Það er rétt að taka það fram hér í upphafi greinarinnar að ég hef ekkert á móti inniblómum og þetta er alls ekki heróp af neinu tagi, inniblóm eru svo sannarlega velkomin innandyra, ég á meira að segja nokkur svoleiðis sjálf og þau eru öll hin hressustu. Það sem ég ætla að fjalla um í þessari grein eru inniblóm sem hafa fengið fjölbreyttara notagildi.
Á síðustu árum hafa skapast nýjar hefðir í ræktun hjá okkur Íslendingum. Með aukinni ræktun og tilkomu sólpalla og skjólveggja hefur okkur tekist að skapa hlýja og skjólgóða garða sem auka notagildi garðanna til muna og gera okkur kleift að rækta mun hitakærari plöntur utandyra en áður þekktist. Margar þessara tegunda hafa verið aufúsugestir á íslenskum heimilum um áratugaskeið en ekki hefur verið talið óhætt að henda þeim út á guð og gaddinn. Nú hefur ný kynslóð harðbrjósta garðyrkjumanna tekið sig til og markaðssett fyrrverandi inniplöntur sem útiplöntur. Rétt er að taka það fram að allar þessar inniplöntur eru einungis ætlaðar til notkunar utandyra yfir sumartímann því þær þola ekki íslenskt vetrarveður. Í sumum tilvikum eru þær þá ræktaðar eins og önnur sumarblóm en einnig má kippa plöntunum inn og geyma þær í hlýjunni innandyra yfir veturinn. Næsta vor er svo tilvalið að gleðja plönturnar aftur með því að veita þeim dvalarleyrfi utandyra um leið og hlýtt er orðið í veðri. Engar rannsóknir hafa verið gerðar á sálarlífi plantnanna og hugsanlegra áhrifa þessa flakks út og inn á þær en ef plöntur hefðu sál, er ég viss um að þær gleddust mikið yfir aukinni fjölbreytni í lífi sínu enda á yfirleitt ekki fyrir rótföstum plöntum að liggja að vera mikið á flakki.
- Bergflétta, Hedera helix, er til í mörgum afbrigðum. Flest þau afbrigði sem eru með hvít- eða gulskellóttum blöðum eru of viðkvæmar til að þrífast utandyra hérlendis allt árið. Þær eru hins vegar fyllilega harðgerðar utandyra yfir sumarið og fara sérstaklega vel með blómstrandi blómum í pottum og kerjum. Bergfléttan vex ekki mikið yfir sumarið en hún minnkar ekki heldur…
- Fúksía eða blóðdropi Krists, Fuchsia cv., er ákaflega fallegur blómstrandi hálfrunni. Blómin eru stór, ýmist einlit eða tvílit og í rauðum, bleikum, fjólubláum eða hvítum litum. Á árum áður áttu allar alvöru húsmæður fúksíur í stofu- og eldhúsgluggum sínum en svo duttu þær úr tísku og þóttu einstaklega púkaleg blóm. Nú hafa fúksíurnar fengið uppreisn æru. Þær eru komnar inn úr kuldanum og hafa verið settar út í kuldann aftur, bara í annarri merkingu. Fúksíur blómstra allt sumarið og maður fær mjög mikið af blómum fyrir peningana en rétt er að passa upp á það að fjarlægja visin blóm af plöntunum svo þær fari ekki að mynda fræbelgi, þá fer orka plöntunnar í fræmyndunina en minna í blómgun. Vaxtarlag fúksía er mjög fjölbreytt og er hægt að fá plöntur fyrir hvers konar aðstæður. Hengi-fúksíur henta einkar vel í hengipotta, uppréttar fúksíur í ker og venjulega potta og svo er jafnvel hægt að fá fúksíur á háum stofni og eru þær sérlega glæsilegar í stórum potti á sólpalli.
- Ástralska pálmategundin Corydalis australis er glæsileg viðbót í flóru útlægu inniblómanna. Ungplöntur pálmans eru með löng, graslík blöð sem ná 60-100 cm hæð. Það gefur mjög skemmtileg áhrif að setja plöntu af þessu tagi í miðju á keri eða potti og raða blómstrandi plöntum í kring. Til eru afbrigði af þessum pálma með purpurarauð laufblöð og eru þau ekki síðri en aðaltegundin.
- Cineraria, Pericallis x hybrida, var mikið ræktuð sem inniblóm hér áður fyrr. Hún er frábrugðin hinum tegundunum í því að hún er ekki fjölær. Cinerarian er ein þessara tegunda sem duttu úr tísku og var mikið til hætt að rækta hana. Ný afbrigði af cinerariu eru nú komin í ræktun. Þessi afbrigði eru lágvaxin og þétt og blómstra mikið. Blómin eru í bleikum, rauðum og bláum litum. Hvert blóm stendur í langan tíma og er blómgunartími plöntunnar mun lengri utandyra en innan því lægra hitastig hægir á allri starfsemi plöntunnar. Þessi tegund hentar sérlega vel stök í pott á borði eða í samplöntun með öðrum plöntum í ker og potta.
Ljóst er að þessi listi er ekki tæmandi, inni á heimilum landsmanna leynast örugglega inniblóm sem er alveg óhætt að skella út yfir sumarið, til dæmis jukkur eða drekatré. Sumir vilja jafnvel halda því fram að plönturnar hafi gott af þessari útiveru sinni því stundum getur orðið verulega heitt innandyra að sumarlagi. Það er þó vissara að tryggja þessum plöntum hlýjan og sólríkan stað þegar þær eru settar út þótt allar geti þær talist nokkuð vindþolnar. Gott er að venja þær smám saman við útiveruna og taka þær inn á nóttunni fyrst í stað.
Við þekkjum það líklega þjóða best, Íslendingar, hvað okkur finnst skemmtilegt að leggja land undir fót og jafnvel að bregða okkur út fyrir landsteinana. Hugsanlegt er að íslensk inniblóm hafi fengið svolítið flökkusmit með vökvunarvatninu frá okkur og þau vilji gjarnan vera á faraldsrótum en til þess þurfa þau aðstoð okkar fótfráu flökkukindanna. Verum því óhrædd við að prófa okkur áfram í þessum efnum, í versta falli hefur líf viðkomandi plöntu orðið tilbreytingarríkara en ella…
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur
(Áður birt í Morgunblaðinu árið 2003)