Höf. Kristján Friðbertsson
Hérlendis finnst okkur ræktunartímabilið oft ansi stutt, þó auðvitað sé það breytilegt milli ára og staðsetningar. En hvað er ræktunartímabil og hvernig mælum við það? Er ræktunartímabil það sama og sumar?
Ef við segjum að ræktunartímabil jafngildi sumri, þá flokkar Veðurstofan sumarið á Íslandi sem 1.júní til 30.september. Það er hins vegar m.a. byggt á ákvörðun útfrá þeirra skýrslutímabilum og samanburðarútreikningum. Við gætum alveg notast við það, en skilgreiningin tengist ekki okkar tilgangi. Að sama skapi byrjar raunverulegt sumarveður á Íslandi ekki heldur daginn sem við köllum sumardaginn fyrsta.
Myrkur eða birta?
Almennt séð má reikna með að 4 dimmustu mánuðirnir (frá nóvember út febrúar) séu án teljanlegs sólarljóss á Íslandi sökum norðlægrar legu. Þeir teljast því ekki gagnlegir hlutar af ræktunartímabili, nema viðbótarlýsing og annað komi til. Jafnvel þótt hitastigið væri annars nægilega hátt, væri engin markverð ljóstillífun möguleg. Þetta er þó auðvitað aðeins breytilegt eftir staðsetningu. En t.d. í Reykjavík er það ekki fyrr en í febrúar sem sólin er komin meira en 10 gráður yfir sjóndeildarhring. Þá fyrst getur hún t.d. farið að verma yfirborð svo einhverju skipti. Í lok október er hún svo aftur komin þetta lágt. Trausti Jónsson, veðurfræðingur, miðar þó við að hún fari að skipta máli í kringum 15gráður yfir sjóndeildarhring. Í Reykjavík gefur það okkur ca 20.febrúar og fram í miðjan október eða svo.

Laufblöð koma og fara
Nægilega sterkt sólarljós fyrir gagnlega ljóstillífun vantar 4 mánuði af 12. Er ræktunartímabilið þá 8 mánuðir? Nei. Plöntur þurfa að vera komnar úr dvala og blaðgræna þarf líka að vera til staðar áður en ljóstillífun er möguleg. Fyrir aðrar plöntur en sígrænar þýðir þetta að þær verða að vera búnar að laufgast, sem kallar fyrst á ákveðið tímabil nægilegs hitastigs. Svo skiptir hitastigið í framhaldinu ekki minna máli.
Unga lyngrósin hér á myndinni hefur opnað brum og byrjuð að sýna okkur smá af nýju laufi, en verandi sígræn hefur hún ennþá nægilega blaðgrænu til ljóstillífunar frá fyrri tíð.
Ef við sjáum lauftré úti í garði laufgast í byrjun maí og fella lauf í lok september, þá gætum við sagt að það tré hafi fengið 5 mánaða (22 vikna) tímabil til ljóstillífunar það árið. Sérstaklega ef hitastigið hélst allan tíman yfir 5°C. Plöntur laufgast þó ekki allar á sama tíma og töluverður rótarvöxtur getur átt sér stað eftir lauffall, svo þetta viðmið er ekki endilega það heppilegasta. Enn síður fyrir aðrar plöntur eða önnur svæði. Ýmislegt kemur til greina, en plöntuvalið og tilgangurinn segir mikið til um hvað skiptir mestu máli.
Viðmið: Sólarljós
Ef við skilgreinum ræktunartímabil útfrá sólarljósinu einu saman, er það ekki sérlega gagnlegt. Þó getur verið ágætt að hafa hugmynd um fjölda sólskinsstunda og dróg ég því hingað inn til fróðleiks línurit af bloggi veðurfræðingsins Trausta Jónssonar (Hungurdiskar) sem sýnir rúmlega öld af mælingum í Reykjavík. Sjáum við það hér hægra megin =>


<= Einnig er hér vinstra megin súlurit af vef Veðurstofunnar, sem sýnir hve mikið færri eða fleiri sólarstundir mældust mánaðarlega á Akureyri og Reykjavík árið 2024, borið saman við 30 ára meðaltal. Heildarfjöldinn fyrir árið var 1192 á Akureyri (30 ára meðaltal: 1051) og 1459 í Reykjavík (30 ára meðaltal: 1368).
Ekki er þó allt sólskin af sama styrkleika, eða gagni. Styrkleikinn stýrist ekki síst af sólhæð, eða af hvaða horni/vinkli við fáum sólargeislana til okkar. Þetta þekkjum við auðvitað mjög vel hérlendis, enda sólin afar lágt á lofti hjá okkur hluta ársins. Tengd þessu er auðvitað daglengdin, sem er plöntum afar mikilvæg til að átta sig á árstíðum. Skv weather-atlas.com er meðalfjöldi dagsbirtustunda rúmlega 3800 í Reykjavík hina 8 mánuðina til samans, en fjöldi sólarstunda um 1330. Svipaðan fjölda sólarstunda má finna í ýmsum bæjum á Skotlandi og Írlandi.
Til samanburðar tók ég snöggvast saman sólhæð á hádegi í nokkrum borgum, í byrjun hvers mánaðar af þeim 8 sem eru að teljandi gagni fyrir plöntur á Íslandi. Sveiflan milli stystu og lengstu daga er auðvitað meiri eftir því sem norðar dregur.

