Posted on

Tilkynning frá frænefnd Garðyrkjufélagsins

Kæru félagar

Við í frænefndinni treystum á ykkur, góðir félagar, að vera dugleg að safna fræi nú í haust. Það er ekki hægt að taka út úr fræbankanum nema einhver leggi inn!! Hafir þú ekki safnað fræi fyrr getum við fullvissað þig um að það er eitthvað sem allir eiga auðvelt með. Það er skemmtilegt að hugsa til þess að fræ frá þér sé að blómstra í öðrum görðum.

Það hafa margar tegundir klárast í fræbankanum og viljum við því ítreka hvatningu til ykkar félagsmanna að bregðast vel við og vera dugleg að senda okkur fræ í haust.

Tekið er við öllu fræi en lykilatriði að það sé þegar flokkað og hver poki/umslag vel merkt tegundinni sem um ræðir.

Algengast er að fræ sé sent til fræbankans með pósti (sendist til Garðyrkjufélags Íslands), en í undantekningartilfellum er líka hægt að setja sig í samband við frænefnd (t.d. ef um mikið magn er að ræða) og mæla sér mót eða skila í gegnum póstlúgu GÍ í Síðumúlanum.

Leiðbeiningar:

“Plöntur þroska fræ yfirleitt á haustin og best er að safna því eins fljótt og hægt er eftir að það hefur náð þroska. Annars er hætt við að það fjúki burt eða að fuglar éti það.

Best er að safna fræjum í þurru veðri og setja í striga- eða bréfpoka. Ef notaðir eru plastpokar verður að tæma þá eins fljótt og hægt er til að koma í veg fyrir að fræið mygli.

Þegar velja skal plöntu sem á að safna fræi af verður að gæta þess að hún sé þróttmikil og heilbrigð. Varast skal að tína fræ af lélegum og sjúkum einstaklingum. Fræið geymir erfðaefnið og hætt er við að slæmir eiginleikar erfist.

Rétt meðhöndlun fræs eftir tínslu er ekki síður mikilvæg en að valið sé fræ af góðum plöntum. Að söfnun lokinni verður hreinsa burt öll óhreinindi, svo sem lauf, nálar og sprota og þurrka fræið. Auðveldast er að breiða það á pappír, við 20 til 25°C hita nálægt ofni.

Í mörgum tilfellum er nauðsynlegt að geyma fræ yfir veturinn og sá því að vori. Yfirleitt nægir að geyma það á köldum og þurrum stað, en best er að geyma það í kæli við 0 til 4°C eða í vægu frosti. Fræið þarf að vera í þurrum og loftþéttum umbúðum, til dæmis glerkrukku. Í góðri geymslu geta fræ flestra tegunda haldið eiginleikum sínum í nokkur ár.” Fróðleikur tekinn af Fb. síðu Blómavals.

Listi yfir nokkrar af þeim plöntum sem fræbankinn hefur átt fræ af en vantar í dag.

Latneskt heiti – Íslenskt heiti

Abies fraseri – Glæsiþinur
Abies koreana – Kóreuþinur
Achillea millefolium – Vallhumall
Alnus glutinosa – Svartelri
Alnus incana – Gráelri
Alnus virirdis ssp. Sinnata – Sitkaelri
Anthoxanthum odoratum – Ilmreyr
Azorella trifurcata – Nálapúði
Betula ermanii – Steinbjörk
Betula nana – Fjalldrapi
Betula pendula – Hengibjörk
Campanula rotundifolia – Bláklukka
Cupressus sempevirens – Sýprusviður
Cymbopogon flexosus – sítrónugras (Lemon grass)
Cytisus purgans – Geislasópur
Fragaria vesca – Villt jarðarber
Gentiana chinensis – Kínavöndur
Hepatica nobilis – Skógarblámi
Hippophae rhamnoides – Hafþyrnir
Hordeum jubatum – Silkibygg
Iris sibirica – Rússaíris
Juniperus communis – Einir
Laburnum alpinum – Fjallagullregn
Larix X marschlinsii – Sifjalerki
Larix sukaczewii x decidua ‘Hrymur’ – Lerki ‘Hrymur’
Lewisia cotyledon – Stjörnublaðka
Lewisia cotyledon ‘Little Plum’ – Stjörnublaðka ‘Little Plum’
Lonicera ledebourii – Glæsitoppur
Lonicera periclymenum – Skógartoppur
Malva sylvestris – Skógarmalva/Skógarstokkrós
Papaver radicatum yellow – Melasól
Picea glauca – Hvítgreni
Picea koraiensis – Kóreugreni
Picea pungens – Broddgreni
Pinus cembra – Lindifura (Tirol)
Pinus sylvestris _ Skógarfura
Prunus padus rubra – Blóðheggur
Prunus virginiana L.. – Virginíuheggur
Quercus rubra – Rauðeik
Rhodiola rosea (Sedum rosea) – Burnirót
Ribes bracteosum – Blárifs
Ribes uva crispa ‘Hinnomaki Röd’ – Stikilsber, rauð
Saxifraga cotyledon – Klettafrú
Saxifraga paniculata – Bergsteinbrjótur
Sorbus hybrida – Gráreynir
Sorbus mougeotii – Alpareynir
Sorbus reducta – Dvergreynir
Sorbus rosea – Rósareynir
Tilia – Linditré
Ulmus glabra – Álmur
Viburnum opulus – Úlfaber

