
Haustin gefa okkur rok og rigningu í bland við litadýrð trjáa sem hvert af öðru hefur vegferð sína í átt til vetrardvala. Veturinn róar rokið, en færir okkur í stað snjóþunga og frost. Við sjáum sterk tré standa af sér hvert veðrið á fætur öðru, þartil hið óumflýjanlega gerist og eitthvað brotnar eða fellur. Við fylgjumst með snjóflyksunum skreyta greni og furu og þekja jörð. Í gegnum snjóinn lýsa svo vetrarljósin okkar fallegu. Jólaljós er nefnilega hugtak sem dugar ekki á Íslandi. Við höfum vetrarljós, eða skammdegisljós. Þau fara í gang þegar dagarnir eru orðnir áberandi stuttir og svo slökkt aftur þegar við erum farin að dásama síðvetrarbirtuna.
Smáfuglarnir flykkjast til okkar og narta í epli, korn og annað góðgæti og gleðja okkur um leið. Grýla lætur vita af sér í kertaformi víða og norðurljósin dansa til að minna okkur á græna lit sumarsins. Smám saman bráðnar snjókallinn, vorið fer aftur að nálgast og sumarblómafræin spíra líkt og þeim sé borgað fyrir það.
Hér er að finna lokahluta þessarar myndaseríu og tökum við því fyrir fjóra síðustu mánuði ársins. Við hefjum leika 10 vikum eftir lengsta dag ársins og ljúkum þessu í kringum þann stysta.
Morgunfrúin getur stundum verið svolítið morgunfúl og lengi að vakna almennilega. Sérstaklega eftir smá rigningu. Kvistarnir í Hlíðargarði í Kópavogi sýna fegurð sína á mildum haustdegi. Þegar fiðrildi feykjast að Fróni með hlýjum austanáttum haustsins er ánægjulegt að berja þau augum. Í septemberlok 2019 birtist hér mikill fjöldi aðmírálsfiðrilda (Vanessa atalanta) og flögruðu þó nokkur þeirra um Meltunguna í Kópavogi, ekki síst í kringum sírenur og aðrar fiðrildavænar plöntur. Blóðmura (Potentilla nepalensis) ‘Miss Willmott’ blómstrar hér fallega í Grasagarði Reykjavíkur í september. Garðablágresi (Geranium pratense) ‘Mrs. Kendall Clark’ í Grasagarði Reykjavíkur. Haustliljan (Colchicum autumnale eða C. pannonicum) er nokkuð viðkvæm fyrir róstursömu haustveðri, en á mildu hausti eða í góðu skjóli lífgar hún aldeilis upp á haustið í garðinum. Reynir (Sorbus) ‘Joseph Rock’ er hér í september lok enn með grænt lauf, en með sín fögru ber. Fleiri sækja í fegurðina, því ekki er reynir á matseðlinum hjá asparglyttunni (Phratora vitellinae). Hún hefur bara ekki staðist mátið að skoða fegurðina nánar. Tekið í Meltungu, Kópavogi. Haustlyng tryggir litadýrð þegar annar litur fer að hverfa. Hér heilsast að haustlagi vinirnir síberíuþyrnir og dögglingsþyrnir. Haustkrókus (Crocus speciosus) er enn ein dýrðin þegar sól hefur tekið að halla. Dýrmætur litur í október mánuði. Haustliljublendingurinn Colchicum ‘Waterlily’ hér í miðjum október. Haustfegurðin í Benmore grasagarðinum í Skotlandi gefur íslensku haustlitunum ekkert eftir. Hér safnast fögur haustlauf saman. Hlynur, beyki og fleiri til hafa hér lagt sitt af mörkum. Haustkrókusarnir loka sig af frá sólarleysi og kulda fáeinum vikum frá stystu dögum ársins. Hér myndast því enn ein fegurðin í garðinum. Dapurleikinn sem fylgja vill skammdeginu felst hér í því að frostið hefur fangað blómin fögru. Haustlitir og hrím hafa alla burði til að fanga athyglina. Hér í Elliðaárdal þegar lítið er eftir af árinu. Í náttúrunni sjáum við oft listaverk. Hér er aðalhlutverkið í höndum frostnála. Endur fyrir löngu. Nei annars, ég veit ekkert hvort þær eru fyrir löngu.
Vinsælt er kringum vetrarsólstöður að versla sér tré og skreytingar í tilefni hátíðanna. Þetta „andartak“ fangaði ég einmitt í einni slíkri för við Elliðavatn.