Posted on

Tungumál garðyrkjunnar: viðskiptavinirnir – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Sérhvert fag, sama hvaða nafni það nefnist, hefur á að skipa fagorðum sem eru lýsandi fyrir sérstöðu fagsins á einn eða annan hátt. Fagorð þessi geta til dæmis náð yfir hluti eins og verkfæri eða hugtök eða athafnir sem tengjast faginu. Fagmennirnir eru auðvitað með sitt tungumál á hreinu en oft kemur babb í bátinn þegar viðskiptavinirnir ætla að láta ljós sitt skína. Garðyrkja er þar engin undantekning og oft koma fram grátbroslegar afbakanir á orðum sem garðyrkjufólki eru töm en eru ekki endilega hluti af daglegum orðaforða almennings.

     Orðið ,,fjölær” er dæmi um slíkt. Fjölærar plöntur eru plöntur sem lifa í mörg ár. Yfirleitt er þá verið að tala um jurtkenndar plöntur sem vaxa upp að sumri til, blómstra, þroska aldin og falla svo niður að vetri til. Næsta sumar taka þær aftur við sér, vaxa upp, blómstra, þroska aldin og svo koll af kolli. Í raun og veru eru tré og runnar líka fjölærar plöntur því þessir plöntuhópar lifa lengur en tvö ár. Þetta orð er því gegnsætt og merking þess rökrétt. Viðskiptavinir gróðrarstöðva eru þó margir að stíga sín fyrstu spor í ræktun og hafa kannski ekki tileinkað sér svona fagorð.

     Hér á eftir eru dæmi um afbakanir á þessu orði og hugsanleg merking á afbökuninni fylgir á eftir, innan sviga. Komið hafa fram beiðnir um ,,fjölærðar” plöntur (margar plöntur settar saman í hóp og öskrað á þær þar til þær hreinlega ærast), ,,fjölhærðar” plöntur (með mörgum hárum, hugsanlega verið að biðja um loðvíði, loðkvist eða einhverjar aðrar loðnar plöntur), ,,fjölyrtar” plöntur (plöntur sem samkjafta ekki, hafa tekið auglýsinguna ,,Látið blómin tala” bókstaflega), ,,fjölhæfar” plöntur (er margt til lista lagt, geta haft ofan af fyrir eigendum sínum með ýmsum hætti) og ,,fjölrænar” plöntur (andstaðan við einrænar, eru ákaflega félagslyndar).

     Birki úr Bæjarstaðaskógi hefur komið ákaflega vel út í ræktun sunnanlands og var lengi vel til sölu hjá garðplöntuframleiðendum. Á merkimiðum var gjarnan skammstafað Bæjarst.birki og vissu innanbúðarmenn hvað við var átt. Því vakti það nokkra kátínu þegar kona ein hringdi í ónefnda gróðrastöð og bað um bæjarstjórabirki. Hugmyndin er ef til vill ekki svo slæm, hugsanlega mætti nota þetta til flokkunar á birkiplöntum, efst trónir borgarstjórabirki, svo bæjarstjórabirki, þá sveitarstjórabirki og síðast en ekki síst kæmi svo oddvitabirkið.

     Allar plöntur hafa alþjóðlegt latneskt plöntuheiti og þannig getur garðyrkjufólk um allan heim borið saman bækur sínar varðandi ræktun á tilteknum tegundum. Þessi latnesku heiti eru þó hálfgert torf í daglegu tali og mun auðveldara að nota íslensk heiti. Íslensku heitin og beygingar á þeim geta þó líka vafist fyrir fólki. Þannig er ekki óalgengt að þegar viðskiptavinir vilja fá fleiri en eitt stykki af morgunfrú þá biðji þeir um nokkrar morgunfrýr. Brúðarauga er ákaflega fallegt fínlegt sumarblóm í bláum, bleikum og hvítum litum. Það hefur verið kallað ýmsum nöfnum, sumir vilja fá brúðarslör, aðrir brúðareyra og einn viðskiptavinur bað um glóðarauga og vildi hafa það blátt…

Fjölæru plönturnar fá oft á tíðum skemmtileg nöfn eins og fótaskinn og fjandafæla en stundum hefur maður það á tilfinningunni að nafngefandinn sé tunguliprari en fólk er flest. Kannski er tilvalið að líta á það sem æfingu í tunguleikfimi að biðja um þrjátíu og þrjá luðrukofra eða þrettán snoðhnyðrur.

     Afgreiðslufólk í gróðrarstöðvum þarf að vera vel með á nótunum og í sumum tilfellum að hafa dálítinn skammt af dulrænum hæfileikum til að viðskiptavinirnir fái örugglega réttu plönturnar, viðskiptavinurinn verður jú að vera ánægður með þjónustuna. Erfið verkefni eru ögrandi og reyna oft á hugvit afgreiðslufólks. Eitt erfiðasta verkefni sem rekur á fjörur afgreiðslufólks og getur virkilega reynt á tengsl þess við huliðsheima er hugsanlega falið í eftirfarandi setningu: ,,Ég er að leita að ákveðnu blómi, það blómstrar með svona gulum blómum, áttu það til?”

