Posted on

Vetrarsáning matjurta

Sýnikennsla: Hvað er vetrarsáning og hvernig stöndum við að henni?
Fimmtudaginn 27. febrúar kl. 19:30 í sal Garðyrkjufélagsins að Síðumúla 1 (gengið inn frá Ármúla).
Fanney Margrét Jósepsdóttir, formaður Suðurnesjadeildar Garðyrkjufélagsins sýnir hvernig best er að standa að vetrasáningu matjurta. Farið verður yfir helstu kosti vetrarsáningar en einnig hvenær og fyrir hverju á að sá.
Þá ætlar hún að sýna einfaldar aðferðir sem allir geta prufað og framkvæmt heima.
Öll hjartanlega velkomin og erindið er ókeypis.

Posted on

Norræna rósahelgin 8. – 10. ágúst 2025

Þema:  „Rósir, loftslag og samfélag“

Kæru félagar í Rósaklúbbi Garðyrkjufélags Íslands. Norræna rósahelgin verður haldin á Íslandi dagana 8. – 10. ágúst í sumar. Þetta er einstakur viðburður fyrir íslenska rósaræktendur og gefst ykkur nú kostur á að taka þátt í þessum viðburði með því að skrá ykkur.

Fjölmörg áhugaverð erindi um rósarækt verða á dagskrá, heimsóttir verða einkagarðar og opinberir rósagarðar á stór-Höfuðborgarsvæðinu (þ.e. í Reykjavík, Mosfellsbæ, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði). Farið verður í dagsferð um Suðurland þar sem skoðaðir verða einkagarðar og garðyrkjustöðvar og landið skoðað í leiðinni. Kvölddagskrá verður föstudagskvöld í Grasagarðinum og á laugardagskvöld verður hátíðarkvöldverður á Grand Hótel.

Að ráðstefnunni lokinni verður boðið upp á ráðstefnuferð um Vestur- og Norðurland dagana 11.-13. ágúst. Farið verður með rútu norður og einkagarðar skoðaðir á Vesturlandi og síðan gist á miðri leið norður. Daginn eftir verður ekið til Akureyrar og farið í Lystigarðinn sem er alveg einstakur heim að sækja. Gist verður á Akureyri aðra nótt og ekið yfir Kjöl til baka til Reykjavíkur.

Kynnið ykkur dagskrá ráðstefnunnar og nánari lýsingu viðburða. Við hvetjum ykkur til að láta þennan viðburð ekki framhjá ykkur fara. Norræna rósahelgin á Íslandi var síðast haldin sumarið 2012 í einstaklega góðu og hlýju veðri þar sem rósirnar skörtuðu sínu fegursta.

Slóðin á skráningarformið er:  Norræna rósahelgin – Garðyrkjufélag Íslands.  (Athugið: Þegar atriði hafa verið valin í körfuna þá þarf að skoða körfuna og staðfesta skráninguna með greiðslu).

Ávinningur með þátttöku: Þið fræðist um rósarækt, skoðið hvernig aðrir haga sinni ræktun, fáið tækifæri til að deila ykkar þekkingu og reynslu meðal ráðstefnugesta og getið myndað ævilöng vinasambönd þvert á landamæri.

Norræna rósahelgin er viðburður sem haldinn er annað hvert ár af Norræna rósafélaginu og aðildarfélögum þess á Norðurlöndum. Viðburðurinn færist á milli Norðurlandanna fimm: Svíþjóðar, Íslands, Finnlands, Noregs og Danmerkur.

Hefjum rósina til vegs og virðingar – Mætum öll 🙂 

Posted on

Klippingar og klippingar

Ágústa Erlingsdóttir verður með fræðsluerindi um klippingar á gróðri:
Salur GÍ, Síðumúla 1 (gengið inn frá Ármúla) 19.feb kl.20:00-21:30.

