Posted on

Boðað til Aðalfundar

Kæru félagar í Garðyrkjufélagi Íslands.

Aðalfundur GÍ verður haldinn fimmtudaginn 10. nóvember næstkomandi kl. 20 í sal félagsins í Síðumúla 1.

Dagskrá fundarins:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
  2. Grasagarðurinn í Kew í London – Vilmundur Hansen garðyrkjufræðingur
  3. Önnur mál

Í framboði til stjórnar félagsins eru eftirfarandi:

Þóra Þórðardóttir, býður sig fram til formanns
Aðrir sem bjóða sig fram í aðalstjórn eru:
Konráð Lúðvíksson
Sigurbjörn Einarsson
Hjördís Rögn Baldursdóttir
Vilhjálmur I. Sigurjónsson

Í varastjórn:
Eggert Aðalsteinsson
Kristján Friðbertsson
Guðríður Helgadóttir

kveðja, Stjórn GÍ

Posted on

Aðalfundur, lokun skrifstofu, o.fl.

Til félaga í GÍ:

Skrifstofa Garðyrkjufélagsins verður lokuð frá og með föstudeginum 14. október. 

Hægt er að hafa samband við félagið með tölvupósti (gardurinn@gardurinn.is) og í síma tíma í síma 552 7721, kl. 13-15 á miðvikudögum (til að byrja með). 

Fræbankinn er opinn og starfsemi klúbba og deilda helst óbreytt áfram.

Hvítlauk og lauk er verið að afhenda um þessar mundir til félaga á höfuðborgarsvæðinu, sjá nánar aðrar fréttir um slík. ATH: sækja þarf á skrifstofu félagsins á sérstaklega tilkynntum tímum til þess.

Gert er ráð fyrir að móttaka fræs fyrir fræbankann verði aðallega í gegnum póstþjónustu eins og verið hefur en ef um mikið magn er að ræða er rétt að hafa samband við félagið með tölvupósti (gardurinn@gardurinnlis) og fá nánari leiðbeiningar.  Vekjum einnig athygli á tengdri frétt og sniðmáti sem óskað er eftir að frægjafar noti: https://gardurinn.is/sofnum-ollu-fraei/

Sem fyrr stefnir félagið á að vera með fræðsluerindi á vefnum og eftir atvikum í sal félagsins og verður dagskrá þess auglýst nánar síðar, meðal annars á facebook síðu félagsins. Þegar þetta er ritað er næsta erindi netfundur á Zoom þriðjudagskvöldið 18.okt. Þar mun Rannveig Guðleifsdóttir fjalla um haustlauka. Einnig er viðburður á degi kartöflunnar, sjá hér: https://gardurinn.is/vikan-kartoflur-hvitlaukur-og-haustlaukar/

Aðalfundur Garðyrkjufélags Íslands verður haldinn fimmtudaginn 10. nóvember kl. 20, nánari dagskrá auglýst síðar.

Með félagskveðju

Stjórn GÍ

Posted on

Opinn félagsfundur: mið. 7. sep. kl. 20 /Lokað mán.d. 5.sept.

Opinn félagsfundur hjá Garðyrkjufélagi Íslands í Síðumúla 1, miðvikudaginn 7. september kl. 20.
(ATH að skrifstofa verður lokuð mánudaginn 5.sept)

Tilgangur fundarins er ræða stöðu og framtíð félagsins og hvaða leiðir eru vænlegastar til að efla og styrkja starfsemina. Fundarstjóri verður Guðríður Helgadóttir, starfandi formaður GÍ.

Dagskrá fundarins:

  1. Staða félagsins, núverandi starfsemi, helstu verkefni og staða húsnæðismála. Þóra Þórðardóttir meðstjórnandi.
  2. Niðurstöður skoðanakönnunar – örstutt kynning. Kristján Friðbertsson, meðstjórnandi.
  3. Salur félagsins, viðhald og rekstur. Agnes Karen Ástþórsdóttir, rekstraraðili salarins.
  4. Umræður
  5. Samantekt og fundarlok – Guðríður Helgadóttir

Boðið verður upp á kaffi og kex á fundinum.

Hlökkum til að sjá sem flesta!

Stjórn Garðyrkjufélags Íslands.

