Höf. Kristján Friðbertsson
Vorið er misjafnt hjá okkur öllum. Veðurfarslega getur verið gríðarlegur munur milli landshluta og sjá sumir ekkert nema snjóskafla allt um kring, meðan aðrir sjá litadýrð springa út í hverju horni. Vorið kemur þó alltaf á endanum. Sjálfur reyni ég að auka áhrifin af vorinu í kringum mig, með því að setja mikið niður af snemmblómstrandi laukum. Það er eitthvað við það að sjá lífið í garðinum kvikna sem kemur manni, þó stundum rólega, í vorgírinn. Hjá mér eru vetrargosarnir fyrstir. Þeir koma á undan vorinu, en blikka mann svona aðeins til að minna á að það er farið að síga á seinni hluta vetrar og styttist í vorið. Í framhaldinu taka við hinir ýmsu krókusar, stjörnuliljur, smáírisar og snotrur, sem allajafna koma sínum skreytingum í gang á undan fyrstu túlipönum og páskaliljum. Vorið virðist einhvern vegin alltaf í senn svo lengi að mæta almennilega á svæðið, en samt svo skyndilega komið og fljótt að líða. Sama gleðin er þó ár eftir ár, með hverju nýju blómi sem opnast, hverri breytingu í garðinum. Sama stressið líka. Kemur rok og rigning um leið og fallegustu blómin hafa opnast? Kemur frost strax eftir að ávaxtatrén hafa opnað sína knúpa? Breytileikinn í smáatriðunum getur verið þó nokkur, en í stóru myndinni breytist samt afar lítið yfir árin.
Ekki get ég sýnt ykkur þetta allt í smáatriðum, en hvert ár hefur 52 vikur og því tók ég sama fjölda mynda og smellti hér inn í nokkrum skömmtum. Tilvalið þótti mér að bjóða ykkur upp á smáréttahlaðborð með nokkrum bitum frá árinu 2019 og kemur því fyrsti skammtur af 4 hér. Reyndar bættust nokkrir konfektmolar við á lokametrunum, svo við förum kannski rétt aðeins yfir 52stk. Fyrsti skammtur nær frá fyrsta degi árs út maí mánuð.


Fösturósarblendingur fegrar garðinn í byrjun árs.






Apríl er oftast aðal krókusamánuðurinn.







Túlipanar bæta hér fallegum lit, innanum fagra birkið, sunnukvistinn og silfursóleyna.