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2000)

Posted on

Stórverkefni um ræktun í heimagörðum hrundið af stað

Áhugasamir Suðurnesjamenn á námskeiðinu um aukna garðrækt, umhverfisvernd og endurvinnslu í heimagörðum.
Áhugasamir Suðurnesjamenn á námskeiðinu um aukna garðrækt, umhverfisvernd og endurvinnslu í heimagörðum.

Stórverkefni Garðyrkjufélagsins um ræktun í heimagörðum var ýtt úr vör í Keflavík í gær þar sem vaskur hópur áhugasamra heimamanna sat fyrsta námskeiðið um aukna garðrækt, umhverfisvernd og endurvinnslu.

    Námskeiðið í Keflavík í gærkvöld tókst afar vel og fóru áhugasamir ræktendur heim fullir visku og tilhlökkunar. Ætlunin er að halda annað námskeið í Keflavík í haust og fjalla þá um moltugerð og haustverkin í garðinum.

    Þessi námskeið eru fyrsti hluti þriggja ára verkefnis, sem nýtur stuðnings Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, snýr að matjurtarækt í heimagörðum. Farið er yfir öll helstu atriði sem snúa að undirbúningi garða, sáningu, ræktun og uppskeru.

    Með þessu verkefni vill Garðyrkjufélagið stuðla að aukinni þátttöku í garðrækt, umhverfisvernd og endurvinnslu með því að ráðast í víðtæka fræðslu og vitundarvakningu á landsvísu um kosti garðræktar sem samfélagslega aðgengilegrar og jákvæðrar aðgerðar í loftslagsmálum fyrir alla landsmenn. Áhersla er lögð á að tengja garðrækt við hringrásarhagkerfið og sjálfbæra þróun.

    Fjórar landshlutadeildir félagsins taka þátt í verkefninu – deildirnar í Keflavík, á Akranesi, Ólafsfirði og í Skagafirði. Að auki verður haldið námskeið fyrir áhugasama íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

    Veirufaraldurinn tafði svolítið að farið væri í gang en í ljósi þess að margir kaupa tilbúnar plöntur til að setja í garðinn í stað þess að sá fræjum, var ákveðið að fara af stað núna.

    Næstu tvö námskeið verða haldin á Ólafsfirði og í Skagafirði um komandi helgi, laugardag og sunnudag.

    Haldið verður námskeið í húsi Garðyrkjufélagsins í Reykjavík mánudaginn 22. júní og hið síðasta að þessu sinni á Akranesi þriðjudag 23. júní. Þessum námskeiðum verður fylgt eftir með haustnámskeiði, eins og í Keflavík.

    Námskeiðin eru öllum opin og er aðgangur ókeypis.

 

Guðríður Helgadóttir, varaformaður Garðyrkjufélagsins, er meðal helstu fyrirlesara á námskeiðum félagsins um tengsl garðræktar við hringrásarhagkerfið og sjálfbæra þróun.
Guðríður Helgadóttir, varaformaður Garðyrkjufélagsins, er meðal helstu fyrirlesara á námskeiðum félagsins um tengsl garðræktar við hringrásarhagkerfið og sjálfbæra þróun.
Posted on

Út með inniblómin – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Það er rétt að taka það fram hér í upphafi greinarinnar að ég hef ekkert á móti inniblómum og þetta er alls ekki heróp af neinu tagi, inniblóm eru svo sannarlega velkomin innandyra, ég á meira að segja nokkur svoleiðis sjálf og þau eru öll hin hressustu. Það sem ég ætla að fjalla um í þessari grein eru inniblóm sem hafa fengið fjölbreyttara notagildi.

     Á síðustu árum hafa skapast nýjar hefðir í ræktun hjá okkur Íslendingum. Með aukinni ræktun og tilkomu sólpalla og skjólveggja hefur okkur tekist að skapa hlýja og skjólgóða garða sem auka notagildi garðanna til muna og gera okkur kleift að rækta mun hitakærari plöntur utandyra en áður þekktist. Margar þessara tegunda hafa verið aufúsugestir á íslenskum heimilum um áratugaskeið en ekki hefur verið talið óhætt að henda þeim út á guð og gaddinn. Nú hefur ný kynslóð harðbrjósta garðyrkjumanna tekið sig til og markaðssett fyrrverandi inniplöntur sem útiplöntur. Rétt er að taka það fram að allar þessar inniplöntur eru einungis ætlaðar til notkunar utandyra yfir sumartímann því þær þola ekki íslenskt vetrarveður. Í sumum tilvikum eru þær þá ræktaðar eins og önnur sumarblóm en einnig má kippa plöntunum inn og geyma þær í hlýjunni innandyra yfir veturinn. Næsta vor er svo tilvalið að gleðja plönturnar aftur með því að veita þeim dvalarleyrfi utandyra um leið og hlýtt er orðið í veðri. Engar rannsóknir hafa verið gerðar á sálarlífi plantnanna og hugsanlegra áhrifa þessa flakks út og inn á þær en ef plöntur hefðu sál, er ég viss um að þær gleddust mikið yfir aukinni fjölbreytni í lífi sínu enda á yfirleitt ekki fyrir rótföstum plöntum að liggja að vera mikið á flakki.

