Fimmtudaginn 21. september kl. 20-21 í sal Garðyrkjufélagsins að Síðumúla 1:
Svavar Skúli garðyrkjufræðingur og Hjördís Rögn garðyrkjunemi sem starfa bæði í Grasagarðinum munu fara yfir helstu atriði við söfnun fræja að hausti.
Viðburðinum verður ekki streymt að þessu sinni því þetta verður meira sýnikennsla og spjall sem erfitt er að flytja um netheima.
Okkur langar að skapa skemmtilegar og opnar umræður um hverju þarf að huga að og útskýra hvernig helstu tegundir í görðunum okkar haga sér þegar kemur að fjölgun.
Spurningar og vangaveltur vel þegnar. Kaffi og kex á kantinum.
Verið hjartanlega velkomin á fimmtudaginn!
Author: Vilhjálmur Sigurjónsson
Plöntuskiptadagur – plan B
Kæru félagar
Ef rigningaguðirnir ætla að heiðra okkur með nærveru sinni á morgun, laugardaginn 26. munum við flytja viðburðinn INN í bókasafnið, nánar tiltekið á aðra hæð við innganginn.
Inni og útiplöntur velkomnar til að skipta og miðla. Frjálst er að skilja eftir sjálfsánar plöntur til að gefa þeim sem eru að byrja í garðyrkjunni.
Plöntuskiptadagur síðsumars 2023
Laugardaginn 26. ágúst ætlum við hjá Garðyrkjufélagi Íslands að halda plöntuskiptadag við Bókasafn Kópavogs. Atburðurinn hefst kl. 12 og stendur allt fram til kl. 15 eða ögn skemur ef allt er upp gengið.
Bókasafnið er opið, næg bílastæði og kaffihús í grenndinni. Flestar plöntur hafa gott af því að vera skipt reglulega, stingum saman nefjum og deilum okkar uppáhalds.
Bestu blómakveðjur frá GÍ
Garðaskoðun á Selfossi
Mary og Ægir ætla að opna gróskumikla garðinn sinn sunnudaginn 13.ágúst að Merkilandi 8 Selfossi. Þau hafa verið dugleg í gegnum árin að safna og skipta plöntum með okkur í Garðyrkjufélaginu. Einnig hafa þau verið ötul í garð- og gróðurviðburðum og skipulagningu bæði í bænum og sinni sveit 🌼🪻🌸 Takk fyrir gott boð kæru hjón!
Verið velkomin milli kl.13 og 17.
Garðaskoðun í Hafnarfirði
Rannveig blómasnillingur ætlar að taka á móti félögum Garðyrkjufélagsins fimmtudagskvöldið 27. júlí kl. 20-22 að Suðurgötu 70 í Hafnarfirði.
Hún ætlar að sýna okkur garðinn sinn og opna plöntusöluna.
Endilega kíkið á www.gardaflora.is og kynnið ykkur málið🌸
Sjáumst í Hafnarfirði!
Þakkir fyrir garðaskoðun
Við viljum þakka fyrir frábærar móttökur í Mosó í gær.
Snilldarhugmynd að opna þrjá garða í sömu götunni! Gestgjafar tóku á móti okkur með brosi, fróðleik og sætum bita. Hver garður hafði sinn sjarma og klárlega fór hver og einn heim með nokkrar góðar hugmyndir, því það er einmitt tilgangurinn með garðaskoðunum
Garðaskoðun 21. júlí
Garðarnir við Hjarðarland 6, hjá Söru Rún og Inga og við Hjarðarland 8 hjá hjá Láru Höllu og Sæma í Mosfellsbæ verða opnir garðyrkjufólki föstudaginn 21.júlí kl.17-19.
Annar garðurinn er 3-4 ára gamall, bæði smíðaður, þaulskipulagður og ræktaður.
Hinn er eldri en Súðin, alltaf í niðurníðslu, órækt og villimennsku, sannkallaður villigarður.
Öll velkomin í Mosó
Þakkir fyrir garðaskoðun
Önnur garðaskoðun sumarsins
Svala ætlar að opna fyrir okkur garðinn sinn að Kirkjuvegi 19, Selfossi (rétt við Miðbæinn) sunnudaginn 16.júlí frá kl. 15:00-18:00.
Um er að ræða garð þar sem aldar eru býflugur (Apis mellifera) og ræktun tekur að einhverju leyti mið af því hvað hentar býflugum. 🌼🐝
Helst fer ekkert úr garðinum, allt er endurnýtt. Molta og afrakstur Bokashi er notað í ræktun. Nokkur haugbeð eru í garðinum. A.m.k. 4 tegundir af sírenum, fleder (svartyllir), toppar og japanskir hlynir. Lággróður svo sem jarðaber, hnoðrar og dvergavör nýtast í beðum ásamt kurli til að verjast arfa.
Verið velkomin.
Þakkir fyrir garðaheimsókn
Við viljum þakka hjónunum Ásu og Agli sem og Gunnhildi og Árna fyrir frábærar móttökur þann 4. júlí á fyrstu garðaopnun sumarsins.
Við garðáhugafólk bættum helling í fróðleiksbankann en garðarnir voru báðir til fyrirmyndar og reynslusögur fylgdu því sem fyrir augu bar.
Hvílíkir garðasnillingar og listamenn👌🏻🍀🌼
Vonandi eru fleiri fús til að opna garða sína með hækkandi sól, það er svo gaman að deila.
Hafið samband við GÍ eða Hjördísi Rögn á FB🌸