Posted on

Valentínusar Vitleysan

Víkur frá vörum vængjaður koss*,

það er ástin sjálf sem heimsækir oss.

Hrífur jafnt, í myrkri sem björtu*,

okkar viðkvæmu litlu, hrifnæmu hjörtu.

Líkt og norðurljós á himnum eða tungsljós í hafi,

yfirnáttúrulegt afl, það er enginn vafi.


*við mælum að sjálfsögðu ekki með þessu, af hreinlætis og sóttvarnar ástæðum, en ætli sér einhver að leika þetta eftir, ráðleggjum við eindregið að fá samþykki hjá verslunarstjóra áður en farið er að kyssa vörur í hillum verslana.

*reyndar er varað við því að nota hrífur jafnt í myrkri sem björtu, þar sem notkun þeirra er talin ívið varasamari í myrkri.

Hjörtun finnast í náttúrunni víða. Þótt útlitið frábrugðið líffærinu sé, látum það oss ekki valda kvíða.
Mynd/ir: Kristján Friðbertsson
Dicentra/Lamprocapnos spectabilis ber á íslensku nöfnin tvö: skrauthjarta og hjartablóm. Sumir sletta enn skandínavíska stríðsljóma nafninu „lautinantshjarta“, en flottari þykir mér þýskan „flammendes Herz“. Í lauslegri þýðingu „logandi bílaleigubíll“ en í réttri þýðingu „logandi hjarta“. Á enskri tungu finnast svo vísanir í blæðandi hjarta (bleeding heart), hjartablóm (heart flower) og einna skemmtilegast: dama í baði (lady-in-a-bath). Það olli mér nokkru hugarangri þessi tenging við konu í baði, þartil ég áttaði mig á því að hún var auðvitað nýkomin frá þýskalandi, þar sem hjarta hennar hafði verið logandi og þurfti því kalt bað til að slökkva eldinn og kæla sig niður. Tungan sú enska á einnig til heitið eggjaleiðarabrum (fallopian buds) sem vekur furðu að náð hafi nokkurri dreifingu. Fyrir þá sem ekki vita hvað eggjaleiðari er, þá er það pistill ritaður af ritstjóra tímarits sem fjallar um egg.
Mynd: Kristján Friðbertsson
Þessi mynd sýnir nokkuð vel hvaðan nafnið „dama í baði“ hefur komið.
Mynd: Holger Casselmann, CC BY-SA 3.0 https://creativecommons.org/licenses/by-sa/3.0, via Wikimedia Commons
Ungur maður lítur hér upp og dáist að hinu hávaxna hjartablómi.
Mynd: Kristján Friðbertsson
Nei, nú er nóg komið. Við ætlum ekki að breyta garðinum í einhvers konar „Bleikt&Blátt“ hér.
Mynd: Kristján Friðbertsson

Ræktum við ástina í garðinum? Hví ekki það. Ástin á garðyrkjunni ræktast hvergi betur og samstíga pör í garðyrkju rækta tvímælalaust eigin ástarsamband í garðinum. Við ræktum plöntur með hjartalaga lauf eða blóm og önnur sem hjartalyf voru unnin úr.

Hjartahlýjan sem ástin gefur, er óháð því hvern, hverja, hvert eða hvað við elskum. „Ástin er eins og sinueldur“ og í blómapotti logar ástareldur, oft undir nafninu kóraltoppur (Kalanchoe blossfeldiana) eða hinu stórkostlega enska heiti „flaming Katy“ (logandi Kata, frekar en sofandi skata). Augljós mismunun á sér stað hér, því mótvægi vantar við kóraltoppinn, en enginn er þekktur kóralbotninn. Hún kóral-lóa (Aloe arborescens) kemur þó ekki tómhent heim á valentínusardaginn, heldur færir sínum kóralbónda rós (Paeonia mascula).

Stofublómið hjartaband (Ceropegia woodii) fyllir heimili með heilli hjörð af hjörtum sem fikra sig eftir bandinu, en í garðinum eru það hjartablóm (Dicentra), sem bleikum blómstrandi hjörtum sig skreyta. Flest tengjum við hjörtu við ástina, enda leiða hjartalaga form hugann að ást sama hvar þau finnast. Opin kúskel, hálft smárablað, hjartalaga steinn eða hjartadeildin á Landspítalanum. Kannski einna síst þetta síðastnefnda.

Kryddjurtin basil (Ocimum basilicum) er ástartákn á Ítalíu en vilji moldavísk stúlka að ungur herra falli alvarlega fyrir henni*, er ekkert ráð betra en að gefa honum smá basil. Ekki fylgir sögunni hvernig basil virkar þar fyrir önnur kyn, eða samkynja pör, en ég legg til að prófa sig áfram með pestó og sjá hvað setur. Betra en að lenda með ferskt basil í basli í vetur.

*ekki er vitað hversu alvarlega viðkomandi gæti fallið og því líklega skynsamlegast að gefa ungum herra bara alls ekki basil nema hann sé umkringdur mjúku grasi, til að milda fallið.

Frjálsar ástir tákna mismunandi hluti fyrir mismunandi fólk, en á síðustu öld var það algengt hugtak yfir ástarsambönd án afskipta ríkis og kirkju og raunar þjóðfélagsins alls. Hjónaband var enda oft leið til að tryggja afkomendum sínum farsæla framtíð og halda ættarnafninu gangandi, ekki síður en að tryggja eða auka völd og fjármuni stórfjölskyldunnar. Víða í heiminum má auðvitað enn finna slíkt viðhorf, en á 19. öldinni tók það viðhorf amk á Vesturlöndum að víkja. Til hjónabands skildi stofnað á forsendum ástarinnar. Frjálsar ástir taka það raunar skrefinu lengra. Ekki bara hjónabandið á eigin forsendum, heldur að fólk hafi allt sitt einkalíf fyrir sig. Frelsi meðal blóma er t.d. hægt að tákna með hinni fallega gulblómstrandi rós „Freedom“. Fræðimennirnir taka það reyndar skrefinu lengra og tala um alveg Rosa „Freedom“.

Enn berjast margir foreldrar hatrammlega gegn því að börn þeirra pari sig saman við fólk af öðrum kynþáttum, trúarbrögðum, þjóðerni, þjóðfélagsstöðu nú eða t.d. gegn hinsegin samböndum. Ástin er ekki einföld. Hvað gerist þegar ástin tekst á í margar áttir? Fjölástasambönd eru ein lausn, en duga skammt ef ástin sem um ræðir er annars vegar gagnvart maka og hins vegar gagnvart foreldrum og fjölskyldu. Hvað þá ef ástin deilist á margar plöntuættkvíslir sem allar keppast um besta staðinn í garðinum! Hvert tilfelli þarf sína eigin lausn, ef hún er þá til. Lífið er jú ekki dans á rósum, enda væri það svakalega illa farið með góðar rósir.

Talandi um rósir, krónublöð rauðra rósa eru oft tengd sjóðheitum kvöldstundum í rúminu, en þyrnar sömu rósa oftar tengdir litlum stungusárum og leiðinda rispum. Það borgar sig því að fara varlega. Ástarmeðul má víst brugga úr fjólum, handa fínustu dömum í flottustu kjólum. Burnirót eykur svo úthald og þol, hjá spjátrungum sem mæta í gallabuxum og bol.

Greinilegt er að getur ýmislegt komið sér vel úr garðinum, til viðbótar við að minna okkur sífellt á sjálfa ástina. En það er jú einmitt hún, sjálf ástin, sem er aðalmálið. Hana sýnum við einna best með faðmlögum (nema þú elskir rósir, það er bara ekki skynsamlegt að faðma rósarunna), nærveru, virðingu og einfaldlega að gefa okkur tíma fyrir sjálfa ástina. Það er eitthvað sem ég legg mikla áherslu á í mínu lífi. Alltaf þegar makinn leggur til að við förum saman í bíó eða út að borða, gríp ég einfaldlega til orðanna: „ekki núna elskan mín, ég er upptekinn við að rækta ástina“.  Ef við erum dugleg að leggja rækt við hana, ekki síður en hænur (alltaf skulu kjúklingabúin koma best útúr þessu…) dettum við kannski í lukkupottinn og „ástin dugir að eilífu“ eins og sungið var um árið.

(Grein þessi var sett hér inn í tilefni þess að árlegur erlendur siður sem hyllir Rudolph Valentino á sér stað um þessar mundir. Ekki er mælt með að taka orðin sem hér hafa verið rituð of alvarlega, nema að læknisráði.)
Fallið hjarta.
Mynd: Kristján Friðbertsson
Posted on

Ræktar þú eik á Íslandi?