Posted on

Söfnum öllu fræi!

Haustið er aðal fræsöfnunartíminn fyrir flestar tegundir plantna. Þegar þetta er skrifað stendur einnig yfir sérstakt söfnunarátak á birkifræi. Við viljum hins vegar hvetja alla meðlimi Garðyrkjufélags Íslands til að vera dugleg að safna hinu ýmsa fræi. Sumt er sérlega gaman að rækta aftur en annað er tilvalið að senda inn í fræbanka félagsins. Tekið er við öllu fræi en lykilatriði að það sé þegar flokkað og hver poki/umslag vel merkt tegundinni sem um ræðir.

Algengast er að fræ sé sent til fræbankans með pósti, en í undantekningartilfellum er líka hægt að setja sig í samband við frænefnd (t.d. ef um mikið magn er að ræða) og mæla sér mót.

Hér fyrir neðan má sjá netfang fræbankans og dæmi um upplýsingar sem senda skal með fræinu. Henti það viðkomandi betur er einnig hægt að óska eftir eintaki af sniðmátinu á Excel formi.

Posted on

GARÐYRKJURIT/FÉLAGSSKÍRTEINI og ÓKEYPIS RÓSIR

Fjallaskógarlilja (Erythronium sibiricum)

Af óviðráðanlegum ástæðum hefur prentun og útsending nýrra félagsskírteina sem og Garðyrkjuritsins tafist þó nokkuð í ár. Við vonumst þó til að hvoru tveggja rati til okkar úr prentvélunum hvað úr hverju og verður þá um leið sent til allra skuldlausra félaga.

Fjallaskógarlilja (Erythronium sibiricum)

Myndin er tekin í Lystgarði Akureyrar rétt áður en snjó tók að falla í byrjun liðinnar viku og sést hér Fjallskógarlilja (Erythronium sibiricum) sem myndar þar afar fallega blómstrandi breiðu.
(Höf: Kristján Friðbertsson )

Í fyrra bar nokkuð á því að sendingin væri að berast til fólks jafnvel 1-2 mánuðum of seint, af óskiljanlegum ástæðum. Til að spara félaginu pening, en ekki síst í von um að lágmarka slík vandræði stefnum við að því að bera sjálf út eins mikið og við mögulega getum.

Skráðir félagar sem vilja aðstoða við dreifinguna, mega endilega hafa samband við skrifstofu félagsins ( gardurinn@gardurinn.is ) og er þeim sem nú þegar hafa haft samband hjartanlega þakkað fyrir.

Við biðjum félaga að sjálfsögðu velvirðingar á þessum töfum og þökkum þolinmæðina. Skv okkar upplýsingum taka öll fyrirtæki sem afslætti veita enn við gamla skírteininu þar til hið nýja er komið í umferð.

Kartöflur
Enn eru örfáar ósóttar pantanir á skrifstofunni og hvetjum við viðkomandi aðila til að endilega sækja sem fyrst, svo þetta dagi nú ekki uppi, eða fari jafnvel að skemmast á meðan beðið er.

Ókeypis rósir
Óðum styttist í hinn sívinsæla plöntuskiptadag í Reykjavík og vonandi verður hann haldinn víða í ár. Meðan hans er beðið er tilvalið að næla sér í ókeypis rósarunna!

Rósaklúbbur GÍ ( facebook.com/groups/399986060113202 ) ætlar að hittast miðvikudaginn 18. Maí kl 17:00 í Rósagarðinum í Laugardal, skammt frá Grasagarðinum. Þar verða rósir klipptar, rótarskot fjarlægð og snyrt aðeins til. Ekki bara góð skemmtun, heldur frábær leið til að fræðast um rósir og meðhöndlun þeirra.

