Posted on

Laukarnir eru komnir

Þá eru laukapantanir búnar að skila sér í hús og ekkert því til fyrirstöðu að hefja afhendingu. Viðtökur voru frábærar og framar öllum vonum, við þökkum öllum þeim sem pöntuðu fyrir sýnda biðlund.

Nú er ekki eftir neinu að bíða, hægt er að nálgast pantanir á skrifstofu G.Í.

Afhentingartími er:
miðvikudagurinn 13.10 frá 15:30 – 19:30
Fimmtudagur       14.10 frá 14:00 – 18:30
Föstudagur            15.10 frá 09:00 – 13:00

Annars er skrifstofan opin á mánudögum og miðvikudögum frá 10:00 – 14:00

Posted on

Nánar um aðalfund 2021

Guðríður Helgadóttir, varaformaður.
Fráfarandi formaður, Ómar Valdimarsson, þiggur blómvönd.
Fráfarandi stjórnarmeðlimur, Sveinn Þorgrímsson, þiggur blómvönd.
Fráfarandi stjórnarmeðlimur, Brynhildur Bergþórsdóttir, þiggur blómvönd.

Eftir ýmsar tafir, ekki síst af sóttvarnar- og skynsemisástæðum, var aðalfundur Garðyrkjufélags Íslands árið 2021 loks haldinn í húsakynnum félagsins þann 30.ágúst.

Fyrir áhugasama er hér fundargerðin, ásamt skýrslu fráfarandi stjórnar. Fylgja einnig nokkrar myndir frá fundinum, allar teknar af hinum nýkjörna formanni félagsins, Lárusi Sigurði Lárussyni.

Posted on

Ræktaðu þinn eigin hvítlauk

Hvítlaukur frá í fyrrahaust tilbúinn til uppskeru þessa dagana

Eins og undanfarin ár gengst matjurtaklúbbur Garðyrkjufélagsins fyrir innflutningi á lauk á þessu hausti – hvítlauk og schalottlauk.

Frá og með deginum í dag geta félagsmenn í Garðyrkjufélaginu gert sínar pantanir á lauk í vefverslun félagsins (https://gardurinn.is/vefverslun/).

Eins og í fyrra er um að ræða þrjár gerðir hvítlauks – allar upprunnar í Frakklandi en keyptar hingað frá ræktanda í Svíþjóð. Þessar tegundir hafa reynst vel hér og uppskera verið góð. Um er að ræða afbrigðin Thermidore, Vigor og Germidour. Shallott laukurinn er af afbrigðinu Longor.

Gera þarf pöntun í síðasta lagi á miðvikudaginn 15. september. Þegar vitað er hversu mikið magn hefur verið pantað verður framleiðandanum í Svíþjóð gert viðvart og má reikna með að laukurinn verði tilbúinn til afgreiðslu hjá Garðyrkjufélaginu í Síðumúla 1, Reykjavík, í byrjun október og þá er þegar best að planta lauknum út í beð. Við afhendingu verður að sjálfsögðu gætt ítrustu sóttvarnaráðstafana.

Hver laukur (með allt að 20 rif) kostar 700 krónur en schalottlaukurinn 130 krónur. Þetta er hagstæðara verð en stendur til boða annars staðar.

Nánar um laukana

GERMIDOUR: Snemmsprottinn og öflugur laukur, fjólublár, 8-20 rif. Auðvelt að flétta blöðin saman til að þurrka. Svíar taka upp sinn lauk upp úr miðjum júlí – sennilega betra að bíða hérlendis um einn mánuð til.

THERMIDROME: Snemmsprottinn, stór laukur, 14-21 rif. Öflugt afbrigði. Auðvelt að flétta til þurrkunar og geymslu. Uppskera upp úr miðjum ágúst.

VIGOR: snemmsprottinn og stór laukur, svolítið fjólublár, 14-21 rif. Auðvelt að flétta til þurrkunar og geymslu. Uppskera um eða uppúr miðjum ágúst.

LONGOR schallott laukur: Settur niður að hausti, má taka upp í byrjun ágúst árið á eftir. Vex í stjörnu – hver laukur getur allt að sexfaldast. Geymist lengi.

Posted on

Aðalfundur Garðyrkjufélags Íslands

Aðalfundur Garðyrkjufélags Íslands var haldinn 30.ágúst 2021.
Á fundinum var auk hefðbundinna aðalfundarstarfa kosinn nýr formaður félagsins og tveir nýir stjórnarmenn.

Var Lárus Sigurður Lárusson kjörinn nýr formaður félagsins og tekur hann við af fráfarandi formanni, Ómari Valdimarssyni, sem mun áfram sitja í ritnefnd Garðyrkjuritsins.