Ágústa veit sitthvað um trjá og runnaklippingar enda fædd og uppalin í garðyrkjufaginu. Hvenær er hentugasti tíminn til að klippa og af hverju? Hvað gerist í plöntunum þegar við klippum og hvernig getum við tryggt að sár lokist hratt og vel? Skiptir máli hvaða tegund er verið að klippa?
Farið verður yfir helstu atriði sem gott er að hafa í huga við trjá og runnaklippingar, hvernig á að bera sig að og hvað við getum gert til að tryggja góðan árangur.
Kaffi og kex að vanda :0)

Viðburðinum verður streymt og er slóðin:
https://us06web.zoom.us/j/87612406231?pwd=jpo5WgbhkuuXzckDk97iaCRwptSE7H.1
Meeting ID: 876 1240 6231
Passcode: 086121

Posted on

Garðyrkjuspjall með Gurrý

Kæru félagar!
Í sal Garðyrkjufélagsins, Síðumúla 1
Tími: Þriðjudagur 14. janúar kl. 20:00-21:30

Við ætlum að byrja þetta afmælisár á garðyrkjuspjalli og kaffi með okkar einu sönnu Gurrý en hún ætlar sjálf að baka fyrir okkur eins og ,,fermetra af marengs“ (hennar orð). Við ætlum að láta okkur dreyma um vorið og fara yfir hvað við getum gert skemmtilegt á árinu. Garðyrkjufélagið á 140 ára afmæli á þessu ári og af því tilefni langar stjórn félagsins að bjóða félögum til skrafs og ráðagerða um helstu verkefni félagsins. Ef þið hafið hugmyndir um það hvað ykkur finnst að félagið eigi að gera á árinu í tilefni afmælisins, hvaða verkefnum félagið eigi almennt að sinna eða viljið koma öðrum hugmyndum á framfæri þá er tilvalið að mæta í kaffispjallið á þriðjudaginn.
Hittumst kæru félagar og eigum ljúfa stund saman!

Posted on

Jólakveðja frá Garðyrkjufélagi Íslands

Garðyrkjufélag Íslands sendir félagsmönnum sínum og öðrum landsmönnum hugheilar óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ræktunarár. Kærar þakkir fyrir gróskumikið samstarf, blómlegar heimsóknir, líflega viðburði og blómstrandi garðrækt á árinu sem er að líða. Við göngum spennt til leiks á afmælisári félagsins en á vordögum 2025 fagnar Garðyrkjufélag Íslands 140 ára afmæli sínu. Njótið hátíðanna og munið að vorsáningarnar eru rétt handan við hornið.

Bestu hátíðarkveðjur
Stjórn Garðyrkjufélags Íslands

Posted on

Haustkransagerð

Langar þig að læra að gera fallegan haustkrans? Við ætlum að bjóða upp á kennslu í haustkransagerð
þriðjudaginn 1. október og hefst hún kl. 19 og stendur til kl. 22 – í sal Garðyrkjufélagsins, Síðumúla 1.
Verðið er 5000 kr og innifalið er grunnefni (basthringur, vírrúlla, pinnar og undirlag), gott vinnusvæði, kennsla (þrír blómaskreytar verða á staðnum), kaffi og kex eins og vanalega og góðri stemningu heitið🌸
Það eina sem þú þarft að gera er að kíkja í þitt nærumhverfi (eða sveit) og klippa niður efni til að binda í kransinn. Betra að sækja sér meira en minna. Við munum aðstoða með val á efni áður en vinnustofan á sér stað en gott dæmi er kransinn efst í auglýsingunni. Lyng, sölnuð blóm og greinar👌🏻 Erikur eru einnig sniðugar til að gefa meiri lit. Skráningar á heimasíðunni okkar undir vefverslun!

Svipmynd frá haustkransanámskeiðinu sem haldið var í október 2023.

Posted on

Ræktaðu þinn eigin hvítlauk

Eins og undanfarin ár gengst Hvannir, matjurtaklúbbur Garðyrkjufélagsins fyrir innflutningi á lauk á þessu hausti – hvítlauk og schalottlauk.

Frá og með 11. september geta félagsmenn í Garðyrkjufélaginu pantað lauk í vefverslun félagsins (https://gardurinn.is/vefverslun/). Gera þarf pöntun í síðasta lagi miðvikudaginn 18. september.

Um er að ræða fimm gerðir hvítlauks – allar upprunnar í Frakklandi en keyptar hingað frá miðlara í Svíþjóð. Ein ný tegund er í boði (Aulxito), en aðrar tegundir hafa reynst vel hér og uppskera verið góð. Um er að ræða hvítlauksafbrigðin  Aulxito, Germidour, Messidrome, Sabagold og Thermidore. Shallot laukurinn er af afbrigðinu Longor.

