir fallegir klónar af garðahlyn og er þeim fjölgað með ágræðslu því mjög erfitt er að fjölga hlyn upp af græðlingum, sumir ganga jafnvel svo langt að telja það allsendis ómögulegt.

     Sem fyrr segir verður garðahlynurinn stórt og mikið tré og á það einnig við um rótakerfið, það gengur mjög djúpt niður í jarðveginn.  Þess vegna þarf jarðvegurinn að vera vel djúpur og frjósamur því garðahlynurinn er frekur til matar síns.  Því er mikilvægt að undirbúa jarðveginn mjög vel áður en garðahlynur er gróðursettur og búa hann undir lífið með ríkulegt nesti af lífrænum áburði og kalki.

     Tískusveiflur í plöntuvali hafa haft áhrif á ræktun garðahlyns á Íslandi.  Hlynurinn vex hægt og getur kalið illa á haustin ef frystir snemma.  Fyrstu árin eftir að tréð er gróðursett í garði geta því verið dálítið erfið, bæði fyrir tréð og fyrir óþolinmóða eigendur þess.  Nú á síðari árum í kjölfar aspafársins mikla hafa hægvaxta tré fengið uppreisn æru og fara vinsældir garðahlyns vaxandi ár frá ári.  Í flestum tilfellum er garðahlynur fluttur inn til Íslands frá Evrópu, oftast Danmörku.  Þessar innfluttu plöntur eru misduglegar við það að aðlaga sig að íslensku loftslagi og geta kalið illa fyrstu árin.  Plöntur sem ræktaðar eru upp af íslensku fræi eru ekki endilega betri en þær innfluttu því fræmæðurnar eru jú af sama uppruna.  Garðeigendur ættu þó ekki að hræðast það að fá sér garðahlyn í garðinn sinn, hann sýnir það strax í upphafi hvort hann fellir sig við íslenskt veðurfar eða ekki.

     Margar aðrar hlyntegundir eru vinsælar garðplöntur og eru þær ýmist ræktaðar vegna blaðanna eða barkarins.  Sumar hlyntegundir hafa börk með ákaflega fallegu mynstri og hafa því verið nefndir slönguskinnshlynir (snake bark maples).  Kanadamenn láta sér þó ekki nægja að dást að hlyntrjánum úr fjarlægð.  Sykurhlynur (Acer saccharum) hefur ákaflega sætan plöntusafa sem notaður er til að búa til hlynsýróp en eins og sigldir Íslendingar vita er það algerlega nauðsynlegt út á amerískar pönnukökur.  Hér í lokin fylgir því sérlega einföld og ljúffeng uppskrift að slíku hnossgæti:

3 bollar hveiti,

1 bolli sykur,

1 egg,

1 tsk matarsódi,

mjólk eftir þörfum,

slatti af bláberjum ef árstíminn leyfir. 

Allt hrært saman og deigið haft fremur þykkt.  Pönnukökurnar eru steiktar á pönnu og bornar fram með smjöri, osti og hinu ómissandi hlynsýrópi. 

Verði ykkur að góðu!

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2001)

Posted on

Saltskemmdir á plöntum – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Allir skynsamir garðeigendur hafa nú pakkað saman trampólínunum úr garðinum hjá sér og komið þeim í skjól inni í bílskúr eða öðru hentugu geymsluplássi. Reynsla undanfarinna ára þegar trampólín voru orðin eins og eðlilegur hluti af illviðrum haustsins hefur kennt okkur að hægt er að draga verulega úr óþægindum með því að lágmarka trampólínfok á haustin. Veðurfarið þessa dagana er ekki líklegt til að drífa menn áfram í garðyrkjustórræðum en þó er haustið tvímælalaust einn besti tími ársins til útplöntunar á alls kyns plöntum, ekki þarf að hafa áhyggjur af vökvuninni um þessar mundir og svo geta plönturnar hafið vöxt á nýjum vaxtarstað mun fyrr næsta vor en þær annars myndu geta. Vaxtartímabilið verður því mun lengra en ella.

     Haustið gekk í garð með tilþrifum, nú eins og í fyrra og var fyrsti almennilegi stormur haustsins verulega tilþrifamikill. Afleiðingar hans voru líka skrautlegar. Laufblöð plantna, sem flestar voru enn fulllaufgaðar, urðu kolsvört og undin og rifin og tætt eftir veðrið. Þessi einkenni voru ekki eingöngu niðri við ströndina heldur náðu þau langt inn í land. Minnugir reynslunnar frá því í fyrra þegar í ljós kom að plöntur langt inn í landi urðu fyrir saltskemmdum ákváðu nú sérfræðingar í trjáræktarmálum að kanna hvort sams konar hrellingar væru í gangi í ár. Sást til að minnsta kosti tveggja sérfræðinga á kreiki á Suðurlandi strax eftir þennan fyrsta storm og þótti atferli þeirra með eindæmum undarlegt. Þeir gengu að grenitrjám og öðrum trjám, tóku sér barr og laufblöð í hönd og í samræmi við vísindalegar aðferðir voru laufblöðin tekin bæði áveðurs og hlémegin á plöntunum. Því næst sleiktu mennirnir blöðin og það var þá sem vitni að tilburðunum sannfærðust um að andleg heilsa þessara manna væri kannski ekki með besta móti. Sérfræðingarnir létu það ekki á sig fá og sleiktu sig fram og til baka um trjálundi Suðurlands. Rétt er að geta þess að þessir tungutilburðir voru nokkurs konar forkönnun sérfræðinganna á því sem þeir raunverulega ætluðu að rannsaka. Besta leiðin til að komast að því hvort blöð hafi orðið fyrir saltskemmdum er auðvitað að athuga hvort salt sé á yfirborði blaðanna og hvaða aðferð er betri en sú að smakka? Sérfræðingarnir okkar komust að því að langt inni í landi var mikið saltbragð af blöðum plantnanna og eftir að þeir höfðu komist að því að salt var til staðar tóku þeir sýni og eru nú að rannsaka hversu mikið saltmagn var raunverulega á blöðunum.

