Posted on

Skemmtilegasta sumarferðin 2022

Sumarferð GÍ 2022 - hópmynd

Sumarferð GÍ var farin um Suðurland þriðjudaginn 26. júlí síðastliðinn. Lagt var upp frá Reykjavík og var Guðríður Helgadóttir fararstjóri. Alls voru 72 félagar með í för.

Fyrsta heimsókn dagsins var í garð Péturs Reynissonar í Hveragerði. Garður hans er margverðlaunaður og skal engan undra, þar eru fjölmörg dvalarsvæði, hvert öðru fallegra og nostrað við hvert smáatriði. Þar er einnig að finna mikið úrval óvenjulegra plantna sem heilluðu GÍ félaga óspart.

Næst var stutt kaffipása í Garðyrkjuskólanum og svo var haldið sem leið lá upp á Skeið að Grænuhlíð þar sem þau Guðbjörg Jónsdóttir og Víkingur Birgisson hafa ræktað garðinn sinn undanfarin 20 ár. Þau tóku við óræktuðum móa og hafa ræktað upp fallegan skrúðgarð með næststærsta stöðuvatni Skeiðanna, að sögn Guðbjargar. Í tjörn þeirra er að finna ýmsar tegundir skrautfiska og var gaman að sjá sporðaköstin þegar Guðbjörg gaf fiskunum. Frumleg gróðurhús þeirra hjóna og hænsnaræktin vöktu einnig mikla ánægju gestanna.

Hádegisverður var snæddur í félagsheimilinu í Árnesi og var sérlega vel útilátinn og lystugur. Eftir hádegisverðinn var komið að óvissuheimsókn dagsins. Þá var farið í Ásaskóla í Gnúpverjahreppi, í skraut- og rósagarð hjónanna Katrínar Sigurðardóttur og Stefáns Guðmundssonar. Er óhætt að fullyrða að sú heimsókn hafi komið ferðafélögunum skemmtilega á óvart enda garðurinn óvenjulegur í alla staði.

Síðasta heimsókn dagsins var svo í Gróðrarstöðina Storð í Laugarási en þar tóku þau Vernharður Gunnarsson og Björg Árnadóttir, eigendur stöðvarinnar á móti gestum og buðu upp á kaffi og kleinur. Fjölmargir ferðafélaganna létu það eftir sér að fjárfesta í plöntum og var lest rútunnar fyllt af grænum dýrindum.

Veðrið lék við hópinn allan daginn, þrátt fyrir slæma veðurspá en það fór einmitt að hellirigna um leið og allir voru komnir upp í rútuna. Félagið þakkar öllum þeim sem tóku á móti GÍ félögum í sumarferðinni og ferðafélögunum fyrir ánægjulegan og fróðlegan dag.

Myndir úr ferðinni má sjá hér að neðan, en einnig voru þær settar inn á Facebook síðu félagsins og er þar hægt að merkja við sig og setja inn athugasemdir. https://www.facebook.com/gardurinn/posts/pfbid02qcp1dNxxfxzGALQ42Dpr2kvj9rhPNULB2KYwoU2sUmdHWkriZiVQhfsLtC37HBYMl