Dalaeik (Q. lobata) í Kaliforníu. Mynd: Ger Erickson
Dalaeik (Quercus lobata) í Kaliforníu.
Mynd: Ger Erickson
Akörn af rauðeik (Q. rubra) í vatnsbaði. Takið eftir að þau sem líklega eru ónýt, fljóta.
Mynd: Kristján Friðbertsson
Akörn af rauðeik (Q. rubra) í vatnsbaði. Takið eftir að þau sem líklega eru ónýt, fljóta.
Mynd: Kristján Friðbertsson
Nærmynd af akarni rauðeikar (Q. rubra) sem hefur verið opnað til að sýna innihaldið.
Mynd: Kristján  Friðbertsson
Nærmynd af akarni rauðeikar (Q. rubra) sem hefur verið opnað til að sýna innihaldið.
Mynd: Kristján Friðbertsson
Nærmynd af innihaldi akarns sem flaut. Bersýnt er að það hefur uppþornað og er einskis að vænta úr slíku. Til samanburðar er einnig á myndinni hálfopið akarn úr sama hópi, sem sökk. Heilbrigt fóstur og allt sem fylgir, fyllir þarna nánast alveg út í skelina. Rauðeik (Q. rubra). 
Mynd: Kristján Friðbertsson
Nærmynd af innihaldi akarns sem flaut. Bersýnt er að það hefur uppþornað og er einskis að vænta úr slíku. Til samanburðar er einnig á myndinni hálfopið akarn úr sama hópi, sem sökk. Heilbrigt fóstur og allt sem fylgir, fyllir þarna nánast alveg út í skelina. Rauðeik (Q. rubra).
Mynd: Kristján Friðbertsson
Þó þeir verji akarnið, geta þeir haft áhrif á það hvort akörnin fljóta eða sökkva og geta falið annars sýnileg vandamál. Algengt er að sjá töluvert betri spírun úr akörnum þar sem hattarnir hafa verið fjarlægðir. Það er því talið skynsamlegt að fjarlægja þá.
Mynd: Kristján Friðbertsson
Akörn af fjaðureik (Q. macrocarpa) sýna vel hversu mikið „hattarnir“ geta hulið akörnin. Þó þeir verji akarnið, geta þeir haft áhrif á það hvort akörnin fljóta eða sökkva og geta falið annars sýnileg vandamál. Algengt er að sjá töluvert betri spírun úr akörnum þar sem hattarnir hafa verið fjarlægðir. Það er því talið skynsamlegt að fjarlægja þá.
Mynd: Kristján Friðbertsson
Ungar plöntur af fjaðureik (Q. macrocarpa) sýna oft fallega haustliti. Margar eikartegundir eru þó að mestu lausar við haustliti, nema fyrstu árin. Í þeim tilfellum er það oft talið tengjast því að ung tré framleiða sykrur mun lengur frameftir hausti, en vaxa með árunum útúr þeirri hegðun og minnkar þá haustlitadýrðin samhliða því.
Mynd: Kadin Bieberich
Ungar plöntur af fjaðureik (Q. macrocarpa) sýna oft fallega haustliti. Margar eikartegundir eru þó að mestu lausar við haustliti, nema fyrstu árin. Í þeim tilfellum er það oft talið tengjast því að ung tré framleiða sykrur mun lengur frameftir hausti, en vaxa með árunum útúr þeirri hegðun og minnkar þá haustlitadýrðin samhliða því.
Mynd: Kadin Bieberich
Hér sjáum við akarn af skarlatseik (Q. coccinea) sem flaut. Í þessu tilfelli var það ekki ofþornað, heldur hafði greinilega rotnað.
Mynd: Kristján Friðbertsson
Hér sjáum við akarn af skarlatseik (Q. coccinea) sem flaut. Í þessu tilfelli var það ekki ofþornað, heldur hafði greinilega rotnað.
Mynd: Kristján Friðbertsson
Skarlatseik (Q. coccinea) er ein þeirra eikartegunda sem sýna hvað fegurstu haustlitina. 
Mynd: Gilbert Buscaglia
Skarlatseik (Q. coccinea) er ein þeirra eikartegunda sem sýna hvað fegurstu haustlitina.
Mynd: Gilbert Buscaglia
Þessi sumareik (Q. robur) dvelur í garði í Reykjavík. Sáð var fyrir henni þar úr ensku akarni, árið 1986. 
Mynd: Sigrún Ása Sturludóttir
Þessi sumareik (Q. robur) dvelur í garði í Reykjavík. Sáð var fyrir henni þar úr ensku akarni, árið 1986 og var hún um 4m há 2021.
Mynd: Sigrún Ása Sturludóttir
Í Borgarfirði má finna sumareik (Q. robur) sem keypt var árið 1994, þá 50cm há. Sú var reglulega nöguð niður af sauðfé, en náði sér á strik. Sumarið 2021 myndaði hún sín eigin akörn, eins og sjá má á þessari mynd sem tekin var þann 25.ágúst. Ekki er þó reiknað með að akörnin hafi náð að þroskast.
Mynd: Sigrún Ása Sturludóttir
Í Borgarfirði má finna sumareik (Q. robur) sem keypt var árið 1994, þá 50cm há. Sú var reglulega nöguð niður af sauðfé, en náði sér á strik. Sumarið 2021 myndaði hún sín eigin akörn, eins og sjá má á þessari mynd sem tekin var þann 25.ágúst. Ekki er þó reiknað með að akörnin hafi náð að þroskast.
Mynd: Sigrún Ása Sturludóttir
Á söndum Rangárvalla má finna nokkrar sumareikur (Q. robur) sem sáð var fyrir ca 2015 undir plasti, með akörnum frá Stokkhólmi. Plantað út í ca 30cm hæð. 
Mynd: Benedikt Benediktsson
Á söndum Rangárvalla má finna nokkrar sumareikur (Q. robur) sem sáð var fyrir ca 2015 undir plasti, með akörnum frá Stokkhólmi. Plantað út í ca 30cm hæð.
Mynd: Benedikt Benediktsson
Sumareik á sínu fyrsta sumri í rýrum lyngmóa, í innsveitum Skagafjarðar. Tekur sig vel út innan um fjalldrapa, kornsúrur og berjalyng, en ef allt gengur vel, vex hún með tímanum þeim vel yfir höfuð.
Mynd: Höskuldur Þórhallsson
Sumareik á sínu fyrsta sumri í rýrum lyngmóa, í innsveitum Skagafjarðar. Tekur sig vel út innan um fjalldrapa, kornsúrur og berjalyng, en ef allt gengur vel, vex hún með tímanum þeim vel yfir höfuð.
Mynd: Höskuldur Þórhallsson
Hér fer ekkert á milli mála (að hausti til) hverjar þessara eru rauðeik (Q. rubra).
Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson
Hér fer ekkert á milli mála (að hausti til) hverjar þessara eru rauðeik (Q. rubra).
Mynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Nokkrir punktar um ræktun á eik við íslenskar aðstæður

Rétt er að taka fram að m.a. Aðalsteinn Sigurgeirsson hjá Skógræktinni, meðlimir Trjáræktarklúbbsins, ásamt ýmsum ársritum G.Í. eiga heiðurinn, beint og óbeint, af sumu því sem hér kemur fram. Eins er öllum þeim sem aðstoðuðu við upplýsingaleit, sem og þeim sem leyfðu myndbirtingar kærlega þakkað fyrir.

Upphafið

Áskotnist þér akarn, sem líf innan hnotu geymir, þarf strax að hafa nokkra hluti í huga. Lífið sem um ræðir, er í formi fósturs, sem allajafna deyr við of mikinn þurrk. Sama getur gerst við of mikið frost, sem og alltof háan hita, auk þess að geta myglað standi þau of lengi í blautum vatnspolli. Þetta er semsagt óvenju viðkvæmt fræ, af trjáfræi að vera. Það er skammlíft og geymist illa. Svipað á við um beyki (enda náskylt) og ýmsar aðrar hnotur og stór fræ. Fræin virðast kannski sumum sérlega sterk að sjá, en það sem inni býr er afar viðkvæmt. Innlent fræ af þessum tegundum er ekki til. Erlent fræ tekur tíma að komast til landsins og getur lent í mjög óhagstæðum aðstæðum á leiðinni, sem geta t.d. þurrkað það upp eða látið það spíra og skemmast. Lykilatriði er því alltaf að koma því sem fyrst í mold, eða sambærilegar aðstæður.

Sé ennþá eitthvað áfast, svosem greinarbútur, lauf eða „hatturinn“ sem hélt akarninu hangandi, er best að fjarlægja það. Keypt fræ er oftast laust við viðbótar rusl, en þó tíðkast stundum að selja þau ódýrar enn með hattinn á. Hatturinn getur þó hindrað spírun ef hann er fastur á og orsakað mjög lágt spírunarhlutfall. Mygla getur komið utan á akarnið og hana er best að þrífa af strax. Hafi það spírað og spíran byrjuð að þorna eða rotna er ekki endilega öll nótt úti, því í sumum tilfellum getur fóstrið náð að senda út nýja spíru. Hafi maður einungis örfá akörn, er um að gera að prófa að setja þessi niður einnig upp á von og óvon. Hafi maður mikið magn, er hins vegar einfaldast að henda þessum strax.

Akarnið þarf helst að skola vel, svo það sé síður líklegt að bera með sér eitthvað óvænt t.d. í jarðvegsryki sem kann að vera utan á því. Gott er að setja það svo í skál með vatni á stofuhita í ca sólarhring. Þetta er raunar algengt með öll stærri trjáfræ. Vatnsbaðið hjálpar til við að ná upp rakatapi. Þegar komið er að því að taka það úr vatnsbaðinu, er almennt hægt að reikna með að þau sem hafa sokkið séu í heilu lagi og góð og gild, en þau sem fljóti enn séu líklega ónýt. Í sumum tilfellum geta fljótandi akörn samt spírað, t.d. er það nokkuð algengt með fjaðureik (Q. macrocarpa). Að öllu jöfnu eru þau þó fjarlægð. Þessi stóru fræ er gott að hafa ekki lengur í vatnsbaði en sólarhringinn, til að auka ekki að óþörfu mygluhættu.

Þessi fljótandi gætu jafnvel hafa orðið einhverju kvikindi að bráð, sem við viljum ekki fá í ræktunina okkar, svo það er ekki verra að opna skelina varlega og farga slíku, eða setja ónýtu akörnin í sjóðandi vatn eða heitan ofn til að ganga af mögulegu lífi dauðu. Líkurnar á því að akörn séu skemmd, beri með sér pöddur eða sýkingar aukast mjög hratt með hverjum deginum sem akarnið liggur á jörðu. Því skal forðast að safna akörnum sem legið hafa lengi og forðast öll akörn sem hafa á sér göt. Samasem merki er oft á milli þess að gat sé á akarni og að það sé ónýtt. Lítið kringlótt gat, er líklegast til að vera eftir litlar bjöllulirfur. Engan langar að bæta í skaðvaldaflóruna hér á landi. Ef þið eruð á annað borð að taka með ykkur akörn að utan skal að lágmarki passa að skoða þau vel og vandlega, taka bara þau sem best líta út og hreinsa þau vel og vandlega strax, áður en heim er komið. Eins er alltaf mælt með að kynna sér gildandi reglur og löggjöf hverju sinni, varðandi söfnun og innflutning á fræi og að sjálfsögðu að fara eftir þeim jafnt í hinu erlenda landi, sem og við heimkomu, okkur öllum til heilla.

Hvað svo?

Sumir setja akörnin þvínæst í ísskápinn, í plastpoka með smávegis af blautum eldhúspappír og fylgjast með þeim þar. Þá er hægt að taka jafnóðum þau akörn sem byrja að spíra og setja þau í pott. Þannig er hægt að vera viss um að einungis spírandi akörn fari í pottana. Ekki þurfa þó öll akörn kuldameðhöndlun til að spíra og sum geta spírað við mjög lágan hita. Því er kuldameðhöndlun í ísskáp oftast óþörf með þessi fræ, nema þá helst ef ekki er hægt að koma þeim strax í mold. Eins má þá ekki tefjast að taka akörnin þegar þau byrja að spíra, því annars er hætt við að rótin fari að rotna og fylgjast þarf með myglu og þrífa hana burt ef hún fer að myndast.

Eikur senda fyrst út rótina og koma henni fyrir, áður en þau senda út stilkinn sem vex ofanjarðar. Þessi rót vill fara nokkuð djúpt. Algengt er að akörn sendi niður stólparót sem er á milli 20-30cm að lengd. Sé rótin lengri en sem nemur dýpt ræktunaríláts, fer hún að vaxa í boga eða hring. Þegar um ræðir stólparót, er það slæmt. Slíkt getur valdið vandræðum síðarmeir og jafnvel drepið tréð óvænt mörgum árum, jafnvel fáeinum áratugum, síðar. Við viljum því fyrir alla muni forðast slíkt.

Því er mælt með að nota ekki sáðbakka, eða grunna potta, þegar eikur eru ræktaðar. Sé hins vegar enginn annar kostur í boði en að sá í grunna potta eða sáðbakka, þarf að koma þeim strax á fyrsta sumri mjög varlega hvert í sinn (dýpri) pott. Dýptin ætti ekki að vera undir 20cm. Stundum er hægt að fá 1L og 2L rósapotta í heppilegri dýpt, en einnig geta t.d. 1L mjólkurfernur dugað til. Snúningsrót getur einnig komið upp ef plantan er of lengi í sama pottinum og því er oft ráðlegt að skipta upp um pottastærð árlega. Nota skal þann jarðveg sem í boði er, en ágætt ef hann er ekki of þéttur. Almennt séð er loftrík mold nauðsynleg fyrir spírun fræja.

