Ævintýragjörnu rifsþélurnar: Smásaga úr Draumaheimum (áður birt í Garðyrkjuritinu 2020)
Höf. Kristján Friðbertsson
Dag einn sátu þélusystur þétt saman á laufi, í djúpum samræðum yfir morgunmatnum. Ræddu þær sín á milli hvað það væri ósanngjarnt að bara fullorðnu þélurnar mættu ferðast.
„Af hverju þarf ég eitthvað að læra að fljúga til að mega ferðast?“ sagði ein.
„Ég segi það nú með þér! Mannfólkið er alltaf að ferðast og aldrei sé ég vængi á þeim!“ heyrðist þá í annarri.
Sú þriðja sagðist þá reyndar hafa heyrt af því sögur, að sumt lágvaxið mannfólk gengi stundum húsa á milli með vængi, en líklega bara einn eða tvo daga á ári. Játaði þó jafnharðan að hún gæti svo sem alls ekki staðfest hvort mark væri takandi á þessari flökkusögu.
Þennan dag hafði verið skínandi sól og blankalogn, en rétt í þann mund sem samræðurnar stóðu sem hæst kom skyndilega sterk vindhviða sem náði að feykja þessu laufblaði beinustu leið af rifsberjarunnanum og niður á nálæga stétt. Systurnar héldu sér sem fastast í laufið og fuku því með.
Þær voru ekki fyrr lentar mjúklega á stéttinni en allur vindur hvarf. Steinhissa, skelkaðar en spenntar voru þær skyndilega komnar á allt annan stað, ólíkan því sem þær höfðu áður þekkt.
„Heyriði systur, sjáiði hvað hefur gerst? Óskin okkar er að rætast ! Okkur hefur verið gefið einstakt tækifæri til að ferðast og upplifa okkar eigin ævintýri!“
Eftir smá umhugsun varð þeim ljóst að þetta var auðvitað hárrétt og eina vitið að gera hið besta úr þessu. Hver veit hvort svona tækifæri gefst nokkurn tímann aftur. Þær höfðu í dag verið útvaldar til að láta drauma sína rætast og nú átti sko að nýta það almennilega.
Þær litu aðeins í kringum sig en héldu sig þó á laufblaðinu. Sáu járnsmið og trjákepp labba framhjá í sín hvora áttina. Yfir þeim sveif um skamma stund blómsveifa og rétt hjá sáust nokkrar snjáldursveifur á túnfíflum sem uxu upp úr stéttinni. Skammt undan glitti svo í gljáfætlu og nokkur mordýr í kringum dauðar birkigreinar sem höfðu greinilega legið þarna lengi. Sammála voru þó systurnar um að smádýralífið þarna væri heldur fátæklegt samanborið við hið mikla samfélag sem lifir í kringum rifsið.
Öllum var þó brugðið þegar skyndilegur skuggi hékk yfir þeim. Litu þær upp og sáu þá ungan svartþröst koma til lendingar. Ekki boðaði þetta nú gott, þær höfðu verið varaðar sérstaklega við geitungum og einhverjum fuglum, en mundu ómögulega hvaða fuglum.
„Halló halló, hvað eruð þið að gera hér?“ spurði fuglinn.
„Við…hérna… ummm… æi… ætlarðu nokkuð að éta okkur?“ hálfstamaði ein systirin.
„Éta ykkur? Nei, aldeilis ekki! Ég er svo rosalega meðvitaður um heimsmálin að ég veit um vá sem ógnar okkur og mun valda mun meira veðravíti en við sjáum í dag. Mér finnst svo hrikalegt að flytja fóður heimshorna á milli fyrir hina ýmsu dýraræktun að ég ákvað bara að gerast vegan. Raunar geng ég enn lengra, ég borða helst bara ber og fræ því ég er á fullu í skæruliðaskógrækt. Rækta hin ýmsu tré hér og þar, þar sem fólk á síst von á. Bý þannig til hentugra umhverfi fyrir okkur fuglana og ykkur smádýrin á sama tíma og ég eyk gríðarlega kolefnisbindinguna.“
Systurnar vissu ekki alveg hvernig þær ættu að bregðast við og litu raunar hvor á aðra með einskonar „ókei… einn nýsloppinn af hæli“ svip. En satt að segja kom þetta þeim mjög vel, því fyrir vikið urðu þær ekki næsta máltíð þrastarins.