Þeir sem taka þátt í verkinu fá að vanda að taka með sér rótarskot heim og eignast því nýja plöntu fyrir vikið. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast í FB hóp rósaklúbbsins, sem vísað er í hér á undan.

18. maí er raunar Safnadagurinn og því tilvalið að skella sér svo í Grasagarðinn. Þar hefst t.d. fræðsluganga kl 20 um villtar erfðalindir nytjaplantna.

Posted on

19.apríl: Afríka

Kirstenbosch botanic garden

Vilmundur Hansen kemur í sal félagsins og fræðir okkur um ferð sína í Kirstenbosch grasagarðinn í Suður Afríku. Það verður án efa litríkt og líflegt erindi sem höfðar til flestra, ef ekki allra 🙂

Athugið breyttan tíma frá því sem fyrst var auglýst.

Erindið hefst kl 20 í sal félagsins þriðjudagskvöldið 19.apríl og verður einnig sent út samhliða í gegnum Zoom. Í kringum upphafstíma erindisins mun eftirfarandi hlekkur virkjast og veita aðgang að hinu beina Zoom streymi: https://us06web.zoom.us/j/86256738975?pwd=K28xQzZ2VXgxejF0dUF4cmF0SlQ4UT09

Myndin sem fylgir er tekin af Molly Beauchemin.

Í næstu viku verður svo Ingólfur Guðnason með zoom-eingöngu erindi um jarðgerð í heimilisgarðinum, mánudaginn 25.apríl kl 20. 

https://us06web.zoom.us/j/82699077037?pwd=bm9KcGlqbXcwaVU0YjlUR1c1bVV3QT09

og Halldór Sverrisson með erindi um Trjáheilsu í sal félagsins, sem einnig er stefnt að að senda út gegnum zoom samtímis, fimmtudaginn 28.apríl kl 20.

https://us06web.zoom.us/j/89447229978?pwd=cW5FZ3JRajRTRTRWVG5rWnU1QVpZdz09

Posted on

Frá fuglum til Afríku

Krossnefur_KFF

Einar Þorleifsson minnti okkur á, í erindi sínu í sal Garðyrkjufélagsins, að sumir farfuglar koma hingað til okkar alla leið frá Afríku. Það er því tilvalið að við færum okkur frá fuglunum og yfir til Afríku áður en sumarið kemur.

Þriðjudag 19.apríl, kemur Vilmundur Hansen í heimsókn og ætlar að segja okkur frá heimsókn sinni í Kirstenbosch grasagarðinn í Suður Afríku.

Erindið fer fram í sal Garðyrkjufélags Íslands og verður því einnig streymt á netinu fyrir áhugasama. Notast verður við Zoom kerfið og rétt að taka fram að aðgangur félagsins leyfir einungis 100 gesti samtímis og erindið verður ekki endurtekið, né aðgengilegt eftir á. Það er því um að gera að mæta tímanlega hvort heldur sem er í salinn, eða á netinu.

Þess má til gamans geta að ný röð garðyrkjuþátta „Ræktum Garðinn“ hefur göngu sína í sjónvarpi Símans sumardaginn fyrsta. Þar sjáum við einmitt Vilmund á skjánum, ásamt Hafsteini Hafliðasyni. Vilmundur hjálpar okkur garðyrkjufólkinu því bæði að kveðja veturinn og taka á móti sumrinu.

Sumardaginn fyrsta er líka opið hús í Garðyrkjuskólanum að Reykjum, svo við bæði kveðjum veturinn og heilsum sumrinu með glæsibrag!

Viðburðarlýsinguna fyrir Vilmund í Afríku má finna hér: https://www.facebook.com/events/524121149223411

Einar Þorleifsson fer yfir nokkrar af helstu tegundum trjáa og runna sem fuglalífið nýtur góðs af hérlendis.
Skógarþröstur
Posted on

Fræðslufundir hefjast á ný!

Nokkrir frábærir aðilar úr hópi félagsmanna G.Í. og annarra vildarvina ætla að halda fyrir okkur fræðsluerindi um hin ýmsu málefni.

Fyrirkomulagið verður að mestu hið sama og í fyrra:

Mán/Þri/Mið/Fim kvöld kl 20, lengd ca 40-60 mín

Til að byrja með verðum við einungis í fjarfundarkerfinu Zoom, en þegar nær dregur lokum mars mánaðar er stefnan að nokkur erindi verði haldin í sal félagsins og þá einnig send út yfir Zoom fyrir fjarstadda.