Hér er rétt að staldra aðeins við og taka smá hliðarspor.
Sé ætlunin að nýta plöntuna t.d. í tengslum við bonsai ræktun, er klippt strax á stólparótina. Raunar eru sumir þeirrar skoðunar að sé ekki ætlunin að setja eikina mjög fljótlega niður í jörð, sé hreinlega betra að klippa á stólparótina. Stytta hana, sumsé. Notast svo frekar við ekki eins djúpa potta og passa frekar að þeir séu breiðir. Hugsunin er sú að stólparótin hjálpi ungri plöntu fyrstu 2 árin, ef hún fer beint í jörð. Verði plantan þennan sama tíma, jafnvel lengur, í umönnun sé hvort eð er passað nægilega upp á vökvun og næringu. Eftir þessi 2 ár sé stólparótin ekki lengur eins mikilvæg aðstoð fyrir plöntuna og getur hreinlega orðið til vandræða, sbr ef hún fer að vaxa í hring o.þ.h. auk þess sem að hún gerir trjáplöntuna viðkvæmari fyrir raski. Með því að stytta hana snemma, verður hún síður til vandræða og plantan setur aukinn kraft í að mynda hliðarrætur í staðinn. Vilji fólk taka þetta alla leið, er plantan alin upp ýmist í svokölluðum „air pruning“ pottum, eða þartilgerðum beðum.

Akörn eru vanalega sett liggjandi rétt undir moldaryfirborðið í ræktunarpotti. Hægt er að setja þau 1-2cm dýpra til að verja þau örlítið betur frosti og vindum, eða hafa þau ofan á moldinni ef potturinn er þegar á vel vörðum og músaheldnum stað. Kosturinn við að hafa þau ofan á moldinni, þar sem hægt er, er m.a. að þá er hægt að sjá glytta í rótarspíruna til staðfestingar þess að spírun sé hafin, auk þess að þá getur rótin notað alla dýpt pottsins.

Best er að setja akörnin beint í mold strax að hausti. Geyma pottana á svölum en frostlausum (og músaheldnum!) stað. Leyfa þeim svo að spíra á eðlilegum tíma þegar nær dregur vori. Sé það ekki í boði, er hægt að leyfa pottinum að standa inni við stofuhita, en þá þarf að passa að plantan fái nægt sólarljós þegar hún byrjar að gægjast uppúr jarðveginum. Í báðum tilfellum þarf að passa að halda moldinni rakri allan tímann. Passið ykkur sérstaklega á því að rök mold er alls ekki það sama og blaut mold. Þó fræin þurfi raka, geta þau myglað liggi þau of lengi í bleytu. Umhleypingasamur íslenskur vetur getur valdið vandræðum hér, ekki bara að akörnin liggi þá lengi í vetrarblautum jarðvegi, heldur geta akörn byrjað að spíra í hlýindaskeiði að vetri. Í sumum tilfellum getur hart frost í framhaldinu farið illa með þau og jafnvel drepið plöntuna. Akörn í mold þola flest eitthvað vægt frost til skamms tíma, en áskjósanlegast er að þau séu á frostlausum stað í upphafi.

Rétt er að setja smá fyrirvara hér, því akörn mismunandi eikartegunda geta haft aðeins breytilegar kröfur. Sumar vilja helst spíra strax að hausti ef þær geta, á meðan aðrar vilja ekki spíra fyrr en næsta vor, eftir kuldatímabil. Eins er ágætt að setja 2-3 akörn sömu tegundar saman í pott, því alls óvíst er að þau muni öll spíra. Ef fleiri en eitt spíra í sama potti, er fínt að leyfa þeim að koma sér fyrir fyrsta árið þannig, en skipta þeim í sitt hvorn pottinn vorið eftir.

Fyrstu árin

„Fyrsta sumarið þarf að gæta vel að vökvun (að ungu plönturnar þorni ekki) og öðru hvoru að sjá þeim fyrir næringarefnum með því að vökva með áburðarblöndu. Eikur eru, líkt og flestar trjátegundir, háðar sambýli við svepprótartegundir sem efla þrótt og bæta lífslíkur þeirra á foldu. Þær svepprætur eru gjarnan sérhæfðar að eik og eru þær tegundir sveppróta óalgengar í íslenskri náttúru (enda eikur hér sjaldséðar). Á Mógilsá vaxa nú víða eikur sem sáð var til haustið 2013 og gróðursettar á árunum 2016-17. Þær plöntur voru allar smitaðar með svepprót á gróðrarstöðvarstigi. Vilji fólk tryggja svepprotarsmit eikanna sinna, er velkomið að sækja sér smit í jarðveginum næst þessum plöntum.

Reynslan sýnir hérlendis, að eikum er mjög hætt við rótarkali að vetri ef plöntur eru látnar standa úti í pottum, berskjaldaðar fyrir frosti. Til að draga úr líkunum á slíku rótarkali, eru eikurnar best geymdar yfir veturinn í köldu og frostfríu gróðurhúsi. Ef sá kostur er ekki fyrir hendi, er betra að taka eikurnar úr pottunum tímabundið og gróðursetja í skjólgóðum garði. Enn betri aðferð við yfirvetrun er að grafa grunna gröf (0,5 m djúpa), leggja plönturnar láréttar í „gröfina“, þekja þær með dagblöðum og síðan jarðvegi. Að vori, þegar frosthættan er liðin í maímánuði og frost farið úr jörðu, þarf að taka upp plönturnar og færa aftur í pottana.“  (Aðalsteinn Sigurgeirsson)

Staðarval

„Þegar eikarplantna er orðin 2-3 ára frá sáningu, er óhætt að gróðursetja hana á varanlegan ræktunarstað. Eikur eru nægjusamar og þurfa ekki vildarland, frjósaman jarðveg né mikið skjól. Sjálfur hefi ég gróðursett eik á örfoka sand og á gróðursnauða mela á Suður- og Suðvesturlandi og eru flestar þær eikur enn við sæmilega heilsu, fimm árum síðar, þó vöxturinn sé enn hægur. Vöxturinn verður engu að síður betri ef fyrir hendi er eitthvert skjól, t.d. af mannhæðarháu birki eða víðiskjólbeltum. Eikur eru fremur ljóskrefjandi og þola illa að vaxa í skugga annarra trjátegunda. Í öllum löndum þar sem eik er ræktuð er reynslan sú, að eikarskógrækt er þolinmæðisverk. Eikur fara sér hægt fyrstu áratugina, en verða gömul og stórvaxin.“ (Aðalsteinn Sigurgeirsson)

Eikur á Íslandi

Eikartré finnast víða um heim, enda á milli 400-600 tegundir (eftir því hvaða skilgreiningar eru notaðar) sem aðlagaðar eru að hinum ýmsu aðstæðum. Nefna má rauðeik (Q. rubra) og skarlatseik (Q. coccinea) sem 2 dæmi um eikur með sérlega fallega haustliti. Margar eikartegundir eru þó að mestu lausar við haustliti, nema mögulega fyrstu árin, en sumar hanga á laufunum langt frameftir vetri og aðrar eru jafnvel sígrænar.

Mesta tegundafjölbreytni af eik er að finna í Norður-Ameríku og innan hennar sérstaklega í Mexíkó. Þrátt fyrir allan þennan fjölda og þann mikla fjölbreytileika sem þar finnst, eru ekki margar tegundir sem sýnt hafa fram á að þær geti vaxið hér. Kannski ekki að furða, þar sem eikur kjósa oftast hlý sumur, en hér á Íslandi erum við nokkuð sér á báti með okkar stuttu og köldu sumur.

Talandi um aðlögun, það er ekki bara tegundin sem skiptir máli, heldur hver uppruninn er lengra aftur í tímann.  Til einföldunar má segja að akörn af eikum sem vaxið hafa kynslóð eftir kynslóð á köldum svæðum, séu líklegri til að standa sig betur hér á landi en þau sem safnað var á hitabeltisslóðum. Akörn upprunnin frá Kanada eða nyrðstu hlutum Bandaríkjanna, Finnlandi og Noregi hafa gefið ágæta raun, en ekki skal þó útiloka akörn upprunnin sunnar.

Meðal tegunda sem hefur eitthvað að ráði verið reynt við að rækta úr akörnum undanfarin ár má nefna Q. robur (sumareik/stilkeik), Q. petraea (vetrareik), Q. rubra (rauðeik) og Q. macrocarpa (fjaðureik). Hefur árangur verið ansi misjafn og algengara er að illa gangi en vel, en helsti samnefnarinn þó að allt gengur þetta afar hægt. Mesta reynslan er komin á sumareikina, en af einhverjum ástæðum gengur vetrareikin mun verr. Fjaðureikin er nýlega byrjuð að rata í prófanir svo vitað sé, en lofar góðu hingað til. Rauðeikin er svo þessara tegunda viðkvæmust og þarf því öllu betra skjól og hlýju en hinar. Það er því rétt að minna fólk á að hér er um að ræða langtíma verkefni og rétt að búast við afföllum, en vonandi upplifa barnabörnin dag einn stórar og fallegar eikur á Íslandi. Enda er nú verið að gróðursetja eikur í meira magni en áður, um land allt, jafnt í görðum sem skógum, söndum sem lyngmóum.

Í Reykjavík finnst amk ein eik sem heldur upp á hálfrar aldar afmæli þetta árið (2022). Akarnið kom frá Svíþjóð og mældist eikin 8,6m árið 2020, hafandi þá hækkað um 2,3m síðan 2009. Þegar þetta er skrifað telst hún hæsta eik Íslands. Ekki mikið yngri er eik að Hafnarstræti, Akureyri, sem var komin á sjöunda meter í kringum fertugsafmælið. Spennandi verður að fylgjast með þessum eikum áfram næstu árhundruð.

Rétt er að nefna skrif Sigurðar Þórðarsonar í Skógræktarritið. Hann hefur verið að skrá hæð hinna ýmsu eikartrjáa á landinu og vill eflaust heyra frá ykkur, ef þið eruð með eik sem farin er að ná einhverri hæð. Mælingin á hæstu eik landsins er einmitt frá honum kominn. Sjálfur er hann með 26 ára gamla danska sumareik sem dafnar vel í garði hans á höfuðborgarsvæðinu, en pólskar eikur nokkrum árum yngri áttu skv honum mun erfiðara uppdráttar þar til nýlega.

Muninn á því hvaðan akörnin eru ættuð hef ég einnig séð í sumareikum sem ég ræktaði og ættaðar eru frá Ungverjalandi. Þeim líður ágætlega og kal er ekki mikið, en þær haldast afar smávaxnar enn, þrátt fyrir að vera um 10 ára að aldri. Að því sögðu, þá óx eikin fimmtuga lítið sem ekkert fyrstu 10 árin, en sumarin 1972-1982 voru nú líklega heldur kaldari en 2011-2021.