  • Bergflétta, Hedera helix, er til í mörgum afbrigðum. Flest þau afbrigði sem eru með hvít- eða gulskellóttum blöðum eru of viðkvæmar til að þrífast utandyra hérlendis allt árið. Þær eru hins vegar fyllilega harðgerðar utandyra yfir sumarið og fara sérstaklega vel með blómstrandi blómum í pottum og kerjum. Bergfléttan vex ekki mikið yfir sumarið en hún minnkar ekki heldur…
  • Fúksía eða blóðdropi Krists, Fuchsia cv., er ákaflega fallegur blómstrandi hálfrunni. Blómin eru stór, ýmist einlit eða tvílit og í rauðum, bleikum, fjólubláum eða hvítum litum. Á árum áður áttu allar alvöru húsmæður fúksíur í stofu- og eldhúsgluggum sínum en svo duttu þær úr tísku og þóttu einstaklega púkaleg blóm. Nú hafa fúksíurnar fengið uppreisn æru. Þær eru komnar inn úr kuldanum og hafa verið settar út í kuldann aftur, bara í annarri merkingu. Fúksíur blómstra allt sumarið og maður fær mjög mikið af blómum fyrir peningana en rétt er að passa upp á það að fjarlægja visin blóm af plöntunum svo þær fari ekki að mynda fræbelgi, þá fer orka plöntunnar í fræmyndunina en minna í blómgun. Vaxtarlag fúksía er mjög fjölbreytt og er hægt að fá plöntur fyrir hvers konar aðstæður. Hengi-fúksíur henta einkar vel í hengipotta, uppréttar fúksíur í ker og venjulega potta og svo er jafnvel hægt að fá fúksíur á háum stofni og eru þær sérlega glæsilegar í stórum potti á sólpalli.
  • Ástralska pálmategundin Corydalis australis er glæsileg viðbót í flóru útlægu inniblómanna. Ungplöntur pálmans eru með löng, graslík blöð sem ná 60-100 cm hæð. Það gefur mjög skemmtileg áhrif að setja plöntu af þessu tagi í miðju á keri eða potti og raða blómstrandi plöntum í kring. Til eru afbrigði af þessum pálma með purpurarauð laufblöð og eru þau ekki síðri en aðaltegundin.
  • Cineraria, Pericallis x hybrida, var mikið ræktuð sem inniblóm hér áður fyrr. Hún er frábrugðin hinum tegundunum í því að hún er ekki fjölær. Cinerarian er ein þessara tegunda sem duttu úr tísku og var mikið til hætt að rækta hana. Ný afbrigði af cinerariu eru nú komin í ræktun. Þessi afbrigði eru lágvaxin og þétt og blómstra mikið. Blómin eru í bleikum, rauðum og bláum litum. Hvert blóm stendur í langan tíma og er blómgunartími plöntunnar mun lengri utandyra en innan því lægra hitastig hægir á allri starfsemi plöntunnar. Þessi tegund hentar sérlega vel stök í pott á borði eða í samplöntun með öðrum plöntum í ker og potta.

Ljóst er að þessi listi er ekki tæmandi, inni á heimilum landsmanna leynast örugglega inniblóm sem er alveg óhætt að skella út yfir sumarið, til dæmis jukkur eða drekatré. Sumir vilja jafnvel halda því fram að plönturnar hafi gott af þessari útiveru sinni því stundum getur orðið verulega heitt innandyra að sumarlagi. Það er þó vissara að tryggja þessum plöntum hlýjan og sólríkan stað þegar þær eru settar út þótt allar geti þær talist nokkuð vindþolnar. Gott er að venja þær smám saman við útiveruna og taka þær inn á nóttunni fyrst í stað.