Sérstakur zoom hlekkur verður fyrir hvert erindi fyrir sig og verður sett inn á viðeigandi „Facebook viðburð“ á facebook síðu félagsins: www.facebook.com/gardurinn

Einnig verða hlekkirnir settir á viðburðartilkynningarnar á vef félagsins www.gardurinn.is

Nauðsynlegt er að hafa Zoom appið til staðar fyrirfram, en það er hægt að sækja á netinu frítt. Leyfistakmarkanir félagsins gefa okkur að hámarki kost á að hafa 100 gesti í einu. Það dugar oftast til, en þó hafa komið tilfelli þar sem færri komast að en vildu.

Ekki er gert ráð fyrir endurtekningum eða upptökum á erindum og því er rétt að minna fólk á að tengja sig inn stundvíslega til öryggis. Stefnt er að því að gera hvern fund virkann 5-10mínútum áður en hann hefst og er þá hægt að tengja sig inn.

Fyrstu 2 erindin eru á sitt hvoru tungumálinu:

Miðvikudagur 23.febrúar kl 20:00
Sáning og forræktun sumarblóma og matjurta
Guðríður Helgadóttir

Fimmtudagur 24.febrúar kl 20:00
Growing plants from seed in Iceland (á ensku)
Rannveig Guðleifsdóttir

Athugið að síðari fundurinn fer fram á ensku og er sérstaklega beint að þeim sem hafa íslensku ekki að móðurmáli og/eða treysta sér frekar til að fylgjast með á ensku.

Efnistök beggja verða þó um margt svipuð, en sá síðari leggur mögulega aðeins meiri áherslu á atriði sem koma þeim til góðs sem vanari eru ræktun erlendis, við aðrar aðstæður.

Endilega fylgist vel með á facebook síðu félagsins:

www.facebook.com/gardurinn

þar sem enn eru að bætast við erindi og ávallt er mögulegt að einhverjar dagsetningar geti breyst vegna forfalla.

Næstu 3 viðburðir eins og er:

Fim. 3. mars kl 20:00
Vetrarumhirða pottaplantna
Sigrún Eir

Mið 9.mars kl 20:00
Sveppir í garðinum
Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir

Fim 10.mars kl 20:00
Trjá- og runna klippingar
Ágústa Erlingsdóttir

Meðal þeirra sem eru síðar á dagskrá, má nefna Auði Ottesen, Sigurð Arnarson, Maja Siska, Fræmeistara og frænefnd Garðyrkjufélagsins, Svein Þorgrímsson, Vilmund Hansen, Konráð Lúðvíksson, Sigurð Guðmundsson o.fl.

Við hvetjum að sjálfsögðu alla félaga til að nýta þessi tækifæri og njóta góðvildar, reynslu og þekkingu þessa góða fólks, sem við kunnum afar miklar þakkir fyrir.

Posted on

2. Fræðslufundur Rósaklúbbsins, 18.nóv 2021

2. Fræðslufundur
Rósaklúbbs Garðyrkjufélagsins 2021
Fer fram fimmtudaginn 18. nóvember, 2021 kl 20:00 – 22:00

Dagskrá

 Blómstrandi runnar og tré, hvað gengur vel á Íslandi.
Steinunn Garðarsdóttir er sérfræðingur í umhverfisskipulagi. Hún hefur komið aðfjölbreyttum gróður rannsóknum innan Landbúnaðarháskóla Íslands samhliðaMS námi í náttúru- og umhverfisfræði. Hún kennir nú plöntunotun fyrir nemendur í landslagsarkitektúr og skógfræði við Landbúnaðarháskólann.

Kaffihlé

 Rósaræktun Lene Grönholm.
Lene Grönholm er finnsk og hefur bæði reynslu af rósarækt í Finnlandi og á Íslandi.
 Niðurstöður ljósmyndasamkeppni Rósaklúbbsins,
hér verða kynnt úrslit í ljósmyndakeppninni sem nú er í gangi.


Kaffigjald er 200 kr og við munum fara eftir þeim sóttvarnarreglum sem gilda á fundardag.
Fundinum verður einnig dreift á zoom. Tengill sendur þegar nær dregur

Posted on

Röð fræðslukvölda GÍ á netinu

Á næstu vikum gengst Garðyrkjufélagið fyrir röð opinna fræðslufunda um sitthvað sem huga þarf að í garðinum. Fróðasta fólk GÍ stýrir þessum fundum og verður til svara um hvaðeina sem upp kann að koma.

