Sumum kann nú að finnast það heldur seint í rassinn gripið að fjalla um illgresi svona rétt undir haustið, eftir allt puðið og púlið sem hefur farið í þennan ófögnuð í görðum í sumar. Fyrir þessu er þó góð og gild ástæða. Illgresi er ekki eitthvað sem hreinlega hættir að hrella garðeigendur þegar fyrstu haustlægðirnar ganga í garð, aldeilis ekki. Garðvinna er endalaus barátta við illgresi, með öllum tiltækum ráðum.
Hvað er illgresi? Illgresi eru í raun og veru allar plöntur sem vaxa á stöðum þar sem þær eiga ekki að vera. Þessar plöntur geta verið af mörgum tegundum en allar eiga þær það sammerkt að taka til sín næringu, vatn og birtu frá þeim plöntum sem ætlunin er að rækta á viðkomandi stað. Þessi skilgreining segir okkur að í hópi illgresistegunda eru ekki bara þær tegundir sem koma fyrst upp í hugann, eins og túnfífill, skriðsóley, haugarfi eða skurfa heldur líka ýmsar trjátegundir sem geta verið fullduglegar við að dreifa sér, eins og margar víðitegundir og rifstegundir. Í grónum og fallegum garði einum í miðborg Reykjavíkur var garðahlynur til dæmis orðinn að hálfgerðri plágu því hann sáði sér óhóflega út um allan garð. Þetta skýtur dálítið skökku við því flestir garðeigendur væru nú til í að hafa fallegan hlyn í garðinum hjá sér en kannski eru nokkur hundruð hlynir í einum litlum garði fullmikið af hinu góða.
Í gegnum tíðina hafa menn reynt að finna alls konar endanlegar lausnir á illgresisvandamálinu. Elsta aðferðin við illgresishreinsun er sú að nota hreinlega guðsgafflana við arfatínsluna og verður nú að segjast eins og er, að fáar aðferðir eru eins gagnlegar, þótt þessi aðferð sé frekar tímafrek, fari illa með hnén og bakið og geti gert garðeigandann úrillan og pirraðan. Næsta skref er að nota lítil garðáhöld til að auðvelda sér vinnuna. Lítil handskófla, klóra og fíflajárn eru sérlega notadrjúg áhöld því oft getur verið erfitt að losa um rætur illgresisplantnanna en mikilvægt er að ná þessum plöntum upp með rótum til að koma í veg fyrir að þær geti vaxið aftur upp þegar garðeigandinn snýr við þeim bakinu. Þessi litlu áhöld koma hins vegar ekki í veg fyrir bakverki og stirð hné.
Arfasköfur eru bráðsniðug áhöld að mörgu leyti. Þær gera garðeigandanum kleift að vera uppréttur við illgresishreinsunina og verður það að teljast mikill kostur. Arfaskafan er notuð til þess að skafa illgresið af yfirborði jarðvegsins, plöntuleifarnar eru svo látnar liggja ofan á jarðveginum þar til þær skrælna og eru þá fjarlægðar. Helsti gallinn við arfasköfur er að erfitt getur verið að ná illgresinu með rótum auk þess sem það getur náð að fella fræ, ef plönturnar eru komnar nægilega langt í þroska.
Aðferðirnar sem hér hafa verið nefndar eru allar þess eðlis að þær skaða engan nema plönturnar sem verið er að glíma við og jú kannski garðeigandann sjálfan á baki og hnjám. Fleiri aðferðir í þessum dúr eru til dæmis þær að hella sjóðheitu vatni yfir illgresisplönturnar og drepa þær þannig, plönturnar verða gular og visna og auðvelt að fjarlægja þær. Í þessum dúr er einnig sú aðferð að nota gasloga til að brenna illgresið í burtu en það er aðferð sem er kannski ekki eins einföld í framkvæmd, það eru ekki allir sem eiga gasbrennara í eldhússkápnum heima hjá sér.
Síðastar og sístar eru þær aðferðir sem byggja á notkun eiturefna gegn illgresinu. Þegar garðeigendur kjósa að nota slíkar aðferðir er algert lykilatriði að hafa samband við garðyrkjufræðing og fá greinargóðar upplýsingar um það hvernig efnin skuli notuð. Rétt er að viðhafa fyllstu öryggisráðstafanir við slíkar aðgerðir.
Illgresisplöntur eru margar hverjar ákaflega duglegar við að mynda fræ. Þess vegna er mjög mikilvægt að reyna að ná að fjarlægja þær áður en þær ná að mynda fræið. Plönturnar geta spírar mjög snemma á vorin og þess vegna er mikilvægt að reyna að fjarlægja eins mikið af illgresisplöntum fyrir veturinn og hægt er, það minnkar vinnuna næsta vor.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2005)