Posted on

Sumarferð og sumarlokun skrifstofu

Sumarferðin í ár verður farin á Suðurlandið þriðjudaginn 26.júlí. Að vanda verða fögur svæði og garðar heimsótt og fer rúta frá skrifstofu félagsins í Síðumúla. Nánari upplýsingar von bráðar.

Einnig minnum við á sumarlokun skrifstofu, fræbanka og vefverslunar en lokað er frá og með 1.júlí til 3. ágúst.

Posted on

Frestun aðalfundar og afsögn formanns

Formaður félagsins, Lárus Sigurðsson, sagði af sér á vordögum og hefur Guðríður Helgadóttir varaformaður tekið við formannskeflinu fram að næsta aðalfundi. Eru Lárusi þökkuð góð störf í þágu félagsins og honum óskað velfarnaðar á sinni vegferð.

Stjórn félagsins hefur ákveðið að fresta aðalfundi fram á haust, einkum og sér í lagi vegna þess að ekki hefur fundist nýtt formannsefni fyrir félagið. Eru áhugasamir félagsmenn eindregið hvattir til að bjóða sig fram til formennsku í félaginu.
Þeir sem hafa áhuga eru beðnir að gefa sig fram við skrifstofustjóra félagsins, Elínu Helgu Rink eða fulltrúa í stjórn félagsins.

F.h. stjórnar, Guðríður Helgadóttir, starfandi formaður GÍ

Posted on

Rauðeik, útsæði og gróðurpokar

Rauðeik - Aðalsteinn Sigurgeirsson

Hvenær sæki ég útsæðið sem ég pantaði?

Pantanir eru sóttar á skrifstofu félagsins, síðumúla 1 (ath inngangur ármúlamegin) og er hægt að sækja á eftirfarandi tímum:

Mán 2.maí kl 10-14

Mið. 4.maí kl 10-19

Fim. 5.maí kl 10-14

Hvað með rauðeikur og gróðurpoka?

Miðvikudaginn 4.maí verður sérstök lengri opnun, t.d. fyrir þá sem ekki komast auðveldlega að sækja á milli 10 og 14.

Forsvarsmenn Gróðurpokar  https://www.facebook.com/grodurpokar   verða á svæðinu milli 17 og 19 með kynningu og sölu á pokunum sem þau selja einmitt m.a. í verslun félagsins. Henta afskaplega vel undir ýmsa ræktun og stærri gerðirnar sérlega heppilegar fyrir kartöflur. Ræktunin verður meðfærilegri og hægt að rækta á svölum, gangstétt eða bílskúrsþaki þess vegna. 

Akörn af rauðeik (Quercus rubra) kláruðust nánast samstundis og opnað var fyrir sölu í vetur, en frá 17-19 verða forsvarsmenn Trjáræktarklúbbsins einnig á svæðinu og munu selja rauðeik beint úr bökkum, til að styrkja sameiginlega trjáræktun.  Um ræðir plöntur sem voru ræktaðar inni í gróðurhúsi og eru því komnar vel af stað í vexti. Uppruni þessara plantna er frá Kanada og standa því vonir til þess að þeim muni ganga betur en annarri rauðeik, enda hefur ræktun hennar oft verið erfiðleikum háð hér. Seldar verða 5 eikarplöntur saman, sem fara þá beint úr bakka í poka við kaupin og þarf að koma þeim strax í potta eða álíka. Verð á 5 trjáplöntum saman er 3.000kr. og greiðist með korti á staðnum.

Það má því búast við fjörlegri stund í sal félagsins á miðvikudags eftirmiðdaginn, þegar fólk hópast þangað til að sækja útsæði og kaupa sér eikur og gróðurpoka.

(Myndin sem fylgir var tekin af Aðalsteini Sigurgeirssyni og sýnir muninn á haustlitum á sumareik og rauðeik.)

Posted on

Lokað í júlí – “síðasti sjens”…

 

Við minnum á að skrifstofa félagsins er að vanda lokuð í Júlí. Hið sama á því við um vefverslunina, þ.m.t. fræbankann.

Ef þið eigið eftir að panta eitthvað sem vantar fyrir ágúst, eða eigið erindi við skrifstofuna, þá er um að gera að drífa í því núna. Jafnvel hægt að hafa augun opin hvort afsláttur verði af bókum núna í júní…