
Vorið er misjafnt hjá okkur öllum. Veðurfarslega getur verið gríðarlegur munur milli landshluta og sjá sumir ekkert nema snjóskafla allt um kring, meðan aðrir sjá litadýrð springa út í hverju horni. Vorið kemur þó alltaf á endanum. Sjálfur reyni ég að auka áhrifin af vorinu í kringum mig, með því að setja mikið niður af snemmblómstrandi laukum. Það er eitthvað við það að sjá lífið í garðinum kvikna sem kemur manni, þó stundum rólega, í vorgírinn. Hjá mér eru vetrargosarnir fyrstir. Þeir koma á undan vorinu, en blikka mann svona aðeins til að minna á að það er farið að síga á seinni hluta vetrar og styttist í vorið. Í framhaldinu taka við hinir ýmsu krókusar, stjörnuliljur, smáírisar og snotrur, sem allajafna koma sínum skreytingum í gang á undan fyrstu túlipönum og páskaliljum. Vorið virðist einhvern vegin alltaf í senn svo lengi að mæta almennilega á svæðið, en samt svo skyndilega komið og fljótt að líða. Sama gleðin er þó ár eftir ár, með hverju nýju blómi sem opnast, hverri breytingu í garðinum. Sama stressið líka. Kemur rok og rigning um leið og fallegustu blómin hafa opnast? Kemur frost strax eftir að ávaxtatrén hafa opnað sína knúpa? Breytileikinn í smáatriðunum getur verið þó nokkur, en í stóru myndinni breytist samt afar lítið yfir árin.
Ekki get ég sýnt ykkur þetta allt í smáatriðum, en hvert ár hefur 52 vikur og því tók ég sama fjölda mynda og smellti hér inn í nokkrum skömmtum. Tilvalið þótti mér að bjóða ykkur upp á smáréttahlaðborð með nokkrum bitum frá árinu 2019 og kemur því fyrsti skammtur af 4 hér. Reyndar bættust nokkrir konfektmolar við á lokametrunum, svo við förum kannski rétt aðeins yfir 52stk. Fyrsti skammtur nær frá fyrsta degi árs út maí mánuð.
Fösturósarblendingur fegrar garðinn í byrjun árs.Elliðaárdalurinn er oft afar fallegur í vetrarham, þó gróðurinn hvíli sig um stund. Fallega grænn mosi í mars fékk smá éljaskammt. Í lok mars benti þetta fína grýlukerti á Ingólfsfjall, en mosinn á steinunum var eina áberandi plöntulífið. Hrossafífillinn (Petasites hybridus) skartaði sínum fagra bleika lit á indælum apríldegi í Kópavoginum. Krókusar og hélurifs eru bestu vinir í garðinum.
Apríl er oftast aðal krókusamánuðurinn.„Blörraðar“ birkikembur fjölga sér og önnur fylgist með. Vetrargosa vinir tveir faðmast og spjalla um daginn og veginn, án þess að taka eftir neinu. Kaupmannatúlipaninn ‘Ice Stick’ er alltaf með fyrstu túlipönum í gang hjá mér og snýr aftur ár eftir ár. Hann er jafnvel fallegri lokaður en opinn. Gildir einu hvort jólarósin (Helleborus niger) blómstrar að vetri eða vori, alltaf er hún jafn fögur. Í lok maí eru flestir túlipanar komnir á fullt, grassprettan kröftug og gróskan í garðinum áberandi. Kúrileyjakirsið ‘Ruby’ (Prunus kurilensis ‘Ruby’) skreytir svo sannarlega vorið. Vingjarnlegir vorkólfar (skollafætur) klóelftingar áttu hug minn allan, þó hafið, sólin, himininn og Kirkjufellið hafi öll lagt sig fram um að ná athyglinni.
Túlipanar bæta hér fallegum lit, innanum fagra birkið, sunnukvistinn og silfursóleyna.