Þessir fundir verða um fjarfundabúnað (Zoom) og eru öllum opnir. Fyrir hvern fund birtir félagið slóðina inn á hvern fund á heimasíðu sinni (www.gardurinn.is) og Facebook-síðu félagsins (https://www.facebook.com/gardurinn). Þaðan verður einfalt og auðvelt að hefja þátttöku.

Öll fræðslukvöldin hefjast kl. 20 og standa í 30-45 mínútur.

 

Efni

Dags

Umsjón – málshefjandi

Sáning fjölæringa og sumarblóma

25/3

Guðríður Helgadóttir

Forræktun matjurta

29/3

Konráð Lúðvíksson

Trjá- og runnaklippingar

30/3

Ágústa Erlendsdóttir

Vetrarstiklingar

6/4

Eggert Aðalsteinsson

Umpottun pottaplantna

8/4

Guðríður Helgadóttir

Sáning runna- og trjáfræja

13/4

Sveinn Þorgrímsson

Íslenskar plöntur í heimagarðinn

4/5

Guðríður Helgadóttir

Pöddur (góðar og vondar) inni og úti

11/5

Bryndís Björk Reynisdóttir

Posted on

Sáning og uppeldi birkifræs í glugganum heima

Söfnun birkifræja
Myndin er fengin úr kennslumyndinni „Sáning birkifræja“ eftir Stein Kárason https://vimeo.com/28150471

Að ala upp plöntur í eldhús- eða stofuglugga getur ekki talist besti kostur sem völ er á og hefur reynst mörgum erfitt. Ræktun í gróðurhúsi eða gróðurskála er mun auðveldari en krefst engu að síður natni. Margir ræktendur hafa ekki kost á að ala upp í gróðurskála eða gróðurhúsi en vilja engu síður spreyta sig við uppeldi trjáplantna og því ekki að reyna eldhúsgluggann?

Birkifræið

Birkifræið er að jafnaði þroskað um mánaðarmótin september – október og hangir fræið á plöntunum fram yfir miðjan október, jafnvel lengur ef tíð er góð.
Safnið birkifræi af heilbrigðum trjám. Takið væna, heila rekla, ekki þá sem eru litlir eða afmyndaðir. Tínið frá blöð og stilka, sem slæðast kunna með, og þurrkið fræið við stofuhita í 3 – 4 daga t.d. í þunnum flekki á dagblaði. Þegar heilir reklar hrynja í sundur við átöku er fræið þurrt. Það má síðan geyma í bréfpoka, helst á köldum og þurrum stað. Birkifræið er örsmá hneta með allbreiðum væng og er allt að ein- og hálf milljón fræja í kílói. Algeng spírun er 50%, jafnvel minna. Fræið tapar spírunarhæfni í geymslu og því er vissara að nota ekki eldra fræ en 2.-3 ára.

Ef of miklu fræi er safnað, er tilvalið að deila með öðrum félögum, eða t.d. senda inn til fræbanka félagsins. Sjá nánar hér: https://gardurinn.is/sofnum-ollu-fraei/

Moldin

Sáðmold þarf að vera myldin og með hæfilegt magn næringarefna. Hægt er að kaupa tilbúna sáðmold í verslunum. Ekki er nauðsynlegt að sá í sérstaka sáðbakka, heldur má notast við nær hvaða ílát sem er, t.d. undan ís eða skyri, svo framarlega sem stungin eru göt í botninn og framræsla vatns tryggð. Bakkinn er fylltur upp með sáðmold þannig að nokkrir millimetrar eru upp að brún. Þjappað er létt á moldina. Ef það er gert of fast fer súrefni úr moldinni og spírun gengur verr, en ef moldin er óþjöppuð, eða ekki nægilega þjöppuð er hætta á að fræ liggi laus ofan á moldinni og nái síður tengslum við jarðveginn.

Sáning

Sáið um eða eftir miðjan maí. Fræinu er dreift sem jafnast yfir moldina og til þess að auðvelda jafna dreifingu má blanda hveitiklíði saman við, 2-3 sinnum magn birkifræsins. Hæfilegt er að gera ráð fyrir um 50 spíruðum fræjum í bakka sem er 20×30 sentimetrar að flatarmáli, en sú stærð hentar vel í venjulega gluggakistu. Sé spírunarhlutfall 50%, sem oft er hjá birki, má hæglega sá 100 fræjum í bakka af þeirri stærð en í einu grammi af birkifræi eru um 900 – 1400 fræ. Sé spírunarhlutfall hærra en 50 % er rétt að fækka sáðum fræjum sem því nemur.