Til að fá nánari hugmynd um sólarstyrk má t.d. horfa til flokkunarkerfis á styrk útfjólublárra geisla. Þær tölur geta gefið hugmynd, en ber að taka með miklum fyrirvara, þar sem breytileiki er bæði meðal kerfa og hvernig mælingar eru reiknaðar. Á meðan einn staður segir hæsta gildið fyrir Reykjavík vera í Júlí (4), þá segir annar bæði júní og júlí jafnháa (6).

Enn dugar þetta ekki til að skilgreina gagnlegt ræktunartímabil. Mesta gagnið hafa plöntur af sólarljósi þegar þær eru ekki í dvala og hitastigið er rétt. Við þurfum því að vita hvenær er rétt hitastig fyrir ræktun. Þar lendum við aftur á því að máli skiptir um hvaða plöntur ræðir og hver tilgangurinn er með ræktuninni. En plöntutegundir hafa mismunandi hámarks og lágmarks hitastig fyrir hin ýmsu ferli.
Hér sjáum við aðra sígræna plöntu: Fagurfrú (Saxifraga cotyledon ‘Pyramidalis’). Þrátt fyrir sólarljósið sem hún nýtur á myndinni og næga blaðgrænu er óljóst hvort hún hafi þarna verið staðin að verki við ljóstillífun. Líkt og snjórinn sýnir er myndin tekin að vetrarlagi og því alls óljóst hvort hitastigið hafi verið heppilegt og vökvaaðgengi nægilegt.

Viðmið: Frost
Frost er komið niður fyrir lágmarkshitastig til ljóstillífunar og getum við almennt gert ráð fyrir að enginn vöxtur eigi sér stað í frosti. Samfellt frostlaust tímabil er því algengt viðmið. Þá er hægt að miða við að hitastig fari ekki undir 0°C, nema kannski í örfáar klukkustundir. Sumir horfa frekar til -2, -4 eða -5°C, enda ýmsar plöntur sem þola stutta stund af vægu frosti ágætlega.

Árið 2022 voru 124 dagar í röð frostlausir í fossvoginum, kópavogi. Frá miðjum maí fram í miðjan september. Ef við miðum við amk -4°C lengist tímabilið töluvert, verður 192 dagar frá byrjun apríl fram í miðjan október. Semsagt frá 4 upp í rúmlega 6 mánuði.
Þessu svæði er þó hættara við næturfrosti en ýmsum öðrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu og því sennilegt að bæði tímabilin hafi verið lengri annars staðar.
Við gætum því sagt að á SV-horninu gæti frostlaust tímabil á góðu ári verið á bilinu 5-6 mánuðir, eftir nánari staðsetningu og skilgreiningu, útfrá þessu.
Jarðvegshiti getur haft meiri áhrif á ræktun en lofthiti og því óvitlaust að líta á hitastigið við rótarkerfi plantna, t.d. hvort jarðvegur sé frostlaus.
Tengt þessu nefnir skýrsla Veðurstofunnar um jarðvegshitamælingar á Íslandi (VÍ 2018-009) mögulega skiptingu í sumar- og vetrarhluta árs byggða á því hvort jarðvegurinn er hlýjastur næst yfirborðinu. Slíkt viðmið gæfi þá sumarhlutann í 5 mánuði, frá 15. apríl til 15. september fyrir láglendi S, SV og N-lands. Hálendið svo mánuði styttra.
Gömul þumalputtaregla sem Hafsteinn Hafliðason nefnir oft til sögunnar er vorveðrið við Ittoqqortoormiit á Grænlandi (áður Scoresbysund). Horft er til þess að heilli viku sé spáð af rauðum tölum. Hugmyndin er að það segi til um hvenær sé líklegast óhætt að setja út plöntur að vori, því þá sé hætta á næturfrosti að mestu liðin hjá. Þetta mætti t.d. líka nota sem upphafspunkt ræktunartímabils.
Önnur viðmið
Frostleysi jafngildir auðvitað ekki vexti í plöntu. Til gamans skoðaði ég hámarkshitastig að vori og taldi tímabilið frá því 5 dagar komu í röð yfir 5°C, þartil að hausti hámarkshitinn komst 5 daga í röð aldrei upp í 5°C. Það gaf mér frá miðjum apríl og aðeins inn í desember, eða 239 daga, fyrir fossvoginn árið 2022. Eins og við sáum áðan, kemur þó frost fyrir á þessu tímabili og verður takmarkandi þáttur fyrir flestar plöntur.
Í skógrækt hérlendis er þumalputtaregla að tímabil mögulegs vaxtar sé í kringum 4 mánuði og þá hægt að miða við 20.maí til 20.sept eða þarumbil. Norskt viðmið um að lágmarki 140 frostlausa daga, með meðalhita yfir 5°C til að beyki geti þrifist, virðist eiga betur við í Noregi en hér. Allt gefur þetta þó gagnlegar vísbendingar.
Ýmis nytjaræktun horfir einmitt á tímabil yfir ákveðnum meðalhita sem gagnlegt ræktunartímabil. Innan þess er svo hægt að reikna út hitasummur til að sjá hvenær má reikna með fullum þroska, eða jafnvel hvenær ákveðin óværa fer á kreik. Vísað er til slíkra útreikninga sem „degree days“ eða „Growing Degree Days“. Á okkar köldu slóðum nýtist það m.a. til að sjá hve líklegt er yfir höfuð að t.d. ákveðin aldintré nái að fullþroska aldin á íslensku sumri. Lengd ræktunartímabils skiptir auðvitað miklu máli, en hitasumman er nátengd og oft gagnlegt tól þegar kemur að því að skoða hvað er hægt að gera á Íslandi.