Beinsáning og innfluttar plöntur

Undanfarin ár hefur eitthvað verið um það að innfluttar eikur hafi sést í gróðrarstöðvum og plöntusölum. Hefur þar helst verið um að ræða svokallaða sumareik (Quercus robur), oft frá danmörku. Við réttar aðstæður virðist hún ganga ágætlega og reikna má með að jarðvegurinn sem þeim fylgir sé þegar smitaður af hjálplegri svepprót, sem gagnast getur einnig öðrum eikum. Gróðrarstöðvar hafa þó einnig verið að rækta sjálfar upp af akörnum og hefur t.d. Nátthagi verið duglegur að rækta úr akörnum frá Noregi. Tvær eikur þaðan voru gróðursettar á Skógarströnd árið 2005, þá 75cm háar og hafa dafnað vel síðan, komnar um og yfir 3,5m. Þær eru síður en svo einsdæmi.

Í rýran lyngmóa í innsveitum Skagafjarðar sáði Höskuldur Þórhallsson nokkrum akörnum frá Uppsölum í Svíþjóð haustið 2020. Færðust afkvæmin því um 6 breiddargráður frá móðurtrénu, úr 59 gráðum í 65 gráður Norður. Upplifa líklega ekki svo ósvipaðan vetur á báðum stöðum, þótt mikill munur sé hvað sumarhita varðar.

Sumarið 2021 var svo 4 plöntur af sumareik að finna, sem sprottið höfðu úr akörnum þessum (sjá mynd). Sem betur fer hefur það landsvæði verið friðað fyrir beit síðan 2007 og gætu þessar ungplöntur því átt ágætis möguleika á að koma sér fyrir. Dæmi m.a. einmitt af Norðurlandi og Vesturlandi hafa sýnt að erfitt er að rækta upp eik þar sem sauðfé er annars vegar. Það nagar ungplönturnar niður í rót og þær einfaldlega drepast. Raunar geta kanínur einnig verið skaðvaldar í eikarræktun og rétt að hafa dýralífið í huga þegar gróðursett er, jafnt við staðarval, sem og mögulegar varnir.

Annað sem þarf að hafa í huga, er að setja akörnin ekki á svo þurran stað að þau þorni auðveldlega yfir veturinn, eða svo kaldan stað að frostið gangi af þeim dauðum. Auðvitað geta vorfrost líka valdið vandræðum. Hreinn Óskarsson hefur reynt sáningu á eik beint í gamla foksanda á Rangárvöllum. Skemmst er frá því að segja að það gekk einfaldlega ekki upp. Bæði árin sem þetta var reynt, voru sérlega köld vor á svæðinu, sem hefur þá mögulega haft áhrif, en eins getur einfaldlega verið að akörnin (eða spírurnar úr þeim) hafi hreinlega þornað eða lent í of miklu frosti yfir veturinn. 5 stiga frost er oft nefnt sem viðmið fyrir frostþol ýmissa akarna, en því til viðbótar kemur svo einangrunargildi jarðvegs. Sandurinn telst þó ekki einangrandi og kólnar því mun meira og hraðar grunnt undir sandinum, en grunnt undir garðmold. Garðmoldin hefur því virkað betur fyrir hann og haldið betur bæði hita og raka, því í garði á Selfossi tókst honum að fá nokkrar eikur úr beinsáningu haustið 2018, sem lifa enn.

Hreinn varpaði því fram að mögulega myndi ganga betur á söndunum, með því að setja sæmilega þykkt heymoð yfir akörnin og væri áhugavert ef slíkt verður síðar reynt. Eins benti hann á varðandi músagang, að skv sænsku doktorsverkefni er minkaskítur áhrifaríkasta músafælan þegar kemur að akörnum. Komist einhver yfir slíkt, er því vel þess virði að dreifa slíku þegar akörnum er sáð.

Íslensk akörn

Ekki er komið að því enn að við getum ræktað eikartré úr akörnum sem við söfnum hér á landi, en kannski er þess ekki svo langt að bíða. Sumareik í Borgarfirði myndaði aldinvísa haustið 2021, þó svo þeir hafi líklega ekki náð að þroskast. Reyndar er því ekki sé einu sinni vitað hvort um raunverulega frjóvgun hafi verið að ræða, eða geld aldin sem hefði því ekkert orðið úr. Sama saga á sér stað víðar á landinu og eftir því sem meira er plantað, aukast líkurnar á því að eftir eitt gott og langt sumar í náinni framtíð, getum við gengið um og týnt akörn af íslenskum eikum.

Með því að vera dugleg að prófa sífellt, en skynsamlega, nýjar tegundir á nýjum stöðum eða með annan uppruna, aukast líkurnar á að vel gangi á endanum. Það á auðvitað við um eikur eins og aðrar plöntur. Sé upplýsingum um þessar prófanir okkar haldið til haga, lærum við af þeim og finnum líka vonandi heppilegasta fræupprunann með tímanum. Sérstaklega nytsamlegt er að halda utan um helstu atriði, svosem uppruna akarna/plantna og þau atriði sem gætu hafa verið frábrugðin, varðandi meðhöndlun eða ræktun plöntunnar. Með því að vera dugleg að deila upplýsingum með hvort öðru, t.d. með skrifum í garðyrkju og skógræktarrit, eða jafnvel bara á facebook síðu Trjáræktarklúbbsins og álíka, skráist líka þekking sem hægt er að leita til síðar.

Frekari Fróðleikur

https://www.bbl.is/frettir/fraedsluhornid/nu-eiga-eikur-leikinn

http://www.euforgen.org/species/quercus-robur

https://www.kjarnaskogur.is/post/eikurnar-a-akureyri

https://www.skogur.is/is/nyskograekt/trjategundir-og-trjaheilsa/lauftre/eikartegundir

https://www.woodlandtrust.org.uk/trees-woods-and-wildlife/british-trees/oak-tree-wildlife/

Nokkrar frægar eikur:

https://en.wikipedia.org/wiki/Emancipation_Oak

https://en.wikipedia.org/wiki/Bowthorpe_Oak

https://en.wikipedia.org/wiki/Seven_Sisters_Oak

Posted on

Hefur þú séð apann í Japan? (Hluti 4 af 4)

Stiklur úr japanskri menningu

Mynd: Harald Schaller

 

Í fyrri hlutum höfum við fjallað m.a. um mismunandi tegundir japanskra garða, ásamt plöntum o.fl. sem þar leynast. Ýmislegt má finna í menningu japanskrar þjóðar, sem hefur ratað yfir í garðmenninguna. Sumt sem finnst í görðum í dag er einfalt skraut á meðan annað hefur dýpri merkingu eða sögu bakvið sig. Nefnum því örfá atriði hér til glöggvunar fyrir áhugasama.

Tsukubai – handlaugin.
Handlaug úr steini er nauðsyn við helga staði líkt og búddahof, en ekki síður í hefðbundnum te görðum. (Þar eru bæði garðurinn og teið hefðbundið). Tilgangurinn er hreinsunar ritúal. Nútíma útgáfan er líklega sprittbrúsi úr plasti við innganginn, en þar hefur ekki alveg sama sjarmann.

Tome Ishi / Sekimori ishi – hinn bundni steinn.
Sjáir þú bundin stein liggjandi á stiklu eða gangvegi, er það merki um að hér skuli ekki fara. Í tegarði getur þetta þýtt að prívat te athöfn sé í gangi sem ekki megi trufla. Í garði með hvíldar og hugleiðslurými þýðir þetta á svipaðan hátt að rýmið sé upptekið. Í öðrum tilfellum getur þetta þýtt hinar ýmsu útgáfur af „ekki koma hingað“, „lokað“, „óviðkomandi aðgangur bannaður“, og öðrum álíka skilaboðum. Fyrir vikið er einnig hægt að nota þá til að vísa gestum veginn, einfaldlega með því að setja slíka steina á hvern þann nýja stíg sem hægt væri að fara, sem ekki á að fylgja.

Japanese stone lantern (toro) – ljóskerið.
Ljóskerin fundu sér leið úr búddískum hofum í heimilisgarða fyrir meira en þúsund árum og geta verið úr málmi, steini eða tré. Í kringum 16. öldina fóru þau að vera nokkuð algeng í sérstökum viðhafnar görðum fyrir te drykkju, en voru þá komin í eins konar skraut hlutverk. Slíku hlutverki sinna þau enn í dag og sjást oft nærri stígum, vatni eða byggingum.

Ljósker í garði Derek Mundell í Kópavogi og Kyoto Garden í London. Mynd: Kristján Friðbertsson

 

Shimenawa – hið helga reipi.
Slíkt getur táknað helgan stað, eða verið sett upp til að halda illum öndum burt. Engum sögum fer þó af því hvort sérstök reipi eru notuð fyrir álftir og gæsir einnig, eða bara fyrir illar endur. Bundið utan um tré eða jafnvel stein, er það merki um að hinn bundni hlutur innihaldi anda og er ýmist þar til að halda þeim bundnum inni, eða sem viðvörun til annarra að fara varlega. Að fella slíkt tré er talið færa viðkomandi afar mikla ógæfu.

Shishiodoshi – dýrafælan.
Ein tegund dýrafælu Í japönskum görðum nefnist Sozu og er vatnsknúin. Bambusrör hleypir hægt rennandi vatni í gegnum sig. Vatnið lendir á öðru bambusröri og fyllir það nægilega til að færa þyngdarpunktinn, svo rörið skelli niður á stein, tæmist af vatninu og myndi hljóð. Hljóðið rýfur þögnina í friðsælum garði, en er til þess gert að fæla burt hin ýmsu jórturdýr sem gætu viljað naga gróðurinn. Sozu fylgir oft japönsku þema í görðum, óháð því hvort það er í notkun eða ekki.

Jizo – verndarinn.
Jizo er guðleg vera, oftast í formi munks, í búddískum kenningum Austur-Asíu og raunar einnig Daóisma. Íbúar hins neðra eru á hans ábyrgðarsviði og þó hann eigi það til að draga fólk á hárinu upp úr pottum helvítis, ef það átti ekkert erindi þangað, er hann almennt séð álitinn frekar ógnvekjandi. Í Japan tíðkaðist sem dæmi að leggja konur ávallt til hinstu hvílu með sítt hár, svo Jizo gæti nú dregið þær upp á hárinu, ef þær skyldu óvart lenda í áðurnefndum pottum.

Japönum leist nú ekki nógu vel á svona ógnvekjandi veru og því breyttist Jizo aðeins í japanskri menningu. Þar launar hann alltaf greiðann, þeim sem koma vel fram við hann og varð sérstakur verndari barna og ferðalanga. Ófædd börn á ferðalagi til lífs, sem og sálir barna sem andast á undan foreldrum sínum, eru einnig á hans sviði. Fyrir vikið má oft sjá styttur af Jizo í barnaklæðum, eða með slík klæði og leikföng, jafnvel sælgæti sér við hlið. Af því hann launar alltaf greiðann, er fólk duglegt að færa honum litlar fórnir, börnum til verndar. Einnig sést hann oft með rauð klæði, en rauður litur ver gegn illum öflum, í Japanskri menningu.

