Posted on

Ræktaðu þinn eigin hvítlauk

Hvítlaukur frá í fyrrahaust tilbúinn til uppskeru þessa dagana

Eins og undanfarin ár gengst matjurtaklúbbur Garðyrkjufélagsins fyrir innflutningi á lauk á þessu hausti – hvítlauk og schalottlauk.

Frá og með deginum í dag geta félagsmenn í Garðyrkjufélaginu gert sínar pantanir á lauk í vefverslun félagsins (https://gardurinn.is/vefverslun/).

Eins og í fyrra er um að ræða þrjár gerðir hvítlauks – allar upprunnar í Frakklandi en keyptar hingað frá ræktanda í Svíþjóð. Þessar tegundir hafa reynst vel hér og uppskera verið góð. Um er að ræða afbrigðin Thermidore, Vigor og Germidour. Shallott laukurinn er af afbrigðinu Longor.

Gera þarf pöntun í síðasta lagi á miðvikudaginn 15. september. Þegar vitað er hversu mikið magn hefur verið pantað verður framleiðandanum í Svíþjóð gert viðvart og má reikna með að laukurinn verði tilbúinn til afgreiðslu hjá Garðyrkjufélaginu í Síðumúla 1, Reykjavík, í byrjun október og þá er þegar best að planta lauknum út í beð. Við afhendingu verður að sjálfsögðu gætt ítrustu sóttvarnaráðstafana.

Hver laukur (með allt að 20 rif) kostar 700 krónur en schalottlaukurinn 130 krónur. Þetta er hagstæðara verð en stendur til boða annars staðar.

Nánar um laukana

GERMIDOUR: Snemmsprottinn og öflugur laukur, fjólublár, 8-20 rif. Auðvelt að flétta blöðin saman til að þurrka. Svíar taka upp sinn lauk upp úr miðjum júlí – sennilega betra að bíða hérlendis um einn mánuð til.

THERMIDROME: Snemmsprottinn, stór laukur, 14-21 rif. Öflugt afbrigði. Auðvelt að flétta til þurrkunar og geymslu. Uppskera upp úr miðjum ágúst.

VIGOR: snemmsprottinn og stór laukur, svolítið fjólublár, 14-21 rif. Auðvelt að flétta til þurrkunar og geymslu. Uppskera um eða uppúr miðjum ágúst.

LONGOR schallott laukur: Settur niður að hausti, má taka upp í byrjun ágúst árið á eftir. Vex í stjörnu – hver laukur getur allt að sexfaldast. Geymist lengi.