Skyndilega grípur ein tækifærið:
„Já…..sko…. við erum eiginlega á ferðalagi. Smá ævintýraferðalagi. Gætir þú kannski mælt með einhverjum góðum stöðum?“
Það hélt nú þrösturinn. Systurnar héldu sér allar fast í laufið aftur og þrösturinn greip það með klóm sínum. Flaug með þær örlítið útsýnisflug og fór svo með þær að næstu tjörn til að skoða endurnar. Það var alltaf vinsælt, vissi hann.
Þær þökkuðu góðhjartaða vegan skógræktarþrestinum fyrir aðstoðina og hófu að skoða sig um. Þær störðu ofan í glitrandi tjörnina, létu sig dreyma um sundferðir og seglskútur og veltu fyrir sér hvernig væri nú að spjalla við alla þessa fiska sem þær sáu synda í vatninu. Í kringum sig sáu þær hinar ýmsu plöntur og alls kyns fugla. Fylgdust með öndum að leik, gæsum að frekjast, mávum að stela brauði, ástföngnum svönum og hinum ýmsu smáfuglum flögra um. Lítið var af mannfólki, en þeim fannst það bara allt í góðu lagi. Viðbrögð mannfólksins voru oftast ekkert alltof skemmtileg við rifsþélum. Ein þeirra rak augun í skilti og saman báru þær laufið með sér að skiltinu.
Þær kunnu nú ekki allar að lesa, en ein þeirra sá skýrum stöfum standa: ÞYRNIRÓS
„Jahá, systur! Nú skulum við sko klifra upp skiltið og ég get þá lesið fyrir ykkur ævintýrið um Þyrnirós!“
Svo byrjar hún lesturinn:
„Þyrnirós Papula, Rosa spinosissima Papula, Rósaætt… ha? Þetta hljómar nú ekki eins og neitt ævintýri.. Æ, afsakið þetta systur, það er líklega einhver bara búinn að skemma þetta skilti, það virðist ekki lengur vera með ævintýrið um hana Þyrnirós.“
Þær sammæltust í framhaldinu um að senda kvörtun á þetta „Garðyrkjufélag Íslands 1885“ sem hafði greinilega sett sitt veggjakrot á skiltið og skriðu aftur niður með laufið.
Á ferð sinni kringum tjörnina rákust þær svo á skrýtið, stórt appelsínugult dýr sem þær könnuðust ekki við.
„Bíddu nú við, þetta sér maður ekki á hverjum degi! Eruð þið að flytja laufblað milli staða?“ spurði framandi dýrið.
„Nei nei, við erum bara á ferðalagi og laufið er í senn hálfgert heimili, fararskjóti og matarkista. Við erum að nýta tækifærið á þessum góða degi til að ferðast aðeins og læra um heiminn. Auka víðsýni og upplifa einhver ævintýri. En hver ert þú?“
„Ég er gamall bogkrabbi sem býr í sjónum hérna rétt hjá, er bara í smá göngutúr í góða veðrinu af því mér leiddist.“
„Bogkrabbi? Ertu þá krabbi í stjörnumerkinu bogamaður? Eða kannski fréttamaður eins og Bogi Ágústsson?“ heyrðist í einni.
„Krabbi? Ertu þá ekki alæta? Ætlarðu nokkuð að borða okkur? Eða ert þú kannski vegan skæruliða skógræktarkrabbi?“ skaut önnur inn.
„Ert þú mikið að ferðast? Hvernig komst þú hingað, flaug einhver með þig eða kanntu sjálfur að fljúga“ sagði sú þriðja.
„Haha, það er nú aldeilis að þið eruð forvitnar. Ég veit ekkert hvað stjörnumerki eru, segi stundum fréttir ef ég hef einhverjar frá að segja, mínir skógar eru þaraskógar, en ég er alls ekki vegan skæruliða eitt né neitt. Ég ætla ekki að borða ykkur samt, ég borða helst bara samlokur. Ég kann ekki fljúga og enginn flaug með mig, ég bara rölti hingað sjálfur. Það eru hvort eð er oft bestu ævintýrin sem maður ákveður bara sjálfur. Ég hef ferðast þó nokkuð um ævina já, en orðinn ansi rólegur nú orðið. Viljið þið kannski koma með mér til baka í fjöruna?“
„Sagðirðu samlokur? Samlokur með skinku og osti þá, eða?“ heyrist úr þeirri yngstu.