     Við þekkjum það líklega þjóða best, Íslendingar, hvað okkur finnst skemmtilegt að leggja land undir fót og jafnvel að bregða okkur út fyrir landsteinana. Hugsanlegt er að íslensk inniblóm hafi fengið svolítið flökkusmit með vökvunarvatninu frá okkur og þau vilji gjarnan vera á faraldsrótum en til þess þurfa þau aðstoð okkar fótfráu flökkukindanna. Verum því óhrædd við að prófa okkur áfram í þessum efnum, í versta falli hefur líf viðkomandi plöntu orðið tilbreytingarríkara en ella…

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2003)

Posted on

Tvíærar plöntur – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Flestir garðeigendur eru þeirrar skoðunar að plönturnar sem þeir velja í garða sína eigi annað hvort að vera einærar, þ.e. sumarblóm, eða að þær lifi endalaust, séu með öðrum orðum fjölærar. Fjölærar plöntur koma upp ár eftir ár og það þarf ekki að hafa fyrir því að gróðursetja nýjar á hverju ári. Tré og runnar eru auðvitað fjölærar plöntur en sú hefð hefur skapast fyrir því að nota hugtakið fjölærar plöntur yfir jurtkenndar, fjölærar plöntur sem falla niður yfir veturinn og vaxa upp aftur að vori.

     Tvíærar plöntur eru þeirrar náttúru að þær lifa einungis í tvö ár eða tvö vaxtartímabil. Fyrra sumarið spíra þær upp af fræi og mynda laufblöð. Þessi laufblöð geta í sumum tilfellum staðið yfir veturinn en oft falla þau niður. Þetta sumar nota plönturnar til að byggja upp myndarlegan forða í rótum sínum. Yfir veturinn þurfa þær svo á kuldatímabili að halda til þess að blómgun geti átt sér stað. Þurrkur hefur svipuð áhrif á plöntur og kuldi og því getur verið nóg fyrir plönturnar að lenda í hressilegum þurrki, þá geta þær átt það til að blómstra. Seinna sumarið á svo blómgunin sér stað. Blómgun tvíærra plantna getur verið stórglæsileg enda hafa þær verið duglegar við að safna sér forða árið áður. Plönturnar eru frekar lágvaxnar á fyrra ári enda enginn blómstöngull á þeim og ekki gott að eyða dýrmætri orku í óþarfa. Árið sem þær blómstra koma svo oft upp háir og tignarlegir blómstilkar sem bera uppi mikið blómskrúð. Eftir að blómguninni lýkur deyja plönturnar enda hafa þær uppfyllt hlutverk sitt í þessu lífi, að skilja eftir sig afkomendur sem tryggja áframhaldandi líf tegundarinnar.

     Fáar tvíærar plöntutegundir eiga sér eins merkilega fortíð og fingurbjargarblómið, Digitalis purpurea. Fingurbjargarblóm hefur verið ræktað um aldaraðir vegna lækningaeiginleika sinna. Það hefur verið notað sem lyf við geðveiki og segir sagan (höfum þá í huga að góð saga ætti aldrei að gjalda sannleikans) að van Gogh hafi drukkið seyði af fingurbjargarblómi en eins og alþjóð veit var þessi mikli listamaður illa geðveikur. Ein af aukaverkunum fingurbjargarblóms er sú að sá sem notar það sér gula áru í kringum alla hluti í kringum sig. Á þar að vera komin skýringin á því hversu hrifinn van Gogh var af gula litnum…

     Fingurbjargarblóm hefur einnig verið notað til hjartalækninga. Það er þó rétt að benda á að eins og með allar góðar lækningajurtir þá borgar sig ekki að reyna lækningamáttinn á sjálfum sér án leiðbeininga fagmanns, oft getur ríflegur skammtur af lækningajurtinni verið hreinlega banvænn. Fingurbjargarblómið er mjög glæsilegt, blómstönglarnir geta verið yfir 1,5 m háir. Blómin eru lútandi klukkur, freknóttar innan í og í bleikum litum. Fingurbjargarblómin hefur getað viðhaldið sér með sáningu í skjólgóðum görðum hérlendis en í flestum tilfellum þarf að gróðursetja nýjar plöntur árlega.

     Önnur bráðhugguleg tvíær tegund er sumarklukkan, Campanula medium. Sumarklukkan er ýmist bleik, blá eða hvít og blómstrar hún stórum, belgvíðum blúndulegum klukkum sem minna mig alltaf svolítið á gamaldags undirbuxur kvenna, þessar hnjásíðu með víðu skálmunum sem voru teknar saman með teygju neðst og eru ákaflega sjaldgæf sjón nú á tímum g-strengja. Sumarklukkan er mjög áberandi í blóma því klukkurnar raða sér eftir endilöngum blómstilkunum sem eru yfirleitt um það bil 60-80 cm á hæð.