Þegar vitað er hversu mikið magn hefur verið pantað verður heildsalanum í Svíþjóð gert viðvart og má reikna með að laukurinn verði tilbúinn til afgreiðslu hjá Garðyrkjufélaginu í Síðumúla 1, Reykjavík, fyrir miðjan október og þá er best að planta lauknum strax út í beð.

Hver hvítlaukur kostar 800 krónur en schalottlaukurinn 190 krónur.

Nánar um laukana

GERMIDOUR: Snemmsprottinn og öflugur laukur, fjólublár, 8-20 rif. Flöt grös og auðvelt að flétta til þurrkunar og geymslu. Getur myndað æxlilauka á grasinu. Uppskera um eða upp úr miðjum ágúst (örlítið fyrr en Thermidrome).

THERMIDROME: Snemmsprottinn, stór laukur, 14-21 rif. Öflugt afbrigði. Auðvelt að flétta til þurrkunar og geymslu. Getur myndað æxlilauka. Uppskera upp úr miðjum ágúst.

SABAGOLD: Snemmsprottinn og stór laukur, svolítið fjólublár, 10-18 rif. Auðvelt að flétta til þurrkunar og geymslu. Uppskera um eða uppúr miðjum ágúst.

MESSIDROME: Snemmsprottinn, ekki stórvaxinn, örlítið fjólublár, 14-18 rif, fléttast vel saman til þurrkunar og geymslu. Getur myndað æxlilauka. Af mörgum talinn vera hinn klassíski franski hvítlaukur.

AULXITO: Nýleg sort, frekar stór laukur, hvítur, ca. 15-20 rif. Hentar mjög vel til geymslu. Grösin henta ekki til að flétta saman. Getur myndað æxlilauka. Á að vera snemmsprottinn.

LONGOR shallot laukur: Settur niður að hausti, má taka upp í byrjun ágúst árið á eftir. Vex í stjörnu – hver laukur getur allt að sexfaldast. Hentar vel til geymslu.

Posted on

Félagaspjall um fræ

Kæru félagar

Við ætlum að hafa skemmtilegt félagaspjall um FRÆ miðvikudaginn 11.september í salnum okkar að Síðumúla 1 og hefst viðburðurinn kl. 20:00.
Hvernig haga plöntur sér og hverju ber að horfa eftir er kemur að fræsöfnun. Þetta verður ekki beint fyrirlestur, heldur ætlum við að skiptast á upplýsingum og reynslusögum. Frænefnd GÍ verður á staðnum ásamt Hjördísi Rögn sem hefur það að atvinnu þessa dagana að tína blómafræ í Grasagarði Reykjavíkur.

Við hvetjum fólk til að koma með fræbelgi með sér sem á eftir að hreinsa og við skoðum þá í sameiningu.

Hlökkum til að hitta ykkur, læra saman og bæta í fræbankann okkar.

Posted on

Tilkynning frá frænefnd Garðyrkjufélagsins

Kæru félagar

Við í frænefndinni treystum á ykkur, góðir félagar, að vera dugleg að safna fræi nú í haust. Það er ekki hægt að taka út úr fræbankanum nema einhver leggi inn!! Hafir þú ekki safnað fræi fyrr getum við fullvissað þig um að það er eitthvað sem allir eiga auðvelt með. Það er skemmtilegt að hugsa til þess að fræ frá þér sé að blómstra í öðrum görðum.

Það hafa margar tegundir klárast í fræbankanum og viljum við því ítreka hvatningu til ykkar félagsmanna að bregðast vel við og vera dugleg að senda okkur fræ í haust.

Tekið er við öllu fræi en lykilatriði að það sé þegar flokkað og hver poki/umslag vel merkt tegundinni sem um ræðir.

Algengast er að fræ sé sent til fræbankans með pósti (sendist til Garðyrkjufélags Íslands), en í undantekningartilfellum er líka hægt að setja sig í samband við frænefnd (t.d. ef um mikið magn er að ræða) og mæla sér mót eða skila í gegnum póstlúgu GÍ í Síðumúlanum.