 

Mynd: Harald Schaller
Mynd: Harald Schaller

Japanskur Jizo er því friðsæll, góður, hugulsamur, hjálpsamur og vinsæll. Hann getur verið táknaður á ýmsan máta, en á nýlegri japönskum myndum og styttum er hann oftast frekar lítill og krúttlegur. Sem gerir hann auðvitað bara að enn betri viðbót í japanska garðinn.

Dr. Gunnellu Þorgeirsdóttur eru færðar þakkir fyrir aðstoðina. Harald Schaller (www.instagram.com/jadzia79) eru færðar þakkir fyrir að leyfa afnot af myndum sínum, en af myndunum að ofan eru einungis ljóskersmyndirnar höfundar. Fyrri tekin í garði Derek Mundell í Kópavogi, síðari í Kyoto Garden, London.

Vonandi hafið þið notið þessarar litlu fræðslu um nokkra þætti japanskra garða. Hér í lokin smellum við svo nokkrum myndum sem við vorum að spara… 😉  Mæli með að smella á hverja og eina til að sjá þær í fullri stærð – gildir reyndar um flestar myndir í þessum greinaflokki.

 

Posted on

Hefur þú séð apann í Japan? (Hluti 3 af 4)

Kúrileyjakirsið (Prunus kurilensis ‘Ruby’) blómstrar hér fyrir okkur í garði höfundar, en hægra megin er stórkostleg blanda af rauðum japanshlyn og stórbrotnu broddgreni yrki (Picea pungens ‘Glauca Pendula’) í garði Jim Singer í Washington. With great thanks to Jim Singer for providing us with this photo.

 

Í hluta 2 vorum við byrjuð að skoða plöntur í japanska garðinn. Höldum því áfram hér, en breytum aðeins til.

Hvað ef ég vil meiri trénun?

 Áðurnefndar Kúrileyjar eru upprunastaður kúrileyjakirsis (Prunus kurilensis). Af hinu ýmsa skraut- eða rósakirsi er það án nokkurs vafa kúrileyjakirsið „Ruby“ sem hefur staðið sig langbest hér á landi, þakið sínum fallega bleiku blómum á vorin. Japan er jú þekkt fyrir blómstrandi kirsi og því afar viðeigandi að hafa eitt eða fleiri í garðinum. Stærstu samplöntun þeirra hér á landi er eflaust að finna í Hljómskálagarðinum, Reykjavík. Þar var 50 trjám plantað fyrir áratug, gjöf frá Japansk-íslenska/Íslensk -japanska félaginu.

Innan sömu ættar finnum við blóðhegg, virginíuhegg og næfurhegg, sem hver um sig gefur ýmist fagra blómgun, litbrigði í laufi eða myndarlegan stofn. Í hindarætt finnum við ilmkórónu, stjörnuhrjúf og ættingja þeirra. Litirnir sem þessar plöntur sýna við blómgun eru vanalega á skalanum hvítt til bleikt. Tónar sem eiga vel við í svona görðum.

Hjartatré og brauðtré (Cercidiphyllum japonicum og C. magnificum) eru fremur stórgerð og afar falleg tré sem tengja má við þema sem þetta. Sæmilega stórvaxið hjartatré og undir því vaxandi dverghjarta eða hjartablóm gæti verið hugmynd.

Japanshlynir eru auðvitað staðalbúnaður. Hin ýmsu yrki þeirra eru helst sameinuð af einkennandi blaðfegurð og oft úr nægu að velja þar, þó ekki sé alltaf mikið flutt inn landsins. Ísland er auðvitað ekki endilega heppilegasta loftslagið fyrir þá, en í miklu skjóli hafa þeir stundum náð að dafna ansi vel. Stór kostur er hvað þeir haldast flestir smávaxnir, en auðvitað hægt að hafa þar líka áhrif með vaxtamótun. Fleiri blaðfallega valkosti með fagra haustliti er auðvitað hægt að finna í reyniættinni (Sorbus). Nokkru Sunnan við Kúrileyjar finnum við svokallaðan ‚Dodong reyni‘ (Sorbus ‚Dodong‘), sem ásamt fjallareyni (Sorbus commixta) er gríðarlega fallegt tré með dáleiðandi haustliti. Rúbínreynir er farinn að sjást víðar, koparreynir er alltaf klassískur og gulu berin á Sorbus ‚Joseph Rock‘ eru sérlega fagurt skraut. Dvergreynir, með sín fallegu bleiku ber, er heppilegur með hinu smávaxna. Endilega kynnið ykkur fjölbreytnina í ættkvíslinni.

Samsetta myndin inniheldur súrkirsiberið ‚Montmorency‘ í garði höfundar, blóðhegg í Hlíðagarði, blómstrandi skrautepli í garði í Fossvogi og næfurhegg að vetri til í Meltungu, Kópavogi. Allt úr Prunus ættkvísl nema eplið.

 

Hrekkur þú við víða af kvíða?

Ekki á maður endilega von að rekast á umfjöllun um kvíða, þegar trjátegundir eru skoðaðar. Enda var það víst prentvilla og átti ekki að standa hrökk-kvíði, heldur hrökkvíði. Ágætis planta, en passar víðir í japansgarð?

Eitthvað sérlega smávaxið eins og finnavíðir (Salix x finnmarkia), fjallavíðir (Salix arctica) og grasvíðir (Salix herbacea) gæti komið vel út í eins konar landslagi hins smáa. Með steinum, mosa, vatni og jafnvel bonsai plöntum yfir sumarið.

Loðvíðir gæti mögulega skreytt garðinn á látlausan hátt, sé honum vel viðhaldið með klippingum. Héluvíðir (S. helvetica) ásamt kirjálavíði (S. rosmarinifolia) eru áhugaverðir, en hafa lítið verið í sölu undanfarið.

Af stærri plöntunum hafa lensuvíðir og jafnvel lækjar- og körfuvíðir sumpart austurlenskt yfirbragð. Það væri því hægt að hafa þá í huga, ekki síst í kringum tjarnir o.þ.h. Þeir virðast sem betur fer sleppa ágætlega frá helstu vandamálum víðitegunda undanfarið. Sé hugsað til lensulaga laufa, mætti raunar minnast á hafþyrni. Hann hefur fagurt útlit sem gæti virkað framandi í réttu umhverfi. Kallar þó á helst til mikið rótarskota viðhald í snyrtilegum heimilisgarði. Ekki skal þó útiloka birki.

Að eilífu grænt, amen.

Sígræn tré eru sívinsæl, ekki síst í görðum sem þessum.  Lerki hefur oft mjög áhugaverðan karakter og sýnir grófan börkinn líkt og fölsuð skilríki, til að virðast eldri. Marþöll hefur einnig gríðarlega fallegan stofn þegar hún hefur náð ákveðnum aldri og ekki er greinavöxturinn og barrið síðra. Mikið er notað af furuættkvíslinni, en ekki er sjálfgefið að finna mikið tegundaúrval hér á landi. Aðgengi að nefndum yrkjum af furu, greni, þin og lerki takmarkast svo af því að ekki má flytja slík tré til landsins.

Við þurfum því að hafa í huga þegar við sjáum fallegar myndir að utan, hvernig við endursköpum fegurðina með öðrum tegundum eða mótunaraðferðum. Nú eða með því að verða okkur úti um fræ, ef plantan er annars lífvænleg hér.

Í æðislegum garði Sigríðar Óskar á Suðurlandinu má finna ansi margt úr hinu japanska þema. Stiklurnar á þessum stíg eru tréskífur og passa afar vel við þemað, ekki síður en stórir steinarnir. Hinn blómstrandi runni er Viburnum plicatum ‚Kilimanjaro‘.
Myndirnar eru Sigríðar og henni þakkað sérstaklega fyrir að leyfa afnot þeirra.

 

Dvergfura hentar oft í litla garða, en ýmsar stórgerðari tegundir finnast fyrir stærra pláss, eða til mótunar fyrir hið smáa. Lágvaxin og skriðul yrki af eini og ývið geta gefið fyllingu og þekju og fyrir hægvaxta tré má skoða balsamþin „nana“ og dverghvítgreni yrkin „Conica“ (grænt) og „Sander‘s Blue“ (blátt)

Raunar er orðið ágætis úrval af tegundum og yrkjum einis undanfarið, svo það er um að gera að skoða fjölbreytileikann þar. Gamall, stakur einir í garði getur auðveldlega verið fullkominn miðpunktur fyrir nýtt svæði með japansku ívafi.

Ég hvet áhugasama endilega til að kynna sér efnið nánar og heimsækja fagra japansgarða þegar tækifæri gefst. Í Bretlandi má finna marga japansgarða, m.a. Kyoto Garden í London, auk japansgarða í Kew Gardens. Frakkland býður t.d. upp á japansgarð í Grasagarði Efri-Bretaníu og aldargamli Clingendael garðurinn í Hollandi nýtur mikillar hylli. Í Bandaríkjunum má nefna grasagarðana í Chicago og Brooklyn, te garðinn í Golden Gate Park (San Francisco) og yndisfögru japansgarðana í  Portland og Seattle. Endilega kynnið ykkur þá nánar.

Derek Mundell og Sigríður Ósk sem tóku á móti mér í yndislegum görðum sínum fá sérstakar þakkir, sem og Dr. Gunnella Þorgeirsdóttir fyrir aðstoðina varðandi japanska menningu. Sama gildir um þá sem lánuðu myndir, svo greinin mætti verða skýrari og fallegri og aðra sem veittu hjálparhönd.  Í næsta (og síðasta) hluta tökum við smá hliðarskref og skoðum örfáa af þeim japönsku hlutum sem algengir eru í görðum með þessu þema. Einnig setjum við þar nokkrar fallegar myndir sem við geymdum fram í enda. Sem fyrr eru allar myndir höfundar, nema þar sem annað er tekið fram.

Örfá viðbótar meðmæli í lokin, en annars er um að gera að spyrja Google frænda:

 

 

Þessi mynd úr garði Jim Singer sýnir ekki bara fallegar plöntur í japönsku þema, heldur einnig hvernig fyrrum grasflötin hefur breyst í græna á sem hlykkjast um garðinn. Grasið er þar allt í senn: stígur, afmörkun beða og fagurt skreytingarform. With great thanks to Jim Singer for providing us with this photo.
Í fögrum japansgarði Derek Mundell í Kópavogi vex þetta fallega mótaða síberíulerki. Nánar um það í annarri grein. Hér sjáum við einnig litla tjörn, því vatn og endurspeglun eru jú mikilvæg.
Posted on

Hefur þú séð apann í Japan? (Hluti 2 af 4)

Gott dæmi um notkun vatns, steina og gróðurs í garði við hof í Japan. Takið eftir eyjunni. Myndina tók Harald Schaller og eru honum færðar þakkir fyrir að leyfa afnot hennar.
www.instagram.com/jadzia79

 

Í fyrsta hluta kynntumst við nokkrum tegundum japanskra garða: https://gardurinn.is/hefur-thu-sed-apann-i-japan-hluti-1-af-3/      Nú byrjum við að skoða nokkra lykilþætti sem garður með japanskt þema gæti innihaldið.