     Ólympíukyndill, Verbascum olympicum, er stórglæsilegur fulltrúi tvíærra plantna. Hann er sérlega voldugur í blóma, verður allt að 2 m hár. Blómstilkurinn er þykkur og mikill og greinist mikið ofan til. Hann verður þakinn skærgulum blómum þegar líður á sumarið. Margir rugla ólympíukyndlinum saman við náfrænda hans, kóngakyndil eða kóngaljós en sú tegund er fjölær og með ívið loðnari blöð en ólympíukyndillinn. Kyndlanafnið er réttnefni á þessa tegund því það hreinlega lýsir af honum í rökkri íslensks sumarkvölds.

     Margar aðrar algengar tegundir í íslenskum görðum eru í raun tvíærar, þótt þær séu einungis ræktaðar sem einærar. Þar má nefna skrautkál, sem myndar fallegan og þéttan haus úr laufblöðum fyrra sumarið og blómstrar svo skærgulum blómum á háum stilk seinna sumarið. Reyndar sjáum við stundum blómgun hjá skrautkálinu strax á fyrra ári en þær plöntur hafa þá annað hvort þornað ótæpilega eða lent í kuldahreti og hafa því ruglast í ríminu. Að sama skapi eru rófur, gulrætur og steinselja tvíærar plöntur. Stjúpur, þessi algengu sumarblóm, eru í raun tvíærar en í dag eru í ræktun yrki af stjúpum sem hafa verið kynbætt þannig að þau geta blómstrað strax á fyrra ári án þess að þurfa til þess sérstakt kuldatímabil.

     Það er jafnauðvelt að gera ráð fyrir tvíærum plöntum í garðinum hjá sér eins og sumarblómum. Flestar gróðrarstöðvar bjóða upp á heilmikið úrval af tvíærum plöntum og kosturinn við að kaupa þær í gróðrarstöðvum er sá að þar eru þær yfirleitt seldar á öðru ári þannig að ekki þarf að bíða eftir blómum í heilt ár. Vissulega þarf aðeins að annast þær meira en sumarblóm, flestar þessara tegunda þurfa uppbindingu vegna þess hversu hávaxnar þær eru en blómskrúðið er svo sannarlega þess virði.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2003)

Posted on

BLÓMGUNARTÍMI SUMARBLÓMA – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Sumarblóm í öllum regnbogans litum eru einmitt það sem við Íslendingar þörfnumst eftir grámuggu vetrarins.   Fjöldi sumarblómategunda fer eflaust langt með að fylla hundraðið og þar af eru um 30 tegundir algengar í ræktun.   Sameiginlegt einkenni sumarblóma er það að þetta eru plöntur sem lifa einungis eitt sumar í íslenskum görðum þótt þær séu margar hverjar fjölærar í heimkynnum sínum.   Snemma vors er sáð til þessara tegunda, missnemma eftir því um hvaða tegund er að ræða.  Forræktunartími, sá tími sem þarf að rækta plönturnar til að þær verði tilbúnar til útplöntunar að vori, er mislangur.  Sumar tegundir þurfa langan ræktunartíma, t.d. stjúpur, ljónsmunni, meyjarblómi og silfurkambur en ef vel á að vera þarf að sá þeim í lok janúar – byrjun febrúar.   Aðrar tegundir, eins og skrautnál, morgunfrú og paradísarblóm þurfa stutta forræktun, nóg er að sá til þeirra í byrjun apríl.    Blómgunartími sumarblóma er mislangur.  Með blómgunartíma er átt við tímann frá því fyrsta blómið lítur dagsins ljós þar til hinsta blómið er fallið.   Flestir garðplöntuframleiðendur miða við það að blóm sumarblómanna nái að standa seinni hluta sumars og fram á haustið.  Helgast það af því að garðeigendur vilja síður horfa upp á útblómstruð sumarblóm í görðum sínum um mitt sumar.  

Nauðsynlegt er að þekkja vel til sumarblómategundanna og lengdar blómgunartíma þeirra.   Stjúpur og fjólur standa mjög lengi í blóma, þær eru með fyrstu sumarblómunum sem byrja að blómstra á vorin og standa fram í frost á haustin.  Þannig er blómgunartími þeirra 4-5 mánuðir og við góð skilyrði getur hann orðið enn lengri.   Ljónsmunni sem sáð er til í byrjun febrúar byrjar að blómstra upp úr miðjum júní og stendur fram í september.  Skrautnál byrjar að blómstra í lok maí og stendur fram í frost.   Morgunfrú sem sáð er til í byrjun apríl byrjar ekki að blómstra fyrr en upp úr mánaðamótunum júní-júlí og stendur þá fram í september.  Blómgunartími hennar er um 2 mánuðir.  Brúðarauga blómstrar frá því snemma í júní og út ágúst.  Blómgunartími brúðarauga er því um 3 mánuðir.   Meyjarblómi er ein af þeim tegundum sem standa mjög lengi fram á haustið.  Hann þarf langan forræktunartíma, fyrstu blómin láta sjá sig í lok júní-byrjun júlí og svo stendur hann álíka lengi og stjúpurnar fram á haustið. 