Leiðbeiningar:

“Plöntur þroska fræ yfirleitt á haustin og best er að safna því eins fljótt og hægt er eftir að það hefur náð þroska. Annars er hætt við að það fjúki burt eða að fuglar éti það.

Best er að safna fræjum í þurru veðri og setja í striga- eða bréfpoka. Ef notaðir eru plastpokar verður að tæma þá eins fljótt og hægt er til að koma í veg fyrir að fræið mygli.

Þegar velja skal plöntu sem á að safna fræi af verður að gæta þess að hún sé þróttmikil og heilbrigð. Varast skal að tína fræ af lélegum og sjúkum einstaklingum. Fræið geymir erfðaefnið og hætt er við að slæmir eiginleikar erfist.

Rétt meðhöndlun fræs eftir tínslu er ekki síður mikilvæg en að valið sé fræ af góðum plöntum. Að söfnun lokinni verður hreinsa burt öll óhreinindi, svo sem lauf, nálar og sprota og þurrka fræið. Auðveldast er að breiða það á pappír, við 20 til 25°C hita nálægt ofni.

Í mörgum tilfellum er nauðsynlegt að geyma fræ yfir veturinn og sá því að vori. Yfirleitt nægir að geyma það á köldum og þurrum stað, en best er að geyma það í kæli við 0 til 4°C eða í vægu frosti. Fræið þarf að vera í þurrum og loftþéttum umbúðum, til dæmis glerkrukku. Í góðri geymslu geta fræ flestra tegunda haldið eiginleikum sínum í nokkur ár.” Fróðleikur tekinn af Fb. síðu Blómavals.

Listi yfir nokkrar af þeim plöntum sem fræbankinn hefur átt fræ af en vantar í dag.

Latneskt heiti – Íslenskt heiti

Abies fraseri – Glæsiþinur
Abies koreana – Kóreuþinur
Achillea millefolium – Vallhumall
Alnus glutinosa – Svartelri
Alnus incana – Gráelri
Alnus virirdis ssp. Sinnata – Sitkaelri
Anthoxanthum odoratum – Ilmreyr
Azorella trifurcata – Nálapúði
Betula ermanii – Steinbjörk
Betula nana – Fjalldrapi
Betula pendula – Hengibjörk
Campanula rotundifolia – Bláklukka
Cupressus sempevirens – Sýprusviður
Cymbopogon flexosus – sítrónugras (Lemon grass)
Cytisus purgans – Geislasópur
Fragaria vesca – Villt jarðarber
Gentiana chinensis – Kínavöndur
Hepatica nobilis – Skógarblámi
Hippophae rhamnoides – Hafþyrnir
Hordeum jubatum – Silkibygg
Iris sibirica – Rússaíris
Juniperus communis – Einir
Laburnum alpinum – Fjallagullregn
Larix X marschlinsii – Sifjalerki
Larix sukaczewii x decidua ‘Hrymur’ – Lerki ‘Hrymur’
Lewisia cotyledon – Stjörnublaðka
Lewisia cotyledon ‘Little Plum’ – Stjörnublaðka ‘Little Plum’
Lonicera ledebourii – Glæsitoppur
Lonicera periclymenum – Skógartoppur
Malva sylvestris – Skógarmalva/Skógarstokkrós
Papaver radicatum yellow – Melasól
Picea glauca – Hvítgreni
Picea koraiensis – Kóreugreni
Picea pungens – Broddgreni
Pinus cembra – Lindifura (Tirol)
Pinus sylvestris _ Skógarfura
Prunus padus rubra – Blóðheggur
Prunus virginiana L.. – Virginíuheggur
Quercus rubra – Rauðeik
Rhodiola rosea (Sedum rosea) – Burnirót
Ribes bracteosum – Blárifs
Ribes uva crispa ‘Hinnomaki Röd’ – Stikilsber, rauð
Saxifraga cotyledon – Klettafrú
Saxifraga paniculata – Bergsteinbrjótur
Sorbus hybrida – Gráreynir
Sorbus mougeotii – Alpareynir
Sorbus reducta – Dvergreynir
Sorbus rosea – Rósareynir
Tilia – Linditré
Ulmus glabra – Álmur
Viburnum opulus – Úlfaber