Hvernig kenni ég Garðari japönsku?

Garðari? Vorum við ekki búin með þennan brandara? Duolingo appið er heppilegt til að kynna sér nokkur japönsk orð, en viljirðu draga japönsk áhrif inn í garðinn kemur ýmislegt til greina.

Steinar:

  • Stórir steinar í garðinum gætu orðið miðpunktur og táknað fjöll eða eyjur. Steinastiklur gætu jafnvel verið eins konar eyjur í garðinum.
  • Smáir, rúnnaðir steinar eru heppilegir í uppþornaðan árfarveg.
  • Niðurbrotnir steinar, í möl eða sand, geta verið myndlíking fyrir vatn.

Vatn:

  • Er lækur, tjörn, gosbrunnur eða jafnvel fuglabað nú þegar til staðar til að vinna með?
  • Rennandi lækur og litlir fossar eru oft betri en stórgerðir gosbrunnar.
  • Tjörn með gróðri og fiskum eða smágerð kyrrstöðulaug til endurspeglunar, jafnt á umhverfinu sem og eigin tilvist. Lítill steinn sem situr á diski, fullum af vatni, getur náð fram sömu hughrifum og stórt bjarg í miðri tjörn.

Eyjar gegna stóru hlutverki. Hvort sem er raunverulegar eyjar í stóru stöðuvatni, stórir steinar í lítilli tjörn eða á sandflæmi og jafnvel litlir runnar í eyjalíki. Ekki skrýtið að eyríkið Japan tengi sterkt við eyjar í sinni hönnun og nærumhverfi. Lítill Steinn (eða) Steinarr, á diski með vatni getur verið jafn áhrifaríkt og eyjar í tjörn. Hér sækjumst við oftar eftir því smávaxna sem líkir eftir því stóra.

Virðing japana fyrir því aldna er vel þekkt, enda tengir langur aldur betur við hið eilífa flæði tímans og tilverunnar. Gömul og stór tré geta því verið góður upphafspunktur eða ákveðin miðja í japönsku þema. Gróin tré í áhugaverðu formi, með mosa og fléttuvexti eða stórt lerkitré, svo dæmi séu tekin. Gott er að skoða það sem fyrir er og ákveða útfrá hvaða miðpunkti þú vilt vinna.

Í japan er hegri tákn hreinleika og tignarlegs útlits. Hann passaði svo vel inn í Kyoto garðinn að ég var viss um að hann hefði verið hannaður þangað inn frá fyrsta degi. Lifandi var hann þó og frjáls, þar sem hann skyndilega leit í kringum sig og flögraði aðeins um. Mæli með því að hafa gamlan trjástofn í garðinum til öryggis, ef hegri skyldi mæta á svæðið. Þeir flækjast jú til landsins í einhverju magni árlega.

 

Þarf ég að panta fullt af plöntum frá Japan?

Hvað viltu í raun og veru? Hefðbundið japanskt eða bara „austurlenskt yfirbragð“? Mun algengara og einfaldara er að vilja ákveðinn framandi anda Asíu í garðinn. Horfa svo til þess hvað skapar það útlit og þau hughrif sem við sækjumst eftir. Slík nálgun er líka skynsamlegri í langflestum tilfellum, enda afar misjafnt hvað er raunhæft við okkar aðstæður. Munum bara að taka tillit til þess hve mikil vinna fylgir hverri plöntu. Helst ætti „látlaust og róandi“ að óma reglulega í huganum þegar japanskur garður er skipulagður.

Burknar finna sér oft góðan stað og gott úrval til af þeim hér undanfarið, jafnvel „japansburknar“. Japanslyng (Pieris japonica) fæst líka stundum hér á landi. Árangur hefur verið misjafn, en sé þeim gefið gott skjól geta þau staðið sig ágætlega. Ýmsar brúskur/hostur passa mjög vel.

Sérlega viðeigandi gæti verið að hafa fallega bambusplöntu vaxandi í garðinum, en nánar um það í ítarlegum greinarflokki í Garðyrkjuritinu 2021.

 

Þekjuplöntur

  • Mosi passar oft vel, en vex hann vel við þínar aðstæður og færir þér gleði?
  • Nálapúði (Azorella trifurcata) getur þakið stóra steina á sólarsvæði mjög fallega.
  • Smávaxnir steinbrjótar (t.d. roðasteinbrjótur) og smávaxnir hnoðrar (t.d. helluhnoðri).
  • Hvað með blóðberg til að blanda íslenskum og japönskum áhrifum saman?

Rósir

  • Þetta er japansgarður, ekki rósagarður…

Virkilega, engar rósir?

  • Rósir eiga seint við í hefðbundnum japansgarði, þó hægt sé að finna þær í Japan.
  • Fallegar, klassískar bóndarósir geta þá frekar passað.

Lyngrósir

  • Já, svona rósir eiga klárlega heima þarna.
  • Velja saman góða blöndu af lyngrósum og gefa þeim pláss til að verða stórar og gamlar.
  • Minni garður (eða smávaxnara þema) horfir þá frekar á dverglyngrósir. Rhododendron impeditum, urðarlyngrós, o.þ.h.
Lyngrósin Ninotschka blómstrar fallega hjá lyngrósarsnillingunum Sólveigu og Óla.

 

Fyrir mitt leyti get ég – að öllum öðrum ólöstuðum – mælt með bæði faglegri ráðgjöf og góðu úrvali af lyngrósum stórum sem smáum í Nátthaga, Ölfusi, sem dæmi. En það er eins með allar þessar plöntur: hafið í huga hvað raunverulega passar við ykkar aðstæður í garðinum. Gott er að skoða víða og leita sér ráðgjafar. Sérstaklega að sumri til er hægt að finna ágætis úrval af plöntum ef fólk leggur á sig að leita. Þó auðvitað sé það misauðvelt eftir búsetu.

Í næsta hluta skoðum við svo enn feiri plöntur, sérstaklega tré.

(Allar myndir eru höfundar, nema þar sem annað er tekið fram.)

 

 

Posted on

Hefur þú séð apann í Japan? (Hluti 1 af 4)

Prímatarnir með hvað nyrsta búsetu í heiminum eru snjóaparnir í Japan. Við undanskiljum mannskepnuna auðvitað. Þeir kuldasæknustu finnast við 41. Norðlæga breiddargráðu. Lítið eitt Suð-Vestan við Kúrileyjar, Austan við Vladivostok og nyrsta hluta N-Kóreu. Kunnuglegar slóðir fyrir áhugafólk um trjáfræ. Samt bara svipaðar slóðir og Barcelona, ef horft er til Evrópu. Ég minni lesendur á að Ísafjörður og Akureyri eru við 66 og 65 gráður Norður. Svo ég vorkenni þeim ekkert of mikið. Risapöndur finnast hins vegar í Kína og fara ekki mikið norðar en 38 gráður, ef einhver er að velta því fyrir sér.

Ryogin-an
Stórkostlega garða má finna í tengslum við japönsk musteri og hof. Hér er mynd úr Ryogin-an, sem er eitt af hofunum innan Tofuku-ji í Kyoto. With great thanks to Damien Douxchamps for providing us with this photo.

 

Við deilum ýmsu sem snýr að náttúrunni og japönsk garðlist sækir oft hugmyndir þangað. Plöntur veðurbarnar og mótaðar við erfiðar aðstæður af náttúrunnar hendi er þar vinsælt dæmi. Svo sækjum við í hugmyndabanka þessarar garðlistar, sem og japanska flóru.

 

Lensuvíðir getur hjálpað til við austurlenskt yfirbragð, eins og sést hér á mynd úr Grasagarði Reykjavíkur. Hægra megin sýnir mynd úr garði Derek Mundell fallegan afrakstur þess að velja vel saman plöntur og efni, sem dæmi þetta fagra yrki garðkvistils. Í miðjunni er svo krúttleg mynd af Jizo styttu að hausti í ómótstæðilegum garði Enko-ji musterisins í Kyoto.
Fyrsta og síðasta myndin: Kristján Friðbertsson
Miðju myndin: Damien Douxchamps
With great thanks to Damien Douxchamps for providing us with this lovely Jizo photo. https://damien.douxchamps.net/photo/japan/kyoto/hieizan/enkoji/

 

Hversu lengi hefur Garðar búið í Japan?

Japanshlynir, bonsai tré, hvítur sandur og möl. Allt er þetta hluti hefðbundinna japanskra garða. Hönnun horfir oft til slökunar og hugleiðslu og endurspegla garðarnir oft mismunandi tímabil í sögu landsins. Goðsagnir, hefðir, trúarbrögð og náttúruöflin fá öll sína hyllingu. Fegurð hins smáa er sett í samhengi við eilífðina, svo ekki sé minnst á hið alræmda jafnvægi í ójafnvæginu.

Líkt og með gömul, falleg málverk sjáum við fyrst stóru myndina. Lítið virðist breytast, en í hverri nýrri heimsókn tökum við eftir nýjum smáatriðum og hægfara breytingum. Þetta er afar frjór jarðvegur hugmynda að sækja í og okkar að ákveða hvað heillar okkur mest. Einhverjar afmarkaðar hugmyndir, eða heill garður eftir tilteknu þema. Kynnumst hér rétt aðeins hugmyndunum um svokallaða mosagarða, Zen garða og „röltgarða“.

 

„Röltgarður“ (e. Stroll/Tour Garden)

Við erum á óvissuferðalagi og uppgötvum reglulega nýja fegurð. Hér snýst allt um óreglulega og hlykkjótta stíga sem ýta undir hugarfarið að njóta ferðalagsins, ekki áfangastaðarins. Hér á garðhönnun að finna mismunandi sjónarhorn, fela þau á ákveðnum stöðum, en annars staðar draga þau í fókus og hlúa að þeim. Tengja þau svo öll saman á óvæntan og óreglulegan hátt. Garðurinn snýst ekki endilega um sig sjálfan og eigin fegurð, heldur visst þjónustuhlutverk við fegurðina.

Fegurðin getur verið landslagið umlykjandi, ýmsir hlutar garðsins, eða jafnvel miðpunktur sem stígurinn færir okkur breytilega sýn og upplifun á. Falleg tjörn með þéttum gróðri allt um kring og hlykkjóttur stígur beinir okkur til skiptis til og frá tjörninni. Á ferðalaginu römbum við ýmist á bakka tjarnarinnar, eða sérstakt sjónarhorn á hana opinberast okkur gegnum gróðurinn.