„O neeeii. Þegar ég segi samlokur meina ég dýr sem lifa inni í skeljum. Kræklingur, ostrur og þess háttar. En jæja, ég þarf að fara að koma mér til baka, ég get haldið varlega á laufinu með ykkur á bakinu ef þið viljið.“
Systurnar þáðu það með þökkum, spenntar fyrir næsta kafla í ævintýrinu.
Krabbinn fór með þær í fjöruna og sýndi þeim dæmi um samloku sem hafði áður verið étin.
„Er þetta þá samlokubréf?“ heyrðist í þeirri yngstu, glottandi.
Brosandi út í annað, útskýrði krabbinn þá að þetta væri kræklingur, en sjálfur notaði hann frekar heitið bláskel þegar „samlokan væri tóm“.
„Stundum hafa sömu hlutirnir nefnilega fleiri en eitt nafn. Þessi samloka er líka stundum kölluð kráka, þrátt fyrir að vera ekki fugl og geta ekki flogið“ útskýrði hann.
„Flogið… ah, já, það er einmitt það sem við erum of óþreyjufullar að bíða eftir. Við viljum geta gert allt núna sem fullorðna fólkið gerir og teljum okkur alveg hafa jafnmikinn rétt til þess. Kannski gerum við það meira að segja bara betur en allir þessir gamlingjar sem eru alltaf bara að hneykslast á manni og banna manni allt“ gjammaði ein pirruð systir.
Hér kvaddi gamli krabbinn, óskaði þeim góðs gengis með bros á vör og rölti út í sjó.
Systurnar skoðuðu skúfaþang og bóluþang, skeljabrot og ýmsa steina, ýmiss konar rusl sem kom þeim á óvart að ætti heima þar, sem og fjörukál, melgresi og hinar ýmsu aðrar lífverur úr dýra- og jurtaríkinu. Kom svo að því að þær vildu halda í siglingu, en þótti einni þá nægilegt ævintýri vera komið í bili. Fóru því flestar systurnar með laufið á næsta þang sem þær fundu nærri flæðarmáli og biðu þess að það myndi fljóta á haf út með þær í farteskinu.
Sú sem eftir varð, skoðaði fjöruna áfram og rakst m.a. á krabba sem hún spjallaði við í dágóða stund í von um að hann myndi ferja hana aftur heim í garðinn, en sá var búinn að ganga nóg þann daginn og ætlaði að fara að leggja sig. Sá hún þá rautt smádýr ganga framhjá, sem krabbinn kallaði mítil, en þar sem hún vissi ekki hvað mítill væri ákvað hún að það væri ekki þorandi að taka það tali. Hún vissi hvað rifsber var og þetta var rautt eins og þau stundum eru, en þetta var augljóslega ekki rifsber. Auk þess var þetta dýr of lítið til að geta borið hana alla leiðina heim hraðar en hún gæti sjálf skriðið. Hún skreið því bara til baka í áttina sem hún taldi garðinn vera og vonaði að systur hennar myndu eiga skemmtilega siglingu og koma til baka með fulla vasa af spennandi sögum.
Hún skreið og skreið gegnum sand og steina í átt að grænu grasi, en ferðalagið virtist endalaust. Skyndilega sá hún eitthvað hræðilegt skrímsli nálgast og hrópaði hún þá upp í skelfingu!
Þegar hún leit í kringum sig var hún allt í einu komin til baka heim á rifsberjarunnann góða. Hún var ein á sama laufinu og fyrr um daginn, en það var allt uppétið og aftur fast á trénu. Skyndilega áttaði hún sig á því að hún hafði verið að vakna. Þetta hafði þá bara allt saman verið draumur.
Hún hafði borðað yfir sig og sofnað á miðju laufinu meðan allar systur hennar kláruðu laufið og fóru svo á önnur nærliggjandi lauf.
Hún hugsaði til baka um þennan ævintýraríka draum og hlakkaði til að verða fullorðin og geta kannað heiminn aðeins betur. En henni lá ekkert á lengur. Það var líklega bara í góðu lagi að bíða þar til réttur tími kæmi. Hún vonaði nú samt að hún myndi rekast á þennan góðhjartaða krabba einn daginn.
„Já og fuglinn. Skæruliðinn sjálfur. Ætli hann sé til í raun og veru? Svona skógræktarfuglar væru rosalega sniðugir. Planta trjám út um allt svo við höfum meira að borða” hugsaði hún með sér og skreið af stað í leit að systrum sínum.