Oft er hægt að kaupa blómstrandi sumarblóm eins og hengi-brúðarauga, dalíur og tóbakshorn upp úr miðjum apríl.  Fyrir bráðláta sumardýrkendur eru þessar plöntur eins og vatn handa þyrstum manni.   Þegar vorveðrið er milt og gott er ekkert að því að setja þessar plöntur beint út í garð en þó ber að hafa varann á sér og kippa þeim inn fyrir ef kólnar snögglega.  Eins ættu menn að hafa í huga að þar sem blómgunartími plantna er ekki óendanlega langur getur verið að þessar tegundir klári sinn blómgunartíma á miðju sumri.  Þá er um að gera að endurnýja í pottunum því fátt er sorglegri sjón en tómir blómapottar um hásumar. 

Í stórum dráttum má skipta algengustu sumarblómum í flokka eftir blómgunartíma þannig: 

4-5 mánuðir:  Stjúpur, fjólur, meyjarblómi, skrautnál.

3-4 mánuðir:  Brúðarauga, ljónsmunni, flauelisblóm, tóbakshorn, apablóm,

daggarbrá.

2-3 mánuðir:  Fiðrildablóm, paradísarblóm, járnurt, dalíur, morgunfrú, hádegisblóm,

kornblóm, ilmskúfur.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 1998)

Posted on

Aðalfundur GÍ á miðvikudagskvöldið 27.maí

Fræðsluerindi um þátttöku almennings í garðrækt, umhverfisvernd og endurvinnslu

Minnt er á aðalfund Garðyrkjufélags Íslands á miðvikudagskvöldið 27. maí, kl. 19:30 í húsi félagsins í Síðumúla 1.

Aðalfundardagskráin sjálf verður hefðbundin (venjuleg aðalfundarstörf, kjör stjórnar og annarra trúnaðarmanna) en í lokin verður fjallað um stórt verkefni sem félagið er að vinna að í félagi við nokkrar deildir sínar út um land. Málshefjandi verður Sveinn Þorgrímsson verkfræðingur, stjórnarmaður í GÍ.

Þetta verkefni snýr að aukinni þátttöku almennings í garðrækt, umhverfisvernd og endurvinnslu. Áhersla er lögð á að tengja garðrækt við hringrásarhagkerfið og sjálfbæra þróun. Verkefnið nýtur stuðnings Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Byggt er á sérstöðu félagsins sem er grasrótarhreyfing um ræktun, með vísan til þess grunnstarfs sem fer fram um land allt með ræktun garð- og matjurta, almennri garðrækt, trjá- og skógrækt og hvers konar yndisræktun sem almenningur hefur fundið innri þörf til að sinna af alúð og kostgæfni. Tilgangurinn er að styrkja grasrót almennings sem fyrst og fremst styður við umhverfis- og loftslagsmál af lítillæti.

Fjórar deildir Garðyrkjufélagsins taka þátt í verkefninu – þ.e. deildirnar á Fljótsdalshéraði, í Reykjanesbæ, Fjallabyggð (Ólafsfirði) og Skagafirði og hafa verið skipulagðir fundir/námskeið á þessum stöðum í byrjun júní.

Minnt er á að frá og með mánudegi 25. maí mega allt að 200 manns koma saman. 

 

Posted on

Trillium – þristar – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Þristar eða Trillium ættkvíslin eins og hún nefnist á latínu er ættkvísl um 40-50 tegunda plantna sem ættaðar eru frá N-Ameríku og Asíu. Ættkvíslin tilheyrir liljuætt, rétt eins og liljur og túlípanar.Þetta eru yfirleitt skógarbotnsplöntur sem blómstra snemma á vorin, áður en skógurinn laufgast og inngeislun sólar nær ekki niður á skógarbotninn. Þristarnir nýta sem sagt vorsólina til blómgunar.

     Þristirnir mynda þykka jarðstöngla og er það sérstakt við þessar plöntur að utan um jarðstöngul þristanna vefjast pappírskennd blöð sem eru hin eiginlegu laufblöð plantnanna. Upp úr jarðstönglinum kemur svo blómstöngullinn og efst á honum er eitt blóm. Blómið er samsett úr þremur krónublöðum og þar fyrir neðan eru þrjú bikarblöð. Fyrir neðan blómið sjálft eru svo þrjú græn blöð sem flokkast ýmist sem háblöð eða reifablöð (nú verður maður að bregða undir sig betri fætinum í grasafræðinni svona í byrjun sumars) og þessi blöð ljóstillífa. Blómin eru ákaflega stór og áberandi og plönturnar sérstaklega fallegar á vorin þar sem þær stinga upp kollinum í laufskóginum. Blómin geta verið í ýmsum litum, frá hvítu yfir í bleikt og rautt og jafnvel í gulum eða grænleitum litum. Til eru tegundir sem blómstra tvílitum blómum.

