Posted on

Blómgunartími túlípana – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Haustið er tími haustlaukanna og þótt úti sé kuldakast með tilheyrandi snjókomu, skafrenningi og frosti er rétt að fara að huga að undirbúningi vorsins, ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Með svolítilli skipulagningu og útsjónarsemi getur maður tryggt sér blómstrandi haustlauka í garðinum sínum frá því snemma í mars langt fram á sumar. Þær tegundir sem fyrstar skjóta upp kollinum eru gjarnan vetrargosi og krókusar en þegar líður á vorið skjóta hávaxnari og skrautlegri laukategundir upp kollinum og auka á sumartilfinninguna.

     Túlípanar byrja almennt ekki að blómstra hérlendis fyrr en í apríl, margar tegundir blómstra í maí og sumar standa vel fram í júní. Tíðarfarið að vorinu hefur þó alltaf nokkur áhrif á blómgunina þannig að í mildu og hlýju vori fara plöntur almennt fyrr af stað og eru túlípanar þar engin undantekning á. Gróðursetning túlípana, eins og annarra lauka, fer fram að hausti til og er allt í lagi þótt það dragist aðeins fram eftir hausti, laukarnir þola mjög illa bleytu og gott að bíða með gróðursetninguna aðeins fram yfir verstu haustrigningarnar. Ef laukarnir lenda í mikilli bleytu geta þeir morknað eða orðið sveppasjúkdómum að bráð.

     Blómlitir túlípana eru ákaflega skrautlegir og er hægt að finna flesta liti nema bláan, þó eru til ákaflega fallegir fjólubláir túlípanar. Lengi hafa menn reynt að kynbæta svartan túlípana og eru til nokkur yrki sem eru hérum bil alveg svört. Galdurinn við valið á túlípönum í garða er svo auðvitað sá að velja saman tegundir og yrki þannig að plönturnar skiptist á að vera í blóma og blómgunartíminn nái þannig frá því snemma í apríl langt fram á sumar. Það ætti að vera hægur vandi því garðatúlípönum er skipt í flokka sem meðal annars taka mið af blómgunartíma, þótt aðalflokkunaratriðið séu blómin. Blómgunartíminn flokkast þannig að snemmblómstrandi túlípanar byrja að blómstra í apríl og standa eitthvað fram í maí, miðblómstrandi túlípanar byrja að blómstra tiltölulega snemma í maí og standa út maí og síðblómstrandi byrja að blómstra seint í maí og standa fram í júní.

Flokkar túlípana eru sem hér segir:

 • Einfaldir snemmblómstrandi túlípanar: Einföld skálarlaga blóm í ýmsum litum, blómin stundum skellótt. Hæð þessara túlípana er 15-45 cm.
 • Ofkrýndir snemmblómstrandi túlípanar: Ofkrýnd blóm, blómin stundum skellótt. Hæðin 30-40 cm. Þessir túlípanar eru miðblómstrandi þótt nafnið gefið annað til kynna.
 • Tromp túlípanar: Einföld skálarlaga blóm, ýmist einföld eða skellótt. Hæðin 35-60 cm. Mið- til síðblómstrandi.
 • Darwinstúlípanar: Einföld, egglaga blóm, mjög fjölbreyttir blómlitir, einlitir eða ýmsar útgáfur af marglitum blómum. Hæðin 50-70 cm. Mið- til síðblómstrandi.
 • Einfaldir síðblómstrandi túlípanar: Einföld, skálarlaga til stauplaga blóm (stauplaga blóm eru þannig að krónublöðin sveigjast út til hliðanna efst uppi), margir litir. Hæðin 45-75 cm. Síðblómstrandi.
 • Liljutúlípanar: Einföld, áberandi stauplaga blóm, margir litir, oft tvílitir. Hæðin 45-65 cm. Síðblómstrandi.
 • Kögurtúlípanar: Einföld skállaga blóm með áberandi kögruð krónublöð í ýmsum litum. Hæðin 35-65 cm. Síðblómstrandi.
 • Grænblómstrandi túlípanar: Einföld skálarlaga blóm sem eru aðallega græn á litinn en blómin sprengd með öðrum litum, oft mjög skrautlegir. Hæðin 10-40 cm. Síðblómstrandi.
 • Rembrandt túlípanar: Einföld skálarlaga blóm í hvítum, gulum eða rauðum litum sem eru sprengdir með ýmsum öðrum litum, sjaldnast grænum. Þessi litadýrð er tilkomin vegna vírusasýkingar. Hæðin 45-65 cm. Síðblómstrandi.
 • Páfagaukatúlípanar: Einföld skálarlaga blóm, mjög stór í ýmsum litum, oft sprengdir. Krónublöðin mjög flipótt eða kögruð. Hæðin 35-65 cm. Síðblómstrandi.
 • Ofkrýndir síðblómstrandi túlípanar: Ofkrýnd skállaga blóm í mörgum litum. Hæðin 10-40 cm. Síðblómstrandi.
 • Kaupmannatúlípanar: Afbrigði og yrki af kaupmannatúlípana, Tulipa kaufmanniana. Einföld skállaga blóm, oft marglit. Hæðin 15-30 cm. Snemm- til miðblómstrandi.
 • Eldtúlípanar: Afbrigði af eldtúlípana, Tulipa fosteriana. Einföld skállaga blóm, yfirleitt einlit en stundum skellótt. Hæðin 20-65 cm. Miðblómstrandi.
 • Dílatúlípanar. Afbrigði af dílatúlípana, Tulipa greigii. Einföld skállaga blóm, mjög stór, yfirleitt einlit en stundum skellótt. Áberandi skellótt laufblöð. Hæðin 15-30 cm. Snemm- til miðblómstrandi.
 • Aðrir túlípanar: Í þennan flokk falla túlípanar sem ekki komast í hina flokkana, til dæmis margblóma túlípanar sem bera fleiri en eitt blóm á hverjum stöngli.

Nú er bara um að gera að fara að púsla saman túlípanayrkjum til að framkalla stórkostlegt litaspil í vor.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2005)