Um 1-2 millimetra þykku lagi af vikri eða sandi er sáldrað yfir fræin, þannig að rétt sjáist í þau.
Með þessu móti helst raki í moldinni og að fræinu, en raki er eitt af lykilatriðum til að spírun takist.

Merkja skal sáningu með upplýsingum um t.d. tegund, uppruna fræs og dagsetninu sáningar

 Vökvað

Að svo búnu er moldin vökvuð og er best að vökva neðan frá í gegnum göt á sáðbakkanum. Ef vatni er hellt yfir bakkann, þéttist moldin og súrefni í henni minnkar, auk þess sem fræin geta skolast til ef ekki er farið varlega. Best er að leggja bakkann í vask eða bala með volgu vatni og láta hann standa þar í nokkrar mínútur, eða þar til sáldrið hefur dökknað.

Þá er sáðbakkanum komið fyrir í gluggakistu, helst í vesturglugga, og hvítt plast lagt yfir, en við það helst rakinn betur í moldinni. Gott að lofta um moldina einu sinni á dag og er þá plastið tekið af í nokkrar mínútur. Moldin má hvorki verða of þurr né blaut en vökvun krefst mikillar umhyggju og er eitthvert vandasamasta verkið í uppeldinu.

Fræið má aldrei þorna meðan á spírun stendur.

Árangur sést eftir nokkra daga

Birkifræ spírar eftir 10-15 daga við um 20 stiga hita. Þegar megnið af fræjunum hefur spírað er plastið tekið af bakkanum og þá fer birta að skipta plönturnar mestu máli. Þær teygja sig í átt að ljósi og því er mikilvægt að láta þær standa þar sem þær njóta góðrar birtu. Markmiðið er ekki að fá langar spírur, heldur þétta og laufgaða plöntu. Nýspíruð fræ mega ekki standa í sterku sólarljósi og er því nauðsynlegt að skyggja örlítið á viðkvæmar plöntur ef sáðbakki er staðsettur í suðurglugga. Það má gera t.d. með því að festa dagblað á glerið á glugganum og draga þannig úr mestu birtunni. Best er að plönturnar séu í vesturglugga ef kostur er.

Fljótlega eftir spírun myndast tvö lítil laufblöð, sem nefnd eru kímblöð. Í kjölfarið stækka smáplönturnar og laufblöðum fjölgar. Þá þarf að dreifplanta, til að auka vaxtarrými hverrar plöntu.

Vaxtarými aukið

Á þessu stigi má notast við venjulega, næringarríka gróðurmold. Notið stærri sáðbakka og fyllið hann næstum. Hafið þó borð á svo að vatn flæði ekki út við vökvun. Grafið litla holu í moldina, t. d. með teskeið. Síðan eru plönturnar teknar varlega upp úr sáðbakkanum og þeim komið fyrir, með gætni, í nýja pottinum. Gætið þess að rótarkerfið bögglist ekki við gróðursetningu. Það getur haft slæm áhrif fyrir vöxt og viðgang plöntunnar síðar meir. Bil á milli plantna í sáðbökkum er hæfilegt 5-6 sm. Einnig má nota litla blómapotta 4-6 sentímetra og er þá ein planta sett í hvern pott. Þörf fyrir birtu minnkar ekki en plönturnar hafa nú gott af ögn lægri hita ef mögulegt er. Annars geta þær orðið linar og þróttlitlar. Á þeim árstíma, þegar hætta á næturfrosti er liðin hjá, má fara að venja smáplönturnar við þær aðstæður sem þær munu búa við næstu árin. Ekki má gera það of hastarlega og er því gott að byrja á því að láta plöntunar út á daginn á skjólgóðan stað, nokkra tíma í senn. Tíminn er svo lengdur smám saman þar til plöntunar eru settar alveg út, en það getur tekið 1-2 vikur. Fyrstu nætunar úti getur verið æskilegt að hylja plönturnar með trefjadúk (akríldúk) eða plasti á skjólgóðum stað í garðinum. Plöntunar eru aldar upp, t.d. í vermireit, til næsta vors og jafnvel lengur, allt eftir stærð ræktunaríláts.

Samantekt:
Auður Jónsdóttir. Kristinn H. Þorsteinsson