Þessu til viðbótar þarf að hafa í huga að hitastig í skjólgóðum garði eða skógi getur verið allt annað en á berangri og að sama skapi erum við ekki öll að upplifa sömu hitagildi í okkar görðum og það sem veðurstofan mælir. Þar sem hitastigið að vori og hausti stýrir miklu um upphaf og enda tímabilsins, getur sá hitastigsmunur einnig haft áhrif á lengd tímabilsins.
Þarna spilar nærloftslagið inn í (e. microclimate) sem ég mun koma nánar inn á í annarri grein. Það getur semsagt bæði lengt tímabilið og hækkað hitasummuna. Jón Þórir Guðmundsson garðyrkjufræðingur hefur t.d. talað um að skjólgóður garður geti bætt í kringum 300 stigum við hitasummu hvers árs, svo það er eftir miklu að slægjast.
Hérna eru semsagt nokkrar hugmyndir og viðmið, en við veljum svo hvert og eitt bara það sem okkur hentar best. Kannski er heppilegast að segja bara alltaf „4-6 mánuðir, hitasumma öðru hvoru megin við 1000“? Vonandi hefur þó öllum orðið ljóst við lesturinn að samanburður við aðra gengur einungis upp ef skilgreining beggja er sú sama.
Smá viðbót
Ég er fjarri því einn um að fylgjast með bloggsíðu Trausta Jónssonar og margt vitlausara fyrir ræktunarfólk en að fylgjast með skrifum hans. Í Garðyrkjuritinu árin 2014 og 2023 bauð Vilhjálmur Lúðvíksson okkur m.a. upp á sýn Trausta á sumargæði, í formi línurita. Nokkuð sem er auðvitað líka breytilegt milli ára og landshluta.
Þegar litið er á árin í heild, getur kaldur vetur auðvitað falið háan sumarhita í meðaltali. Engu að síður þótti mér áhugavert línurit Trausta sem sýnir hve mörgum gráðum munar á meðalhita Reykjavíkur og Akureyrar og birti það því hér. Ársmeðalhitinn er alltaf hærri í Reykjavík (fyrir utan árið 1984) og eru þessar tölur því einfaldlega ársmeðalhiti Akureyrar dreginn frá sömu tölu fyrir Reykjavík. T.d. árið 1848 var að meðaltali 2 gráðum hlýrra í Reykjavík, en á Akureyri.

Vitna hér í Trausta:
„Við sjáum að á hafísárunum frá 1965 og þar á eftir rauk munurinn upp og varð nærri því 2 stig árið 1968. Þetta var alveg raunverulegt ástand sem varði öll hafísárin 1965 til 1971, en síðan sló af. Það er ákveðið skemmtiatriði að bandaríska veðurstofan trúir ekki svona nokkru – að hitamunur geti ár eftir ár verið meiri en venjulega á milli stöðva þar sem stutt er á milli (á heimskvarða). Viðbragðið varð því að lækka hitann í Reykjavík sem þessari óþekkt nam.“