     Þristar eru dæmigerðar skógarbotnsplöntur í laufskógum. Þær vilja myldinn, loftríkan og næringarríkan jarðveg og hann verður jafnframt að vera hæfilega rakur. Í tempraða beltinu, en þaðan eru þristar ættaðir, eru vorin gjarnan hlý og vætusöm og slík veðrátta hentar þeim ákaflega vel.

     Mjög auðvelt er að fjölga þristum með því að skipta jarðstönglunum niður en rétt er að fara frekar varlega í skiptinguna því það getur tekið plöntuna nokkurn tíma að jafna sig eftir slíkar aðfarir. Fræfjölgun er einnig möguleg en hún er tímafrek og fræið vandmeðfarið þannig að fyrri kosturinn er mun heppilegri. Þess má geta að í heimkynnum þrista sjá mýs og maurar um það að dreifa fræjum þristanna. Á fræjunum eru sérstök forðalíffæri sem eru sneisafull af næringarefnum sem maurar og mýs sækjast í. Maurarnir safna fræjunum saman, éta forðalíffærin og skilja svo fræin sjálf eftir eins og hvern annan úrgang. Fræin spíra svo í rólegheitunum og þannig dreifast þristategundirnar yfir stærra svæði en ella.

     Víða er stranglega bannað að tína blóm af þristum vegna þess að blöðin þrjú á blómstönglinum eru eini möguleiki plöntunnar til að afla sér næringar. Plantan getur því hreinlega dáið eða að minnsta kosti þarf hún mörg ár til að jafna sig, gerist einhver gráðugur til blómanna.

     Skógarþristur, Trillium grandiflorum, hefur verið ræktaður á Íslandi um árabil. Sýnir hann ágætis þrif, að minnsta kosti sunnanlands þar sem veðráttan er ekki ósvipuð og í heimkynnum plantnanna. Best er að gróðursetja skógarþrist í gisin trjábeð þar sem plönturnar njóta skjóls af trjánum og jarðvegurinn uppfyllir kröfur plantnanna. Skógarþristurinn blómstrar snjóhvítum blómum snemma á vorin og er auðveldur í ræktun.

Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2007)

Posted on

Aðalfundur GÍ 27. maí

Aðalfundur Garðyrkjufélags Íslands 2020 verður haldinn kl. 20 miðvikudaginn 27. maí næstkomandi í sal félagsins að Síðumúla 1 í Reykjavík.

    Samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráherra mega allt að 200 manns koma saman í einu eftir 25. maí og skal gæta að ’tveggja metra reglunni’ eftir því sem við verður komið.

    Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna á fundinn og taka þátt í kraftmiklu starfi félagsins.

 

Dagskrá aðalfundar samkvæmt lögum félagsins:

  1. Fundarsetning
  2. Kosning fundarstjóra og ritara
  3. Skýrsla stjórnar og starfsnefnda GÍ 
  4. Reikningar lagðir fram og skýrðir
  5. Umræður og atkvæðagreiðsla um skýrslu stjórnar og reikninga
  6. Ákvörðun félagsgjalds
  7. Lagðar fram tillögur um lagabreytingar
  8. Lagðar fram tillögur til ályktunar aðalfundar
  9. Umræður og atkvæðagreiðsla um lagabreytingar og ályktunartillögur
  10. Kosning stjórnar, skoðunarmanna reikninga og starfsnefnda
  11. Önnur mál

 

Stjórnin. 

Posted on

Pöddulíf – Blóm vikunnar með Gurrý

Guðríður Helgadóttir

Þegar vorar vaknar náttúran til lífsins eftir hressingarblund vetrarins. Tré, runnar og jurtir lifna, laukarnir blómstra og sólin skríður fram úr skýjaþykkninu. Sumarið er framundan, vonandi hlýtt, sólríkt og notalegt. Mannfólkið verður líka sprækara með vorinu og tekur til við að hirða garðana sína. Vorhreingerningin í garðinum er tekin í beinu framhaldi af vorhreingerningu íbúðarhússins. Íslendingar eru upp til hópa kattþrifnir og vilja hafa umhverfi sitt tandurhreint og snyrtilegt. Reyndar vilja sumir meina að þetta hreingerningaræði sé ekki eingöngu af hinu góða því aukna tíðni ofnæmis hjá íslenskum börnum megi meðal annars rekja til ofurþrifinna mæðra barnanna. Börnin komist ekki í tæri við ýmiss konar bakteríur þannig að ónæmiskerfi þeirra nái ekki að þroskast sem skyldi.