     Salt hefur mjög skaðleg áhrif á plöntur og sérstaklega þegar þær eru fulllaufgaðar. Salt á yfirborði plöntunnar dregur vökva út úr henni og hún verður því fyrir þurrkskemmdum sem eru ekkert ósvipaðar og kalskemmdir. Þannig geta svona saltstormar gert það að verkum að verulega muni sjá á plöntum næsta vor, sérstaklega sígrænum plöntum. Þannig voru furuplöntur illa brenndar eftir síðasta haust og komu þær skemmdir ekki almennilega fram fyrr en þegar leið á vorið. Garðeigendur sem hafa búið við svona saltaustur um árabil, það er þeir sem búa við sjávarsíðuna, hafa löngum notað gamalt og gott húsráð gegn saltinu. Þeir fara út með garðslöngu eftir saltstormana og skola af plöntum sínum. Þetta ráð getur kannski reynst erfitt í framkvæmd þegar um heilu skógarreitina er að ræða en í smærri görðum ættu menn ekki að hika við að prófa það, sérstaklega þar sem um uppáhaldsplönturnar er að ræða…

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2008)

Posted on

Hvað borða blómin? – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Hvað borða plöntur? Þessi spurning hefur brunnið á vörum margra barna í gegnum tíðina enda ekki nema von, ekki eru nein næringarupptökulíffæri sjáanleg í fljótu bragði á blómum og trjám en samt lifa þau og vaxa og dafna. Þegar fram líða stundir læra menn að plöntur þurfa vatn og áburð og sólarljós til að þrífast en nánari útfærsla á næringarnámi plantnanna er oft á huldu. Það er þó ekki úr vegi að rifja aðeins upp hvaða atriði þarf að hafa í huga varðandi þessi mál, nú þegar plöntur eru í örum vexti og við viljum að sjálfsögðu sjá þær þrífast almennilega í görðum okkar og umhverfi.

     Plöntur eru frumbjarga, þannig að þær framleiða sjálfar þær sykrur sem þær þurfa til vaxtar og viðhalds með ljóstillífun. Hráefnið í ljóstillífunina er vatn og koltvísýringur og þessum efnum umbreyta plöntur í sykrur með hjálp sólarljóssins. Sykrurnar nýtast svo á ýmsa vegu, svo sem til uppbyggingar á vefjum plantnanna, rótum, stönglum og laufblöðum, sykrurnar geta geymst sem forði til mögru tímanna og eins eru þær notaðar til daglegrar brennslu.

     Auk hráefna til ljóstillífunar þurfa plöntur á ýmsum efnum að halda sem þær taka upp úr jarðvegi með rótum sínum. Þessum efnum má skipta í aðalefni, það eru efni sem plönturnar þurfa í talsvert miklu magni og snefilefni sem eru efni sem eru nauðsynleg en bara í örlitlu magni. Aðalefnin nitur (N, köfnunarefni), fosfór (P) og kalí (K) eru þau efni sem plöntur þurfa í mestu magni. Til er nokkurs konar þumalfingursregla sem segir að nitur sé fyrir blöðin þannig að það gerir blöðin græn, fosfór fyrir ræturnar þannig að þær vaxa og dafna betur ef nægilegur fosfór er til staðar í jarðveginum og kalí fyrir blómin þannig að blómgun verður mun betri ef nægilegt er til staðar. Reyndar er líka sagt að kalí sé mikilvægt undir haustið því hærra hlutfall kalí í plöntusafa gerir hann þolnari gagnvart frosti. Þetta er auðvitað mikil einföldun á raunveruleikanum því öll þessi efni nýtast plöntum á margvíslegan hátt en þumalfingursreglur eru oft góðar og gildar og gott að hafa á hraðbergi. Þegar þetta er haft í huga er ljóst að áburður sem inniheldur mikið magn af nitri er heppilegur til gjafar snemma sumars en þegar líður á sumarið er betra að gefa áburð sem inniheldur minna nitur en meira af hinum efnunum.

     Við kaup á tilbúnum áburði eru hlutföll áburðarefna gefin upp á umbúðunum og er það mjög heppilegt. Þannig getur maður fundið út hvaða áburður hentar best á hverjum tíma sumarsins og brugðist við öllum óskum plantnanna um uppáhaldsnæringu. Tilbúinn áburður er hins vegar ekki endilega hið eina rétta fyrir plönturnar og umhverfi þeirra. Húsdýraáburður hefur verið notaður í ræktun með mjög góðum árangri frá örófi alda og skiptir ekki öllu máli hvaða húsdýr framleiddi viðkomandi áburð, allur slíkur áburður hefur notagildi. Aðalkostur lífrænna áburðargjafa er hins vegar sá að þeir hafa mjög góð áhrif á jarðveginn og næra ekki einungis plönturnar sjálfar heldur örveru- og smádýralífið sem er plöntunum svo nauðsynlegt í jarðveginum. Tilbúinn áburður hefur ekki sömu jarðvegsbætandi áhrif en gagnast plöntunum vissulega vel til vaxtar og viðhalds.

     Verkefni dagsins eru þá þau að gefa plöntunum næringu og ekki síst að gæta þess að vökva þær hressilega af og til, betra er að vökva vel og sjaldnar en að gefa einungis litla skvettu í hvert sinn, slíkt bað nýtist þeim ekki eins vel til framtíðar.

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2008)