Ný í stjórn hlutu kosningu þau Konráð Lúðvíksson og Þóra Þórðardóttir en nýir varamenn voru kjörnir þeir Gísli Tryggvason og Sigurbjörn Einarsson. Áfram sitja í stjórn félagsins þau Guðríður Helgadóttir, Eggert Aðalsteinsson og Kristján Friðbertsson.

Nýr formaður félagsins, Lárus Sigurður starfar sem lögmaður alla jafna. Hann er einnig formaður stjórnar Menntasjóðs námsmanna og hefur sinnt ýmsum félags- og
trúnaðarstörfum í gegnum tíðina. Hann er giftur Sævari Þór Jónssyni, lögmanni og MBA, og saman eiga þeir einn son.

Garðyrkjufélag Íslands er eitt af elstu félagasamtökum landsins, stofnað árið 1885. Félagið hefur starfað óslitið í 136 ár og á þeim tíma staðið fyrir öflugri fræðslu- og útgáfustarfsemi, þ.m.t. útgáfu Garðyrkjuritsins. Félagið starfrækir bæði bóksölu og bókasafn, sem geymir fjölda bóka sem margar hverjar eru ófáanlegar annars staðar. Þá rekur félagið einnig fræbanka sem aðgengilegur er á heimasíðu félagsins: https://gardurinn.is.

Garðyrkjufélagið þakkar fráfarandi formanni og stjórnarmönnum gott og farsælt starf og býður nýtt fólk velkomið til starfa.

Posted on

Lokað í júlí – „síðasti sjens“…

 

Við minnum á að skrifstofa félagsins er að vanda lokuð í Júlí. Hið sama á því við um vefverslunina, þ.m.t. fræbankann.

Ef þið eigið eftir að panta eitthvað sem vantar fyrir ágúst, eða eigið erindi við skrifstofuna, þá er um að gera að drífa í því núna. Jafnvel hægt að hafa augun opin hvort afsláttur verði af bókum núna í júní… 

 

Posted on

Aðalfundur GÍ 26. apríl

Aðalfundur Garðyrkjufélags Íslands 2021 verður haldinn  mánudaginn 26. apríl  næstkomandi í húsi félagsins að  Síðumúla 1 í Reykjavík. Að sjálfsögðu verður ávallt miðað við þær sóttvarnarreglur sem þá verða í gildi og er þetta því birt með fyrirvara um þær.

Fundurinn hefst kl. 19:30.
Dagskrá: venjuleg aðalfundarstörf; lagabreytingar; stefnumótun.

Félagsmenn eru hvattir til að gefa kost á sér til  trúnaðarstarfa fyrir félagið á 
aðalfundinum eða fyrir hann.

Nánar auglýst síðar.
Stjórn GÍ

Posted on

Komdu í forystusveit GÍ

Ágætu félagar í Garðyrkjufélagi Íslands,

Það líður að vori og þá verður haldinn aðalfundur Garðyrkjufélagsins, væntanlega um miðjan apríl.

Eins og nærri má geta þarf mörg handtökin til að félagið geti gegnt sínu hlutverki. Sem betur fer er það svo að jafnan eru margir fúsir til að hjálpa til við eitt og annað sem til fellur. Fyrir það þökkum við hjartanlega öllum þeim sem hafa lagt félaginu lið.

Tilefni þessa bréfs er í fyrsta lagi að færa ykkur þakkir – og svo að hvetja fleiri til að leggja hönd á plóg, til dæmis með því að gefa kost á sér til setu í stjórn félagsins, klúbbum og nefndum.

Á aðalfundi í vor þarf að kjósa nýja stjórnarmenn, þar á meðal formann. Sá er nú situr þarf að draga sig í hlé af persónulegum ástæðum. Rekstur félagsins er kominn í þokkalegt form og fjölmargt skemmtilegt sem bíður nýrrar stjórnar að fást við.

Ef þú, eða einhver sem þú þekkir, hefur áhuga á að leggja félaginu lið með því að taka sæti í stjórn eða nefndum, þá biðjum við þig vinsamlegast að láta okkur vita hið allra fyrsta.

Hið sama gildir um landshlutadeildir og sérklúbba félagsins – Ávaxtaklúbbinn, Matjurtaklúbbinn, Sígræna klúbbinn, Sumarhúsaklúbbinn, Rósaklúbbinn, Blómaskreytingaklúbbinn – allir hafa gott af reglulegri endurnýjun. Fáeinir klúbbar og deildir hafa liðið fyrir það á undanförnum misserum að þar hefur ekki fengist fólk til forustu þótt eftirspurn eftir þjónustu og samstarfi fari stöðugt vaxandi.

Ég hvet ykkur því til að láta hendur standa fram úr ermum og gefið kost á ykkur til starfa í forustusveit Garðyrkjufélagsins!

Með gróðursælum félagskveðjum,

Ómar Valdimarsson

Formaður GÍ