     Svo virðist sem hreingerningaræðið sé komið út í garðana líka og að vissu leyti er það ágætt. Vel hirtir garðar þar sem tré og runnar eru klippt og snyrt og fjölærar plöntur bústnar og heilbrigðar og ekki vottar fyrir arfaklóm eru vissulega augnakonfekt. Slíkir garðar fylla þá, sem skoða þá, virðingu fyrir garðeigendunum því að grunnurinn að góðum garði er botnlaus vinna garðeigendanna. Góður garður krefst mikillar og stöðugrar umhirðu allt sumarið og talsverðrar umhyggju yfir veturinn. Það er því ekki undarlegt að fólk leiti allra leiða til að draga sem mest úr þessari vinnu. Fyrir nokkrum árum kom á markaðinn illgresiseitur sem er sáldrað yfir jarðveginn í trjá- og runnabeðum og hefur þau áhrif að illgresisfræ nær alls ekki að spíra. Efnið má alls ekki nota á beð sem inniheldur fjölærar plöntur og heldur ekki með öllum runnum. Eiturefni þetta á að brotna niður á tveimur til þremur árum og á að virka á illgresið allan tímann. Að niðurbrotstímanum liðnum þarf að sáldra aftur yfir beðin til að viðhalda vinnusparnaðinum. Þetta hefur svo sannarlega fallið í kramið hjá íslenskum garðeigendum og jafnvel um of því nokkuð hefur borið á því að eitrið sé notað árlega í trjá- og runnabeð. Nú er það svo að engar innlendar rannsóknir hafa verið gerðar á því hver raunverulegur niðurbrotstími þessa efnis er í íslenskum jarðvegi og sjálfsagt er niðurbrotstíminn háður hitastigi í jarðveginum. Hitastig í íslenskum jarðvegi er sennilega eitthvað lægra en jarðvegshitastig í nágrannalöndum okkar og því líklegt að niðurbrotstíminn sé eitthvað lengri hérlendis. Garðeigendur ættu því að fara varlega í notkun efna af þessu tagi því ef þau ná ekki að brotna alveg niður, milli þess sem þau eru notuð, getur átt sér stað uppsöfnun á þessum efnum í jarðveginum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir gróðurinn.

     Íslendingar eru svo lánsamir að skordýrafána landsins er fremur fábreytt. Það er mjög heppilegt því pödduhræddara fólk en Íslendingar er örugglega vandfundið. Pöddur sem gera sig heimakomnar í mannabústöðum á Íslandi eru umsvifalaust gerðar brottrækar með öllum tiltækum ráðum. Þá er ekki öll sagan sögð. Utandyra eiga þær helst ekki að láta á sér kræla heldur og getur það reynst viðkomandi pöddum dýrt spaug ef þær slysast inn í girnilegan garð. Fyrr en varir sprettur fram vígbúið fólk og úðar einhverri óáran yfir pöddurnar með þeim afleiðingum að þær deyja drottni sínum. Eiturefnin, sem eru notuð gegn hinum ýmsu kvikindum í görðum, eru yfirleitt þeirrar náttúru að þau gera ekkert gagn nema þau lendi á húð kvikindanna sem þeim er ætlað að deyða. Garðeigendur ættu því alls ekki að láta úða garða sína með eiturefnum nema þeir virkilega komi auga á óboðnu gestina eða að minnsta kosti sjái greinileg ummerki um tilvist þeirra, svo sem étin laufblöð. Eins er rétt að hafa það í huga að úðun gegn trjámaðki á að fara fram í júní, meðan lirfurnar eru enn á trjánum. Blaðlús getur látið á sér kræla meira og minna allt sumarið en hún veldur yfirleitt ekki alvarlegum skaða á plöntum, nema kannski helst jurtkenndum plöntum eins og t.d. sumarblómum.

     Niðurstaða mín er því þessi: Förum varlega í notkun á eiturefnum. Taumlaus notkun á eiturefnum gegn illgresi og pöddum í görðum okkar getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir lífríkið. Það er hægt að nota aðrar og umhverfisvænni leiðir til að fækka pöddum í görðum ef þær eru óvelkomnar, það má tína þær af trjánum eða nota vistvænar aðferðir til að losna við þær, t.d. úða daufri blöndu af grænsápu yfir plöntur sem hafa fengið fullmargar boðflennur í heimsókn.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2002)

Posted on

Leiðrétting

Afleita villu var að finna í grein um kolefnisbindingu heimilisgarðsins í Garðyrkjuritinu 2020 sem var að koma út.

Þar segir að íslenskir skógar bindi 326 tCO2. Þetta á vitaskuld að vera 326 þúsund tCO2

Hið rétta er að heimilisgarðarnir á höfuðborgarsvæðinu kolefnisbinda tæplega eitt prósent á við íslenska skóga en ekki um þriðjung eins og stendur í greininni. 2.850/326.000 = 0,0087.

Garðyrkjuritið biðst velvirðingar á villunni.