Sem dæmi um slíkan röltgarð má nefna hinn undurfagra Gyokusen-en, í Kanazawa. Hönnun hans má rekja til baka til kóresk-ættaða samúræjans Wakita Naokata á fyrstu árum 17. aldar og erfingja hans í framhaldinu. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd þarf útpæld hönnun ekki að þýða að allt eigi að vera glansandi og laust við náttúru:

Gyokusen-en
Hefðbundni röltgarðurinn Gyokusen-en sýnir okkur hér steina sem stiklur í notalegri, mosavaxinni náttúru. Mynd fengin af Wikimedia Commons: https://commons.wikimedia.org/wiki/File:Gyokusenen_Kanazawa_Ishikawa11n4272.jpg

 

Zen garður:

Steinar, stórir og smáir eru hér vanalega ríkjandi. Rakstur á möl, eða sandi, til að jafna út, hreinsa eða skapa ákveðin mynstur, gerist hér á sérstakan hátt sem hugleiðsla. Steinar og sandur taka reyndar oft að sér myndlíkingar hlutverk fjalla, eyja eða vatns í japönskum görðum. Garðurinn er afar einfaldur, með lágmarks truflunum. Sniðinn að andlegri íhugun, næði, slökun og hugleiðslu. Plöntum oft haldið í lágmarki og helst ýtt út á jaðarinn.

Á praktísku nótunum nýti ég tækifærið og minni á að gróðurdúkur undir möl reynist oftar en ekki böl. Lausum, fínkorna sandi er afar þægilegt að fjarlægja amagróður úr, en hann fýkur óþarflega auðveldlega. Gróf möl hentar betur, en mikilvægt að hún sé ekki grófari en svo að auðvelt sé að raka gegnum hana. Ekki bara upp á hugleiðsluna, heldur til að fjarlægja lauf og annað sem fýkur eða festir rætur.

Að þessu sögðu, í zen garði eiga öll garðverk að vera hugleiðsla og tengja okkur við eilífðina. Í slíkum garði eru engin garðverk lengur framundan, bara hugleiðsla og því hægt að eyða hverjum degi áhyggjulaus þar. Á vindasömum stað væri það eflaust ágætis æfing í þolinmæði að nota fínan pússningasand og gera (og viðhalda) flóknum formum í sandinum.

Þó mosi vaxi í myrkri, getur mosagarður verið bjartur. Fléttur geta svo gefið frekari ævintýrablæ, líkt og þessi nýlenda af álfabikar í Meltungu sýnir.
Mynd: Kristján Friðbertsson

 

Mosa garður:

Íslendingar eru hvað vanastir því að þekjuplantan í garðinum sé einhver tegund af grasi. Annað er oft fjarlægt, ekki síst mosi. Í mosagarði snýst þetta við. Þekjuplantan hér er mosi og eitt af því sem við viljum alls ekki að birtist innan um mosann, er gras.

Rakur jarðvegur og/eða hár loftraki er oftast lykilatriði í mosavexti, auk skugga. Stór tré geta því verið í stoðhlutverki hér (er ekki alaskaöspin frábær?) á meðan smærri tré, burknar og annað slíkt fær þá aukinn fókus sem skraut í garðinum.

Steinar eru líka notaðir, en þá helst sem stiklur til að stíga á eða stórir steinar til þess gerðir að þekjast af mosa og tákna þá oft eyjur. Í íslenskri útfærslu mætti sjá fyrir sér klettaveggi við íslenska fossa, þakta mosum og burknum, sem eins konar fyrirmynd og ýmsir gróðurveggir gætu því passað vel í slíkum garði.

Til að koma í gang mosagarði er heppilegt að dreifa sundurklipptum mosa á viðeigandi staði. Oft er stungið uppá „súrmjólkurtrikkinu“, þar sem mosi er tættur og blandað við súrmjólk. Það gerir þægilegra að dreifa úr honum, heldur honum frá því að fjúka og gefur honum strax nokkurn raka. Súrmjólkinni er svo hægt að smyrja, sletta eða dreifa með þeim hætti sem best hentar hverju sinni.

Það tekur tíma að mynda góða mosaþekju og mikil nákvæmnisvinna að viðhalda henni. í Japan er þetta oft merki um þolinmæði, en í stórum görðum þótti það frekar merki um völd og peninga, því viðkomandi var þá með hópa af fólki sem sáu um verkið. Algengt er að leyfa mosa og fléttum að vaxa á trjám og steinum, ekki síður en sem þekja á stóru svæði, eða jafnvel þaki. Í „kokedama“ listinni á hann sér svo mikilvægt hlutverk við að binda saman kúluna og halda henni rakri.

Í næsta hluta skoðum við svo betur hvað við þurfum að setja í japanska garðinn okkar.

(Allar myndir eru höfundar, nema annað sé tekið fram. Athugið að flestar myndir í þessum greinarflokk er hægt að stækka með því að smella á þær.)

Posted on

Ævintýragjörnu Rifsþélurnar

Ævintýragjörnu rifsþélurnar: Smásaga úr Draumaheimum (áður birt í Garðyrkjuritinu 2020)

Höf. Kristján Friðbertsson

Dag einn sátu þélusystur þétt saman á laufi, í djúpum samræðum yfir morgunmatnum. Ræddu þær sín á milli hvað það væri ósanngjarnt að bara fullorðnu þélurnar mættu ferðast.

„Af hverju þarf ég eitthvað að læra að fljúga til að mega ferðast?“ sagði ein.

„Ég segi það nú með þér! Mannfólkið er alltaf að ferðast og aldrei sé ég vængi á þeim!“ heyrðist þá í annarri.

Sú þriðja sagðist þá reyndar hafa heyrt af því sögur, að sumt lágvaxið mannfólk gengi stundum húsa á milli með vængi, en líklega bara einn eða tvo daga á ári. Játaði þó jafnharðan að hún gæti svo sem alls ekki staðfest hvort mark væri takandi á þessari flökkusögu.

Þennan dag hafði verið skínandi sól og blankalogn, en rétt í þann mund sem samræðurnar stóðu sem hæst kom skyndilega sterk vindhviða sem náði að feykja þessu laufblaði beinustu leið af rifsberjarunnanum og niður á nálæga stétt. Systurnar héldu sér sem fastast í laufið og fuku því með. 

Þær voru ekki fyrr lentar mjúklega á stéttinni en allur vindur hvarf. Steinhissa, skelkaðar en spenntar voru þær skyndilega komnar á allt annan stað, ólíkan því sem þær höfðu áður þekkt.

„Heyriði systur, sjáiði hvað hefur gerst? Óskin okkar er að rætast ! Okkur hefur verið gefið einstakt tækifæri til að ferðast og upplifa okkar eigin ævintýri!“

Eftir smá umhugsun varð þeim ljóst að þetta var auðvitað hárrétt og eina vitið að gera hið besta úr þessu. Hver veit hvort svona tækifæri gefst nokkurn tímann aftur. Þær höfðu í dag verið útvaldar til að láta drauma sína rætast og nú átti sko að nýta það almennilega.

Þær litu aðeins í kringum sig en héldu sig þó á laufblaðinu. Sáu járnsmið og trjákepp labba framhjá í sín hvora áttina. Yfir þeim sveif um skamma stund blómsveifa og rétt hjá sáust nokkrar snjáldursveifur á túnfíflum sem uxu upp úr stéttinni. Skammt undan glitti svo í gljáfætlu og nokkur mordýr í kringum dauðar birkigreinar sem höfðu greinilega legið þarna lengi. Sammála voru þó systurnar um að smádýralífið þarna væri heldur fátæklegt samanborið við hið mikla samfélag sem lifir í kringum rifsið.

Öllum var þó brugðið þegar skyndilegur skuggi hékk yfir þeim. Litu þær upp og sáu þá ungan svartþröst koma til lendingar. Ekki boðaði þetta nú gott, þær höfðu verið varaðar sérstaklega við geitungum og einhverjum fuglum, en mundu ómögulega hvaða fuglum.

„Halló halló, hvað eruð þið að gera hér?“ spurði fuglinn.

„Við…hérna… ummm… æi… ætlarðu nokkuð að éta okkur?“ hálfstamaði ein systirin.

„Éta ykkur? Nei, aldeilis ekki! Ég er svo rosalega meðvitaður um heimsmálin að ég veit um vá sem ógnar okkur og mun valda mun meira veðravíti en við sjáum í dag. Mér finnst svo hrikalegt að flytja fóður heimshorna á milli fyrir hina ýmsu dýraræktun að ég ákvað bara að gerast vegan. Raunar geng ég enn lengra, ég borða helst bara ber og fræ því ég er á fullu í skæruliðaskógrækt. Rækta hin ýmsu tré hér og þar, þar sem fólk á síst von á. Bý þannig til hentugra umhverfi fyrir okkur fuglana og ykkur smádýrin á sama tíma og ég eyk gríðarlega kolefnisbindinguna.“

Systurnar vissu ekki alveg hvernig þær ættu að bregðast við og litu raunar hvor á aðra með einskonar „ókei… einn nýsloppinn af hæli“ svip. En satt að segja kom þetta þeim mjög vel, því fyrir vikið urðu þær ekki næsta máltíð þrastarins.

Skyndilega grípur ein tækifærið:
„Já…..sko…. við erum eiginlega á ferðalagi. Smá ævintýraferðalagi. Gætir þú kannski mælt með einhverjum góðum stöðum?“ 

Það hélt nú þrösturinn. Systurnar héldu sér allar fast í laufið aftur og þrösturinn greip það með klóm sínum. Flaug með þær örlítið útsýnisflug og fór svo með þær að næstu tjörn til að skoða endurnar. Það var alltaf vinsælt, vissi hann.

Þær þökkuðu góðhjartaða vegan skógræktarþrestinum fyrir aðstoðina og hófu að skoða sig um. Þær störðu ofan í glitrandi tjörnina, létu sig dreyma um sundferðir og seglskútur og veltu fyrir sér hvernig væri nú að spjalla við alla þessa fiska sem þær sáu synda í vatninu. Í kringum sig sáu þær hinar ýmsu plöntur og alls kyns fugla. Fylgdust með öndum að leik, gæsum að frekjast, mávum að stela brauði, ástföngnum svönum og hinum ýmsu smáfuglum flögra um. Lítið var af mannfólki, en þeim fannst það bara allt í góðu lagi. Viðbrögð mannfólksins voru oftast ekkert alltof skemmtileg við rifsþélum. Ein þeirra rak augun í skilti og saman báru þær laufið með sér að skiltinu.

Þær kunnu nú ekki allar að lesa, en ein þeirra sá skýrum stöfum standa: ÞYRNIRÓS
„Jahá, systur! Nú skulum við sko klifra upp skiltið og ég get þá lesið fyrir ykkur ævintýrið um Þyrnirós!“
Svo byrjar hún lesturinn:
„Þyrnirós Papula, Rosa spinosissima Papula, Rósaætt… ha? Þetta hljómar nú ekki eins og neitt ævintýri.. Æ, afsakið þetta systur, það er líklega einhver bara búinn að skemma þetta skilti, það virðist ekki lengur vera með ævintýrið um hana Þyrnirós.“

Þær sammæltust í framhaldinu um að senda kvörtun á þetta „Garðyrkjufélag Íslands 1885“ sem hafði greinilega sett sitt veggjakrot á skiltið og skriðu aftur niður með laufið.

Á ferð sinni kringum tjörnina rákust þær svo á skrýtið, stórt appelsínugult dýr sem þær könnuðust ekki við.

„Bíddu nú við, þetta sér maður ekki á hverjum degi! Eruð þið að flytja laufblað milli staða?“ spurði framandi dýrið.

„Nei nei, við erum bara á ferðalagi og laufið er í senn hálfgert heimili, fararskjóti og matarkista. Við erum að nýta tækifærið á þessum góða degi til að ferðast aðeins og læra um heiminn. Auka víðsýni og upplifa einhver ævintýri. En hver ert þú?“

„Ég er gamall bogkrabbi sem býr í sjónum hérna rétt hjá, er bara í smá göngutúr í góða veðrinu af því mér leiddist.“

„Bogkrabbi? Ertu þá krabbi í stjörnumerkinu bogamaður? Eða kannski fréttamaður eins og Bogi Ágústsson?“ heyrðist í einni.

„Krabbi? Ertu þá ekki alæta? Ætlarðu nokkuð að borða okkur? Eða ert þú kannski vegan skæruliða skógræktarkrabbi?“ skaut önnur inn.

„Ert þú mikið að ferðast? Hvernig komst þú hingað, flaug einhver með þig eða kanntu sjálfur að fljúga“ sagði sú þriðja.

„Haha, það er nú aldeilis að þið eruð forvitnar. Ég veit ekkert hvað stjörnumerki eru, segi stundum fréttir ef ég hef einhverjar frá að segja, mínir skógar eru þaraskógar, en ég er alls ekki vegan skæruliða eitt né neitt. Ég ætla ekki að borða ykkur samt, ég borða helst bara samlokur. Ég kann ekki fljúga og enginn flaug með mig, ég bara rölti hingað sjálfur. Það eru hvort eð er oft bestu ævintýrin sem maður ákveður bara sjálfur. Ég hef ferðast þó nokkuð um ævina já, en orðinn ansi rólegur nú orðið. Viljið þið kannski koma með mér til baka í fjöruna?“

„Sagðirðu samlokur? Samlokur með skinku og osti þá, eða?“ heyrist úr þeirri yngstu.

„O neeeii. Þegar ég segi samlokur meina ég dýr sem lifa inni í skeljum. Kræklingur, ostrur og þess háttar. En jæja, ég þarf að fara að koma mér til baka, ég get haldið varlega á laufinu með ykkur á bakinu ef þið viljið.“

Systurnar þáðu það með þökkum, spenntar fyrir næsta kafla í ævintýrinu.

Krabbinn fór með þær í fjöruna og sýndi þeim dæmi um samloku sem hafði áður verið étin.

 „Er þetta þá samlokubréf?“ heyrðist í þeirri yngstu, glottandi.

Brosandi út í annað, útskýrði krabbinn þá að þetta væri kræklingur, en sjálfur notaði hann frekar heitið bláskel þegar „samlokan væri tóm“.

„Stundum hafa sömu hlutirnir nefnilega fleiri en eitt nafn. Þessi samloka er líka stundum kölluð kráka, þrátt fyrir að vera ekki fugl og geta ekki flogið“ útskýrði hann.

„Flogið… ah, já, það er einmitt það sem við erum of óþreyjufullar að bíða eftir. Við viljum geta gert allt núna sem fullorðna fólkið gerir og teljum okkur alveg hafa jafnmikinn rétt til þess. Kannski gerum við það meira að segja bara betur en allir þessir gamlingjar sem eru alltaf bara að hneykslast á manni og banna manni allt“ gjammaði ein pirruð systir.

Hér kvaddi gamli krabbinn, óskaði þeim góðs gengis með bros á vör og rölti út í sjó.

Systurnar skoðuðu skúfaþang og bóluþang, skeljabrot og ýmsa steina, ýmiss konar rusl sem kom þeim á óvart að ætti heima þar, sem og fjörukál, melgresi og hinar ýmsu aðrar lífverur úr dýra- og jurtaríkinu. Kom svo að því að þær vildu halda í siglingu, en þótti einni þá nægilegt ævintýri vera komið í bili. Fóru því flestar systurnar með laufið á næsta þang sem þær fundu nærri flæðarmáli og biðu þess að það myndi fljóta á haf út með þær í farteskinu.

 

Sú sem eftir varð, skoðaði fjöruna áfram og rakst m.a. á krabba sem hún spjallaði við í dágóða stund í von um að hann myndi ferja hana aftur heim í garðinn, en sá var búinn að ganga nóg þann daginn og ætlaði að fara að leggja sig. Sá hún þá rautt smádýr ganga framhjá, sem krabbinn kallaði mítil, en þar sem hún vissi ekki hvað mítill væri ákvað hún að það væri ekki þorandi að taka það tali. Hún vissi hvað rifsber var og þetta var rautt eins og þau stundum eru, en þetta var augljóslega ekki rifsber. Auk þess var þetta dýr of lítið til að geta borið hana alla leiðina heim hraðar en hún gæti sjálf skriðið. Hún skreið því bara til baka í áttina sem hún taldi garðinn vera og vonaði að systur hennar myndu eiga skemmtilega siglingu og koma til baka með fulla vasa af spennandi sögum.

Hún skreið og skreið gegnum sand og steina í átt að grænu grasi, en ferðalagið virtist endalaust. Skyndilega sá hún eitthvað hræðilegt skrímsli nálgast og hrópaði hún þá upp í skelfingu!

Þegar hún leit í kringum sig var hún allt í einu komin til baka heim á rifsberjarunnann góða. Hún var ein á sama laufinu og fyrr um daginn, en það var allt uppétið og aftur fast á trénu. Skyndilega áttaði hún sig á því að hún hafði verið að vakna. Þetta hafði þá bara allt saman verið draumur.

Hún hafði borðað yfir sig og sofnað á miðju laufinu meðan allar systur hennar kláruðu laufið og fóru svo á önnur nærliggjandi lauf.

Hún hugsaði til baka um þennan ævintýraríka draum og hlakkaði til að verða fullorðin og geta kannað heiminn aðeins betur. En henni lá ekkert á lengur. Það var líklega bara í góðu lagi að bíða þar til réttur tími kæmi. Hún vonaði nú samt að hún myndi rekast á þennan góðhjartaða krabba einn daginn.

„Já og fuglinn. Skæruliðinn sjálfur. Ætli hann sé til í raun og veru? Svona skógræktarfuglar væru rosalega sniðugir. Planta trjám út um allt svo við höfum meira að borða” hugsaði hún með sér og skreið af stað í leit að systrum sínum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Posted on

Hvernig var árið 2019? – 4. þáttur

Höf. Kristján Friðbertsson

Haustin gefa okkur rok og rigningu í bland við litadýrð trjáa sem hvert af öðru hefur vegferð sína í átt til vetrardvala. Veturinn róar rokið, en færir okkur í stað snjóþunga og frost. Við sjáum sterk tré standa af sér hvert veðrið á fætur öðru, þartil hið óumflýjanlega gerist og eitthvað brotnar eða fellur. Við fylgjumst með snjóflyksunum skreyta greni og furu og þekja jörð. Í gegnum snjóinn lýsa svo vetrarljósin okkar fallegu. Jólaljós er nefnilega hugtak sem dugar ekki á Íslandi. Við höfum vetrarljós, eða skammdegisljós. Þau fara í gang þegar dagarnir eru orðnir áberandi stuttir og svo slökkt aftur þegar við erum farin að dásama síðvetrarbirtuna.

Smáfuglarnir flykkjast til okkar og narta í epli, korn og annað góðgæti og gleðja okkur um leið. Grýla lætur vita af sér í kertaformi víða og norðurljósin dansa til að minna okkur á græna lit sumarsins. Smám saman bráðnar snjókallinn, vorið fer aftur að nálgast og sumarblómafræin spíra líkt og þeim sé borgað fyrir það.

Hér er að finna lokahluta þessarar myndaseríu og tökum við því fyrir fjóra síðustu mánuði ársins. Við hefjum leika 10 vikum eftir lengsta dag ársins og ljúkum þessu í kringum þann stysta.

Posted on

Hvernig var árið 2019? – 3. þáttur

Höf. Kristján Friðbertsson

Alla hluta ársins er hægt að finna sér eitthvað garðyrkjutengt að gera og oftar en ekki hægt að finna eitthvað til að dásama. Við notum því síðsumarið til að njóta. Fleira er þó fallegt en blómin. Haustlitir spila æðislega sinfóníu fyrir okkur og um svipað leiti má oft finna fögur fiðrildi sem hafa flækst hingað með haustlægðunum.

Hvert ár hefur 52 vikur og því tók ég sama fjölda mynda og smellti hér inn í nokkrum skömmtum. Tilvalið þótti mér að bjóða ykkur upp á smáréttahlaðborð með nokkrum bitum frá árinu 2019 og kemur því þriðji skammtur af 4 hér. Reyndar bættust nokkrir konfektmolar við á lokametrunum, svo við förum kannski rétt aðeins yfir 52stk.

En, við ætlum ekki alveg að skella okkur í haustið strax. Núna er komið að fyrri uppskerumánuðinum, ágúst. Athugið að myndirnar stækka, sé smellt á þær. Í sumum tilfellum er það nauðsynlegt til að sjá alla myndina.

Posted on

Hvernig var árið 2019? – 2. þáttur

Höf. Kristján Friðbertsson

Sumarið á Íslandi getur verið æði misjafnt og oftar en ekki svo sólríkt á einum stað að páfagaukar sjást fljúgandi um, en nægileg hellidemba á öðrum að flóðhestar mæta í heimsókn. Við höfum því gott af því að nýta okkar innri íslensku náttúru og vera við öllu búin. Höfum plöntur í einu horni sem blómstra lítið sum árin, en þegar sumarið er nógu gott er blómstrið þeirra fegurra en nokkuð annað. Í öðru horni er heldur lítilfjörlegra blómstur, en það blómstrar alltaf, sama hvernig viðrar. Við fyllum svo í eyðurnar með frábærum sumarblómum og vorlaukum, á meðan heildarstrúktur garðsins mótast af trjánum.

Ekki get ég sýnt ykkur þetta allt í smáatriðum, en hvert ár hefur 52 vikur og því tók ég sama fjölda mynda og smellti hér inn í nokkrum skömmtum. Tilvalið þótti mér að bjóða ykkur upp á smáréttahlaðborð með nokkrum bitum frá árinu 2019 og kemur nú annar skammtur af 4 hér. Reyndar bættust nokkrir konfektmolar við á lokametrunum, svo við förum kannski rétt aðeins yfir 52stk. Þessi skammtur inniheldur júní og júlí.